Svavar Gestsson

0J2B3075 (3)Hann er dáinn hann Svavar Gestsson. Þingmaður, ráðherra og flokksformaður. Ótrúlegt. Einn harðasti byltingarsinninn í Alþýðubandalaginu og Vinstri grænum.

Ég var lítilsháttar málkunnugur honum. Er það enn í fersku minni er ég tók viðtal við hann í síma er ég var nýbyrjaður sem blaðamaður á Vísi og gerði hann mér mjög erfitt fyrir. Hann var þaulvanur blaðamaður og pólitíkus í þokkabót og kannaðist við mig. Átti ekki neitt í þaulæfðan þrætubókarmann sem þarna tugtaði mig til, líklega verðskuldað.

Ég kunni þó vel að meta hann, jafnvel þó hann væri pólitískur andstæðingur. Fór á kappræðufundi þar sem hann tvinnaði saman skammir um íhaldið, auðvaldið, kapítalistana og allt „vonda fólkið“ en fékk svo drjúga yfirhalningu sjálfur fyrir málflutning sinn, sósíalistinn, kommúnistinn og byltingarmaðurinn.

780118 Þjóðv KappræðufundurKappræðan

Ég man sérstaklega eftir miklum kappræðufundinum sem, haldinn var í Sigtúni 17. janúar 1978. Húsið var troðfullt af Allaböllum og Heimdellingum. Við hinir síðarnefndu röðuðum okkur á fremstu bekki og létum óspart í okkur heyra. Svo pirraðir voru kommarnir á þátttöku okkar og frammíköllum að í Þjóðviljanum vorum við kallaðir öskurkór Heimdallar. Við höfðum ekkert á móti því.

Ræðumenn að okkar hálfu voru Davíð Oddsson, Friðrik Sophusson og Brynjólfur Bjarnason. Á móti voru Svavar Gestsson, Sigurður Magnússon og Sigurður G. Tómasson.

Þess má geta að Þjóðviljinn sagði í fyrirsögn daginn eftir fundinn:

Málstaður sósíalismans er í sókn.

Og í Mogganum var fyrirsögnin:

Sósíalisminn er orðinn eins og gamalt nátttröll.

Hrunadans byltingarmanna

Fylgi Alþýðubandalagsins frá árinu 1974 var nokkuð mikið meðan fáir flokkar buðu fram en fór samt dvínandi eftir því sem leið á.

Í kosningunum 1999 var skipt um nafn og númer og flokkurinn kallaðist eftir það Vinstrihreyfingin grænt framboð. Þá var fylgið aðeins tæp 10% og hafði aldrei í sögu hinna byltingarsinnuðu baráttumanna verið lægra. Eftir það náðu þeir vopnum sínum og komust í 21,7% fylgi árið 2009 og nutu þess að vera gagnrýnendur hrunsins og handhafar allra lausna.

Fylgi AB og VGFjórum árum síðar var allt hrunið, kjósendur refsuðu Vg sem fékk þá aðeins rétt tæp 11% fylgi. Lausnirnar gengu ekki upp, reyndust vera tálsýn. Vinstri sinnuðu hugsjónamennirnir misstu alla tiltrú kjósenda sem höfnuðu bæði Vg og Samfylkingunni.

Sósíaldemókratían

Með nýjum og hófsömum formanni rétti Vg úr kútnum og fékk aftur traust kjósenda og þá var mynduð ríkisstjórn með höfuðóvininum, Sjálfstæðisflokknum. „Sögulegar sættir“ mætti það kallast með tilvísun í pólitík fyrri ára. Þróunin var sem sagt frá byltingu til sósíaldemókratíunnar. Öll helstu baráttumálin hurfu og urðu að einhvers konar jafnaðarmennsku. Ísland er enn í Nató og tekur virkan þátt í starfinu, herinn var ekki rekinn úr landi. Rauða fánanum er flaggað á hátíðisdögum og Nallinn aðeins sunginn til skemmtunar.

Þannig tengist Svavar Gestsson þróun stjórnmálanna frá því hann steig þar á svið sem ritstjóri Þjóðviljans og varð svo þingmaður og ráðherra. Hrunadansinn endaði með því að hinir hófsömu tóku við af byltingarliðinu. Róttæku sósíalistarnir hurfu úr pólitíkinni og sósíaldemókratarnir tóku við. Þetta hefði aldrei getað gerst meðan naglar eins og Brynjólfur Bjarnason, Einar Olgeirsson, Lúðvík Jósefsson og ... Svavar Gestsson voru við stýrið. Greinilegt er að innan Vg er „sósíalisminn er orðinn eins og gamalt nátttröll“ svo vitnað sé aftur í fyrirsögn Morgunblaðsins frá því 1978.

Ég minnist Svavars Gestssonar sem mikils vinstrimanns, baráttumanns og byltingarmanns. Þegar ég komst til vits og ára var hann orðinn ritstjóri Þjóðviljans, síðar þingmaður og svo ráðherra í nokkur ár. Hann var einn af þeim sem okkur Heimdellingum þótti vænst um að gera at í. Og víst var að fáir voru jafningjar hans í rökræðum.

Ró og friður

Svavar Gestsson var í föðurætt Dalmaður. Þangað á ég líka ættir að rekja en við vorum ekki mikið skyldir, í sjöunda lið samkvæmt Íslendingabók. Raunar báðir af svokallaðri Ormsætt (Ormur Sigurðsson 1748-1834).

Faðir Svavars, Gestur Zophanías Sveinsson (1920-1981) var fæddur í Stóra-Galtardal á Fellsströnd. Hann var skírður nafni ömmubróður míns sem hét Gestur Zophanías, sonur Magnúsar Friðrikssonar og Soffíu Gestsdóttur á Staðarfelli. Þann 2. október 1920 drukknaði Gestur Zophanías Magnússon ásamt þremur öðrum við Hjalleyjar á Fellsströnd. Daginn eftir fæddist faðir Svavars.

Móðir hans hét Guðrún Valdimarsdóttir og var frá Guðnabakka í Stafholtstungum í Borgarfirði og þar fæddist Svavar.

Stundum hittumst við á förnum vegi. „Nei, við erum ekki mikið skyldir,“ sagði hann, og sagði sögur úr Dölum.

Á efri árum flutti Svavar í Dalina, bjó á Króksfjarðarnesi. Þaðan sér vítt. Útsýnið er fagurt, yfir Króksfjörð til Háuborgar, yfir Berufjörð til Reykhóla og Reykjanesfjalls. Og út um allar hinar fjölmörgu eyjar þar fyrir utan og Dalina og ef til vill sést til Snæfellsjökuls í góðu skyggni. Hann skrifaði mikið, var ritstjóri Breiðfirðings og vildi veg Dalanna sem mestan. Ég sé dálítið eftir að hafa ekki kynnst fræðimanninum Svavari Gestsyni. Held að við hefðum átt ágætt skap saman.

Myndina sem hér fylgir tók ég í um miðjan október 2017 skammt norðan Króksfjarðarness. Þá var orðið kvöldsett, skýjafarið drungalegt en geislar sólarinnar náðu í gegn af og til. Þetta var fögur sjón.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svavar heitinn sat reyndar á þingi fyrir Samfylkinguna síðustu mánuðina en ekki VG.

Grímur Sæmundsson (IP-tala skráð) 19.1.2021 kl. 15:04

2 identicon

Gott innleg hjá Sigurði.  En það er ekki alveg rétt að á efri árum hafi Svavar flutt í Dalina með því að flytja í Reykhólahreppinn í Króksfjarðarnes.  Króksfjarðarnes tilheyrir Reykhólahreppi hinum nýja (áður Geiradalshreppi) í Austur-Barðastrandarsýslu. Með því að velja sér bústað (í landi Tinda) vestan Gilsfjarðar yfirgaf hann Dalina.

Einar Örn Thorlacius (IP-tala skráð) 20.1.2021 kl. 09:35

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Þakka þér, Einar. Veit betur. 

Einar er fyrrum sveitarstjóri Reykhólahrepps og margfróður maður og vel kunnugur á þessum slóðum.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 20.1.2021 kl. 09:50

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Bestu þakkir, Grímur. Þingflokkar Alþýðubandalags, Alþýðuflokks og Kvennalista sameinuðust árið 1999 undir nafni kosningabandalagsins Samfylkingin. Í febrúar það ár var Vinstrihreyfingin grænt framboð formlega stofnuð og áttu þar stærstan hlut að máli þingmennirnir Steingrímur J. Sigfússon, Ögmundur Jónasson og Hjörleifur Guttormsson sem aldrei sameinuðust kosningabandalanginu Samfylkingin. Svavar Gestsson gekk síðar í VG.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 20.1.2021 kl. 10:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband