Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2013

Ótímabærar yfirlýsingar um haustkomu

Mbl

Fljótfærnislegar yfirlýsingar eru alltaf leiðinlegar, hvort sem stjórnmálamenn eða aðrir gefa þær. Björn Már Ólafsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, gefur eina slíka í blaði sínu í morgun og það afar ódýra. Í frétt hans um veðrið í gær segir hann í myndatexta:

Hvít jörð Snjór féll á láglendi í gær. Þessi mynd var tekin í Tungudal á vefmyndavél Vegagerðarinnar um kvöldmatarleytið í gær. Haustið er komið. 

Þó svo að kröpp síðsumarlægð hafi heimsótt landið og gránað hafi í jörð sums staðar er sumarið ekki liðið. Hér í Reykjavík eru víða um land tveggja stafa hitatölur, rétt aðeins lægri á Norðurvesturlandi og á Akureyri.

Hvergi eru lauf á trjánum farin að sölna, berin eru enn ósprungin, næturfrost hefur ekki eyðilagt kartöflugrös og allt er bara gúddí í veðrinu.

Og hvers vegna er ég að fjalla um meint haust. Jú, ég er ferlega pirraður á þeirri fjölmiðlavíkingareglu að haustið sé skollið á strax eftir verslunarmannahelgi og í byrjun september séu jólin að koma. Og núna í fjögurfréttum ríkisútvarpsins var því skellt framan í hlustendur að bæjarhátíðir hafi víða verið haldnar í tilefni sumarloka.

Höfuð það á hreinu að lok ágúst og byrjun september eru ekki sumarlok, haustið er ekki komið nema því aðeins að náttúran sýnir þess glögg merki og þau eru mörg. Sá sem þarf að spyrjast fyrir um þessi merki er einfaldlega ekki sá sem gefa skyldi yfirlýsingar um veðurlag.

Annars skal þess getið að áðurnefndur blaðamaður á Mogganum er bara ágætur skríbent. 


Móskarðshnúkar gráir en ekki Vífilsfell

Myndin sem fylgir frétt Morgunblaðsins undir fyrirsögninni „Verkefnum björgunarsveita lokið“ er ekki af Esjuhlíðum heldur Móskarðshnúkum eins og allir vita eða ættu að vita. Hægra megin sér í hlíðar Skálafells og á milli er Svínaskarð, þar lá forðum þjóðleið.

Annars er hæsti hnúkur Móskarðshnúka  807 metra hár. Til samanburðar er Vífilsfell 655 metra hátt. Þó gránað hafi í Móskarðshnúkum alveg niður fyrir Bláhnúk sem er í um 600 m hæð er Vífilsfell eins og öll Bláfjöllin, blá og snjólaus.

Hvers skyldi nú ástæðan vera? Úbs, ég þarf líklega að geta þess að Vífilsfell er um 23 km í suður frá Móskarðshnúkum. Auðvitað vita allir hvar Vífilsfell er ...


mbl.is Verkefnum björgunarsveita lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Taka á upp samkeppni á milli grunnskóla

Samtryggingakerfi hefur myndast innan borgarkerfisins. Upplýsingar um námsárangur eiga að vera leyndarmál en ekki opinberar. Eitthvað sem nefnt er orðskrípinu „lestrarskimunarkönnun“ er nú til umræðu en það mun vera könnun á lestrarkunnáttu sjö ára barna í grunnskólum borgarinnar sem fer stöðugt hrakandi. Stjórnendur skóla vilja halda þessum upplýsingum leyndum, ekkert má raska ró þeirra.

Foreldrar og aðrir aðstandendur barna vilja auðvita sínum sem allra best og góður árangur skóla í lestrarkennslu er þvílíkt grundvallaratriði að ekkert annað kemst í hálfkvisti. Þess vegna á að krefjast þess að niðurstöður þessarar könnunar verði gerðar opinberar. Með því er sett pressa á skólana að standa sig betur og veitir ekki af.

Af hverju má ekki vera samkeppni á milli skóla í Reykjavík? Hvað er að því? Aðalatriðið er að skólar standi sig vel og helst afburðavel. Framtíð þjóðarinnar byggist á menntun og aga í skólum. 


mbl.is Birting verði ekki opinber
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrýtinn máltilbúnaður utanríkisráðherrans

Stundum er það með þingmenn og ráðherra Framsóknarflokksins að þeir virðist sjá allt á haus eða afturábak, rétt eins og sagt var að andskotinn læsi biblíuna.

Það er bara ekki forsvaranlegt annað en að hætta aðildarviðræðum við ESB, draga umsóknina til baka. Munum að Össur Skarphéðinsson, gerði sem utanríkisráðherra hlé á þessum viðræðum. Nú er bara komin önnur ríkisstjórn og báðir flokkarnir sem að henni standa eru á móti aðildinni.

Hvers vegna í ósköpunum er þá ekki hægt að slíta viðræðunum og gera það með einfaldri þingsályktun á Alþingi? Eftir hverju í fjandanum er verið að bíða? Hvers vegna var þetta ekki gert á sumarþinginu?

Ég botna lítið í utanríkisráðherranum. Hann er búinn að vera það lengi á þingi og nógu lengi sem ráðherra að hann á að halda friðinni, hætta þessum leiðindaupphlaupum og vinna vinnuna sína. Þar með talið að fá ríkisstjórnina til að leggja fram þingsályktun um að Ísland dragi umsóknina að ESB til baka. Má annars ekki ræða þetta mál á þingi? 

Burtu með þetta mál og förum að vinna í öðrum knýjandi málum sem bíða afgreiðslu ríkisstjórnar og þings. 


mbl.is „Orð þingmannsins dæma sig sjálf“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er jökuláin kaldari en sú blátæra?

920709-170
Loksins þig ég þekki, fljóð!
þvílíkt hjarta ég aldrei sá:
það er heitt sem Heklu-glóð,
heljarkalt sem Jökulsá.
 
Svona orti Guðmundur Guðmundsson (187-1919) sem hafði viðurnefnið skólaskáld, en Halldór Blöndal nefnir hann í þeim skemmtilega dálki sem nefnist Vísnahorn og má finna daglega í Morgunblaðinu en þar eru í dag birt ljóð og vísur eftir Guðmund.
 
Ekki ætlaði ég að fjalla um ljóð að þessu sinni enda þótt þau séu mér ávalt hugstæð enda varla til sú listgrein sem er henni fegurri.
 
920709-33
Margar árnar og fljótin hef ég vaðið á ferðalögum mínum um landið og yfirleitt alltaf formælt þeim farartálmum vegna þess hversu kulsækinn ég er á fótum. Það lagaðist um leið og ég komst yfir forláta „sokka“ eins og brimbrettafólk notar. Fyrir vikið get ég vaðið þvers og kruss án þess að finna fyrir kulda.
 
Hins vegar fannst mér yfirleitt blátæru árnar oftast miklu kaldari og verri viðureignar en jökulárnar. Og ég held að þetta sé óumdeilanlegt.
 
Jökuláin er gruggug og vitneskjan um að hún komi úr jökli er kuldaleg staðreynd en ekki endilega raunveruleg. Tær dragá eða lindá er yfirleitt skítköld nema þær séu þeim mun grynnri og rennslið hægt. Ef til vill er ástæðan sú að gruggið í jökulám dregur í sig sólarljósið og hitna þannig fyrr en tært vatnið.

Alþingi afturkalli ESB umsóknina

Því er haldið fram að þingið þurfi ekki að afturkalla umsókn að Evrópusambandinu sem síðasta ríkisstjórn fékk samþykkta í júlí 2009. Eflaust má færa rök fyrir því að svo sé. Hitt er hreinlegra og skýrara að þingið samþykki einfaldlega nýja ályktun sem kveði á um að ríkisstjórninni sé heimilt að draga umsókn að ESB til baka.

Að þessu leiti er ég sammála Jóni Bjarnasyni, fyrrum þingmanni og ráðherra sem segir í grein í Morgunblaðinu í morgun:

Ég tel þó að eðlilegast að alþingi afturkalli ESB-umsóknina formlega, annars hangir hún eins og myllusteinn um hálsinn á ríkisstjórninni. Hún þarf að losna við þann stein sem fyrst og í eitt skipti fyrir öll. Ríkisstjórnin þarf að geta snúið sér að öðrum málum sem hún var kosin til eins og úrlausn skuldamála fjölda heimila og uppgjöri við kröfuhafa bankanna. 

Nóg er af verkefnunum svo ESB umsóknin sé ekki að flækjast fyrir. Ég er eindregið fylgjandi formlegri afgreiðslu þingsins á umsókninni þó ekki væri nema til þess að fólk hætti að ganga í grafgötum um málið.

Stóri misskilningur Ara Trausta um ESB

Ari Trausti Guðmundsson, fyrrum forsetaframbjóðandi, veit ekki hvað felst í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Hann ritað nokkuð langa grein og í lok hennar kemur fram vel orðaður misskilningur sem felst í því að viðræðurnar snúist um samning:

Ef þessari afstöðu er öfugt farið, meirihluti fólks vill ekki skoða aðildarsamning til að greiða um atkvæði (og er andsnúinn aðild að fyrra bragði), getur tveggja flokka stjórn, með ólíkan skilning á ákvæði í stjórnarsáttmála sínum í þessum efnum, andað léttar, líkt og meirihluti þjóðarinnar. Ella stefnir í óefni. 

Í sjálfu sér er það ágæt stefna að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsókn að ESB. Hitt er annað hvort þekkingarleysi eða eitthvað enn verra að halda að viðræðurnar snúist um samning. Það gera þær ekki heldur eru til þeirra stofnað til að Íslendingar geti sýnt og sannað hvernig þeir hafa tekið upp eða ætla sér að taka upp lög, reglur og stjórnsýslu ESB.

Getum ekki sýnt fram á þetta með óyggjandi hætti munu ESB ríkin ekki samþykkja aðildina. Þau ætla sér nefnilega ekki að hleypa ríki inn í sambandið á öðrum forsendum en þau eru þar. Þess vegna er enginn samningur nema ef vera skyldi að ESB og aðildarríkin myndu vilja samþykkja einhverjar undanþágur, en þær verða aldrei annað en tímabundnar. Þetta er ástæðan fyrir því að viðræðurnar skiptast í 35 kafla eftir viðfangsefnum. Og hver skyldi hafa fundið upp þessar aðlögunarviðræður. Jú, auðvitað ESB.

Ari Trausti Guðmundsson er ekki einn um þennan misskilning að halda að um samningaviðræður sé að halda. 

 


Dvínar gildi þingsályktunar með breyttum þingmeirihluta?

Þingsályktun fellur ekki beinlínis niður eða úr gildi við kosningar eða þegar þingstyrkur að baki henni breytist, en varði hún umdeilt pólitískt stefnumál getur framkvæmd hennar verið undir því komin að stefnumálið njóti áfram tilskilins stuðnings í þinginu.

Ef þingstyrkur að baki þingsályktun breytist eða hverfur hlýtur pólitísk þýðing slíkra fyrirmæla að dvína í samræmi við það og eftir atvikum fjara út, t.d. ef meirihlutinn missir umboð sitt í kosningum.

Pólitísk þýðing þingsályktunar helst þannig í hendur við þann meirihluta sem er í þinginu hverju sinni og tryggir að völd og ábyrgð fari saman.

Ofangreint er úr lögfræðiáliti starfsmanna utanríkisráðuneytisins vegna aðildarumsóknarinnar að ESB (greinaskil eru mín). Björn Bjarnason fyrrverandi þingmaður og ráðherra ræðir þetta mál á Evrópuvaktinni og segir:

Í álitsgerðinni er fjallað um hvort þingsályktanir „geti haft bindandi áhrif á stjórnvöld umfram það sem leiðir af þingræðisreglunni“ það er af þeirri reglu að ríkisstjórn beri á hverjum tíma að hlíta vilja meirihluta alþingis, meirihlutinn geti sett ríkisstjórn af með ákvörðun sinni.

Í fljótu bragði er ég ekki alveg sammála Birni. Þingsályktun hlýtur að halda gildi sínu hvernig svo sem meirihluti þingsins er skipaður, jafnvel þó þingsályktunin sé pólitísk. Þingsályktun er auðvitað ekkert annað en pólitísk yfirlýsing hvert svo sem efni hennar er. Hún hlýtur að gilda þangað til önnur ályktun um sama efni er samþykkt. 

Þingsályktun um aðildarumsókn að ESB sem samþykkt var í júlí 2009 gildir þar til þingið samþykkir að afturkalla hana. Þó svo að þingmeirihluti hafi breyst er ekkert sem sannar það annað en ný ályktun.

Mér finnst ótrúlegt að lögfræðingar utanríkisráðuneytisins álíti sem svo að efni þingsályktunar „dvíni“ eða „fjari út“ með breytingum á meirihluta. Formið er slíkt að ályktun hlýtur að halda gildi sínu sé henni ekki breytt. 

Að mínu áliti skiptir hér mestu formfestan í störfum þingisins, að það sé ljóst hver sé skoðun þess hverju sinni, ekki aðeins í samtíð heldur þegar síðar meir er litið til baka. 


Stjórnmálalegur vandi ekki efnahagslegur

Sagt var forðum að vel gefast ráð sem veitt eru af bestu manna yfirsýn. Þetta veit Bjarni Benediktsson og sækir nú ráð til valinkunnra manna. Þetta er ekkert stórráð heldur fjórmenningar sem flestir eru kunnir af fræðimennsku og störfum fyrir atvinnulífið. Þau eru Ragnar Árnason, Þráinn Eggertsson, Orri Hauksson og Guðrún Inga Ingólfsdóttir.

Sérstaklega ber að fagna aðkomu Þráins Eggertssonar, fyrrum prófessor við viðskiptadeild Háskóla Íslands. Á síðasta ári var honum til heiðurs á sjötíu ára afmæli haldin ráðstefna. Í því tilefni sagði hann í viðtali við Morgunblaðið:

Mikilvægustu niðurstöður þessarar fræðigreinar sem ég hef rannsakað eru að þær þjóðir sem hafa dregist aftur úr glíma fyrst og fremst við stjórnmálalegan vanda en ekki efnahagslegan. Vandinn er alla jafna sá að þeim hefur ekki tekist að skapa þjóðríki sem veitir nauðsynlega opinbera þjónustu, heldur ríki þar sem valdaklíkur vaða uppi og úthluta bitlingum til stuðningsmanna sinna.

 


mbl.is Fjármálaráðherra stofnar efnahagsráð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upplýsingakort af Gálgahrauni

Gálgahraun

Hér er afskaplega fallegt kort af Gálgahrauni eftir Ólaf Valsson og Árna Tryggvason. Mér finnst ástæða til að birta það hér.

Það fékk ég úr grein Eiðs Guðnasonar, fyrrverandi, en hún birtist í Morgunblaðinu í morgun.

Á kortinu má glögglega sjá hversu ruddaleg vegargerðin í gegnum hraunið er. Það klýfur það nánast í tvennt og gerir útaf við fornar götur sem um það liggja og eru enn notaðar af útivistarfólki.

Í trausti þess að enginn mótmælti var leyfði byggð syðst í hrauninu og þess gætt að þar væri núverandi Álftanesvegur svo mjór að hann dygði sem rök fyrir nýjum.Þetta er heimtilbúinn vandi og verður ekki leystur með því að ganga á náttúruminjar sem eru einstakar á höfuðborgarsvæðinu.

Ég skora á þá sem hafa ánægju af útivist að ganga nú um Gálgahraun og helst alla leið út á Eskines. Ekki síst er gaman að rölta um hraunið með börnum og segja þeim frá eldvirkninni.

IMC_0128_Sprunga_b._

Þetta fallega hraun er þannig að sá sem einu sinni kemur þangað tekur við það ástfóstri og leggst gegn öllum framkvæmdum sem spilla því. 

Um grein Eiðs Guðnasonar, fyrrverandi, vil ég segja það eitt að hann kann eflaust margt betur en að vera málaflutningsmaður. Hann hefur einstaklega óglaðan stíl, brúkar ekki greinaskil og þekkir ekki eðli millifyrirsagna. Svo er hann vís með að hrekja gott fólk frá með pólitísku hnútukasti.

En nú er Vegagerðin komin af stað og þá veitir ekki af því að fá allar hendur upp á dekk og mótmæla framkvæmdunum. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband