Komst í skiptimynt, Biden vígður og Harris brýtur blað um allan heim
20.1.2021 | 14:25
Sjá nánar á bloggsvæðinu Málfar.
Svavar Gestsson
19.1.2021 | 12:01
Hann er dáinn hann Svavar Gestsson. Þingmaður, ráðherra og flokksformaður. Ótrúlegt. Einn harðasti byltingarsinninn í Alþýðubandalaginu og Vinstri grænum.
Ég var lítilsháttar málkunnugur honum. Er það enn í fersku minni er ég tók viðtal við hann í síma er ég var nýbyrjaður sem blaðamaður á Vísi og gerði hann mér mjög erfitt fyrir. Hann var þaulvanur blaðamaður og pólitíkus í þokkabót og kannaðist við mig. Átti ekki neitt í þaulæfðan þrætubókarmann sem þarna tugtaði mig til, líklega verðskuldað.
Ég kunni þó vel að meta hann, jafnvel þó hann væri pólitískur andstæðingur. Fór á kappræðufundi þar sem hann tvinnaði saman skammir um íhaldið, auðvaldið, kapítalistana og allt vonda fólkið en fékk svo drjúga yfirhalningu sjálfur fyrir málflutning sinn, sósíalistinn, kommúnistinn og byltingarmaðurinn.
Ég man sérstaklega eftir miklum kappræðufundinum sem, haldinn var í Sigtúni 17. janúar 1978. Húsið var troðfullt af Allaböllum og Heimdellingum. Við hinir síðarnefndu röðuðum okkur á fremstu bekki og létum óspart í okkur heyra. Svo pirraðir voru kommarnir á þátttöku okkar og frammíköllum að í Þjóðviljanum vorum við kallaðir öskurkór Heimdallar. Við höfðum ekkert á móti því.
Ræðumenn að okkar hálfu voru Davíð Oddsson, Friðrik Sophusson og Brynjólfur Bjarnason. Á móti voru Svavar Gestsson, Sigurður Magnússon og Sigurður G. Tómasson.
Þess má geta að Þjóðviljinn sagði í fyrirsögn daginn eftir fundinn:
Málstaður sósíalismans er í sókn.
Og í Mogganum var fyrirsögnin:
Sósíalisminn er orðinn eins og gamalt nátttröll.
Hrunadans byltingarmanna
Fylgi Alþýðubandalagsins frá árinu 1974 var nokkuð mikið meðan fáir flokkar buðu fram en fór samt dvínandi eftir því sem leið á.
Í kosningunum 1999 var skipt um nafn og númer og flokkurinn kallaðist eftir það Vinstrihreyfingin grænt framboð. Þá var fylgið aðeins tæp 10% og hafði aldrei í sögu hinna byltingarsinnuðu baráttumanna verið lægra. Eftir það náðu þeir vopnum sínum og komust í 21,7% fylgi árið 2009 og nutu þess að vera gagnrýnendur hrunsins og handhafar allra lausna.
Fjórum árum síðar var allt hrunið, kjósendur refsuðu Vg sem fékk þá aðeins rétt tæp 11% fylgi. Lausnirnar gengu ekki upp, reyndust vera tálsýn. Vinstri sinnuðu hugsjónamennirnir misstu alla tiltrú kjósenda sem höfnuðu bæði Vg og Samfylkingunni.
Sósíaldemókratían
Með nýjum og hófsömum formanni rétti Vg úr kútnum og fékk aftur traust kjósenda og þá var mynduð ríkisstjórn með höfuðóvininum, Sjálfstæðisflokknum. Sögulegar sættir mætti það kallast með tilvísun í pólitík fyrri ára. Þróunin var sem sagt frá byltingu til sósíaldemókratíunnar. Öll helstu baráttumálin hurfu og urðu að einhvers konar jafnaðarmennsku. Ísland er enn í Nató og tekur virkan þátt í starfinu, herinn var ekki rekinn úr landi. Rauða fánanum er flaggað á hátíðisdögum og Nallinn aðeins sunginn til skemmtunar.
Þannig tengist Svavar Gestsson þróun stjórnmálanna frá því hann steig þar á svið sem ritstjóri Þjóðviljans og varð svo þingmaður og ráðherra. Hrunadansinn endaði með því að hinir hófsömu tóku við af byltingarliðinu. Róttæku sósíalistarnir hurfu úr pólitíkinni og sósíaldemókratarnir tóku við. Þetta hefði aldrei getað gerst meðan naglar eins og Brynjólfur Bjarnason, Einar Olgeirsson, Lúðvík Jósefsson og ... Svavar Gestsson voru við stýrið. Greinilegt er að innan Vg er sósíalisminn er orðinn eins og gamalt nátttröll svo vitnað sé aftur í fyrirsögn Morgunblaðsins frá því 1978.
Ég minnist Svavars Gestssonar sem mikils vinstrimanns, baráttumanns og byltingarmanns. Þegar ég komst til vits og ára var hann orðinn ritstjóri Þjóðviljans, síðar þingmaður og svo ráðherra í nokkur ár. Hann var einn af þeim sem okkur Heimdellingum þótti vænst um að gera at í. Og víst var að fáir voru jafningjar hans í rökræðum.
Ró og friður
Svavar Gestsson var í föðurætt Dalmaður. Þangað á ég líka ættir að rekja en við vorum ekki mikið skyldir, í sjöunda lið samkvæmt Íslendingabók. Raunar báðir af svokallaðri Ormsætt (Ormur Sigurðsson 1748-1834).
Faðir Svavars, Gestur Zophanías Sveinsson (1920-1981) var fæddur í Stóra-Galtardal á Fellsströnd. Hann var skírður nafni ömmubróður míns sem hét Gestur Zophanías, sonur Magnúsar Friðrikssonar og Soffíu Gestsdóttur á Staðarfelli. Þann 2. október 1920 drukknaði Gestur Zophanías Magnússon ásamt þremur öðrum við Hjalleyjar á Fellsströnd. Daginn eftir fæddist faðir Svavars.
Móðir hans hét Guðrún Valdimarsdóttir og var frá Guðnabakka í Stafholtstungum í Borgarfirði og þar fæddist Svavar.
Stundum hittumst við á förnum vegi. Nei, við erum ekki mikið skyldir, sagði hann, og sagði sögur úr Dölum.
Á efri árum flutti Svavar í Dalina, bjó á Króksfjarðarnesi. Þaðan sér vítt. Útsýnið er fagurt, yfir Króksfjörð til Háuborgar, yfir Berufjörð til Reykhóla og Reykjanesfjalls. Og út um allar hinar fjölmörgu eyjar þar fyrir utan og Dalina og ef til vill sést til Snæfellsjökuls í góðu skyggni. Hann skrifaði mikið, var ritstjóri Breiðfirðings og vildi veg Dalanna sem mestan. Ég sé dálítið eftir að hafa ekki kynnst fræðimanninum Svavari Gestsyni. Held að við hefðum átt ágætt skap saman.
Myndina sem hér fylgir tók ég í um miðjan október 2017 skammt norðan Króksfjarðarness. Þá var orðið kvöldsett, skýjafarið drungalegt en geislar sólarinnar náðu í gegn af og til. Þetta var fögur sjón.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Hún varð hvelft við og gefa sig fram til lögreglu
14.1.2021 | 13:06
Er horfinn og missa vinnur
10.1.2021 | 15:13
Sjá nánar á bloggsvæðinu Málfar.
Athugasemdir um málfar fluttar um set
7.1.2021 | 14:38
Pistlarnir sem nefnast athugasemdir um málfar í fjöllmiðlum verða framvegis á https://malfar.blog.is/blog/malfar/. Fyrsti pistillinn hefur þegar birst þar
Ástæðan er einfaldlega sú að ég vil gera greinarmun á umfjöllun um íslenskt mál og pistla um önnur efni, til dæmis pólitík og ýmis konar dægurmál.
Brenna fer fram, sólin fer niður og hverfi 220
2.1.2021 | 19:54
Orðlof
Fús
Eðlunarfús kýr er yxna, læða er breima, gylta gengur, er að ganga eða er ræða, tík er lóða, kindur og geitur eru blæsma og hryssur ála, álægja eða í látum.
Málfarsbankinn.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Fór niður um vök í Hornafirði.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Fréttin er ófullnægjandi. Í orðabókinni minni segir að vök sé gat á íshellu á vatni. Ekki kemur fram hvort bílnum hafi verið ekið í vök eða ísinn hreinlega brotnað undan þunga hans. Hvort heldur sem var þurfti að draga bílinn upp úr vök.
Tillaga: Engin tillaga.
2.
Árlegt áramótabrenna í Snæfellsbæ fór fram í dag venju samkvæmt
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Með hvaða rökum er hægt að segja að brenna fari fram? Þetta er bara vitleysa. Brennur fara ekki fram, þær fara ekkert.
Fyrirsögn fréttarinnar er svona:
Kveiktu brennu á Snæfellsnesi.
Frekar flatt, svona svipað og segja að flugeldi hafi verið skotið upp á Suðurlandi. Menn hlaða brennu og kveikja í brennu. Og Snæfellsnes er stórt og mikið, hálent og skorið. Skárra er svona:
Kveiktu í brennu í Snæfellsbæ.
Í fréttinni segir:
og fengu gestir þau tilmæli um að vera í bílum sínum á meðan brennu stóð til þess að gæta að sóttvörnum.
Skilur einhver þetta hnoð. Auðvitað gat blaðamaðurinn ekki geta skrifað svona:
vegna sóttvarna fengu gestir þau tilmæli að horfa á brennuna úr bílum sínum.
Varla er heil brú í fréttinni allri.
Tillaga: Samkvæmt hefð var kveikt í áramótabrennu í Sæfellsbæ.
3.
Ég hef séð stjörnuhrap, sólina koma upp, sólina fara niður.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Hvað gerist þegar dagur er að kvöldi kominn. Jú, sólin sest.
Tillaga: Ég hef séð stjörnuhrap, sólina koma upp og setjast.
4.
árásarmaður hafði veist að brotaþola með hníf og valdið stungusári. Brotaþoli hafði flúið að vettvangi
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Í afspyrnu illa skrifaðri frétt er löggumálið, stofnanamálið, í hámarki gleði sinnar. Sá sem ráðist er á er kallaður brotaþoli. Enginn talar svona nema löggan þegar hún reynir af erfiðismunum að hefja sig upp yfir almenning. Og lögfræðingar orða þetta þannig í formlegri ákæru.
Ofangreint er tvær málsgreinar. Sú fyrri er svona:
Tilkynnt var um stórfellda líkamsárás í gærkvöldi þar sem árásarmaður hafði veist að brotaþola með hníf og valdið stungusári.
Þetta er tómt bull, skrifarinn hefði fengið falleinkunn í öllum skólum. Eftirfarandi hefði verið skárra:
Maður stunginn með hnífi.
Hvað er stórfelld líkamsárás? Má vera að löggan hafi skrifað þennan texta og blaðamaðurinn birt hann óbreyttan (kópí-peist eins og það er kallað í slangrinu). Slæm vinnubrögð. Þar fyrir utan á blaðamanninum að vera fullkunnugt um að löggan er ekki skrifandi og því ber að lagfæra allt sem frá henni kemur.
Seinni málsgreinin er svona:
Brotaþoli hafði flúið að vettvangi þegar lögregla kom á vettvang, en árásarmaður var handtekinn.
Þarna er nástaða sem ætíð er slæm. Skondið að árásarmaðurinn hafi dvalið á vettvangi eftir sá slasaði flúði. Hvort flúði hann eða fór? Yfirleitt er þetta öfugt. Og hversu stórfelld var líkamsárásinn þegar hann gat hlaupið í burtu. Flúði hann að vettvangi en ekki af vettvangi? Hver kærði, brotabrotaþolinn eða gerandismaðurinn?
Málsgreinin hefði verið skárri á þessa leið:
Sá særði var farinn þegar lögreglan kom en árásarmaðurinn var handtekinn.
Fleira bull er í fréttinni. Blaðamaðurinn leyfir sér að byrja setningu á tölustöfum. Það er óvíða gert nema á Mogganum.
Í fréttinni eru næstum allir lögbrjótar kallaðir aðilar. Hverjir eru aðilar?
Í fréttinni segir:
Þá varð bifreið á vegum tollgæslunnar að kalla eftir aðstoð lögreglu, en þeir veittu bifreið eftirför sem sinnti ekki stöðvunarmerkjum tollgæslunnar inni á svæði tollgæslunnar í hverfi 220.
Ýmislegt er við þessa málsgrein að athuga. Varla telst það alvarleg villa að segja að bifreiðin kallaði á lögguna er þeir eltu bíl. Ekkert samhengi í þessu. Hverjir eru þeir.
Hvernig eru stöðvunarmerki tollgæslunnar Spyr fyrir vin sem vill ekki lenda upp á kannt við embættið. Líklegast veifa tollararnir flöggum í fánalitunum þegar þeir vilja að bíll stoppi. Eða senda þeir fax? Og þvílíkt og annað eins að stoppa ekki inni á svæði tollgæslunnar. Stoppa ekki allir þar?
Svo væri fróðlegt að vita hvar hverfi 220 er og hvar svæði tollgæslunnar er. Líklega er hvort tveggja nýtt.
Nei. Þetta eru óboðleg skrif. Löggunni, blaðamanninum og Mogganum til skammar. Við lesendur eigum ekki skilið að þurfa að lesa svona bjálfaleg skrif. Þau standa ekki undir nafni sem fréttir.
Tillaga: Maður stakk annan með hnífi. Sá særði var farinn þegar lögreglan kom en árásarmaðurinn var handtekinn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Stikla á stóru um málfar í fjölmiðlum árið 2020
31.12.2020 | 14:33
Eitt af því leiðinlegasta sem boðið er upp á í fjölmiðlum um áramót er upprifjun á fréttum ársins. Ekki telst það heldur neinn skemmtilestur að rifja upp ambögur, villur og rugl sem birtar voru hér undir fyrirsögninni Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum. Má vera að einhverjir kunni að hafa gagn af þó um gamanið megi deila.
Eins og venjan er í þessum pistlum er getið um heimildir með því að gefinn er hlekkur á fréttir sem fjallað er um. Í þetta sinn fylgdi hann ekki með og biðst ég afsökunar á því. Hins vegar er hægur vandinn að sækja samhengið. Aðeins þarf að afrita málsgreinar sem birtar eru og líma í Google og ætti þá fréttin að birtist.
Númerin eru aðeins til hægðarauka, ekki mat á hvort eitthvað sé verra en annað.
Alræmdast á árinu 2020
1. Prófarkalesarar óskast til starfa á Fréttablaðinu. frettabladid.is.
2. Þegar Trump hefur fengið góðar fréttir, hefur honum tekist að stíga á þær. visir.is.
3. Mörg ný andlit fengu að spreyta sig í gærkvöldi. Ríkisútvarpið.
4. Góðhjartaðir borgarar björguðu 15 manna andafjölskyldu. dv.is.
5. Kjallari hússins er á floti mbl.is.
Hrærigrauturinn
1. Tveir eru taldir hafa orðið fyrir meiðslum en vonast er ekki til þess að þau séu ekki alvarleg. mbl.is.
2. Við hittumst oft á kránni. Hann var mjög opinn og með skemmtnari mönnum. mbl.is.
3. Við erum ekki að horfa framan í Persaflóastríðið. visir.is.
4. Tryggvi: Mjög gott að komast aðeins heim og fylla á afurðina að heiman. visir.is.
5. Sonurinn nefndur í höfuð lækna sem björguðu lífið Boris. visir.is.
6. En ég finn einnig fyrir mikill þörf fyrir að koma landinu aftur á lappirnar, halda áfram eins og við erum fær um og ég er sannfærður um að við komumst þangað. mbl.is
7. Hjólreiðakona fékk heilahristing eftir að bílhurð var opnuð fyrir framan hana. visir.is.
8. Andaðu inn í sársaukann, mælti Hafþór, og teldu upp á þrjátíu. frettabladid.
9. Gylfi: Yrðir tekinn af lífi í klefanum. mbl.is.
10.Þegar Trump hefur fengið góðar fréttir, hefur honum tekist að stíga á þær. visir.is.
Þoka
1. Í síðustu viku slasaðist einn vegfarandi í einu umferðarslysi á höfuðborgarsvæðinu. logreglan.is.
2. Kjallari hússins er á floti mbl.is.
3. Gular viðvaranir á norðvesturhluta landsins og varað við akstri á Breiðafirði. frettabladid.is.
4. Sóttu slasaðan skipverja á Landspítalann. visir.is.
5. Donald Trump Bandaríkjaforseti býst við miklum dauða vegna kórónuveirufaraldursins í Bandaríkjunum á næstum dögum. ruv.is.
6. um að fá aftur eina af dúfum sínum, sem þessa dagana er í varðhaldi á Indlandi eftir að hafa verið ákærð fyrir njósnir. ruv.is.
7. Fyllt var á birgðir áður en Baldur var togaður í Stykkishólm ruv.is.
8. Ég stend á herðum þeirra, sagði hún. mbl.is.
9. Þetta kemur fram í lokaskýrslu réttarmeinafræðings sem krauf lík hans. ruv.is.
10.Dranginn er afskaplega þekkt kennileyti á leiðinni til Akureyrar visir.is.
Mismæli
1. Íbúar Punjab héraðs geta borðið Himalaya-fjöllin augum í fyrsta sinn í áratugi þar sem mengun skyggir ekki lengur á sýn þeirra. frettabladid.is
2. Þá má ekki gleyma því að minnihlutahópar sæktu ofsóknum allt fram á síðasta dag. ruv.is.
3. Hann kljáðist einnig við fjölda annarra heilsubresta. mbl.is.
4. Aus fúkyrðum yfir þjálfarann til að komast burt dv.is.
5. Þetta eru alveg fordómalausar aðstæður Viðmælandi í Ríkisútvarpinu.
6. Ég vildi ekki þaga lengur, eða loka augunum og eyrunum. frettabladid.is
7. og að útlit sé fyrir að margir séu byrjaðir að deyja á heimilum sínum. visir.is.
8. Góðhjartaðir borgarar björguðu 15 manna andafjölskyldu. dv.is.
9. Einnig þakka ég barnsmóður minni
fyrir að standa að baki mér
mbl.is.
10.Huggum okkur heima. Ríkisútvarpið auglýsing.
Afrek
1. Yfirvöld í Sádí-Arabíu hafa afnumið dauðarefsingu fyrir börn. visir.is.
2. Sádi-Arabía afnemur hýðingar sem refsunarform. visir.is.
3. Land snýr í hásuður. Morgunblaðið.
4. Hakkaþon. mbl.is.
5. Dvalarheimilinu var því lokað fyrir öllum líkamlegum samskiptum við umheiminn. dv.is.
6. Hafa sett á ís mörg verkefni. visir.is.
7. Tvö morð framin í Árósum. mbl.is.
8. Auknar líkur á engum smitum. mbl.is.
9. og segir að sagan um að Joe og Jill hafi kynnst á blindu stefnumóti dv.is.
Útlenskan
1. Fólk er mis-paranojað mbl.is
2. Húseining getur nú boðið fjölbreytta modular framleiðslu Auglýsing í Morgunblaðinu.
3. Svona flippar þú eggi léttilega á pönnu. mbl.is.
4. Eins og áður minnum við á Travel Conditions kortið okkar. Ferðamálastofa, upplýsingapóstur.
5. Punkturinn yfir i-ið er svo eitt lélegasta plot-twist sem ég hef orðið vitni að. Morgunblaðið.
6. Save travel dagurinn er í dag. Ríkisútvarpið.
7. Þarf ég aftur að minna þig á að ekkert býr til meira klúður en að filtera kjarnann í sjálfri þér mbl.is.
8. Gamli vs. nýi. frettabladid.is.
9. Daginn eftir varð Sinfóníuhljómsveit San Francisco fyrsta hljómsveitin í Bandaríkjunum öllum til að aflýsa lifandi tónleikum
Morgunblaðið.
10.Til þess að koma til móts við samfélagið á þessum COVID tímum erum við hjá Regus að bjóða upp á BACK TO WORK tilboð. Fjöltölvupóstur frá regus.is.
11.Honestly með allri minni samvisku
dv.is.
12.Myndlistarsýningin On Common Ground opnar í dag á Hlöðulofti Korpúlfsstaða
frettabladid.is.
13.Í Hafnarfirði eru bæjarbúar hvattir til þess að skreyta extra snemma til þess að lífga upp á skammdegið mbl.is.
14.Hópur fólks beið í langri röð til kaupa ferskt og framandi grænmeti og ávexti á pop-up markaði Austurlands food coop á Skúlagötu í gær. Fréttablaðið.
15.Fréttakviss vikunnar. visir.is.
16.Jólakvizz. Tölvupóstur frá Olís/Ób.
17.Þeir þurfa síðan að panta tíma fyrir þig í Covid test. mbl.is
18.Að auki ber Björn ábyrgð á tveimur gríðarvinsælum spilum sem landsmenn hafa slegist um en þetta eru að sjálfsögðu Pöbbkviss og Krakkakviss mbl.is.
19.Go crazy, fimmtudags-mánudags.Morgunblaðið auglýsing.
20.Leave no one behind., Auglýsing Öryrkjabandalagsins.
Langlokan
1. Skotsvæðin og pallarnir verða afmarkaðir með keilum og borðum, en ásamt þeim mun sérstakt gæslufólk sjá um að halda skotglöðum einstaklingum réttu megin við línuna þegar þeir skjóta upp og með því reyna að koma í veg fyrir að fólk fagni áramótunum á Bráðamóttökunni. Fréttablaðið.
2. Akstur undir áhrifum áfengis eða fíkninefna var fyrirferðamikill hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu síðastliðinn sólarhring, margsinnis var ökumaður ekki með ökuskirsteini eða gild ökuskirteini. frettabladid.is
3. Réttindalaus bæklunarskurðlæknir frá Kasakstan, sem starfaði í ellefu ár við Sørlandet-sjúkrahúsið í Flekkefjord og síðar Kristiansand í Noregi, og sætir rannsókn vegna tuga alvarlegra mistaka, sem sum hver leiddu til andláts alls þriggja sjúklinga hans, hefur sagt starfi sínu lausu, en honum var gert að sæta leyfi eftir að handvömm hans komst í hámæli snemma á árinu, en þar var meðal annars um að ræða aðgerð sem læknirinn hefði aldrei átt að fá að framkvæma einn síns liðs á úlnlið Margrétar Annie Guðbergsdóttur sem sagði mbl.is frá máli sínu í febrúar. mbl.is.
4. Þegar rætt er um efnahagsaðgerðir vegna veirunnar verður þó hér eftir að horfa til þess að það ástand sem nú ríkir verður að líkindum viðvarandi um nokkra hríð, eflaust fram á næsta ár og mögulega lengur. Morgunblaðið.
5. Raunsæi verður að ráða för og ljóst er að á liðnum árum hefur, þrátt fyrir Dyflinnarreglugerð og vegna þeirra lausataka sem fjölmiðlanálgunin hefur haft í för með sér, gríðarlegur fjöldi fólks komið hingað til lands á þeirri forsendu að það sé á flótta undan slæmum aðstæðum af einhverju tagi. Morgunblaðið.
6. Ef ykkur þótti Everest-fjall ekki nægilega hátt fyrir þá hafa stjórnvöld í Kína og Nepal loksins komist að samkomulagi um nákvæma hæð fjallins, eftir áralangar deilur, enda liggur fjallið á landamærum ríkjanna. mbl.is.
Stórfréttir
1. Ekkert fréttnæmt gerðist á lögreglustöð 2, sem sinnir Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi og má því búast við að þar hafi allt verið með kyrrum kjörum í nótt. dv.is.
2. Akkúrat á þessum stað er sökkhola sem myndast greinilega þegar það rignir. visir.is.
3. Afskipti höfð af konu sem var að stela úr verslun í miðbænum, málið leyst með vettvangsformi. frettabladid.is.
4. Þrjú ný innanlandssmit og sex við landamærin. frettabladid.is.
5. Slösuð stúlka hjá Þingvallarvatni. visir.is.
6. Látnir blása í áfengismæli á fjöllum. visir.is.
7. Loksins í bílstjórasætinu í eigin líkama. visir.is.
8. Þar voru afskipti höfð af manni á reiðhjóli með stórt hátalarabox. visir.is.
9. Stunga í kvið með hnífi er ávallt lífsógnandi. Fréttablaðið.
10.Ruth hafði þjónað sem dómari við réttinn í 27 ár Fréttablaðið.
11.Mörg ný andlit fengu að spreyta sig í gærkvöldi. Ríkisútvarpið.
12. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti bæði eignaspjöllum og þjófnuðum á nokkrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu snemma í gærkvöldi. mbl.is.
13.Ég er minnsti rasistinn í þessu herbergi. mbl.is.
14.Rakel og Auðunn Blöndal eiga von á barni nr. 2. mbl.is.
15.Sigurveig hefur ekki setið auðum höndum þegar að barneignum kemur. Fréttablaðið.
Sigurvegarar
1. Kylfingurinn Bryson DeChambeau sigraði Opna bandaríska meistaramótið í golfi í gærkvöld. ruv.is.
2. Leikmenn Liverpool lyftu enska meistaratitlinum eftir 30 ára bið í gærkvöld ruv.is.
3. Liðið hefur þrisvar lyft meistaratitlinum. Ríkisútvarpið.
4. Strax á kosninganótt varð ljóst að Trump hafði sigrað væntingar dv.is.
5. Enn er óljóst hver sigrar kapphlaupið að Hvíta húsinu visir.is.
6. Hollywood-stjarnan Will Ferrell sá um að tilkynna hvaða lag sigraði kosninguna. ruv.is
7. Þegar fjallagarpurinn Edmund Hillary sigraði toppinn með sjerpanum Tenzing Norgay í maí ári 1953 mbl.is.
8. Hvenær sigra Bandaríkjamenn innrásina í Írak og Afganistan? frettabladid.is.
Vefst tunga um höfuð
1. Kostaði augun úr í sumar en má nú fara. dv.is.
2. Prófarkalesarar óskast til starfa á Fréttablaðinu. frettabladid.is
3. Stólarnir með montréttinn fyrir norðan. Morgunblaðið.
5. Flakkar heimshorna á milli til þess að elta drauminn. frettabladid.is.
6. Svalalokun er á svölum. visir.is.
7. Að því er kemur fram í tilkynningunni varð tilkynnandi fyrst var við stífluna í fyrradag en dregið hafi úr alvarleika ástandsins í árinni í gær. frettabladid.is.
8. Rútan valt og endaði á þakinu. ruv.is.
9.Við slíkan atburð áskiljum við okkur rétt til að stöðva alla blæðingu svo sem að setja stopp (hold) á afskráningu áskrifta þar til ástandið er liðið hjá. visir.is.
10.Halldór Armand Ásgeirsson, rithöfundur og útvarpsmaður, kom nýverið heim frá hááhættusvæði og þurfti því að fara í sóttkví. dv.is.
11.Íslenskum málefnum á Spotify stýrir starfsmaður í Svíþjóð, sem kvað vera óíslenskumælandi. mbl.is.
12. býr og starfar í Ósló og keyrir farsælan feril. Morgunblaðið.
13.Í öll skiptin var hjúkrunarheimilið talið mæta stöðlum. ruv.is.
15.Þá segir í tilkynningu frá lögreglunni að hætta geti verið til staðar á merktum gönguleiðum, vegum sem og við aðra staði í fjalllendi. visir.is.
16.Það lagðist maður við mann hérna í Bolungarvík og einn vélvirki hérna á áttræðisaldri, kunnáttumaður með mikla reynslu, hjálpaði við að koma bátnum í stand. frettabladid.is.
17.Þessi lögsókn snýst um að standa upp fyrir sjálfa mig og skilgreina virði mitt. mbl.is.
18.Sylvía keypti eitt fallegasta heimili Seltjarnarness.mbl.is.
19.Starfsfólk borðað og drukkið fyrir hundruð þúsunda á Kjarval. Fréttablaðið.
20.Enginn annar í teyminu en Víðir þurfti að fara í sóttkví, því Víðir brást fljótt við og afkvíaði sig. ruv.is.
21.Þess í stað hefðu lögfræðingar framboðsins sett fram útteygð lagarök sem ekki stæðust skoðun og ásakanir byggðar á ágiskunum. Morgunblaðið.
22.Verkefnið, sem ber heitið ODEUROPA, felst í að kanna, lýsa og endurskapa hvern þann keim sem Evrópubúar fyrri alda kunna að hafa þefað uppi. Morgunblaðið.
23.Vincent Tan er fæddur árið 1952 og hlaut ekki silfurskeið í munni í heimanmund. Morgunblaðið.
24.Langvarandi Covid-19 mögulega ónæmiskerfið að ráðast á líkamann. visir.is.
25.Það hefur sem betur fer ekki orðið banaslys enn þá hér á landi eins og erlendis af þeirri ástæðu að skinnari hefur fengið spilvírinn sem troðarinn hangir í sig og banað viðkomandi. skidasvaedi.is.
26.Eriksen getur farið með höfuðið hátt. dv.is.
Sitjandinn
1. Þar kemur fram að sitjandi borðhald verði á árshátíðinni frettabladid.is.
2. Guðni Th. Jóhannesson, sitjandi forseti frettabladid.is.
3. Sitjandi ávallt náð endurkjöri. mbl.is.
4. Hefur sitjandi forseti aldrei staðið jafn illa á sambærilegum tímapunkti en tölur um slíkt eru til frá 1968. dv.is.
5. Það er einsdæmi í sögu Bandaríkjanna að sitjandi forseti í kosningabaráttu veikist svo skömmu fyrir kosningar. Morgunblaðið.
6. Sitjandi dómarar við Hæstarétt hafa gríðarmikla dómarareynslu. Fréttablaðið.
7. Þetta er léttvæg gagnrýni frá sitjandi forseta dv.is.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bólusetja við veiru, manneskja ársins og vélarvana skip
30.12.2020 | 14:33
Orðlof
Salíbuna
Orðið buna merkir oftast samfelldur straumur af vatni eða vökva (t.d. úr stút á katli eða kaffikönnu).
En það er líka talað um að renna sér í einni bunu á sleða, skíðum eða hjóli þegar farið er niður brekku án þess að stoppa. Þá er líka hægt að fá sér salíbunu á sleða niður brekkuna eða jafnvel í strætó niður í bæ.
Fyrri liðurinn í orðinu salíbuna á rót sína að rekja til danska lýsingarorðsins salig sæll sem er líka notað til áherslu. Það merkir því bókstaflega sæluferð, áhyggjulaus ferð enda hefur salíbunan yfirleitt ekki annan tilgang en skemmtunina.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Bólusetning hefst við veiru á morgun.
Frétt á blaðsíðu 4 í Morgunblaðinu 28.12.20.
Athugasemd: Er ekki venjan að orða það svo að bólusett sé gegn sjúkdómum? Vera má að hvort tveggja sé jafngilt. Í þessu tilviki hefði veiran mátt vera með ákveðnum greini því hér er verið að reyna að vinna á einni tiltekinni. Til eru milljónir veira, sumar skaðlegar en aðrar gagnlegar. Ég vísa hér til ritsins Lifað með veirum sem er mjög fróðlegt.
Nokkur breyting hefur orðið á málinu. Hér áður fyrr var farið til að láta bólusetja sig eða láta sprauta sig. Nú er farið í sprautu eða sprauta tekin. Þetta skilja allir og er viðurkennt sem rétt mál.
Ekki þarf alltaf að nota sama orðalagið, að fara í sprautu, óhætt er að breyta til. Þetta er á ýmsa vegu í fréttinni. Fólk hefur fengið boð í bólusetningu og verður bólusett.
Í fréttinni segir og er haft eftir viðmælanda:
Að taka fyrri sprautuna á íbúa á hjúkrunarheimilunum, sem taldir hafa verið einn allra viðkvæmasti hópurinn, tekur okkur ekki nema einn til tvo daga.
Þetta er talmál, frekar óskipulegt. Blaðamennirnir sem skrifuðu fréttina hefðu átt að umorða þessa málsgrein, til dæmis á þennan veg:
Ekki tekur nema einn til tvo daga að gefa íbúum á hjúkrunarheimilum sprautuna. Þeir er einn af viðkvæmustu hópunum.
Ýmislegt má betur fara í orðalagi fréttarinnar.
Tillaga: Bólusetning gegn veirunni hefst á morgun
2.
Hlustendur Rásar 2 og lesendur RÚV.is velja nú manneskju ársins í 32. skiptið.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Hér áður fyrr var valinn maður ársins. Hvað breyttist?
Tegundarheitið maður á við konur og karla. Það er beinlínis hallærislegt að velja manneskju ársins og fjarri hefðum. Í mörg ár völdu fjölmiðlar mann ársins og þannig var það orðað þangað fólk byrjaði að ritskoða sjálft sig án mikillar þekkingar.
Fyrir nokkrum dögum var hér birt tilvitnun í Laxdælu. Þar segir frá Höskuldi Dala-Kollssyni sem heyrði á tala manna og reyndust þeir vera Melkorka og Ólafur sonur þeirra. Þarf frekar vitnanna við?
Tillaga: Hlustendur Rásar 2 og lesendur RÚV.is velja nú mann ársins í 32. skiptið.
3.
Þór sækir vélarvana Lagarfoss.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Þegar vél í skipi bilar úti á rúmsjó er það sagt vélarvana. Í öllum fjölmiðlum er Lagarfoss sagður vélarvana, hvergi er það orðað svo að vél skipsins sé biluð.
Í Málfarsbankanum segir:
Orðið vél(ar)vana merkir afllaus, með bilaða vél og er nær einvörðungu notað um báta með vélarbilun á hafi úti.
Amast hefur verið við þessu orði á þeirri forsendu að orðið vélarvana geti eingöngu merkt vélarlaus, sbr. önnur orð sem mynduð eru eins: svefnvana, skilningsvana, févana sem merkja: svefnlaus, skilningslaus og félaus.
Þar sem orðið vélarvana er aldrei notað í merkingunni vélarlaus er merking orðsins að jafnaði ljós í samhenginu.
Lýsingarorðið vélarvana er ágætt en rýr orðaforði fréttaskrifara er til mikils skaða fyrir íslenskt mál. Þetta síðasta er á þó ekki við fréttamanninn sem skrifaði fréttina.
Í fréttum í dag eða í gær heyrði ég orðið aflvana sem er miklu betra og lýsir ástandi Lagarfoss. Véli skipsins er biluð og hann því aflvana enda vantar ekki vélina.
Tillaga: Þór sækir Lagarfoss sem aflvana.
4.
til að geta afhent athafnakonunni Lilju Pálmadóttur timburkirkju frá árinu 1871 sem er staðsett á jörð Lilju, Hofi á Höfðaströnd.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Einu orði er ofaukið í fréttinni. Án þess verður málsgreinin miklu betri. Í Málfarsbankanum segir og hér hefur áður verið vitnað til þessa:
Orðið staðsettur er oft óþarft. Bíllinn var staðsettur við pósthúsið merkir: bíllinn var við pósthúsið.
Ekki margir fréttaskrifarar átta sig á þessu.
Tillaga: til að geta afhent athafnakonunni Lilju Pálmadóttur timburkirkju frá árinu 1871 sem er á jörð Lilju, Hofi á Höfðaströnd.
5.
Og Nigel Farage, sem ekki kallar alltaf Boris Johnson ömmu sína, sem hann hefur aldrei verið, var sammála þessari jákvæðu niðurstöðu Cash.
Leiðari Morgunblaðsins 30.12.20.
Athugasemd: Nokkuð skemmtileg stílþrif í leiðaranum. Alltaf gaman að lesa þegar þannig er.
Í leiðaranum segir:
Sturgeon heimastjórnarráðherra Skota samþykkir ekki viðskiptasamninginn. Þingflokksformaður hennar segir að samningurinn tryggi ekki að Bretar verði áfram í ESB! Getur það verið?
Og þarna hneggjaði ég áramótahlátri.
Tillaga: Engin tillaga.
Enginn krefst afsagnar fyrsta ráðherra Skotlands
29.12.2020 | 13:31
Fyrsti ráðherra Skotalands, Nicola Sturgeon,sætir nú lítilsháttar ámæli fyrir að hafa verið án grímu á minningarvöku á krá í síðustu viku. Birt var mynd af henni í fjölmiðlum grímulausri. Hún hefur beðist afsökunar á ódæðinu og ber fyrir sig að aðeins tuttugu manns hafi verið á barnum þar sem vakan var haldin.
Í öllum fréttatímum í Ríkisútvarpinu og fleiri fjölmiðlum frá því á aðfangadag hefur verið um að fjármála- og efnahagsráðherrann, Bjarni Benediktsson og kona hans, hafi verið grímulaus í fimmtíu manna samkvæmi í Ásmundarsal. Reyndar var þetta myndlistarsýning og voru listaverkin til sölu.
Enginn er hissa á því að pólitískir andstæðingar Bjarna vilji að hann segi af sér og þurfti ekki brot á sóttvarnarlögum til þess.
Pólitískir andstæðingar Nicola Sturgeon, fyrsta ráðaherra Skotlands, gera ekki kröfu til þess að hún segi af sér.
Hvergi í íslenskum fjölmiðlum hefur verið sagt frá ráðherranum í Skotlandi.
Á fréttamiðlinum Sky segir skoski ráðherrann í lauslegri þýðingu:
Mér þykir leitt að hafa brotið reglur sem ég hef hvatt alla til að fara eftir. Ég tók af mér andlitsgrímuna eitt andartak á minningarvöku í síðustu viku. Ég vil leggja áherslu á að þrátt fyrir aðstæður braut ég reglurnar. Ég á mér enga afsökun.
Ég á að fara eftir reglunum rétt eins og allir aðrir enda skipta þær öllu máli. Ég álasa sjálfri mér meir en nokkur annar. En það sem meira er um vert ég mun halda vöku minni framvegis.
Og málið er dautt eins og sagt er. Skotar eru kurteist fólk og skilja ráðherrann.
Bjarni Benediktsson sagði á aðfangadag í yfirlýsingu á Facebook eftir atvikið í Ásmundarsal:
Á heimleið úr miðborginni í gærkvöldi fengum við Þóra símtal frá vinahjónum, sem voru stödd á listasafninu í Ásmundarsal og vildu gjarnan að við litum inn til þeirra og köstuðum á þau jólakveðju. Þegar við komum inn og upp í salinn í gærkvöldi hefði mér átt að verða ljóst að þar voru fleiri en reglur gera ráð fyrir.
Eins og lesa má í fréttum kom lögreglan og leysti samkomuna upp. Og réttilega. Þarna hafði of margt fólk safnast saman.
Ég hafði verið í húsinu í um fimmtán mínútur og á þeim tíma fjölgaði gestunum. Rétt viðbrögð hefðu verið að yfirgefa listasafnið strax þegar ég áttaði mig á að fjöldinn rúmaðist ekki innan takmarkana. Það gerði ég ekki og ég biðst innilega afsökunar á þeim mistökum.
Og pólitískir andstæðingar ráðherrans misstu stjórn á sér og fúkyrðin streymdu á Facebook síður Bjarna. Nú síðast birtir píratinn Björn Leví Gunnarsson, þingmaður, grein í Morgunblaðinu og reynir á hrokafullan máta að gera lítið úr Bjarna.
Ólíkt hafast menn að. Umburðarlyndið er ekkert á Íslandi jafnvel þó komin séu jól. Yfir hátíðarnar kom flóðbylgja formælinga frá andstæðingum Bjarna. Ekkert slíkt gerðist í Skotlandi.
Píratinn Mári McCarthy er sagður hafa brotið sóttvarnalög er hann fór í Sundlaug Reykjavíkur. Hann settist í heitan pott þar sem voru fimmtán manns fyrir en vegna takmarkana máttu aðeins tólf vera í honum. Aðeins dv.is segir frá þessum atburði.
Enginn stjórnmálamaður hefur krafist þess að Smári segi af sér þingmennsku vegna brotsins.
Svona er nú pólitíkin á Íslandi. Fáir reyna að skila aðstæður en eru þvert á móti fljótir að fordæma og formæla. Svona rétt eins og meintur morðingi hundsins Lúkasar var tekinn af lífi í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum. Og hvað gerði sama fólk þegar hundurinn fannst lifandi? Ekkert. Baðst ekki einu sinni afsökunar. Og hefur líklega ekki heldur skammast sín fyrir að hafa ráðist á saklausan mann.
Auðvitað má fólk hafa skoðun á einstaklingum sem það vill. Þó má gera þessa kröfu til allra gagnrýnenda: Ekki vera skíthæll í umræðunni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Gleðileg jól til ykkar og vindur mun minnka
27.12.2020 | 13:05
Orðlof
Ær
Orðið á er eitt af stystu orðum í íslensku. Eigi að síður leynir þessi orðmynd á sér því hún er nokkuð margföld í roðinu. Hún er nefnilega ýmist forsetning eins og þegar sagt er
Leggðu bókina á borðið
eða hún getur verið nafnorðið á vatnsfall, fljót, t.d. þegar sagt er
Það rennur straumlygn á eftir miðjum dalnum.
Í setningunni Ég á bókina er þetta aftur á móti ein af beygingarmyndum sagnarinnar eiga og þegar sagt er
Drengurinn eignaðist á með tveimur lömbum
er enn annað orð á ferðinni, nafnorðið ær. Fólk hefur leikið sér með þessa margræðni og ein útkoman úr þeim orðaleikjum er setningin
Trausti á Á á á.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Loftmynd af Seyðisfirði eins og fjörðurinn leit út í gær. Fönnin var mörgum Seyðfirðingum kærkomin sjón.
Myndatexti á blaðsíðu 4 í Morgunblaðinu 22.12.20.
Athugasemd: Þetta er innihaldslítill texti og saminn án hugsunar. Fönn er vissulega haft um snjó. Venjan er samt sem áður sú að orðið er sjaldnast haft um annað en mikinn snjó, snjó sem er í sköflum eða þann sem myndar samfellda breiðu þar sem varla sést á dökkan díl. Talað er um fannkomu þegar mikið snjóar.
Á myndinni af Seyðisfirði sést að þar hefur gránað, föl er á jörðu. Engin er fönnin.
Myndin er greinilega tekin úr lofti en til þess að lesendur ruglist nú ekki er tekið fram að myndin sé loftmynd. Halda Moggamenn að það þurfi að stafa allt ofan í lesendur?
Og af hverju er snjórinn kærkominn sjón? Um það segir ekkert í fréttinni.
Til eru um fimmtíu og átta orð á íslensku yfir snjó og snjókomu. Sjá hér.
Í gamla daga þegar ég var að byrja í blaðamennsku á Vísi las Elías Snæland, ritstjórnarfulltrúi, yfir allar fréttir, gerði athugasemdir og sendi jafnvel reynda blaðamenn til baka og sagði þeim að lagfæra. Af leiðbeiningum læra menn.
Tillaga: Engin tillaga.
2.
Íslenskur bógur í Færeyjum ári yngri eftir Spánarferð.
Fyrirsögn á ruv.is.
Athugasemd: Reglulega góð fyrirsögn sem lætur ekki mikið yfir sér en þversögnin vekur athygli lesandans. Þar að auki er fréttin bara vel skrifuð.
Tillaga: Engin tillaga.
3.
Gleðileg jól til ykkar.
Algeng kveðja um jól, sérstaklega á Facebook.
Athugasemd: Forsetningunni til er hér algjörlega ofaukið. Gleðileg jól er kveðja sem dugar. Segjum frekar:
Gleðileg jól.
Eða:
Óskum ykkur gleðilegra jóla.
Kveðjur eru þess eðlis að þær rata yfirleitt til móttakenda. Aðrir misskilja þær ekki. Við heilsumst og kveðjumst með því að segja gleðileg jól.
Tillaga: Óska ykkur gleðilegra jóla.
4.
Vindur mun minnka síðdegis
Frétt kl. 12:20 í ríkisútvarpinu 27.12.20.
Athugasemd: Orð geta týnst því að þau eru ekki notuð. Þannig er um sögnina að lægja sem er ákaflega fallegt orð sem hægt er að nota á ýmsan hátt annan en að vind lægi. Stundum þarf að lægja rostann í einhverjum eða lægja æsinginn.
Lægja getur merkt samkvæmt orðabókinni að kyrra, stilla, slota, linna, friða, hjaðna, spekja, sefa og svo framvegis.
Og svo er það nafnorðin: Lægi. Skipið leitar lægis. Nafnorðið lega er náskylt: Báturinn er á legunni.
Tillaga: Vindinn mun lægja síðdegis.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Upphlaupsmenn og kjaftaskar á jóladag
25.12.2020 | 14:31
Það er svo margt gott á jarðríki. Verst er samt mannfólkið. Ekki allt, bara sumt. Raunar frekar fáir. Örfáir. Og eins og frúin sagði; vont fólk er ekkert verra en annað fólk. Nærstaddir hváðu en hún skýrði þetta ekki nánar.
Æsingurinn í þjóðfélaginu er dálítið mikill. Auðvitað var það afar vanhugsað hjá fjármálaráðherranum og frú hans að gæta ekki að sér og forða sér úr margmenninu í Ásmundarsal. Efast samt um að ég hefði hlaupið út enda er ég ekki með þeim skörpustu.
Hann á að segja af sér, hrópa æstir pólitískir andstæðingar Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra. Við, samherjar hans, segjum ekki margt honum til hnjóðs nema það eitt að hann hefði átt að ... Hefði átt! Þetta orðalag er þrungið fullvissu og bendir til að sá sem þannig talar sé miklu klárari en aðrir, greindari og upplýstari.
Nú er svo orðið sem mælt er að skamma stund verður hönd höggi fegin.
Svo sagði Síðu-Hallur við brennu-Flosa í Njálssögu.
Hefur það jafnan verið svo að upphlaupsmenn og kjaftaskar hafa aldrei haft neinn árangur af kjaftagangi sínum en verið sáttir við sjálfa sig eina örskotsstund. Sést það mætavel í athugasemdadálkum fjölmiðla og víðar.
Í Landakotskirkju var messa á aðfangadagskvöld. Má vera að hana hafi sótt fleiri en eitthundrað manns og gættu því miður fæstir að sóttvörnum. Kjaftaskarnir í athugsemdadálkunum láta ekki sitt eftir liggja og fordæma kaþólsku kirkjuna og bannfæra alla sem að henni standa sem og kirkjugesti og líklega alla afkomendur þeirra. Sjá visir.is.
Einn athugasemdaskrifari segir svo skýrlega:
Bergur Ketilsson: Messugestir á lista sem notaður ætti til að velja frá ef við lendum í þröngri stöðu á sjúkrahúsunum, já og Bjarna líka á listann
Annar skarpgreindur segir:
Sigþór Guðjónsson: Vantar prestinum þarna meira að gera .....fleiri jarðafarir kanski ???
Og einn reynir að koma af stað sögusögnum:
Magnús Skarphéðinsson: Var Þorgerður Katrín þingmaður þarna?
Og þarna er skammt í öfgarnar:
Friðjón Árnason: Auðvitað á að loka kirkjunni og innsigla hana þar sem það verða pottþétt fleiri fjöldasamkomur þar nú um hátíðirnar. Barnaníðingakirkjan fer sínu fram í þessu sem öðrum lögbrotum og níðingsverkum eins og alltaf áður.
Held að þeir sem skrifa í athugasemdadálka fjölmiðla veitti ekki af því að hugsa áður en það talar. Flestir hafa eiginlega skömm á þessu skrifum og er óskiljanlegt að nokkur fjölmiðill skuli halda úti vettvangi fyrir svona óþverra. Hefur eitthvað málefnalegt birst í athugasemdadálkunum? Afar sjaldan. Enginn tekur mark á þeim sem þarna skrifa. Þeir sem tala af hófsemd og virðingu hafa áhrif.
Stjórnmálamenn reyna yfirleitt að eigna sér hneykslismálin. Aðalatriðið í þeirra augum er að komast í fréttir fjölmiðla. Þess vegna skrifa þeir á Fésbókina og eru ekki að skafa utan af því. Margir þeirra lifa á slíku. Píratinn alræmdi Jón Þór Ólafsson segist ætla að leggja fram tillögu um vantraust á fjármálaráðherra. Hér má lesa um Jón Þór og hér og hér. Hann lagðist gegn hækkun kjararáðs á launum alþingismanna og ætlaði að kæra ákvörðunina. Það gerði hann ekki en, gerði í raun ekkert þrátt fyrir stór orð um hið gagnstæða. Hirti bara launahækkunina eins og aðrir þingmenn, fitnaði á henni og lifir nú sællífi.
Ég gæti að mínum sóttvörnum. Það er þeirra mál sem ekki gæta að sínum. Mitt verkefni er ekki að fordæma þá sem gæta sín ekki. Ekki einu sinni þá sem blaðra sem mest, nema auðvitað Jón Þór Ólafsson, alþingismann. En öllum skal samt óskað gleðilegra jóla.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Jólakveðjur á Þorláki, svoo jólalegt
23.12.2020 | 14:23
Í morgun gekk ég út á svalir, eins og ég geri jafnan árla á Þorláksmessu, dró nokkrum sinnum djúpt andann og hrópaði síðan af öllum kröftum:
Sendi ættingjum og vinum bestu óskir um gleðileg jól og heillaríkt nýtt ár. Þakka allt á árinu sem er að líða.
Svo beið ég í dálitla stund þangað til svörin bárust:
Já, sömuleiðis, gleðileg jól, kallaði einhver.
Haltu kjafti, helv... þitt. Fólk er að reyna að sofa hérna, öskraði rámur kall.
Ha ..., kaseiru? hrópaði skræk kona.
Hundur gelti, annar tók umsvifalaust undir og köttur mjálmaði. Nagladekk skröltu á íslausu malbiki.
Ég gekk inn í stofu, nennti ekki að hlusta á hundgá, jafnvel þótt fyrr eða síðar myndi hundur sonar míns, hann Fróði (sko hundurinn heitir Fróði ekki sonurinn) hugsanlega gelta, mér eða einhverjum öðrum til ánægju.
Engu að síður velti ég því samt fyrir mér hvort ekki væri skynsamlegra að senda jólakort eða tölvupóst. Hrópin hef ég hins vegar stundað á Þorláksmessu frá því ég var barn og með því sparað mér ótrúlegar fjárhæðir í kaupum á jólakortum og frímerkjum. Og allir gleðjast yfir gleðilegjólaogfarsæltnýttárhrópum mínum (nema þessi rámi).
Nú kann ábyggilega einhver að misskilja mig og halda að ég sé að gagnrýna rúmlega hálfra aldar gamlan sið að senda jólakveðjur á gufunni Ríkisútvarpsins.
Nei, nei, nei ... Því er nú víðsfjarri. En úr því að verið er að brydda upp á þessu, man ég aldrei eftir að hafa heyrt jólakveðju til mín á gufunni eða einhvers sem ég þekki og aldrei hef ég kannast við nöfn þeirra sem senda kveðjur. Sendendur eru alltaf einhverjir sem enginn þekkir, til dæmis Stína, Barði, börnin og fleiri sem ég man ekki hvað heita enda 3.466 kveðjur þetta árið.
Sko, ég held því síst af öllu fram að kveðjurnar séu ómarkviss vitleysa fyrir kaupendur (og hlustendur). Á samfélagsmiðlum er því haldið fram að kveðjurnar séu að mestu leyti uppdiktaðar innan Ríkisútvarpsins, því mörgum finnst grunsamlegt hversu þær eru allar líkar. Í öllum koma fyrir fyrir orðin óskir, jól, gleðilegt, þakka, ár, nýtt, líða og svo kryddað með innihaldsríkum samtekningum og forsetningum af ýmsu tagi. Nokkuð til í þessu.
Nú má vel vera að enginn sendi mér jólakveðju í útvarpinu, sem í sjálfu sér er dálítið sorglegt. Hitt er þó jafn líklegt að útilokað sé að hlusta með einbeittri athygli á yfir þrjú þúsund fjögur hundruð sextíu og sex jólakveðjur lesnar í belg og biðu í tvo daga samfleytt og ná að grípa þá réttu. Aðferðafræðin er doldið kjánaleg, svona markaðslega séð. Og enn vitlausari eru þeir sem punga út fullt af peningum til að senda kveðjur sem aldrei rata til móttakenda.
Margir nenna ekki lengur að hlusta á jólakveðjurnar sem er synd, illa farið með góða sorg sem óhjákvæmilega til verður þegar ekki næst að grípa kveðju sem maður vonar að hafi verið send. Þó eru margir með gufuna opna og hlusta á kveðjurnar sem í síbylju hverfa út í loftið meðan verið er að baka, pakka inn jólagjöfum, skamma krakkana eða eitthvað annað þarflegt.
Hitt er ku vera dagsatt að Ríkisútvarpið græðir tæplega fjórtán milljónir króna á tiltækinu og kostar engu til nema þulnum sem þylur sig hásan.
Í anda samkeppni og þjóðþrifa mun ég frá og með deginum í dag og fram yfir áramót bjóða landsmönnum að hrópa hjartnæmar jóla-, annaníjóla-, þriðjaíjóla- (og svo framvegis) og nýjárskveðjur af svölunum heima.
Svo vel hefur tekist til á undanförnum árum að þetta er að verða siður. Spyrjið bara alla þá sem sendu og fengu kveðjur. Heimtur á kveðjum eru margfalt betri hjá mér en Ríkisútvarpinu.
Verðið er miklu betra en hjá Ríkisútvarpinu, heilum 17,5% lægra. Og það sem meira er, komist kveðja sannanlega ekki til skila fær kaupandinn 33,9% endurgreiðslu. Samkeppnisaðilinn getur sko ekki toppað þetta.
Fyrst verið er að misskilja viljandi tilganginn með þessum skrifum mínum vil ég nefna þá staðreynd í fullkominni vináttu, kurteisi og virðingu fyrir hefðum fólks að það er ábyggilega ódýrara og markvissara að hrópa kveðjur af svölunum en að borga Ríkisútvarpinu fyrir að lesa þær út í rafræna tómið sem er umhverfislega stórhættulegt og um síðir getur valdið ólæknandi veirusjúkdómum. Eða að yfirborð sjávar hækki um fimm sentímetra á næstu þrem árum.
Þá hrekkur þetta eflaust upp úr lesandanum:
En það er svo gasalega jólalegt að hlusta á jólakveðjulesturinn á gufunni.
Já, því skal ég nú trúa. Það er líka obbbbb-ooooðs-leeeeeg-aaaa-a jólalegt að tala til þjóðarinnar úti á svölum á Þorláksmessumorgni.
(Vilji svo til að einhver glöggur lesandi telji sig hafa lesið ofangreindan pistil á Þorláksmessu á síðasta ári skal það fyrirfram dregið í efa vegna þess að fólk man ekkert stundinni lengur.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Einkennasýnataka, Seyðfirðingar hlutaðir og Seyðis- og Eskifirði
21.12.2020 | 13:00
Orðlof
Spjallar Guð?
Guðspjallið skrifaði guðspjallamaðurinn Mattheus (eða Markús, Lúkas eða Jóhannes). Þennan texta þekkja allir og vita líka hvað guðspjall er, þótt þeir viti ekki endilega hvernig orðið er til komið. Það mætti láta sér detta í hug að merkingin sé að í guðspjöllunum sé guð að spjalla við mennina, en uppruninn er allt annar.
Guðspjall er gamalt tökuorð úr fornensku sem er orðið til úr orðasambandinu gód spell. Bókstafleg merking þess er góðar fréttir og það þýðir því í rauninni það sama og fagnaðarboðskapur og er, eins og það, bein þýðing á latneska orðinu evangelium.
Fornenska orðið vísar því hvorki til guðs né hefur það nokkuð með spjall að gera, hvað þá spjöll. Menn hafa þó litið svo á að hin góðu tíðindi sem guðspjöllin flytja séu komin frá guði og það er kannski ástæðan fyrir því að fyrri liður orðsins hefur fengið myndina guð-.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Þórólfur segir augljóst að fólk sé mikið á ferðinni út um allt og það auki líkur á útsetningu á smiti.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Allir vita hvað smit er og nú er hætta á að fólk smitist. Er þá útsetning á smiti eitthvað verra en að smitast?
Orðabókin mín er hjálpar ekkert. Hefur aldrei heyrt um útsetningu á smiti en kannast mætavel við útsetningu á lögum eða tónverkum.
Leyfi mér að giska á að útsetning merki að verða fyrir. En auðvitað er það ekki eins fínt og útsetning á smiti og passar sko alls ekki inn í stofnanamállýsku kerfisins.
Líkur benda til að útsetning sé óþarft í fréttin því það bætir engu við skilning lesandans.
Þegar gáfumenn tala falla blaðamenn í stafi. Þetta fólk er þó eins og við hin, reka í vörðurnar og ruglast. Hins vegar er svo margt sem þeir segja svo áferðarfallegt. Til dæmis einkennasýnataka sem er gullfallegt orð en enginn skilur það nema kerfiskallarnir.
Svo finnst mér þetta orðalag svo gáfulegt að ég ræð mér varla:
Þórólfur segir hins vegar að flestir sem hafi greinst utan sóttkvíar hafi tengsl við aðra smitaða en ekki náðst á sínum tíma.
Aldrei hefði mér dottið í hug að fólk smitist aðeins af þeim sem hafa veiruna. Það er vísindalegt afrek að hafa ráðið í tengslin.
Tillaga: Þórólfur segir augljóst að fólk sé mikið á ferðinni og það auki líkur á að það smitist.
2.
og hvort að hægt sé að hleypa einhverjum hluta Seyðfirðinga heim til sín, þeim sem búa á öruggum svæðum.
Frétt á frettabladid.is.
Athugasemd: Varla er fólk sent heim til sín í hlutum. Flestir njóta sín betur í heilu lagi.
Tillaga: og hvort að hægt sé að hleypa þeim Seyðfirðingum heim til sín sem búa á öruggum svæðum.
3.
Þyrla Landhelgisgæslunnar lenti á Seyðisfirði rétt eftir klukkan 11 og mun þar verða þar ofanflóðasérfræðingum Veðurstofunnar innan handa.
Frétt á frettabladid.is.
Athugasemd: Merking orðalagsins að hafa eitthvað innan handar er samkvæmt bókinni Merg málsins eftir Jón G. Friðjónsson:
Líkingin er dregin af einhverju sem er tiltækt, einhverju sem menn geta gripið til.
Varla fer vel á því að skip eða flugvél sé fólki innan handar. Veldur því stærðin. Betur fer hér á því að segja að þyrlan verði sérfræðingunum til afnota.
Í fréttinni segir:
Varðskipið Týr kom til Seyðisfjarðar í gær og byrjaði á því að bjarga þremur og tveimur köttum sem höfðu orðið innlyksa. Þau voru flutt á Seyðisfjörð. Skipið var svo statt þar í nótt og varpaði ljósi á hlíðina en að sögn Ásgeirs eru nokkuð öflugir kastarar um borð.
Sá sem þetta skrifaði hefur ekki haft fyrir því að lesa fréttina yfir fyrir birtingu. Verkstjórnin á Fréttablaðinu virðist ekki upp á marga fiska fyrst að svona er ekki lagað.
Í fréttinni segir líka:
Almannavarnir, lögregla og viðbragðsaðilar funduðu um stöðuna á Seyðis- og Eskifirði
Gott að ekki var líka rætt um Mjóa-, Reyðar-, Fáskrúðs-, Beru- og Hamarsfjörð. Þvílík leti í blaðamanninum að nenna ekki að skrifa heiti þéttbýlisstaðanna eða fjarðanna fullu nafni.
Þori að fullyrða að svona hefur aldrei verið gert. Hvorki í Reykja-, Húsa- eða Ólafsvík. Né í Tryggva-, Skúla- eða Aragötu. Og ekki eru þau eins Morgun-, Dag- og Fréttablaðið. Hvað þá blöð í öðrum löndum svo sem í Finn-, Bret-, Frakk-, Pól- eða Swasílandi. Sjá nú allir hversu þetta er enda-, botn- og vitlaust jafnvel þó verið sé að aug-, upp-, þing- eða friðlýsa.
Tillaga: Þyrla Landhelgisgæslunnar lenti á Seyðisfirði rétt eftir klukkan 11 og mun þar verða þar ofanflóðasérfræðingum Veðurstofunnar til afnota.
4.
Daginn tekur að lengja frá deginum í dag.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Þessi setning er stórmerkileg. Í átta orða fyrirsögn kemur dagur fyrir þrisvar sinnum. Þetta kallast nástaða en flestir sem stunda skrif reyna að forðast hana.
Væri fyrirsögnin hluti af vísu myndi svona kannski vera kallað ofstuðlun. Þetta er gott að hafa í huga enda hafa allar góðar sögur hryjanda, takt. Og hvað er frétt annað en saga? Þetta mættu fréttaskrifarar hafa í huga og njóta þeir þakklætis lesenda fyrir vikið.
Tillaga: Dag tekur nú að lengja.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ákall, go crazy og hrópa framíköll
19.12.2020 | 18:50
Orðlof
Gustuk
Stundum er sagt að ekki sé gustuk að gera þetta eða hitt ef það þykir ekki nema sjálfsagt og líka er talað um gustukaverk í svipaðri merkingu. Orðið gustuk er orðið til við samruna úr orðasambandinu guðs þökk og upphaflega var þetta haft um miskunnarverk eða góðverk við náungann.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Það er alveg ljóst að það er tjón.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Fer ekki betur á því að segja að það hafi orðið tjón? Nútíðarvæðing ummæla er dálítið andkringisleg (vissara fyrir lesendur að fletta þessu orði upp í orðabók).
Tillaga: Ljóst að það varð tjón.
2.
Veitur sendu frá sér ákall til notenda heitavatns í upphafi mánaðar og fóru þess á leit að þeir færu sparlega með vatnið vegna þess að yfirvofandi væri kuldakast.
Leiðari Morgunblaðsins 17. desember 2020.
Athugasemd: Ákall þýðir bæn eða ávarp. Í sjálfu sér getur hið seinna passað í þessu tilviki. Þó er hér ein draugur sem þarf að glíma við og það er orðlagið að kalla eftir einhverju sem er bein þýðing úr ensku; to call for.
Óvönduðum blaðamönnum fannst enska orðalagið svo ákaflega líkt því íslenska að þeir tóku það umhugsunarlaust upp. Og nú hefur það breiðst út í alla fjölmiðla og enginn segir neitt.
Sagt er að menn kalli eftir einhverju og síðan sé það nefnt ákall.
Jæja. Hvað merkir svo orðalagið að kalla eftir. Í sannleika sagt er þetta afar máttlaust og óskýrt orðalag.
Í sögunni um Bakkabræður segir:
Gísli-Eiríkur-Helgi, faðir vor kallar kútinn
Vera má að blaðamenn telji að pabbinn hafi kallað eftir kútnum sem er rétt. En ekki að það hafi verið ákall.
Alsendis óljóst er hvað Veitur hafi átt við með ákalli. Miklu nær er að segja að fyrirtækið hafi óskað eftir því að notendur færu sparlega með heita vatnið eða krefðist þess.
Hvað merkir til dæmis eftirfarandi (fundið með gúggli):
- Kalla eftir ábyrgð stjórnvalda [krefjast?]
- Kalla eftir upplýsingum [óska eftir, heimta, biðja um?]
- Kalla eftir samræmi í stuðningi við fjölskyldur [krefjast, óska eftir?]
- Kalla eftir afsögn ráðherra [krefjast, óska eftir?]
- Kalla eftir íbúafundi [óska eftir, biðja um, heimta?].
- Kalla eftir umsóknum um styrki [hvetja til að sækja um styrk?].
- Kalla eftir greinum í tímarit [óska eftir, biðja um?]
- Kalla eftir meiri samvinnu sveitarfélaga og ríkis [óska eftir, heimta, krefjast?]
Allt er þetta afar óljóst. Drottinn minn dýri, ekkert af þessu er ákall (skildist þetta?). Svo má ef til vill velta því fyrir sér hvort baráttan gegn kalla eftir og ákall sé ekki löngu töpuð.
Tillaga: Engin tillaga.
3.
Go crazy, fimmtudags-mánudags.
Auglýsing verslunarinnar Ilva á baksíðu Morgunblaðsins 17.12.20.
Athugasemd: Held að stjórnendur verslunarinnar hafi misst vitið (á ensku gone crazy). Hvers vegna er aðalfyrirsögnin á ensku en að öðru leiti á íslensku? Geta forráðamenn verslunarinnar ekki haldið sig við annað hvort tungumálið?
Tillaga: Engin tillaga
4.
Þá hrópaði Rósa og reyndi ítrekuð framíköll meðan Áslaug gerði tilraun til að svara fyrirspurn hennar.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Fréttin virðist fljótfærnislega skrifuð. Í niðurlagi fréttarinnar er ofangreind málsgrein endurtekin að hluta, sama orðaval. Blaðamaðurinn hefði átt að lesa fréttina yfir fyrir birtingu.
Hvað á blaðamaðurinn við með þessu orðalagi að hrópa og reyna frammíköll? Þegar Rósa hrópaði var hún ekki kalla fram í fyrir ræðumanni?
Eitt af uppáhaldsorðum blaðamanna er ítrekað, kemur oft, margoft, margsinnis, tíðum fyrir í fréttum fjölmiðla og er ekki til eftirbreytni,
Tillaga: Þá hrópaði Rósa og kallaði margoft fram í fyrir Áslaugu meðan hún reyndi að svara fyrirspurninni.
5.
Reynslumiklir og þolinmóðir á Hafnartorgi
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Sá sem er reynslumikill er reyndur. Það dugar ágætlega og óþarfi að bæta við það mikill. Hins vegar eru margir þannig að þeir búa að mikilli reynslu. Þeir eru engu að síður reyndir.
Í fréttinni er fjallað um húsnæði við Hafnartorg sem viðmælendur í Morgunblaðinu þann 17.12.20 gagnrýndu vegna lélegrar hönnunar og vegna þess að það magnar svo upp vind að fólki finnst slæmt að vera á torginu.
Í fyrirsögninni eru tvö orð í gæsalöppum sem táknar að þau sé höfð eftir öðrum, það er eigendum húsnæðisins sem svara gagnrýninni að hluta.
Blaðamaður mbl.is. leggur þeim orð í munn. Hvergi í yfirlýsingunni kemur fyrir orðið reynslumikill. Að vísu stendur þessi illa samda setning í henni:
Við erum þolinmóður aðili með mikla reynslu af fasteignarþróun í miðbænum
Hvernig er hægt að búa til svona setningu með bæði eintölu og fleirtölu í senn. Við erum og svo kemur þolinmóður aðili Þetta minnir á hátignir í útlandinu. Einhver kóngurinn í Frakklandi gæti hafa sagt þetta:
Nous sommes la France
Og þá væri réttari að segja:
Vér Regin erum Hafnartorg.
Reyndar er Regin goðaheiti og þessi tilbúnu ummæli eru bara nokkuð lík. Málið er hins vegar þetta: Ekki leggja viðmælendum orð í munn nema til að lagfæra og leiðrétta.
Og svo er það orðið aðili. Tek það fram og undirstrika að ég er ekki aðili.
Tillaga: Reyndir og þolinmóðir á Hafnartorgi.
6.
Síðasta bingó K100 og mbl.is fyrir jól fór fram í gærkvöldi.
Frétt á blaðsíðu 11 í Morgunblaðinun 18.12.20.
Athugasemd: Fer ekki betur á því að segja að bingóið hafi verið í gærkvöldi?
Tillaga: Síðasta bingó K100 og mbl.is fyrir jól var í gærkvöldi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hugga sig heima, búbbla og frelsissviptur
16.12.2020 | 12:01
Orðlof
Að vera
Samkvæmt Íslenskri orðtíðnibók (1991) er sögnin vera algengasta sagnorð í íslensku og jafnframt eitt af þremur algengustu orðum málsins ásamt samtengingunum og og að.
Í textasafni með rúmlega hálfri milljón lesmálsorða kom vera rúmlega 21.000 sinnum fyrir í einhverri mynd.
Öll algengustu orð málsins eru svokölluð kerfisorð, þar á meðal hjálparsagnir eins og vera, verða og hafa.
Af öðrum sögnum er koma algengust en hún er í 22. sæti yfir algengustu íslensk orð og kemur miklu sjaldnar fyrir en vera.
Tiltölulega margar sagnir eru meðal hundrað algengustu orða málsins og auk þeirra sem þegar eru nefndar eru algengustu sagnirnar þessar: segja, fara, geta, taka, eiga, gera, sjá, halda, finna, fá, vita, standa, ganga, láta, vilja, leggja, mega og reyna.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Huggum okkur heima
Auglýsing í Ríkisútvarpinu 13.12.20, klukkan 12:40.
Athugasemd: Held að það hafi verið nærbrókarsali sem orðaði þetta svo í auglýsingu sinni í Ríkisútvarpinu. Hugsanlega hefur hann fengið orðið úr norsku eða dönsku. Í báðum málunum er talað um að hygge sig. Þegar ég nam í Noregi var stundum sagt:
Vi skal hygge oss í kveld.
Þá var ætlunin að hafa það náðugt með rauðvínslögg, góðri bók og eldi í arni.
Á íslensku er vissulega til sögnin að hugga en hún merkir að hughreysta, sefa og álíka.
Í stað þess að hugga okkur getum við haft það náðugt, njóta einhvers, slaka á, slappa af og svo framvegis.
Ég mæli ekkert með lýsingarorðinu kósí, finnst að afar aumt. Fjöldi íslenskra orða eru betri.
Tillaga: Höfum það náðugt heima.
2.
Búbbla.
Notað í tengslum við fjöldatakamarkanir í faraldrinum.
Athugasemd: Búbbla er ómögulegt orð. Það er einfaldlega enska orðið bubble og snarað yfir í íslenskan framburð. Þannig skemmri skírn gengur varla.
Í faraldrinum er búbbla ætlað að vera einhvers konar takmörkun á fjölda þeirra sem mega koma saman í einum hóp. Sumir tala um kúlu í sömu merkingu.
Um leið og þeir sem nota búbbla og kúla hafa sleppt orðinu er næst á vörum orðið hópur, hópamyndun, hópatakmarkanir og svo framvegis. Af hverju er ekki haldið áfram með þetta og talað um búbblumyndun og búbblutakmarkanir eða kúlumyndun, kúlutakmarkanir?
Staðreyndin er einfaldlega sú að ekkert annað orð kemur í stað nafnorðsins hópur. Tíu manna hópur er miklu betra orðalag en tíu manna búbbla eða tíu manna kúla.
Satt að segja er alveg furðulegt að fjölmiðlar hafi grafið upp búbbla eða kúla í tengslum við faraldurinn. Líklega er þetta komið úr ensku en sú tunga er ágæt ein og sér, íslenskan dugar okkur hérna.
Ég hef enga trú á að búbbla nái fótfestu í íslensku en tel samt vissara að grafa orðið og kasta á það rekunum.
Tillaga: Hópur.
3.
Aus fúkyrðum yfir þjálfarann til að komast burt
Fyrirsögn á dv.is.
Athugasemd: Sögnin að ausa er í eintölu nútíðar:
ég eys, þú eyst, hann eys.
Í þátíð:
ég jós, þú jóst, hann jós
Orðið er því ansi óreglulegt og vissara að leggja beyginguna á minnið.
Tillaga: Jós fúkyrðum yfir þjálfarann til að komast burt
4.
Plastefni brotnuðu niður í leiðslum í ofninum þegar of heitt vatn rann um þær. Plastefnin runnu síðan óhindruð með vatninu inn í kjarnaofninn með þeim afleiðingum að plastefnin urðu geislavirk.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Nástaða kallast það þegar sama orðið kemur óþarflega oft fyrir í texta. Vanur skrifari hefði aðeins notað orðið plastefni einu sinni.
Fréttin byrjar á þessum orðum:
Sjálfvirk slökkvun átti sér stað í kjarnaofni 2 í Olkiluoto kjarnorkuverinu á vesturströnd Finnlands, þann 10. desember síðastliðinn.
Nafnorðið slökkvun er nokkuð oft notað í fréttum. Það finn ég ekki í orðabókunum mínum.
Margir skrifarar, ekki bara blaðamenn, vilja endilega notað nafnorð eins og gert er í ensku og telja að skrifin verði skýrari fyrir vikið. Sjaldnast er það svo. Í fréttinni hefði verið hægt að umorða málsgreinina og sleppa nafnorðinu. Til dæmis svona:
Öryggiskerfi slökktu sjálfkrafa á kjarnaofni tvö Olkiluoto kjarnorkuverinu á vesturströnd Finnlands, þann 10. desember síðastliðinn.
Vandinn er að lesandinn veit ekki hvað var slökkt í kjarnorkuverinu. Var eldur slökktur eða var slökkt á framleiðslunni?
Í fréttinni segir:
Þetta þykir minniháttaratvik
Held að íslenskukennarinn minn í MR hefði af miskunnsemi sinni gefið aðeins eina villu fyrir þetta í stað tveggja eða þriggja. Samkvæmt reglunum á að skrifa þetta svona: Minni háttar atvik.
Svo er það þetta með nafnorðið atvik sem tröllríður öllum fréttum í fjölmiðlum. Þegar óhapp, slys eða handvömm verður á Landspítalanum heitir það atvik. Í kjarnorkuveri kallast óhappið atvik. Líklega var það atvik þegar kjarnaofninn í Tsjernóbýl sprakk í loft upp árið 1982 og geislavirknin barst til norðurhluta Evrópu. Hins vegar geta atvik verði spaugileg. Þegar ég datt á rassinn á ísnum á Elliðavatni fannst öllum atvikið hlægilegt og skelltu upp úr.
Í fréttinni er þetta haft eftir viðmælanda:
Fulltrúinn sem hafði stýrt samskiptum Finna á meðan æfingunni stóð gleymdi að breyta undirskrift sinni á tilkynningar frá þeim eftir æfinguna, þannig að þegar hann svo tilkynnti um alvöru atvikið þá þurfti hann að árétta eftirá að hann hafi vissulega gleymt að breyta undirskrift sinni sem stjóri æfingarinnar, því það var jú engin æfing lengur í gangi.
Ég skil ekki þessa löngu málsgrein.
Nauðsynlegur eiginleiki blaðamanns er að geta sagt sögu. Frétt er ekkert annað en saga sem sett er upp á ákveðinn hátt. Orð sem kastað er fram í belg og biðu hjálpa ekki lesendum.
Tillaga: Plastefni brotnuðu niður í leiðslum í ofninum þegar of heitt vatn rann um þær. Þau runnu síðan með vatninu inn í kjarnaofninn og urðu þar geislavirk.
5.
Langvarandi Covid-19 mögulega ónæmiskerfið að ráðast á líkamann.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Hvað merkir þessi setning? Með því að lesa fréttina má hugsanlega skilja hana á þann veg að ónæmiskerfi líkamans geti brenglast eftir að hafa sýkst af Covid-19. Það trufli síðan eðlilega starfsemi hans lengi eftir að sjúklingurinn hafi náð sér.
Orðunum virðist raðað upp af handahófi en samt getur lesandinn áttað sig á því sem þarna segir.
Tökum dæmi. Skilur einhver þetta: Hstamnmót. Eflaust átta flestir sig á því að orðið hestamannamót er þarna rangt skrifað. Hér er annað frumsamið dæmi:
Bíl í Flatey að aka hestamannamóti á þrjá hesta.
Lesandinn getur ráðið í það sem þarna er skrifað. Engu að síður er setningin langt frá því að vera rétt.
Líklegast er að blaðamaðurinn á Vísi hafi ekki lesið fréttina yfir og ekki heldur samstarfsmenn hans og síst af öllu fréttastjórinn því hún stendur óbreytt þegar þetta er skrifað. Sannast nú hér sem áður hefur verið sagt að fréttirnar skipta minna mál, auglýsingarnar eru aðalatriði.
Lesendur fréttarinnar gera athugasemdir við ofangreinda frétt á Vísi og þeirra á meðal er Kristinn Sigurjónsson sem skrifar:
Það er nokkuð sérstakt í upphafi greinarinna að segja talið hrjá um 10% einstaklinga á aldrinum 18 til 49 ára og einn af fimm 70 ára og eldri.
Á einfaldri íslensku er þetta 10% einstaklinga á aldrinu 18 til 49 ára og 20% sem eru 70 ára og eldri.
Samhengið í fréttinni er að þessu leyti alls ekki gott. Varla við öðru að búast þegar fólk er látið skrifa um það sem það þekkir ekki.
Gera má athugasemdir við fjölmargt annað í fréttinni.
Tillaga: Enginn tillaga.
6.
Frelsissviptur, laminn og rændur.
Fyrirsögn á frettabladid.is.
Athugasemd: Fyrst á annað borð er verið að nota orðskrípið frelsissviptur er ekkert samræmi í fyrirsögninni. Hún ætti að vera svona:
Frelsissviptur, lemsturgefinn og verðmætasviptur
Löggumálið er hrikalega skrýtið. Ístöðulitlir blaðamenn sem eru að feta sín fyrstu spor í skrifum bera óttablanda virðingu fyrir bullinu úr löggunni. Halda að hún tali gullaldarmál. Og löggan finnur svo mikið til sín að hún keppist við að fullkomna stofnanamál sitt en af miklum vanefnum.
Hér eru dæmi um orðalag löggunnar:
- Frelsissviptur. Sviptur frelsi sínu.
- Framkvæma húsleit. Leita í húsi.
- Haldleggja. Tak eða leggja hald á.
- Tryggja ástandið. Hafa stjórn á aðstæðum
- Með mann í tökum. Maður er handtekinn, í járnum.
- Árásaraðili. Sá sem beitir ofbeldi, ofbeldismaður.
- Árásarþoli. Fórnarlambið, sá sem er ráðist á.
- Vista í fangageymslu fyrir rannsókn máls. Settur í fangelsi meðan verið er að rannsaka málið.
- Fangageymsla. Fangelsi.
- Í annarlegu ástandi. Undir áhrifum áfengis, lyfja eða fíkniefna.
- Nytjastuldur. Rán.
- Afstunga. Sá sem veldur árekstri eða slysi flýr af staðnum.
- Klessa bíl. Bíll skemmist vegna áreksturs
Sumt af þessu er í lagi, annað tóm vitleysa. Öll orðin eiga það sameiginlegt að vera ofnotuð af löggunni og löggufréttablaðamönnum.
Tillaga: Engin tillaga.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Handtökuskipun gagnvart, snjóflóð ferðast og atlaga að stofnun
10.12.2020 | 15:52
Orðlof
Lögum stjórnað
Ráðherra fer með yfirstjórn laga þessara.
Hvað merkir þetta eiginlega? Alþingi setur lög sem forseti staðfestir. Lögregla sér um að farið sé að eða eftir lögum og dómarar skera úr ágreiningi sem upp kann að koma.
Aldrei hef ég heyrt talað um yfirstjórn laga enda finnst mér orðasambandið nánast merkingarlaus klisja. Lögum er ekki stjórnað, þau eru sett og þeim er fylgt eða eftir þeim farið.
Svipuðu máli gegnir reyndar einnig um orðasambandið annast framkvæmd laga (4. gr.).
[Lög um útlendinga, nr. 80 16. júní 2016]
Málfarsbankinn. Jón G. Friðjónsson.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Búið er að gefa út handtökuskipun gagnvart tveimur starfsmönnum Samherja í Namibíu
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Draga má í efa að forsetningin gagnvart sé hér rétt notuð. Þegar nafnorðið handtökuskipun er notað klúðrast eitthvað og setningin aflagast. Þetta má orða á annan hátt, til dæmis:
Gefin hefur verið út skipun um að handtaka tvo starfsmenn Samherja í Namibíu
Hér skilst málsgreinin ákaflega vel og enginn hnýtur um gagnvart. Aftur á móti er orðið handtökuskipun lögfræðilegt hugtak og verður varla leyst upp eins og ég hef gert. Hvað er þá til ráða? Jú, einfaldlega að skipta um forsetningu.
Jón G. Friðjónsson segir í fróðlegum pistli í Málfarsbankanum:
Forsetningin gagnvert er upphaflega hk.-mynd af lo. gagnverður. Hún er algeng í fornu máli, t.d.:
- sátu þeir [Egill og Yngvar] gagnvert þeim Skalla-Grími og Þórólfi (Egils saga 31.k);
- bað hann sitja gagnvert sér í öndvegi (Egils saga, 44.k.);
- En er Glúmur kom gagnvert búð þeirri er Einar átti (Víga-Glúms saga 27.k.);
- en Björn sat gagnvert Sæmundi á annan bekk í öndvegi (Sturl I, 280).
Pistill Jón er lengri og hér er hægt að lesa hann allan.
Tillaga: Búið er að gefa út handtökuskipun á tvo starfsmenn Samherja í Namibíu
2.
Ef ykkur þótti Everest-fjall ekki nægilega hátt fyrir þá hafa stjórnvöld í Kína og Nepal loksins komist að samkomulagi um nákvæma hæð fjallins, eftir áralangar deilur, enda liggur fjallið á landamærum ríkjanna.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Hvern er blaðamaðurinn að ávarpa? Hvað á hann við með nægilega hátt? Þetta er furðuleg byrjun á frétt. Samhengið í málsgreininni er afar óskýrt. Fjall kemur þrisvar fyrir í málsgreininni. Einu sinn er það rangt ritað.
Hver í ósköpunum gæti haft skoðun á því að Everest sé of hátt eða of lágt?
Margt er bullað: Liggur fjallið á landamærum Kína og Nepal eða er það á landamærunum?
Í fréttinni segir:
Jú, fjallið er nú heilum 86 cm hærra en það hefur verið mælt opinberlega hingað til í Nepal, og rúmum fjórum metrum en Kínverjar hafa hingað til viljað viðurkenna.
Skilur einhver þessa málsgrein? Líklega vantar eitthvað í hana og því stendur rúmum fjórum metrum skýringarlaust.
Í fréttinni segir:
Þegar fjallagarpurinn Edmund Hillary sigraði toppinn með sjerpanum Tenzing Norgay í maí ári 1953
Í hverju kepptu Hillary og toppurinn? Keppnin hefur alveg farið framhjá okkur fjallamönnum.
Hér eru fleiri dæmi:
- þá var hæðinni breytt í 8.848 metra samkvæmt indverskum mælingum. Sú tala hefur haldið sig þar til nú.
- Síðan þá hafa Kínverjar framkvæmt nokkrar mælingar
- og árið 2005 héldu þeir fram að rétt hæð væri 8.844,43 metrar.
- Það leiddi til deilna við Nepala sem leystist ekki
Líklega er ekki við blaðamanninn að sakast heldur yfirmenn hans og jafnvel ritstjórnina alla. Fær nær óskrifandi nýliði enga tilsögn á Mogganum?
Þess ber að geta að á blaðsíðu 11 í Morgunblaðinu 9.12.20 er stutt frétt um örplast á Everest og mælingar á hæð fjallsins. Hún er nær gallalaus.
Tillaga: Engin tillaga.
3.
Ferðafélagið skipuleggur margvísleg fjallaverkefni.
Myndatexti á blaðsíðu 6 í Morgunblaðinu 9.12.20.
Athugasemd: Hvað eru fjallaverkefni? Orðið er ekki þekkt nema hjá Ferðafélagi Íslands.
Hvað er betra við orðið fjallaverkefni en til dæmis fjallaferðir? Ekkert. Helst má hugsa sér að orðið sé búið til að fólki sem ekki hefur stundað fjallaferðir að neinu ráði.
Tillaga: Engin tillaga.
4.
Fremsti hluti snjóflóðsins, eðlisléttur iðukastafaldurinn, ferðaðist á 45-60 m/s (162-216 km/klst.) hraða.
Frétt á blaðsíðu 10 í Morgunblaðinu 9.12.20.
Athugasemd: Í fréttinni er fjallað um snjóflóð sem féll á Flateyri 14. janúar 2020 og skýrslu Veðurstofunnar um það. Í fréttinni er sagt að flóðið hafi ferðast á miklum hraða.
Sögnin að ferðast er oftast notuð um ferðir fólks, ekki dauða hluti eins og hér er gert.
Ég varð mér út um skýrslu Veðurstofunnar. Í henni segir margoft að snjóflóð ferðist og talað um ferðatíma þess. Í staðinn hefði verið hægt að tala um hraða snjóflóðsins, leið þess eða umorða á annan hátt.
Til gamans má geta þess að í skýrslunni segir að skýrsluhöfundar hafi farið í vettvangsferðir, þeir hafi farið margar ferðir til Flateyrar og loks segir í skýrslunni að skemmdir hafi orðið á eignum ferðaskrifstofufyrirtækis á Flateyri. Fleiri ferðast en snjóflóð. Verður næst sagt að snjóflóð leggi land undir fót?
Hér áður fyrr var sagt að snjóflóð falli. Er málið eitthvað bættara ef snjóflóð ferðast?
Tillaga: Fremsti hluti snjóflóðsins, eðlisléttur iðukastafaldurinn, var á 45-60 m/s (162-216 km/klst.) hraða.
5.
Ný atlaga að stofnun Blæs.
Fyrirsögn á blaðsíðu 34 í Morgunblaðinu 10.12.20.
Athugasemd: Samkvæmt orðabókinni merkir atlaga að ráðast á einhvern, gera árás, leggja til atlögu og svo framvegis. Orðið er til ófriðar en alls ekki gælur.
Þegar fréttin er lesin kemur í ljós að tilgangurinn er þveröfugur við það sem fyrirsögnin segir. Síst af öllu er ætlunin að gera út af við Blæ eða skaða fyrirtækið.
Samkvæmt fréttinni á að afla fjár til að stofna Blæ og reka, það er byggja íbúðir og leigja. Þetta kalla blaðmaðurinn atlögu.
Tillaga: Ný tilraun gerði til að stofna Blæ.
6.
Það hefur sem betur fer ekki orðið banaslys enn þá hér á landi eins og erlendis af þeirri ástæðu að skinnari hefur fengið spilvírinn sem troðarinn hangir í sig og banað viðkomandi.
Tilkynning frá starfsfólki skíðsvæða.
Athugasemd: Hvað er skinnari? Ég hef aldrei heyrt þetta orð áður. Varla vita margir svarið, en þar sem ég hef lengi notað ýmis konar skíði giska ég á að skinnari sé sá sem lætur skinn undir gönguskíði eða fjallaskíði til að auðvelda göngu á fjöll.
Þetta er slæmt orð en látum það nú vera. Tilvitnunin hér að ofan er óskiljanleg.
Sama er með allt annað í tilkynningunni. Svo virðist hún sé frá starfsfólk enda stendur undir Starfsfólk Skíðasvæðanna. Samt er hún skrifuð í 1. persónu eintölu: Ég verð að biðja ykkur og svo framvegis.
Í tilkynningunni segir:
Göngubrautir verða líka opnar, en öll hús lokuð og verður einstefna í brautinni.
Þetta er hrærigrautur. Hvað koma hús göngubrautum við?
Fleiri villur og vitleysur mætti nefna í tiltölulega stuttri tilkynningu. Þessu til viðbótar er öll vefsíða skíðasvæðanna illa skrifuð og veitt ekki af því að prófarkalesa hana og laga.
Tillaga: engin tillaga.
7.
Þurfum að vera undirbúin fyrir að bíða eftir bóluefninu.
Fyrirsögn á ruv.is.
Athugasemd: Þetta er klúðursleg fyrirsögn, illa orðuð. Í Málfarsbankanum segir:
Rétt er að segja að undirbúa sig undir eitthvað. Hann undirbjó sig undir prófið.
Líka er hægt að tala einfaldlega um að búa sig undir eitthvað.
Skrifarar verða að hafa tilfinningu fyrir málinu. Hún kemur ekki nema með miklum lestri bóka, helst frá barnæsku.
Tillaga: Verðum að vera undir það búin að þurfa að bíða eftir bóluefninu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sátt við aðgerðir, gríma sem er vatnshellt og framkvæma aðgerð
7.12.2020 | 13:12
Orðlof
Ákvæðisorð
Á undanförnum árum hef ég iðulega rekist á setningar eins og Gætu verið ár í að klöppin hrynji, Æðislegt rjómapasta á mínútum og ýmsar fleiri í svipuðum dúr.
Þarna eru orð sem vísa til tíma, ár og mínútur, notuð án nokkurs ákvæðisorðs. Það er ekki í samræmi við mína málkennd ég get bara notað orðin svona í eintölu, ekki fleirtölu.
Þegar um er að ræða orð í fleirtölu sem tákna tíma þarf yfirleitt að fylgja þeim eitthvert ákvæðisorð töluorð, lýsingarorð eða óákveðið fornafn í setningum af þessu tagi. Þetta er hins vegar eðlileg setningagerð í ensku.
Eiríkur Rögnvaldsson, sjá ítarlegar á vefsíðu hans.
Ákvæðisorð: Orð sem stendur með öðru orði og kveður nánar á um einkenni þess sem það á við eða segir nánar til um við hvað er átt. Málfarsbankinn.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Doktor Helga Kristjánsdóttir hefur hlotið framgang til prófessorsstöðu
Frétt á blaðsíðu 16 í Morgunblaðinu 5.12.20.
Athugasemd: Hlaut konan prófessorsstöðuna eða ekki? Þetta með framgang skilst illa. Líklega eru þeir sem annast ráðninguna enn að bræða það með sér hvort hún fái starfið.
Í orðabókinni minni segir um orðið framgangur:
Framkvæmd, það að koma e-u fram; framganga.
Tilvitnunin í fréttina verður ekki skýrari með þessu, þvert á móti. Þá verður það fyrir manni að gúggla orðasambandið og þá kemur í ljós að það er nokkuð algengt í þessari merkingu. Af þessu leiðir að leikmaðurinn getur varla fullyrt að það sé rangt notað.
Í skrá um orðasambönd eru gefin tíu dæmi:
- fá (ekki framgang
- fá <málinu> framgang
- framgangur jöklanna
- hafa framgang (með <bókina>)
- <málið, breytingartillagan, gjaforðið> fær (ekki) framgang
- <málið> hefur (<engan>) framgang
- <málið> hefur/hafði hindrunarlausan framgang
- vera fljótstígur í framgangi
- vera luralegur í framgangi
- vera þóttalegur í framgangi
Ekkert af þessum hjálpar fáfróðum lesanda að í fréttina.
Loks má geta þess að framgangur er nafnorð. Miklu betur fer á því að nota einfaldara orðalag með sagnorði, það er að segja hafi konan verið skipuð sem prófessor.
Tillaga: Doktor Helga Kristjánsdóttir hefur verið skipuð í prófessorsstöðu
2.
Það sést á könnunum Gallup að það hefur verið mikil sátt við þessar aðgerðir
Frétt ruv.is.
Athugasemd: Fer ekki betur að segja að sátt sé um aðgerðirnar?
Tillaga: Það sést á könnunum Gallup að mikil sátt var um þessar aðgerðirnar
3.
[öndunargríma] sem hleypir vel út hita en er samt sem áður vatnshellt.
Auglýsing á blaðsíðu 9 í Morgunblaðinu 7.12.20.
Athugasemd: Öndunargríma er nafnorð í kvenkyni og því er hún vatnsheld. Orðið vatnsheldur er myndað með nafnorðinu vatn og sögninni að halda, það sem heldur vatni.
Í auglýsingunni er textinn svona óstyttur:
Airpop Active er fjölnota öndunargríma, ytri skelin er úr mjúku örtrefjaefni (micro- fiber) sem hleypir vel út hita en er samt sem áður vatnshellt.
Oft er það svo að starfsmenn fyrirtækis hanna auglýsingu og senda á fjölmiðil sem setur hana upp eins og kallað er. Umbrotsmenn á fjölmiðlum eru yfirleitt mjög vandvirkir og þessi auglýsing er ágætt dæmi um það. Þó hefur gleymst lesa textann yfir. Gera má athugasemdir við ýmislegt annað.
Í auglýsingunni er til dæmis sagt að gríman sitji vel á andlitinu. Ekki gott orðalag og sé það gúgglað kemur í ljós að það er allt annars eðlis.
Tillaga: [öndunargríma] sem hleypir vel út hita en er samt sem áður vatnsheld.
4.
Þetta er í fyrsta sinn sem Kínverjar ná að framkvæma slíka aðgerð
Frétt á blaðsíðu 13 í Morgunblaðinu 7.12.20.
Athugasemd: Orðalagið framkvæma aðgerð er nafnorðahnoð og merkir einfaldlega að gera. Ótrúlegt að reyndur blaðamaður skuli skrifa svona.
Í fréttinni segir:
Þeir stefna þó enn lengra, og má segja að leiðangurinn nú hafi einungis verið áfangastaður í kapphlaupi stórveldanna og fleiri um að senda fyrsta manninn á yfirborð Mars.
Enn er þetta hnoð. Senda fyrsta manninn. Átt er við að senda mann eða menn til Mars.
Óhjákvæmilega munu Marsfarar lenda á yfirborðinu, annars staðar verður aldrei lent. Er blaðamaðurinn að þýða enska orðalagið landing on the surface of March? Sé svo nægir einfaldlega að orða það þannig að lent verði á Mars.
Í fréttinni segir:
Gangi allt að óskum munu Kínverjar komast í útvalinna hóp þjóða, sem hafa náð að sækja grjót frá tunglinu
Sá sem er útvalinn hefur verið sérstaklega valinn til ákveðins verks.
Ríki sem hafa sótt grjót til tunglsins eru ekki útvalinna ekki frekar en þeir sem hengja upp mynd heima hjá sér eða aka bíl sínum í vinnuna.
Tillaga: Þetta er í fyrsta sinn sem Kínverjar ná að gera þetta
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sitjandi forseti, samanstendur af og bólusetning gerist hratt
4.12.2020 | 11:38
Orðlof
Menn
Það var til tíðinda einn morgun er Höskuldur var genginn út að sjá um bæ sinn. Veður var gott. Skein sól og var lítt á loft komin.
Hann heyrði mannamál. Hann gekk þangað til sem lækur féll fyrir túnbrekkunni. Sá hann þar tvo menn og kenndi. Var þar Ólafur son hans og móðir hans.
Laxdæla, 13. kafli.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Hún sagði hann hafa dáið í mótorhjólaslysi en Mannakee dó einmitt í einu slíku árið 1987.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Hvað er hægt að segja um svona stílleysi? Einmitt í einu slíku. Varla er hægt að gera grín að þessu.
Mikilvægur hæfileiki blaðamanns er að kunna að skrifa og segja frá. Þetta tvennt fylgist ekki alltaf að.
Tillaga: Engin tillaga.
2.
Fráfarandi forseti hefur gert allt sitt
Leiðari Fréttablaðsins 28.11.20.
Athugasemd: Mikið var ánægjulegt að leiðarahöfundurinn skyldi ekki kalla forseta Banaríkjanna sitjandi forseta, miklu betra að hann sé fráfarandi eða bara forseti.
Þetta hugsaði ég og hélt áfram að lesa leiðarann. En, úbbs Í næstu línu féll höfundurinn í pyttinn:
Þetta er léttvæg gagnrýni frá sitjandi forseta
Aðeins einn getur verið forseti Bandaríkjanna. Sá sem hefur verið kjörinn er verðandi forseti og er svo þangað til hann tekur formlega við völdum. Hinn er bara forseti eða þá fráfarandi forseti. Þegar sá síðarnefndi hættir er hann fyrrverandi forseti.
Enska orðalagi sitting president á ekki erindi í íslensku.
Tillaga: Engin tillaga.
3.
Í nýjustu fréttum í Argentínu kemur fram að Maradona hafi skollið harkalega á haus sinn viku eftir aðgerðina
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Ja, hérna. Allt getur nú gerst. Án þess að saka blaðamanninn um rugl er nánast útilokað að nokkur maður geti skollið á haus sinn. Enginn, hversu klaufskur sem maður er, getur skollið á höfuð sitt.
Þó getur verið að blaðamaðurinn hafi ætlað að segja að Maradonna hafi dottið á höfuðið. En auðvitað er það of flókið orðalag og illskiljanlegt til að hægt sé að nota í virðulegum fjölmiðli. Á ensku getur verið að orðalagið sé á annan veg en það kemur okkur hérna á Íslandi ekki við.
Tillaga: Í nýjustu fréttum í Argentínu kemur fram að Maradona hafi skollið harkalega á hausinn viku eftir aðgerðina
4.
Hópurinn sem Biden hefur kynnt til leiks fram að þessu samanstendur af reyndu fólki sem
Fréttaskýring á blaðsíðu 10 í viðskiptablaði Morgunblaðsins 2.12.20.
Athugasemd: Oftast er óþarfi að nota sögnina að samanstanda og þá ekki síst hér. Eiginlega man ég ekki eftir neinu dæmi um að sagnorðið henti í frásögn.
Oftast nægir að nota að vera eins og gert er í tillögunni.
Kynna til leiks er ágætt orðalag en því miður ofnotað. Þar að auki eru svona klisjur óþarfar.
Tillaga: Í hópnum sem Biden hefur kynnt er reynt fólk sem
5.
Bólusetning gæti gerst mjög hratt.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Gerist bólusetning eða er hún gerð? Ég velti þessu orðalagi fyrir mér og veit eiginlega ekki hvað skal halda.
Hitt veit ég að viðgerðin á bílnum gerist hvorki hratt eða hægt. Vera kann að bifvélavirkinn geri hratt við bílinn. Meira að segja vont veður gerist ekki hratt, það getur hins vegar versnað hratt.
Hér færi eflaust betur á því að segja að fljótlegt væri að bólusetja eða hægt sé að bólusetja hratt.
Þegar ég er í vafa um orðalag reyni ég að umorða. Þó skal áréttað að stundum skrifar maður hugsunarlaust bölvaða vitleysu sem aðrir eru vísir með að leiðrétta.
Tillaga: Fljótlegt gæti verið að bólusetja þjóðina.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kirkjan tapað jólunum og til urðu glysjól
3.12.2020 | 11:26
Setjum sem svo að hvergi í auglýsingum í fjölmiðlum væri minnst á jól, jólagjafir eða jólasveina og álíka. Allt verði eins og fyrri hluta ársins. Hvernig yrðu þá jólin?
Ég hef að undanförnu verið að velta þessu fyrir mér og þá sérstaklega hversu mikilvægar auglýsingar verslana eru í upplifun fólks vegna jólanna.
Samkvæmt skoðanakönnunum segjast 60% landsmanna játa kristna trú en aðeins 40% telja sig vera trúaða (sjá frettabladid.is). Í þessu felst nokkur þversögn en látum það vera. Líklega heldur um 90% þjóðarinnar upp á jólin. Hvers vegna?
Af skoðanakönnunum og miklu fleiru má draga þá ályktun að jólin séu stórum hluta orðin trúarlaus hátíð. Allir, trúað fólk og trúlaust, lætur berast með straumnum. Þoka jólaauglýsinga umlykur allt samfélagið og fæstir hafa neinar áhyggir því allir leika með og engum leiðist. Þetta er allt svo skemmtilegt og fallegt. Tilhlökkunin er hins vegar endalaus, allt frá því að jólabörnin setja upp jólaljósin á hús sín og tré í september og þangað til jólin byrja.
Hvað yrði nú um jólin ef jólaauglýsingarnar myndu leggjast af? Yrðu þær eins og hver annar frídagur? Mér finnst það líklegt enda eru fjölmörg dæmi sem líta má til samanburðar.
Margt snýst upp í andstæður sínar vegna þess að óskyldir aðilar hafa gert yfirtökuboð í hátíðarhöldin og eignast stóran hluta í þeim. Án þeirra sem auglýsa af krafti verður ekkert úr hátíðarhöldum. Samfélagið byggist á því að fjölmiðlar með auglýsingum mati okkur.
Enginn vill eignast fullveldisdaginn og hann er því flestum gleymdur. Ekkert fjör, ekkert glys, ekkert gaman. Bara þrír krakkar úr Háskóla Íslands sem leggja krans á leiði einhvers kalls sem er löngu dáinn.
Allt annað er með sumardaginn fyrsta, sautjánda júní og verslunarmannahelgina. Í svoleiðis frídögum borgar sig að fjárfesta. Þeir eru sexí. Samt vita nú fæstir neitt um sumardaginn fyrsta hvernig stendur á að þessi dagur var og er merkisdagur. Það er ekki einu sinni komið sumar í lok apríl, dæsa margir og aðrir hlægja.
Sautjándi júní er aðeins skemmtilegur falli hann öðru hvoru megin við helgi. Annars er hann til óþæginda. Verslunarmannahelgin er almennileg enda er frí á mánudegi. Öll helgin er í eigu fjárfesta, kaupahéðna, en verslunarmenn eru löngu gleymdir og þræla þegjandi á eigin frídegi. Ónefndir eru svo tilbúnu hátíðarnar, mesta ferðahelgin í júlí, bæjarhátíðarnar og allt hitt.
Svona gerast nú kaupin á eyrinni. Allir eru undir áhrifavaldi auglýsinga og fjölmiðlarnir eru erindrekar þeirra. Kirkjan missti jólin og raunar líka páskana. Hún glutraði úr höndum sér öðrum dögum sem forðum voru kenndir við atburði eða dýrlinga vegna þess að þessir dagar eru ekkert sexí eða fjölmiðlavænir. Þrátt fyrir nafnið er Þorláksmessa fjarri því að vera trúarlegs eðlis og kirkjan á ekkert í henni.
Ekki veit ég hvað langt er síðan trúin í lífi mínu tók að dofna og er nú minningin ein eftir. Ég bý þó að því að hafa lært ýmislegt gagnlegt í KFUM í gamla daga og man enn eftir Jesús í musterinu en frá því segir í Biblíunni:
Nú fóru páskar Gyðinga í hönd og Jesús hélt upp til Jerúsalem. Þar sá hann í helgidóminum þá er seldu naut, sauði og dúfur og víxlarana sem sátu þar.
Þá gerði hann sér svipu úr köðlum og rak alla út úr helgidóminum, líka sauðina og nautin. Hann steypti niður peningum víxlaranna og hratt um borðum þeirra og við dúfnasalana sagði hann:
Burt með þetta héðan. Gerið ekki hús föður míns að sölubúð.
Já, kaupahéðnarnir voru hraktir út úr musterinu en þeir voru ekki af baki dottnir og hefndu sín grimmilega. Krókur kom á móti bragði og trúin var gerð að sölubúð. Verslanir eru að vísu ekki í kirkjum enda þarf þess ekki. Trúartáknin eru orðin verslunarvara, það er ytri umbúnaðurinn. Innihaldinu var kastað. Og það er ekki einu sinni víst að Jesús eða aðrir í hans ranni viti af þessu. Að minnsta kosti veit kirkjan ekkert af þessu, heldur að allt sé í besta lagi.
Væru ekki jólin lítið skemmtileg án auglýsinga? Yrði kristin trú ekki eins og vindlaus blaðra ef sölubúðin væri skilin frá henni?
Ó, hvað við erum nú heppin að vera vitni að því að jólalögin, sálmarnir og allt það sem stendur í biblíunni sé poppað upp og gert svo skemmtilegt til að við getum haldið upp á glysjól.
Jólin eru hátíð ljóss og friðar ... Nei, hvaða vitleysa. Þau eru vertíð fyrir sölubúðina og þeir sem hana reka geta treyst því að ég borgi. Og sjálft Jesúbarnið er orðið munaðarlaust.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Óséðar myndir, jólakvizz og labba framhjá kistu Maradona
28.11.2020 | 11:12
Orðlof
Jæja
Jæja er til margra hluta nytsamlegt ef svo má að orði komast. Í rauninni er erfitt að festa hendur á merkingu orðsins því hún felst ekki síst í því hvernig það er sagt í áherslum og tónfalli. Þetta gildir gjarnan um upphrópanir þótt fáar þeirra séu líklega jafn fjölhæfar og jæja. Það getur lýst óþolinmæði, undrun, hvatningu til athafna, efasemdum og fleiru.
Gaman er að leika sér að því að setja jæja í mismunandi merkingarsamhengi og heyra hvernig hljómblærinn breytist.
Það er t.d. mikill munur á jæja eftir því hvort sagt er
Jæja, við skulum drífa okkur (hvatning)
eða
Jæja, er það virkilega (efi).
Málsgreinar, Orðaborgarar.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Áður óséðar ferðamyndir af Díönu á Ítalíu.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Hvað er óséð ljósmynd? Líklega á blaðamaðurinn við ljósmynd sem ekki hefur áður verið birt.
Heimildin er hugsanlega vefur Daily Mail og þar segir:
Giancarlo Giammetti shared two never-before-seen photographs of Diana on Instagram
Að gamni leyfði ég fyrirbærinu Google-Translate að þýða þessa setningu. Niðurstaðan var þessi:
Giancarlo Giammetti deildi tveimur ljósmyndum af Díönu sem aldrei hefur áður sést á Instagram
Og viti menn, þýðingin er margfalt betri en fyrirsögnin sem vitnað er til (sögnin að hafa ætti þó að vera þarna í fleirtölu).
Unseen photographs er þýtt sem ljósmyndir sem aldrei hafa áður sést. Tölvuforritið sem margir hæðast að fyrir snautlegar þýðingar á íslensku, stendur sig betur en blaðamaðurinn, þýðir næstum því óaðfinnanlega.
Tillaga: Áður óbirtar ferðamyndir af Díönu á Ítalíu.
2.
Jólakvizz.
Fyrirsögn á tölvupósti frá Olís/Ób.
Athugasemd: Finnst fólki í lagi að skrifa jólakvizz í stað þess að nota íslensku? Nóg er til af íslenskum orðum um spurningaleiki og því óskiljanlegt hvers vegna verið er að troða kvizzi upp á landsmenn.
Pósturinn er Olís/ób ekki til sóma.
Tillaga: Engin tillaga.
3.
11 greindust innanlands í gær
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Jafnvel þeir sem eiga að teljast reyndir blaðamenn byrja setningar á tölustöfum. Slíkt er hvergi gert og alls staðar mælt gegn þessu. Sá sem skrifaði ofangreint er enginn byrjandi og á sér varla afsökun.
Í upphafi fréttarinnar segir:
Tuttugu greindust með kórónuveiruna í gær. 18 hjá Íslenskri erfðagreiningu og 2 hjá Sýkla- og veirufræðideild Háskóla Íslands.
Þetta er illa skrifað. Punktur er settur í miðja málsgrein sem slítur fyrri hlutann úr samhengi við þann seinni. Þarna hefði átt að vera komma. Tölurnar hefðu átt að vera ritaðar með bókstöfum.
Í fréttinni segir:
15. ágúst síðastliðinn slapp stofn, sem hefur fengið ljósbláan litakóða í raðgreiningarferlinum
Hér hefur margoft (ekki ítrekað) verið vakin athygli á tölustafaáráttu blaðamanna.
Enginn góður skrifari byrjar setningu á tölustöfum vegna þess að eðli bókstafa og tölustafa er ólíkt.
Eftir punkt eða í byrjun skrifa á að nota stóran bókstaf, kallaður upphafsstafur. Hvernig er annars upphafsstafur tölustafs? Hann er ekki til. Því er talan annað hvort skrifuð í bókstöfum eða skrifarinn umorðar setninguna.
Þessu til viðbótar má nefna að venjulega eru lægri tölur ritaðar með bókstöfum. Það er að segja vilji skrifarinn gæta að stíl. Hrikalega kjánalegt væri að segja (skrifa) að 1 hafi greinst með veiruna eða byrja setningu á tölustafnum einum
Tillaga: Ellefu greindust innanlands í gær
4.
20 greindust með kórónuveiruna í gær.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Jafnvel Ríkisútvarpið sem þó er með málfarsráðgjafa, klikkar illilega. Þar byrjar fréttamaðurinn fréttina á tölustaf í stað þess að byrja á bókastöfum. Er ekkert mark tekið á málfarsráðgjafanum?
Verstu andskotinn er samt sá að fréttamaðurinn skrifar ágætlega læsilega frétt og því varla hægt að saka hann um byrjendamistök eða viðvaningsskap. Þó má ýmislegt finna að textanum sem er ekki tíundað hér.
Tillaga: Tuttugu greindust með kórónuveiruna í gær.
5.
Þúsundir fá að labba framhjá kistu Maradona og kveðja hann í dag.
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Aumlega er þetta orðað, að heiðra þann sem er látinn með því að labba framhjá kistu hans.
Í fréttinni segir:
og er löng biðröð til að kveðja Maradona.
Í myndatexta segir:
Fólk streymir inn og kastar síðustu kveðjunni á Maradona.
Engin reisn yfir þessum skrifum, enginn stíll. Halda mætti að Maradona væri á flugvellinum á leið úr landi.
Allir þekkja orðalagði að ganga til prestsins. Vissulega er hægt að labba til hans en það er annað mál og óskylt fermingarfræðslunni. Í fornum sögum segir að menn gangi fyrir konung. Á DV myndu blaðamenn orðað það að menn labbi fyrir konung. Ekki mikil reisn yfir því.
Í Egilssögu segir:
Ölvir talaði langt og snjallt, því að hann var orðfær maður. Margir aðrir vinir Ölvis gengu fyrir konung og fluttu þetta mál.
Konungur litaðist um; hann sá, að maður stóð að baki Ölvi og var höfði hærri en aðrir menn og sköllóttur.
"Er þetta hann Skalla-Grímur," sagði konungur, "hinn mikli maður?"
Andstæður þessara tveggja manna eru greinilegar. Annar var sköllóttur og konungurinn hét Haraldur og hafði viðurnefnið hinn hárfagri.
Tillaga: Engin tillaga.
6.
Einkum hefur það orðið áberandi í aðdraganda kosninganna og hækkandi radda sem bentu á aldur hans.
Frá degi til dag á blaðsíðu 22 í Fréttablaðinu 27.11.20.
Athugasemd: Þetta skilst illa. Sá sem hækkar röddina talar hærra en áður. Hvernig er hægt að skilja tilvitnunina á annan veg en þann að þeir sem benda á aldur mannsins hafi aukið raddstyrk sinn?
Þarna er verið að ræða um aldur verðandi forseta Bandaríkjanna. Vera kann að höfundurinn eigi við að þeim hafi fjölgað sem benda á aldur forsetans verðandi. Sé svo skilst orðalagið. Ef ekki er það óskiljanlegt. Illt er að þurfa að giska á það sem blaðamaðurinn skrifar.
Tillaga: Engin tillaga.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)