Sitjandi forseti, samanstendur af og bólusetning gerist hratt

Orðlof

Menn

Það var til tíðinda einn morgun er Höskuldur var genginn út að sjá um bæ sinn. Veður var gott. Skein sól og var lítt á loft komin. 

Hann heyrði mannamál. Hann gekk þangað til sem lækur féll fyrir túnbrekkunni. Sá hann þar tvo menn og kenndi. Var þar Ólafur son hans og móðir hans.

Laxdæla, 13. kafli.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Hún sagði hann hafa dáið í mótorhjóla­slysi en Mannakee dó einmitt í einu slíku árið 1987.“

Frétt á mbl.is.                                    

Athugasemd: Hvað er hægt að segja um svona stílleysi? „Einmitt í einu slíku.“ Varla er hægt að gera grín að þessu.

Mikilvægur hæfileiki blaðamanns er að kunna að skrifa og segja frá. Þetta tvennt fylgist ekki alltaf að.

Tillaga: Engin tillaga.

2.

Fráfarandi forseti hefur gert allt sitt …“

Leiðari Fréttablaðsins 28.11.20.                                    

Athugasemd: Mikið var ánægjulegt að leiðarahöfundurinn skyldi ekki kalla forseta Banaríkjanna „sitjandi forseta“, miklu betra að hann sé fráfarandi eða bara forseti.

Þetta hugsaði ég og hélt áfram að lesa leiðarann. En, úbbs … Í næstu línu féll höfundurinn í pyttinn:

Þetta er léttvæg gagnrýni frá sitjandi forseta …

Aðeins einn getur verið forseti Bandaríkjanna. Sá sem hefur verið kjörinn er verðandi forseti og er svo þangað til hann tekur formlega við völdum. Hinn er „bara“ forseti eða þá fráfarandi forseti. Þegar sá síðarnefndi hættir er hann fyrrverandi forseti.

Enska orðalagi „sitting president“ á ekki erindi í íslensku.

Tillaga: Engin tillaga.

3.

„Í nýjustu fréttum í Argentínu kemur fram að Maradona hafi skollið harkalega á haus sinn viku eftir aðgerðina …“

Frétt á dv.is.                                    

Athugasemd: Ja, hérna. Allt getur nú gerst. Án þess að saka blaðamanninn um rugl er nánast útilokað að nokkur maður geti „skollið á haus sinn“. Enginn, hversu klaufskur sem maður er, getur skollið á höfuð sitt.

Þó getur verið að blaðamaðurinn hafi ætlað að segja að Maradonna hafi dottið á höfuðið. En auðvitað er það of flókið orðalag og illskiljanlegt til að hægt sé að nota í virðulegum fjölmiðli. Á ensku getur verið að orðalagið sé á annan veg en það kemur okkur hérna á Íslandi ekki við. 

TillagaÍ nýjustu fréttum í Argentínu kemur fram að Maradona hafi skollið harkalega á hausinn viku eftir aðgerðina …

4.

„Hópurinn sem Biden hefur kynnt til leiks fram að þessu samanstendur af reyndu fólki sem …“

Fréttaskýring á blaðsíðu 10 í viðskiptablaði Morgunblaðsins 2.12.20.                                   

Athugasemd: Oftast er óþarfi að nota sögnina að samanstanda og þá ekki síst hér. Eiginlega man ég ekki eftir neinu dæmi um að sagnorðið henti í frásögn.

Oftast nægir að nota að vera eins og gert er í tillögunni.

Kynna til leiks er ágætt orðalag en því miður ofnotað. Þar að auki eru svona klisjur óþarfar.

Tillaga: Í hópnum sem Biden hefur kynnt er reynt fólk sem …

5.

„Bólu­setn­ing gæti gerst mjög hratt.“

Fyrirsögn á mbl.is.                                  

Athugasemd: Gerist bólusetning eða er hún gerð? Ég velti þessu orðalagi fyrir mér og veit eiginlega ekki hvað skal halda. 

Hitt veit ég að viðgerðin á bílnum „gerist“ hvorki hratt eða hægt. Vera kann að bifvélavirkinn geri hratt við bílinn. Meira að segja vont veður „gerist“  ekki hratt, það getur hins vegar versnað hratt.

Hér færi eflaust betur á því að segja að fljótlegt væri að bólusetja eða hægt sé að bólusetja hratt.

Þegar ég er í vafa um orðalag reyni ég að umorða. Þó skal áréttað að stundum skrifar maður hugsunarlaust bölvaða vitleysu sem aðrir eru vísir með að leiðrétta.

Tillaga: Fljótlegt gæti verið að bólusetja þjóðina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband