Bloggfærslur mánaðarins, desember 2013

Með fallbyssu skaut Gleðibankinn vandamálum á haf út

Gleðibankinn, hlutabréf2

Í nokkur ágæt ár bjó ég á Skagaströnd og kynntist þar mörgu góðu fólki. Einu sinni stofnuðum við Ingibergur Guðmundsson banka á staðnum ...

Sóttum hvergi um leyfi, hófum umsvifalaust rekstur, gáfum út hlutabréf sem fólk greiddi fyrir með glöðu geði, buðum upp á innlán og stunduðum ótæpileg útlán og misfórum með inneignir, veittum vildarlán og keyptum okkur aðgang hingað og þangað. Og hvað haldiði, við komumst upp með þetta.

Við stofnuðum nýjan gjaldmiðil, eða öllu heldur tókum í notkun vannýttan gjaldmiðil sem er „bros“ sem skýrir að einhverju leiti það sem hér á undan segir.

Þetta fyrirtæki nefnist Gleðibankinn og er enn starfandi. Mér datt þetta í hug þegar ég las þetta í Mogganum í morgun undir fyrirsögninni „Spider-Man í New York“ en þar er fjallað um undirbúning áramótanna:

Á laugardaginn voru sex reiðhjól tengd við tólf volta hleðslurafhlöður. Hvert hjól er sagt geta búið til 75 vött af rafmagni á klukkustund, en 50.000 vött þarf til að knýja kúluna, en á henni eru um 30.000 LED-ljósaperur. Þá er búið að koma fyrir risavöxnum pappírstætara, þar sem fólk getur tætt vondar minningar. 

081216 Mbl frétt um Gleðib

Á stofnfundi Gleðibankans í nóvember 2008 buðum við upp á margvíslega skemmtun en þar var einnig alvarlegur undirtónn. Framtaksamir Skagstrendingar höfðu keypt litla fallbyssu sem var notuð í hátíðlegum tilgangi, skotið af henni til að vekja fólk til einhverra atburða. Við fengum hana lánaða og í lok stofnfundarins buðum við fólki upp á að skrifa vandamál sín á blað, kuðla því saman og troða inn í hlaupi á fallbyssunni. Síðan var öllum vandamálum heimamanna og annarra sem fundinn sótti skotið lengst út á Húnaflóa þar sem þau brunnu upp.

Hef það fyrir satt að með því hurfu þau öll vandamál heimamanna enda varð Skagaströnd um leið hinn mesti þrifnaðarstaður. Síðan ég flutti býr þar bara gott fólk.

Myndin hér fyrir ofan er af hlutabréfi Gleðibankans, á því segir meðal annars:

Hluturinn er ævarandi bundinn ofangreindum aðila og erfist með öllum áunnum grínum og brosum þeim sem standa hjarta hans næst. Arðurinn er skattfrjáls en engu að síður framtalsskyldur*). 

Sú skylda fylgir hlutnum að eigandinn greiði einum eða fleiri samborgurum sínum bros svo oft sem hann má og taki þess á milli við sömu greiðslu frá öðrum. Út á þetta ganga viðskipti Gleðibankans. 

Stjarnan þarna í tilvitnuninni á við neðanmálstexta sem hljóðar svo:

*) Gera skal grein fyrir hlutnum í lið 1.4 á bls. 1 á framtali einstaklings. Skrá skal eftirfarandi texta: „Undirritaður á 1.000 bros í Gleðibankanum en það eru ómetanleg auðæfi og algjörlega skattfrjáls samkvæmt heilbrigðri skynsemi.“ Bæta skal síðan við tákninu Smile og lita í gulu.

Loks segir eftirfarandi um Gleðibankann:

Gleðibanki getur ekki orðið gjaldþrota. Bankinn hefur grínlausa milligöngu um varðveislu verðmæta hvort heldur þau eru í gríni, skopi eða öðrum gleðigjaldeyri. Hann annast gleðivísitöluna, gætir að gengi gríns miðað við aðra miðla og gefur út gleðikort, gleðipillur og gleðibréf af öllu tagi.   

Bjarni Benediktsson borinn röngum sökum

Hvernig á að taka á dómstóli götunnar sem dæmir rangt? Hvað á að gera vegna almanaróms sem reynist rangur? Hvað á að gera þegar saklaus maður er tekinn af lífi? Það er einfaldlega ekki nóg að yppa öxlum og segja á útlensku að þetta sé bara einhvers konar „collateral damage“ eða réttlætanlegt tjón vegna annarra og merkilegri mála.

Eina ferðina enn er ráðist á Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins. Á vefsíðu Jónasar Kristjánssonar var eftirfarandi að finna í gær: 

Loksins eru ný skjöl um íslenzka bankaglæpi komin í dagsljósið. Opnuð hefur verið heimasíða AWP, Associated Whistle-Blowing Press. Það er stofnun, sem stendur að opinberri birtingu gagna um íslenzka hrunið. Þar eru þegar komin gögn um Glitni.  [...] Feitasti bitinn er svo lánalistinn. Þar eru veðlaus lán til vildarvina, þar á meðal 5.967.126.000 króna lán til Bjarna Benediktssonar. Þú getur skoðað þetta á heimasíðunni. Umræða er hafin á fésbók minni.

Um er að ræða upplýsingar sem fram koma á vefsíðunni ljost.is og fésbókarsíða Jónasar fitnaði.

Í dag er allt annað uppi hjá honum og var hann nauðbeygður að biðjast afsökunar, gerði það þó með fyrirvara:

Nú seint á níunda tímanum var hinn umdeildi texti tekinn út af heimasíðu AWP. Þar með hefur verið viðurkennt, að hann var rangur. Settur var inn nýr texti, sem segir þetta vera hluthafaskrá. Birgitta tjáði sig nokkru síðar á fésbók, en sagði ekkert um þetta mál og baðst ekki afsökunar.

DV tók líka hressilega við sér í gærkvöldi og fögnuður blaðsins yfir því að hafa nú fengið einhverjar haldbærar ávirðingar á Bjarna Benediktsson var hreinlega áþreifanlegur.

Fjölmargir lesendur tóku til máls í athugasemdakerfinu og mannorðstilræðislýðurinn réði sér vart fyrir kæti.

Svo lekur loftið úr blöðrunni og í ljós kemur að þetta er allt á misskilningi birt. Úbbs ...

Það dugar samt ekki fyrir þá sem eiga aðeins eina ósk og hún er sú að koma höggi á Bjarna Benediktsson, skiptir engu hvað hann segir, hvað hann hefur gert. Söguburðurinn skal aldrei líða fyrir sannleikann.

Ekki vantar að Birgitta Jónsdóttir, þingmaður, reyni að gera sér mat úr þessu öllu, án þess þó að biðjast afsökunar á því að hafa haft mann fyrir rangri sök. Hún segir á dv.is:

Það má segja að ég sé guðmóðir þeirrar hugmyndafræði sem er á bak við þessa síðu,“ segir Birgitta Jónsdóttir þingmaður Pírata um lekasíðuna ljost.is. Birgitta segist ekki standa á bak við síðuna en hún er listuð á henni á meðal stofnenda hennar, Guðmundi Ragnari Guðmundssyni, talsmanni síðunnar, og Pedro Noel og Santiago Carrion, sem eru ritstjórar hennar.

„Það er ekki þannig að ég sé að vinna í einhverjum lekum en ég er sammála þeirri hugmyndarfræði sem er þarna á bak við, að gera fólki kleift að koma á framfæri gögnum án þess að það sé rekjanlegt. Ef þú verður vitni að einhverju sem er siðlaust eða glæpsamlegt þá er þetta miðill sem þú getur notað til þess að koma því á framfæri.

Nú er það eitt eftir, að við sem höfum orðið vitni að því sem kalla má „siðlaust og glæpsamlegt“ þurfum að koma því á framfæri. Málið varðar siðlausa og tilefnislausa árás á Bjarna Benediktsson og fullyrða má að hún er glæpsamleg. Í lögum segir að ólöglegt sé að bera menn óréttmætum sökum. Er ekki einfalt að lýsa sök á hendur vefsíðunni ljost.is og aðstandendum hennar.

Er réttlætanlegt að fólk komist upp með að ljúga sökum upp á aðra og þegar sökin reynist á misskilningi byggt geti þetta lið bara yppt öxlum og talað sig út úr málinu? Ég segi NEI.

Hér er alvarleg þversögn í hugmyndafræði ljost.is. Menn geta ekki stundað ofangreinda hugmyndafræði og kunna ekki til verka. Þannig hugmyndafræði krefjast þekkingar, reynslu og jafnvel menntunar. Birgitta virðist vaða áfram með óljósan ásetning en gerir svo öðrum rangt til vegna þess að hún er illa að sér, þekkinguna skortir. Henni finnst í lagi að skjóta fyrst og spyrja svo.

 


Össur reynir að réttlæta ár sín sem ráðherra

Allt síðasta kjörtímabil var þrýst á síðustu ríkisstjórn að taka á skuldastöðu heimilanna. Ríkisstjórnin hlustaði ekki, taldi sig vita betur hvað þjóðin vildi. Hún lagði upp með gjaldþrotaleið fyrir almenning og því fylgdi eingöngu atvinnuleysi. Í dag spretta þeir fram fyrrum ráðherrar og áður þingmenn stjórnarmeirihluta og hafa allan skilning, þekkingu og vilja til að bjarga almenningi. 

Þeirra á meðal eru Össur Skarphéðinsson, þingmaður og fyrrum ráðherra. Skyndilega er skilningurinn fyrir hendi hjá honum.

Í vitali í þættinum Sprengisandur á Bylgjunni í gær og sagt er frá í Morgunblaðinu í dag ræðst Össur undir hinni rauðu kratarós á fyrrum forsætisráðherra og formann Samfylkingarinnar og Steinrím J. Sigfússon, fyrrum alltmögulegt ráðherra og formann Vinstri grænn. Þessi tvö lögðust gegn öllum góðum málum sem Össur hugsaði en lagði aldrei til.

Um leið og lið eins og Össur reyna að gera upp fjögurra ára kjörtímabil vinstri stjórnar glittir í „besserwisserinn“, þá sem allt vita best og kunna. Þeir ráðast með offorsi á núverandi ríkisstjórn sem þó gerir á hálfu ári allt það fyrir heimilin í landinu sem Össur og félagar ætluðu að gera á fjórum árum.

Valt er að treysta á minni Össurar. Hann og félagar hans voru næstum því ... búnir að hjálpa heimilunum í skuldavanda þeirra.

Hann man hins vegar ekkert eftir Icesave rugli síðustu ríkisstjórnar, ekkert eftir stjórnarskrármálinu sem var ríkisstjórninni til skammar, landsdómsmálinu sem er stærsta einelti sem um getur í íslenskum stjórnmálum. Og hann man ekkert eftir því að ríkisstjórnin skrökvaði (... jæja, beinlínis laug) að þjóðinni um aðlögunarviðræður að ESB, héldu því fram og gera enn, að hægt væri að gera samning um aðildina að ESB.

Og það sem Össur man skilgreinir hann allt á nýjan hátt undir hraðsoðnu orðalagi manns sem með félögum sínum gerði meira ógagn fyrir Ísland en fæstum hefur áður tekist. Hafi einhvern tímann verið ástæða til að setja upp rannsóknarnefnd á Alþingi þá er ágætt tilefni til að fara ofan í saumanna á verkum síðustu ríkisstjórnar.

Annars var það ágætt sem Steingrímur J. Sigfússon segir á forsíðu Moggans í morgun, hann fær þó prik fyrir það:

Í öðru lagi ætla ég ekki að láta toga mig út í það að fara að taka þátt í rökræðum við einhverja sem vilja búa til þá mynd af sér að þeir hafi viljað vera betri en aðrir í fyrrverandi ríkisstjórn.

Er þetta ekki málið í hnotskurn? Sá sem veit upp á sig skömmina heldur því fram að fyrrum ráðherrar eigi að standa saman og taka þannig afleiðingum gjörða sinna og aðgerðaleysis. 

 


mbl.is Samfylking fari í naflaskoðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Almenningur tapaði alla tíð á einokun Ríkisútvarpsins

Ég vaknaði við rödd Péturs Péturssonar og Jóns Múla Árnasonar í morgunútvarpinu, fylgdist með morgunleikfimi Valdimars Örnólfssonar – svo ekki sé talað um barnatíma Skeggja Ásbjarnarsonar. Í gegnum Ríkisútvarpið kynntist ég m.a. Gunnari Gunnarssyni, Jóni Trausta og Halldóri Laxness. Á kvöldin hlýddi ég á þjóðlegan fróðleik á kvöldvökum, fylgdist með útvarpsleikritum og missti aldrei af Sunnudagskvöldi með Svavari Gests. 

Þetta segir Ragnheiður Davíðsdóttir í grein í Fréttablaði dagsins. Hún mærir Ríkisútvarpið óhóflega mikið, lætur eins og það hafi verið upphaf og endir allrar menningar í landinu. Við erum á svipuðum aldri en þegar ég komst til vits fannst mér Ríkisútvarpið ekki svo merkilegt sem Ragnheiður lætur. Síðar uppgötvaði ég hvers vegna. Staðreyndin er einfaldlega sú að ein útvarpsrás getur aldrei fullnægt áhugamálum allra. Hún er aðeins ein rödd, byggð upp af örfáum mönnum sem töldu sig hafa höndlað þá visku sem þjóðinni dygði. Hún varð því aðeins meðalmennskan uppmáluð og síst af öllu menningarstarf.

Ríkisútvarpið var einokunarstofnun sem mataði landslýð á því sem starfsmenn hennar töldu rétt. Þeirra var valdið og óskeikull rétturinn. Á æskuárum mínum var dægurtónlist ekki leikin í útvarpinu nema í sérstökum þáttum sem voru í tæpan klukkutíma á dag einu sinni eða tvisvar í viku. Þeir hétu Lög unga fólksins og Óskalög sjómanna eða sjúklinga. Hlustendur áttu ekkert val um annað en að hlusta eða slökkva á íslenskri nútímatónlist eftir Atla Heimi eða Þorkel Sigurbjörnsson.

Ég þurfti ekki Ríkisútvarpið til að kynnast bókmenntum þjóðarinnar. Þær voru meira eða minna til á æskuheimilinu. Mér nægði að hlusta á foreldra mína eða afa minn segja frá til að kynnast þjóðlegum fróðleik og bækur um slíkt voru á heimilinu og mikið lesnar.

Ríkisútvarpið er ekkert annað en fólkið sem vinnur þar. Nú hefur verið vegið illa að þessum heimilisvini þjóðarinnar sem hefur ekki lengur burði til þess að færa okkur ómetanlegar gjafir sínar.  

Þetta segir Ragnheiður Davíðsdóttir í grein sinni rétt eins og fólk sem tekur til starfa hjá Ríkisútvarpinu verði um leið snarheilagt og viska þeirra aukist margfalt. Maður veit ekki hvort þetta er háð hjá Ragnheiði eða hún raunverulega meini það sem hún ritar. 

Einokun er aldrei af hinu góða, skiptir engu hvort ríkið standi að henni eða einstaklingar eða fyrirtæki. Sá sem tapar er neytandinn, almenningur í landinu. Samkeppni er hrundið og þess vegna varð Ríkisútvarpið meðalmennskunni að bráð. Dagskráin sem átti að vera fyrir alla varð að ólystugri blöndu sem litlu skilaði en var engu að síður troðið upp á landsmenn, hvort sem þeir vildu eða ekki. Ekkert annað var í boði og því var fólk þakklátt fyrir að minnsta kosti fréttir og veður.

Einokun Ríkisútvarpsins var hins vegar algjört hryðjuverk gagnvart íslenskri þjóðarsál, svo gripið sé til orðalags Ragnheiðar Davíðsdóttur.


Líklega eru margir Snowden í hjarta sínu?

142105_600

Edward Snowden hefur rétt fyrir sér. Hann hefur sýnt heiminum fram á að „stóri bróðir“ fylgist með nær öllum og það er rangt. Jafnvel unnendur frelsis og vestræns lýðræðis hafa verki vaktaðir. Ríkisstjórnir njósna um ríkisstjórnir. Svokallaðar öryggisstofnanir ríkja eru njósnastofnanir og stærsta verkefni þeirra er að njósna um samlanda sína. Þetta er allt svo rangt og öfugsnúið.

Það sem Sowden gerði var að upplýsa um umfang njósna Bandaríkjamanna með eigin borgurum og gegn samherjum. Pólitísk þýðing uppljóstrananna er gríðarleg. Bandaríkjaforseti er óvinsæll í eigin landi og þjóðhöfðingjar og ríkisstjórnir fjölmargra ríkja hafa fordæmt hann.

142038_600

Raunin er hins vegar sú að Bandaríkjaforseti ræður litlu, kerfið hefur tekið yfir. Samlíkin við „1984“ er sláandi nema að svínin eru kerfið sem í upphafi átti að verja borgarana en er nú allt annað.

Tóku menn eftir því er upp komst um að Bandaríkjamenn hleruðu síma kanslara Þýskalands, forsætisráðherra Bretlands og annarra? Hvað gerðist? Jú, samstundis var ljóst að Þjóðverjar stunduðu njósnir á Bandaríkjamönnum, Bretum og öðrum. Bretar njósnuðu um Þjóðverja, Bandaríkjamenn og aðra.

137655_600

Og í þokkabót vissu allir af njósnum og skiptust á upplýsingum eins og bókum á skólabókamarkaði. Svo þagnaði allt, ekkert hefur heyrst í margar vikur.

Annað hvort er þöggunin vegna gagnkvæmra hagsmuna eða verið er að breyta kerfinu. Skyldi það nú verða til bóta? Líklega, því margir hjá njósnastofnunum eru Snowden í hjarta sínu.

 


mbl.is Snowden: Mínu verki er lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítilmótleg leiksýning þetta árið en samt ...

Það er ósköp skiljanlegt að fólk sé óánægt með kjarasamninga sem halda ekki einu sinni í við verðbólgu, hvað þá að þeir veiti launþegum aukin laun.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ segir í viðtali við mbl.is:

Fimm félög innan Starfsgreinasambands Íslands ákváðu að skrifa ekki undir kjarasamning sambandsins á laugardagskvöldið, en ákváðu þó að standa að samningunum, því að félögin drógu ekki til baka umboð sem þau höfðu falið Starfsgreinasambandinu til að gera kjarasamning fyrir sína hönd sem þeim var þó í lófa lagið.  Í þessum félögum eru ríflega 3.000 félagsmenn af þeim 81.000 félagsmönnum sem umræddir kjarasamningar ná til, eða um 4,7%.

Þetta finnst manni undarleg breytni af forystumönnum fimm félaga innan Starfsgreinasambandsins. Láta það duga að rífa kjaft.

Þetta minnir mann á leikritið sem um áratugi hefur verið sett á svið þegar kjarasamningar hefjast. Einn daginn fallast aðilar hreinlega í faðma og hinn daginn rífast þeir eins og gráir kettir. Þetta er bara leikrit. Sett upp til að kasta ryki í augu launþega, fá þá til að halda að verkalýðsrekendur séu nú aldeilis að vinna fyrir kaupinu sínu og sinna gamaldags stéttarbaráttu og launþegakúltúr.

Tímarnir hafa breyst. Í dag ganga ekki svona vinnubrögð. Við lifum á upplýsingaöld, allt er í seilingafjarlægð og samband fólks þarf ekki að vera stirt og erfitt. Svona leikrit var kannski einu sinni skemmtilegt en sá tími er liðinn. Menn þurfa ekki lengur að rjúka á dyr með hurðaskellum, neita að mæta á fundi eða setja verkbönn og verkföll. Nándin milli fólks er miklu meiri en leikararnir vilja vera láta. 


mbl.is „Mér er gróflega misboðið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björgum heiminum og bönnum skötuát ...

Síðustu daga hef ég sem endranær ekið framhjá fiskbúð nokkurri og af fnyknum sem frá henni leggur er víst að verið er að selja Þorláksmessuskötu, dauðkæsta og eitraða. Bíllinn lenti í gær í gangtruflunum sem beinlínis má rekja til lyktarinnar frá fiskbúðinni.

Ótrúlegt er til þess að hugsa að nokkur maður skuli vilja slafra í sig skemmda skötu og telja sér um leið trú um að hún sé holl og bragðgóð. Dæmin eru mörg. Ég þekki fólk sem reynir svo mikið að falla inn í umhverfi sitt að það segir þvert gegn huga sér að skemmda skatan sé góð. Þetta fólk byrjaði á sömu forsendu að reykja. Svo þegar reykingar féllu úr tísku hætti það að reykja af samfélagsástæðum.
 
Ég á systur sem var alin upp í guðsótta og góðum siðum, rétt eins og ég, en tók upp á því að byrja að reykja tóbak. Það tók nokkra áratugi að venja hana af þessum óþvera. Næsta ósið tók hún upp og það var skötuát. Við svo búið mátti ekki standa og hún var send til Suður-Afríku. Þar hafa innfæddir séð svo um að hún borðar ekki skötu enda blómstrar stúlkan sem aldrei fyrr og yngist með hverju árinu sem líður.
 
Út af fyrir sig er ekkert við það að athuga þó frjálsir landsmenn skófli í sig skötu, svo framarlega sem það er gjört án þvingana af nokkru tagi. Hitt er verra og það er hversu náttúran skaðast af vinnslu og áti skötu. Alþjóðlegar rannsóknir hafa sannað að fátt eyðir ósónlaginu en skötuát enda fylgir því afar mikil þarmagassframleiðsla og losun þess sem er gríðarlega hættuleg.
 
Ég hef það fyrir satt að jarðvísindamenn hafi fundið sönnun fyrir því að skötuát á Þorláksmessu auki hættuna á auknu kvikustreymi frá iðrum jarðar með tilheyrandi jarðskjálftum og jafnvel eldgosum. Mér skilst að Jarðfræðistofnun Háskóla Íslands hafi þegar afhent innanríkisráðherra svarta skýrslu um málið.
 
Líffræðingar hafa fundið mjög mikil líkindi með getuleysi karlmanna og neyslu þeirra á skötu. Þetta verður gert opinbert á vegum Íslenskrar erfðagreiningar eftir áramótin.
 
Raunar mælist áhrif skötuneyslunnar á efnahag þjóðarinnar. Á vegum Seðlabankans hafa rannsóknir sýnt að skuldir þjóðarinnar vaxa í réttu hlutfalli við sölu á skötu.  
 
Af þessu má sjá að skötuneysla er stórhættuleg fyrir þjóðina, ríkið, náttúru lands og manna og ekki síður alheiminn. Mál er komið að hætta þessari vitleysu, hreinlega banna skötuneyslu og bjarga þannig heiminum. 
 


Aldrei heyrði ég almennilega hvað hún Helga söng ...

Eitt kostulegasta jólalag sem fyrirfinnst er líklega það sem hin ágæta söngkona Helga Möller syngur og glumið hefur í útvörpum allra landsmanna í tugi ára og er orðið límfast í hausnum á manni. Það eru engin jól nema það heyrist.

Þetta er „auðvitað “lagið „Aðfangadagskvöld“, en textann gerði Þorsteinn Erlingsson og Gunnar Þórðarson samdi lagið. Svona er fyrsta erindið

Eitt sinn voru mjög fátæk hjón, 
tvö að ferðast, dag og nótt, 
uns þau komu í litla borg, 
en konan, var með sótt. 
Það var skemmtun borgin
að hjálpa þeim sem þurftu. 
Og alls staðar var sama svar: 
“Snautið í burtu!” 

Þannig var að í mörg ár gat ég aldrei almennilega heyrt hvað söngkonan tónaði þarna í viðlaginu. Það er svona í opinberri útgáfu:

Það var aðfangadagskvöld, 
fyrsta aðfangadagskvöld að jólahátíðinni, 
þetta aðfangadagskvöld 
fyrsta aðfangadagskvöld 
er enn barnahátíðin mest, 
la la la la barnahátíðin best.

Ég feitletra hérna það sem ég aldrei gat greint, raunar ekki fyrr en ég las þennan texta fyrir nokkrum dögum. Maður þorir varla að segja frá þessu, svo mikið skammast maður sín, en tóneyrað mitt heyrði alltaf sungið:

... er eldvarnarhátíðin best

Mér til varnar er að atkvæðin í misskilningnum eru jafnmörg og hrynjandin hin sama. Auðvitað vissi ég innst inni að þarna væri ég að misskilja eitthvað. Og enn í varnarskyni finnst mér textinn dálítið hnoð, finnst að höfundurinn sé dálítið að rembast þarna. Held að honum hafi oft tekist miklu betur upp. 

Hitt er þó annað mál að ósjálfrátt raular maður með ... eða hummar enda er lagið vel samið. Takturinn kemur samt út með textann í undurfurðulegum skömmtum.

Það var- aðfanga-dags-kvöld, 
fyrsta- aðfanga-dags-kvöld- að jólahátíð-inni, 
þetta- að-fanga-dags-kvöld 
fyrsta- að-fanga-dags-kvöld 
er eldvarnar-hátíðin best
la la la la eldvarnar-hátíðin best. 

Ég bið svo alla aðdáendur lags, texta og flytjanda mikllar afsökunar enda er tón- og brageyra mitt ekki upp á marga fiska, eiginlega til háborinnar skammar.

Þó er ekki laust við að mér þyki þetta dálítið hlægilegt allt saman og sú er eiginlega ástæðan fyrir því að ég segi frá þessu. Maður er náttúrulega alveg stórskrýtinn.

 


Og enn er maður barn ...

IMG_0001Hér er ágætt að það komi fram að ég er genginn í barndóm. Ástæðan er einföld, ég nýt þess að eiga barnabörn. Til einskis er ég nýtur til annars að passa þau þegar foreldrarnir eru í önnum annars staðar og það gerist oft í desember. Það eru björtu hliðar tilverunnar.

Stundum er ég við pössun heima hjá stelpunum en æ oftar koma gista þau hjá mér og þá fer allt á hvolft. 

Þær leggja undir sig íbúðin eins og bera enga ábyrgð, hlaupa um og hasast eins og æskan blæs þeim í brjóst. Svo setjumst við niður og teiknum. Og ekki þarf nema að ein þeirra fari að raula jólalag og þá brestur allt í stórsöng og afi syngur með. Stundum á afi að segja sögu, sérstaklega þegar stelpurnar eiga að fara að sofa. Þá spinnur afi upp endalausar sögur, tekur tillit til allra óska um framvindu þeirra, bætir inn söguhetjum, dýrum, fjöllum og firnindum. Yfirleitt fer í verra þegar maður á að endurtaka sögurnar nokkrum dögum eða vikum síðar. Vefst manni þá tunga um höfuð enda allt gleymt nema hjá sonardætrunum.

IMG_0004

Ég hef hins vegar uppgötvað eitt, sem mér þykir alveg stórmerkilegt, að jólalögin hans Ómars Ragnarssonar, smellpassa fyrir börnin. Þeim finnst hann æðislegur enda eru þau bæði skemmtileg og vel flutt. Ekki er laust við að maður sé dálítið öfundsjúkur út í Ómar, að geta sungið og skemmt öllum börnum á þennan hátt svo ekki sé talað um kynslóð eftir kynslóð.

Annars fannst þeim það alveg stórmerkilegt að hafa fengið í skóinn í gær og skildu ekkert í því hvernig jólasveinni gat áttað sig á því að þær voru ekki heima hjá sér heldur heima hjá afa. 

Og þarna er nú litla fjöskyldan með börnum og barnabörnum. Heiðrún Sjöfn er með dóttur sína, Margréti Ísabellu sjö mánaða,, en Heiðrún býr í Noregi ásamt sambýlismanni sínum Sigmari Ó. Kárasyni. Grétar er með börnin sín fjögur, Rakel, fjögurra ára, situr á hné föður síns, Grétars Sigfinns, og þar er líka Unnur, tveggja ár, lengst til vinstri er svo Íris, sex ára, og fyrir aftan hana er fóstursonur Grétars, Vilhelm Viðarsson, tólf ára, og loks er það Bjarki Rúnar sonur minn. Þau tvö vantar á myndina, Sigmar tengdason minn og Sonju tengdadóttur mína.

Þetta eru nú auðæfi lífs míns. 

 

 


Ruglið og bullið í Sigurði G. Guðjónssyni

Næst mun Flokkurinn gera atlögu að forstjóra Landsvirkjunar og bankastjóra Seðlabankans.

Sigurður G. Guðjónsson heldur vörð fyrir Samfylkinguna og hreytir úr sér ónotum þegar sá gállinn er á honum, sem er æði oft. Helst er honum í nöp við Sjálfstæðisflokkinn og alla sem honum fylgja að málum. Lögmaðurinn segir ofangreint í bloggi á pressan.is.

Í sjálfu sér er það merkileg taktík að ota að fólki alltof miklum upplýsingum í því skyni að rugla umræðuna eða þá að segja svo lítið að fæstir skilja neitt í neinu enda gera þetta þeir sem hafa enga ánægju af málenfalegri og uppbyggilegri umræðu.

Í Pressublogginu stundar nafni minn þá iðju að gera Sjálfstæðisflokkinn ábyrgan fyrir því að Páll Magnússon hvarf úr starfi útvarpsstjóra. Skyndilega er það ekki lengur markmiðið að draga úr rekstri stofnunarinnar eða þá að selja hana eins og Sjálfstæðisflokkurinn hefur svo oft ályktað um. Nei, nú heldur Sigurður G. Guðjónsson því fram að tilgangurinn sé þessi:

RÚV verður áfram rekið í óbreyttri mynd. Stjórn Sjálfstæðisflokksins á því verður tryggð næstu fimm ár með góðum og sauðtryggum Flokksmanni.

Í ljósi þess að ekki er pólitísk samstaða um að draga úr styrk Ríkisútvarpsins með því að hætta að styrkja það með skattpeningum virkar þessi hugmynd nafna míns ljómandi vel. Vandinn er hins vegar sá að sumir töldu Pál Magnússon „sauðtryggan Flokksmann“ ... Eflaust er það kolrangt. Hitt er vitað að lögmaðurinn er bara eins og Góa á Leiti, lætur allt flakka sem honum dettir í hug og er ekki einu sinni góður sögumaður.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband