Dómari í ruglinu, samanstendur af og hættusamir vindar

Orðlof

Aðskotaorð

vera eða vera ekki: Varaðu þig á “það voru” og “það eru”, einkum í upphafi málsgreina. “Það” er oft óþarft orð og sögnin að “vera” segir lítið. Ekki: “Það var enginn í hópnum, sem hjálpaði honum.” Heldur: “Enginn í hópnum hjálpaði honum.

Ekki segja: “Við vorum að spila vel í fyrri hálfleik”. Heldur: “Við lékum vel í fyrri hálfleik.” Ekki segja: “Allir eru að gera það gott”. Heldur: “Allir gera það gott.” Ekki segja: “Þeir voru að nálgast okkur”. Heldur: “Þeir nálguðust okkur.

Jónas Kristjánsson, jonas.is. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Dómarinn í ruglinu.“

Fyrirsögn á dv.is.               

Athugasemd: Aðeins í íþróttafréttum geta blaðamenn eigin tilfinningar ráða skrifum sínum og sumir láta það eftir sér. Það er slæmt. Þar með er verið að mata lesendur á skoðunum blaðamannsins. 

Í fréttinni segir:

Þessi dómur var gjörsamlega fáránlegur en boltinn fór beint í andlit Smalling og ekki í hendina eins og dómarinn taldi.

Bull!

Þetta og fyrirsögnin er blaðamanninum til skammar. Lesendum er alveg sama um persónulega skoðun blaðamannsins, hlutverk hans er að semja fréttir. Fjölmiðill á ekki að bergmála skoðanir blaðamanna. Þegar það gerist verður útgáfan ekki marktæk, hún setur niður.

Tillaga: Þetta eru leikmenn sem hann gæti keypt.

2.

„Veg­in­um milli Núpsstaðar og Hafn­ar var lokað síðdeg­is í gær og hef­ur verið lokað síðan en bál­hvasst er á suðaust­ur­hluta lands­ins.“

Frétt á mbl.is.                

Athugasemd: Líklega er átti við að vegurinn hafi verið lokaður frá því í gær. Í fyrirsögn fréttarinnar segir:

Veg­in­um enn lokað á Suðaust­ur­landi.

Úr þessu má lesa að vegurinn hafi verið opnaður og síðar lokað aftur. Samkvæmt fréttinni var ekki svo og þarna hefði á að standa:

Vegurinn enn lokaður á Suðausturlandi.

Ekki er þetta nú vel skrifuð frétt, fljótfærnin að drepa blaðamanninn.

Tillaga: Vegurinn milli Núpsstaðar og Hafn­ar hefur verið lokaður frá því síðdegis í gær en bál­hvasst er á suðaust­ur­hluta lands­ins.

3.

„Juneyao Air var stofnað árið 2006 og á 72 farþegaflugvélar sem samanstanda af Airbus A320 vélum og Boeing 787 Dreamliners vélum.“

Frétt á visir.is.                 

Athugasemd: Orðalagið „samanstanda af“ er oft óþarft rétt eins og í ofangreindri tilvitnun úr frétt Vísis. Engu að síður er það hluti af orðalengingum margra blaðamanna. Nefna má fleiri: 

  • um að ræða
  • til staðar
  • sem telja 

Ég fullyrði að sé þessu sleppt verður málfarið mun betra nema því aðeins að blaðamenn séu þeim mun slakar í skrifum.

Tillaga: Juneyao Air var stofnað árið 2006 og á 72 farþegaflugvélar sem eru Airbus A320 vélum og Boeing 787 Dreamliners vélum.

4.

„Gestir sem mættu í þjóðgarðinn í morgun þurftu að fresta för sinni upp á fjallið um nokkurn tíma vegna sterkra og hættusamra vinda.“

Frétt á visir.is.                 

Athugasemd: Þetta er ekki vel skrifað. Blaðamaðurinn virðist ekki gera greinarmun á sögnunum að mæta og koma. Þær eru mjög ólíkrar merkingar.

Hvað er „sterkur vindur“? Rok, hvassviðri, stormur …

Hvað er „hættusamur“ vindur? Er það hættulegur vindur? Getur vindur verið hættulegur? Já, en það veltur á aðstæðum. Hvassviðri á Móskarðshnúkum getur verið hættulegra en í miðborg Reykjavíkur. Rok á ísilagðri gangstétt í miðborginni getur verið hættulegra en rok á Þverfellshorni í Esju. Hvað á blaðamaðurinn eiginlega við með fleirtölunni?

Í heimildinni BBC stendur:

On Friday, climbers faced a delayed start to the climb due to dangerously strong winds.

Svo illa er fréttin framsett á íslensku að lesandinn þarf að fara á BBC til að fá fullnægjandi upplýsingar. 

Í fréttinni er Uluru kallað fjall, þó má kalla það fell. Síðar hefur fjallið breyst í „steindrang“. Svona draugagangur er algengur hjá sumum blaðamönnum. Aðilar verða fólk, menn verða manneskjur og svo framvegis.

Fréttin er fljótfærnislega unnin og í henni er takamarkað upplýsingagildi miðað við það sem lesa má í heimildinni sem upp er gefin.

Tillaga: Gestir sem komu í þjóðgarðinn í morgun þurftu að fresta för sinni upp á fjallið vegna hvassviðris.

5.

„Pepe kom inná á 75. mínútu leiksins og var staðan þá 2-1 fyrir gestunum.“

Frétt á dv.is.                 

Athugasemd: Fallbeyging er röng. Rétt er að segja að staðan hafi verið þessi fyrir gestina. Fréttin er í raun afar rýr og ómerkileg.

Í henni segir:

Hann gerði þau bæði beint úr aukaspyrnu og sannaði það að hann er með afar góðan skotfót.

Blaðamenn eiga að skrifa einfalt mál, forðast að nota líkingar eins og þessa. Enginn frumleiki er í að tala um „skotfót“, þetta er bara ofnotuð klisja. Hefði ekki verið einfaldara að segja að maðurinn sé skotviss eða markviss?

Yngri blaðamenn fá enga tilsögn og hún stendur þeim ekki til boða. Staðreyndin er hins vegar sú að alltaf er betra að sleppa klisjum, skrifa þess í stað eðlilegt mál.

Jónas Kristjánsson skrifaði manna mest um blaðamennsku. Hann segir hér:

Svo reyna sumir bara að gera sig merkilega með því að blása froðu inn í textann. Algengast er þó, að menn skrifi illa, af því að þeir skilja ekki, hvernig fólk les texta. Og hvernig það getur ekki lesið texta. Lykillinn að lausninni er að hugsa og skrifa einfaldan texta.

Blaðamaður DV gæti örugglega lært mikið af Jónasi ef hann nennti að lesa vefsíðu hans og læra af henni. Annars er furðulegt að fjölmiðillinn sem Jónas Kristjánsson stofnaði skuli gera það að skilyrði að blaðamenn þess lesi og tileinki sér reglur Jónasar.

Tillaga: Pepe kom inná á 75. mínútu leiksins og var staðan þá 2-1 fyrir gestina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband