Sátt við aðgerðir, gríma sem er vatnshellt og framkvæma aðgerð

Orðlof

Ákvæðisorð

Á undanförnum árum hef ég iðulega rekist á setningar eins og „Gætu verið ár í að klöppin hrynji“, „Æðislegt rjómapasta á mínútum“ og ýmsar fleiri í svipuðum dúr. 

Þarna eru orð sem vísa til tíma, ár og mínútur, notuð án nokkurs ákvæðisorðs. Það er ekki í samræmi við mína málkennd – ég get bara notað orðin svona í eintölu, ekki fleirtölu. 

Þegar um er að ræða orð í fleirtölu sem tákna tíma þarf yfirleitt að fylgja þeim eitthvert ákvæðisorð – töluorð, lýsingarorð eða óákveðið fornafn – í setningum af þessu tagi. Þetta er hins vegar eðlileg setningagerð í ensku.

Eiríkur Rögnvaldsson, sjá ítarlegar á vefsíðu hans.

Ákvæðisorð: Orð sem stendur með öðru orði og kveður nánar á um einkenni þess sem það á við eða segir nánar til um við hvað er átt. Málfarsbankinn.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Doktor Helga Kristjánsdóttir hefur hlotið framgang til prófessorsstöðu …

Frétt á blaðsíðu 16 í Morgunblaðinu 5.12.20.                                    

Athugasemd: Hlaut konan prófessorsstöðuna eða ekki? Þetta með framgang skilst illa. Líklega eru þeir sem annast ráðninguna enn að bræða það með sér hvort hún fái starfið.

Í orðabókinni minni segir um orðið framgangur:

Framkvæmd, það að koma e-u fram; framganga.

Tilvitnunin í fréttina verður ekki skýrari með þessu, þvert á móti. Þá verður það fyrir manni að gúggla orðasambandið og þá kemur í ljós að það er nokkuð algengt í þessari merkingu. Af þessu leiðir að leikmaðurinn getur varla fullyrt að það sé rangt notað.

Í skrá um orðasambönd eru gefin tíu dæmi:

    1. (ekki framgang
    2. <málinu> framgang
    3. framgangur jöklanna 
    4. hafa framgang (með <bókina>)
    5. <málið, breytingartillagan, gjaforðið> fær (ekki) framgang
    6. <málið> hefur (<engan>) framgang
    7. <málið> hefur/hafði hindrunarlausan framgang
    8. vera fljótstígur í framgangi
    9. vera luralegur í framgangi
    10. vera þóttalegur í framgangi

Ekkert af þessum hjálpar fáfróðum lesanda að í fréttina. 

Loks má geta þess að framgangur er nafnorð. Miklu betur fer á því að nota einfaldara orðalag með sagnorði, það er að segja hafi konan verið skipuð sem prófessor.

Tillaga: Doktor Helga Kristjánsdóttir hefur verið skipuð í prófessorsstöðu …

2.

„Það sést á könnunum Gallup að það hefur verið mikil sátt við þessar aðgerðir

Frétt ruv.is.                                     

Athugasemd: Fer ekki betur að segja að sátt sé um aðgerðirnar?

Tillaga: Það sést á könnunum Gallup að mikil sátt var um þessar aðgerðirnar

3.

„… [öndunargríma] sem hleypir vel út hita en er samt sem áður vatnshellt.“

Auglýsing á blaðsíðu 9 í Morgunblaðinu 7.12.20.                                     

Athugasemd: Öndunargríma er nafnorð í kvenkyni og því er hún vatnsheld. Orðið vatnsheldur er myndað með nafnorðinu vatn og sögninni að halda, það sem heldur vatni.

Í auglýsingunni er textinn svona óstyttur:

Airpop Active er fjölnota öndunargríma, ytri skelin er úr mjúku örtrefjaefni (micro- fiber) sem hleypir vel út hita en er samt sem áður vatnshellt.

Oft er það svo að starfsmenn fyrirtækis hanna auglýsingu og senda á fjölmiðil sem setur hana upp eins og kallað er. Umbrotsmenn á fjölmiðlum eru yfirleitt mjög vandvirkir og þessi auglýsing er ágætt dæmi um það. Þó hefur gleymst lesa textann yfir. Gera má athugasemdir við ýmislegt annað.

Í auglýsingunni er til dæmis sagt að gríman „sitji vel á andlitinu“. Ekki gott orðalag og sé það gúgglað kemur í ljós að það er allt annars eðlis.

Tillaga: … [öndunargríma] sem hleypir vel út hita en er samt sem áður vatnsheld.

4.

„Þetta er í fyrsta sinn sem Kínverjar ná að framkvæma slíka aðgerð …“

Frétt á blaðsíðu 13 í Morgunblaðinu 7.12.20.                                     

Athugasemd: Orðalagið „framkvæma aðgerð“ er nafnorðahnoð og merkir einfaldlega að gera. Ótrúlegt að reyndur blaðamaður skuli skrifa svona.

Í fréttinni segir:

Þeir stefna þó enn lengra, og má segja að leiðangurinn nú hafi einungis verið áfangastaður í kapphlaupi stórveldanna og fleiri um að senda fyrsta manninn á yfirborð Mars.

Enn er þetta hnoð. „Senda fyrsta manninn“. Átt er við að senda mann eða menn til Mars.

Óhjákvæmilega munu Marsfarar lenda á yfirborðinu, annars staðar verður aldrei lent. Er blaðamaðurinn að þýða enska orðalagið „landing on the surface of March“? Sé svo nægir einfaldlega að orða það þannig að lent verði á Mars.

Í fréttinni segir:

Gangi allt að óskum munu Kínverjar komast í útvalinna hóp þjóða, sem hafa náð að sækja grjót frá tunglinu …

Sá sem er útvalinn hefur verið sérstaklega valinn til ákveðins verks.

Ríki sem hafa sótt grjót til tunglsins eru ekki „útvalinna“ ekki frekar en þeir sem hengja upp mynd heima hjá sér eða aka bíl sínum í vinnuna.

Tillaga: Þetta er í fyrsta sinn sem Kínverjar ná að gera þetta


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband