Peningafjárhæðir, ögra hættunni og taka upp samtal

Orðlof

Stærsti uppistandarinn

„Stærsti“ þetta og „stærsta“ hitt er sífellt meira áberandi í umræðunni og ber vott um versnandi máltilfinningu, erlend áhrif á tunguna og leti – því vitaskuld er hægt að orða hlutina á betri, svo ekki sé sagt réttari, hátt. Og þeir seku finnast víða; á dögunum las ég hér í blaðinu um fólk sem hljóp „stærstu“ maraþonhlaup og einnig um „stærstu“ kvikmyndirnar. 

Fyrirbærið stórmynd er eitt en ein kvikmynd getur aldrei verið „stærri“ en önnur. Hún getur þó aflað meiri tekna eða kostað meira í framleiðslu en aðrar. 

Fyrir skömmu barst mér fréttatilkynning um skemmtun eins „stærsta uppistandara heims“. Ég bjóst við manni sem væri allt að 220 cm. En þá reyndist viðkomandi tæplega meðalmaður á hæð. 

Morgunblaðið, blaðsíða 30, Ljósvakinn, Einar Falur Ingólfsson, 13.11.2019,  

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Tíu ríkustu fyrirtæki Bandaríkjanna sitja á ótrúlegum peningafjárhæðum.“

Fyrirsögn á dv.is.                  

Athugasemd: Allir vita hvað peningar eru og jafnvel fjárhæðir. Hins vegar vandast málið þegar kemur að orðinu „peningafjárhæðir“. Dreg í efa að það sé gott orð.

Einhvern tímann heyrði ég þetta haft eftir Bjarna Benediktssyni hinum eldra, forsætisráðherra að hann gerði greinarmun á upphæðum og fjárhæðum:

Drottinn allsherjar er í upphæðum, en peningar í fjárhæðum.

Við þetta er ekki öðru að bæta að „peningafjárhæð“ fer í flokk bjánalegra orða eins og ákvarðanataka, valkostur, bílaleigubíll, pönnukökupanna svo eitthvað sé nefnt.

Í fréttinni segir:

Microsoft situr á mestu eignunum samkvæmt frétt CNBC en fyrirtækið er með 136,6 milljarða dollara í lausafé og skammtímafjárfestingum.

Vissulega eru peningar eignir en þarna hefði verið eðlilegra að segja að Microsoft ætti yfir mestu fé að ráða.

Tillaga: Tíu ríkustu fyrirtæki Bandaríkjanna sitja á ótrúlegum fjárhæðum.

2.

„Jarðskjálfti að stærð 5,4 reið yfir á Suður-Frakklandi í morgun. Jarðskjálftinn takmarkaðist við stórt svæði á milli borganna Lyon og Montelimar sem eru í um 150 kílómetra fjarlægð hvor frá annarri. “

Fyrirsögn á visir.is.                   

Athugasemd: Slæmt er að enginn leiðbeinir byrjendum í blaðamennsku, ritstjóri eða aðrir stjórnendur fylgjast ekki með vinnubrögðunum. 

Rithátturinn Suður-Frakkland tíðkast ekki. Nær er að tala um suðurhluta Frakklands eða suður Frakkland. 

Jarðskjálftinn „reið ekki yfir á“ Frakklandi. Þarna er forsetningunni ofaukið. Réttara er að jarðskjálftinn reið yfir suðurhluta Frakklands.

Barnalegt er að segja að borgirnar séu í þessari fjarlægð „hvor frá annarri“. Réttara er að segja að 150 km séu á milli borganna.

Fyrirsögnin fréttarinnar er svona:

Stór jarðskjálti í Suður-Frakklandi

Stundum talar fólk óskýrt og segir skjálti og skrifa það þannig, einnig „Keblavík“, „Reygjavig“, og „kvar“. Í tölvum fjölmiðla eru villuleitarforrit og stafsetningarvillur eiga því ekki að birtast, kunni blaðamaðurinn á annað borð á tölvu.

Fyrirsögnin var síðar lagfærð sem er jákvætt. Annað er óbreytt sem er ekki gott.

Tillaga: Jarðskjálfti að stærð 5,4 varð á milli borganna Lyon og Montelimar en um 150 km eru á milli þeirra.

3.

„Fólk var mikið að ögra hættunni þarna.“

Fyrirsögn á visir.is.                   

Athugasemd: Svona orðalag er ekki bjóðandi. Það er haft eftir leiðsögumanni en verkefni blaðamannsins er auðvitað að færa ummæli til betri vegar, ekki nota það sem viðmælandinn segir í fljótfærni sinni. 

Ögra merkir samkvæmt orðabókinni að eggja, espa, ógna eða hóta. Skylt orðinu ögur sem merkir vík eða vogur. Þar af er dregið orðið ógurlegur og ógn.

Líklega hefur óðamála leiðsögumaðurinn átt við að fólk hafi ögrað forlögum sínum. Sagt hefur verið að æfi hvers manns sé fyrirfram ákveðin, það séu forlög og vissara sé ekki að ögra þeim, þá geti allt breyst, jafnan til verri vegu.

Svo má vera að leiðsögumaðurinn hafi ætlað að segja að fólkið hafi leikið sér að hættunni. Þá gerist annað hvort að fólk sleppi eða ekki.

Ljótt er að segja að fólk hafi mikið „ögrað hættunni“. Þetta er eins og að segja að fólk hafi „mikið lagt“ hellur í garðinum. Betur fer á því að orða þetta á annan hátt.

Tillaga: Fjöldi fólks lék sér að hættunni.

4.

„Mig langar að vísa því til forseta Alþingis og forsætisnefndar að hlutast til um að taka upp samtal við Reykjavíkurborg …“

Staksteinar á blaðsíðu 8 í Morgunblaðinu 13.11.2019.                   

Athugasemd: Í Staksteinum er vitnað í þingmann sem segir ofangreint. Vera má að á Alþingi sé fólk hætt að tala eða ræða saman. Þar „taka menn upp samtal“ eða „orðræðu“. Er svona stofnanamál flottari en „venjuleg“ íslenska?

Sorglegt er að þingmenn geti ekki tjáð sig á eðlilegri íslensku eins og venjulegt fólk.

Tillaga: Mig langar að biðja forseta Alþingis og forsætisnefnd að ræða við Reykjavíkurborg …


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband