Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2024

Pópúlistinn Þórunn Sveinbjarnardóttir upphefur sjálfa sig

BarnamálamorðingiMargir stjórnmálamenn eru svo illa málefnalega haldnir að þeir kunna ekkert ráð annað en að gera lítið úr skoðunum andstæðinga sinna og jafnvel niðurlægja þá. Aðferðin gengur þvert á málefnalega rökræðu.

Kjarni aðferðarinnar er að vitna aldrei beint til orða andstæðingsins heldur segja frá þeim með eigin orðum (í óbeinni ræðu).

Síðan er lagt út af hinum meintu orðum með af miklum þunga, gagnrýni og jafnvel hæðni. Markmiðið er augljóst og síst af öllu göfugt.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, alþingismaður, virðist vera geðug kona, þykist buguð undan vonsku heimsins og fellir tár þegar hún fréttir af nothæfum harmi til til að slá um sig með.  

Í Morgunblaðinu 23.1.23 fær hún birta stutta grein eftir sig í henni segir stendur meðal annars:

Fyr­ir helgi skrifaði Bjarni Bene­dikts­son, ut­an­rík­is­ráðherra og formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, sig út úr ábyrgri og lýðræðis­legri umræðu um mál­efni út­lend­inga hér á landi með ósmekk­legri sam­suðu út­lend­inga­andúðar og hræðslu­áróðurs.

Lesendur rekur í rogastans, ekki síst þeir sem þokkalega fylgjast með stjórnmálaumræðunni. Aðrir kunna að samsinna henni af því hún er svo geðþekk. Mjúkmált og elskulegt fólk segir aldrei neitt ljótt um aðra.

Engu að síður er ástæða til að greina stuttlega það sem hún segir um Bjarna Benediktsson, utanríkisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins í áðurnefndri grein:

  1. Skrif Bjarna eru ekki ábyrg.
  2. Skrifin eru þvert á lýðræðislega umræðu um málefni útlendinga.
  3. Skrif Bjarna markast af útlendingaandúð.
  4. Bjarni stendur fyrir hræðsluáróður

Allt þetta er rangt enda getur Þórunn ekki beint á neitt í skrifum Bjarna sem réttlætir ummælin. Þórunn er einfaldlega „popúlisti,“ notar fasískar aðferðir til að gera lítið úr andstæðingi sínum og upphefja sjálfan sig í leiðinni sem væntanlega er tilgangurinn.

Hér er það helsta sem Bjarni sagði í færslu sinni á Facebook.19.1.23:

  1. Hann er ósáttur við að tjaldbúðir á Austurvelli.
  2. Erlendir þjóðfánar eiga ekki að vera fyrir framan Alþingi.
  3. Ekkert land hefur tekið við fleiri Palestínumönnum.
  4. Núverandi fyrirkomulag um hælisleitendamál ætti að vera svipað og hjá nágrannaþjónunum.

Bjarni leggur fram rök sem sumir kunna vissulega að vera á móti. Ekkert í orðum hans stendur undir skítkasti Þórunnar Sveinbjarnardóttur. Þórunn lýgur upp á Bjarna og skammast sín ekki.

Áður en einhver lesandi fari nú að agnúast út í það sem ég segi vil ég taka það fram að persónulega er mér alveg sama um tjöld og erlenda þjóðfána á Austurvelli. Þar að auki er ég hlynntur frjálsu palestínsku ríki rétt eins og stjórnvöld í Bandaríkjunum og víðar vilja.

Hins vegar finnst mér þeir sem búa í tjöldunum á Austurvelli vegi ódrengilega að þjóðinni sem hýsir þá með því að setja skilti á stórt tjald með orðinu „barnamorðaráðherra“. Sjá meðfylgjandi mynd. Að öllum líkindum er átt við íslenskan ráðherra. Við nánari umhugsun kunna Palestínumenn á Íslandi að vera í slæmum félagsskap hérlendra.


Frábær umfjöllun Moggans um atburðina í Grindavík

Screenshot 2024-01-15 at 09.59.09Eldgosið við Grindavík er aðalumfjöllunarefni Mogga dagsins. Aðdáunarvert er hversu vel blaðið er unnið. Ritstjórnin er afar góð og skipulögð og blaðamenn standa undir væntingum lesenda. 

Myndir ljósmyndara Moggans eru afskaplega góðar, vel unnar og klipptar. Forsíðumyndin er sláandi, tekin á þeim tíma dags er við, almenningur, héldum að nú væri öllu lokið, sprungan myndi teygja sig inn í bæinn og glóandi hraun myndi engu eira. Sem betur fer virðist nú að svartsýnustu spár muni ekki rætast. Grindavíkurbær stendur enn og íbúarnir eru eðlilega beygðir en alls ekki brotnir, eins og það hefur verið orðað.

Á einfaldan hátt rekja blaðmenn aðdraganda eldgosa við Fagradalsfjall og norðan Grindavíkur frá því 15. desember 2019 og fram til dagsins í gær, 14. janúar 2024. Mynd Kristins Magnússonar á blaðsíðu fjögur er stórkostleg og sýnir að varnargarðarnir björguðu bænum frá hrauninu sem hafði án efa runnið inn í hann. Um leið sýnir myndin varnarleysið gagnvart eldsprungunni sem opnaðist rétt við bæjarmörkin og eyðilagði þrjú hús. Mynd Árna Sæbergs ljósmyndara á blaðsíðu fimm til sex er tekin úr austri og sýnir á sama hátt jarðeldinn sem ryðst á íbúðarhúsin.

Ég tek sérstaklega eftir hversu allar myndirnar eru skarpar og eftirvinnslan góð.

Viðtölin við heimamenn og jarðvísindamenn eru fróðleg. Athygli mína vakti viðtalið við Vilhjálm Árnason, Grindvíkinginn sem er þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Heimili hans er örskammt frá glóandi hrauninu. Hann segir í lok viðtalsins:

Við eyðum ekki óvissunni með náttúruna, en við getum eytt óvissu fólks hvað varðar húsnæðismál og fjárhag. Það verður líka að hafa svör fyrir fyrirtækin, svo þau flytji ekki varanlega á brott.

Í þessum örfáu orðum felst kjarni málsins eins og sakir standa núna, á öðrum degi eldgossins, og nærri tveimur mánuðum eftir að ósköpin hófust.

Umfjöllun Moggans um eldsumbrotin eru afar góð. Þau eru fræðandi og upplýsandi fyrir almenning.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband