Bólusetja við veiru, manneskja ársins og vélarvana skip

Orðlof

Salíbuna

Orðið buna merkir oftast ‘samfelldur straumur af vatni eða vökva (t.d. úr stút á katli eða kaffikönnu)’. 

En það er líka talað um að „renna sér í einni bunu“ á sleða, skíðum eða hjóli þegar farið er niður brekku án þess að stoppa. Þá er líka hægt að „fá sér salíbunu“ á sleða niður brekkuna eða jafnvel í strætó niður í bæ. 

Fyrri liðurinn í orðinu salíbuna á rót sína að rekja til danska lýsingarorðsins salig ‘sæll’ sem er líka notað til áherslu. Það merkir því bókstaflega ‘sæluferð, áhyggjulaus ferð’ enda hefur salíbunan yfirleitt ekki annan tilgang en skemmtunina.

Orðaborgarar.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Bólusetning hefst við veiru á morgun.

Frétt á blaðsíðu 4 í Morgunblaðinu 28.12.20.                                     

Athugasemd: Er ekki venjan að orða það svo að bólusett sé gegn sjúkdómum? Vera má að hvort tveggja sé jafngilt. Í þessu tilviki hefði veiran mátt vera með ákveðnum greini því hér er verið að reyna að vinna á einni tiltekinni. Til eru milljónir veira, sumar skaðlegar en aðrar gagnlegar. Ég vísa hér til ritsins „Lifað með veirum“ sem er mjög fróðlegt.

Nokkur breyting hefur orðið á málinu. Hér áður fyrr var farið til að láta bólusetja sig eða láta sprauta sig. Nú er farið í sprautu eða sprauta tekin. Þetta skilja allir og er viðurkennt sem „rétt“ mál.

Ekki þarf alltaf að nota sama orðalagið, „að fara í sprautu“, óhætt er að breyta til. Þetta er á ýmsa vegu í fréttinni. Fólk hefur fengið boð í bólusetningu og verður bólusett.

Í fréttinni segir og er haft eftir viðmælanda:

Að taka fyrri sprautuna á íbúa á hjúkrunarheimilunum, sem taldir hafa verið einn allra viðkvæmasti hópurinn, tekur okkur ekki nema einn til tvo daga. 

Þetta er talmál, frekar óskipulegt. Blaðamennirnir sem skrifuðu fréttina hefðu átt að umorða þessa málsgrein, til dæmis á þennan veg:

Ekki tekur nema einn til tvo daga að gefa íbúum á hjúkrunarheimilum sprautuna. Þeir er einn af viðkvæmustu hópunum.

Ýmislegt má betur fara í orðalagi fréttarinnar.

Tillaga: Bólusetning gegn veirunni hefst á morgun 

2.

„Hlustendur Rásar 2 og lesendur RÚV.is velja nú manneskju ársins í 32. skiptið.“

Frétt á ruv.is.                                      

Athugasemd: Hér áður fyrr var valinn maður ársins. Hvað breyttist? 

Tegundarheitið maður á við konur og karla. Það er beinlínis hallærislegt að velja „manneskju“ ársins og fjarri hefðum. Í mörg ár völdu fjölmiðlar mann ársins og þannig var það orðað þangað fólk byrjaði að ritskoða sjálft sig án mikillar þekkingar.

Fyrir nokkrum dögum var hér birt tilvitnun í Laxdælu. Þar segir frá Höskuldi Dala-Kollssyni sem heyrði á tala manna og reyndust þeir vera Melkorka og Ólafur sonur þeirra. Þarf frekar vitnanna við?

Tillaga: Hlustendur Rásar 2 og lesendur RÚV.is velja nú mann ársins í 32. skiptið.

3.

„Þór sækir vélarvana Lagarfoss.“

Frétt á ruv.is.                                      

Athugasemd: Þegar vél í skipi bilar úti á rúmsjó er það sagt vélarvana. Í öllum fjölmiðlum er Lagarfoss sagður vélarvana, hvergi er það orðað svo að vél skipsins sé biluð. 

Í Málfarsbankanum segir:

Orðið vél(ar)vana merkir afllaus, með bilaða vél og er nær einvörðungu notað um báta með vélarbilun á hafi úti. 

Amast hefur verið við þessu orði á þeirri forsendu að orðið vélarvana geti eingöngu merkt vélarlaus, sbr. önnur orð sem mynduð eru eins: svefnvana, skilningsvana, févana sem merkja: svefnlaus, skilningslaus og félaus. 

Þar sem orðið vélarvana er aldrei notað í merkingunni vélarlaus er merking orðsins að jafnaði ljós í samhenginu.

Lýsingarorðið vélarvana er ágætt en rýr orðaforði fréttaskrifara er til mikils skaða fyrir íslenskt mál. Þetta síðasta er á þó ekki við fréttamanninn sem skrifaði fréttina.

Í fréttum í dag eða í gær heyrði ég orðið aflvana sem er miklu betra og lýsir ástandi Lagarfoss. Véli skipsins er biluð og hann því aflvana enda vantar ekki vélina.

Tillaga: Þór sækir Lagarfoss sem aflvana.

4.

„… til að geta afhent athafnakonunni Lilju Pálmadóttur timburkirkju frá árinu 1871 sem er staðsett á jörð Lilju, Hofi á Höfðaströnd.“

Frétt á ruv.is.                                      

Athugasemd: Einu orði er ofaukið í fréttinni. Án þess verður málsgreinin miklu betri. Í Málfarsbankanum segir og hér hefur áður verið vitnað til þessa:

Orðið staðsettur er oft óþarft. Bíllinn var staðsettur við pósthúsið merkir: bíllinn var við pósthúsið.

Ekki margir fréttaskrifarar átta sig á þessu.

Tillaga: til að geta afhent athafnakonunni Lilju Pálmadóttur timburkirkju frá árinu 1871 sem er á jörð Lilju, Hofi á Höfðaströnd.

5.

„Og Nigel Farage, sem ekki kallar alltaf Boris Johnson ömmu sína, sem hann hefur aldrei verið, var sammála þessari jákvæðu niðurstöðu Cash.“

Leiðari Morgunblaðsins 30.12.20.                                     

Athugasemd: Nokkuð skemmtileg stílþrif í leiðaranum. Alltaf gaman að lesa þegar þannig er. 

Í leiðaranum segir:

Sturgeon heimastjórnarráðherra Skota samþykkir ekki viðskiptasamninginn. Þingflokksformaður hennar segir að samningurinn tryggi ekki að Bretar verði áfram í ESB! Getur það verið? 

Og þarna hneggjaði ég áramótahlátri.

Tillaga: Engin tillaga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband