Vatnsskarðið, vara sem þú fílar og velja fyrir einhverju

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

Lesendur geta sent tilvitnanir
 eða athugasemdir um málfar á
netfangið: sigurdursig@me.com.

Gæði

Athuga muninn á merkingu íslenska orðsins gæði (skylt góður) og erlendu orðanna kvalitet, quality o.s.frv. sem borið geta fremur hlutlausa merkingu: eiginleikar. 

Í íslensku er unnt að tala um góða eiginleika en illa er talið fara á orðalaginu „góð gæði“ og „léleg gæði“. Fremur: mikil gæði, lítil gæði.

Málfarsbankinn á vef Árnastofnunar

 

1.

„Runnu út af veg­in­um í Vatnsskarðinu. 

Frétt á mbl.is.      

Athugasemd: Almennt er ekki hafður ákveðinn greinir á örnefnum, samt eru margar undantekningar frá þessu. 

Sumir ganga á Esjuna þó svo að betur fari á því að ganga á Esju. Vinsælt er að ganga á Hvannadalshnúk en fæstir tala um Hvannadalshnúkinn eða Öræfajökulinn. Fjöldi fólks ekur yfir Hellisheiðina, vera má að færri segist aka yfir Hellisheiði. Ekið er yfir Holtavörðuheiði, varla Holtavörðuheiðina. Surtsey er friðuð, ekki Surtseyjan er friðuð. 

Ekkert er hins vegar við það að athuga þótt fólk ætli inn á öræfin sem eru ekki Öræfi. 

Tillaga: Runnu út af veginum í Vatnsskarði.

2.

„Stórverslunin Costco hentar þeim sem vilja gera magninnkaup vel. 

Frétt á dv.is.      

Athugasemd: Þetta er nú meira bullið og ekki nóg með það, öll fréttin er stórskemmd, orðalagið þannig að fæstir skilja hvorki upp né niður. Hvernig er hægt að „gera magninnkaup vel“? Hér færi betur að kaupa mikið, mikið magn er einfaldlega mikið.

Á vefsíðunni er farið yfir að verslunin geti boðið ódýrar vörur því aðeins sé takmarkað magn til af þeim.

Þetta illa skrifað. Er ekki einfaldara að segja að á vefsíðunni komi fram að verslunin geti boðið ódýrar vörur en aðeins í takmörkuðu magni?

Í lok fréttarinnar er lesandi allt í einu ávarpaður sem er óvenjulegt í frétt:

Þannig að ef þú sérð stjörnumerkið á vöru sem þú fílar þá ættir þú að hafa hraðar hendur og kaupa eins mikið af henni og þú getur.

Greinilegt er að blaðamaðurinn er algjör byrjandi og er alls ekki vanur skrifum. Hann heldur eflaust að „fíla“ sé íslenska. Orðalagið „þannig að ...“ er algjörlega óþarfi enda breytist ekkert sé því sleppt.

Tillaga: Stórverslunin Costco hentar þeim sem vilja kaupa mikið í hvert skipti sem verslað er.

3.

„Því má segja að þessi ræktunaraðferð sé í raun fiskeldi – þar sem verið er að velja fyrir ákveðnum eiginleikum. 

Úr aðsendri grein á blaðsíðu 41 í Morgunblaðinu 7. febrúar 2019.     

Athugasemd: Ég er ekki viss um að ég skilji þetta. Það sem truflar er orðalagið að velja fyrir.

Orðið fyrir getur verið forsetning en einnig atviksorð. Á vefnum malid.is segir:

Orðið fyrir stendur yfirleitt sem forsetning, hann er fyrir mér, hann gerði þetta fyrir mig.

Í eftirfarandi setningu flokkast fyrir hins vegar sem atviksorð það snjóar fyrir sunnan.

Af samhenginu má ráða að vísindamennirnir sem greinina rita segi þarna að leitað sé að ákveðnum eiginleikum í erfðasamsetningu laxins. Ég er ekki viss um að orðalagið sé rangt en hefði sjálfur orðað þetta á annan hátt. Að öðru leyti er greinin vel skrifuð og skipulega.

Tillaga: Því má segja að þessi ræktunaraðferð sé í raun fiskeldi, þar sem ákveðnir eiginleikar eru valdir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband