Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Mjöður og munngát, fara út af Siglufirði og lendingarstaður

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

Lesendur geta sent tilvitnanir eða athugasemdir um málfar á netfangið: sigurdursig@me.com

Mjöður og mungát

Mjöður er áfengur drykkur úr soðinni og gerjaðri blöndu hunangs og vatns, segir í Íslenskri orðabók, en líklega er orðið að mestu gleymt í málinu þótt það lifi í gömlum bókum.

Mjöður þótti betri drykkur en mungát. Þetta kemur fram í Sverris sögu Noregskonungs:

Magnús Erlingsson konungur „lét búa til jólavistar sér í Björgvin. Hann veiti hirðmönnum sínum í hirðstofu hinni miklu, en gestum [eins konar handrukkurum] í Sunnefustofu. Gestum líkaði illa er hirðmenn drukku mjöð, en þeir mungát.

Í Heimskringlu er vísubrot haft eftir Haraldi hárfagra sem hann orti í veislu um menn sína, gamla og gráhærða, sem væru of „mjöðgjarnir“. Er mjöðgarn maður ekki vínhneigður?

Mungát var eiunskonar bjór, bruggaður heima, orðið dregið af muni í merkingunni hugur og sögninni að geta í merkingunni fá [...]

Mungát þýðir þá nokkurn veginn það sem hugurinn vill og hann fær. [...]

Mörg eru mungáts orð, segir máltækið, og vísar til þess að menn segja margt undir áhrifum áfengis sem ella lægi þeim ekki á tungu.

Geymdur og gleymdur orðaforði eftir Sölva Sveinsson, Iðunn 2017.

1.

„Meðal aðgerða sem Demókratar hugðust beita væri að leggja fram frumvarp. 

Frétt á visir.is.              

Athugasemd: Vanskrifaðar eða hálfskrifaðar fréttir eru algengar á Vísi. Tilvitnuð málsgrein stendur ein án nokkurrar tengingar við aðrar í fréttinni. Hvergi kemur fram hvaða frumvarp það er sem Demókratar hugðust „beita“.

Heimildin er fréttastofan AP. Á vef hennar stendur:

Democrats are planning to introduce a resolution disapproving of the declaration once Congress returns to session and it is likely to pass Congress. Several Republican senators are already indicating they would vote against Trump — though there do not yet appear to be enough votes to override a veto by the president.

Gagnslítið er að birta innihaldslausa „frétt“. Það bendir til viðvaningslegra vinnubragða vefmiðilsins. 

Enska orðið „resolution“ er ekki frumvarp heldur ályktun, hér þingsályktun. Þetta á blaðamaður að vita.

Tillaga: Engin tillaga gerð.

2.

Mar­grét, sem var á leið ak­andi til Reykja­vík­ur er mbl.is talaði við hana lenti í því að festa bíl­inn í skafli áður en hún komst út af Sigluf­irði.“ 

Frétt á mbl.is.            

Athugasemd: Skrýtið, konan var að reyna að komast „út af“ Siglufirði. Líklegast hefur hún verið að reyna að komast út úr firðinum.

Bílar aka stundum út af, þá er átt við út af veginum. Varla er hægt að segja út úr veginum nema átt sé við göng sem, tvenn göngu eru við Siglufjörð. Stundum kemur einhver út úr skápnum og vita allir hvað um er að gerast. Sá sem er hér út af skápnum er hugsanlega í þeim erindum að sækja hann.

Hægt er að orða málsgreinina betur.

Tillaga: Mar­grét var á leið til Reykja­vík­ur er mbl.is talaði við hana en hún lenti í því að festa bíl­ sinn í skafli áður en hún komst út úr Sigluf­irði.

3.

Lend­ing­arstaður­inn sem varð fyr­ir val­inu á Írlandi er Killala þar sem …“ 

Frétt á mbl.is.            

Athugasemd: Í fréttinni er fjallað um sæstreng milli Íslands og Írlands og er sá staður á Írlandi sem hann er tekinn á landi nefndur lendingarstaður.

Ég velti þessu stuttlega fyrir mér, fannst við fyrstu sýn að orðið væri ekki vel valið. Sá sem lendir er líklega á flugvél og lendingarstaður hennar heitir flugvöllur. Þetta segir þó ekki allt. 

Yngra fólk veit hugsanlega ekki að lendingar eru víða um land, það er staðir í fjöry þar sem bátar tóku land, lentu. Undir Jökli eru til dæmis víða lendingar, við Lóndranga, Malarrif, í Djúpalóni, Rifi Hellissand og víðar. Þaðan var gert út um aldir á vertíðum og má enn sjá ummerki um lendingar, byrgi og fleira.

Sæstrengur liggur milli Vestmannaeyja og lands og er þrettán km langur. Í fréttum á árinu 2013 var talað um erfiðar aðstæður við landtöku bæði á Landeyjarsandi og í Eyjum. 

Landtaka hefur verið notað um aðgerðina, að leggja strenginn úr sjó og upp á landi. Landtökustaðirnir eru hins vegar Landeyjarsandur og Brimnes sem er til móts við Klettsnef í Ystakletti í Vestmannaeyjum. Líklega fer betur á því að nota orðið lengingarstaður, það er styttra og þýðara.

Tillaga: Enginn tillaga gerð.


Sambandið við stýrið, sterku áhlaupin og kjánalegi tímapunkturinn

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

Lesendur geta sent tilvitnanir eða athugasemdir um málfar á netfangið: sigurdursig@me.com. 

Sólarroð

Sólarroð er sárasjaldan á tungu um morgunroðann, skin sólar við dagrenningu, en orðið er prýðilega nothæft til þess að auka blæbrigði tungutaksins. Orðið birtist í Morkinskinnu …

Og þegar um morguninn í sólarroð vakna þeir og sjá að mjörkvi [þoka] lá mikil allt um eyna.

Orðið er líka í Sverris sögu Noregskonungs:

Sverrir konungur stóð upp þegar í sólarroð og gekk upp á bakka til Ólafskirkju og síðan til varðmanna sinna.

Geymdur og gleymdur orðaforði eftir Sölva Sveinsson, Iðunn 2017.

1.

„Björguðu vélarvana bát út af Stokksnesi. 

Frétt á visir.is.              

Athugasemd: Er ekkert að marka fréttina? Í fyrirsögn segir að báturinn hafi verið vélarvana samt segir í fréttinni:

Báturinn hafði verið við veiðar þegar hann missti samband við stýrið og rak hann því stjórnlaust frá landi.

Hvort var báturinn vélarvana eða stýrið bilað? Hvernig er hægt að missa samband við stýrið? Af hverju dettur blaðamanninum ekki í hug að spyrja að því? 

Hvort er verra, að missa samband við stýrið eða það bili?

Þetta er ófullnægjandi frétt, varla hálfskrifuð. Þannig er hún líka í fleiri fjölmiðlum og orðalagið því frá Björgunarfélagi Hornafjarðar eða Landsbjörgu. Hér er ábyrgðin hjá Vísi.

Tillaga: Engin tillaga gerð.

2.

„Leikurinn fór skringilega af stað en Valskonur byrjuðu á sterku áhlaupi en Stjörnukonur svöruðu með sterkara áhlaupi, leikurinn byrjaði á miklum hraða og mjög skemmtilega. 

Frétt á visir.is.              

Athugasemd: Ofangreind tilvitnun skringileg vegna þess að hún segir ekkert. Körfubolti gengur út á að liðin tvö skipast á að sækja, þar af leiðandi er sókn eiginlega ekkert annað en áhlaup. Hvað er „sterkara áhlaup“?

Blaðamaðurinn er mjög hrifinn af nafnorðinu áhlaup, notar það sjö sinnum í fréttinni. Hann veit samt ekkert hvað nástaða er sem er slæmt. Verra er þó að hann virðist ekkert vita hvað orðið áhlaup merkir. Skilur til dæmis einhver þetta:

Þriðji lekhluti byrjaði eins og sá fyrsti. Mikið um áhlaup og skiptust liðin á áhlaupum. 

Ein prentvilla, nástaða og innihaldsrýrar setningar. 

Fréttin er einfaldlega illa skrifuð og tímaeyðsla að eltast við villur í þessu bulli. Blaðamaðurinn hefði betur lesið textann nokkrum sinnum yfir. Líklega tíðkast ekki á Vísi að leiðbeina ungum blaðamönnum í textagerð.

Þetta er skemmd frétt og lesendum ekki bjóðandi.

Tillaga: Engin tillaga gerð.

3.

„Ætla má að flestir höfuðborgarbúar hafi á einhverjum tímapunkti bragðað vörur bakarísins Brauð & Co. 

Frétt á visir.is.              

Athugasemd: Þarna er enn og aftur orðið „tímapunktur“ notað. Það er alltaf óþarft í íslensku máli og má stroka út án þess að merking þess sem sagt er breytist.

Blaðamaðurinn er greinilega byrjandi og ekki vanur skrifum. Það sem verra er, honum er ekki leiðbeint. Upphafið fréttarinnar er svona:

Ætla má að flestir höfuðborgarbúar hafi á einhverjum tímapunkti bragðað vörur bakarísins Brauð & Co. Ágúst Einþórsson stofnandi Brauð & Co sagði í fyrirlestri sínum á opnum fundi Félags atvinnurekenda að staðnaður markaður hérlendis hafi orðið til þess að hann sneri heim til að breyta leiknum.

Svona gengur ekki. Hvernig fær blaðamaðurinn það út að „flestir höfuðborgarbúar hafi bragðað vörur bakarísins“? Þetta er fullyrðing sem ekki stenst nema rök fylgi. 

Nástaðan er kjánaleg. Blaðamaðurinn endar setningu á nafni bakarísins og byrjar þá næstu með nafninu. Seinna skiptinu er ofaukið. 

Loks segir að stofnandinn hafi ætlað að „breyta leiknum“. Líklega ætlaði hann að breyta markaðnum.

Gera mætti athugasemdir við margt fleira í fréttinni.

Tillaga: Ætla má að flestir höfuðborgarbúar hafi bragðað vörur bakarísins Brauð & Co.

4.

Það er gaman að þú segir tölta því að þetta er einmitt ekki Norðurstrandavegur vegna þess að við viljum að ferðamenn fari um og stoppi, fari út úr bílnum.“ 

Frétt á visir.is.              

Athugasemd: Verið er að kynna svokallaðan Norðurstrandaveg, vegi sem liggja með ströndum Norðurlands allt frá Hvammstanga í vestri til Þórshafnar í austri. Skemmtileg hugmynd. Svo rakst ég á þessa undarlegu málsgrein sem hér er vitnað til.

Með kynningu á Norðurstandavegi er ætlast til að ferðamenn stoppi oft, skoði sig um og njóti staðhátta. Berum svo saman tilvitnunina og tillöguna hér fyrir neðan. Hvor er skárri?

Ég hef rökstuddan grun um að margir blaðamenn sem skrifa á Vísi lesi ekki yfir fréttir sínar. Já, þetta er stór fullyrðing. Verra er þó ef þeir lesi yfir en geri samt villur á borð við þess og margar aðrar.

Tillaga: Það er gaman að þú segir tölta. Tilgangurinn með Norðurstandavegi er einmitt sá að ferðamenn stoppi, stígi út úr bílnum.


Handalögmál, sá sem sigraði valentínusardaginn og efri táin

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

Lesendur geta sent tilvitnanir eða athugasemdir um málfar á netfangið: sigurdursig@me.com. 

 

Stundum gleymist eignarfallið

Eignarfallsflótti nefnist sú tilhneiging að beygja ekki orð í eignarfalli eða að gefa því óhefðbundið eignarfall. Þetta er dæmi um málbreytingu.

Dæmi: Ég er að fara til Kristínu. Samkvæmt málhefðinni hefði átt að segja „til Kristínar“ […]

Lokað vegna byggingu brúarinnar. Samkvæmt málhefð hefði átt að segja „Lokað var vegna byggingar brúarinnar.

Úr Wikipedia. Tengt efni er nefnifallssýki og þágufallssýki.

1.

„Kom til handalögmála á milli stuðningsmannasveita. 

Frétt á karfan.is.             

Athugasemd: Þetta merkir að stuðningsmennirnir hafi slegist. Ekki flókið. Blaðamaðurinn er fjarri því að vera skýrari með því að nota fíneríis orð eins og „handalögmál“. Þvert á móti.

Fréttin er frekar ekki vel skrifuð. Málsgreinar eru til dæmis ómarkvissar og punktum virðist dritað niður af handahófi.

Sagt er „Lið þessi hafa …“ en nóg er að segja liðin hafa … Ábendingarfornafnið er gagnslaust því liðin eru aðeins tvö og lesandinn veit nöfnin.

Sagt er að „öryggisgæsla þurfti að stíga á milli“. Þetta er ónákvæmt. Þarna var öryggisgæsla en öryggisverðirnir þurftu að ganga á milli.

Ofmælt er að segja að eftirfarandi málsgrein flokkist sem gullkorn:

Til handalögmála kom þegar tvær mínútur voru liðnar þar sem hnefar flugu.

Blaðamanninum þykir aldrei of oft talað um handalögmál en þannig verður nástaðan til, en hann veit ekkert hvað það er.

Hvernig geta hnefar flogið? Þetta er nú meira ruglið.

Eina sem er jákvætt við fréttina eru stórkostlegar myndir af kjánum úr stuðningsmannaliðunum, sem kunnu sig ekki heldur slógust (fóru í „handalögmál“).

Allt annar bragur er á frétt DV um málið. Þar segir í yfirfyrirsögn og undirfyrirsögn:

Slagsmál brutust út á leik ÍR og Stjörnunnar: Stuðningsmenn létu hnefahögg dynja hver á öðrum

Þarna er öll fréttin skrifuð á mannamáli og fátt aðfinnsluvert og lítt segir af flugi hnefa.

Á Vísi birtist frétt um sama mál. Þar segir í fyrirsögn:

Sjáðu hnefana tala í Laugardalshöll

Aumara verður þetta nú varla. Flestir þekkja orðasambandi að láta hendur skipta, hins vegar þekkist ekki að láta hendur tala. Til eru orðasamböndin að gefast ekki upp fyrr en í fulla hnefana, láta hnefana ganga og fleiri.

Enn er spurt: Hvers vegna í ósköpunum geta íþróttablaðamenn ekki talað eðlilegt mál? Af hverju þurfa þeir að nota klisjur eða klúðra frásögn með hallærislegum eða lélegum orðasamböndum? 

Talandi hnefar, fljúgandi hnefar … Hvað næst, flugveikir hnefar, hnefar með kvef?

Tillaga: Stuðningsmenn Stjörnunnar og ÍR slógust í upphafi leiks.

2.

Sigraði Kanye West Valentínus­ar­dag­inn þegar hann færði sinni heittelskuðu Kenny G. í rósa­hafi? “ 

Myndatexti á mbl.is.              

Athugasemd: Hvernig er hægt að sigra valentínusardaginn?

Ekki er hægt að sigra valentínusardaginn hvað þá að sigra Íslandsmeistaratitilinn svo dæmi sé tekið úr „íþróttablaðamannamáli“. Nú er ábyggilega skammt í það að einhvern sigri sumardaginn fyrsta.

Maður sem þarf að fylla stofuna sína af rósum til heiðurs konu sinni er ekkert fremri þeim sem færir elskunni sinni eina blómarós, falleg orð á blaði eða hvíslar hugsun sína. Líklega á rósafanturinn eitthvað alvarlegt á samviskunni sem hann reynir að fela með blómunum. Við karlmenn þekkjum svoleiðis mætavel.

Tillaga: Engin gerð.

3.

Vígamennirnir eru með efratána í bakið og sýrlenskir Kúrdar og bandamenn þeirra …“ 

Myndatexti á mbl.is.              

Athugasemd: Þetta er ein skemmtilegasta málsgrein sem ég hef lengi séð. Hún olli mér óþægilega löngum heilabrotum. Hvað er efri táin og hvernig er hægt að koma henni í bakið? Skrýtin leikfimi. 

Ég þurfti að lesa fréttina nokkrum sinnum áður en augu mín lukust upp og ég skildi. Ég var samt of lengi að finna svarið.

„Efri táin“ er Efrat áin í Írak, áin sem heitir Efrat, Euphrates. Í landafræðinni sem við lærðum í gamla daga stóð að Efrat og Tigris væru fljót í Írak. Milli þeirra er Mesapótamía en þar er meðal annars talið vera upphaf siðmenningar fyrir um þrjú þúsund árum. Í Wikipediu segir:

Fyrirsagnir í erl blöðumAlmennt er þó átt við allt árframburðarsvæðið sem afmarkast af sýrlensku eyðimörkinni í vestri, þeirri arabísku í suðri, Persaflóa í suðaustri, Zagrosfjöllum í austri og Kákasusfjöllum í norðri. Einhver elstu merki um siðmenningu í veröldinni er að finna á þessu svæði og því er það stundum kallað „vagga siðmenningar“. Súmerar réðu þar ríkjum í kringum 3500 f.Kr. og þróuðu með sér eitt fyrsta ritmál sem þekkt er í sögunni og síðar voru rituð þar niður ein elstu lög sem þekkt eru. Nokkrar elstu siðmenningar heims byggðu þetta svæði, m.a. Súmerar, Akkaðar, Babýlóníumenn og Assýringar. Í dag er þetta svæði hluti af Írak, Sýrlandi og Tyrklandi.

Mesópótamía hefur um aldir verið þekkt fyrir mjög næringarríkan jarðveg, og er þetta því tilvalinn staður fyrir mannabyggð. Mikla jarðolíu er að finna á þessu svæði, en þetta er jafnframt austasti hlutinn af frjósama hálfmánanum.

Svona er nú í stuttu máli sagan um efratána, ein lítil stafsetningavilla sem öllu breytti. Er ekki gaman að íslenskum fjölmiðlum? Jú, og líka þeim útlendu.

Til gaman set ég hér til hliðar nokkrar skondnar fyrirsagnir úr erlendum fjölmiðlum.

Tillaga: Vígamennirnir eru með Efrat ána í bakið og sýrlenskir Kúrdar og bandamenn þeirra …


Láta gott heita, söndunarbíll í flugtaki og lagði í veg fyrir gangbraut

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

Stofnanamál

Ástæðan fyrir þyngslalegri spurningu var óttinn við að skrifa of einfalt mál og sú trú að að baki samanhamraðra setninga hljóti að felast mikil speki. 

En blaðamaðurinn er ekki einn um þessa skoðun og þetta er ekki séreinkenni stofnanamáls þótt þess sjáist þar víða merki, heldur hygg ég að meinsins sé að leita í vantrú margra á einföldu máli og í þeim misskilningi að því meira mark sé tekið á bréfum eða greinum þeim mun samanskrúfaðri sem textinn sé.

Guðrún Kvaran, ræða á málþingi um málfar í opinberum skjölum, 29.9.2001, sjá hér.

 

1.

„Íslandsvinurinn lætur gott heita. 

Frétt á visir.is.            

Athugasemd: Látum vera þótt orðið „Íslandsvinur“ sé eitt ofnotaðasta heiti á útlendingum sem ferðast hafa hingað til lands eða starfað hér. Verri er klisjan að láta gott heita sem er óþægilega mikið notuð. 

Fréttin fjallar um mann sem ætlar að hætta störfum og líklega fara að njóta efri áranna.

Í fjölmiðlum er með öllum ráðum reynt að komast hjá því að nota sögnina að hætta. Hér eru nokkur hjáheiti (þetta orð er að vísu ekki til, heldur samheiti. Orðið er þó myndað á sama hátt og hjákona, hjásvæfa og önnur álíka sem teljast minna dónaleg en önnur.): Láta gott heita, stíga til hliðar, stíga niður, kveðja (starfið) og fleiri.

Tillaga: Lögfræðingurinn Lee Buchheit hættur störfum.

2.

„Verðtrygging eða golsótt ær. 

Spjall í morgunútvarpi Rásar tvö 14.2.2019.             

Athugasemd: Málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins hafði ásamt umsjónarmönnum þáttarins nokkrar áhyggjur af merkingu viðskiptafræðilegra orða og efnahagslegra, eins og ebitda, vísitala og fleirum. Umræðan fjallaði öðrum þræði um hlustendur eða lesendur fjölmiðla, hvort þeir skildu fréttir með svo „framandi“ orðum.

Yfirleitt skilja flestir það sem um er rætt. Sé ekki svo er umræðan eftir vill dálítið sérhæfð. Hins vegar er engin ástæða til að fjalla ekki um sérhæfð mál þó umir skilji ekki öll orð. Hér eru til dæmis nokkur sem mörgum kann að finnast furðuleg og illskiljanleg en koma öll fyrir í fréttum:

  • Golsótt ær, kró, skjöldótt kýr, brokk, gimbur
  • Keis á síðutogara, Bakborði, stjórnborði,hvalbakur, gils, poki, gálgi
  • Verg þjóðarframleiðsla, viðskiptajöfnuður, vinnsluvirði
  • Debet eða kredit færsla, útskattur, innskattur, sjóðstreymi, ebitda
  • Rangstæða, óbein aukaspyrna, tvígrip, tæknivilla, tvívíti
  • Gafl, mænir, útlögn, burðarlag, síukrafa
  • Ökuritaskífa, harðkornadekk, skriðvörn, vetnisbíll
  • Brunahreyfill, ventlar, núningsstuðull og hraði bíls
  • Niðurhal, upphal, gagnaver, mænir, mótald, minnislykill, rauntími, amapóstur
  • Frumlag, lýsingarháttur nútíðar, aukafall, íðorð
  • Þjóðlenda, kjörgengi, kjörfundur, kjörbréf, kennivottorð

Skilja lesendur öll þessi orð? Sérhæfð orð eru ekki öllum skiljanleg en til að auka skilning og þekkingu eru til orðabækur og feikn upplýsinga á veraldarvefnum. Mjög erfitt er að skrifa frétt sem allir geti skilið, sé það hægt þarf að fara út í mjög einfalt barnamál.

Svo er það hitt, að þeir eru til sem halda að þeir skilji allt, jafnvel áður en allir málavextir eru ljósir. Þeir stökkva til og tjá sig af eintómri vanþekkingu eins og oft má sjá í athugasemdadálkum fjölmiðla. Við erum ábyggilega margir sem þurfum að tileinka okkur þá speki að mæla þarft eða þegja.

Tillaga: Engin gerð.

3.

Alvarleg árekstrarhætta þegar flugvél rétt náði yfir söndunarbíl í flugtaki. 

Fyrirsögn á visir.is.              

Athugasemd: Ólíklegt er að söndunarbíll (ber sand á flugbrautir) geti flogið. Með það í huga er líklegra að það hafi verið flugvélin sem var í flugtaki, ekki bíllinn. Af samhenginu í setningunni má vissulega skilja hana, en málfræðilega er hún ekki rétt.

Blaðamenn verða að vera gagnrýnir á eigin skrif. Orðalagið að ná yfir dugar ekki. Flugvélin var í flugtaki og gat með naumindum (herkjum) flogið yfir söndunarbílinn. Þarna lá vissulega við árekstri, mjóu munaði.

Fyrirsögnin er klúður. Það segir sig sjálft að hættan á árekstri hafi verið alvarleg þegar flugvélinni tókst með naumindum að fljúga yfir bílinn. Þar af leiðandi er nóg að skrifa: Hætta á árekstri …

Flugvélin náði yfir söndunarbílinn. Var verið að bera saman hæð þessara tækja? Ekkert um flugtak flugvélarinnar, blaðamaðurinn gleymir því.

Tillaga: Lá við árekstri þegar flugvél í flugtaki tókst með naumindum að fljúga yfir söndunarbíl.

4.

Lagði í veg fyrir gangbraut, göngustíg og gangstétt. 

Fyrirsögn á visir.is. 

Ábending frá Jóhannesi Laxdal Baldvinssyni: Lagði í veg fyrir gangbraut!  Má skilja það sem svo, að gangbrautin hafi verið á hreyfingu?            

Athugasemd: Já, ljótt er það þegar gangbraut, göngustígur og gangstétt komast ekki leiðar sinnar vegna bíls sem er illa lagt. Þessi rassbaga er svo endurtekin í meginmáli fréttarinnar. Staðreyndin er sú að ökumaður bílsins lagði á mótum þessara þriggja leiða.

Haft er eftir lögreglunni í óbeinni ræðu að „fremsti bíllinn hafi hindrað umferð gangandi vegfarenda á þremur vígstöðvum“.

Blaðamaðurinn las greinilega ekki yfir skrif sín eða það sem verra er, skildi þau ekki. Hvergi í fréttinni er talað um fleiri bíla en einn.

Þvílík della er að tala hér um „vígstöðvar“. Orðalagið er haft eftir lögreglunni sem bendir eindregið til þess að löggan sé varla skrifandi. Þarna er stofnanamálið allsráðandi og orðaskilningur lítill. Löggan þarf að taka sig mikið á.

Þó þessi fyrirsögn sé doldið fyndin er sorglegt að blaðamaðurinn skuli vera gjörsamlega gagnrýnislaus á skrif sín. Hann þarf að taka sig mikið á.

Tillaga: Lagði bíl á mótum gangbrautar, göngustígs og gangstéttar.


Öldur tosa, löggan biðlar, ég er góður og borinn er út rógburður

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum. 

Uppstytta

Fyrir kemur að það hætti að rigna. Þá er sagt að það stytti upp. Það sem styttir upp er rigningin. 

Samt megum við ekki segja: „rigningin stytti upp“. Það verður að vera ópersónulegt: rigninguna stytti upp eða hríðina ef svo vill til. Og svo er hið notalega orð uppstytta, um regnhlé.

Málið, blaðsíða 24 í Morgunblaðinu 11.2.2019.

1.

„Alda hefði til að mynda getað tosað hann út, auk þess sem jökl­arn­ir séu á hreyf­ingu, sem geti valdið mik­illi hættu. 

Frétt á mbl.is.           

Athugasemd: Ísjakar verða seint kallaðir jöklar. Vonandi þarf ekki að rökstyðja þetta nánar. Í fréttinni segir frá útlendum ferðamanni sem klifraði upp á ísjaka utan við Jökulsárlón. Var hann í talsverðri hætt, ólga í sjónum og ísjakar á hreyfingu.

Blaðamaðurinn skrifar víðast hvar ísjakar en í óbeinni ræðu skrifar hann eftir viðmælandanum að jakarnir hafi verið jöklar. Hugsanlega hefur blaðamaðurinn skriplað eitthvað á tölvuborðinu.

Dálítið frumlega en barnalega orðað að alda „tosi“. En hvað er það sem fær hluti í fjöruborði til að færast frá landi? Jú, sjórinn getur skolað ýmsu á land en það sem liggur í fjöruborðinu getur hæglega borist út, líklega einna helst þegar fellur frá en einnig í brimi.

Tillaga: Alda hefði til að mynda getað tosað hann út, auk þess sem jakarnir séu á hreyf­ingu, sem geti valdið mik­illi hættu.

2.

„Lög­regl­an í Dublin biðlar til al­menn­ings um aðstoð vegna … 

Frétt á mbl.is.           

Athugasemd: Sögnin að biðla er nátengt orðinu biðill og merkir að biðja sér konu, biðja um hönd hennar. Þetta hefur áður verið nefnt hér.

Sá sem biðlar er biðill. Orðið er einnig skylt sögninni að biðja. Lögreglan í Dublin getur eðlilega ekki verið á biðilsbuxum.

Blaðamenn sem hafa farið í íslenskutíma í mennta- eða fjölbrautaskóla, tóku eftir í tímum og fengið, þó ekki hafi verið meira en meðaleinkunn, eiga að skilja blæbrigði málsins. 

Einhver þekkingin á að sitja eftir í hausnum hjá mönnum. Ef ekki þá þurfa þeir einhvern skynsaman mann sem getur lesið yfir fréttirnar áður en þær eru birtar. Svo vantar alltaf menn niðri á höfn, eins og Guðni rektor sagði stundum þegar menn stóðu sig illa.

Tillaga: Lögreglan í Dublin biður almenning um aðstoð vegna …

3.

„Nei takk, ég er góður! 

Algengt svar við boði.           

Athugasemd: Þegar ég kem í heimsókn til Lovísu systur minnar býður hún mér yfirleitt veitingar. Viltu þetta eða hitt, spyr hún. Alltof oft segi ég: Nei takk, ég er góður. Þá svarar hún jafnan dálítið pirruð: Ég veit að þú ert góður, en viltu eitthvað að drekka. Þá átta ég mig á bullinu.

Þetta er auðvitað einföld enska eins og fram kemur hér:

Also this word means No thanks when one says I am good to and idea or suggestion that is proposed to him or her […], so it can be used as an answer meaning I don't want to do it […]

Svo ósköp þægilegt er að þýða einfalda ensku yfir á íslensku. Þar með er ekki sagt að þýðingin sé góð íslenska vegna þess að góður er lýsingarorð sem lýsir eiginleikum, væntingum eða álíka. 

Á íslensku getum við sagt nei takk og það hefur ákveðna þýðingu. Sá sem segist vera góður getur ekki verið að afþakka neitt, er hvorki saddur, lystalaus eða áhugalaus. Hann er vingjarnlegur, vel gerður, hagfelldur og svo framvegis. Góður merkir ekki nei takk. 

Setjum sem svo að orðalagið ég er góður geti merkt nei takk. Hvað segjum við þá ef svarið á að vera já takk? Hér vefst manni tunga um höfuð því ekkert svar er til vegna þess að engin hefð er fyrir þessu á íslensku.

Ég hef reynt að taka mig á en stundum kemur það fyrir að ég glopra þessu út úr mér. Margur talar hraðar en hann hugsar.

Tillaga: Nei takk.

4.

„Hún er kona sem er kom­in sjö mánuði á leið og henni hef­ur verið veitt eft­ir­för og það er bor­inn út róg­b­urður um hana … 

Frétt á mbl.is.            

Athugasemd: Ég er dálítið ofsagt. Varla hægt að bera út rógburð vegna þess að rógburður merkir útbreiðsla á lygum. Réttar er að orða þetta þannig að bera út róg.

Þetta er illa skrifuð frétt, stíllaus og vandræðalega slök þýðing.

Tillaga: Hún er kom­in sjö mánuði á leið, elt og hún rægð …


Löggumál, löggumál, löggumál, löggumál ...

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

Lesendur geta sent tilvitnanir eða athugasemdir um málfar á netfangið: sigurdursig@me.com

Sóttbitinn

Þetta orð er gleymskunni gefið í Íslenskri orðabók, en það merkir sóttdauður og er einungis blæbrigðamunur á orðunum; sóttbitinn er ögn mildara orð og á fullan þegnrétt í máli manna núna þótt það sé aldrei á tungu. Orðið birtist í Orkneyinga sögu […]: 

„Hákon jarl Pálsson varð sóttbitinn þar í eyjunum. Þótti mönnum það skaði mikill, því að um hans daga ofanverða var góður friður.“

Geymdur og gleymdur orðaforði eftir Sölva Sveinsson, blaðsíða 346. 

1.

„Lögregla framkvæmdi húsleit á átta stöðum í fyrrinótt. 

Fyrirsögn á visir.is.          

Athugasemd: Nauðsynlegt er að þýða þessa fyrirsögn. Hvað merkir hún? Jú, löggan leitaði einhvers í átta húsum. Já, nú skilja allir. En má ekki orða þetta svona eða eru einhver viðurlög við því að segja frá því sem lögreglan gerir á almennu máli?

Líklega stendur í lögum að löggan eigi tala löggumál. Þetta er ábyggilega ástæðan fyrir því að blaðamenn apa eftir fréttatilkynningum lögreglunnar, afrit þær og líma orðrétt inn í vefinn. Allt athugasemdalaust. Löggumál er líka alveg drulluflott, svona við fyrstu sýn.

Auðvitað eru þetta engin vinnubrögð. Enginn segir neitt og þannig verða skemmdar fréttir verða til og þeim er dreift út um allar koppagrundir landsins.

Löggumálið, stofnanamállýskan, nafnorðadýrkunin, verður smám saman viðtekin venja. Og nú er svo komið að þegar brugðið er frá ónýtu orðalagi reka lesendur upp stór augu og skilja ekki neitt.

Sem sagt, vitleysan er orðin að réttu máli og hið rétta er svo skrýtið að mörgum finnst það vera tóm vitleysa.

Ruglið í fyrirsögninni er þetta:

    1. Lögreglan leitaði, sögnin að framkvæma er algjörlega óþörf.
    2. Leitað var í átta húsum. Orðin húsleit og staðir eru algjörlega óþörf.

Með örlítilli hugsun er hægt að gera frásögn í frétt einfaldari og auðskiljanlegri. Það eina sem þarf er yfirlestur, einu sinni eða oftar. Og fyrir alla muni, blaðmenn verða að hætta að rita eins og þeir séu danskir skrifar á skrifstofu landshöfðingja á þar síðustu öld.

Í fréttinni er ekki bara talað um að framkvæma húsleit á stöðum heldur líka að gera húsleit á skemmtistað sem er jafn vitlaust. Í seinna tilvikinu var leitað á skemmtistaðnum. Er þetta eitthvað flókið?

Lögreglan lagði hald á eitthvað af dóti. Þakka ber að löggan hafi ekki haldlagt það eins og blaðamönnum finnst svo þægilegt að skrifa. Í gamla daga voru hlutir gerðir upptækir sem er alveg ágætt orðalag. Einnig má segja að lögga hafi tekið sönnunargögn eða þurfi að rannsaka ýmsa hluti.

Í annarri frétt á sama vefmiðli er haft eftir yfirlögregluþjóni að gerð hafi verið húsleit. Gott hjá honum. Ekki tala eins og venjulegur maður, flottara að tala stirðbusalega. Aðrir hefðu hugsanlega fullyrt að leitað hefði verið í húsunum, en … yfirlöggur tala ekki svoleiðis.

Tillaga: Lögreglan leitaði í átta húsum í fyrrinótt.

2.

„Þegar bíllinn mætir á vettvang eru tveir lögreglumenn með manninn í tökum og búið að tryggja ástandið. 

Myndatexti á blaðsíðu 11 í Morgunblaðinu 11. febrúar 2019.          

Athugasemd:Í nokkuð fróðlegri grein í Mogganum fylgist blaðamaður með tveimur lögreglumönnum í bíl á ferð þeirra um borgina aðfararnótt síðasta laugardags. Þó greinin sé fróðleg hefði blaðamaðurinn mátt vanda sig aðeins betur.

Ofangreindur myndatexti er furðulegur. Hann ber skýr merki um ensk áhrif og væri eflaust svona:

When the car arrives on the scene, two police officers have the man under arrest and have secured the perimeter.

Þetta segir auðvitað ekki mikið en þó. Í myndatextanum er eins og svo oft áður staðurinn þar sem eitthvað hefur gerst kallaður vettvangur, rétt eins og ekkert annað orðalag megi nota. Í bandarískum glæpamyndum er alltaf talað um „the scene“. Einhæfni er slæm í íslensku, vettvangur er ofnotað orð. 

Svo segir að maðurinn hafi verið „í tökum“. Þetta er yndislega loðið orðalag. Ég sé þá Geir og Grana í Spaugstofunni ljóslifandi fyrir mér með manninn í myndatökum, takandi myndir af honum í ýmsum stellingum, stillt sjálfum sér upp og tekið sjálfsmyndir („selfie) eins og svo vinsælt er.

Orðalagið er auðvitað tómt bull. Löggan er ekki með mann í tökum þegar átt er við að hún hafi handtekið hann.

Loks segir frá því að búið sé að „tryggja ástandið“. Auðvitað vita allir unnendur glæpamynda hvað það þýðir, „secure the perimeter“. En hvað þýðir þetta íslensku? Jú, enginn tryggir eftir á og þar af leiðandi var ábyggilega keypt trygging hjá TM eða Sjóvá og svo sitja löggur og bófi saman og fá sér „smók“ eins og gerist og gengur í löggumyndunum. Nei, líklega voru aðstæður orðnar viðunandi þar sem bófinn hafði verið handtekinn.

Sá sem hér skrifar átti það til fyrr á árum að kikna í hjáliðum, roðna og koma ekki upp neinu orði þegar hann hitti fallega konu. Þetta hefur lítið lagast á síðustu árum enda ekki þverfótað fyrir slíkum.

Svipað er með blaðamenn. Þeir missa stundum allan skynsemi og skýrleika þegar þeir skrifa um lögreglumál. Úr verður sami hroðinn sem löggan viðheldur svo ákaflega. Auðvitað er þetta doldið hlægilegt.

Vandinn er hins vegar þessi: Um leið lögregla, fjölmiðlar og misþyrma málinu verður afleiðingin einfaldlega sú að við, aumingjans lýðurinn, höldum að svona eigi að tala. Fyrirmyndirnar leiða og við förum líka að bulla.

Í lokin er hér gullkorn úr fréttinni:

Stefán [lögreglumaður] segir við blaðamann að lögregla forðist í lengstu lög að handtaka fólk án þess að gefa því færi á að koma sér í burtu.

Eru þá bófarnir skotnir á færi? Ég bara spyr. Meiri líkur eru þó á að löggan segi við innbrotsþjófinn:

Heyrðu góði, nú tek ég af þér handjárnin og þú mátt reyna að hlaupa í burtu. Ef þú getur stungið okkur af á einni mínútu ertu frjáls maður og þú mátt eiga góssið.

Góðir gæjar, þessar löggur. 

Tillaga: Þegar bíllinn kom voru tveir lögreglumenn búnir að handtaka manninn og aðstæður orðnar góðar.


Endemi, eindæmi og einsdæmi, inni í nóttina og bankaráð Hvíta hússins

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

Lesendur geta sent tilvitnanir eða athugasemdir um málfar á netfangið: sigurdursig@me.com

 

Sóttbitinn

Þetta orð er gleymskunni gefið í Íslenskri orðabók, en það merkir sóttdauður og er einungis blæbrigðamunur á orðunum; sóttbitinn er ögn mildara orð og á fullan þegnrétt í máli manna núna þótt það sé aldrei á tungu. Orðið birtist í Orkneyinga sögu […]: 

„Hákon jarl Pálsson varð sóttbitinn þar í eyjunum. Þótti mönnum það skaði mikill, því að um hans daga ofanverða var góður friður.“

Geymdur og gleymdur orðaforði eftir Sölva Sveinsson, blaðsíða 346. 

 

1.

„Gróðursælt með endemum … 

Ferðstiklur í Ríkissjónvarpinu 7.2.2019          

Athugasemd: Handritshöfundurinn ruglaðist illilega á orðum. Á malid.is segir:

endemi, endimi h. ‘e-ð dæmalaust eða fáránlegt; for, saurindi’…

Höfundurinn ætlaði ekki að segja að landið væri ljótt og gróðurlítið, þvert á móti. Má vera að í höfði hans hafi blundað orðið eindæmi, sem er stundum áhersluorð þegar verið er að lýsa því sem gott er. 

Á malid.is segir um þessi tvö orð:

Athuga að rugla ekki saman orðunum endemi og eindæmi. Rétt er að segja hún er með eindæmum fögur en ekki: „hún er með endemum fögur“. Hins vegar: niðurstöður kosninganna eru með hreinum endemum.

Orðin eindæmi og einsdæmi merkja ekki það sama. Í malid.is segir:

Varast ber að rugla saman orðunum eindæmi og einsdæmi.

1) Orðið eindæmi merkir: sjálfdæmi, ábyrgð. Gera eitthvað upp á sitt eindæmi. Einnig notað til áherslu: veður var með eindæmum gott.

2) Orðið einsdæmi merkir: einstæður atburður. Einróma óánægja starfsmannanna var algjört einsdæmi í tíu ára sögu fyrirtækisins. Þetta veður er algjört einsdæmi.

Betra er að hafa þetta í huga annars er hætta á að hlustendur eða lesendur skilji ekkert. Ljótt er að umsnúa merkingu orða. Krafan er ekki aðeins að blaða- og fréttamenn vandi mál sitt heldur allir sem á annað borð skrifa eða flytja erindi á íslensku máli í sjónvarpi og útvarpi.

Í þættinum heyrðist þulurinn oft tala um Maradal. Þetta er rangt. Dalurinn heitir Marardalur  og er vestan undir Hengli.

Bringur hét bær um var fjallað í þættinum. Ekki heyrðist betur en að íbúarnir væru kallaðir Brignafólkið. Sé svo er það rangt því nafnið er fleirtöluorð og beygist svona: nf. Bringur, þf. Bringur, þgf. Bringum, ef. Bringna/Bringa. Hefði því átt að vera Bringnafólkið.

Tillaga: Gróðursælt með eindæmum …

2.

„Halda leit áfram inn í nóttina. 

Fyrirsögn á mbl.is.          

Athugasemd: Þetta orðalag er tiltölulega nýtt í íslensku. Áhrifin eru greinilega úr öðrum málum. Á ensku er þekkt bíómynd frá árinu 1985 sem heitir Into the night, leikstjóri John Landis og aðalhlutverkin er 

Velska ljóðskáldið Dylan Thomas (1314-1953) segir í ljóði: Do not go gentle into that good night. Svíar orða það svo: Gå inte stilla in i natten. Íslendingurinn myndi segja: Gakktu ei hægt um blíða nótt.

Þó „gengið sé inn í nóttina“ á mörgum tungumálum hljómar orðalagið ekki eins vel á íslensku. Ekki heldur að að segja „inn í sumarið“ eða aðrar árstíðir. Þannig er bara gangurinn að við göngum ekki inn í tímann, hann sveipast um okkur.

Við vökum fram á nótt, ekki inn í nóttina. Við fögnum sumrinu, tökum á móti því en göngum ekki inn í það. 

Finnst mér.

Tillaga: Halda leitinni áfram fram á nótt.

3.

„Maxine Waters er áttræð og fyrsta konan til að fara fyrir bankaráði Hvíta hússins. 

Frétt á blaðsíðu 20 í Fréttablaðinu 9.2.2019.         

Athugasemd: Fyrirsögn fréttarinnar er „Valdamiklar konur á efri árum“. Þar segir frá nokkrum konum sem náð hafa langt í bandarískum stjórnmálum. Meðal þeirra er demókratinn Maxine Waters, 81 árs skeleggur stjórnmálamaður í fulltrúadeildinni.

Þegar fjölmiðlar bjóða upp á fréttir eða fréttaskýringar er mikilvægt að blaðamenn hafi þekkingu og getur til að sinna þeim. Sé svo ekki standa fréttirnar ekki undir nafni enda skemmdar. Þannig er það með ofangreinda tilvitnun. Ég hef aldrei heyrt getið um „bankaráð Hvíta hússins“ og fletti því upp í Wikipedia sem oft reynst mér ágæt heimild. Þar stendur um frú Waters:

The conflict with King stemmed from the previous day, when they had both been present at a House Banking Committee hearing on the Whitewater controversy. 

Þarna segir frá ágreining hennar við Peter King fulltrúadeildarþingmann árið 1994 en hann er aukaatriði. Hitt er ljóst að þarna var vettvangurinn bankanefnd  fulltrúadeildarinnar, „House Banking Committee“. Hið rétta nafn nefndarinnar er „United States House Committee on Financial Services“, og er Maxine Waters núna formaður nefndarinnar. Kemur Hvíta húsinu ekkert við.

Má vera að villan í fréttinni sé mistök en við yfirlestur hefði blaðamaður með nokkra þekkingu á bandarískum stjórnmálum áttað sig á henni. Höfundarnir eru tveir blaðamenn og það hefði átt að tryggja góð vinnubrögð.

Orðasambandið að fara fyrir merkir að vera fremstur, leiða eða stýra. Vel fer á því að segja að konan fari fyrir bankanefndinni.

Tillaga: Maxine Waters er áttræð og fyrsta konan til að fara fyrir bankanefnd fulltrúadeildarinnar.


Vatnsskarðið, vara sem þú fílar og velja fyrir einhverju

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

Lesendur geta sent tilvitnanir
 eða athugasemdir um málfar á
netfangið: sigurdursig@me.com.

Gæði

Athuga muninn á merkingu íslenska orðsins gæði (skylt góður) og erlendu orðanna kvalitet, quality o.s.frv. sem borið geta fremur hlutlausa merkingu: eiginleikar. 

Í íslensku er unnt að tala um góða eiginleika en illa er talið fara á orðalaginu „góð gæði“ og „léleg gæði“. Fremur: mikil gæði, lítil gæði.

Málfarsbankinn á vef Árnastofnunar

 

1.

„Runnu út af veg­in­um í Vatnsskarðinu. 

Frétt á mbl.is.      

Athugasemd: Almennt er ekki hafður ákveðinn greinir á örnefnum, samt eru margar undantekningar frá þessu. 

Sumir ganga á Esjuna þó svo að betur fari á því að ganga á Esju. Vinsælt er að ganga á Hvannadalshnúk en fæstir tala um Hvannadalshnúkinn eða Öræfajökulinn. Fjöldi fólks ekur yfir Hellisheiðina, vera má að færri segist aka yfir Hellisheiði. Ekið er yfir Holtavörðuheiði, varla Holtavörðuheiðina. Surtsey er friðuð, ekki Surtseyjan er friðuð. 

Ekkert er hins vegar við það að athuga þótt fólk ætli inn á öræfin sem eru ekki Öræfi. 

Tillaga: Runnu út af veginum í Vatnsskarði.

2.

„Stórverslunin Costco hentar þeim sem vilja gera magninnkaup vel. 

Frétt á dv.is.      

Athugasemd: Þetta er nú meira bullið og ekki nóg með það, öll fréttin er stórskemmd, orðalagið þannig að fæstir skilja hvorki upp né niður. Hvernig er hægt að „gera magninnkaup vel“? Hér færi betur að kaupa mikið, mikið magn er einfaldlega mikið.

Á vefsíðunni er farið yfir að verslunin geti boðið ódýrar vörur því aðeins sé takmarkað magn til af þeim.

Þetta illa skrifað. Er ekki einfaldara að segja að á vefsíðunni komi fram að verslunin geti boðið ódýrar vörur en aðeins í takmörkuðu magni?

Í lok fréttarinnar er lesandi allt í einu ávarpaður sem er óvenjulegt í frétt:

Þannig að ef þú sérð stjörnumerkið á vöru sem þú fílar þá ættir þú að hafa hraðar hendur og kaupa eins mikið af henni og þú getur.

Greinilegt er að blaðamaðurinn er algjör byrjandi og er alls ekki vanur skrifum. Hann heldur eflaust að „fíla“ sé íslenska. Orðalagið „þannig að ...“ er algjörlega óþarfi enda breytist ekkert sé því sleppt.

Tillaga: Stórverslunin Costco hentar þeim sem vilja kaupa mikið í hvert skipti sem verslað er.

3.

„Því má segja að þessi ræktunaraðferð sé í raun fiskeldi – þar sem verið er að velja fyrir ákveðnum eiginleikum. 

Úr aðsendri grein á blaðsíðu 41 í Morgunblaðinu 7. febrúar 2019.     

Athugasemd: Ég er ekki viss um að ég skilji þetta. Það sem truflar er orðalagið að velja fyrir.

Orðið fyrir getur verið forsetning en einnig atviksorð. Á vefnum malid.is segir:

Orðið fyrir stendur yfirleitt sem forsetning, hann er fyrir mér, hann gerði þetta fyrir mig.

Í eftirfarandi setningu flokkast fyrir hins vegar sem atviksorð það snjóar fyrir sunnan.

Af samhenginu má ráða að vísindamennirnir sem greinina rita segi þarna að leitað sé að ákveðnum eiginleikum í erfðasamsetningu laxins. Ég er ekki viss um að orðalagið sé rangt en hefði sjálfur orðað þetta á annan hátt. Að öðru leyti er greinin vel skrifuð og skipulega.

Tillaga: Því má segja að þessi ræktunaraðferð sé í raun fiskeldi, þar sem ákveðnir eiginleikar eru valdir.


Aðilar, vettvangur og áfram eða enn ...

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

Selar

Í pistli þann 4.2.2019 var rætt um snjóþekju. Í því sambandi var lýst skafrenningi sem skildi eftir sig snjórendur á veginum en autt á milli. Fyrir tilviljun rakst ég á netinu á ræðu frá málþingi á Breiðdalssetri 8. til 9. júní 2013 og í ræðu um allt annað segir Margrét Jónsdóttir:

Eftir konu að vestan er t.d. haft:

Fyrir vestan voru það kallaðir selar, þegar skóf þvert á veg og mynduðust litlir skaflar. Mér hefur vel dottið í hug, að þetta sé hljóðvilla fyrir silar, því að hún var þarna til.

Þetta er fróðlegt. Samkvæmt orðabók merki sögnin að selaskamma eða hrakyrða, en silar finnst ekki.


1.

„Fyrstu aðilar á vett­vang notuðu duft slökkvi­tæki sem slógu veru­lega á eld­inn en eft­ir að dælu­bif­reið kom á vett­vang gekk slökkvistarf greiðlega. 

Frétt á mbl.is.      

Athugasemd: Allir eru nú orðnir aðilar sem er ekki alveg samkvæmt merkingu orðsins. Á malid.is segir:

Athuga að ofnota ekki orðið aðili. Fremur: tveir voru í bílnum, síður: „tveir aðilar voru í bílnum“. Fremur: sá sem rekur verslunina, síður: „rekstraraðili verslunarinnar“.

Oft eru til góð og gegn orð í málinu sem fara mun betur en ýmsar samsetningar með orðinu aðili. 

Í fréttinni er aðili ekkert annað en maður, kona eða fólk. Notum það frekar heldur en einstaklingur, manneskja eða aðili. Athugið að þrjú síðarnefndu orðin eru að sjálfsögðu góð og gild í réttu samhengi.

Nafnorðið vettvangur er dálítið ofnotað í fjölmiðlum og tengist nær alltaf fréttum um lögreglu. Þar er stofnanamállýskan landlæg og hún smitar blaðamenn um leið og þeir skrifar um lögguna. Svona er nú virðingin mikil fyrir yfirvaldinu.

Stundum er hægt að sleppa orðinu aðilar án þess að merkingin breytist. Held líka að slökkvitækin hafi ekki slegið á eldinn heldur duftið er því var sprautað á hann.

Svo má velta því fyrir sér hvaða not var af „dælubílnum“ ef aungvir voru slökkviliðsmennirnir, en hér er komið út í algjör smáatriði.

Tillaga: Þeir sem komu fyrstir notuðu duftslökkvi­tæki og við það sló veru­lega á eld­inn en eft­ir að dælu­bif­reið kom á vett­vang gekk slökkvistarf greiðlega.

2.

Áfram mælist óróleiki í Öræfajökli. 

Fyrirsögn á blaðsíðu 6 í Morgunblaðinu 5. febrúar 2019.     

Athugasemd: Atviksorðið áfram merkir hreyfingu; halda uppteknum hætti, viðstöðulaust. Sjá umfjöllun um áfram hér.

Jónas Hallgrímsson orti í ljóði sínu Ísland:

Það er svo bágt að standa í stað, því mönnunum munar annaðhvort aftur á bak ellegar nokkuð á leið.

Skáldið freistaðist ekki til að nota atviksorðið áfram enda hefði stíll ljóðsins skaðast verulega:

Það er svo bágt að standa í stað, því mönnunum munar annaðhvort aftur á bak ellegar smávegis áfram.

Nei, svona gera ekki stórskáld og ástæðan er líka sú að stíll er svo óskaplega mikilvægur í öllum tungumálum, ekki aðeins í ljóðum heldur líka í óbundnu máli. Orðin á að velja af kostgæfni, ekki bara vegna þess að þau henti. Þetta mega blaðamenn hafi í huga.

Vel má vera að atviksorðið áfram í fyrirsögninni standi eins og frumlag og það rugli lesandann. Orðalagið hefði má vera svona:

Óróleiki mælist áfram/enn í Öræfajökli.

Þarna er frumlagið komið á „réttan“ stað og ekkert truflar nema orðið áfram sem mætti skipta út fyrir atviksorðið enn.

Ég kemst ekkert lengra með þetta en hvet þá sem vita betur að senda mér athugasemd.

Tillaga: Enn mælist óróleiki Öræfajökli.


VG sér eftir að hafa stutt tillögu um ESB -umsókn

Mín skoðun er sú að það hefði verið betra, að það hafi ekki verið rétt ákvörðun hjá okk­ur, sem þó stóðum að því að fella þá til­lögu, að fella hana.

Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður VG, á þinginu í dag um aðildarumsókn að ESB í júlí 2009.

Þetta er stórmerk yfirlýsing þó nú endurtaki Katrín það sem áður hefur komið fram. Aðildarumsóknin klauf VG í herðar niður, olli jafnvel vinslitum. Gera má ráð fyrir því að yfirlýsingin njóti nú stuðnings meginþorra þingflokksins og flokksins sjálfs. Margt bendir til að flokkurinn hafi verið á móti aðildarumsókninni árið 2009.

Eftir stendur Samfylkingin sem lagði megináherslu í vinstri stjórninni á að koma þjóðinni inn í Evrópusambandið og það án þess að spyrja þjóðina álits. Flokkurinn er enn sömu skoðunar. Viðreisn er við sama heygarðshornið og skiptir engu þó allt virðist í kalda koli í ESB, Evran standi völtum fótum og fjölmörg ríki eigi vegna hennar í efnahagslegum erfiðleikum. 

Sjálfstæðiflokkurinn vildi þjóðaratkvæðagreiðslu áður en þingið samþykkti aðildarumsókn. Þáverandi ríkisstjórnarflokkar, VG og Samfylkingin felldu tillöguna. Hlógu í raun að henni.

Katrín sagði líka þetta á Alþingi í dag og var líklega ekki hlátur í huga:

Það er stór­mál, meiri­hátt­ar mál, að ákveða að fara í slík­ar aðild­ar­viðræður og því vil ég segja hátt­virt­um þing­manni að ég hef sagt það síðan, eft­ir að hafa ígrundað þessi mál og farið yfir þau tölu­vert vel, ekki síst á vett­vangi minn­ar hreyf­ing­ar, að ég myndi telja óráð að ráðast í slíka um­sókn á nýj­an leik án þess að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla.

Aðalatriðið er að um leið og ríki ESB samþykkja aðildarumsókn hefst ferli sem nefnist aðlögunarviðræður, ekki samningaviðræður. Þær felast í því að aðlaga lög og reglur umsóknarríkisins að stjórnarskrá sambandsins, Lissabonsáttmálanum.

Líkur benda til þess að forystumenn VG hafi ekki vitað hvað fólst í aðildarumsókninni. Forystumenn VG héldu að þetta væru samningaviðræður og Samfylkingin gerði ekkert til að leiðrétta misskilninginn. Forysta hennar hló en fékk verðskuldaða útreið í þingkosningunum 2013 og féllu þá helstu ESB-sprautur flokkins af þingi.


mbl.is Hefðu átt að halda þjóðaratkvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband