Barion, frelsissvipta og stíga niður úr stjórn

Orðlof

Í því liggur galdurinn

Mér finnst miður þegar orðasambönd úr erlendu máli eru tekin upp nánast hrá og klædd íslenskum búningi, t.d. hið enska „see the light at the end of the tunnel“. Í beinni þýðingu á íslensku ætti myndin að vera að sjá ljósið fyrir enda ganganna en myndmálið er naumast gagnsætt í íslensku. Annað þessu líkt er orðasambandið „we are talking about“ en nú er mörgum tamt að segja að „við séum að tala um“.

Jón víkur aftur tali sínu að grunnskólum, þar sem undirstaðan undir líf og starf fólks er jafnan lögð. Slakur lesskilningur drengja 10. bekkjar er mörgum áhyggjuefni og telur Jón það geta tengst því að kennarastarfið hefur löngum verið lágt metið í samfélaginu.

„En hver sem er ástæða slaks lesskilnings verður að teljast brýnt að bregðast við og það er ánægjulegt að sjá að slíkt hafa þar til bær yfirvöld og samtök kennara gert. Fyrst og síðast þurfum við að fá ungt fólk til þess að lesa góðar bækur, skrifaðar á blæbrigðaríku og góðu máli. Í því liggur galdurinn.

Morgunblaðið 18.11.2019, blaðsíða 6, viðtal við Jón G. Friðjónsson sem hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Leik­vang­ur­inn er staðsett­ur í höfuðborg Dan­merk­ur, Kaup­manna­höfn, og tek­ur um 28 þúsund manns í sæti.“

Frétt á mbl.is.                 

Athugasemd: Í fréttinni er fjallað um heimaleik landsliðs karla í fótbolta í mars á næsta ári. Vegna aðstæðna að vetrarlagi í Reykjavík er hugsanlegt að leikurinn verði færður til Kaupmannahafnar. 

Tilvitnunin hljómar eins og misheppnað grín. Þarf að taka það fram að Kaupmannahöfn sé höfuðborg Danmerkur? Eða er þetta þýðing úr erlendu máli?

Óþarfi er að segja að leikvangurinn sé „staðsettur“ í Kaupmannahöfn? Hann er þar. 

Tillaga: Leikvangurinn er í Kaupmannahöfn og tekur um 28 þúsund manns í sæti.

2.

„Í um­ræddu hús­næðinu var Ari­on banki áður til húsa og þannig er nafn staðar­ins til­komið.“

Frétt á mbl.is.                 

Athugasemd: Maður nokkur kaupir hús þar sem áður var útibú Arion banka. Hann ætlar að opna sport- og veitingastað. Honum finnst það viðeigandi og fyndið að kalla staðinn Barion, bætir bókstafnum b fyrir framan bankaheitið. Úr verður merkingarleysa, bull. 

Ekki virðist flögra að honum að kalla hinn nýja stað íslensku nafni, skemmtilegra er að búa til ónefni. Ha, ha, ha ... óskaplega fyndið nafn.

Tillaga: Engin tillaga.

3.

„Einnig taldi dómurinn sannað með framburði vitna og gögnum um staðfestingar símtækja að hinn ákærði hefði síðar sama dag frelsissvift brotaþola …“

Frétt á visir.is.                 

Athugasemd: Orðalag lögmanna er aðalstofnanamál þjóðarinnar, þeir mynda „nafnorðasagnir“ eins og  að „frelsissvipta“ þegar við dauðlegir höldum að segja megi að maður hafi svipt annan frelsi, haldið honum föngnum, rænt honum eða eitthvað álíka.

Löggan vill líkjast lögmönnum, saksóknurum og dómurum og talar blending af þessu til að halda uppi greinilegum skilum á milli hennar og alþýðunnar.

Blaðamenn kikna í hnjáliðum og roðna af aðdáun þegar þeir lesa dóma og lögguskýrslur og skrifa svo sjálfir hástemmt nafnorðavætt mál sem þeir dást að en við, þessir dauðlegu skiljum lítt. 

Blaðamaðurinn þarf að læra á stafsetningaforritið í tölvunni - og nota það. 

Tillaga: Engin tillaga.

4.

„Mikael fékk tvö þung högg í leiknum og þurfti að fara af velli í seinni hálfleik vegna meiðsla, en hann lagði upp fyrsta markið á Birki.“

Frétt á blaðsíðu 27 í Morgunblaðinu 18.11.2019.                 

Athugasemd: Í fótbolta er orðalagið að leggja upp notað þegar leikmaður sendir boltann á samherja sinn sem síðan skorar, yfirleitt eftir eina eða tvær snertingar. Í ofangreindri tilvitnun um landsleikinn við Moldavíu er ofmælt að Mikael hafi lagt upp mark því eftir að Birkir fékk boltann þurfti hann að leika á tvo eða þrjá andstæðinga, nota til þess margar snertingar þangað til hann skaut og skoraði milli fóta markmannsins. 

Ég vildi nú bara koma þessu að sem áhugamaður um fótbolta. Aðalatriðið er hins vegar að landsliðið skoraði tvö mörk og þar fyrra gerði Birkir. Hefði liðið skorað fleiri hefði verið rétt að segja að maðurinn skoraði það fyrsta.

Mælt er með því að nota punkt sem oftast. Í ofangreindri málsgrein er annars vegar talað um meiðsli og hins vegar um mark. Vel hefði farið á því að hafa punkt á eftir „meiðsla“. Síðan hefði komið ný setning.

Í fréttinni segir:

Liðið saknaði Kolbeins, eftir að hann fór af velli. 

Ég skil ekki þessa málsgrein. Má vera að blaðamaðurinn dragi þessa ályktun af leik liðsins eftir að Kolbeinn fór af velli. Af hverju getur hann þá ekki sagt þetta hreint út. Til dæmis:

Liðið lék lakar eftir að Kolbeinn fór af leikvelli.

Fréttin er ekki illa skrifuð en blaðamaðurinn þarf að vera gagnrýnni á eigið verk.

Tillaga: Mikael fékk tvö þung högg í leiknum og þurfti að fara af velli í seinni hálfleik vegna meiðsla.

5.

„Þorsteinn Már stígur niður úr stjórn Framherja.“

Fyrirsögn á dv.is.                  

Athugasemd: Þetta er ný útlegging á enska orðalaginu „step down“. Hvernig er að stíga niður úr stjórn fyrirtækis. Úr henni hljóta að liggja tröppur eða stigi. Nei, þetta er bara bull.

Tillaga: Þorsteinn Már hættir í stjórn Framherja.

6.

„María Rut Kristinsdóttir, aðstoðarkona Þorgerðar Katrínar hjá Viðreisn, veltir áhugaverðum steini á samfélagsmiðlinum Twitter.“

Frétt á dv.is.                   

Athugasemd: Hvað merkir orðalagið að „velta áhugaverðum steini“? Held að ég hafi aldrei heyrt það fyrr.

Stundum er sagt að nauðsynlegt sé að velta við hverjum steini. Merkingin er þá sú að vanda þurfi til verka, skoða í öll skúmaskot. Vera má að blaðamaðurinn hnjóti um þennan stein, framlengi orðalagið og taki grjótið bókstaflega.

Stundum er sagt að velta þurfi upp hugmyndum og er þá átt við að leggja þurfi hausinn í bleyti, hugsa sig vel um. 

Fréttin, ef frétt skyldi kalla, er frekar illa skrifuð og erfitt að skilja hana. Trúlega getur blaðamaðurinn gert betur, í það minnsta að lesa það yfir sem hann hefur skrifað, það gerði hann varla.

Tillaga: María Rut Kristinsdóttir, aðstoðarkona Þorgerðar Katrínar hjá Viðreisn segir áhugaverða sögu á samfélagsmiðlinum Twitter.


Stíga til hliðar, hafa uppi frammíköll og hljóta gott orðspor

Orðlof

Saur

Saur- í Saurbær er það sama og seyra sem merkir: votlendi.

Málfarsbankinn.  

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Þorsteinn Már stígur tímabundið til hliðar.“

Fyrirsagnir á mbl.is, vísir.is. dv.is og samherji.is.                

Athugasemd: Spilling ríkir á mörgum fjölmiðlum, þar er tungumálinu spillt. Þeir sem hætta fyrir fullt og allt eða tímabundið eru sagðir „stíga til hliðar“. Enginn er lengur sagður hætta, leggja niður störf eða víkja. Minniháttar skrifarar þröngva ensku orðalagi inn í íslensku af því að orðin eru svo lík. Þannig er það með enska orðið „step“.

Vera má að orðalagið „stíga til hliðar“ í merkingunni að hætta eða víkja sé fyrir löngu búið að ávinna sér þegnrétt í málinu. Það er miður vegna þess að orðalagið kemur fyrir áhrif fjölmiðlanna í málið og þá einkum á síðustu árum. Benda má á fleiri slæm áhrif sem blaðamenn hafa haft á málið, til dæmis orðalagið „kalla eftir“ og fleiri. Eftir öllu er nú kallað, enginn biður lengur, óskar eftir, krefst eða heimtar.

Ríkisútvarpið er til fyrirmyndar. Í fyrisögn á ruv.is segir:

Þorsteinn Már víkur meðan á rannsókn stendur.

Enska er merkilegt tungumál og fallegt. Þó það sé af germönsku málstofni eins og íslenska eru þau gjörólík. Mestu munar um orðalag, skipan orða í setningu og fleira. Margt er hægt að þýða beint úr ensku yfir á íslensku en oft er það ekki hægt nema að útkoman verði einhvers konar ensk-íslenska sem með réttu nefnd hráþýðing og er ekki til fyrirmyndar.

Enska sagnorðið „to stepmerkir bókstaflega að stíga, einnig að skrefa, ganga, feta og margt fleira. 

Nafnorðið „step“ getur þýtt skref, trappa í stiga, rim í lausum stiga, og margt, margt fleira. „Step by step“ er hægt að þýða beint: Skref fyrir skref.

Ekki fer alltaf saman að vera afburðagóður í ensku og íslensku. Sá sem þýðir verður að búa yfir næmum skilningi á íslensku, hafa talsverðan orðaforða, og bera skyn á blæbrigði málsins. Blaðamaður sem þýðir illa skemmir málið. Illa þýdd frétt er eins og skemmd matvæli í verslun, þau eru ekki hæf til neyslu.

Orðasambönd með enska sagnorðinu „to step“ vefjast ekkert fyrir sumum blaðamönnum, þeir fara einfaldlega illa með þau, menga íslenskt mál með ónýtum skemmdum þýðingum og hirða ekki um góð og gegn orð sem hingað til hafa dugað afbragðs vel.

Hér er stuttleg samantekt um ensk orðasambönd með sögninni „to step“ og þýðingar á þeim, hef birt þetta áður:

  1. Step aside
    • Getur þýtt að hætta.
    • Hvað gerir formaður húsfélagsins sem „stígur til hliðar“? Er hann ekki bara hættur? Ekki stíga til hliðar.
    • Hann getur auðvitað hætt tímabundið, vikið til hliðar, vikið frá, dregið sig í hlé og svo framvegis 
  1. Step back
    • Getur þýtt að hætta við, snúa við, ekki stíga til baka.
  1. Step down
    • Þýðir yfirleitt að hætta, ekki að stíga niður nema það sé ljóst af samhenginu.
    • Formaður húsfélagsins er hættur, stígur ekki niður.
    • Formaður húsfélagsins stígur úr ræðustólnum eða fer úr honum.
    • Sá sem stendur uppi á kassa stígur af honum, frekar fyrr en síðar.
  1. Step something down
    • Minnka eitthvað, draga úr.
  1. Step forward
    • Getur þýtt að bjóðast til einhvers, láta vita af sér og svo framvegis. Ekki stíga áfram.
  1. Step in
    • Getur þýtt að taka þátt í einhverju, taka af skarið. Ekki stíga inn.
  1. Step out
    • Þýðir oftast að fara út. Formaður hússtjórnar vék af fundi. Ekki stíga út. 
  1. Step out on
    • Getur þýtt að halda framhjá maka sínum („stepping out on you/him/her“).
  1. Step something up
    • Getur þýtt að auka við, bæta við. Lögreglan jók viðbúnað sinn, ekki stíga viðbúnaðinn upp.

Niðurstaðan er þessi. Enska sagnorðið „to step“ er sjaldnast hægt þýða með sögninni að stíga nema það sé ljóst af samhenginu. Raunar má segja að það sé afskaplega góð leikfimi fyrir skrifara að finna annað orðalag þar sem enska orðið „step“ kemur fyrir.

Enginn prófarkalestur er á íslenskum fjölmiðlum. Engu að síður hafa fjölmiðlarnir áhrif og margir þeirra og margir blaðmenn fara illa með frelsi sitt til skrifa og birta fréttir.

Spilling í fjármálum virðist vera miklu alvarlegra athæfi en spilling íslenskunnar. Sá sem mútar og svíkur fé er settur í fangelsi, framleiðendur skemmdra matvæla eru stöðvaðir, með öllum ráðum er reynt að ná til þeirra sem smygla fíkniefnum og of hraður akstur er ekki liðinn, hvorki í nágrenni skóla eða annars staðar. 

Ambögubósar í blaðamennsku fá hins vegar að leika lausum hala og skrifa af vanþekkingu og getuleysi. Og enginn gerir neinar athugasemdir eð hjálpar, hvorki ritstjórar, útgefendur né lesendur. 

Tillaga: Þorsteinn Már víkur tímabundið.

2.

„Báðir hækkuðu þeir róminn verulega í ræðum sínum í pontu Alþingis og höfðu uppi frammíköll.“

Frétt á visir.is.                 

Athugasemd: Skrýtið orðalag að „hafa uppi frammíköll“ í ræðustól þingsins. Af fréttinni virðist ekki ljóst hvað gerðist. Má vera að þeir hafi báðir hrópað er þeir „höfðu uppi flutning ræðna“ sinna.

Tillaga: Engin tillaga.

3.

„Verkið er um­fangs­mikið og verður um­ferð steypu­bíla áber­andi, en þeir þurfa að koma 190 ferðir í miðborgina.“

Frétt á mbl.is.                  

Athugasemd: Er ekki átt við að steypubílar þurfi að fara 190 sinnum niður í miðbæ? Eða 190 ferðir? Mér finnst þetta dálítið klúðursleg málsgrein þó ekki sé hún beinlínis röng. Eitt er að verkið er mikið og annað akstur steypubíla.

Tillaga: Verkið er um­fangs­mikið. Steypubílar þurfa að aka eitt hundrað og nítíu sinnum niður í miðbæ.

4.

„… en hann hlaut fyrst gott orðspor sem borg­ar­stjóri Surakarta …“

Frétt á mbl.is.                  

Athugasemd: Orðspor merkir samkvæmt orðabókinni umtal eða það sem sagt er um mann, einn eða fleiri. Hér á orðalagið „að hljóta orðspor“ ekki við. Orðalagið ber keim af þeirri áráttu að nota nafnorð frekar en sagnir. Hið fyrrnefnda einkennir ensku en það síðarnefnda íslensku.

Ofangreind tilvitnun er úr þessari málsgrein:

Hann er fyrsti for­seti lands­ins sem ekki kem­ur úr röðum hers­ins eða yf­ir­stétt­ar stjórn­mála­fólks, en hann hlaut fyrst gott orðspor sem borg­ar­stjóri Surakarta, þar sem hann beitti sér m.a. gegn spill­ingu og fyr­ir aukn­um lífs­gæðum borg­ar­búa.

Málgreinin er of löng og þjáist af skorti á punkti. Betur fer á því að segja að hann hafi getið sér góðs orðs eða hafi verið vel metinn. Óskýrt er hvernig hann geti verið kominn úr „röðum yfirstéttar stjórnmálafólks“. 

Tillaga: Widodo er fyrsti for­seti lands­ins sem ekki kem­ur úr hernum eða eða yf­ir­stétt­ landsins. Hann var gat sér fyrst góðs orðs sem borgarstjóri Surakarta þar sem hann beitti sér gegn spill­ingu og fyr­ir aukn­um lífs­gæðum borg­ar­búa.


Peningafjárhæðir, ögra hættunni og taka upp samtal

Orðlof

Stærsti uppistandarinn

„Stærsti“ þetta og „stærsta“ hitt er sífellt meira áberandi í umræðunni og ber vott um versnandi máltilfinningu, erlend áhrif á tunguna og leti – því vitaskuld er hægt að orða hlutina á betri, svo ekki sé sagt réttari, hátt. Og þeir seku finnast víða; á dögunum las ég hér í blaðinu um fólk sem hljóp „stærstu“ maraþonhlaup og einnig um „stærstu“ kvikmyndirnar. 

Fyrirbærið stórmynd er eitt en ein kvikmynd getur aldrei verið „stærri“ en önnur. Hún getur þó aflað meiri tekna eða kostað meira í framleiðslu en aðrar. 

Fyrir skömmu barst mér fréttatilkynning um skemmtun eins „stærsta uppistandara heims“. Ég bjóst við manni sem væri allt að 220 cm. En þá reyndist viðkomandi tæplega meðalmaður á hæð. 

Morgunblaðið, blaðsíða 30, Ljósvakinn, Einar Falur Ingólfsson, 13.11.2019,  

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Tíu ríkustu fyrirtæki Bandaríkjanna sitja á ótrúlegum peningafjárhæðum.“

Fyrirsögn á dv.is.                  

Athugasemd: Allir vita hvað peningar eru og jafnvel fjárhæðir. Hins vegar vandast málið þegar kemur að orðinu „peningafjárhæðir“. Dreg í efa að það sé gott orð.

Einhvern tímann heyrði ég þetta haft eftir Bjarna Benediktssyni hinum eldra, forsætisráðherra að hann gerði greinarmun á upphæðum og fjárhæðum:

Drottinn allsherjar er í upphæðum, en peningar í fjárhæðum.

Við þetta er ekki öðru að bæta að „peningafjárhæð“ fer í flokk bjánalegra orða eins og ákvarðanataka, valkostur, bílaleigubíll, pönnukökupanna svo eitthvað sé nefnt.

Í fréttinni segir:

Microsoft situr á mestu eignunum samkvæmt frétt CNBC en fyrirtækið er með 136,6 milljarða dollara í lausafé og skammtímafjárfestingum.

Vissulega eru peningar eignir en þarna hefði verið eðlilegra að segja að Microsoft ætti yfir mestu fé að ráða.

Tillaga: Tíu ríkustu fyrirtæki Bandaríkjanna sitja á ótrúlegum fjárhæðum.

2.

„Jarðskjálfti að stærð 5,4 reið yfir á Suður-Frakklandi í morgun. Jarðskjálftinn takmarkaðist við stórt svæði á milli borganna Lyon og Montelimar sem eru í um 150 kílómetra fjarlægð hvor frá annarri. “

Fyrirsögn á visir.is.                   

Athugasemd: Slæmt er að enginn leiðbeinir byrjendum í blaðamennsku, ritstjóri eða aðrir stjórnendur fylgjast ekki með vinnubrögðunum. 

Rithátturinn Suður-Frakkland tíðkast ekki. Nær er að tala um suðurhluta Frakklands eða suður Frakkland. 

Jarðskjálftinn „reið ekki yfir á“ Frakklandi. Þarna er forsetningunni ofaukið. Réttara er að jarðskjálftinn reið yfir suðurhluta Frakklands.

Barnalegt er að segja að borgirnar séu í þessari fjarlægð „hvor frá annarri“. Réttara er að segja að 150 km séu á milli borganna.

Fyrirsögnin fréttarinnar er svona:

Stór jarðskjálti í Suður-Frakklandi

Stundum talar fólk óskýrt og segir skjálti og skrifa það þannig, einnig „Keblavík“, „Reygjavig“, og „kvar“. Í tölvum fjölmiðla eru villuleitarforrit og stafsetningarvillur eiga því ekki að birtast, kunni blaðamaðurinn á annað borð á tölvu.

Fyrirsögnin var síðar lagfærð sem er jákvætt. Annað er óbreytt sem er ekki gott.

Tillaga: Jarðskjálfti að stærð 5,4 varð á milli borganna Lyon og Montelimar en um 150 km eru á milli þeirra.

3.

„Fólk var mikið að ögra hættunni þarna.“

Fyrirsögn á visir.is.                   

Athugasemd: Svona orðalag er ekki bjóðandi. Það er haft eftir leiðsögumanni en verkefni blaðamannsins er auðvitað að færa ummæli til betri vegar, ekki nota það sem viðmælandinn segir í fljótfærni sinni. 

Ögra merkir samkvæmt orðabókinni að eggja, espa, ógna eða hóta. Skylt orðinu ögur sem merkir vík eða vogur. Þar af er dregið orðið ógurlegur og ógn.

Líklega hefur óðamála leiðsögumaðurinn átt við að fólk hafi ögrað forlögum sínum. Sagt hefur verið að æfi hvers manns sé fyrirfram ákveðin, það séu forlög og vissara sé ekki að ögra þeim, þá geti allt breyst, jafnan til verri vegu.

Svo má vera að leiðsögumaðurinn hafi ætlað að segja að fólkið hafi leikið sér að hættunni. Þá gerist annað hvort að fólk sleppi eða ekki.

Ljótt er að segja að fólk hafi mikið „ögrað hættunni“. Þetta er eins og að segja að fólk hafi „mikið lagt“ hellur í garðinum. Betur fer á því að orða þetta á annan hátt.

Tillaga: Fjöldi fólks lék sér að hættunni.

4.

„Mig langar að vísa því til forseta Alþingis og forsætisnefndar að hlutast til um að taka upp samtal við Reykjavíkurborg …“

Staksteinar á blaðsíðu 8 í Morgunblaðinu 13.11.2019.                   

Athugasemd: Í Staksteinum er vitnað í þingmann sem segir ofangreint. Vera má að á Alþingi sé fólk hætt að tala eða ræða saman. Þar „taka menn upp samtal“ eða „orðræðu“. Er svona stofnanamál flottari en „venjuleg“ íslenska?

Sorglegt er að þingmenn geti ekki tjáð sig á eðlilegri íslensku eins og venjulegt fólk.

Tillaga: Mig langar að biðja forseta Alþingis og forsætisnefnd að ræða við Reykjavíkurborg …


Skjálftahrinan mikla við Öskjuop

Screenshot 2019-11-12 at 11.46.24Fjölmiðlar öðlast nýtt líf þegar fréttir berast af jarðskjálftahrinum eða stórum skjálftum. Við leikmenn sem fylgjumst með skjálftavirkni á landinu sperrum hins vegar eyrun þegar engir skjálftar mælast. Í augnablikinu eru misgengin við Grímsey og í Öxarfirði eru til friðs. Sama er með Reykjanes, Mýrdalsjökul og Öræfajökul en Bárðarbunga virðist vera með meðvitund.

Þá víkur sögunni að Öskjuopi. Þar virðast allir þeir jarðskjálftar komi saman sem venjuleg ættu að hrista aðra landshluta.

Tíminn er afstæður í jarðfræðinni og skiptir í raun litlu máli. Hins vegar þekkja flestir gosið sem var í Dyngjufjöllum 28. mars árið 1875. Það var gríðarlegt. Öskufallið hrakti fólk úr sveitum á Austurlandi og fjöldi bæja fór í eyði og fólk fluttist af landi brott. Í gosinu varð Askja til. Fjöllin sigu ofan tómu kvikuþróna sem þar var undir og hluti landsins seig enn neðar og þar er nú Öskjuvatn.

Screenshot 2019-11-12 at 13.14.32Askja er á virka gosbeltinu en eldgosin þar eru ekki alltaf hamfaragos. Þann 21. október 1961 hófst gos í Öskjuopi þar sem nú heita Vikraborgir og eru fallegir gígar. Á tuttugu og þremur dögum rann hraun úr þeim rúma átta kílómetra. Árið 1922 gaus vestan megin við Öskjuvatn og hraunið sem þá rann nefnist nú Mývetningahraun.

Meðfylgjandi er falleg loftmynd frá Landmælingum. Á henni sést Vikrahraun greinilega. 

Nú er í gangi mikil skjálftahrina við suðaustan við Öskjuop. Þarna hafa orðið 247 skjálftar á þremur dögum. Upptök þeirra eru að hluta undir austasta hluta Vikrahrauns og þar í suður. Skjálftarnir sjást betur á græna kortinu sem fengið er af vef Veðurstofunnar.

Screenshot 2019-11-12 at 13.47.24Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að orsök skjálftanna séu kvikuhreyfingar. Ástæðan er fyrst og fremst sú að þeir eru staðbundnir. Þeir hreyfast lítið, færast þó hægt en greinilega til suðurs. Þetta er eins og að horfa á skjálftana í bergganginum sem leiddi til síðasta eldgoss í Holuhrauni.

Verði eldgos á þessum slóðum er líklegt að hraun renni í skarði á milli Dyngjufjalla og Vaðöldu. Um ellefu km eru frá miðju skjálftavirkninnar í beina línu að jaðri Holuhrauns hins nýja. Á milli er Dyngjuvatn og upptök Svartár. Þar er hætt við að ýmislegt geti breyst.

Aftur á móti er ég ekki jarðfræðingur og hef ekkert vit á jarðfræði. Þó hef ég aðgang að berdreymnum náunga sem heldur því fram að þarna verði gos. Hann getur þó ekki frekar en jarðfræðingar svarað því hvenær gjósi.

Eftirskrift

Veðurstofan gaf út eftirfarandi yfirlýsingu klukkan 17:00 (ábyggilega vegna skrifa minna sem líklega voru farin að valda hræðslu, skelfingu, ótta svo ekki sé talað um fjölbreyttari sálarháska, ef ég má orða þetta svo):

Jarðskjálftahrina hófst fimmtudaginn 7. nóvember skammt austan við Öskju og stendur enn yfir. Frá því að hrinan hófst hafa orðið um 700 jarðskjálftar á svæðinu. Stærsti skjálftinn í hrinunni varð laugardaginn 9. nóvember og var um 3,4 að stærð. Einn annar skjálfti stærri en 3,0 hefur orðið í hrinunni til þessa og um 20 skjálftar stærri en 2,0 að stærð.

Engin merki eru um gosóróa heldur er um brotaskjálfta að ræða sem tengjast líklega landrekshreyfingum.

Jarðskjálftahrinur eru tíðar við Herðubreið og Öskju. Veðurstofan heldur áfram að vakta atburðinn.

Auðvitað er þetta rétt hjá Veðurstofunni en sá draumspaki kann þó að hafa rétt fyrir sér. En hvað veit ég svo sem?


Afstöður gegn afstöðum, heildareign og kaka inniheldur leynihinnihaldsefni

Orðlof

Hvor og annar

Orðin hvor og annar eiga ekki að beygjast saman. Orðið hvor á að standa í sama falli og gerandinn (venjulega í nefnifalli) en annar stendur nær aldrei í nefnifalli. 

    1. Þeir ásökuðu hvor annan (ekki: „hvorn annan „).
    2. Þeir horfðu hvor á annan (ekki: „á hvorn annan“). 
    3. Þeir ógnuðu hvor öðrum (ekki: „hvorum öðrum“). 
    4. Þeir stálu hvor frá öðrum (ekki: „frá hvorum öðrum). 
    5. Þeir söknuðu hvor annars (ekki: „hvors annars“). 
    6. Þeir óku hvor til annars (ekki: „til hvors annars“). 
    7. Þeir girntust eigur hvor annars (ekki: „hvors annars“). 
    8. Þær stríddu hvor annarri (ekki: „hvorri annarri“). 

Þetta fer ekki á milli mála í föstum orðasamböndum. 

    1. Þeir töluðu hvor í kapp við annan. 
    2. Þeir ultu hvor um annan þveran.

Hvor og annar eru í fleirtölu ef þau vísa til orða í fleirtölu eða til fleirtöluorða. 

    1. Íslendingar og Grænlendingar hjálpa hvorir öðrum.

Stundum er gerandinn ekki í nefnifalli, þá fylgir hvor gerandanum eigi að síður. 

    1. Siggu og Gunnu dreymir hvora aðra. 
    2. Siggu og Gunnu þykir vænt hvorri um aðra. 
    3. Sagan fjallaði um róg frambjóðendanna tveggja hvors um annan.

Málfarsbankinn. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Eftir upplestur frá höfundi mætast gestir til að ræða kaflann, en í fyrsta þættinum eru það Saga Garðarsdóttir og Jóhann Kristófer Stefánsson sem taka fyrir afstöður gegn afstöðum, innrás tækninnar í einkalífið og ábyrgðartilfinninguna sem fylgir því að taka símtal.“

Frétt í Fréttablaðinu 9.11.2019                 

Athugasemd: Langar málsgreinar verða oftast ruglingslegar og svo er hér. Út í hött er að segja að gestir mætist. Þeir hittast, koma saman.

Afstaða er ekki til í fleirtölu. Blaðamaðurinn hefur enga tilfinningu fyrir málinu.

Hvað merkir að „taka fyrir afstöður gegn afstöðum“. Lesandinn skilur þetta ekki enda er þetta bara innantómt orðagjálfur, bull.

Lokaorðin hljóta að vera grín. Hvaða ábyrgðartilfinning fylgir því að svara í síma? Þetta hljómar eins og félagsfræðileg stúdía sem gerð var á áttunda áratug síðustu aldar í Svíþjóð.

Fréttin er stutt kynning a hljóðvarpsþætti. Umfjöllun blaðamannsins er ekki til þess fallin að vekja áhuga. Þvert á móti.

Tillaga: Engin tillaga.

2.

„Til sölu heildareigin að Lynghálsi …“

Auglýsing á ótölusettri blaðsíðu í Fréttablaðinu 9.11.2019                 

Athugasemd: Hvað er „heildareign“. Gæti verið að öll eignin væri til sölu? Sé svo, af hverju er það ekki sagt? Heildareign er bara rugl.

Í auglýsingunni segir:

Um er að ræða steinsteypt atvinnuhúsnæði, sem er í dag notað sem prentsmiðja, byggt árið 1981 og 2001.

Eitt af vinsælasta orðalaginu hjá blaðamönnum og fleirum er þetta „um að ræða …“ Langoftast má sleppa orðalaginu enda gagnslaust. Ofmælt er að steinsteypt atvinnuhúsnæði sé notað sem prentsmiðja. Betur fer á því að segja:

Atvinnuhúsnæðið er steinsteypt, byggt árið 1981 og 2001. Í því er núna prentsmiðja. 

Auglýsing er illa skrifuð og í henni eru málfarsvillur. Hún er ekki fasteignasölunni til sóma.

Tillaga: Til sölu er öll eignin Lyngháls …

3.

Singles’ Day er stærsti netverslunardagur ársins …“

Myndatexti í kynningarblaði Fréttablaðsins 9.11.2019                

Athugasemd: Hvað er „Singles’ Day“? Blaðamaðurinn gerir enga tilraun til að þýða þetta og við sem skiljum ekki norsku vitum ekkert? 

Margir blaðamenn hugsa ekkert um íslenskt mál, umgangast það af algjöru virðingarleysi og leyfa sér að nota ensk orð án þess að setja þau í gæsalappir. Eflaust segja margir að þetta sé algjört smáatriði. Aftur á móti er líklegt að fjöldi vafasamra smáatriði geti gert útaf við tungumálið.  

Í fréttinni er talað um skoðanakönnum sem var „framkvæmd í Kína“. Menn framkvæma núna allan andskotann, eru fyrir löngu hættir að gera skoðanakannanir eða kanna hug neytenda í Kína eða annars staðar. Staðlað orðfæri blaðamanna er staðreynd.

Blaðamaðurinn talar um „yfirstandandi deilur“ Kína og Bandaríkjanna. Þegar þeim er lokið verður eflaust talað um „óyfirstandandi deildur“. Mér finnst ofaukið að tala um „yfirstandandi“ nóg að tala um deilur. Stundum fer betur á því að tala um ágreining, þrætur, togstreitu og stundum baráttuEnska orðið „conflict“ merki ekki alltaf deilur. Blaðamenn þurfa að hafa samhengið í huga og fjölbreytni í orðavali.

Tillaga: Dagur einhleypra er stærsti netverslunardagur ársins …

4.

„Dagar eintómra fimm-stjörnu dóma voru ekki runnir upp svo að ritdómarar leyfðu sér hreinskiptni í báðar áttir.“

Pistillinn Bakþankar í Fréttablaðinu 9.11.2019.                

Athugasemd: Sjaldnast þarf að lesa lengi til að átta sig á því hvort höfundurinn hafi tungumálið á valdi sínu. Óttar Guðmundsson skrifar reglulega Bakþanka í Fréttablaðinu. Hann skrifar afar gott mál, gjörsamlega villulaust. Stíllinn er lágstemmdur en áhrifaríkur og fróðlegur. 

Mikið óskaplega væri gaman ef til væru fleiri góðir stílistar í íslenskum fjölmiðlum, fólk sem kann að orða hugsun sína. Sumir þurfa bara að vanda sig, láta af hroðvirkninni.

Við hliðina á Bankþönkum stendur í auglýsingu:

Það er jólastemning alla helgina …

Og:

Það eru skemmtilegir viðburðir um alla verslun.

Eftir að hafa lesið sér til ánægju pistil Óttars hvarfla augun að auglýsingunni frá IKEA og við liggur að maður fari að gráta.

Tillaga: Engin tillaga.

5.

„Spáð hraust­leg­um stormi í dag.“

Frétt á mbl.is.                 

Athugasemd: Nei, sko, varð mér að orðið þegar ég sá fyrirsögnina. Þarna er talað um storm, hraustlega storm, ekki vind. Snöfurmannleg fyrirsögn.

Svo las ég fréttina og í henni er vindur hitt og vindur þetta. Þó má blaðamaðurinn eiga það að í síðustu málsgreininni segir hann að á þriðjudaginn muni lægja. Aðrir og illa upplýsir blaðamenn hefðu sagt að „vindur minnki“.

Á vefnum Íslenskt orðanet er þetta:

  1. storminum er í logn slegið
  2. veðrið gengur til hægðar
  3. veðrið hægir
  4. veðrið, storminn lygnir
  5. veðrið; storminn lægir
  6. veðrið, vindurinn dettur niður
  7. vindinn hægir
  8. vindinn kyrrir
  9. vindurinn slotar

Af þessu leiðir að margir og fjölbreyttir kostir eru í boði þegar koma þarf orðum að því er vindinn lægir. Óþarfi að segja að „vindurinn hættir“ þegar lygnir, veðrið gengur til hægðar, storminn lægir eða honum slotar.

Tillaga: Engin tillaga.

6.

„Nýjar kosningar gerðu lítið til þess að höggva á hnútinn.“

Fyrirsögn á visir.is.                 

Athugasemd: Blaðmaðurinn persónugerir kosningar með orðalaginu og lætur sem þær hafi sjálfstæðan vilja. Svo er ekki. Blaðamenn verða að finna orðlag sem hæfir.

Í Íslenskri nútímamálsorðabók segir:

höggva á hnútinn: losa um erfiða stöðu með ákvörðun

Kosningar „höggva ekki á hnútinn“. Í  Mergurinn málsins segir:

Líkingin er trúlega sótt í söguna af Alexander mikla, þ.e. Þegar hann hjó á hinn óleysanlega Gordíonshnút. Að baki afbrigðinu leysa hnútinn gæti þó legið annað og minni. Í fornu máli koma fyrir orðasamböndin ríða/binda e-m hnút, leggja fyrir e-n þraut og leysa knút, leysa þraut og kann líkingin að vera af því dregin.

Á vefnum frettabladid.is segir hins vegar:

Engin skýr niðurstaða þingkosninga á Spáni.

Þetta er mun betri og skýrari fyrirsögn og sannast með þessu að varhugavert er að nota málshætti og orðtök í fréttum nema blaðamenn séu þeim mun betur að sér í íslensku máli. 

Jónas Kristjánsson segir á vef sínum og er orðunum beint til blaðamanna:

Þú þarft að neyða þig til að skrifa stuttar málsgreinar. Þá hefur þú ekki pláss fyrir froðuna, orðtökin, klisjurnar og endurtekningarnar, sem þú mundir annars setja inn. Þessi regla hjálpar þér að fylgja öðrum reglum. Hún spúlar froðunni úr texta þínum.

Ungir blaðamenn ættu ætti að fara yfir námskeið Jónasar heitins. Hugsanlega eiga þeir þá skilið starfsheitið blaðamaður.

Tillaga: Engin skýr niðurstaða þingkosninga á Spáni.

7.

„Já, ég veit alveg að framundan er áhættusamt ferðalag.“

Frétt á blaðasíðu 10 í Morgunblaðinu 11.11.2019.                 

Athugasemd: Þetta er ekki beinlínis rangt. Hver er munurinn á „áhættusömu“ ferðalagi og hættulegu ferðalagi? Líklega er munurinn sáralítill. Margt er engu að síður áhættusamt. Nefna má fjárfestingar, kaup á skuldabréfum eða hlutabréfum. Annað er að klifa fjöll því sum þeirra  eru beinlínis hættuleg.

Séu þetta orð viðmælandans í fréttinni hefði blaðamaðurinn átt að lagfæra þau vegna þess að sá fyrrnefndi ætlar að klíf eitt hættulegasta fjall í heimi. 

Tillaga: Já, ég veit að framundan er hættulegt ferðalag.

8.

„Kökurnar mínar innihalda leyniinnihaldsefni.“

Morgunblaðið, dægradvöl á blaðsíðu 23, 11.11.2019                

Athugasemd: Er ég las þessi orð „innihalda leyniinnihaldsefni“ hló ég upphátt enda stóð þetta í „skrípó“, það er myndasögum Moggans. Fer vel á því að hlægja við lesturinn.

Í gamla daga voru byrjendur látnir vinna við að þýða myndasögurnar. Ekki þótti við hæfi að „virðulegir“ blaðamenn ynnu í „skítverkunum“. Þær voru engu að síður vel þýddar, minnir mig.

Þar sem skopskyn mitt er ekki gott veit ég ekki hvort það var með ráðum gert að nota rassböguna „innihalda leyniinnihaldsefni“. Í það minnsta hló ég og fólkið í kringum mig. Er þá ekki tilganginum náð? Jú, ábyggilega. Vandinn er hins vegar að ekki skilja allir að orðlagið er tóm vitleysa.

Tillaga: Engin tillaga.

9.

„Frumkvöðull að baki fyrirhugaðri byggingu Aldin Biodome við Stekkjarbakka …“

Frétt á visir.is.                

Athugasemd: Hvað þýðir eiginlega „Aldin Biodom“. Ég skil ekki spænsku. Hitt veit ég að glerhvelfinguna á að reisa við í Elliðaárdalnum, skammt frá Stekkjarbakka í Reykjavík eins og þarna kemur fram. Sæti ég í borgarstjórn myndi ég umsvifalaust greiða atkvæði gegn byggingunni þó ekki væri annað en nafnið.

Svona, svona. Þetta er enska og í orðabókinni segir:

A dome-shaped artificial structure enclosing one or more self-contained ecosystems or living environments.

Ja hérna. Mikið skrambi er þetta fallegt. Auðvitað styð bygginguna þegar svona háfleyg lýsing er til á henni, og það á útlensku.

Að vísu er nánari lýsing í fréttinni:

Um er að ræða 4.500 fermetra niðurgrafnar gróðurhvelfingar þar sem verður fjölbreytt vistkerfi sem býður upp á nærandi upplifun, ræktunar- og verslunarrými, græna vinnuaðstöðu, aðstöðu fyrir jóga og fleira.

Og lýsingin á íslensku er jafn háfleyg og á ensku. Velti því þó fyrir mér hvort ekki megi finna annað friðlýst svæði fyrir „bíódómið“. Sé það fyrir mér við Öxarárfoss í ónefndum þjóðgarði. 

Tillaga: Engin tillaga.

10.

„Prófessorinn fannst með hand­leggina ofan í bak­poka.“

Fyrirsögn á frettabladid.is.                 

Athugasemd: Hversu oft hefur maður ekki verið með hendurnar jafnvel allan handlegginn ofan í bakpokanum. Venjulegast finnst það neðst sem leitað er að. Sjaldgæfara er þó að vera með báða handleggina ofan í pokanum, þó það komi nú fyrir. Ég veit um náunga sem var með fótleggi í bakpokanum, notaði hann sem svefnpoka.

Fyrirsögnin vakti enga sérstaka athygli mína. Datt einna helst í hug að prófessorinn hafi verið að gramsa í annarra manna bakpoka. Svo las ég fréttina en skildi fátt. 

Á vef BBC sem virðist vera heimildin er þetta fyrirsögnin:

Russia professor admits murder after woman´s arms found in bag.

Er þetta nú ekki skýrari og betri fyrirsögn? Raunar er frétt BBC mun lengri og ítarlegri. Íslenska fréttin er hins vegar yfirborðsleg.

Tillaga: Rússi með konuhandleggi í poka viðurkennir morð.


Framdi morð á henni, ekkert meik or breik og sóknarleikur eksekjútaður

Orðlof

Staðarfall

Í póstáritun er mælt með því að rita bæði heimilisfang og heiti póststöðvar í þágufalli (svokölluðu staðarfalli):

Jón Jónsson
Álfhólsvegi 100
200 Kópavogi

Málfarsbankinn. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Karlmaður sem grunaður er um morð á breska bakpokaferðalangnum Grace Millane skildi lík Millane eftir í ferðatösku í íbúð sinni, eftir að hann framdi morðið á henni, og fór á Tinder-stefnumót.“

Frétt á visir.is.                  

Athugasemd: Þetta er bókstaflega þvæla. Í sömu málsgrein er tvívegis talað um morð. Nafn hinnar myrtu kemur tvívegis fram. Loks segir að maðurinn hafi „framið morð á henni“. Blaðamaðurinn gat ekki sagt að maðurinn hafi myrt konunaHvernig er hægt að „fremja morð á“ einhverjum?

Svona skrif eru ekki neytendum (lesendum) bjóðandi.

Tillaga: Karlmaður sem grunaður er um morð á breska bakpokaferðalangnum Grace Millane skildi lík hennar eftir í ferðatösku í íbúð sinni og fór á Tinder-stefnumót.

2.

„Þar kom meðal annars fram að Gordon Sondland, sendiherra Bandaríkjanna gagnvart Evrópusambandinu …“

Frétt á visir.is.                  

Athugasemd: Oftast er það orða svo að sendiherrar eru í löndum eða hjá ríkjum. Berglind Ásgeirsdóttir er til dæmis sendiherra Íslands í Frakklandi, og Benedikt Jónsson er sendiherra í Danmörku.

Þetta er þó alls ekki algilt heldur er orðalagið ýmis gagnvart, hjá eða í. Jafnvel á vef stjórnarráðinu er ekkert ráðandi orðalag. Þetta geta lesendur fundið út með því að gúgla „sendiherra í“ og „sendiherra gagnvart“. Í fjölmiðlum er þetta ýmist eða.

Gagnvart er forsetning og var áður gagnvert. Merkir andspænis eða á móti, sjá nánar fróðlegan pistil í Málfarsbankanum.

Í þessu ljósi finnst mér eðlilegra að tala um sendiherra í eða hjá öðru ríki.

TillagaÞar kom meðal annars fram að Gordon Sondland, sendiherra Bandaríkjanna hjá Evrópusambandinu …

3.

„Eitt nýtt flugfélag með tvær þotur og sex áfangastaði er náttúrulega ekki „make or brake“ fyrir íslenska ferðaþjónustu en …“

Frétt á visir.is.                  

Athugasemd: Hvað skyldi nú þetta þýða á íslensku? Blaðamaðurinn hugsar ekkert til okkar sem kunnum lítið í frönsku en dembir þessu á lesendur án samúðar.

Að vísu er þetta haft eftir forstjóra Samtaka ferðaþjónustunnar sem er sigldur maður og klár og sýnir það einna helst með því að tala útlensku í bland við íslensku. Slíkt gerir rýra menn digra.

Hugsanlega er blaðamaðurinn að gera at í forstjóra SAF með því að birta frönskuna hans.

Grínlaust, höldum okkur við útlenskuna. Íslenskan er hvort eð er deyjandi tungumál.

Tillaga: Engin tilaga.

4.

„Mikil vosbúð til fjalla.“

Frétt kl.12:20 á Ríkisútvarpinu 9.11.2019.                 

Athugasemd: Samkvæmt orðabókinni merkir vos köld bleyta. Vosbúð er haft um þann sem er blautur og kaldur til dæmis eftir hrakninga í vondu veðri (málið.is.), til dæmis hann lenti í mikilli vosbúð. Býr við vos.

Varla er hægt að lýsa veðri til fjalla sem vosbúð. Orðið gengur ekki í samhenginu nema því aðeins að verið sé að lýsa ástandi fólks.

Líklega á fréttamaðurinn eða veðurfræðingurinn við að kalt og rigning sé til fjalla, jafnvel slydduhríð, og það er allt annað.

Á ruv.is er fjallað um slæmar veðurhorfur og þar segir:

Veðrið gengur síðast niður suðvestanlands en síðar í öðrum landshlutum.

Setningin er óskiljanleg. 

Tillaga: Blautt og kalt til fjalla.

5.

„… hvernig við vorum að eksekjúta sóknarleikinn.“

Frétt kl.12:20 á Ríkisútvarpinu 9.11.2019.                 

Athugasemd: Rætt var við íþróttamann sem talaði svona um sóknarleikinn. Enskan er ungu fólki orðin svo töm að það getur ekki komið hugsun sinni til skila á íslensku. Er það ekki hin mesta sorg sem hugsast getur?

Þórarinn Eldjárn samdi Íslenskuljóðið og í því er þetta erindi:

Á íslensku má alltaf finna svar
og orða stórt og smátt sem er og var,
og hún á orð sem geyma gleði´og sorg,
um gamalt líf og nýtt í sveit og borg.

Vera má að á íslensku séu hægt að orða allt sem hugsast getur. Hins vegar er tungumálið dautt ef unga fólkið lærir það ekki og kann ekki að beita því.

TillagaEngin tillaga.

 


Seint telst það snilld að fela sögulegar staðreyndir

Má vera að það teljist snilld að gamall samherji skrifi minningargrein um Birgi Ísleif Gunnarsson, fyrrum borgarstjóra, alþingismann og ráðherra án þess að nefna einu orði á þá staðreynd að maðurinn gegndi þessum störfum og embættum á vegum Sjálfstæðisflokksins.

Þetta gerir þó fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins, Þorsteinn Pálsson, sem skrifar snotra grein um fyrrum flokksfélaga sinn í Morgunblað dagsins. Greinin er því merkilegust fyrir það sem höfundurinn virðist ákveðinn að nefna ekki. 

Styrkan og einbeittan vilja þarf til að skrifa um látinn félaga og sleppa því sem hvað mestu skipti í lífi hins látna. Birgir Ísleifur fylgdi alla tíð Sjálfstæðisflokknum að málum. Hann studdi hins vegar ekki Viðreisn og hafði án efa skýr rök fyrir því.

Margir óska þess að geta breytt rás atburða en það er ekki hægt. Þá er alltaf sú leið fyrir hendi að skrifa sig framhjá sögulegum staðreyndum og láta eins og þær séu ekki til. Seint mun slíkt teljast snilld.

 

 


Skoða valkost alvarlega, austlæg átt á dagskrá og blindur blettur

Orðlof

Lukkunnar pamfíll

Pamfíll er sérstakt spil; laufgosi í púkki; náungi: lukkunnar heppnismaður. To. úr d. pamfilius (s.m.), af latn. mannsnafni Pamphilos < gr. Pámphilos, eiginl. ´sá sem er mikið elskaður, sá sem allir unna´, af pan- allt og phílos kær, elskaður.

málið.is. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Klett­ur, um 65 metra hár, gróf sig frá berg­inu og varð frístand­andi.“

Frétt á mbl.is.                 

Athugasemd: Klettur er kyrr, hefur enga getu til að grafa eitt eða neitt. Rofkraftarnir eru meðal annars vindur, vatn, frost og brim. Vatn sem frýs þenst út og sé það í sprungu víkkar hún. Skiptir engu máli hvort frostþenslan er í móbergi eða öðru bergi, eitthvað þarf undan að láta. Ekki þarf að hafa fleiri orð um þetta, allir skilja eðlisfræðina.

Ég skil hins vegar ekki hvernig Mogginn getur komist að þeirri niðurstöðu að klettur geti grafið sig frá bergi sem hann var áður fastur við. Sú eðlisfræði sem blaðamaðurinn byggir frásögn sína er algjörlega óþekkt. Flest bendir þó til að hann hafi skrifað út frá eigin hyggjuviti sem brást gjörsamlega. Hefði ekki verið gáfulegra að tala við jarðfræðing?

Tillaga: Engin tillaga.

2.

„Landsnet er að skoða alvarlega þann valkost að leggja Kröflulínu 1 í jörðu …“

Frétt á blaðsíðu 14 í Morgunblaðinu 5. nóvember 2019.                

Athugasemd: Valkostur er orðskrípi, sett saman úr tveimur orðum sem hafa mjög svipaða merkingu. Betur fer á því að nota orðið kostur í staðinn. Hins vegar er hægt að einfalda orðalagið og láta sagnorðið ráða ferðinni, komast hjá nafnorðavæðingunni eins og gert er í tillögunni hér að neðan. 

Raunar má hrósa blaðamanninum að nota líka orðið kostur. Hann notar því jöfnum höndum „valkostur“ og kostur rétt eins og þau séu bæði góð.

Hvað merkir orðasambandið að „skoða alvarlega“? Er það andstæðan við að skoða eitthvað af léttúð? Sé atviksorðinu „alvarlega“ sleppt breytist merkingin lítið. Ég myndi þó leggja til að í stað þess að skoða sé sögnin að íhuga notuð.

Svo er það ofnotkun ábendingarfornafnsins . Ég er að reyna að venja mig af því að nota það en gengur erfiðlega. Oft má sleppa ábendingarfornafninu án þess að hugsun eða orðalag bíði tjón af.

Tillaga: Landsnet íhugar að leggja Kröflulínu 1 í jörðu …

3.

„Það er aust­læg átt á dag­skrá á land­inu í dag og vind­ur yf­ir­leitt hæg­ur …“

Frétt á mbl.is.                 

Athugasemd: Kæruleysi einkennir stundum fréttaskrif í vefútgáfu Moggans. Birt er „hugleiðing veðurfræðings“, sem hér er hörmulega illa samin og til skammar að Mogginn skuli birta samsuðuna orðrétt.

Hvað er „dagskrá“ veðurs? Hef aldrei heyrt um slíkt. 

Margir blaðamenn og jafnvel veðurfræðingar hafa rýran orðaforða. Oftast er ládeyðan í fréttum slík að látið er nægja að tala um mikinn vind eða lítinn vind. Þó eru til að minnsta kosti 112 orð sem lýsa vindi. Hér er listinn. 

Í fréttinni er talað um að snjókoma sé „viðloðandi“, vindur sé „rólegur“.

Sagt er að búast megi við hálku á vegum „ým­ist er um að ræða glæra­hálku eða snjóþekju“. Hvað þýðir þetta?

Tillaga: Aust­læg átt er á land­inu í dag og lygnt …

4.

„Liverpool er með sex stiga forskot á Englandsmeistarana áður en liðin ganga til leiks en mönnum er enn í fersku minni barátta liðanna um meistaratitilinn á síðustu leiktíð þar sem City hafði betur eftir æsilegan slag.“

Frétt/pistill á blaðsíðu 25 í Morgunblaðinu 6.11.2019.             

Athugasemd: Þetta kallast langloka og er ekki til fyrirmyndar. Blaðamaðurinn er „punktfælinn“, gjarn á langar og flóknar málsgreinar. Hann skeytir engu þó efni hennar sé úr hinni og þessari áttinni. Öllu dembt í sama grautarpottinn.

Annars vegar segir þarna að lið sé með sex stiga forskot á hitt áður en leikur hefst. Þetta er kjánalegt og telst tvítekning, annað orðalagið dugar.

Of margir íþróttablaðamenn eru til vandræða. Þeir geta ekki sagt eðlilega frá eins og flestir aðrir blaðamenn. Þarna stendur „áður en liðin ganga til leiks“ í stað þess að sleppa málalengingum eða að segja fyrir leik.

Í stuttu máli sagt er hefði blaðamanninum ekki veitt af því að fá einhvern til að lesa pistilinn yfir fyrir birtingu.

Tillaga: Liverpool er með sex stiga forskot á Englandsmeistarana. Mörgum er enn í fersku minni barátta þeirra um meistaratitilinn á síðustu leiktíð þar sem City vann eftir æsilegan slag.

5.

„Banda­ríska lög­regl­an hef­ur birt mynd­ir af því hvernig tveim­ur dæmd­um morðingj­um tókst að brjót­ast út úr fang­elsi með ótrú­leg­um hætti í Kali­forn­íu.“

Frétt á mbl.is.              

Athugasemd: Morðingi sem situr í fangelsi er þar vegna þess að dómur hefur gengið í máli hans. Þar af leiðir að óþarfi er að tala um „dæmda morðingja“ sem brjótast úr fangelsi. Þeir væru það ekki nema vegna dóms.

Á vef BBC sem er heimildin fyrir fréttinni segir hins að mennirnir hafi verið „murder suspects“ sem bendir ekki til þess að þeir hafi verið dæmir heldur grunaðir.

Í fréttinni segir:

Lög­reglu­stjór­inn í Mont­erey-sýslu, Jon­ath­an Thorn­burg, seg­ir að tví­menn­ing­arn­ir hafi upp­götvað og nýtt sér blind­an blett í eft­ir­lit­s­kerfi í fang­els­inu.

Ef maður kynni ekki hrafl í ensku væri vonlaust að vita hvað „blindur blettur“ merkir. 

Á vef BBC segir hins vegar:

The local sheriff´s office said the men had exploited a "blind spot“.

Blaðamaður BBC virðist kunna sig og setur orðin í gæsalappir. Sá íslenski veit ekkert hvers vegna.

Tillaga: Banda­ríska lög­regl­an hef­ur birt mynd­ir af því hvernig tveim­ur meintum morðingj­um tókst að brjót­ast úr fang­elsi í Kaliforn­íu á ótrúlegan hátt.

6.

„Fá sömu laun og flug­véla­sæti.“

Fyrirsögn á mbl.is.              

Athugasemd: Hvað skyldu flugvélasæti vera með í laun á mánuði?

Þetta er ein fyndnasta fyrirsögn sem sést hefur á vefútgáfu Moggans í langan tíma.

Tillaga: Engin tillaga.


Klettur sem gróf sig og bananahýði fyrir lærisveina Klopps

Orðlof

Hundruð

Baráttan við „hundruðir“ mun halda áfram til efsta dags. Þetta er eins og líkamsrækt, ekki dugir að láta deigan síga. 

Hundrað (nafnorðið) er hvorugkynsorð – þótt til séu kvenkyns þúsundir. Fleirtalan verður því hundruð, ekkert „ir“, og eignarfall hennar (til) hundraða, ekki „hundruða“.

Málið, Morgunblaðið, 4.11.2019, blaðsíða 21.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Erfitt er að koma því til skila hversu erfitt er að spila svona leiki.“

Frétt á blaðsíðu 32 í Morgunblaðinu 1.11.2019.                 

Athugasemd: Ótrúlegt að blaðamaðurinn skuli ekki hafa komið auga á nástöðuna. Blaðamenn verða að skilja að endurtekning sama orðs gengur ekki, slíkt er skaði fyrir frásögnina og truflar lesandann. Listin er í því fólgin að skrifa framhjá eins og það er kallað. Við það batnar stíllinn.

Tillaga: Ekki er hægðarleikur að koma því til skila hversu erfitt er að spila svona leiki.

2.

„Um 65 metra hár klettur gróf sig frá berginu og varð frístanandi en á milli hans og bergsins var gjá sem breikkaði og var orðin á þriðja metra þegar bergfyllan hrundi fram.“

Frétt á visir.is.                  

Athugasemd: Þetta er skrýtin lýsing. Fæstir hafa heyrt um eða séð klett sem „grefur sig frá“ einhverju. Reyndar gleymir blaðamaðurinn að nefna sprungu sem myndaðist af eðlilegum orskökum

Svo varð „kletturinn frístanandi“ (ekki frístandandi) sem blaðamaður veit ekkert um vegna þess að engar athuganir voru gerðar á sprungunni, hvort hún hafi verið svo djúp að þetta hafi verið reyndin.

Í fréttinni segir að eftir að kletturinn hrundið hafi orðið til „bingur“ í fjörunni, „jarðvegsbingur“ segir líka. Hvernig getur það gerst að eftir skriðu verði til „bingur“?

Fréttin er meira samin af vilja en getu. Margt er ofsagt og enn fleira vantar. Blaðamaðurinn reynir að giska á það sem gerist í stað þess að hringja í jarðfræðing og spyrja hann nánar út í atburðarásina. Fyrir vikið verður fréttin ótrúverðug og hallærisleg.

Tillaga: Engin tillaga

3.

„Sky Sports grein­ir nú frá því að Arsenal neit­ar því al­farið að Sanllehi og Mour­in­ho hafi mæst og að þeir hafi ekki talað sam­an í nokk­ur ár.“

Frétt á mbl.is.                   

Athugasemd: Nokkur munur er á því að mætast og hittast. Á förnum vegi mætist fólk. Fyrir kemur að einhverjir hitta óvart kunningja, vini eða ættingja og staldra þá stundum við og spjalla.

Sagnirnar tvær hafa geta svipaða merkingu en í þessu tilviki er ekki hægt að tala um að Sanllehi sem er starfsmaður enska fótboltafélagsins Arsenal, og Mourinho, þjálfarinn atvinnulausi, hafi mæst. Réttara er að segja að þeir hafi hist eða fundað.

Sögnin að neita er í tilvitnuninni í framsöguhætti en á að vera í viðtengingarhætti eins og segir í tillögunni.

Málsgreinin er frekar löng. Punktur er sjaldan ofnotaður í rituðu máli en getur verið gott stílbragð. Þegar samtengingin og kemur fyrir tvisvar eða oftar er oft skynsamlegt að setja punkt

Hitt er svo annað mál að það er ekkert víst við stuðningsmenn Arsenal viljum fá Mourinho þó svo að núverandi þjálfari virðist koma litlu í verk, enn sem komið er.

Tillaga: Sky Sports grein­ir nú frá því að Arsenal neiti því al­farið að Sanllehi ogho Mourinho hafi fundað. Þeir hafi ekki talað sam­an í nokk­ur ár.

4.

„Fimm mínútum fyrir leikslok virtist þessi leikur ætla að vera bananahýði fyrir lærisveina Klopp en á lokamínútunum tókst þeim að nýta sér þreytta fætur Aston Villa og skapa tvö mörk.“

Frétt á frettabladid.is.                    

Athugasemd: Líklega mætti hæla höfundinum fyrir líkingamál væri þetta ekki frétt. Í fréttum er best að tala hreint mál, sleppa líkingum, orðatiltækjum og málsháttum eftir því sem kostur er. Segja fréttirnar á einföldu, íslensku máli.

Íþróttafréttir á að skrifa eins og aðrar fréttir.

Tillaga: Fimm mínútum fyrir leikslok virtust sem leikurinn myndi enda með jafntefli. Liverpool náði þá að skora tvö mörg enda leikmenn Aston Villa orðnir þreyttir.

5.

„Þúsundir íslenskra barna með offitu.

Frétt á frettabladid.is.                    

Athugasemd: Er ekki átt við að börnin séu of þung? Hins vegar er alkunna að þúsundir íslenskra barna eru með síma. Varla er hægt að orða það þannig að fita sé það sem fólk er með rétt eins og sími. Offita er afleiðing óhóflegrar neyslu og því eðlilegra að tala um þyngd í þessu samandi.

TillagaÞúsundir íslenskra barna eru of þung.


Það að, fjöll sem standa og nánar tiltekið

Orðlof

Ofhold

Einhvern tímann minntist Kristján Karlsson á „ofholdgun tungunnar“ og „uppþembdan ræðustíl“.

Þarna er rétta orðið. Ofhold er það einmitt, þegar óþörfum orðum er kuðlað framan við orð eða aftan við, eða þau væflast inn í setningar, luraleg, óþjál og lífvana.

Úr bókinni Orðaleppar og aðrar ljótar syrpur eftir Oddnýju Guðmundsdóttur.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„14 fjöll í heim­in­um standa meira en 8000 metr­um yfir sjáv­ar­máli og kleif Pur­ja þau því öll.“

Frétt á mbl.is.                 

Athugasemd: Tilvitnunin er úr frétt sem er óskaplega forvitnileg en því miður hefur blaðamaðurinn eyðilagt hana með lélegum vinnubrögðum. Heimildin er vefur BBC. Þar segir:

There are 14 mountains in the world higher than 8,000m …

Blaðamaðurinn býr til furðulegt orðalag og þýðir þetta svona:

14 fjöll í heim­in­um standa meira en 8000 metr­um yfir sjáv­ar­máli …

Hvað þýðir að „standa meira en …“? Mér finnst orðalagið órökrétt. 

Hvort á að segja:

Fjöllin standa meira en 8000 metrum yfir sjávarmáli

Eða

Fjöllin standa meira en 8000 metra yfir sjávarmáli.

Báðir kostirnir eru della en sá síðari er líklega réttur. Blaðamaður með viti hefði sagt að fjöllin væru hærri en 8000 m.

Í þokkabót byrjar málsgreinin á tölustöfum. Slíkt tíðkast hvorki á vef BBC né á öðrum fréttamiðlum. Tölustafir eru allt önnur tákn en bókstafir og alls staðar er mælt gegn þessu.

Fréttin á BBC vefnum er miklu ítarlegri og fróðlegri. Þar eru birt nöfn þeirra fjórtán fjalla sem maðurinn kleif. Blaðamanninum sveikst um að birta listann en hér er hann:

  1. Annapurna 8.091 m, Nepal, tindinum náð 23. apríl.
  2. Dhaulagiri, 8.167 m, Nepal, 12. maí
  3. Kanchenjunga, 8.586 m, Nepal, 15. maí
  4. Everest, 8444 m, Nepal, 22. maí
  5. Lhotse, Nepal, 8.516 m, 22. maí
  6. Makalu, 8.485 m, Nepal, 24. maí
  7. Nanga Parbat, 8.126 m, Pakistan, 3. júlí
  8. Gasherbrum 1, 8.080 m, Pakistan, 15. júlí
  9.  Gasherbrum 2, 8.035 m, Pakistan, 18. júlí
  10. K2, 8.611 m, Pakistan, 24. júlí
  11. Broad Peak, 8.047 m, Pakistan, 26. júlí
  12. Cho Oyu, 8.188 m, China, 23. september
  13. Manaslu, 8.163 m, Nepal, 27. september
  14. Shishapangma, 8.027 m, China, 29. október

Þetta er eiginlega kjarninn í frétt BBC. Ég var fimm mínútur að finna út hæðina á þessum fjöllum og bæta þeim við. Væri ábyggilega ekki mikið lengur að draga fram kort, merkja þau og birta. Blaðamaður Moggans nennir ekki að sinna lesendum sínum. Þar með fara lesendum á mis við stórmerkilega frétt um mikið afrek.

Tillaga: Fjórtán fjöll í heim­in­um eru hærri en 8000 metr­ar og hefur Pur­ja klifið öll.

2.

„Í máli þessu er óumdeilt að vinnsla kollagensins úr fiskroði fer fram erlendis, eða nánar tiltekið í Kína.“

Úrskurður Neytendastofu.              

Athugasemd: Lögfræðimál er „tafamál“, notuð eru oft fleiri orð en þörf er á. Tilvitnunin er úr tíu blaðsíðna úrskurði Neytendastofu. Þar af leiðir að ekki þarf að segja „í máli þessu“, skýrslan fjallar öll um „mál þetta“.

Óþarfi er að tiltaka að varan sé unnin erlendis og bæta svo við „nánar tiltekið í Kína“. Varan er unnin í Kína sem flestir vita að er ekki hér á landi.

Nákvæmlega þetta er nefnt í Orðlofsþætti þessa pistils, það er um „ofhold“:

Þegar óþörfum orðum er kuðlað framan við orð eða aftan við, eða þau væflast inn í setningar, luraleg, óþjál og lífvana.

Loks má nefna áráttu margra að nota nafnorð í stað sagna. „Vinnslan fer fram í Kína“ er ekki eins gott orðalag og segir í tillögunni hér fyrir neðan.

Tillaga: Óumdeilt er að kollagenið úr fiskroðinu er unnið í Kína.

3.

Það að engu fjármagni sé áætlað til uppbyggingu Akureyrarflugvallar sem millilandaflugvallar …“

Frétt á visir.is.               

Athugasemd: Orðalagið „Það að …“ í upphafi setningar er afspyrnu ljótt og stíllaust þó ekki sé það rangt mál.

Orðið „það“ oftast til mikillar óþurftar. Varla er hægt að segja annað vegna þess að oft er merking þess óskýr og því næstum merkingarsnautt. Með því að setja „það“ sem fyrsta orð í setningu eða málsgrein tapar höfundur yfirsýn, gerir mál sitt lakara, verður næstum barnalegur og nær ekki neinu flugi í skrifum sínum. Fyrir vikið á lesandinn erfitt með að skilja frásögnina.

Íslenskufræðingar hafa skrifað mikið um „það sem í máli þeirra nefnist aukafrumlag. Mér sýnist að flestum sé ekkert sérstaklega vel við orðið þannig notað enda hefur það fengið uppnefnið leppur vegna þess að það stendur fyrir eitthvað annað sem enginn veit hvað er.

Blaðamenn og aðrir skrifarar ættu að gera tilraun til að sleppa alltaf persónufornafninu „það“ fremst í setningu og sjá hvernig gengur að orða hugsunina. Viti menn, textinn batnar, skýrist og meiri tilfinning kemur fram.

Í tillögunni hér fyrir neðan er gerð tilraun til að skrifa framhjá leppnum.

Tillaga: Í drögum að samgönguáætlun næstu fimm ára er engu fé áætlað til uppbyggingu á Akureyrarflugvelli. Þetta gengur þvert gegn yfirlýstri stefnu stjórnvalda.

4.

„Við þessi ömurlegu og háskalegu tilþrif náttúrunnar bætist svo að yfirvöld standa fyrir manngerðu rafmagnsleysi sem …“

Staksteinar Morgunblaðsins 1.11.2019.                 

Athugasemd: Þarna er ofsagt að yfirvöld standi fyrir manngerðu rafmagnsleysi. Þar með er tvítekið að rafamagnsleysið hafi verið fólki að kenna, ekki orðið vegna „tilþrifa náttúrunnar“ eins og þarna segir.

Staksteinar eru í þessu tilviki brandari sem missir marks því hann er of langur. Í pistlinum segir að geitur hafi bjargað bókasafni Ronalds Reagans. Niðurstaðan er sú að geitur gætu líka bjargað bókasafni Richards Nixons og þær yrðu að vera watergeitur.

Vitnað er til dellufréttar. Í henni segir að geitur hafir verið „ráðnar til að fjarlægja eldfimt kjarrr …“

Skyldi hafa verið gerður ráðningasamningur við geiturnar? 

Tillaga: Við þessi ömurlegu og háskalegu tilþrif náttúrunnar bætist svo að yfirvöld standa fyrir rafmagnsleysi sem …


Mennskir meðlimir, líki fargað og heilt yfir

Orðlof

Fortóv

Umsjónarmaður vekur athygli á góðu bréfi hingað til blaðsins sem birtist 20. júlí sl. Höfundur bréfsins er Einar Ólafsson bókavörður í Kópavogi. Fyrirsögn þess er Altan, helíkopter og e-mail. Einar rifjar upp hvernig þessi framandlegu orð hafa vikið eða gætu vikið fyrir góðum orðum á tungu okkar. 

Ég var orðinn vel stálpaður, ef ekki fullorðinn, þegar ég vissi hvað fyrirbærið altan var, sem við nefnum nú svalir, hvað þá að ég léti mér detta í hug að þetta væri náskylt orðinu altari (hvort tveggja sk. lat. altus=hár).

Afi og amma sögðu fýrspýtur, en pabbi og mamma eldspýtur, hvað þá þeir sem yngri voru. Amma sagði konfílútta, en allir aðrir, sem ég umgekkst, umslag. Skóhlífar voru í kaupstaðnum Akureyri nefndar galosíur og ofnar á Seyðisfirði radíatorar. 

Einar nefndi líka orðið fortóv=gangstétt, en það heyrði ég sagt v-laust. Nú segir enginn maður sukkull, allir reiðhjól eða bara hjól, og sögnin að sukkla er steindauð.

Íslenskt mál, Gísli Jónsson, Morgunblaðið.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Enginn mennskur meðlimur hersveitarinnar sem stóð að aðgerðinni lét lífið en Milley greindi frá því að þegar al-Baghdadi hafi sprengt sig í loft upp hafi einn hundanna sem tóku þátt í að elta hann uppi fallið.“

Frétt á visir.is.                

Athugasemd: Þetta er hugsunarlaus þýðing. Hermenn falla í ófriði en ekki hundar eða önnur dýr. Þau eru tíðum drepin.

Færa má fyrir því sterk rök að hundurinn hafi verið hluti hersveitarinnar. Hins vegar réttlætir það ekki orðalagið fremst í málsgreininni. Þetta er bein þýðing úr ensku og verður hjákátleg, jafnvel hlægileg á íslensku.

Takið eftir þessu: „Milley greindi frá því ... hafi ... fallið“. Ég veit ekki hvað svona kallast þegar aukasetningar flækja málið og kjarninn kemur ekki fram fyrir en síðast. Gott ráð gegn svona flækju er að setja punkt sem víðast.

Á vef BBC stendur þetta:

The Pentagon says no US personnel were killed in the raid but one of the dogs pursuing Baghdadi was seriously injured. Gen Milley said the dog´s name was classified.

Þarna kemur ekkert fram um „mennska meðlimi“. 

Arfaslæmt getur verið að þýða frá orði til orðs. Þess í stað þarf oft að umorða á íslensku sem er betra en að gera eins og blaðamaðurinn.

Skyldi hundurinn ekki hafa heitið Kátur („Happy“)? Ekki hefur enn tekist að tilkynna öllum aðstandendum hans um „andlátið“. Hann lætur eftir sig tík og fjölda hvolpa. 

Í Vísnahorni Morgunblaðsins 29.10.2019 er þessi smellna limra:

Um Bagdadí eitt sinn var ort 
að illvirki væru hans sport. 
En djúpt oní helli
drapst hann með hvelli
í vesti af vitlausri sort.

Höfundurinn er Bjarni Sigtryggsson.

Tillaga: Enginn í hersveitinni lét lífið í aðgerðinni. Milley sagði hins vegar frá því að einn hundanna hafi drepist þegar al-Baghdadi drap sig með sprengju.

2.

„Átti nokkrar góðar markvörslur.“

Frétt kl. 22:00 á vef Ríkisútvarpsins 28.10.2019                

Athugasemd: Betur fer á því að segja að markvörðurinn hafi varið vel heldur en markvörslur. Frekar ætti nota sagnorð en nafnorð. Út á það gengur íslenskt mál.

Tillaga: Varði nokkrum sinnum mjög vel.

3.

„Jarðnesk­um leif­um Bag­hda­di hef­ur verið fargað.“

Frétt á mbl.is.                 

Athugasemd: Aldrei er talað um að farga líki. Það er ljótt orðalag og óvirðulegt. Víðast í frétt AFP er talað um „burried at sea“ og „put into the sea“, hvort tveggja æði ólíkt orðalagi í frétt mbl.is. 

Í fréttinni segir:

Lík hers­höfðingja rík­is íslams, Abu Bakr al-Bag­hda­di, var „grafið“ á sjó ...

Svona á ekki að skrifa, jafnvel þó sagnorðið sé innan gæsalappa. Yfirleitt er talað um útför á sjó.

Á málið.is segir að sagnorðið farga merki að eyða, einkum úrgangi, til dæmis farga bílhræjum. Notkun á sagnorðinu farga í fréttinni er ekki í samræmi við málhefð.

Tillaga: Útför Baghdadi var á sjó.

4.

„Nafnið Valkostur fyrir Þýskaland er þannig til komið að þegar þessi flokkur var í burðarliðnum …“

Forystugrein Morgunblaðsins á blaðsíðu 14, 29.10.2019.                 

Athugasemd: „Valkostur“ er arfaslæmt orð. Ólafur Oddsson, íslenskukennari, í MR ávítaði mig fyrir að nota það í ritgerð. Ég mat Ólaf mikils og fór að ráðum hans. Í ritinu Gott mál sem hann samdi og MR gaf út árið 2004 segir einungis:

Heldur rislítið er orðið valkostur en það þýðir: val eða völ.

Raunar er orðið samsett úr tveimur orðum sem þýða nokkurn vegin hið sama. Þýska orðið „alternative“ er eins á ensku og merkir einfaldlega val eða kostur, annað hvort, ekki hvort tveggja. Það er vissulega frekar rislítið, raunar gagnslaust, og gæti því vel hæft flokki eins og AfD en það er annað mál.

Hefð er fyrir því að þýða á íslensku erlend heiti, til dæmis nöfn landa, þjóðerni, borgarnöfn, flokksheiti og svo framvegis. Miklu skiptir að vel takist til svo ekki verði úr kjánalegt orðalag. Þar af leiðir að þýski stjórnmálaflokkurinn sem nefnist AfD, „Alternative für Deutschland“ sé einfaldlega nefndur „Val fyrir Þýskaland“ eða einfaldlega AfD.

Tillaga: Nafnið Val fyrir Þýskaland er þannig til komið að þegar þessi flokkur var í burðarliðnum …

5.

„Ég fylgdist með báðum leikjum íslenska karlalandsliðsins í handbolta gegn Svíum um nýliðna helgi og það ber að þakka SportTV fyrir að sýna báða leikina í beinni útsendingu.“

Bakþankar á blaðsíðu 25 í Morgunblaðinu 29.10.2019.                 

Athugasemd: Íþróttablaðamenn eru margir slakir í skrifum eins og þessi tilvitnun ber glögglega með sér. Höfundi dálksins er sama um nástöðuna, sér hana ekki eða hefur ekki lesið skrifin yfir að þeim loknum. 

Of mikið er að kalla síðustu helgi „nýliðna helgi“. Um helgina dugar.

Í dálknum talar höfundur um „jákvæðan hausverk“, slíkt er ekki til. Hugsanlega á hann við að þjálfari landsliðsins í handbolta geti valið úr stórum hópi góðra leikmanna. 

„Markvarslan var heilt yfir frekar slök“. Hvernig er hægt að skrifa svona? „Heilt yfir“ hvað? Var markvarslan slök allan leikinn? Sé svo má alveg segja það þannig.

Fleira má gagnrýna en niðurstaðan er sú að höfundurinn þarf að finna einhvern á Mogganum til að lesa skrif sín yfir, laga og bæta. Nóg er þar af vel ritfærum blaðamönnum.

Tillaga: Ég fylgdist með báðum leikjum íslenska karlalandsliðsins í handbolta gegn Svíum um helgina og þakka SportTV fyrir að sýna þá í beinni útsendingu.


Reynslumikill, djúpalaugin og svartís (ekki smartís)

Orðlof

Þrándur í Götu

Orðasambandið vera einhverjum Þrándur í Götu / þrándur í götu er komið úr Færeyingasögu (þáttur í Ólafs sögu helga). Þar segir frá Þrándi á bænum Götu í Færeyjum sem stóð gegn skattlagningu Ólafs konungs helga í Færeyjum.

Málfarsbankinn.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Alexander þótti reynslumikill veiðimaður …“

Frétt á visir.is.                

Athugasemd: Var Alexander reyndur veiðimaður? Jú, líklega. Reynslumikill er lakara orð í þessu samhengi.

Fréttin er barnalega rituð. Hér eru frekar brosleg dæmi:

Hann skaut dádýr og gekk að því til að tryggja að það væri dautt.

Dádýrið stóð hins vegar upp, réðst á Alexander og stakk hann á hol með hornum sínum.

Sjúkraflutningamenn sóttu veiðimanninn og stóð til að flytja hann á sjúkrahús með þyrlu en hann dó áður en þyrlunni var flogið á vettvang.

Ekki stendur til að framkvæma krufningu og því er ekki hægt að útiloka að Alexander hafi látið lífið vegna annarra kvilla en þeirra sára sem hann hlaut vegna árásar dádýrsins.

Árið 2016 réðst dádýr á annan veiðimann í Arkansas og særði hann á fæti en hann lifði af.

Veiðimálayfirvöld fluttu hunda á vettvang og stóð til að finna dýrið, sem er líklegast sært, og fella það. Dádýrið fannst þó ekki.

Hvaða gagn er af ritstjórn fjölmiðils ef svona vitleysa er birt og látin óátalin? 

Í matvælaiðnaði eru gæðakerfi, einnig í byggingariðnaði, ferðaþjónustu, framleiðsluiðnaði og víðar. Af hverju er engin gæðastjórnun á Vísi eða öðrum fjölmiðlum?

Tillaga: Alexander þótti reyndur veiðimaður …

2.

Alls sveik hann fé út úr 22 manns á tíma­bil­inu, allt frá 10 til 80 þúsund krón­um í hvert skipti. Alls sveik hann út 684.680 krón­ur.“

Frétt á mbl.is.                 

Athugasemd: Þarna á að standa tuttugu og tveimur mönnum. Betra fer á því að skrifa töluna með bókstöfum. „Sveik fé út úr“ segir þarna. Af hverju ekki að nota forsetninguna af?

Mikilvægt er að blaðmenn viti hvað nástaða er. Sé sneitt framhjá henni batnar yfirleitt málfarið. Hér er hún ljót eins og alltaf og allt eftir því.

Fréttin er fljótfærnislega skrifuð en líklega getur að blaðamaðurinn betur.

Tillaga: Hann sveik fé af tuttugu og tveimur mönnum, frá tíu til áttatíu þúsund króna í hvert skipti, samtals 684.680 krónur.

3.

„Guðmundur ákvað að kasta þessum tvítuga, uppalda Fjölnismanni, sem nú leikur með Sönderjyske í Danmörku, út í djúpu laugina gegn liðinu sem endaði í 5. sæti á HM í ár og vann silfur á síðasta EM.“

Frétt á blaðsíðu  í Morgunblaðinu 26.10.2019.                 

Athugasemd: Settu punkt sem oftast. Þetta er góð regla sem blaðamaður sem skrifaði ofangreint ætti að tileinka sér. 

Málgreinin er löng og flókin. Ótrúlegt að blaðamaðurinn hafi gleymt að setja í hana upplýsingar um skóstærð, aldur, afmælisdag, háralit, hæð og þyngd og álíka. 

„Kasta í djúpu laugina“ er gríðarlega vinsælt orðalag hjá íþróttablaðamönnum sem veigra sér við því að tala einfalt mál.

Þetta er hörmulega illa skrifað og af vankunnáttu.

Tillaga: Guðmundur ákvað að fela honum ábyrgðarhlutverk. Hann er aðeins tvítugur, lék hér heima með Fjölni en er nú hjá Sönderjyske í Danmörku. Liðið varð í fimmta sæti á síðasta heimsmeistaramóti en fékk þar áður silfur.

4.

„Akureyrarflugvöllur sé sveltur.“

Fyrirsögn á blaðsíðu 4 í Morgunblaðinu 28.10.2019.                 

Athugasemd: Hér er ekki verið að óska eftir því að dregið sé úr fjárveitingum til Akureyrarflugvallar heldur villir viðtengingarhátturinn fyrir lesendum. 

Upp á síðkastið hefur notkun hans farið vaxandi í fjölmiðlum og helst í fyrirsögnum. Þannig telja blaðamenn að fram komi skoðun viðmælenda en ekki fullyrðing blaðsins. Það má vel vera en vandamálin sem fylgja notkun viðtengingarháttar eru hins vegar of mörg.

Hér er miklu frekar mælt með notkun framsöguháttar. Hann virðist vera skilyrðislaus fullyrðing en staðreyndir mála skýrast alltaf í fréttinni sjálfri.

Þetta er þó ekki algilt heldur veltur notkunin á samhenginu, til dæmis:

NBA-stjarna segir að Erdogan sé vondur maður.

Almennt er viðtengingarháttur oftast notaður í aukasetningum en í fyrirsögnum er að sjálfsögðu hægt að nota hann eins og gert er hér fyrir ofan þegar ummælin eru höfð eftir öðrum. 

Hins vegar er ekki samræmi í notkun viðtengingarháttar í fyrirsögnum hjá fjölmiðlum.

Vitað er að viðtengingarhátturinn veldur misskilningi. Vera má að blaðmenn haldi að framsöguhátturinn geri það líka. Til að koma í veg fyrir allan vafa er einfalt að setja fullyrðingu viðmælandans í gæsalappir.

Tillaga: „Akureyrarflugvöllur er sveltur.“

5.

„Tiger Woods varð hlutskarpastur á Zozo-mótinu í Japan í nótt …“

Frétt á visir.is.                  

Athugasemd: Sigraði Tiger? Ég var ekki alveg viss hvort um væri að ræða golfmót eða hlutaveltu. Sjaldnast virðast sagt að íþróttamenn og lið vinni eða sigra. Íþróttablaðamenn vilja að þeir séu „hlutskarpastir“, „hafi yfirhöndina“, „sigla sigri í höfn“ og svo framvegis.

Jú, vissulega er fjölbreyting góð. Hins vegar er eitthvað alvarlegt að ef blaðamaður getur ekki talað hreint út, sagt að maður eða lið hafi sigrað.

Tillaga: Tiger Woods sigraði á Zozo-mótinu í Japan í nótt …

5.

„Svartahálka var á götum borgarinnar í morgun og víðar.“

Frétt á ruv.is.                   

Athugasemd: Er ekki skrýtið þegar mörgum þykir knýjandi nauðsyn á að þýða enska orðalagið „black ice“? Sumum finnst „svartís“ (ekki „smartís“) aldeilis frábært. Aðrir reyna fyrir sér af miklum rembingi.

„Black ice“ sem merkir gegnsær eða ís sem ekki sést á götu eða gangstétt og getur verið hættulegur gangandi og akandi fólki. Í ensku orðabókinni segir:

A transparent coating of ice, especially on a road surface.

Lítið fer fyrir gegnsæinu á íslensku þýðingunni þó margir segi að svona ís sjáist illa og alls ekki í dæmis í myrkri.

Íslenskan er þó svo auðugt og fjölbreytilegt tungumál að við þurfum ekki sækja mikið í enskuna. Þurfum ekki að fara yfir lækinn til að sækja vatn. Og síst af öllu að rembast við að finna góða þýðingu.

Hér eru nokkur orð af Íslensku orðaneti:

  1. flughálka
  2. flugháll
  3. flughált
  4. flugsvell
  5. gler
  6. glerhálka
  7. glerháll
  8. gljá
  9. glæra
  10. glærasvell
  11. hálagler
  12. hálasvell
  13. hálkublettur
  14. háll
  15. launhálka
  16. launháll
  17. logagljá
  18. óstæður
  19. rennigljá
  20. rennisvell
  21. skreipa°
  22. skreipur
  23. sleipa
  24. spegilhálka
  25. spegilháll
  26. svell
  27. svellagljá
  28. svikahálka

Þessu til viðbótar er til orðalag á íslensku sem lýsa hálku, jafnvel ósýnilegri. Til dæmis fljúgandi hálka.  Við eigum svo mörg orð að við gætum lánað enskum nokkur.

Tillaga: Launhált var á götum borgarinnar í morgun og víðar.


Dómari í ruglinu, samanstendur af og hættusamir vindar

Orðlof

Aðskotaorð

vera eða vera ekki: Varaðu þig á “það voru” og “það eru”, einkum í upphafi málsgreina. “Það” er oft óþarft orð og sögnin að “vera” segir lítið. Ekki: “Það var enginn í hópnum, sem hjálpaði honum.” Heldur: “Enginn í hópnum hjálpaði honum.

Ekki segja: “Við vorum að spila vel í fyrri hálfleik”. Heldur: “Við lékum vel í fyrri hálfleik.” Ekki segja: “Allir eru að gera það gott”. Heldur: “Allir gera það gott.” Ekki segja: “Þeir voru að nálgast okkur”. Heldur: “Þeir nálguðust okkur.

Jónas Kristjánsson, jonas.is. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Dómarinn í ruglinu.“

Fyrirsögn á dv.is.               

Athugasemd: Aðeins í íþróttafréttum geta blaðamenn eigin tilfinningar ráða skrifum sínum og sumir láta það eftir sér. Það er slæmt. Þar með er verið að mata lesendur á skoðunum blaðamannsins. 

Í fréttinni segir:

Þessi dómur var gjörsamlega fáránlegur en boltinn fór beint í andlit Smalling og ekki í hendina eins og dómarinn taldi.

Bull!

Þetta og fyrirsögnin er blaðamanninum til skammar. Lesendum er alveg sama um persónulega skoðun blaðamannsins, hlutverk hans er að semja fréttir. Fjölmiðill á ekki að bergmála skoðanir blaðamanna. Þegar það gerist verður útgáfan ekki marktæk, hún setur niður.

Tillaga: Þetta eru leikmenn sem hann gæti keypt.

2.

„Veg­in­um milli Núpsstaðar og Hafn­ar var lokað síðdeg­is í gær og hef­ur verið lokað síðan en bál­hvasst er á suðaust­ur­hluta lands­ins.“

Frétt á mbl.is.                

Athugasemd: Líklega er átti við að vegurinn hafi verið lokaður frá því í gær. Í fyrirsögn fréttarinnar segir:

Veg­in­um enn lokað á Suðaust­ur­landi.

Úr þessu má lesa að vegurinn hafi verið opnaður og síðar lokað aftur. Samkvæmt fréttinni var ekki svo og þarna hefði á að standa:

Vegurinn enn lokaður á Suðausturlandi.

Ekki er þetta nú vel skrifuð frétt, fljótfærnin að drepa blaðamanninn.

Tillaga: Vegurinn milli Núpsstaðar og Hafn­ar hefur verið lokaður frá því síðdegis í gær en bál­hvasst er á suðaust­ur­hluta lands­ins.

3.

„Juneyao Air var stofnað árið 2006 og á 72 farþegaflugvélar sem samanstanda af Airbus A320 vélum og Boeing 787 Dreamliners vélum.“

Frétt á visir.is.                 

Athugasemd: Orðalagið „samanstanda af“ er oft óþarft rétt eins og í ofangreindri tilvitnun úr frétt Vísis. Engu að síður er það hluti af orðalengingum margra blaðamanna. Nefna má fleiri: 

  • um að ræða
  • til staðar
  • sem telja 

Ég fullyrði að sé þessu sleppt verður málfarið mun betra nema því aðeins að blaðamenn séu þeim mun slakar í skrifum.

Tillaga: Juneyao Air var stofnað árið 2006 og á 72 farþegaflugvélar sem eru Airbus A320 vélum og Boeing 787 Dreamliners vélum.

4.

„Gestir sem mættu í þjóðgarðinn í morgun þurftu að fresta för sinni upp á fjallið um nokkurn tíma vegna sterkra og hættusamra vinda.“

Frétt á visir.is.                 

Athugasemd: Þetta er ekki vel skrifað. Blaðamaðurinn virðist ekki gera greinarmun á sögnunum að mæta og koma. Þær eru mjög ólíkrar merkingar.

Hvað er „sterkur vindur“? Rok, hvassviðri, stormur …

Hvað er „hættusamur“ vindur? Er það hættulegur vindur? Getur vindur verið hættulegur? Já, en það veltur á aðstæðum. Hvassviðri á Móskarðshnúkum getur verið hættulegra en í miðborg Reykjavíkur. Rok á ísilagðri gangstétt í miðborginni getur verið hættulegra en rok á Þverfellshorni í Esju. Hvað á blaðamaðurinn eiginlega við með fleirtölunni?

Í heimildinni BBC stendur:

On Friday, climbers faced a delayed start to the climb due to dangerously strong winds.

Svo illa er fréttin framsett á íslensku að lesandinn þarf að fara á BBC til að fá fullnægjandi upplýsingar. 

Í fréttinni er Uluru kallað fjall, þó má kalla það fell. Síðar hefur fjallið breyst í „steindrang“. Svona draugagangur er algengur hjá sumum blaðamönnum. Aðilar verða fólk, menn verða manneskjur og svo framvegis.

Fréttin er fljótfærnislega unnin og í henni er takamarkað upplýsingagildi miðað við það sem lesa má í heimildinni sem upp er gefin.

Tillaga: Gestir sem komu í þjóðgarðinn í morgun þurftu að fresta för sinni upp á fjallið vegna hvassviðris.

5.

„Pepe kom inná á 75. mínútu leiksins og var staðan þá 2-1 fyrir gestunum.“

Frétt á dv.is.                 

Athugasemd: Fallbeyging er röng. Rétt er að segja að staðan hafi verið þessi fyrir gestina. Fréttin er í raun afar rýr og ómerkileg.

Í henni segir:

Hann gerði þau bæði beint úr aukaspyrnu og sannaði það að hann er með afar góðan skotfót.

Blaðamenn eiga að skrifa einfalt mál, forðast að nota líkingar eins og þessa. Enginn frumleiki er í að tala um „skotfót“, þetta er bara ofnotuð klisja. Hefði ekki verið einfaldara að segja að maðurinn sé skotviss eða markviss?

Yngri blaðamenn fá enga tilsögn og hún stendur þeim ekki til boða. Staðreyndin er hins vegar sú að alltaf er betra að sleppa klisjum, skrifa þess í stað eðlilegt mál.

Jónas Kristjánsson skrifaði manna mest um blaðamennsku. Hann segir hér:

Svo reyna sumir bara að gera sig merkilega með því að blása froðu inn í textann. Algengast er þó, að menn skrifi illa, af því að þeir skilja ekki, hvernig fólk les texta. Og hvernig það getur ekki lesið texta. Lykillinn að lausninni er að hugsa og skrifa einfaldan texta.

Blaðamaður DV gæti örugglega lært mikið af Jónasi ef hann nennti að lesa vefsíðu hans og læra af henni. Annars er furðulegt að fjölmiðillinn sem Jónas Kristjánsson stofnaði skuli gera það að skilyrði að blaðamenn þess lesi og tileinki sér reglur Jónasar.

Tillaga: Pepe kom inná á 75. mínútu leiksins og var staðan þá 2-1 fyrir gestina.


Versla leikmenn, magn snjós og tölustafir í byrjun setningar

Orðlof

Villur vegar

Lýsingarorðið villur (vill, villt) hefur sömu merkinu og lýsingarorðið villtur. Hann fer villur vegar. Þeir fara villir vegar. Hún fer vill vegar. 

Ekki: „þeir fara villur vegar“, „hún fer villur vegar“ enda er það ekki nafnorðið villa sem hér um ræðir.

Málfarsbankinn. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Þetta eru leikmenn sem hann gæti verslað.“

Fyrirsögn á dv.is.               

Athugasemd: Blaðamaðurinn veit ekki muninn á að kaupa og versla. Það er miður.

Á málið.is segir:

Versla, sagnorð: kaupa og selja, eiga í viðskiptum

hann fór til útlanda til að versla
hún verslar oft fyrir gamla foreldra sína
versla við <kaupmanninn>
versla með <timbur>

Enginn verslar mjólk. Þarna vantar forsetninguna með, versla með mjólk, það merkir þá að selja mjólk.

Væri ég í mannaráðningum fyrir fjölmiðil myndi ég láta alla umsækjendur um starf blaðamanns taka próf. Í því væri ein spurningin þessi: Hvar er hægt að versla áfengi? Öll svör eru röng nema hjá þeim sem finnur að orðalaginu.

Sami blaðamaður skrifaði þetta í dv.is fyrir stuttu: 

Þetta eru leikmenn sem hann gæti verslað.

Hér er önnur sönnun fyrir því að blaðamaðurinn skilur ekki muninn á að kaupa og versla. Verra er, starfsfélagar hans vita það ekki heldur, nema því aðeins að þeir lesi ekki DV. 

Tillaga: Þetta eru leikmenn sem hann gæti keypt.

2.

„Mun fleiri kalla eftir hjálp.“

Forsíðufyrirsögn í Morgunblaðinu 24.10.2019.                

Athugasemd: Í stað þess að óska eftir, biðja um, krefjast, vilja, heimta,  langa og álíka orð er uppáhald blaðamanna enska orðalagið „to call for“ og það er þýtt kalla eftir. Hér er ekki verið að amast við því að orðalagið sé enskt heldur afleiðingunum.

Nú er almennt kallað eftir rannsókn, mótmælum, verkföllum, styrkjum, aðstoð, hjálp og svo framvegis í stað þess að nota nákvæmara orðalag sem hæfir hverju tilviki.

Í frétt Morgunblaðsins segir frá því sem kallað er sjálfsvígssímtöl, það er fólk hringir í hjálparsíma Rauða krossins og er að leita sér hjálpar vegna þungra hugsana. Enginn kallar. Lausnarorðið er að fólk vill leita sér hjálpar, það er óskar eftir hjálp, biður um aðstoð.

Sá sem kallar hann hrópar, hækkar röddina. Það er hin einfalda merking orðsins. Útilokað er að útvatna það og láta sem orðalagið geti komið í stað fjölda ágætra orða sem skýra frásögnina hverju sinni. 

Hér er verið að einfalda tungumálið, fletja það út rétt eins og þegar sagt er „dingla“ þegar dyrabjöllu er hringt, „klessa“ þegar bíll ekur á annan jafnvel á gangandi mann, Sjaldnast er sá sem grunaður er um lögbrot settur í fangelsi heldur „vistaður í fangaklefa“, leikmenn fótboltaliðs eru kallaðir „lærisveinar“ þjálfarans og sá sem verður fyrir árás er kallaður „brotaþoli“. Allt þetta kemur úr fjölmiðlum og þúsund önnur dæmi má nefna.

Orðafátækt mun ábyggilega gera út af við íslenskt mál ef ekki kæmu til aðrar og hraðvirkari aðferðir. 

Tillaga: Mun fleiri biðja um hjálp.

3.

 Á höfuðborgarsvæðinu féllu fyrstu snjókorn vetrarins til jarðar í nótt þó ekki hafi magnið verið mikið.“

Frétt á mbl.is.               

Athugasemd: Þetta er frekar kjánalegt. Yfirleitt er talað um lítinn eða mikinn snjó. Þegar sagt er að kyngt hafi niður snjó veit lesandinn að hann er mikill. Stundum er miðað við mannsfótinn, hnédjúpur snjór bendir til að mikið hafi snjóað.

Vonlaust er að tala um „magn snjós“ þegar hann er nýfallinn. Þannig skrifar enginn … Jú, að vísu. Á Vísi stóð þetta einu sinni, sjá hér:

Snjó­koma og strekk­ing­ur er á Fimm­vörðuhálsi og nokkuð magn af ný­fölln­um snjó.

Þetta var nú ekki til fyrirmyndar frekar en orðalagið í vefútgáfu Moggans.

Á haustin snjóar í fjöll en ekki mikið svona fyrst í stað. Þá er sagt að það gráni í þau.

Eignarfall orðsins snjór vefst fyrir mörgum. Orðið beygist svona:

Snjór, um snjó, frá snjó, til snjós/snjóvar/snjóar.

Einnig er til orðið snær sem hefur svipaða merkingu og snjór. Snær er þó eintöluorð og beygist svona:

Snær, um snæ, frá snæ/snævi, til snæs/snævar.

Varast ber að blanda saman fallbeygingu þessara orða, snjór og snær saman. Ég viðurkenni að stundum hefur mér orðið það á að tala um mikinn snjó og í eignarfallinu „snævar“ sem rangt.

Snær lifir enn góðu lífi í íslensku máli. Landið er snævi þakið er stundum sagt. Enginn segir „snjó þakið“ þó það sé líklega ekki rangt. Hitt hljómar „bara“ betur.

Snjókorn falla … Hvert falla þau? Þyngdarlögmálið sér fyrir því. Þarf að taka það fram að þau falli til jarðar?

Tillaga: Á höfuðborgarsvæðinu féllu fyrstu snjókorn vetrarins í nótt þó ekki hafi þau verið mörg.

4.

 26 ára kona frá Úkraínu hefur verið ákærð fyrir að hafa starfað á kaffihúsinu Hlöðunni á Hvammstanga án þess að hafa til þess tilskilið atvinnuleyfi.“

Frétt á visir.is.                

Athugasemd: Jafnvel alvanir blaðamenn gera villur eins og við hin. Afar sjaldan byrja skrifarar setningu á tölustöfum. Íslenskukennarar mæla á móti því, svo gera enskukennarar, kennarar í blaðamennsku, skapandi skrifum og svo framvegis.

Af hverju? Vegna þess að tölustafur er annað tákn er skrifstafur. Á heilbrigðissviði Háskólans á Akureyri eru leiðbeiningar um ritgerðaskrif og þar stendur:

Ef setning hefst á tölustaf er hún skrifuð með bókstöfum. Dæmi: Tíu prósent einstaklinga …

Mjög auðvelt er að komast hjá því að byrja setningu á tölustöfum, annað hvort með því að umskrifa eða nota bókstafi.

Hvað kemur annars aldur konunnar í fréttinni málinu við?

Tillaga: Kona frá Úkraínu hefur verið ákærð fyrir að hafa starfað á kaffihúsinu Hlöðunni á Hvammstanga án þess að hafa til þess tilskilið atvinnuleyfi.

 


Lærisveinar, sitjandi tónleikar og strandrof sem hótar vita

Orðlof

Hláka og hlær

Komum við þá að orðum eins og hláka, hlána, og lýsingarorðinu hlár sem upphaflega merkti þíður eða volgur, en fékk seinna niðrandi merkingu. 

Þá var líka til að hláka væri ekki aðeins haft um þíðviðri, heldur einnig í merkingunni glaðleg kona, en það fór stundum eins og með hlár, að merkingin varð miður vingjarnleg. Tók þá orðið hláka að merka „kvensa", lítilfjörleg kona. 

Hlákulegur er ekki bara haft um veðrið, heldur einnig um menn, og þá helst = glaðhlakkalegur, en einnig óráðinn og til alls vís.

Hlár gat að fornu tekið i-hljóðvarpi og breyst í hlær, en merkingin er söm: hlýr, þíður, volgur.

Íslenskt mál, Gísli Jónsson, 793. þáttur, Morgunblaðinu 22.4.1995.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Lærisveinar Heimis Hallgrímssonar töpuðu …“

Íþróttafréttir Ríkissjónvarpsins 21.10.2019               

Athugasemd: Íþróttafréttamaður í Sjónvarpinu er farinn að kalla leikmenn fótboltaliða „lærisveina“. Þetta apar hann eftir nokkrum íþróttablaðamönnum prentmiðla.

Þjálfarar í íþróttum eru ekki „lærifeður“ heldur einfaldlega þjálfarar. Leikmenn eru ekki „lærisveinar“, þeir eru ekki að læra heldur undir verkstjórn þjálfara. Í hópíþróttum eru þeir leikmenn. 

Þetta er svo óskaplega vitlaust að engu tali tekur og gengur þvert á alla málhefð. Fréttamenn á Ríkisútvarpinu eru ekki lærisveinar fréttastjórans eru blaðamenn lærisveinar ritstjóra eða ritstjórnarfulltrúa.

Ef þetta verður látið óátalið má allt eins kalla þá lærlinga eða lærisveina sem starfa undir verkstjórn annarra. Á sama hátt mætti kalla stjórnendur lærifeður. Auðvitað gengur þetta ekki. Svokallað „íþróttamál“ má ekki brjóta gegn málfræði og málhefð.

Að lokum má geta þess að liðið tapaði og þjálfarinn er hluti af því. Varla getur það verið að leikmennirnir hafa tapað en ekki þjálfarinn.

TillagaLið Heimis Hallgrímssonar tapaði ...

2.

„Ég held að Kenny hafi ekkert með þetta að gera, til þess að vera hreinskilinn.“

Frétt á visir.is.               

Athugasemd: Hér skín enskan í gegn, þýðingin er léleg. Líklegast er að blaðamaðurinn noti Google Translate sem skilur ekki blæbrigði íslensks máls enda var forritið ekki lengi að snara þessu svona aftur yfir á ensku:

I think Kenny has nothing to do with that, to be honest.

Google Translate ætti ekki að starfa í blaðamennsku á Íslandi. „Hann“ hefur að vísu nægan orðaforða en kann ekki að nýta sér hann svo vel sé. 

Tillaga: Í hreinskilni sagt held ég að Kenny hafi hvergi komið nálægt þessu.

3.

„Eftir nokkur lög fara tvær stelpur fyrir framan okkur að dilla sér sem er náttúrulega kannski ekkert athugavert nema það að þetta eru sitjandi tónleikar …“

Frétt á dv.is.                

Athugasemd: Á sumum tónleikum er gert ráð fyrir að áheyrendur sitji, á öðrum eru engin sæti og fólk stendur. Oft er erfitt að ráða við sig tónlistin streymir frá listamönnunum og fólk rís ósjálfrátt úr sætum sínum og dillar sér og dansar.

Eitthvað ókunnuglegt og óeðlilegt er að tala um „standandi“ eða „sitjandi“ tónleika því þeir eru atburður sem getur hvorki staðið né setið. Orðalagið er komið úr ensku. Cambridge Dictionary virðist ekki þekkja „sitting concert“ en Google þekkir þetta mætavel.

Vera má að þetta sé ekki aðalatriðið heldur málhefðin. Tónleikar geta ekki staðið þó áhorfendur standi eða sitji. Ekki frekar en við getum talað um „akandi vegi“, „gangandi fjöll“, „skrifandi borð“, „hlaupandi stíga“, „greiðandi öpp“, „fundandi sal“ svo nokkur fáránleg en sambærileg dæmi séu nefnd um vegi, skrifborð, hlaupastíga, bankaöpp og fundarsal.

Stundum hefur maður lent í standandi vandræðum með eitthvað. Þá eru vandræðin mikil. Sá sem er standandi hissa er afar undrandi og sá sem er í vanda staddur en kemur standandi niður hefur ekki skaðast verulega. Þetta orðalag er þó varla sambærilegt við „standandi tónleika“ eða sitjandi tónleika“.

Tillaga: Eftir nokkur lög byrja tvær stelpur fyrir framan okkur að dilla sér sem er svo sem allt í lagi nema vegna þess að ætlast er til þess að tónleikagestir sitji í sætum sínum 

4.

„DV tókst ekki að ná tali af Gísla Pálma eða Ástrósi þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.“

Frétt á dv.is.                

Athugasemd: Nafnið Ástrós er þarna rangt fallbeygt. Það beygist svona:

Ástrós, um Ástrós, frá Ástrós, til Ástrósar.

Kvennafnið Rósa beygist á annan veg:

Rósa, um Rósu, frá Rósu, til Rósar.

Aftur á móti beygist kvenkynsnafnorðið rós eins og Ástrós:

Rós, um rós, frá rós, til rósar.

Auðvelt er að sækja sér hjálpar á málið.is. Þar er vísað til fallbeyginga allra orða í eintölu og fleirtölu, án og með greini.

Tillaga: Eftir nokkur lög fara tvær stelpur fyrir framan okkur að dilla sér sem er svo sem allt í lagi nema vegna þess að ætlast er til þess að tónleikagestir sitji í sætum sínum 

5.

„… en strandrof frá Norður­sjó hef­ur um tíma hótað vit­an­um að steypa hon­um niður í sjó.“

Frétt á mbl.is.                

Athugasemd: Fréttin er fróðleg og skemmtileg en málfarið er slæmt, eiginlega mjög vont. Skrifin eru dálítið útlendingsleg og viti menn, ofangreind málsgrein er komin úr ensku og líklega þaðan úr dönsku.

Á vef BBC segir:

… but coastal erosion from North Sea winds threatened to topple it into the sea.

Betur fer á því að tala um sjávarrof en strandrof, sjórinn ógnar vitanum, ströndin rofnar vegna ágangs sjávar. Líklega stendur vitinn á sandhæð og vel má vera að vindurinn eigi einhverja sök á rofinu. Miðað við myndir sem fylgja fréttinni er líklegast að brimið sé stóri skaðvaldurinn og smám saman rýrnar hæðin rétt eins og dæmi eru til hér á landi. Nefna má til dæmis Valahnúk á Reykjanesi.

Hér minnist maður þess sem segir í góðri bók:

En hver sem heyrir þessi orð mín og breytir ekki eftir þeim, sá er líkur heimskum manni, er byggði hús sitt á sandi. Steypiregn skall á, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi. Það féll, og fall þess var mikið.

Ekki er gott að segja „strandrof hótar vitanum“. Nær er að rofið ógni vitanum.

Í fréttinni segir:

Það mun taka nokkr­ar klukku­stund­ir að færa vit­ann en það er ekki hægt að hreyfa hann hraðar en 12 metra á hverri klukku­stund.

Orðalagi að „hreyfa vitann 12 metra á klukkustund“ er dálítið furðulegt og getur varla verið rökrétt. Betra að að nota orð eins og flytja, ýta, draga eða álíka.

Í fréttinni segir einnig:

Svæðið í kring­um vit­ann mun nú vera fyllt með sementi.

Hér er ókeypis ráð. Ekki dreifa sementi í kringum vitann, það styrkir ekki undirstöðurnar. Betra er að steypa í kringum hann. Líklegast hefur það verið gert þrátt fyrir orðalagið í fréttinni.

Tillaga: … en sjávarrof hefur ógnað undirstöðum vitans. 

6.

„Nú eru tvær vik­ur áður en hann fer í skurðaðgerð sem mun að öll­um lík­ind­um draga hann til dauða.“

Frétt á mbl.is.                 

Athugasemd: Þarna er réttara að segja þar til hann fer. Skera upp er fallegra orðalag en að „fara í skurðaðgerð“.

Tillaga: Nú eru tvær vikur þar til hann verður skorinn upp sem að öllum líkindum verður banamein hans.


Allar upplifanirnar á hjóli og gera stóra hluti

Orðlof

Ensk orðasambönd

Erlendur uppruni einn og sér er ekki gild ástæða til að amast við einhverju orðalagi, og þótt samböndin eins og enginn væri morgundagurinn, sama hvað og af ástæðu séu greinilega öll komin úr ensku finnst mér ástæða til að gera upp á milli þeirra. 

Fyrstnefnda sambandið hvorki breytir né útrýmir einhverju sem fyrir er í málinu – það má alveg segja að það auðgi málið. Í síðarnefndu samböndunum tveimur er aftur á móti verið að breyta hefðbundnu íslensku orðalagi að ástæðulausu. Betra væri að halda sig við hefðina.

Vefsíða Eiríks Rögnvaldssonar málfræðings.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Arna Sigríður Albertsdóttir segir að allar upplifanirnar á hjóli standi upp úr.“

Undirfyrirsögn á blaðsíðu 6 í íþróttablaði fatlaðra í Morgunblaðinu 19.10.2019.               

Athugasemd: Upplifun er eintöluorð og ekki til í fleirtölu. Þótt „upplifanir“ virðist sennileg orðmyndun er reyndin önnur. Blaðmenn og aðrir sem skrifa í blöð verða að átta sig á þessu. 

Staðreyndin er sú að blaðamaður sem hefur ekki sæmilegan orðaforða skrifar rýrt mál. Þetta eiga ritstjórar fjölmiðla að vita.

Tillaga: Arna Sigríður Albertsdóttir segir að öll ævintýrin á hjóli standi upp úr.

2.

„… fléttar saman frásagnir ýmissa aðila sem hafa kynnst Klopp á einhvern hátt á lífsleiðinni.“

Viðtal á blaðsíðu í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 20.10.2019.               

Athugasemd: Rétt er að segja að flétta saman frásögnum, það er í þágufalli.

Það segir sig sjálft að þeir sem kynnst hafa Klopp hafa gert það á einhvern hátt á lífsleiðinni, annað er ómögulegt. Því er eðlilegra að að hafa málsgreinina eins og segir í tillögunni hér fyrir neðan.

Klopp er aðalþjálfari fótboltafélagsins Liverpool. Í greininni er rætt við Raphael Honigstein, blaðamann sem skrifað hefur bók um manninn.

Í greininni segir:

Til að kynnast Klopp betur talaði Honigstein við þá sem störfuðu með Klopp, þar með talið núverandi og fyrrverandi lærisveina, framkvæmdastjóra og aðstoðarþjálfara …

Ekki kemur fram að Honigstein hafi rætt við leikmenn sem Klopp hefur þjálfað. Það hlýtur að draga mikið úr gildi bókarinnar. Skrýtið að blaðamaðurinn skuli ekki hafa spurt Honigstein að þessu. Hins vegar er ekki vitað hverjir eru þessir „lærisveinar“. Má vera að Klopp reki fótboltaskóla fyrir börn og unglinga í frístundum sínum þó ekkert komi fram um það í viðtalinu.

Varla er hægt að kalla fólk „aðila“.

Tillaga: … fléttar saman frásögnum þeirra sem hafa kynnst Klopp.

3.

„Körfuboltakvöld: Óafsakanlegt hjá Ísak.“

Frétt á visir.is.                

Athugasemd: Mannsnafnið Ísak er hér rétt beygt. Orðið beygist svona: 

Ísak, um Ísak, frá Ísak/Ísaki, til Ísaks.

Ég þurfi að vísu að fletta upp á beygingarlýsingunni á bni.is því mér finnst að þágufallið eigi að vera Ísaki. Ég hafði ekki rangt fyrir mér, nafnið getur líka beygst eins og ég hélt. 

Tillaga: Engin tillaga.

4.

„Við förum í Meistaradeildina á næsta ári og við ætlum okkur að gera stóra hluti þar.

Frétt á blaðsíðu 27 í Morgunblaðinu 21.10.2019.               

Athugasemd: Núorðið segist ungt fólk ekki ætla að standa sig vel heldur vill það „gera góða hluti“. Ummælin eru höfð eftir afburðagóðri fótboltakonu sem varð Svíþjóðarmeistari.

Í fréttinni segir einnig:

Við erum að byggja upp eitthvað mjög gott hérna að mínu mati og ég er mjög spennt að halda því áfram.

Ekki veit ég hvað svona kallast þegar fólk kann ekki að orða hugsanir sínar en segist þess í stað vera „að gera eitthvað gott“. „Eitthvað“ á þá að standa fyrir hluta eða öllu sem það gerir vel en sá sem hlustar eða les er engu nær.

Líklega hefði blaðamaðurinn átt að lagfæra orð fótboltakonunnar og skrifa:

Við höfum byggt upp mjög gott lið að mínu mati og ég er mjög spennt að halda því áfram.

Ríó Tríóið söng fyrir mörgum árum um þá sem eru að gera það gott og hér er viðlagið tvíræða:

Allir eru að gera það gott nema ég.
Allir eru að gera það gott nema ég.
Ég get sungið líka, mín altrödd yndisleg,  
en allir eru að gera það gott nema ég.

Blaðamenn eiga að lagfæra orðalag þegar það á við, ekki bera út vitleysur eða lélega samsuðu. 

Tillaga: Við förum í Meistaradeildina á næsta ári og þar munum við standa okkur vel.

 


Leita af peningum og skógur á svæði þar sem skógræktarfélagið ræktaði skóg

Orðlof

Kynusli

Aðalatriðið í þessu er umburðarlyndi og virðing fyrir öðru fólki og málnotkun þess. Þau sem vilja hafna karlkyni sem ómörkuðu kyni þurfa að hafa í huga að við erum flest alin upp við að karlkynið hafi þetta hlutverk, og í þeirri málnotkun felst engin karlremba.

Þau sem vilja halda í karlkynið sem ómarkað kyn þurfa að sýna því skilning að ýmsum finnst karlkynið eingöngu vísa til karlmanna og þar með vera útilokandi. Málið þolir alveg að mismunandi málvenjur séu í gangi samtímis.

Vefsíða Eiríks Rögnvaldssonar.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Ef UEFA er annt um að berjast við kynþáttaníð þá verða næstu skref að vera stiga frádráttur og útilokun úr keppnum.“

Fyrirsögn á vísir.is.               

Athugasemd: Þetta er ekki vel skrifað. Kynþáttaníð er hvorki maður né dýr og því er barist gegn slíku. 

Þegar stigi sem stendur upp við húsvegg er fjarlægður má kalla það stigafrádrátt. Sé ætlunin að draga stig af öðru liði er það bara sagt beinum orðum, óþarfi að búa til nafnorðið „stigafrádráttur“ (á að vera í einu orði). Illt er ef blaðamaðurinn kann ekki að gera því skil á íslensku sem hann les á ensku.

Tillaga: Vilji UEFA hamla á móti kynþáttaníði vera þarf að grípa til þess að draga stig af liðum og jafnvel útiloka þau frá keppni.

2.

„… að hann hafi ekki heyrt neitt af rasismanum sem hafi átt að hafa skeð.“

Frétt á vísi.ris.               

Athugasemd: Þetta er óboðlegt. Blaðamenn verða að lesa fréttir sína yfir fyrir birtingu og skilja hvenær þeim hefur orðið á. 

Svona er málsgreinin öll:

Margir Búlgarar vildu þó ekki kannast við það og sagði meðal annars þjálfari þeirra að hann hafi ekki heyrt neitt af rasismanum sem hafi átthafa skeð.

Fréttin er skelfilega rýr. Lesandinn veit sáralítið eftir lesturinn. Þetta er þó verst: að maðurinn hafi ekki heyrt það sem hafi átthafa skeð. 

Hvernig í ósköpunum er hægt að skrifa svona? Enginn á ritstjórn Vísis les yfir fréttir samstarfsmanna sinna og heimskuleg skrif frá að standa þar óleiðrétt um aldur og ævi. Ekkert gæðakerfi í notkun. Lesendur skipta engu máli.

Þó má segja að blaðamanninum sé ekki alls varnað þegar hann þýðir ruddalegt enskt orðalag („fu… off“) sem halda kjafti.

Sögnin „ske“ þykir vont mál og sést sárasjaldan í fjölmiðlum og er raunar afar lítið notað í talmáli.

Atviksorðið kannski er líka tökuorð í dönsku og á málið.is segir:

kanske, gd. kand (vel) ske.

Kannski hefur fyrir löngu öðlast þegnrétt í málinu.

Tillaga: Margir Búlgarar vildu þó ekki kannast við það. Þjálfari þeirra sagðist ekki hafi ekki heyrt nein rasísk ummæli.

3.

„Furðuský á Hverfisgötu.“

Fyrirsögn á visir.is.                

Athugasemd: Auðvitað er skýjafar ekki bundið við götur, hvorki í Reykjavík né annars staðar. Blaðamaðurinn sá að sér og hefur nú lagfært fyrirsögnina og er hún svona:

Egglaga ský vöktu athygli í höfuðborginni.

Engu að síður man Google gömlu fyrirsögnina, hann gleymir engu sá andskoti.

Tillaga: Engin tillaga.

4.

„Hundur hefur það hlutverk að leita af peningum.“

Fyrirsögn á visir.is.                

Athugasemd: Hér hefur eitthvað farið úrskeiðis, sem getur verið skiljanlegt hjá fólki sem hefur ekki tilfinningu fyrir notkun og af. Líklega eru flestir þeirra sem alist hafa upp við lestur bókmennta með notkun þessara forsetninga nokkurn veginn á hreinu. Það þarf þó alls ekki að vera svo. 

Eiríkur Rögnvaldsson skrifar mjög gagnlegar leiðbeiningar um þetta á vefsíðu sinni. Þar segir hann meðal annars:

Grunnmerking er í áttina til en grunnmerking af er frá, burt. Þar sem þessi grunnmerking er skýr verður þess ekki vart að forsetningunum sé blandað saman, svo að ég viti. 

Enginn segir *Ég gekk í átt af húsinu eða *Ég tók bókina honum svo að ég viti. En þegar ekki liggur í augum uppi að þessi grunnmerking eigi við má búast við víxlum, þannig að af sé iðulega notað þar sem hefð er fyrir að, og öfugt. Þetta sést greinilega ef maður skoðar dæmin í Málfarsbankanum sem hér var vísað til.

Mikilvæg er að lesa allan pistilinn því Eiríkur segir meðal annars í lok hans: 

Ef fólk hefur vanist notkun annarrar forsetningarinnar þótt hin sé talin „rétt“ sé ég enga ástæðu til að breyta því. Ég er t.d. vanur að tala um að gera mikið af einhverju og töluvert fleiri dæmi eru um það á tímarit.is en gera mikið að sem er talið rétt. Ég held bara mínu striki.

Þetta er nokkuð merkilegt viðhorf hjá prófessor í íslenskri málfræði og víst að ekki eru allir sammála.

Tillaga: Hundur þjálfaður í að leita að peningum.

5.

„Sumar leiðirnar liggja um skógi vaxin svæði eins og svæðið við Hamrahlíð þar sem Skógræktarfélag Mosfellsbæjar hefur ræktað skóg.“

Myndatexti á forsíðu Morgunblaðsins, sjá mbl.is.                

Athugasemd: Þetta er hörmulega lélegur texti, útbíaður í nástöðu, innihaldslaus og stíllaus. Fleirum en mér kann að þykja svona skrýtið, því á blaðinu vinna margir frábærir „skíbentar“. Í stað þess að nota þá er textagerðinni úthýst til Indverja sem aðeins er mæltur á sanskrít og býr ofarlega í hlíðum Himalayjafjalla. Sá afgreiðir málin hratt og vel með aðstoð Google Translate.

Nei, ég er ekki að reyna að vera fyndinn. Flestar innlendar bækur eru prentaðar í útlandinu og stundum virðist textinn í íslenskum fjölmiðlum líka vera saminn þar.

Myndatextinn er ekki einu sinni áferðarfallegur né sennilegur. Höfundurinn talar um skóginn þar sem Skógræktarfélagið hefur ræktað skóg. Þvílíkt bull.

Þar að auki eru skógi vaxin svæði og svæði með skógi. Er höfundinum sjálfrátt eða talar púki í gegnum hann?

Í heild er myndatextinn á forsíðunni svona: 

Úlfars­fell er mjög vin­sælt fjall á höfuðborg­ar­svæðinu. Þar er hægt að velja um ýms­ar göngu­leiðir sem liggja upp á fellið. Af fell­inu er mjög gott út­sýni yfir höfuðborg­ar­svæðið.

Gang­an á Úlfars­fell tek­ur um eina og hálfa klukku­stund fyr­ir fólk í þokka­legu formi og vel þjálfaðir eru enn fljót­ari en það. Hæsti tind­ur­inn, Stóri­hnúk­ur, er á aust­an­verðu fjall­inu og er hann 295 metra hár.

Sum­ar leiðirn­ar liggja um skógi vax­in svæði eins og svæðið við Hamra­hlíð þar sem Skóg­rækt­ar­fé­lag Mos­fells­bæj­ar hef­ur ræktað skóg.

Ýmist er Úlfarsfell sagt fjall eða fell. Á það má velja um ýmsar gönguleiðir, ekki margar heldur ýmsar. Samt eru þær margar. 

Gangan á fjallið er sögð taka 90 mínútur. Enginn í þokkalegu formi er svo lengi að fara 1,5 km leið, nema því aðeins að hann þurfi að aðlagast hæðarmismuninum eins og gert er á Everest.

Ekki veit ég hvenær hæsti hnúkur Úlfarsfells fékk nafnið Stórihnúkur. Þannig er hann ekki merktur á gamla Atlaskortið mitt, er raunar nafnlaus þar. En eitthvað verða tindar að heita.

Tillaga: Engin tillaga.


Slys var slys, herinn mætir og hnappheldan

Orðlof

Fjölbreytni í orðavali

Sjálfsagt er að „pressa á helvítið að borga“ hafi helvítið ekki orðið við vinsamlegum tilmælum þar að lútandi.

En það má líka reyna að þrýsta á það (helvítið) að borga, leggja fast eða hart að því, þröngva því til eða knýja það til að borga og gá hvort það linast ef því eru kynntir fleiri kostir en pressa.

Málið, blaðsíða 21 í Morgunblaðinu 15.10.2019.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Slysið á Snæfellsvegi var banaslys.

Fyrirsögn á vísir.is og á mbl.is.               

Athugasemd: Þetta er arfaslæm fyrirsögn, nástaðan hefði átt að hringja bjöllum í höfði blaðamanna: Slysið var slys.

Bæði Mogginn og Vísir eru með sömu fyrirsögn. Hvaða líkur eru á því að það gerist?

Þjóðvegur númer 54, sá sem liggur um sunnanvert Snæfellsnes, frá Vegamótum og Fróðárheiði, nefnist Snæfellsnesvegur hjá Vegagerðinni. Löggan skrifar heitið rétt en Mogginn og Vísir fara rangt með. Gæti verið að annar hvor fjölmiðilli hafi hreinlega notað hinn sem heimild?

Á dv.is er fyrirsögnin þessi:

Einn látinn eftir slysið á Snæfellsnesi.

Vel gert hjá DV. Þar að auki er vitnað í Vísi og heimildar getið sem er til fyrirmyndar.

Tillaga: Einn lést í slysinu á Snæfellsnesvegi.

2.

„Assad-liðar mættir á átakasvæði.

Fyrirsögn á visir.is.                

Athugasemd: Er ekki líklegra að stjórnarherinn í Sýrlandi sé kominn á átakasvæðið frekar en að hann sé mættur þangað? Þó að hið síðarnefnda megi til sanns vegar færa er ekki tekið svo til orða um hernaðarbrölt.

Á malid.is segir:

mæta, s. hitta, koma til móts við, koma á fund eða e-n stað,…

Herinn er ekki að hitta þann tyrkneska, síður en svo. Alvarlegri verður varla neinn fundur.

Tillaga: Assad-liðar mættir á átakasvæði.

3.

„Þá var lögreglu einnig tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir samkvæmt dagbók lögreglunnar.“

Frétt á dv.is.                 

Athugasemd: Vita blaðamenn ekki muninn á aðalatriðum og aukaatriðum? Með öðrum orðum, það sem er fréttnæmt. Grunsamlegar mannaferðir teljast ekki til tíðinda nema eitthvað meira fylgi.

Tillaga: Engin tillaga.

4.

„Einungis einstaklingum er heimilt að sækja um lóðirnar en þeir geta hins vegar gert tilboð í fleiri en eina lóð. Hver aðili getur eingöngu fengið úthlutaða eina lóð.“

Frétt á frettabladid.is.                

Athugasemd: Aumt er það þegar einstaklingar breytast í aðila rétt eins og segir hér að ofan.

Ekki batnar það þegar fallbeygingin reynist röng. Hver maður getur líkleg aðeins fengið úthlutað einni lóð.

Tillaga: Hver maður getur gert tilboð í margar lóðir og hann vill en fær aðeins einni úthlutað.

5.

„Séra Davíð Þór og Þórunn í hnapphelduna.“

Frétt á visir.is.                

Athugasemd: Ég hef oft kallað það hjáorð sem margir blaðamenn nota í stað algengra orða eða orðasambanda. Hér er ágætt dæmi. Fólk giftir sig en í stað þess að segja það berum orðum eru þau sögð komin í hnappheldu.

Hnapphelda er haft sem sett var á framfætur strokgjarna hesta. Sem sagt, nú er búið að hefta þessi tvö, frelsinu lokið, allt búið ... 

Síðar í örstuttri frétt er sagði að þau hafi sett upp hringanna. Hvergi kemur fram að þau hafi gift sig. Er ekki hjáorðaáráttan skrýtin?

Tillaga: Séra Davíð Þór og Þórunn giftu sig.


Bara pínu ófullnægjandi, segir Samfylkingin

Viðbrögð Íslands er varða Tyrki eru góðra gjalda verð, en það verða líka að fylgja með ákúr­ur til Banda­ríkj­anna fyr­ir þeirra þátt. Á meðan það er ekki finnst mér viðbrögð rík­is­stjórn­ar­inn­ar loðmullu­leg og aula­leg.

Þetta segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar í viðtali við Mbl. Röksemdafærslan er frekar máttlaus því í lokin segir hann:

Ég held að Ísland geti alltaf nýtt sér sína rödd til að tala fyr­ir friðsam­leg­um lausn­um og yf­ir­veguðum ákvörðunum. Við höf­um vett­vang inn­an NATO, Sam­einuðu þjóðanna og mannrétt­indaráðinu en Ísland á og þarf og verður að stíga fast til jarðar og tala skýrt og mér finnst pínu skorta það.

Í stuttu máli hefur Logi þetta út á viðbrögð íslenskra stjórnvalda vegna innrásar Tyrkja í Sýrland:

  1. Þau eru góðra gjalda verð
  2. Þau eru loðmulluleg og aulaleg
  3. Þau eru pínulítið ófullnægjandi

Mér finnst þetta nú doldið vingjarnlegt hjá honum Loga, en hefði hann ekki átt að sleppa þessu öllu fyrst hann getur ekki gert almennilega upp hug sinn.

Flestir muna eftir hörðum viðbrögðum ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna þegar Nato hóf loftárásir á Líbýu. Þá var nú aldeilis rödd Íslands látin heyrast um víða veröld og talað fyrir friðsamlegum lausnum og yfirveguðum ákvörðunum á alþjóðlegum vettvangi.

Ha, man lesandi ekki eftir þessum hörðu viðbrögðum?

Já, nú man ég. Ríkisstjórn Samfylkingarinnar og VG gerðu engar athugasemdir við loftárásir Nato á Líbýu.

Er einhver að kvarta undan því að utanríkisráðherra sendi tyrknesku ríkisstjórninni mótmæli og kvartaði undan aðgerðaleysi Bandaríkjamanna?

Logi segir að þetta sé pínulítið ófullnægjandi. Hvað skyldi hann vilja til viðbótar? Kvörtun til Stoltenbergs?

Bara pínu ófullnægjandi. Ekki 10 í einkunn heldur 9,5.


mbl.is „Loðmulluleg og aulaleg“ viðbrögð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Falskar fréttir og hálfsannleikur

Sé ætlunin að niðurlægja pólitíska andstæðinga eða gera lítið úr skoðun þeirra og gerðum þá er skiptir fernt mestu:

  1. Vitna í orð andstæðinganna
  2. Fara rangt með tilvitnunina
  3. Leggja út af hinni röngu tilvitnun
  4. Fá fleiri til að gera hið sama

Þetta er óbrigðul aðferð og viti menn. Innan skamms er hin ranga tilvitnun og útlegging orðin að sannleika ... af því að svo margir segja það. Stundum mistekst þetta ef andstæðingurinn nær eyrum fólks og geti leiðrétt rangfærsluna. Þá er málið ónýtt nema því aðeins að nógu margir brúki taki þátt í þessum leik.

Auðvitað er þetta áróður, ljótur áróður sem hefur einkennt íslensk stjórnmál, sérstaklega síðustu tvo áratugi. Nú er svo auðvelt að koma upplýsingum til fólks, vefsíðurnar eru svo margar, bloggin, Facebook og athugasemdakerfi fjölmiðla.

Þessi áróðursaðferð varð til í Sovétríkjunum gömlu. Aðferðinni lýst í bók Arthurs Koestlers, „Myrkur um miðjan dag“. Hann var kommúnisti en hvarf af trúnni, samdi skáldsögu um Rubashov sem á að hafa verið hátt settur maður í stjórnkerfi Sovétríkjanna en lendir í ónáð hjá No. einum og er settur í fangelsi. Í yfirheyrslunum er farið nákvæmlega yfir feril Rubashovs og smáum atriðum og stórum snúið gegn honum. Í bókinni segir:

„Mestu glæpamenn sögunnar,“ hélt Ivanov áfram, „eru ekki menn á borð við Nero og Fouché, heldur slíkir sem Gandhi og Tolstoy. Innri rödd Gandhis hefur gert meira til að koma í veg fyrir frelsi Indlands en byssur Breta. Það, að selja sjálfan sig fyrir þrjátíu peninga silfurs, er heiðarlegur verknaður, en hitt, að ofurselja sig samvisku sinni, er svik við mannkynið. Sagan er a priori siðlaus. Hún hefur enga samvisku. Það, að ætla sér að stjórna rás sögunnar eftir sömu reglum og sunnudagaskóla, er sama sem að láta allt danka eins og það er. Þetta veistu eins vel og ég. [bls. 163, útgáfan frá 1947]

Þetta er alveg stórundarleg útskýring á þessu einstaklingsbundna fyrirbrigði sem kallast samviska. Samkvæmt þessu á hún að vera „félagsleg“ og þar með er hún rifin út tengslum við hugsun. Í staðin er hún gerð útlæg og í stað hennar þarf einstaklingurinn að leita til annarra sé hann í vafa um hvað sé rétt og rangt. 

Auðvitað átt Rubashov ekki nokkra möguleika gegn kerfinu. Hann var yfirheyrður og kerfisbundið snúið út úr því sem hann hafði áður sagt, gert og fundir hans með öðru fólki voru gerðir að samsæri gegn Sovétríkjunum. Svona gerist nú þegar gildi eru skilgreind fyrir pólitíska hagsmuni. 

Auðvitað er samviska hvers manns mikilvægari en orð fá lýst sem og hugsun og ekki síst rökhugsun. Eina leiðin til að halda sönsum er að hlusta á samvisku sína. Þetta er eina leiðin til að berjast móti áróðri dagsins, fölskum fréttum og hálfsannleika.

Til dæmis er ég ekki alltaf viss hvort sú skoðun sem ég hef byggist á þekkingu, reynslu og rökhugsun eða þá að hún sé afleiðingin af síbylju áróðurs sem glymur fyrir eyrum og verður fyrir augum. Eftir því sem ég tala við fleiri og fylgist með þjóðfélagsumræðunni flögrar það að mér að vandinn sé ekki einskorðaður við mig einann. Ég hreinlega finn að margir hafa ekki skilning á umræðunni, kynna sér ekki mál öðru vísi en að hlusta á ágrip, lesa fyrirsagnir.

Auðveldast í öllum heimi er að trúa síðast ræðumanni, rökum þess sem virðist sannfærandi, hefur réttu raddbeitinguna eða hefur ásjónu þess sem er heiðarlegur. Einhvern tímann var sagt um forhertan glæpamann að hann liti nú síst af öllu út fyrir að vera glæpamaður. En hvernig lítur glæpamaður út? Hvernig lítur sá út sem afflytur staðreyndir, prédikar hálfsannleika? Þá vandast auðvitað málið því öll erum við þannig að við hlaupum stundum til og leggjum vanhugsað mat á hugmyndir, skoðanir og jafnvel fréttir.

Við treystum oft prentuðu máli eða því sem við heyrum frá snoppufríðum fréttalesara í sjónvarpsstöðvar af því að hann lítur svo „heiðarlega“ út, hvað svo sem það nú þýðir. Eða stjórnmálamann sem setur orðin sín fram á heillandi og sannfærandi hátt.

Þessa staðreynd þekkja allir og því er svo ósköp auðvelt að villa um fyrir öðrum. Þetta er nú til dæmis ágæt ástæða fyrir því að frelsi á að ríkja í fjölmiðlun. En í guðanna bænum, ekki treyst fjölmiðlum í blindi. Betra er að treysta á eigið hyggjuvit.

Staðreyndin er sú að allt er sennilegt en fátt er satt nema rök fylgi, öll rök. Þar af leiðandi er krafan sú að sá sem hlustar á eða les frétt trúi henni ekki eins og nýju neti.

Og síðast en ekki síst, sannleikann er aldrei að finna í forarpyttinum sem eru eftir fréttum sumra fjölmiðla. Yfirleitt er það illgjarnt fólk með takmarkaða þekkingu sem þar skrifar.

Þennan pistil birti ég fyrir þremur árum en tel hann eiga ágætlega við núna. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband