Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2017

Hvað gerði Jón Þór Ólafsson, þingmaður, við launahækkunina?

Hvað gerðirðu við peningana sem frúin í Hamborg gaf þér? Þú mátt ekki segja já eða nei og ekki hvítt eða svart ...

Þannig byrjar skemmtilegur orðaleikur sem lifað hefur lengi með þjóðinni en hann byggist á því að sá sem svarar sé klókur, fljótur að hugsa og forðist þá pytti sem geta orðið honum að falli.

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, birti grein þann 8. nóvember 2016 í Fréttablaðinu og opinberaði þar gagnrýni sína vegna ákvörðunar kjararáðs um verulega hækkun launa forseta Íslands, þingmanna og fjölmargra embættismanna. 

Hótunin

Mikil þykkja var í Jóni Þór út af hækkuninni og hann virtist hóta að kæra ákvörðun kjararáðs. Svo virðist sem hann hóti eftirtöldum:

1. Forsetanum nema hann setji bráðabirgðalög gegn ákvörðun Kjararáðs
2. Kjararáði, nema það hætti við allt saman
3. Formönnum þingflokka, nema þeir lofi því að þeir láti Kjararáð hætta við allt saman

Nú er liðinn tveir og hálfur mánuður frá því að laun forsetans, þingmanna og embættismanna hækkuðu. Enn bólar ekkert á kæru Jóns Þórs, þingmanns. Þar að auki hefur enginn virt hótun þingmannsins viðlits, ekki forsetinn, ekki kjararáð og ekki formenn þingflokka, þar með talinn formaður þingflokks Pírata. 

Ólíkt hafast menn að

Forseti Íslands lýsti í nóvember yfir óánægju sinni með launahækkun kjararáðs, sagðist ekki hafa beðið um hana og myndi ekki þiggja. Þess í stað hefur hann gefið tæplega þrjú hundruð þúsund krónur á mánuði til góðgerðastofnanna. 

Fordæmi forsetans bendir til mikilla mannkosta og að hann sé traustur og trúverðugur, standi við orð sín. Betra væri ef fleiri óánægðir þiggjendur launahækkunar kjararáðs fetuðu í fótspor hans. Allir virðast gleypa við laununum þrátt fyrir stór orð.

Hvað varð um launahækkunina?

Ekki er nema eðlilegt að kjósendur velti fyrir sé hvað Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, og hafi gert við þá ríflegu hækkun launa sem hann fékk sem þingmaður:

1. Afþakkaði hann hana?

2. Lagði hann hækkunina inn á bankabók til að geta skilað síðar?

3. Fór hann að fordæmi forseta Íslands og gaf hækkunina til góðgerðarmála?

4. Hirti hann launahækkunina þegjandi og óhljóðalaust?

Miðað við það sem Jón Þór þingmaður sagði í áðurnefndri grein sinni getur varla verið að hann hafi einfaldlega hirt launahækkunina og notað hana í eigin þágu. Því trúir auðvitað enginn enda væri sá ærið mikill ómerkingur sem er harður gagnrýnandi en endar með því að éta allt ofan í sig ... bókstaflega.

338.254 króna launahækkun á mánuði

Ef þessir þrír aðilar bregðast allir þá mun ég kæra ákvörðun Kjararáðs til dómstóla og hef nú þegar fengið til þess lögfræðing.

Þetta segir Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, í ofangreindri grein. Núna er eiginlega kominn tími til að hann leysi frá skjóðunni enda meira en þrír mánuður frá því að hann skrifaði þessi orð. Á þeim tíma og til loka þessa mánaðar hefur hann fengið samtals rúma eina milljón króna aukreitis í laun, þökk sé kjararáði.

Starf þingmanns er enginn orðaleikur eða innantómt tal. Ábyrgð þingmanna er mikil og þeir eru dæmdir af orðum og gerðum.

Jón Þór Ólafsson var stóryrtur í greininni og því má spyrja: Hvað gerði hann við launahækkunina? Hvaða lögfræðing hefur hann ráðið til að hnekkja ákvörðun kjararáðs? Hverja hefur hann kært og fyrir hvaða stjórnvaldi?

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 28. febrúar 2017.


Ekkert samræmi milli sölu áfengis og fjölgunar ferðamanna

Á síðustu árum hefur erlendum ferðamönnum fjölgað gríðarlega, úr tæplega 500.000 í um 1.800.000 á síðasta ári.

Á sama tíma hefur sala áfengis skv. ÁTVR úr 19 milljón lítrum í 19,6 milljón lítra. Salan hefur þar af leiðandi ekki aukist í samræmi við fjölgun ferðamanna. 

Af þessu má draga tvær ályktanir og hlýtur önnur þeirra að vera röng:

  1. Áfengisneysla Íslendinga hefur minnkað stórkostlega
  2. Útlendingar drekka hreinlega ekkert

Fjölgun ferðamanna um meira en eina milljón manna hlýtur að verða til þess að sala á áfengi aukist. Allt annað eykst. Kortanotkun eykst, sala á minjagripum, fatnaði, ferðum ... Eða eru útlendingarnir sem hingað koma bindindismenn upp til hópa.

Sala ÁTVR á árinu 2006, á þeim skrýtnu uppgangstímum, var aðeins um 18,6 milljón lítrar. Engu að síður var áfengissalan á árinu 2008 tæplega 20,5 milljón lítrar.

ÁfengiOfangreindar upplýsingar um sölu áfengis eru úr ársskýrslu ÁTVR fyrir árið 2015. Sjá töfluna hér til hliðar.

Ég hreinlega trúi ekki mínum eigin augum. Hallast að því að mér hafi yfirsést eitthvað. Varla mælir ÁTVR rangt.


Rjómabollur eru tæknilega léleg hönnun

bollaBolludagurinn er á mánudaginn. Hann hefur fylgt manni í gegnum lífið, fyrst með mikilli ánægju sem hefur svo farið dvínandi. Ástæðan er tæknilegs eðlis.

Eflaust hefur þessi dagur verið sniðugari forðum daga en í nútímanum. Í dag er hægt að fá fleiri „nömm“ í bakaríum en þessar bollur. Nú er svo komið að ég skil lítið í þeirri áráttu að troða hveitibollu fylltri af rjóma og sultu í andlitið á sér.

Það er ekki hægt að éta svona bollu. Þegar bitið er í hana gerist það óhjákvæmilega að rjóminn og sultan spýtast til beggja hliða, jafnvel svo að sessunautar manns eru í stórhættu. Ástæðan er þessi ómögulega hönnun bollunnar. Hún á ekki að vera hringlótt eins og við sögðum í gamla daga. Frekar á lengdina, ekki of breið, heldur frekar svona kjaftbreið. 

Trúið mér, ég hef gert tilraunir með alls kyns bollur. Þær hafa allar mistekist. Það er einfaldlega ekki hægt að hafa rjóma eða sultu í samloku. Bollan er ekkert annað en samloka.

VendirRjóminn mun alltaf renna niður munnvikin, niður á skyrtuna/peysuna og loks í kjöltu fólks. Eina ráðið er að fara eftir skipun foreldranna að beygja sig diskinn ...Eða nota smekk, það er nú eiginlega bara smekksatriði

Bolludaginn á að leggja af, banna þessar árans hringlóttu bollur nema því aðeins að þær verði lokaðar, svona eins og pítubrauð. Þar að auki eru krakkar hættir að nota bolluvendi sem í gamla daga var óaðskiljanlegur hluti bolludagsins. Heimur versnandi fer.

Á bolludaginn ætla ég ekki að gúffa í mig bollu ... ég ætla að fá mér ellefu bollur. Takk fyrir og verði mér að góðu.


Bifreið, bifreið, bíl, bifreð ... stolið

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsir eftir bifreið númer JJ-P44, sem stolið var í gærkvöldi úr vesturbæ Kópavogs, á Facebook síðu sinni.

Bifreiðin er af gerðinni Toyota Land Cruizer 200 og er hún svört að lit en bíllinn er 2010 árgerð. Bifreiðin er með skíðaboga of mikið af skíðabúnaði og öðru í bifreiðinni, þar sem fjölskyldan sem á bifreiðina var á leið í ferðalag þegar bifreðinni var stolið.

Lögreglan óskar eftir því að hringt sé í neyðarnúmerið 112 ef að sést til bifreiðarinnar.

Þetta er stutt frétt á visir.is. Sá sem svona skrifar er ekki að þjónusta lesendur, hann er bara hroðvirkur.

Átta sinnum er getið um bifreið („bíl“, „bifreð“) í fréttinni. Einu sinni hefði dugað. Þar af fjórum sinnum í einni málsgrein.

Bifreiðin er með skíðaboga of mikið af skíðabúnaði og öðru í bifreiðinni, þar sem fjölskyldan sem á bifreiðina var á leið í ferðalag þegar bifreðinni var stolið.

Settu punkt sem oftast, hljóðar eitt gott ráð til þeirra sem sitja við skriftir. Fréttina hefði auðveldlega mátt stytta, til dæmis svona: 

„Lögreglan hefur á Facebook-síðu sinni lýst eftir svartri Toyota Landcrusier bíl sem stolið var í vesturbæ Kópavogs í gærkvöldi.

Fjölskyldan sem á bílinn var á leiðinni í skíðaferð. Í honum var meðal annars mikið af skíðabúnaði. Þeir sem hafa séð bílinn eru beðnir að hringja í neyðarnúmerið 112.“

Nei, þess í stað er eitthvað hripað niður, enginn les yfir hvorki höfundur né annar. Fjölmiðlar, prentaðir eða á vefnum, veita lesendum þjónustu. Þeir eru ekki fyrir blaðamenn eða aðra sem að útgáfunni koma. 

 

 


Hrikalega fáir sjómenn greiða atkvæði

Aðeins 54% sjómanna greiddu atkvæði um nýjan kjarasamning við útgerðarmenn. Það er stórfurðulegt að ekki skuli fleiri hafa kosið. Reyndar er það út í hött að launþegum sé ekki skylt að greiða atkvæði um kjarasamning.

Af 2.214 manns sem voru á kjörskrá samþykktu 623 samninginn en 558 voru á móti. 

Það eru engin smáræðis hagsmunir undir í þessari launadeilu, ekki aðeins fyrir sjómenn og útgerðamenn, heldur fyrir fjölda annarra fyrirtækja og launþega.

Um 28% sjómanna samþykktu samninginn. Hefði það verið réttlætanlegt ef 28% sjómanna hefðu hafnað honum?

Svona aðferðafræði er verulega biluð.


mbl.is Samþykktu samninginn naumlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þessi Trump eftir rúman mánuð í embætti

TrumpSweden? Terror attack? What has he been smoking? Questions abound.

Þetta sagði Carl Bild, fyrrum utanríkisráðherra Svíþjóðar, furðu lostinn, vegna orða forseta Bandaríkjanna um meint hryðjuverk sem átti að hafa gerst þar.

Trump, Donald Trump. Nafnið vekur misjafnar hugrenningar hjá fólki. Sumum finnst hann æði stórkostlegur, aðrir eru hissa, skilja hann ekki og telja hann því minni háttar.

Maðurinn kom inn í stjórnmálin í Bandaríkjunum og hefur síðan talað í fyrirsögnum. Punktur. Sáralítil hugmyndafræði. Eldmóðurinn er rosalegur en beinist eingöngu að honum sjálfum enda talar hann í fyrstu persónu eintölu, ekki fleirtölu. Það segir dálítið. Fæstir eru einhverju nær eftir að hafa hlustað á hann flytja ræðu.

imagesHann útlistar skoðanir sínar á Twitter. Það er svona eins og að tjá sig í gegnum athugasemdakerfi fjölmiðla. Upphrópanir, órökstuttar ályktanir, ruddaskapur, dónaskapur ...

Eftir því sem árunum fjölgar hef ég lært að meta fólk meira eftir því sem það segir og ekki síður hvernig það tjáir sig. Hef til dæmis megnustu óbeit á flestu því sem ég álpast til að lesa í athugasemdakerfum fjölmiðla, innlendra og erlendra. Frá því eru vissulega undantekningar en þær eru fágætar. 

Trump hefur nú gengt embætti í rúman einn mánuð. Fátt nýtt hefur komið fram. Hann talar eins og hann sé enn í kosningabaráttu, slær um sig, hrópar en enn hefur ekkert annað gerst en að hann var gerður afturreka með tilskipum um að landinu skyldi lokað fyrir fólki af ákveðnum þjóðernum.

Fleiri en hægrimaðurinn Carl Bildt velta því fyrir sér hvað sé að gerast. John McCain, öldungardeildarþingmanni, Repúblikana og fyrrum forsetaframbjóðanda, líst illa á Trump. Hann segir í viðtali vegna ummæl forsetans um fjölmiðla:

A fundamental part of that new world order was a free press. I hate the press. I hate you, especially, but the fact is, I, we need you. We need a free press. We must have it. It’s viral. If you want to preserve, I’m very serious now, if you want to preserve Democracy as we know it, you have to have a free, and many times adversarial press.

And without it, I’m afraid that we would lose so much of our individual liberties over time. That’s how dictators get started.

Og ég ... hvað finnst mér?

Ég held að Trump sé frekar einfaldur maður, ekki með djúpa pólitíska sannfæringu. Líklegast er hann illa að sér í alþjóðamálum, jafnvel í fleiri málum. Að minnsta kosti lýsti hann yfir stríði gegn Íslandi í kosningabaráttunni. Reyndar ætlaði að ráðast gegn Isis:

“If elected,” he said at a large rally filled with angry white people, “I will declare war on Iceland for harbouring ISIS all these decades.”

Trump er dæmi um hávaðasegg sem talar látlaust, yfirgnæfir aðra með látum en ekki viti. Þegar það sem hann segir er nánar skoðað kemur í ljós að hann er ruglukollur, rétt eins og dæmið um hryðjuverkið í Svíþjóð og stríð gegn Ísland er ágætt dæmi um.

Hingað til hefur fátt af því sem Donald Trump hefur sagt heillað mig. Má vera að eitthvað sé meira í hann spunnið en sést hefur undarfarin misseri. Þá er betra að segja ekki of mikið.

Hitt getur svo meira en verið að Repúblikanar og Demókratar á Bandaríkjaþingi sameinist um að setja manninn af áður en hann skaðar Bandaríkin meira eða samfélag þjóðanna.


mbl.is Átti hann við IKEA eða...?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sleggjudómar og hneykslunarorð sófafólksins

Kanntu að aka bíl? spyr leigusali bifreiðarinnar. Já, hér er ökuskírteinið mitt, segir ökumaðurinn.

Kanntu að synda? spyr sá sem býður upp á köfun eða snork. Já, segir ferðamaðurinn og lítur kannski undan.

Geturðu gengið á fjöll? spyr leiðsögumaðurinn. Já, segir ferðamaðurinn. Hver getur það ekki?

Kanntu að aka snjósleða? spyr leiðsögumaður. Já, segir ferðamaðurinn, hálfhneykslaður.

Passaðu þig á fjörunni, í sjónum býr meira afl en þú veist. Auðvitað passa ég mig, segir ferðamaðurinn. Heldurðu að ég sé barn?

Þannig geta hlutirnir gerst. Ferðamaðurinn segir ef til vill ekki alveg satt um eigin getu, kunnáttu sína og þekkingu, vanmetur eða ofmetur.

Fjölmörg dæmi eru um slys og óhöpp sem ferðamenn hafa lent í, hvort heldur þeir hafi sagt satt eða ósatt, kunnátta þeirra og geta hafi verið takmarkaðri en þeir héldu eða jafnvel að þeir hafi hreinlega verið ógætnir eða bara óheppnir.

Ég þekki þetta sjálfur eftir að hafa starfað í ferðaþjónustu. Ég er líka oft ferðamaður og sé ýmislegt sem gæti verið til frásagnar. Nefna má konuna á strigaskóm og með plastpoka í hendi og ætlaði að ganga til Landmannalauga og gista þar á hótelinu. Ökumaðurinn á litla Hyundai bílnum sem kominn var að vaðinu neðan við Gígjökul og ætlaði út í af því að vegurinn lá að því og upp úr hinum megin. Göngumaðurinn sem var hreinlega örmagna vegna þess að hann áttaði sig ekki á kulda, vindi og vegalengd. Snjósleðamaðurinn sem eitt augnablik hélt að bensíngjöfin væri bremsa - með hörmulegum afleiðingum.

Ég hef stundum mætt eða dregið uppi ökumenn sem virðast vera af asísku kyni. Sumir þeirra voru síst af öllu öruggir í akstri. Stjórnandi bílaleigu sagði mér fyrir stuttu að hann hefði verið að leigja kínverskum hjónum bíl. Þau framvísuðu gildum skírteinum en voru langt í frá vön í akstri, það sást þegar þau óku í burtu. Allt gekk þó klakklaust og þau skiluðu bílnum í heilu lagi.

Ferðamenn eru eins og við hinir, sumir eru góðir og vandaðir, aðrir ekki. Þannig er bara veröldin. Vandi stjórnenda ferðaþjónustufyrirtækja er að greina hér á milli og fara umfram allt varlega.

Fólk sem er fjarri vettvangi og þekkir ekki til, þarf einnig að fara varlega. Auðvelt er að hrasa ofan í gryfju sleggjudóma og hneykslunar. Slys verða oft og víða, ekki þarf útlenda ferðamenn til eða illa rekin fyrirtæki. 

Hvernig stendur á því að sá sem ekki kann að synda fær að snorka í Silfru? spyrja þeir sem ekkert þekkja til.

Tökum ekki afstöðu meðan við höfum ekki allar upplýsingar. Ferðamaður í köfun getur dáið af ýmsum öðrum völdum en vegna drukknunar eða slæmrar skipulagningar ferðaþjónustuaðila.

 


mbl.is Ekki nauðsynlegt að vera syndur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íbúðin fyrir ofan og íbúðin fyrir neðan

Mikill eldur varð í íbúð í fjölbýlishúsi Hraunbæ í Árbænum um klukkan ellefu í gærkvöldi. Unnar Þór Sæmundsson var staddur íbúðinni fyrir ofan þegar eldurinn kviknaði.

Ég var kominn í háttinn þegar ég heyrði læti fyrir utan. Ég var viss um að það væri verið að smala fólki í taxa því ég heyri hrópað „eru allir komnir út?“ Ég leit svo út um gluggann og sá reyk og hugsaði, nei andskotinn, þau eru að grilla.“ segir Unnar. Hann segir að stuttu síðar hafi rúða í íbúðinni fyrir neðan sprungið og hann hafi fengið reykmökk í andlitið.

Ekki er gott að treysta á fréttaflutning dv.is en línurnar hér að ofan eru í því vefriti, sjá hér.

Í frásögn vefritsins var maðurinn ekki heima hjá sér, heldur í íbúðinni fyrir ofan og farinn í háttinn þar. Þá sprakk rúða í íbúðinni fyrir neðan, þar sem hann á heima. Svo fékk hann „reykmökk í andlitið“.

Eiður heitinn Guðnason hefði orðað það þannig að hér væru eftirlitslaus fréttabörn við iðju sem þau ættu að eftirláta öðrum.


Á fjallabílnum Yaris í kringum landið

SpákonufellTil tíðinda bar í þessari viku að ég ók hringinn í kringum landið (kringinn í hringum, eins og sagt er á barnamáli). Tilgangurinn var að „vísitera“ sýslumannsembættin á landinu sem er hluti af nýju starfi mínu. Það er nú ekki aðalatriðið heldur hitt að ég ók alla þessa leið á Toyota Yaris ... Trúi því hver sem vill.

Í febrúar árið 1981 ók ég síðast hringinn um landið. Þá hafði ég til afnota forláta Lada Sport jeppa sem var léttur og tiltölulega lipur í fjallaferðum. Á þeim tíma var vetur á Íslandi, en ekki eilíft haust eins og núna. Þá lenti ég í fyrstu alvarlegu vandræðunum á Holtavörðuheiði sem var illfær. Sem betur fer hafði ég haft vit á því að taka skóflu með og ég bókstaflega mokaði mig í yfir heiðina.

MývatnSvo vel stóð ég mig að þegar ég var nær komin ofan í Hrútafjörð dró snjómokari Vegagerðarinnar mig uppi enda var starf hans snöggtum léttara eftir að ég hafði rutt úr vegi erfiðustu sköflunum (minni mitt er auðvitað brigðult en ég ýki nú ekki mikið).

Þá ók ég til Siglufjarðar, mokaði mig um Lágheiði til Ólafsfjarðar, til Akureyrar, Húsavíkur, Kópaskers, Raufarhafnar, Þórshafnar, Bakkafjarðar og loks til Vopnafjarðar. Á þessum árum var ekki akfært að vetrarlagi yfir Möðrudalsöræfi svo ég fékk flutning með strandferðaskipinu Esju frá Vopnafirði til Seyðisfjarðar. Þaðan var leiðin greið um helstu bæi suður um og til Reykjavíkur þó ekki væri nú snjólaust. Ég þóttist mikil hetja eftir ferðina en fáir tóku undir, en það skiptir litlu, því eins og kallinn sagði, ef enginn hælir mér geri ég það bara sjálfur.

Nú ók ég yfir Holtavörðuheiði eins og sumar væri. Enginn snjór á heiðinni. Flennifæri um Húnavatnssýslurnar og raunar austur fyrir Mývatn. Hálka var frá Víðidal á Fjöllum og nær því ofan í Jökuldal en fyrir Yaris á nagladekkjum var þetta lítið mál. Krapi var á Fjarðarheiði en í Seyðisfirði var grænn litur ráðandi. Ég hefði ábyggilega getað farið í golf, svo fagurlega grænn var völlurinn.

Þar sem ég hef aldrei verið þekktur fyrir að velja auðvelda leið ef erfiðari er í boði þá ákvað ég að aka um Öxi. Ég var dálítið smeykur þegar þangað upp var komið enda liggur vegurinn upp í rúmlega fimm hundruð metra hæð. Þar var fyrst slabb og svo dálítill snjór. Ég óð hins vegar í gegnum þetta á fjallabílnum Yaris og hann ruddi ansi vel frá sér svo upphækkuðu jepparnir sem komu á eftir mér sluppu við festur og komust klakkalaust ofan í hinn fagra Berufjörð.

SeyðisfjEftirleikurinn var auðveldur. Auðir vegir til Hafnar og um allt Suðurland allt til höfuðborgarinnar.

Og svo eru það vangavelturnar eftir ferðina.

Hvers vegna í andsk... snjóar ekki lengur almennilega hér á landi að vetri til? Nafn landsins bendir til að hér eigi að vera snjór og kalt og þannig vil ég hafa það að vetrarlagi.

Eflaust eru útlendu ferðamennirnir kátir með aðstæður. Nær allir bílar sem ég mætti voru auðsjáanlega með útlendum ökumönnum. Þeir þekkjast úr.

ÖxiSérstaklega var mikil umferð á Suðurlandi, fjöldi bíla við Breiðamerkurlón. Þar sem ég gisti var nokkuð um útlendinga, þó ekki væri nú öll gisting full. Hrúga af bílum á Sólheimasandi, allir að skoða flugvélarflakið. Ótrúlegt.

Samanburðurinn á vetraraðstæðum fyrir þrjátíu og sex árum og í dag er sláandi. Vekur mann óhjákvæmilega til umhugsunar um umhverfismál og afleiðingar gerða mannsins.

Myndir:

Efsta myndin er af Spákonufelli  í Austur-Húnavatnssýslu en það vakir yfir Skagaströnd. Eitt af mínum uppáhaldsfjöllum.

EystrahornÖnnur myndin er tekin skammt austan við Mývatn. Nær fullt tungl og sérkennilega vindskafin ský.

Þriðja myndin er tekin í blíðunni á Seyðisfirði. Grænn golfvöllurinn vekur athygli.

Fjórða myndin er frá Öxi, þeim alræmda fjallvegi. Eins og sjá má hef ég rutt hann alveg ágætlega ... nei þetta eru ný ýkjur. Færin var nú ekki verri en þetta.

Fimmta myndin er tekin í Hvalnesskriðum og horft til Austurhorns og Hvalness. Hún er tekin síðla dags, um fimm leytið.

 


mbl.is Útlit fyrir hitamet um helgina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er hættulegt að kaupa lyf í apóteki án ráða frá lyfjafræðingi?

Flestir hafa einhvern tímann þurft að leita í apótek vegna einhverra kvilla. Í slíkum tilvikum er oftast um að ræða eitthvað smávægilegt, kvef, nefrennsli, hálsbólgu og álíka eða vegna lítilsháttar skaða á líkama.

Ég hef hingað til talið að þau lyf sem standa til boða án tilvísunar læknis séu hættulaus og sjálfsögð til notkunnar en svo virðist ekki vera, þvert á móti:

Flest lausasölulyfja geta verið skynsamleg í litlu magni eftir ráðleggingum lyfjafræðings og í samræmi við heilbrigði og kvartanir þeirra sem í hlut eiga. [

...] Ýmsar alvarlegar aukaverkanir geta hins vegar fylgt með í kaupunum. Otrivin menthol nefdropar t.d. gegn kvefi og flensueinkennum sem nú herjar, hefur skemmt nefslímhúðir landans meira en nokkuð annað gegnum tíðina, aðallega vegna óhóflegrar notkunar. Mörg gigtarlyf geta t.d. verið varasöm og jafnvel lífhættuleg.

Þetta segir Vilhjálmur Ari Arason, læknir, í pistli á Pressunni og manni hreinlega snarbregður. Og hann heldur áfram:

Ofurlyf eru þau lyf stundum kölluð sem markaðssett eru með það í huga að virka að einhverju leiti kröftugar en eldri lyfin, þótt áhrifin komi oft í reynd ekki nema takmörkuðum fjölda að gagni. Lyf sem eru ætluð fáum en síðan markaðssett fyrir fjöldann, jafnvel sem lausasölulyf. Í flokki ofurlyfja eru t.d. nýjustu maga, ofnæmis og gigtarlyfin. Lyf sem Lyfjastofnun Evrópu hefur í sumum tilvikum verið með til sérstakrar athugunar á, hvort taka eigi ekki alfarið af lausasölumarkaði.

Þetta eru fréttir fyrir mig. Í sakleysi mínu hélt ég að staðan væri þveröfug, hægt væri að treysta því að apótekin seldu aðeins „öruggar“ vörur.  

Í Fréttablaðinu í dag er fjallað um málið:

Brynjúlfur segir að uppi séu hugmyndir um að auka framboð af smærri pakkningum verkjalyfja ef sala á lausasölulyfjum verður gefin frjáls. Sem dæmi séu hugmyndir um að selja paracetamol með tíu skömmtum.

„Það er 1,6 sinnum hámarksskammtur samkvæmt leiðbeiningum frá Lyfjastofnun en það sem þú getur keypt í apótekum núna er fimmfaldur og allt upp í ríflega þrjátíufaldur hámarksskammtur. Þannig að það eru miklu meiri líkur á að misnotkunin verði af völdum pakkninga sem eru seldar í apótekum.“

Þetta er haft eftir Brynjúlfi Guðmundssyni, sem í fréttinni er sagður fara fyrir starfshópi Samtaka verlsunar og þjónustu um lausasölulyf.

Sannast sagna finnst mér það hrikalegt mál að maður gæti hreinlega skaðast á því að kaupa lyf í apóteki rétt eins og sagt er að hafir gerst með „einfalda“ nefndropa. Maður röltir inn og biður um nefdropa, verkjalyf eða eitthvað álíka og fær skammtinn vel útilátinn, yfirleitt án nokkurra varnaðarorða. Má vera að maður þurfi að biðja um ráð frá lyfjafræðingnum áður en kaupin eru gerð. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband