Ákall, go crazy og hrópa framíköll

Orðlof

Gustuk

Stundum er sagt að ekki sé gustuk að gera þetta eða hitt ef það þykir ekki nema sjálfsagt og líka er talað um gustukaverk í svipaðri merkingu. Orðið gustuk er orðið til við samruna úr orðasambandinu „guðs þökk“ og upphaflega var þetta haft um miskunnarverk eða góðverk við náungann.

Orðborgarar

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Það er al­veg ljóst að það er tjón.“

Fyrirsögn á mbl.is.                                      

Athugasemd: Fer ekki betur á því að segja að það hafi orðið tjón? „Nútíðarvæðing“ ummæla er dálítið andkringisleg (vissara fyrir lesendur að fletta þessu orði upp í orðabók).

TillagaLjóst að það varð tjón.

2.

„Veitur sendu frá sér ákall til notenda heitavatns í upphafi mánaðar og fóru þess á leit að þeir færu sparlega með vatnið vegna þess að yfirvofandi væri kuldakast.“

Leiðari Morgunblaðsins 17. desember 2020.                                     

Athugasemd: Ákall þýðir bæn eða ávarp. Í sjálfu sér getur hið seinna passað í þessu tilviki. Þó er hér ein draugur sem þarf að glíma við og það er orðlagið „að kalla eftir“ einhverju sem er bein þýðing úr ensku; „to call for“.

Óvönduðum blaðamönnum fannst enska orðalagið svo ákaflega líkt því íslenska að þeir tóku það umhugsunarlaust upp. Og nú hefur það breiðst út í alla fjölmiðla og enginn segir neitt.

Sagt er að menn „kalli eftir“ einhverju og síðan sé það nefnt „ákall“.

Jæja. Hvað merkir svo orðalagið „að kalla eftir“. Í sannleika sagt er þetta afar máttlaust og óskýrt orðalag. 

Í sögunni um Bakkabræður segir:

„Gísli-Eiríkur-Helgi, faðir vor kallar kútinn …“ 

Vera má að blaðamenn telji að pabbinn hafi „kallað eftir“ kútnum sem er rétt. En ekki að það hafi verið „ákall“. 

Alsendis óljóst er hvað Veitur hafi átt við með „ákalli“. Miklu nær er að segja að fyrirtækið hafi óskað eftir því að notendur færu sparlega með heita vatnið eða krefðist þess.

Hvað merkir til dæmis eftirfarandi (fundið með gúggli):

  • Kalla eftir ábyrgð stjórnvalda [krefjast?]
  • Kalla eftir upplýsingum [óska eftir, heimta, biðja um?]
  • Kalla eftir samræmi í stuðningi við fjölskyldur [krefjast, óska eftir?]
  • Kalla eftir afsögn ráðherra [krefjast, óska eftir?]
  • Kalla eftir íbúafundi [óska eftir, biðja um, heimta?].
  • Kalla eftir umsóknum um styrki [hvetja til að sækja um styrk?].
  • Kalla eftir greinum í tímarit [óska eftir, biðja um?]
  • Kalla eftir meiri samvinnu sveitarfélaga og ríkis [óska eftir, heimta, krefjast?]

Allt er þetta afar óljóst. Drottinn minn dýri, ekkert af þessu er ákall (skildist þetta?). Svo má ef til vill velta því fyrir sér hvort baráttan gegn „kalla eftir“ og „ákall“ sé ekki löngu töpuð.

TillagaEngin tillaga.

3.

„Go crazy, fimmtudags-mánudags.“

Auglýsing verslunarinnar Ilva á baksíðu Morgunblaðsins 17.12.20.                                

Athugasemd: Held að stjórnendur verslunarinnar hafi misst vitið (á ensku „gone crazy“). Hvers vegna er aðalfyrirsögnin á ensku en að öðru leiti á íslensku? Geta forráðamenn verslunarinnar ekki haldið sig við annað hvort tungumálið?

Tillaga: Engin tillaga

4.

„Þá hrópaði Rósa og reyndi ít­rekuð framíköll meðan Áslaug gerði til­raun til að svara fyr­ir­spurn henn­ar.“

Frétt á mbl.is.                                      

Athugasemd: Fréttin virðist fljótfærnislega skrifuð. Í niðurlagi fréttarinnar er ofangreind málsgrein endurtekin að hluta, sama orðaval. Blaðamaðurinn hefði átt að lesa fréttina yfir fyrir birtingu.

Hvað á blaðamaðurinn við með þessu orðalagi að hrópa og reyna frammíköll? Þegar Rósa hrópaði var hún ekki kalla fram í fyrir ræðumanni? 

Eitt af uppáhaldsorðum blaðamanna er „ítrekað“, kemur oft, margoft, margsinnis, tíðum fyrir í fréttum fjölmiðla og er ekki til eftirbreytni,

Tillaga: Þá hrópaði Rósa og kallaði margoft fram í fyrir Áslaugu meðan hún reyndi að svara fyr­ir­spurninni. 

5.

„„Reynslu­mikl­ir“ og „þol­in­móðir“ á Hafn­ar­torgi“

Fyrirsögn á mbl.is.                                      

Athugasemd: Sá sem er „reynslumikill“ er reyndur. Það dugar ágætlega og óþarfi að bæta við það „mikill“. Hins vegar eru margir þannig að þeir búa að mikilli reynslu. Þeir eru engu að síður reyndir.

Í fréttinni er fjallað um húsnæði við Hafnartorg sem viðmælendur í Morgunblaðinu þann 17.12.20 gagnrýndu vegna lélegrar hönnunar og vegna þess að það magnar svo upp vind að fólki finnst slæmt að vera á torginu.  

Í fyrirsögninni eru tvö orð í gæsalöppum sem táknar að þau sé höfð eftir öðrum, það er eigendum húsnæðisins sem svara gagnrýninni að hluta.

Blaðamaður mbl.is. leggur þeim orð í munn. Hvergi í yfirlýsingunni kemur fyrir orðið „reynslumikill“. Að vísu stendur þessi illa samda setning í henni:

Við erum þol­in­móður aðili með mikla reynslu af fast­eign­arþróun í miðbæn­um …

Hvernig er hægt að búa til svona setningu með bæði eintölu og fleirtölu í senn. „Við erum …“ og svo kemur „þolinmóður aðili“ … Þetta minnir á hátignir í útlandinu. Einhver kóngurinn í Frakklandi gæti hafa sagt þetta:

Nous sommes la France …

Og þá væri réttari að segja:

Vér Regin erum Hafnartorg.

Reyndar er Regin goðaheiti og þessi tilbúnu ummæli eru bara nokkuð lík. Málið er hins vegar þetta: Ekki leggja viðmælendum orð í munn nema til að lagfæra og leiðrétta. 

Og svo er það orðið „aðili“. Tek það fram og undirstrika að ég er ekki aðili.

Tillaga: Reyndir og þolinmóðir á Hafnartorgi.

6.

„Síðasta bingó K100 og mbl.is fyrir jól fór fram í gærkvöldi.“

Frétt á blaðsíðu 11 í Morgunblaðinun 18.12.20.                                    

Athugasemd: Fer ekki betur á því að segja að bingóið hafi verið í gærkvöldi?

Tillaga: Síðasta bingó K100 og mbl.is fyrir jól var í gærkvöldi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband