Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009

Ríkisstjórnin er ráðþrota á öllum sviðum

Ríkisstjórnin leggur megináherslu á að skattleggja fólk og fyrirtæki. Hún leggur enga áherslu á að draga úr atvinnuleysi.

Aukin skattlagning á fyrirtæki stuðlar ekki að minnkandi atvinnuleysi. Þvert á móti.

Aukin skattlagning á almenning er vinnuletjandi.

Ekkert hefur dregi úr atvinnuleysi á undanförnum mánuðum. Verðbólgan lækkar ekkert. Verðtryggingin er enn í fullu gildi. Markaður með íbúðarhúsnæði, atvinnuhúsnæði og bíla er vart til.

Þrátt fyrir loforð ríkisstjórnarinnar er enn allt við það sama. Og nú eru að koma jól og ríkisstjórnin vonast til þess að almenningur hafi ekki áhyggjur af Icesave, atvinnumálum og verðtryggingarþjófnaðinum á meðan. Öllu er frestað fram á nýtt ár. 


mbl.is Tæplega 16 þúsund án atvinnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhugaleysi fjölmiðla á Icesave umræðunum

Undirbúningur jólanna er að hefjast og elmenningur hefur um margt annað að hugsa en Icsave - því miður. Þetta vita stjórnarflokkarnir og þeim er nokk sama þótt stjórnarandstaðan tali sig hása um málið. Það mun ekki vekja eins mikla athygli og í sumar. Fjölmiðlarnir hafa einnig eignast allt önnur áhugamál.

Berum nú sama stöðuna vegna Icesave við fjölmiðlafrumvarpið forðum daga. Fjölmiðlarnir linntu ekki látum og var þó það frumvarp um allt minniháttar miðað við Icesave. Nú er það spurningin sem við, almenningur, spyrjum. Hvers vegna er segja fjölmiðlar svo lítið frá umræðum um Icesave á Alþingi. Er áhugaleysi þeirra af sama stofni og forseta Íslands á sama máli'


mbl.is Hvað sagði amma um Icesave?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stræð þorskstofnsins ræðst ekki af gengi krónunnar

Varð hægt að leyfa aukna veiði úr þorskstofninum við það eitt að bankarnir hrundu? Nei, það er ekki orsakasamband þar á milli. Þess vegna verða stjórnmálamenn að hafa bein í nefinu og koma í veg fyrir auknar veiðar og reyna allt sem hægt er til að stækka þorskstofninn.

Gengi krónunnar, skuldir þjóðarbúsins, staða Icesave og sik og prettir einstaklinga og fyrirtækja koma þorskstofninum alls ekkert við. Hann hvorki minnkar né stækkar við atburði á þurru landi.

Sjávarútvegsráðherra hefur lýst þeirri skoðun sinni að ekki eigi að auka við þorskveiðikvótann þrátt fyrir efnahaghremmingarnar. Hann hefur rétt fyrir sér enda ljóst að gengi fiskistofnanna ræðst ekki af gengi krónunnar.

Menn verða einfaldlega að gera sér grein fyrir þeirri hættu sem getur skapast ef farið er að hringla með þessi mál.


mbl.is Veiðisamdráttur skilar árangri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orðfærið sem notað er við réttlætinguna

Tökum eftir undirbúningnum við kynningu á skattahækkunum. Þær eru einfaldlega tær blessun fyrir okkur alþýðu manna á erfiðum tímum. Þau okkar sem eftir verða í landinu munum líta framtíðina björtum augum.

Skoðum orðfærið sem á að gera það að verkum að við öll gleðjumst þó af okkur sé skorinn fótur til að auka peningamagn í ríkiskassanum: 

 

  • Réttlæti
  • Jöfnuður
  • Leiðrétting
  • Nýtt, glænýtt
  • Gjald (ekki skattur)

Og svo kemur réttlætingin á stóreignaskattinum og hann á að heita „auðlegðargjald“. Minnir mann á vinstri stjórnina sem vildi draga úr nefndafargani og þar eftir hétu nefndirnar „vinnuhópar“. Vinstri menn hafa nefnilega alltaf verið áhugasamir um orðfærið. Stjórnmálaflokkarnir voru sumir hverjir í lengri tíma kenndir við alþýðu en það dugði þeim lítt til framdráttar.

Tökum svo eftir að rðikisstjornin notar aldrei heildarskattprósentuna, aðeins þann hluta sem ríkisvaldið leggur á en gleymir að nefna hluta sveitarfélaganna. Hvers vegna? Skattprósentan er þannig lægri og lítur betur út í áróðrinum.

Vinstri stjórnin gleymir grundvallaratriði við skattlagningu. Það varðar líka réttlæti og jöfnuð. Vansköttun (orðið er að öllum líkindum fundið upp af ráðgjafa fjármálaráðherra) veldur aldrei neinum vandamálum hjá borgurum landsins. Ofsköttun veldur þeim hins vegar margvíslegum vanda og niðurstaðan verður án efa sú að skattstofninn minnkar.

En hvað getum við gert. Um leið og ríkisstjórnin telur sig hafa leiðrétt ranglæti verðtryggingar og myntkörfulána tekur hún hagnaðinn til baka vegna réttlætisins.

Og enginn talar lengur um Icesave og skuldir óreiðumanna. 

 

 


mbl.is 50 milljarða skattahækkanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tók persónulega á mig Icesave sökina

Ég lenti í því fyrr í dag að skattyrðast við konu hjá fyrirtæki nokkru í Amsterdam sem sér um að leigja syni mínum húsnæði þar í borg. Húnsæðismálin hafa verið í miklum ólestri í tvo mánuði svo ég ákvað að taka upp símann og tala beint við fyrirtækið.

Skemmst er frá því að segja að illa gekk að fá upplýsingar og ég fékk lítt að spyrja nauðsynlegra spurninga. Að lokum var skellt á. Þegar ég hringdi í son minn sem staddur var á skrifstofu fyrirtækisins sagði hann mér að skötuhjúin sem fyrirtækið áttu vildu ekki tala við mig vegna þess að þau héldu að ég tæki upp samtalið. Grunur minn um að þarna væri einhver maðkur í mysunni fannst mér staðfestur. Loks náði ég sambandi við karl einn sem reyndist illa að sér í málinu og frammí fyrir honum gjammaði stöðugt kona sem valdi mér hin verstu orð.

Það er út af fyrir sig allt í lagi að fá á sig gusu en út yfir allan þjófabálk tók þegar hún tók að ásaka þjóð mína um mikla glæpi. Í lauslegri endursögn sagði hún að Íslendingar væru gjaldþrota þjóð sem hefðu skaða fjölda fólks í Hollandi og við ættum ekkert erindi þar upp á dekk. Við lá að hún segði það engu skipta fyrir okkur feðga hvorum megin réttur okkar væri staðsettur.

Með alkunnri samningatækni og persónutöfrum gat ég þó róað konuna og eiginmann hennar og sagðist mikið vilja biðjast afsökunar á þeim skaða sem ég og aðrir Íslendingar hefðu valdið hinni miklu þjóð Hollendinga. 

Með því að leggjast í duftið og viðurkenna allar sakir síðan Jón Hreggviðsson sveik meinta prestsfrú í Amsturdammi og þar til Landsbankamenn prönguðu Icesave upp á saklausa niðja hennar, minnir að ég hafi líklega í leiðinni tekið á mig persónulega strand Het Vapen Van Amsterdam á Skeiðarársandsfjöru 1667. Og ekki fyrr en þá fékkst konan til að ræða leigumál Bjarka Rúnars sonar míns.

Vænti ég þess að Bjarki minn fái nú einhvern stað til að halla höfði sínu og nema þau fög sem hann vill. Til viðbótar við skuld mína vegna Icesave bætist nú greiðsla fyrir strandgóssið. Á móti kemur að nú þarf ekki lengur að skatta aðra landsmenn fyrir Iceave. Hefur því nokkuð til unnist á föstudeginum 13 þó ég hafi ekki glóru um það hvernig ég á að punga út fyrir öllu þessu sem ég lofaði.


Margir góðir Sjálfstæðismenn hlyntir inngöngu í ESB

Þorsteinn Pálsson skuldar engum skýringar á viðhorfi sínu til Evrópusambandsins né heldur þarf hann að tíunda þær ástæður sem hann hefur fyrir því að gerast einn af samningamönnum Íslands vegna hugsanlegrar inngöngu í sambandið. Skiptir þar engu þó hann hafi verið formaður Sjálfstæðisflokksins.

Deilt er um inngöngu þjóðarinnar Í ESB. Fjöldi málsmetandi Sjálfstæðismanna er hlyntur inngöngunni og meðal þeirra má nefna Vilhjálm Egilsson, fyrrum samþingmann Sturlu Böðvarssonar sem nú er farinn að krefjast skýringa á gjörðum Þorsteins. 

Það er ágætt að menn hafi rök fyrir afstöðu þeirra. Hins vegar er engin ástæða fyrir Sturlu að gera lítið úr því fólki sem vill inngöngu í ESB. Ákveðið hefur verið að sækja um aðild og þess vegna er brýnt að við samningaborðið sé úrval góðra manna. Nær hefði verið fyrir Sturlu að gagnrýna fyrirhugað inngöngu heldur en að gera að því skóna að í samninganefndinni séu taglhnýtingar utanríkisráðherra og hans liðs sem ætlar að láta Icesave yfir þjóðinga ganga án athugasemda. Það er bara allt annað mál.

Ekki var ég alla tíða alls kostar hress með störf Sturlu sem ráðherra eða þingmanns. Ég er þó ekki meiri eða minni Sjálfstæðismaður fyrir því enda hafa menn leyfi til að mynda sér skoðanir jafnvel þó að þær fari í sumu eitthvað þversum á við stefnu flokksins eða þess sem ráðherrar eru að bardúsa.

Hvað halda menn annars að stjórnmálaflokkur sé? Safn skoðanalausra einstaklinga? Það er aldeilis ekki það sem ég hef reynt í Sjálfstæðisflokknum, hver svo sem reynsla Sturlu er.

Grundvallaratriðið er þó þetta. Fjöldi fólks er síður en svo sátt við framgöngu stjórnmálamanna fyrir hrunið og ekki síður eftir það. Þetta fólk óskar eftir því að styðjast við stórt ríkjasamband þó ekki væri til annars en að koma í veg fyrir aðra eins kollsteypu og þjóðin er nú að ganga í gegn. Stjórnmálamennirnir brugðust þjóðinni og það er ástæðan fyrir hruninu. Stjórnmálamennirnir brugðust okkur og þess vegna liggur Ícesave á þjóðinni eins og mara. Stjórnmálamennirnir brugðust okkur og þess vegna er verið að skattleggja þjóðina nær því út yfir gröf og dauða.

Úr því sem komið er vil ég gjarnan sjá hvaða samning hægt er að ná við ESB. Þess vegna skiptir mestu máli hverjir eru í samninganefndinni. 


mbl.is Þorsteinn skuldar skýringar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Já, marautt í Húnavatnssýslum

a_onytt.jpg

Vilji svo til að nokkur snjókorn falli á Akureyri eru fyrirsagnir í fjölmiðlum og upphrópanir í sjónvörpum og hljóðvörpum iðulega á þá leið að nú snjói á Norðurlandi.

Ánægjulegt er að Mogginn skuli ekki falla í þá gryfju.

Norðurland er auðvitað langtum víðfeðmara en Akureyri og veðurlag mismunandi eftir stöðum. Þegar þetta er ritað er snjólaust í Húnavatnssýslum, að minnsta kosti á láglendi. Veður undanfarna daga hefur verið svo afskaplega gott að áhugasamir golfarar hafa meira að segja getað tekið hringi á golfvöllum á Skagaströnd og Blönduósi.

Meðfylgjandi mynd er tekin við höfnina á Skagaströnd fyrsta dag nóvembermánaðar. Lognið var algjört, eins og svo oft áður. Gamli strompurinn á síldarbræðslunni speglar sig í sjónum svona yfir sig ánægður enda orðinn um sextíu ára gamall.


mbl.is Vetrarfærð austan Skagafjarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband