Skjálftahrinan mikla við Öskjuop

Screenshot 2019-11-12 at 11.46.24Fjölmiðlar öðlast nýtt líf þegar fréttir berast af jarðskjálftahrinum eða stórum skjálftum. Við leikmenn sem fylgjumst með skjálftavirkni á landinu sperrum hins vegar eyrun þegar engir skjálftar mælast. Í augnablikinu eru misgengin við Grímsey og í Öxarfirði eru til friðs. Sama er með Reykjanes, Mýrdalsjökul og Öræfajökul en Bárðarbunga virðist vera með meðvitund.

Þá víkur sögunni að Öskjuopi. Þar virðast allir þeir jarðskjálftar komi saman sem venjuleg ættu að hrista aðra landshluta.

Tíminn er afstæður í jarðfræðinni og skiptir í raun litlu máli. Hins vegar þekkja flestir gosið sem var í Dyngjufjöllum 28. mars árið 1875. Það var gríðarlegt. Öskufallið hrakti fólk úr sveitum á Austurlandi og fjöldi bæja fór í eyði og fólk fluttist af landi brott. Í gosinu varð Askja til. Fjöllin sigu ofan tómu kvikuþróna sem þar var undir og hluti landsins seig enn neðar og þar er nú Öskjuvatn.

Screenshot 2019-11-12 at 13.14.32Askja er á virka gosbeltinu en eldgosin þar eru ekki alltaf hamfaragos. Þann 21. október 1961 hófst gos í Öskjuopi þar sem nú heita Vikraborgir og eru fallegir gígar. Á tuttugu og þremur dögum rann hraun úr þeim rúma átta kílómetra. Árið 1922 gaus vestan megin við Öskjuvatn og hraunið sem þá rann nefnist nú Mývetningahraun.

Meðfylgjandi er falleg loftmynd frá Landmælingum. Á henni sést Vikrahraun greinilega. 

Nú er í gangi mikil skjálftahrina við suðaustan við Öskjuop. Þarna hafa orðið 247 skjálftar á þremur dögum. Upptök þeirra eru að hluta undir austasta hluta Vikrahrauns og þar í suður. Skjálftarnir sjást betur á græna kortinu sem fengið er af vef Veðurstofunnar.

Screenshot 2019-11-12 at 13.47.24Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að orsök skjálftanna séu kvikuhreyfingar. Ástæðan er fyrst og fremst sú að þeir eru staðbundnir. Þeir hreyfast lítið, færast þó hægt en greinilega til suðurs. Þetta er eins og að horfa á skjálftana í bergganginum sem leiddi til síðasta eldgoss í Holuhrauni.

Verði eldgos á þessum slóðum er líklegt að hraun renni í skarði á milli Dyngjufjalla og Vaðöldu. Um ellefu km eru frá miðju skjálftavirkninnar í beina línu að jaðri Holuhrauns hins nýja. Á milli er Dyngjuvatn og upptök Svartár. Þar er hætt við að ýmislegt geti breyst.

Aftur á móti er ég ekki jarðfræðingur og hef ekkert vit á jarðfræði. Þó hef ég aðgang að berdreymnum náunga sem heldur því fram að þarna verði gos. Hann getur þó ekki frekar en jarðfræðingar svarað því hvenær gjósi.

Eftirskrift

Veðurstofan gaf út eftirfarandi yfirlýsingu klukkan 17:00 (ábyggilega vegna skrifa minna sem líklega voru farin að valda hræðslu, skelfingu, ótta svo ekki sé talað um fjölbreyttari sálarháska, ef ég má orða þetta svo):

Jarðskjálftahrina hófst fimmtudaginn 7. nóvember skammt austan við Öskju og stendur enn yfir. Frá því að hrinan hófst hafa orðið um 700 jarðskjálftar á svæðinu. Stærsti skjálftinn í hrinunni varð laugardaginn 9. nóvember og var um 3,4 að stærð. Einn annar skjálfti stærri en 3,0 hefur orðið í hrinunni til þessa og um 20 skjálftar stærri en 2,0 að stærð.

Engin merki eru um gosóróa heldur er um brotaskjálfta að ræða sem tengjast líklega landrekshreyfingum.

Jarðskjálftahrinur eru tíðar við Herðubreið og Öskju. Veðurstofan heldur áfram að vakta atburðinn.

Auðvitað er þetta rétt hjá Veðurstofunni en sá draumspaki kann þó að hafa rétt fyrir sér. En hvað veit ég svo sem?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband