Stíga til hliðar, hafa uppi frammíköll og hljóta gott orðspor

Orðlof

Saur

Saur- í Saurbær er það sama og seyra sem merkir: votlendi.

Málfarsbankinn.  

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Þorsteinn Már stígur tímabundið til hliðar.“

Fyrirsagnir á mbl.is, vísir.is. dv.is og samherji.is.                

Athugasemd: Spilling ríkir á mörgum fjölmiðlum, þar er tungumálinu spillt. Þeir sem hætta fyrir fullt og allt eða tímabundið eru sagðir „stíga til hliðar“. Enginn er lengur sagður hætta, leggja niður störf eða víkja. Minniháttar skrifarar þröngva ensku orðalagi inn í íslensku af því að orðin eru svo lík. Þannig er það með enska orðið „step“.

Vera má að orðalagið „stíga til hliðar“ í merkingunni að hætta eða víkja sé fyrir löngu búið að ávinna sér þegnrétt í málinu. Það er miður vegna þess að orðalagið kemur fyrir áhrif fjölmiðlanna í málið og þá einkum á síðustu árum. Benda má á fleiri slæm áhrif sem blaðamenn hafa haft á málið, til dæmis orðalagið „kalla eftir“ og fleiri. Eftir öllu er nú kallað, enginn biður lengur, óskar eftir, krefst eða heimtar.

Ríkisútvarpið er til fyrirmyndar. Í fyrisögn á ruv.is segir:

Þorsteinn Már víkur meðan á rannsókn stendur.

Enska er merkilegt tungumál og fallegt. Þó það sé af germönsku málstofni eins og íslenska eru þau gjörólík. Mestu munar um orðalag, skipan orða í setningu og fleira. Margt er hægt að þýða beint úr ensku yfir á íslensku en oft er það ekki hægt nema að útkoman verði einhvers konar ensk-íslenska sem með réttu nefnd hráþýðing og er ekki til fyrirmyndar.

Enska sagnorðið „to stepmerkir bókstaflega að stíga, einnig að skrefa, ganga, feta og margt fleira. 

Nafnorðið „step“ getur þýtt skref, trappa í stiga, rim í lausum stiga, og margt, margt fleira. „Step by step“ er hægt að þýða beint: Skref fyrir skref.

Ekki fer alltaf saman að vera afburðagóður í ensku og íslensku. Sá sem þýðir verður að búa yfir næmum skilningi á íslensku, hafa talsverðan orðaforða, og bera skyn á blæbrigði málsins. Blaðamaður sem þýðir illa skemmir málið. Illa þýdd frétt er eins og skemmd matvæli í verslun, þau eru ekki hæf til neyslu.

Orðasambönd með enska sagnorðinu „to step“ vefjast ekkert fyrir sumum blaðamönnum, þeir fara einfaldlega illa með þau, menga íslenskt mál með ónýtum skemmdum þýðingum og hirða ekki um góð og gegn orð sem hingað til hafa dugað afbragðs vel.

Hér er stuttleg samantekt um ensk orðasambönd með sögninni „to step“ og þýðingar á þeim, hef birt þetta áður:

  1. Step aside
    • Getur þýtt að hætta.
    • Hvað gerir formaður húsfélagsins sem „stígur til hliðar“? Er hann ekki bara hættur? Ekki stíga til hliðar.
    • Hann getur auðvitað hætt tímabundið, vikið til hliðar, vikið frá, dregið sig í hlé og svo framvegis 
  1. Step back
    • Getur þýtt að hætta við, snúa við, ekki stíga til baka.
  1. Step down
    • Þýðir yfirleitt að hætta, ekki að stíga niður nema það sé ljóst af samhenginu.
    • Formaður húsfélagsins er hættur, stígur ekki niður.
    • Formaður húsfélagsins stígur úr ræðustólnum eða fer úr honum.
    • Sá sem stendur uppi á kassa stígur af honum, frekar fyrr en síðar.
  1. Step something down
    • Minnka eitthvað, draga úr.
  1. Step forward
    • Getur þýtt að bjóðast til einhvers, láta vita af sér og svo framvegis. Ekki stíga áfram.
  1. Step in
    • Getur þýtt að taka þátt í einhverju, taka af skarið. Ekki stíga inn.
  1. Step out
    • Þýðir oftast að fara út. Formaður hússtjórnar vék af fundi. Ekki stíga út. 
  1. Step out on
    • Getur þýtt að halda framhjá maka sínum („stepping out on you/him/her“).
  1. Step something up
    • Getur þýtt að auka við, bæta við. Lögreglan jók viðbúnað sinn, ekki stíga viðbúnaðinn upp.

Niðurstaðan er þessi. Enska sagnorðið „to step“ er sjaldnast hægt þýða með sögninni að stíga nema það sé ljóst af samhenginu. Raunar má segja að það sé afskaplega góð leikfimi fyrir skrifara að finna annað orðalag þar sem enska orðið „step“ kemur fyrir.

Enginn prófarkalestur er á íslenskum fjölmiðlum. Engu að síður hafa fjölmiðlarnir áhrif og margir þeirra og margir blaðmenn fara illa með frelsi sitt til skrifa og birta fréttir.

Spilling í fjármálum virðist vera miklu alvarlegra athæfi en spilling íslenskunnar. Sá sem mútar og svíkur fé er settur í fangelsi, framleiðendur skemmdra matvæla eru stöðvaðir, með öllum ráðum er reynt að ná til þeirra sem smygla fíkniefnum og of hraður akstur er ekki liðinn, hvorki í nágrenni skóla eða annars staðar. 

Ambögubósar í blaðamennsku fá hins vegar að leika lausum hala og skrifa af vanþekkingu og getuleysi. Og enginn gerir neinar athugasemdir eð hjálpar, hvorki ritstjórar, útgefendur né lesendur. 

Tillaga: Þorsteinn Már víkur tímabundið.

2.

„Báðir hækkuðu þeir róminn verulega í ræðum sínum í pontu Alþingis og höfðu uppi frammíköll.“

Frétt á visir.is.                 

Athugasemd: Skrýtið orðalag að „hafa uppi frammíköll“ í ræðustól þingsins. Af fréttinni virðist ekki ljóst hvað gerðist. Má vera að þeir hafi báðir hrópað er þeir „höfðu uppi flutning ræðna“ sinna.

Tillaga: Engin tillaga.

3.

„Verkið er um­fangs­mikið og verður um­ferð steypu­bíla áber­andi, en þeir þurfa að koma 190 ferðir í miðborgina.“

Frétt á mbl.is.                  

Athugasemd: Er ekki átt við að steypubílar þurfi að fara 190 sinnum niður í miðbæ? Eða 190 ferðir? Mér finnst þetta dálítið klúðursleg málsgrein þó ekki sé hún beinlínis röng. Eitt er að verkið er mikið og annað akstur steypubíla.

Tillaga: Verkið er um­fangs­mikið. Steypubílar þurfa að aka eitt hundrað og nítíu sinnum niður í miðbæ.

4.

„… en hann hlaut fyrst gott orðspor sem borg­ar­stjóri Surakarta …“

Frétt á mbl.is.                  

Athugasemd: Orðspor merkir samkvæmt orðabókinni umtal eða það sem sagt er um mann, einn eða fleiri. Hér á orðalagið „að hljóta orðspor“ ekki við. Orðalagið ber keim af þeirri áráttu að nota nafnorð frekar en sagnir. Hið fyrrnefnda einkennir ensku en það síðarnefnda íslensku.

Ofangreind tilvitnun er úr þessari málsgrein:

Hann er fyrsti for­seti lands­ins sem ekki kem­ur úr röðum hers­ins eða yf­ir­stétt­ar stjórn­mála­fólks, en hann hlaut fyrst gott orðspor sem borg­ar­stjóri Surakarta, þar sem hann beitti sér m.a. gegn spill­ingu og fyr­ir aukn­um lífs­gæðum borg­ar­búa.

Málgreinin er of löng og þjáist af skorti á punkti. Betur fer á því að segja að hann hafi getið sér góðs orðs eða hafi verið vel metinn. Óskýrt er hvernig hann geti verið kominn úr „röðum yfirstéttar stjórnmálafólks“. 

Tillaga: Widodo er fyrsti for­seti lands­ins sem ekki kem­ur úr hernum eða eða yf­ir­stétt­ landsins. Hann var gat sér fyrst góðs orðs sem borgarstjóri Surakarta þar sem hann beitti sér gegn spill­ingu og fyr­ir aukn­um lífs­gæðum borg­ar­búa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband