Kirkjan tapað jólunum og til urðu glysjól

Setjum sem svo að hvergi í auglýsingum í fjölmiðlum væri minnst á jól, jólagjafir eða jólasveina og álíka. Allt verði eins og fyrri hluta ársins. Hvernig yrðu þá jólin?

Ég hef að undanförnu verið að velta þessu fyrir mér og þá sérstaklega hversu „mikilvægar“ auglýsingar verslana eru í upplifun fólks vegna jólanna.

Samkvæmt skoðanakönnunum segjast 60% landsmanna játa kristna trú en aðeins 40% telja sig vera trúaða (sjá frettabladid.is). Í þessu felst nokkur þversögn en látum það vera. Líklega heldur um 90% þjóðarinnar upp á jólin. Hvers vegna? 

Af skoðanakönnunum og miklu fleiru má draga þá ályktun að jólin séu stórum hluta orðin trúarlaus hátíð. Allir, trúað fólk og trúlaust, lætur berast með straumnum. Þoka jólaauglýsinga umlykur allt samfélagið og fæstir hafa neinar áhyggir því allir leika með og engum leiðist. Þetta er allt svo skemmtilegt og fallegt. Tilhlökkunin er hins vegar endalaus, allt frá því að jólabörnin setja upp jólaljósin á hús sín og tré í september og þangað til jólin byrja.

Hvað yrði nú um jólin ef jólaauglýsingarnar myndu leggjast af? Yrðu þær eins og hver annar frídagur? Mér finnst það líklegt enda eru fjölmörg dæmi sem líta má til samanburðar.

Margt snýst upp í andstæður sínar vegna þess að óskyldir aðilar hafa gert yfirtökuboð í hátíðarhöldin og eignast stóran hluta í þeim. Án þeirra sem auglýsa af krafti verður ekkert úr hátíðarhöldum. Samfélagið byggist á því að fjölmiðlar með auglýsingum mati okkur.

Enginn vill eignast fullveldisdaginn og hann er því flestum gleymdur. Ekkert fjör, ekkert glys, ekkert gaman. Bara þrír krakkar úr Háskóla Íslands sem leggja krans á leiði einhvers kalls sem er löngu dáinn.

Allt annað er með sumardaginn fyrsta, sautjánda júní og verslunarmannahelgina. Í svoleiðis frídögum borgar sig að fjárfesta. Þeir eru sexí. Samt vita nú fæstir neitt um sumardaginn fyrsta hvernig stendur á að þessi dagur var og er merkisdagur. „Það er ekki einu sinni komið sumar í lok apríl,“ dæsa margir og aðrir hlægja.

Sautjándi júní er aðeins skemmtilegur falli hann öðru hvoru megin við helgi. Annars er hann til óþæginda. Verslunarmannahelgin er almennileg enda er frí á mánudegi. Öll helgin er í eigu fjárfesta, kaupahéðna, en verslunarmenn eru löngu gleymdir og þræla þegjandi á eigin frídegi. Ónefndir eru svo tilbúnu „hátíðarnar“, mesta ferðahelgin í júlí, bæjarhátíðarnar og allt hitt.

Svona gerast nú kaupin á eyrinni. Allir eru undir áhrifavaldi auglýsinga og fjölmiðlarnir eru erindrekar þeirra. Kirkjan missti jólin og raunar líka páskana. Hún glutraði úr höndum sér öðrum dögum sem forðum voru kenndir við atburði eða dýrlinga vegna þess að þessir dagar eru ekkert sexí eða fjölmiðlavænir. Þrátt fyrir nafnið er Þorláksmessa fjarri því að vera trúarlegs eðlis og kirkjan á ekkert í henni.

Ekki veit ég hvað langt er síðan trúin í lífi mínu tók að dofna og er nú minningin ein eftir. Ég bý þó að því að hafa lært ýmislegt gagnlegt í KFUM í gamla daga og man enn eftir Jesús í musterinu en frá því segir í Biblíunni:

Nú fóru páskar Gyðinga í hönd og Jesús hélt upp til Jerúsalem. Þar sá hann í helgidóminum þá er seldu naut, sauði og dúfur og víxlarana sem sátu þar.

Þá gerði hann sér svipu úr köðlum og rak alla út úr helgidóminum, líka sauðina og nautin. Hann steypti niður peningum víxlaranna og hratt um borðum þeirra og við dúfnasalana sagði hann:

„Burt með þetta héðan. Gerið ekki hús föður míns að sölubúð.“

Já, kaupahéðnarnir voru hraktir út úr musterinu en þeir voru ekki af baki dottnir og hefndu sín grimmilega. Krókur kom á móti bragði og trúin var gerð að sölubúð. Verslanir eru að vísu ekki í kirkjum enda þarf þess ekki. Trúartáknin eru orðin verslunarvara, það er ytri umbúnaðurinn. Innihaldinu var kastað. Og það er ekki einu sinni víst að Jesús eða aðrir í hans ranni viti af þessu. Að minnsta kosti veit kirkjan ekkert af þessu, heldur að allt sé í besta lagi.

Væru ekki jólin lítið skemmtileg án auglýsinga? Yrði kristin trú ekki eins og vindlaus blaðra ef „sölubúðin“ væri skilin frá henni?

Ó, hvað við erum nú heppin að vera vitni að því að jólalögin, sálmarnir og allt það sem stendur í biblíunni sé poppað upp og gert svo skemmtilegt til að við getum haldið upp á glysjól. 

Jólin eru hátíð ljóss og friðar ... Nei, hvaða vitleysa. Þau eru vertíð fyrir sölubúðina og þeir sem hana reka geta treyst því að ég borgi. Og sjálft Jesúbarnið er orðið munaðarlaust.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er rétt hjá þér með glysjólin ekki var hægt annað en brosa að forráðamanni verslunarinnar er taldi að með takmörkuðum mannfjölda í verslunum fyrir jólin vegna covidveirunnar væri verslunuin á horriminni,í hans huga skipti velferð og líðan annarra litlu máli.Mín trú er að Jesús hafi verið fæddur af Maríu fyrir tilverknað Jósefs sem karlmanns og Jesús hafi verið mjög þroskuð sál sem kom til jarðar að reyna að fá mannkyn þess tíma að átta sig á að dauðinn væri einungis fæðing inní annan heim framhaldslífsins.Kristur mun hafa  í mínum huga   verið það sem menn kallast í dag skyggn, þó svo að kirkjan vilji ekki halda því fram og var krossfestur vegna ótta þáverandi valdhafa við að hann gæti hugsanalega hrakið þá frá völdum vegna vinsælda hans,hjá þeim ríkti ótti við valdamissi.Því miður ræður of mikið ríkjum sölu og markaðsjól ríkjum á meðal trúgjarnra hlustenda auglýsinganna,sem höfða ætíð til þess að þú getir ekki verið án þessa hlutarins eða hins og verðir að eignast hann.Trúgirnin hjá hverjum og einum á glysið ræður ferðinni.

Sigurgeir Árnason (IP-tala skráð) 3.12.2020 kl. 17:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband