Bloggfærslur mánaðarins, maí 2024
Ég kýs Katrínu Jakobsdóttir
10.5.2024 | 18:01
Ég gerði fyrir löngu upp hug minn, þurfti í raun ekki langa umhugsun. Enginn kom til greina nema Katrín Jakobsdóttir. Hún hefur staðið sig afburða vel sem forsætisráðherra í ríkisstjórn þriggja ólíkra flokka, verið óumdeildur leiðtogi ríkisstjórnar sem náð hefur gríðarlega góðum árangri
Ekki nokkur vafi í mínum huga að hún verði afskaplega góður forseti. Sá sem gegnir embættinu þarf að vera víðsýnn, bera virðingu fyrir fjölbreyttri menningu þjóðarinnar og stuðla að því að hún blómstri. Forsetinn er um leið brjóstvörn lýðræðisins.
Mér hefur sýnst Katrín búa yfir sterkri réttlætiskennd án þess að í starfi hennar hefi hún haft annað að leiðarljósi en hagmuni þjóðarinnar allrar.
Ég er Sjálfstæðismaður og fylki mér nú í sístækkandi hóp flokksmanna sem styður Katrínu. Margir hafa atast í mér vegna þessa og munu eflaust halda því áfram en ég er ekki einn því rúmlega helmingur flokksmanna styður hana. Því ber að fagna.
Við þá sem eru enn tvístígandi vil ég segja það eitt að kosningar til forseta Íslands eru leynilegar. Enginn veit hvernig maður ráðstafar atkvæði sínu.
Síðustu skoðanakannanir benda til þess að fylgi við Katrínu vaxi dag frá degi, þökk sé öflugu grasrótarstarfi stuðningsmanna hennar, Sjálfstæðismanna sem annarra.
Tryggjum að embætti forseta Íslands verði vel skipað.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)