Gleðileg jól til ykkar og vindur mun minnka

Orðlof

Ær

Orðið á er eitt af stystu orðum í íslensku. Eigi að síður leynir þessi orðmynd á sér því hún er nokkuð margföld í roðinu. Hún er nefnilega ýmist forsetning eins og þegar sagt er 

„Leggðu bókina á borðið“ 

eða hún getur verið nafnorðið á ’vatnsfall, fljót’, t.d. þegar sagt er 

„Það rennur straumlygn á eftir miðjum dalnum“. 

Í setningunni „Ég á bókina“ er þetta aftur á móti ein af beygingarmyndum sagnarinnar eiga og þegar sagt er 

„Drengurinn eignaðist á með tveimur lömbum“ 

er enn annað orð á ferðinni, nafnorðið ær. Fólk hefur leikið sér með þessa margræðni og ein útkoman úr þeim orðaleikjum er setningin 

„Trausti á Á á á“.

Orðaborgarar.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Loftmynd af Seyðisfirði eins og fjörðurinn leit út í gær. Fönnin var mörgum Seyðfirðingum kærkomin sjón.“

Myndatexti á blaðsíðu 4 í Morgunblaðinu 22.12.20.                                      

Athugasemd: Þetta er innihaldslítill texti og saminn án hugsunar. Fönn er vissulega haft um snjó. Venjan er samt sem áður sú að orðið er sjaldnast haft um annað en mikinn snjó, snjó sem er í sköflum eða þann sem myndar samfellda breiðu þar sem varla sést á dökkan díl. Talað er um fannkomu þegar mikið snjóar.

Á myndinni af Seyðisfirði sést að þar hefur gránað, föl er á jörðu. Engin er fönnin. 

Myndin er greinilega tekin úr lofti en til þess að lesendur ruglist nú ekki er tekið fram að myndin sé „loftmynd“. Halda Moggamenn að það þurfi að stafa allt ofan í lesendur? 

Og af hverju er snjórinn „kærkominn sjón“? Um það segir ekkert í fréttinni.

Til eru um fimmtíu og átta orð á íslensku yfir snjó og snjókomu. Sjá hér.

Í gamla daga þegar ég var að byrja í blaðamennsku á Vísi las Elías Snæland, ritstjórnarfulltrúi, yfir allar fréttir, gerði athugasemdir og sendi jafnvel reynda blaðamenn til baka og sagði þeim að lagfæra. Af leiðbeiningum læra menn.

Tillaga: Engin tillaga.

2.

„Íslenskur bógur í Færeyjum ári yngri eftir Spánarferð.“

Fyrirsögn á ruv.is.                                       

Athugasemd: Reglulega góð fyrirsögn sem lætur ekki mikið yfir sér en þversögnin vekur athygli lesandans. Þar að auki er fréttin bara vel skrifuð.

Tillaga: Engin tillaga.

3.

„Gleðileg jól til ykkar.“

Algeng kveðja um jól, sérstaklega á Facebook.                                       

Athugasemd: Forsetningunni til er hér algjörlega ofaukið. Gleðileg jól er kveðja sem dugar. Segjum frekar:

Gleðileg jól.

Eða:

Óskum ykkur gleðilegra jóla.

Kveðjur eru þess eðlis að þær rata yfirleitt til móttakenda. Aðrir misskilja þær ekki. Við heilsumst og kveðjumst með því að segja gleðileg jól.

Tillaga: Óska ykkur gleðilegra jóla.

4.

„Vindur mun minnka síðdegis“

Frétt kl. 12:20 í ríkisútvarpinu 27.12.20.                                       

Athugasemd: Orð geta týnst því að þau eru ekki notuð. Þannig er um sögnina að lægja sem er ákaflega fallegt orð sem hægt er að nota á ýmsan hátt annan en að vind lægi. Stundum þarf að lægja rostann í einhverjum eða lægja æsinginn.

Lægja getur merkt samkvæmt orðabókinni að kyrra, stilla, slota, linna, friða, hjaðna, spekja, sefa og svo framvegis.

Og svo er það nafnorðin: Lægi. Skipið leitar lægis. Nafnorðið lega er náskylt: Báturinn er á legunni.

Tillaga: Vindinn mun lægja síðdegis.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband