Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Óþekktir yfirburðir, eftirköst og drasla til

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

Þýða er ekki þíða

Sé maður ekki alveg smekklaus finnst manni sögnin að affrysta ljót en sögnin að þíða falleg. 

Í stað þess að „affrysta“ mat skulum við þíða hann. Hann þiðnar þá, í stað þess að „affrystast“ (affrjósa?) og verður þiðinn í stað þess að verða „affrosinn“ (affreðinn?). 

En þíðum hann alltaf með í-i.

Málið á blaðsíðu 52 í Morgunblaðinu 14.3.2019.

 

1.

„Þingið hefur nú tvisvar fellt með óþekktum yfirburðum „eina samninginn sem völ er á“.“

Leiðari Morgunblaðsins 14.3.2019          

Athugasemd: Þetta er skrýtið. Höfundur er að segja frá vandræðum bresku ríkisstjórnarinnar vegna Brexit, brottför landsins úr ESB. Breski forsætisráðherrann á í miklum vandræðum í þinginu. Hann segir að samningurinn hafi verið felldur með „óþekktum yfirburðum“.

Hvað er óþekkt? Atkvæðagreiðslan í breska þinginu þann 10. mars fór þannig að 391 greiddi atkvæði gegn og 242 með. Ekkert er þarna óþekkt nema óþekktin í þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna sem greiddu ekki atkvæði eins og ríkisstjórnin vildi.

Þegar leiðarahöfundur talar um „óþekkta“ yfirburði á hann við að þeir hafi verið meiri en áður hafa þekkst. Orðalagið er út ensku. Enskumælandi segja: „Something is unheard of“. Við tölum á annan veg hér á landi nema ætlunin sé að útbreiða „ísl-ensku“. Ekki má samt nota lýsingarorðið „óheyrilegur“ í þessu sambandi.

Það sem er óþekkt er ekki þekkt. Danmörk sigraði Ísland með fjórtán mörkum gegn tveimur og er fátítt að lið vinni með slíkum yfirburðum í fótbolta (ekki „óþekktum“ yfirburðum).

Tillaga: Þingið hefur nú tvisvar fellt „eina samninginn sem völ er á“ með meiri yfirburðum en þekkst hafa í atkvæðagreiðslum í breska þinginu.

2.

Eftirköst Christchurch-árásarinnar rétt að byrja.“

Frétt á blaðsíðu 15 í Morgunblaðinu 18.02.2019.         

Athugasemd: Hér eru stuttar vangaveltur um merkingu fyrirsagnarinnar, sérstaklega nafnorðsins eftirköst. Er ekki alveg viss um hvort blaðamaðurinn átti sig á orðinu. Af efni fréttarinnar má ráða að ekki er víst að eftirköstin séu öll slæm.

Í hugum flestra merkir orðið neikvæðar afleiðingar. Til dæmis er hausverkur oft eftirköst of mikillar áfengisdrykkju. Setji ég dísil á bensínbíl verður hann ógangfær, það eru slæm eftirköst. 

Sá sem kaupir lottómiða myndi aldrei orðað það sem svo að vinningurinn sé eftirköst kaupanna. Ekki heldur eru það eftirköst að fá afslátt við kaup á vöru.

Að þessu sögðu væri skárra að nota orðið afleiðingar. Til dæmis telja margir að takmarkanir á byssueign séu nauðsynleg aðgerð en aðrir eru ósammála.

Tillaga: Afleiðingar árásanna í Christchurch eru margvíslegar.

3.

Hann draslar til – rífur kjaft og hundsar allt sem hann er beðinn um.“

Frétt á dv.is.         

Athugasemd: Sögnin að drasla er alþekkt. Þegar einhver draslar þarf hinn sami eða aðrir að taka til. Þannig gerast hlutirnir á bestu heimilum, vinnustöðum og jafnvel úti í sjálfri náttúrunni. Annars er þetta skemmtileg frétt á DV, fjallar um unglinginn sem á að vísa út af heimilinu því hann draslar svo mikið. Og unglingurinn er köttur.

Stundum renna sama orð og orðasambönd. Sá sem tekur til segist gera það vegna þess að einhver „draslaði til“. Þetta síðasta er auðvitað bull. 

Á malid.is segir: 

‘draga með erfiðismunum, róta e-u til; slarka, svalla’ … so. drasla virðist auk þess nafnleidd af *drasil-, sbr. drösla af drösull (2) (s.þ.). Sjá drasa og dræsa.

Gaman er að sjá þarna tenginguna við drösul, þá glaðnar yfir mörgum. Á malid.is segir um það orð:

‘hestur; †hestsheiti’. Uppruni óljós. Orðið hefur verið tengt við gr. (lesb.) thérsos ‘hugrekki’, sbr. gotn. gadaursan ‘dirfast’. Vafasamt. E.t.v. fremur sk. drösla og eiginl. s.o. og drösull (2). 

Ýmsir hafa haft það á móti þessari ættfærslu að hestsheitið hljóti að vera hrósyrði, en slíku er valt að treysta, nöfn af þessu tagi eru oft tvíhverf og heitið hefur e.t.v. í upphafi merkt taumhest, beislisfák eða jafnvel staðan hest.

Má vera að Jónas Hallgrímsson hafi ekki haft gæðing í huga er hann orti:

Drottinn leiði drösulinn minn,
drjúgur verður síðasti áfanginn.

Þetta er auðvitað úr ljóðinu Sprengisandur. Furðulegt er annars hvað mann rekur langt í spjalli um orð. 

Tillaga: Hann draslar, rífur kjaft og hundsar allt sem hann er beðinn um.

 


Grani er genginn aftur, aldrei gráðugri, gleymd er Geirríður

Í þenna tíma kom út Geirríður, systir Geirröðar á Eyri, og gaf hann henni bústað í Borgardal fyrir innan Álftafjörð. Hún lét setja skála sinn á þjóðbraut þvera og skyldu allir menn ríða þar í gegnum. Þar stóð jafnan borð og matur á, gefinn hverjum er hafa vildi. Af slíku þótti hún hið mesta göfugkvendi.

Svo segir í Eyrbyggju. Frá upphafi Íslandsbyggðar var öllum heimil för um landið og hefur það verið lengst af síðan, þó með lítils háttar takmörkunum.

Frá örófi alda hefur stærð jarða miðast fyrst og fremst við þau hagnýtu not sem hafa mátti af þeim og þá eingöngu til búskapar. Utan heimajarða hafa menn átt ítök í skógum til eldviðar eða kolagerða, stærri svæða sem afrétti, en um eignir var aldrei um að ræða því hver hefði viljað eiga stærri lönd en hann réði við að annast og hver hefði getað selt slík lönd. Varla hefur nokkur maður átt heiðarnar, fjöllin, miðhálendið og jöklanna svo eitthvað sé nefnt. 

Getur einhver haldið því fram að eigandi einfaldrar bújarðar eigi hreinlega fjallið fyrir ofan bæinn? Fjall sem er ekkert annað en fljúgandi björg og skriður þar sem varla sést stingandi strá né nokkur maður eða skepna hafi farið um.

Það er án efa ekkert annað en forn lygisaga að jörðin Reykjahlíð sé svo landmikil að hún eigi land allt suður að þeirri mörkum þeirrar bújarðar er áður var nefnd Skaftafell en er nú hluti af samnefndum þjóðgarði? 

Menn hafa frá upphafi landnáms á Íslandi deilt um lönd og landamerki og það er ekki nýtt að landeigendur grípi til margvíslegra ráða til að „stækka" jarðir sínar. Ár, lækir og sprænur hafa breytt um farveg, jafnvel þornað upp. Jöklar hafa gengið fram og eyðilagt lönd og hundruðum ára síðar hörfað. Hver á nú það land sem áður var hulið jökli? Stækkar land aðliggjandi jarða við það eitt að jökullinn hörfar eða verður til eitthvert tómarúm?

Hvar er steinninn stóri sem áður markaði línu til austurs í fossinn og hvort á að miða við fossinn eða miðja ána en ekki þennan eða hinn bakkann? Jú, steinninn þekkist ekki lengur og fossinn og áin eru löngu horfin og til hvaða ráða má þá grípa ef upp sprettur deila? 

Ef til vill munar einhverjir eftir röksemdum lögmanns Austur-Eyjafjallahrepps sem þá hét, er ráðist var með gjafsókn dómsmálaráðuneytisins að ferðafélaginu Útivist fyrir það eitt að endurbyggja ónýtan skála efst á Fimmvörðuhálsi, í 1000 m hæð yfir sjávarmáli. Í málflutningi lögmannsins sem nú er umboðsmaður Alþingis var því haldið fram að skálinn stæði innan landamerkja tiltekinnar jarðar sem þó var eitt þúsund metrum neðar og í 18 km fjarlægð. Hvernig það gat gerst að jörð gæti átt „land" þar sem jökull hafði verið í hundruð ára fékkst aldrei útskýrt. Auðvitað var hreppurinn gerður afturreka með bull sitt.

Landeigendur bera oft fyrir sig þinglýsingar á landamerkjum. Á móti má spyrja hversu góð og ábyggileg gögn þinglýsingar eru, sérstaklega fornar? Dæmi eru til að hér áður fyrr hafi verið þinglýst bréfum sem gamalt fólk hafði handskrifað á bréfsnifsi um landamerki bújarða sinna, byggt á minni eða sögusögnum og yfirleitt óvottfest. Þannig gögn og fleiri af því tagi geta auðvitað ekki staðist og skiptir engu hversu gamlar þinglýsingarnar eru,

Menn hafa eðlilega leitað gagna í fornbréfasöfnum um landamerki en grunur leikur jafnvel á að þaðan hafi gögn verið numin á brott til þess eins að koma í veg fyrir að sönnunargögn finnist um deilumál.

Hugsanlega hefði fjármálaráðuneytið getað staðið öðru vísi að kröfum sínum í þjóðlendumálunum, en það er fjarri öllu lagi, að ráðuneytið hefði átt að láta hagsmuni landeigenda ráða ferðinni. Það eru meiri hagsmunir í húfi en landeigenda, og því er sú krafa eðlileg, að landeigendur fari aðeins með það land, sem þeir geti fært sönnur á að þeir eigi, - á því byggist eignarétturinn. Það er ekki eignaréttur né heldur er það sanngjarnt að Alþingi samþykki viðbótarlandnám mörgum öldum eftir að landnámi lauk.

Breytingar á landnotkun hafa orðið gríðarlegar á undanförnum árum. Nám ýmiskonar er orðið mjög ábatasamt, virkjanir, ferðaþjónusta, vegalagning, uppgræðsla og fleira og fleira má upp telja. Í þessu sambandi man ég eftir óbilgjarnri kröfu fyrrverandi eigenda jarðarinnar Fells sem töldu sig eiga Jökulsárlón við Breiðamerkurjökul. Þeir gerðu einu sinni kröfu til þess að öllum myndatökum við Lónið væri hætt nema til kæmi greiðslur til þeirra!

Hver á Heimaklett í Vestmannaeyjum, Hamarinn í Vatnajökli eða Heljarkamb og Morinsheiði? Er til þinglýstur eigandi að Stapafelli undir Jökli, Sátu, Skyrtunnu og Kerlingunni í Kerlingarskarði. Hver á Tröllkallinn eða Böllinn við Ballarvað í Tungnaá? Og hver skyldi nú eiga Móskarðshnúka?

Þjóðlendulögin eru of mikilvæg til þess að þrýstihópur landeigenda megi fá nokkru ráðið um framgang þeirra. Ástæðan er fyrst og fremst sú að þá munu þeir girða lönd, ganga á rétt ferðamanna og heimt toll.

Hins vegar skipir nú mestu máli hver sé réttur okkar hinna, okkar landlausu landsmanna. Eigum við að láta hirða af okkur þau rétt sem landsmenn hafa haft haft sátt um á Íslandi frá upphafi byggðar? Eigum við að sætta okkur við það að meintir landeigendur girði lönd sín rétt eins og gert er uppi á Hellisheiði þar sem girðing hefur verið reist yfir forna þjóðleið.

Vera má að sumir landeigendur beri hag náttúrunnar sér fyrir brjósti. Það var þó ekki fyrr en fyrir um tuttugu árum að landeigendur fóru að sjá tekjuvon vegna fjölgunar ferðamanna. Fram að þeim tíma voru margar jarðir aðeins byrði á eigendum þeirra. Nú vilja fleiri og fleiri loka aðgangi að náttúruminjum, rukka fyrir aðganginn, og jafnvel eru þeir til sem vilja meina för fólks um óbyggði og ónýtt svæði nema gegn greiðslu.

Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir:

Á Stað á Ölduhrygg (Staðastað) bjó í gamla daga bóndi sá, er Grani hét; var hann bæði ágjarn og auðugur. Alfaravegurinn lá um landeign hans eptir endilaungum Ölduhrygg sem nú er kallað Staðarholt, og verður enn í dag að fara um þennan veg, er ferðast er vestur undir Jökul eða þaðan inn á Mýrar eða í Dali, enda er vegur sá mjög fjölfarinn, bæði til kauptúnanna Ólafsvíkur og Búða, og til skreiðarkaupa vestur i „pláss", sem kallað er, en það er Hjallasandur, Keflavík, Ólafsvik, og Brimilsvellir.

Grani bóndi þóttist nú geta náð miklu fé, ef hann tollaði veginn; byggði hann því afar mikinn torfgarð neðan frá sjó og upp í Langavatn (Staðarvatn). Hlið hafði hann á garðinum, þar sem vegurinn er, en veitti eingum fararleyfi, nema þeim, er greiddu Granatoll. Óljóst er með öllu, hve hár hann hefir verið, en illa undu menn tollgreiðslu þessari, enda launuðu þeir Grana bónda hana "því einhvern morgun fanst hann dauður hangandi við annan dyrastafinn í garðshliðinu.

Hefir sá vegur aldrei verið tollaður síðan. Það er auðséð á garðrúst þeirri, sem eptir er, að hann hefir verið ákaflega hár og þykkur, og leingd hans hér um bil 300-400 faðmar.

Segja má með sanni að nú sé Grani genginn aftur og illa magnaður. Gleymd er Geirríður í Borgardal.

 

 


mbl.is Segja ráðherra skapa ófremdarástand
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hætti Sigríður eða steig hún til hliðar ....?

Ég er að velta því fyrir mér hvort Sigríður Andersen dómsmálaráðherra hafi „stigið til hliðar“ eða hætt sem ráðherra.

Mér finnst lágmarkið að þingmenn, ráðherrar og ekki síst fjölmiðlamenn tali íslensku en grípi ekki til enskuskotinnar íslensku sem fæstir skilja.

Það er ekkert til sem heitir að „stíga til hliðar“ í þeirri merkingu að hætta. Sá sem gerir hið fyrrnefnda er að víkja sem þýðir ekki að hætta. Í malid.is segir:

‘þoka sér, fara, hörfa; halda til, stefna að; veita, gefa,…’

Þetta orðasamband er orðið frekar þokukennt og enginn veiti eiginlega hvað það þýðir. Á ensku er tíðum sagt „to step down“ eða „to step aside“. Af samhenginu má þá stundum skila að einhver hafi hætt. Við höfum orð á íslensku yfir flest sem til er. Engin ástæða er til að gefa einhvern afslátt af tungumálinu okkar.

Undantekningin eru glímumenn er dómarinn kallar „stigið“ og þeir stíga til hliðar, aftur eða fram til að ná hælkrók eða einhverju öðru bragði.

Sjá nánar um þetta hér.

 


mbl.is Dómsmálaráðherra stígur til hliðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynvíxl, næstefstudeildarlið og met fyrir hraðasta róður

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

 

1.

„Þá sagðist hún væri hætt að reka nuddstofur og væri að flytja til Washington DC. Yang segist þar að auki ekki þekkja Trump persónulega. Hann hafi bara starfað sem sjálfboðaliði á kosningatengdum viðburðum og hafi sótt einhverja viðburði í klúbbum hans.“

Frétt á vísir.is.          

Athugasemd: Fljótfærni blaðamanna fer illa með fréttir á Vísi. Hér fyrir ofan eru þrjár málsgreinar. 

Í þeirri fyrstu er í óbeinni ræðu sagt frá því að kona nokkur Cindy Yang væri að flytja til höfuðborgar Bandaríkjanna. 

Í næstu málsgrein er sagt að frú Yang þekki ekki Donald Trump, forseta, persónulega.

Í þriðju málsgreininni er frú Yang orðin karlmaður nema því aðeins að það sé forsetinn sem hafi starfað sem sjálfboðaliði á „kosningatengdum“ viðburðum (hvað sem það nú þýðir). Má vera að þetta geti kallast kynvíxlun.

Þar sem ég skildi ekki fréttina og fletti ég upp í heimildinni sem er vefútgáfa Miami Herald. Þar segir:

Yang told the Miami Herald she doesn’t know the president personally, and that she doesn’t work for him, other than to volunteer for campaign events.

Hér með er ljóst að blaðamaðurinn klúðraði þýðingunni, las greinilega ekki yfir textann sinn áður en hann var birtur. Skipta gæði frétta blaðamanninum engu máli eða stjórnendum vefsins? Er markmiðið bara að freta út orðum án skiljanlegs samhengis.

Svona lagað kallast skemmdar fréttir.

Tillaga: Engin tillaga gerð

2.

Valsmenn lentu í kröppum dansi við næstefstudeildarlið Fjölnis en sluppu með skrekkinn í framlengingu.

Undirfyrirsögn á blaðsíðu 2 í íþróttablaði Morgunblaðsins 9.3.2019.          

Athugasemd: Af hverju geta íþróttablaðamenn ekki talað venjulegt mál? Og hafa þeir engan skilning á stíl?

Nýyrðið „næstefstudeildarlið“ er bráðskemmtilegt en tóm þvæla. Með þetta í huga mætti búa til fleiri álíka. Dælmi: „Þriðjuefstudeildarkvennavaralið“ eða „fjórðuefstudeildarkarlavaramannabekkjarþaulsetuunglingar“. Jú, bráðfyndið er enn meiri þvæla.

Aðalatriðið er að skrifa skiljanlegt mál, ekki bjóða lesendum upp á málalengingar eða dellu.

Tillaga: Valsmenn sluppu naumlega úr kröppum dansi við Fjölni úr 2. deild.

3.

Sló met fyr­ir hraðasta róður yfir Atlants­haf.

Fyrirsögn á mbl.is. 

Athugasemd: Þetta er biluð fyrirsögn. Fréttin fjallar um mann sem réri yfir hafið á 36 dögum. Enginn einn hefur róið hraðar.

Fréttin er frekar illa skrifuð. Skrýtið þetta orðalag að „slá met fyrir …“. Hef aldrei heyrt um spjótkastara sem „slær met fyrir spjótkasti“ eða hlaupara sem „slær met fyrir 5000 m hlaupi“. Þannig er ekki tekið til orða á íslensku.

Afreksmenn slá met í spjótkasti eða 5000 m hlaupi. Einfætt ræðarinn sló met í róðri yfir Atlantshafið.

Í fréttaskrifum er yfirleitt reynt að komast að kjarna málsins sem fyrst. Þetta á við alla miðla. Mjög slæmt þykir þegar blaðamaðurinn rekur frásögn í beinni tímaröð og endar síðasta af öllu á því sem öllu máli skiptir. Lesandi eða hlustandi nennir ekki bíða eftir kjarna málsins.

Meðróðurinn var aðalatriðið. Hitt sem máli skiptir er að ræðarinn var einfættur. Svo má vel vera að hann hafi verið með suð í eyrum eða kartnögl á vinstri hendi.

Stíllaus fréttaskrif eru orðin afar algeng. Margir blaðamenn fálma út í loftið, sjá ekki aðalatriðin, skrifa orð án nokkur samhengis, reyna ekki að skrifa samhangandi frásögn. Enginn virðist leiðbeina nýliðum í blaðamennsku og afleiðingin er agaleysi og skemmdar fréttir.

Tillaga: Sló hraðamet í róðri yfir Atlantshaf.

4.

Tug­ir góðra hjarta hætt­ir að slá.

Fyrirsögn á mbl.is. 

Athugasemd: Þetta er ekki rétt því tugur góðra hjartna hættu að slá.

Hjarta beygist eins í öllum föllum eintölu: Hjarta, hjarta, hjarta hjarta. 

Í fleirtölu er beyging þessi: Hjörtu, hjörtu, hjörtum, hjartna.

Þar sem hjörtun er sagnorð í fleirtölu hættu þau að slá.

Fyrirsögnin er algjörlega ómögulegt. Jafnvel þó hún sé leiðrétt verður hún áfram hallærisleg. 

Skáldlegt, rómantískt eða háfleygt orðalag verður einfaldlega ljótt ef höfundinum hlekkist á í málfræðinni. Þess vegna fer betur á því að blaðamenn skrifi einfalt og skiljanlegt mál. Málskrúð á sjaldnast við í fréttum.

Tillaga: Tugir fólks í mannúðarmálum létust í flugslysi.


Garðar um Garðar, borgarstjóri, borgarritari, borgar þetta og borgar hitt

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

 

Málvilla og rangt mál

Ég nota hér blygðunarlaust hið gildishlaðna hugtak málvillu, tala um rangt mál, rangt val falla o. s. frv.

En auðvitað neita ég ekki vandkvæðunum sem á því eru að úrskurða um rétt og rangt í máli; þar geta á endanum orðið að gilda geðþóttadómar þeirra sem tekst að fá sig viðurkennda sem smekkmenn í málsamfélaginu á hverjum tíma. 

Helst er gerræðissvipur á fordæmingu hinna reglubundnu málvillna; þær eru sjaldnast að neinu ótvíræðu leyti betri né verri en aðrar málbreytingar sem viðurkenningu hafa hlotið, en brjóta að vísu gegn því markmiði að málið breytist sem hægast. 

Auðveldara er að fordæma óreglulegu málvillurnar því að fyrir þær verður málnotkun manna sjálfri sér ósamkvæm og beiting þeirra á reglum málsins flóknari en vera þyrfti.

Helgi Skúli Kjartansson, Eignarfallsflótti uppástunga um nýja málvillu, neðanmálsgrein á blaðsíðu 90 í Íslensk og almenn málfræði 1979.

Örnefni

Helgi er karlmannsnafn og Helga kvenmannsnafn. Til er sögnin að helga, nafnorðið helgi og lýsingarorðið helgur. 

Flestir þekkja fjallið Helgafell sem er á Þórsnesi, skammt frá Stykkishólmi. Sjö fjöll til viðbótar bera nafnið Helgafell, sjá hér. 

Til eru sjötíu og fjögur örnefni á landinu kennd við helgi eða Helga. Til dæmis er til Helgabakki, Helgadalur, Helgafellsdalur, Helgaflóð, Helgagil, Helgagöngur, Helgahausmýrar, Helgaleiði, Helgamelur og Helgastaðaslý.

Áttatíu og sjö örnefni eru kennd við Helgu. Þar af eru til tuttugu og átta sem nefnast Helguhóll og tvö Helguhólar. Önnur dæmi eru Helgubrekka, Helgusneiðar, Helguhólanibbur, Helguhvammar, Helgukvísl, Helgulág, Helguhólaflói, Helguskarð og Helgusker.

 

1.

„Út úr ársreikningunum má meðal annars lesa hvað bankarnir höfðu í þjónustutekjur (einnig kallað þóknanatekjur) á síðasta ári en þjónustutekjurnar, sem bæði eru innheimt af einstaklingum og fyrirtækjum, koma meðal annars til vegna gjalda sem innheimt eru vegna greiðslukorta og af lánum og vegna innheimtu- og greiðsluþjónustu.“

Frétt á vísir.is.          

Athugasemd: Þetta er illa skrifuð og allof löng málsgrein, 47 orð, 326 áslættir. Í tillögunni hér fyrir neðan eru aðeins 27 orð og 208 áslættir. 

Annað hvort má draga þá ályktun að blaðamaðurinn hafi ekki lesið fréttina sína yfir eða hann kunni ekki betur til verka. Hvort tveggja er afar slæmt.

Þolmyndin getur í sumum tilvikum skapað rugling. Þarna er sagt að þjónustutekjurnar séu innheimtar af einstaklingum og fyrirtækjum. Auðvitað er það rangt, þeir greiða gjöldin, innheimta þau ekki. Má vera að blaðamaður eigi við að bankarnir innheimti gjöld af einstaklingum og fyrirtækjum. Sé svo er orðalagið klúður.

Tafsorð og málalengingar einkenna oft skrif byrjenda. Ekki eru allir góðir sögumenn. Dæmi um slíkt er orðalagið „má meðal annars lesa“. Hér dugar að nota sögnina að vera.

Blaðamaðurinn skilur ekki nástöðu. Þetta langa orð þjónustutekjur kemur tvisvar fyrir. Einu sinni er nóg í einni málsgrein. Hér kemur það fyrir í sömu setningunni sem er furðulegt, má vera að það sé einhvers konar afrek.

Svo er það orðalagið; „koma meðal annars til“. Því er ofaukið, segir ekkert.

Forsetningin vegna sem kemur þrisvar fyrir í málsgreininni. Það kallast nástaða. Eitt skipti er nóg, fleiri skipti teljast ekki blaðamanni til hróss.

Hægt er að gera athugasemdir við fjölmargt í fréttinni. Hér skal látið nægja að nefna sundurlausa frásögn, aragrúa af nástöðu, tafsi, hugsunarlausa notkun á aukafrumlaginuþað“, of langar málgreinar og fleira. 

Fréttin er stórskemmd og ekki bjóðandi neytendum.

Tillaga: Í ársreikningunum síðasta árs eru birtar þjónustutekjur bankanna (einnig nefndar þóknanatekjur). Þær eru gjöld sem viðskiptavinir greiða vegna greiðslukorta og lána sem og innheimtu- og greiðsluþjónustu.

2.

Garðar er tíu árum yngri en Garðar fetaði sína braut, var seinn til enda tók hann seint út fullan þroska.

Frétt á dv.is.         

Athugasemd: Blaðamaður sem hvorki les yfir skrif sín og getur ekki sagt skammlaust frá ætti að starfa við eitthvað annað en fréttaskrif.

Í fréttinni er sagt frá fótboltamanni sem á eldri bræður og í beinu framhaldi af því kemur tilvitnaða málsgreinin sem er einfaldlega hlægilega vitlaus.

Nástöðurnar drepur frásögn. Skilja má upphafið svo að maðurinn sé tíu árum yngri en hann sjálfur.

Spyrja má hvað þroski mannsins komi frásögninni við. Ekkert styður við þessi orð og því hefði verið betra að sleppa þeim.

Blaðamaðurinn veit ekkert hvenær á að setja punkt eða hver tilgangurinn er með honum.

Mæli með því að sem flestir lesi fréttina í DV. Hún er stórskemmd og vefmiðlinum til skammar en þjónar þó þeim tilgangi að vera víti til varnaðar.

Tillaga: Engin tillaga gerð.

3.

Borgarritari er æðsti embættismaður borgarinnar að borgarstjóra undanskildum og staðgengill í fjarveru borgarstjóra. Hann á því að sjálfsögðu sæti á fundum borgarráðs og er það í samræmi við verklagsreglur um fundi borgarráðs þar sem segir að skrifstofustjóri borgarstjórnar, borgarlögmaður og borgarritari sitji fundi ráðsins.

Frétt á dv.is.         

Athugasemd: Jæja, nú verður manni eiginlega orðfall. Í frétt á vef DV er birt bókun meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur. Við liggur að finna megi lykt af nástöðinni, svo stæk er hún. Um leið er bókunin doldið hlægileg. Borgar hitt og borgar þetta.

Fram kemur að borgarritari er staðgengill borgarstjóra en allir vita að það gerist aldrei nema þegar sá síðarnefndi er fjarverandi. En til að allir skilji nú hvað staðgengill þýðir þurftu höfundarnir endilega að taka það fram að ritarinn væri staðgengill í fjarveru yfirmanns síns. Var það nú ekki of mikið?

Tvisvar er tekið fram að borgarritari sitji fundi borgarráðs. Það kallast óþarfa málalenging. Nóg er af þeim þarna.

Við fyrstu sýn fannst mér það dálítil áskorun að reyna að skrifa betri bókun en meirihlutanum tókst. Hins vegar ber að geta þess að pólitískar bókanir eru oft skrifaðar í flýti og útkoman getur þá orðið bölvað torf. Betra er að fara sér hægt og vanda sig. 

Á tveimur mínútum tókst mér samt að einfalda bókunina og gera hana markvissari. Má vera að þetta sé annað hvort mont eða ádeila á meirihlutann nema hvort tveggja sé.

Tillaga: Borgarritari er næstæðsti embættismaður borgarinnar og staðgengill borgarstjóra. Samkvæmt verklagsreglum skal skrifstofustjóri, borgarlögmaður og borgarritari sitji fundi ráðsins.


Tímapunktur, gúgú og manneskjur

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

Öryggi

Orðið öryggi ber fyrir augu og eyru oft á dag og telst svo auðskilið að við leiðum ekki hugann að því hvernig það sé til komið. Þó er það varla gagnsætt öllum. 

Ör- er neitandi forskeyti og uggur er ótti; öruggur merkir »eiginl[ega] laus við ótta« segir Orðsifjabók, og af því er leitt öryggi.

Málið á blaðsíðu 28 í Morgunblaðinu 6.3.2019.

Örnefni

Á Hornströndum, milli Fljótavíkur og Rekavíkur bak Látur, er fjallið Hvesta. Orðið er framandlegt en hljómmikið og fallegt.

Nokkrir staðið bera þetta nafn að hluta til:DSCN7247b

    1. Hvestuskál er skál eða dalur fremst á fjallinu Hvestu sem áður var nefnt. Þar er líka Hvestutá.
    2. Hvestudalir nefnast dalverpi norðan í fjallinu Hvestu og horfa þeir út á Fljótavík.
    3. Hvesturdalur er við sunnanverðan Arnarfjörð og þar er samnefndur bær. Á korti eru skráð í dalnum Neðrihvesta og Fremrihvesta, á sem heitir Hvestuá, fjallið vestan ár heitir Hvestunúpur
    4. Hvestuholt  er í Ekkilsdal sem er inn af Önundarfirði. Í dalnum er Hvestur, sem líklega er fjall eða fjallsbrún.
    5. Hvestulækur er í Víðidal í Vestur-Húnavatnssýslu. Skammt frá honum er laut sem heitir Hvesta og nálægt er önnur sem nefnist Hvest. Þar fyrir ofan er Hvestarmelur.

Hvaðan skyldi nú orðið Hvesta vera komið. Í Íslenskri orðsifjabók segir:

hvesta kv. (18. öld) ‘hringmynduð lægð; smálaut með hvössum brúnum, t.d. við stein í leirflagi, í snjólagi við stein eða hús eða í lægð,…’. 

Orðið kemur einnig fyrir í örn.[örnefnum], einkum fjallsheitum, og sýnist eiga þar við hvilftir eða hvassar brúnir, sbr. fjallsnafnið Hvesta. 

Einnig kemur fyrir hvest kv. ⊙ ‘hryggskafl, aflöng, brúnhvöss snjórák’.

Myndin er af fjallinu Hvestu sem er á milli Fljótavíkur Rekavíkur bak Látur. Lengst til vinstri er Kögur en myndin er tekin af Straumnesfjalli. Stækka má myndina með því að smella á hana.

1.

„Forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar hafa verið Tottenham skilningsríkir en nú er komið að þeim tímapunkti þar sem ákveða þarf hvar síðustu fimm heimaleikirnir verða leiknir.“

Frétt á vísir.is.          

Athugasemd: Þessi málgrein er klúður, hún er löng og illa samin. Blaðamaðurinn heldur að „tímapunktur“ sé nothæft orð en svo er ekki. Þar að auki veit hann varla ekki hvernig á að nota punkt til að skila á milli efnisatriða í frásögn.

Orðleysan „tímapunktur“ er gjörsamlega óþarft í íslensku máli. Varla þarf að rökstyðja það nánar nóg er að lesa tillögunar hér fyrir neðan.

Tillaga: Stjórn ensku úrvalsdeildarinnar hefur sýnt aðstæðum hjá Tottenham skilning. Nú þarf hins vegar að ákveða hvar síðustu fimm heimaleikirnir verða leiknir.

2.

Hvers vegna eru ís­lensk­ir menn gúgú?

Frétt á mbl.is.           

Athugasemd: Ekki veit ég hvað þetta orð, gúgú, þýðir? Ekki finnst það í íslenskum né erlendum orðabókum. Má vera að þetta sé eins konar útfærsla á slanguryrðinu gaga, sem þýðir tóm vitleysa, heimska eða dómgreindarleysi.

Á malid.is segir um gaga:

‘spotta, hæða’; sbr. nno. gag ‘aftursveigður’, gaga ‘reigja sig aftur á bak, teygja fram höfuðið’, …

Af samhenginu í „fréttinni“ má líklega ráða að konan sem um ræðir telji sig hugsanlega vera skrýtna á einn eða annan hátt. Hins vegar á íslenskan orð um flest og engin ástæða að dreifa rugli sem líklega fæstir skilja. Lágmarkið er að nota gæsalappir og gefa síðan skýringu.

Svo er það hitt, það konan sem um ræðir telur sig vera „gúgu“ en fyrirsögnin segir að menn, það er karlar, séu „gúgú“. Þetta er varla hrósyrði.

Tillaga: Hvers vegna eru íslenskir menn skrýtnir?

3.

Lögregla í Danmörku hefur ákveðið að ákæra fjórtán manneskjur fyrir að deila myndbandi, …

Frétt á visir.is.            

Athugasemd: Á dönsku er til orðið „menneske“. Í gamla daga var manni innrætt að manneskja væri sletta og ætti ekki að nota. Samt lifir orðið enn góðu lífi. Merkingin getur verið maður, það er karl og kona, eða þá eingöngu kona.

Danir nota ekki manneskja eins og við. Vefur danska ríkisútvarpsins er heimild fréttarinnar og þaðan er tilvitnunin hér að ofan er fengin. Þar segir:

Politiet har besluttet at sigte 14 personer for at dele en video, …

Þarna er talað um „personer“, ekki „mennesker“. Persóna er orðið gott og gilt íslenskt orð. Mjög sjaldgæft er að það sé notað um fólk, karla og konur. Flestir myndu telja það rangt mál.

Best er auðvitað að nota menn, en margir setja það fyrir sig.

Árið 1992 rökræddu þingmenn um frumvarp um almenn hengingarlög og þá sagði Hjörleifur Guttormsson og eru þessi orð af vef Alþingis:

Það á að sjálfsögðu að nota karl og kona sem andheiti og maður sem samheiti yfir tegundina maður, en orðið manneskja er alveg hræðilegt orðskrípi samkvæmt minni máltilfinningu og ég vona að menn geti sameinast um að ýta frá í íslensku máli og nota sem allra minnst.

Hins vegar er alveg greinilegt að ýmsir eru farnir að bera sér þetta orð í munn vegna þess að þeim finnst það eitthvað hlutlausara gagnvart konum en orðið maður og segja þá manneskja. 

Hins vegar er ekki innifalið í orðinu manneskja að það þurfi að vera kona frekar en karl út af fyrir sig heldur er það einhver útvötnun á heitinu yfir tegundina maður. 

Löngu síðar, 6. maí 2018, segir á vef Máls og sögu, félags um söguleg málvísindi og textafræði: 

Að nota manneskja í samhengi þar sem maður var áður notað brýtur vitaskuld ekki í bága við íslenska málstefnu, bæði orðin eru til í merkingunni ‘mannvera’. En bent hefur verið á að breytinguna megi skilja þannig að eitthvað sé athugavert við orðið sem var skipt út (orðið maður átti sér þarna áratuga sögu). Þannig sé hætta á að menn taki að forðast að nota það um bæði kynin.

Ástæða er til að hverja lesendur til að kynna sér nánar þessa grein, hún er ekki löng en vel skrifuð.

Líklega hefur lögreglan í Danmörku ákveðið að ákæra bæði karla og konur fyrir að deila myndbandinu. Óhætt er því að segja að löggan ákæri fjórtán menn enda eru bæði karlar og konur menn.

Tillaga: Lögregla í Danmörku hefur ákveðið að ákæra fjórtán menn fyrir að deila myndbandi, …


Eftirsótt gönguleið, suðað samþykki og róa ástandið

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

 

Strendur og strandir

Strönd er til í tveimur útgáfum í fleirtölu: strendur og strandir. 

Sú seinni er miklu sjaldséðari. Hún blasir þó við í örnefni sem oft bregður fyrir nú á ferðamanna- og útivistaröld: Hornstrandir. Það er hreinlega ekki til í hinni útgáfunni. 

Þolfallið er líka strandir, en síðan frá ströndum, til stranda.

Málið á blaðsíðu 24 í Morgunblaðinu 4.3.2019.

Hér má ýmsu bæta við. Skagaströnd við Húnaflóa þekkja allir, einnig Árskógsströnd við Eyjafjörð. Höfðaströnd er til á tveimur stöðum; við sunnanverða Jökulfirði og sama nafni hefur sveitin við austanverðan Skagafjörð.

Til er eyja sem heitir Strönd og er hún í Svefneyjum. Í þeim eyjaklasa er Strandahólmi en nafnið líklega dregið af strandi frekar en strönd. 

Strönd þarf ekki að vera við sjó, hún getur verið við vatn eða á. Stundum geng ég við strönd Elliðavatns. Strönd nefnist graslendi við Laxá í Lóni, æði langt frá sjó og ekkert stöðuvatn í nánd. Í Íslenskri orðsifjabók segir meðal annars um strönd: 

landsvæði við sjó eða vatn; árbakki; brún eða jaðar á e-u

Stundum hef ég heyrt talað um norðurströnd Íslands. Það er auðvitað rangt. Á Norðurlandi og raunar um allt Ísland eru ótal strandir enda kemur berlega fram í nafni Strandasýslu að þær eru þar margar.

Margt getur skilið strandir að ... byrjaði ég að skrifa. Þetta var ósjálfrátt, hefði getað skrifað strendur. Hið fyrrnefndara er mér líklega tamara eftir ótal ferðir á Hornstrandir. Jú, margt getur skilið standir að ... og svo gleymdi ég því sem ég ætlaði að segja.

Hér má spyrja lesandann; hvort segir hann strendur Íslands eða strandir Íslands. Alltaf forvitnilegt að rýna í orðaforða sinn.

 

1.

„Ein eftirsóttasta gönguleið í Bandaríkjunum.“

Frétt á mbl.is.          

Athugasemd: Fyrirsögnin fer dálítið í bága við málkenndina eða hugsanlega eðli máls. Blaðamaðurinn hlýtur að hafa haft í huga að gönguleiðin sé ein sú vinsælasta.

Á malid.is segir um eftirspurn:

það magn af vöru og þjónustu sem einstaklingar og fyrirtæki vilja kaupa.

Hvað er það sem er eftirsótt? Svarið hlýtur að vera það sem hægt er að fá upp í hendurnar.

Til dæmis eru bækur eftir Arnald Indriðason afar vinsælar því eftirsóttar fyrir jólin. Sama er með miða á undanúrslitaleiki íslenska landsliðsins fyrir HM síðasta sumar, þeir voru eftirsóttir, færri fengu en vildu. Miðarnir voru hins vegar ekki vinsælir. Er rétt að segja að leikirnir, sem miðarnir voru ávísun á, hafi verið vinsæli? Í spurningunni er gildra. Eru atburðir vinsælir jafnvel þó þeir eigi að vera næsta sunnudag, í næsta mánuði eða næsta ári?

Gönguleiðin á Þverfellshorn í Esju er vinsæl en ekki er hægt að fullyrða um eftirspurnina vegna þess að enginn takmörk eru á því hversu margir mega ganga þarna á fjallið.

Hins vegar er mikil eftirspurn í Laugavegshlaupið, sem er árlega milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Aðeins fá um 500 manns að taka þátt. Allir geta gengið (eða hlaupið)  milli Landmannalauga og Þórsmerkur á öðrum tíma en á keppnisdeginum, og leiðin er vinsæl enda engin kvóti á fjölda göngumanna … ennþá.

Sama er með gönguleiðina í Bandaríkjunum, enginn kvóti er á fjölda þeirra sem hana ganga. Hún er meðal þeirra vinsælustu en varla hægt að segja að hún sé eftirsótt frekar að hún sé vinsæl.

Tillaga: Ein vinsælasta gönguleiðin í Bandaríkjunum.

2.

„… en það er nauðsynlegt að fólk geri sér grein fyrir því að suðað samþykki er ekki samþykki.

Frétt á visir.is.         

Athugasemd: Þetta frekar asnalegt orðalag, svona við fyrstu sýn. Hér er fjallað um fræðslu fyrir ungmenni og koma í veg fyrir kynferðisofbeldi undir slagorðinu „Ég virði mín mörk og þín“.

Í framhaldi af tilvitnaðri málsgrein segir í fréttinni:

Ef ég hef sagt nei tíu sinnum, þýðir ekki að mig langi til þess ef ég gefst upp á þér í ellefta skipti.

Uppgjöfin er þarna kölluð suðað samþykki sem hugsanlega getur talist rétt mál. Í það minnsta er oft talað um upplýst samþykki, þó í öðru samhengi. Í íslenskri orðsifjabók segir:

suð … daufur niður, lágt hvíslhljóð; kvabb, þrábeiðni

Í ljósi þessa má túlka ofangreinda tilvitnun sem svo, að samþykki sem fæst fyrir þrábeiðni sé ekki samþykki. Hér ekki ekki lagt mat á fullyrðinguna, hvort hún sé rétt eða röng, en tekið fram að orðunum er beint að unglingum og þeir hvattir til að hugsa sinn gang. Ekki láta undan þrábeiðni, suði eða stöðugu kvabbi, heldur standa fast á sínu. Tillöguna hér fyrir neðan ber að skoða í þessu ljósi.

Tillaga: … en nauðsynlegt er að fólk geri sér grein fyrir því að sé látið er undan þrábeiðni eða suði telst það ekki samþykki.

3.

„Að lok­um þurfti Ole að koma til að róa ástandið,“ sagði heim­ildamaður­inn.“

Frétt á mbl.is.          

Athugasemd: Vonandi hefur ástandið sætt sig við orðinn hlut og hætt að rífast. 

Nei, ástand er ekki persóna og því er ekki hægt að róa það. Hins vegar getur mannvirki verið í góðu eða slæmu ástandi. Hægt er að bæta ástandið en með aðgerðaleysi getur það versnað.

Tilvitnunin er úr frétt um fótboltaliðið Manchester United og tvo leikmenn sem voru ekki á eitt sáttir, þeir deildu eða rifust. Þjálfarinn, Ole Gunnar Solskjær, þurfti að róa þá, ganga á milli eða sætta. 

Heimildin er úr vefútgáfu enska blaðsins The Sun en þar segir:

It needed Ole to calm the situation down.

Þarna fellur blaðamaðurinn í gryfju beinnar þýðingar úr ensku með orðalagi sem gengur ekki upp á íslensku. Óli þjálfari róaði leikmenn sem deildu og líklega hefur ástandið skánað eftir það. 

Á vefmiðlinum fobolti.is segir:

Ole Gunnar Solskjær, bráðabirgðastjóri United, þurfti að stíga á milli þeirra eftir leikinn til að róa ástandið en báðir hafa verið frábærir frá því Solskjær tók við. 

Þetta er algjörlega óboðleg málsgrein. Blaðamaðurinn þekkir ekki orðalagið að ganga á milli og býr til annað; að stíga á milli. Notar það bókstaflega rétt eins og þjálfarinn hafi tekið sér stöðu á milli leikamannanna vegna þess að þeir voru að slást. Um það segir ekkert í fréttinni né í heimildinni.

Skrifarinn á fótboltavefnum er við sama heygarðshornið og blaðamaðurinn á Moggavefnum. Þeir hafa ekki góða tilfinningu fyrir íslensku máli þó þeir telji sig skilja ensku.

Tillaga: Að lokum þurfti Ole að róa leikmennina, sagði heimildamaðurinn.


Ákaft súkkulaði, nafnorðasýkin og nafnháttarsýkin

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

Gaupnir er íhvolfur lófi

Horfa/líta í gaupnir sér: hafast ekki að, vera auðgerðalaus. Keppinautarnir eru í stöðugri sókn meðan forráðamenn fyrirtækisins horfa í gaupnir sér - Hann situr bara og horfir í gaupnir sér meðan hann er hafður að fífli. 

Svipað orðafar er kunnugt úr fornu máli: lúta í gaupnir sér í merkingunni „láta í ljós sorg“ (Sturl.II 100).

Úr síðari alda máli er kunnugt afbrigðið sjá í gaupnir sér; íhuga e-ð.

Mergur málsins, Jón G. Friðjónsson.

 

1.

„Súkkulaðið er afar sérstakt á bragðið og ólíkt því sem við eigum að venjast en því er best lýst sem dökku og áköfu.“

Frétt á mbl.is.          

Athugasemd: Þeim sem er ákafur er lýst þannig að hann er afar áhugasamur, kappsfullur, spenntur og jafnvel æstur.

Á malid.is segir að á- gæti meðal annars verið herðandi forskeyti leitt af sögninni kafa á með eftirásettri forsetningu. Við endurtekinn lestur og smá hugsun er  hægt að skilja þetta.

Af ákafur er leitt nafnorðið ákefð og ákafi.

Þessi einfalda lýsing á súkkulaði sem sagt er ákaft leiðir hugann að vínsmökkun sem þykir afskaplega fín iðja sérstaklega ef sá sem hana iðkar kyngir ekki víninu. Aðrir stunda vínsmökkun og kyngja því og kallast það almennt víndrykkja. Það þykir líka fínt, veltur þó á magninu.

Engin þversögn er talin í því að kyngja ekki vínsopanum og að kyngja honum. Hvað um það, lýsing á bragði víns er stundum broslegur orðaleikur sem fjölmargir vilja taka þátt í en útkoman verður stundum furðuleg og jafnvel óskiljanleg. Sérstaklega á það við lýsingar á erlendum tungumálum.

BRAGÐLÝSING: Ljóssítrónugult. Meðalfylling, ósætt, fersk sýra. Pera, litsí, blómlegt, vanilla.

Þessi lýsing af vef Vínbúðarinnar (sem einu sinni hét ÁTVR) skilst vel, líklega vegna þess að víninu er ekki „lýst sem áköfu“.

Hér til hliðar er bráðfyndin en ýkt ensk Vín lýsing 3lýsing á bragði víns. Því miður hef ekki getu eða tíma til að þýða hana. Smella á myndina og hún stækkar.

Ég vona að lesendur fyrirgefi mér þennan útidúr. Get mér þess til að bráðlega verði lýsing á bragði súkkulaðis álíka háleit og óskiljanlegt og í enska textanum.

Hins vegar er alltaf best að bíta í súkkulaðið og ef bragði hugnast manni þá kaupir maður það aftur. Skiptir engu hversu „ákaft“ súkkulaðið er. Aftur á móti eru éta margir „súkkulöð“ af ákefð (sthugið að súkkulaði er eintöluorð).

Mig langar til að bæta því hér við að ég ólst upp við að borða súkkulað. Maður beit í súkkulað. Þegar mamma bauð upp á súkkulaði þá var það drukkið. Orðið var haft um heitan súkkulaðidrykkur, brætt súkkulað, blandað við vatn og stundum rjómi með. Ég þori samt ekki að fullyrða að þetta sé rétt, systur mínar kunna að vita betur (raunar þykjast þær vita allt betur en ég enda eldri og reyndari).

Tillaga: Engin tillaga.

2.

Barcelona var í gær að ganga frá nýjum langtímasamningi við spænska bakvörðinn Jordi Alba.

Frétt á visir.is.         

Athugasemd: Flestir þekkja þágufallssýkina sem þó er engin sýki lengur, heldur „eðlileg“ tjáning þó hún gangi í bága við „rétt“ mál. Færri þekkja nefnifallssýkina en hún sækir mjög á og birtist í því að fólk beygir nafnorð, lætur nefnifallið duga.

Nýjasta nýtt er nafnháttarsýkin. Hún gríðarlega lúmsk og er þannig að sagnorð aðeins í nafnhætti en ekki notuð í til dæmis þátíð. Hoppaði verður var að hoppa og hugsaði verður var að hugsa. Ég er búin að hoppa, ég var að hoppa. Dæmin eru í sjálfu sér ekki röng en athugasemdin byggir á samhenginu. Í tilvitnuninni segir að félagið var að ganga frá, í stað þess að það gekk frá.

Síðar í fréttinni segir:

Ætli félag að kaupa upp nýjan samning Jordi Alba þá þarf viðkomandi félag að borga 500 milljónir evra eða 68 milljarða íslenska króna.

Hægt er að orða þetta á einfaldari máta:

Kaup á nýjum samningi Jordi Alba kostar 500 milljónir evra eða 68 milljarða íslenska króna.

Gera mætti athugasemdir við margt annað í þessari stuttu frétt.

Tillaga: Barcelona gekk í gær frá nýjum langtímasamningi við spænska bakvörðinn Jordi Alba.

3.

Efnavopnastofnunin notaðist við sýni úr umhverfi, vitnaskýrslur og önnur gögn sem aflað var af rannsóknarteymi sem heimsótti staði í Douma tveimur vikur eftir árásina.

Frétt á visir.is.         

Athugasemd: Mikilvægt er að beygja nafnorð, annars fær maður nafnorðasýkina. Réttara er að segja að teymið heimsótti staðinn tveimur vikum eftir árásins.

Mörgum kann að finnst þessi athugasemd vera algjört smáatriði. Jæja, en „smáatriðin“ í málinu skipta gríðarlega miklu. Frétt sem er til dæmis ekki með réttum fallbeygingum er skemmd frétt. Ekkert minna enn það. Skemmdar fréttir smitar út frá sér og íslenskunni hrakar þar til fallbeygingin heyrir sögunni til að málið verður eins og svo mörg önnur tungumál.

Þess vegna skiptir svo öllu að blaðamenn séu vel lesnir á íslenskri tungu, hafi alist um við bóklestur og hafi stundað hann alla tíð. Blaðamaður sem hefur aldrei verið fyrir bókin skrifar yfirleitt lélegt mál og hefur rýran orðaforða.

Enginn fylgist með því hvort fjölmiðlar fari rétt með íslenskuna, öllum virðist andsk... sama. Nema auðvitað á tyllidögum.

Annars er þessi málsgrein hér að ofan torf og hefði mátt einfalda að mun. Hún er greinilega þýðing, líklega áferðarfalleg á ensku en ómöguleg á íslensku.

Tillaga: Engin tillaga gerð.

 

 

 


Með sentimetrana með sér, stíga til hliðar og erindagjarðir

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

Kominn til að vera

Að bera einhverju við er að nota e-ð sem mótbáru eða afsökun: „Sakborningur bar því við að hann hefði verið annars hugar þegar hann braust inn.“ 

Að bera eitthvað við þýðir hins vegar að gera tilraun til að gera e-ð eða reyna við e-ð: „Ég er ekki lagviss en ber samt stundum við að syngja.“

Málið á blaðsíðu 28 í Morgunblaðinu 26.2.2019.

1.

„Van Dijk er núna 193 sentímetrar á hæð og algjör klettur í vörn Liverpool en hann var ekki alltaf með sentímetrana með sér. 

Frétt á visir.is.            

Athugasemd: Til hvers þarf fótboltamaður að hafa sentímetra með sér? Sá sem skrifar ofangreinda tilvitnun á Vísi þarf að vanda sig betur. Í fréttinni segir frá fótboltamanni sem stækkaði mikið á sautjánda ári, var ekki áður eins hár og hann er  nú. 

Blaðamaðurinn býr til misheppnað orðtak; „að vera ekki alltaf með sentímetrana með sér“. Hann fær seint verðlaun fyrir framtakið.

Talmál á ekki alltaf erindi á prent. Þá verður það frekar berangurslegt, gallar í orðalagi blasa frekar við og stinga í augu. Ein mikilvægast reglan í blaðamennsku er að forðast orðalag sem blaðamaðurinn ræður ekki við. Verst ef blaðamaðurinn hefur ekki góðan skilning á íslensku og þaðan af síður á málfari sínu.

Flestir stækka, varla þarf að taka það fram. Stærð manns gerir hann ekki sjálfkrafa að góðum varnarmanni í fótbolta. Gott er að nota frekar punkt en að skrifa langa málsgrein með ólíkum sögum. 

Tillaga: Van Dijk er 193 sentímetrar á hæð. Hann er kletturinn í vörn Liverpool.

2.

„Sindri Sig­ur­geirs­son, formaður Bænda­sam­taka Íslands, hef­ur óskað eft­ir því að fá að stíga til hliðar sem formaður sam­tak­anna, en … 

Frétt á mbl.is.            

Athugasemd: Hvað skyldi Sindri ætla gera þarna til hliðar? Ef ekki væri fyrir fyrirsögnina væri þessi málsgrein óskiljanleg. Í henni stendur:

Sindri hætt­ir sem formaður.

Þetta er hið eina rétta. Sá sem stígur til hliðar er að víkja, til dæmis úr vegi. Fyrirsögnin segir allt sem segja þarf en hvers vegna þarf blaðamaðurinn að bæta því við að maðurinn vilji „stíga til hliðar“? Heldur hann að við skiljum ekki hvað átt er við þegar formaðurinn vill hætta?

Hins vegar þurfa nú sumir blaðamenn bókstaflega að stíga til hliðar, standa upp og hleypa þeim sem kunna til verka að tölvunni og leyfa þeim að lesa yfir og leiðrétta skrifin. 

Vinsælt er nú að misnota og misþyrma sögninni að stíga. Fjöldinn allur þykist kunna ensku alveg óaðfinnanlega en getur samt ekki tjáð sig fullnægjandi á íslensku. 

Á ensku má segja: „The chairman wants to step down/aside“. Þetta þýðir ekki að formaðurinn vilji stíga niður eða til hliðar nema því aðeins að hann sé að stíga niður úr ræðustól eða stíga til hliðar víkur fyrir öðrum. Sjá nánar hér um ensku sögnina „to step“.

Tillaga: Sindri Sig­ur­geirs­son, formaður Bænda­sam­taka Íslands, hef­ur óskað eft­ir því að hætta sem formaður sam­tak­anna, en …

3.

Íslendingarnir munu flestir vera á vegum Úrval Útsýn og Vita en vinsælt hefur verið að fara til Madonna di Campiglo til að stunda skíðamennsku.“ 

Frétt á vísir.is.            

Athugasemd: Enginn stundar skíðamennsku, margir fara hins vegar á skíði, jafnvel til Madona di Campiglo. Þar er skíðamennska vinsæl íþrótt.

Margir hafa áhuga á hestamennsku og fara því í útreiðar. Enginn stundar hestamennsku, það væri skrýtin mennska. Ég hef nær alla mína æfi verið í fjallamennsku, hana stunda ég ekki en geng á fjöll.

Nú er ég viss um að ekki eru allir sammála mér.

Tillaga: Íslendingarnir munu flestir vera á vegum Úrval Útsýn og Vita en vinsælt hefur verið að fara á skíði í Madonna di Campiglo.

4.

Bjarni Benediktsson, sem mælir fyrir frumvarpinu, gat ekki verið viðstaddur maraþon-umræðuna í kvöld og nótt vegna opinberra erindagjarða erlendis.“ 

Frétt á vísir.is.            

Athugasemd: Þetta er rangt orð hjá blaðamanninum, „erindagerð“ er ekki til. Bjarni var í erindagjörðum erlendis. Nafnorðið erindagjörð beygist eins í öllum föllum eintölu nema í eignarfalli, þar er það erindagjörðar. Í fleirtölu beygist orðið svona:

nf. erindagjörðir
þf. erindagjörðir
þgf erindagjörðum
ef. erindagjörða 

Þetta er gamalt og stirt orð, nokkuð vandmeðfarið, þó er það gegnsætt en frekar lítið notað í nútímamáli. 

Sögnin að gjöra og nafnorðið gjörð eru kunnugleg í gömlum sögum og biblíumáli, en í nútímamáli notum við yfirleitt sögnina að gera í staðinn. 

Í Nýja Testamentinu segir Jesús:

„Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. 

Í íslenskri þjóðvísu segir:

Góða veislu gjöra skal, …

Nafnorðið gjörð getur merkt málmhringurinn undir dekki reiðhjóls. Það getur líka merkt járnband utan um tunnu, til dæmi síldartunnu. Einnig getur það merkt ól á reiðtygjum sem spennt er undir hest til að festa hnakk. Þórður Magnússon á Strjúgi í Langadal í Austur-Húnavatnssýslu orti á 16. öld:

Þótt slípist hestur og slitni gjörð
slettunum ekki kvíddu.
Hugsaðu hvorki um himin né jörð
en haltu þér fast og ríddu.

Nafnorðið gjörð getur merkt athöfn eða verknað, til dæmis sáttargjörð (sáttagerð) í skilnaðarmálum. Til er Gjörð fjárfestingarfélag, stofnað 2015.

Síðar í fréttinni segir:

Hann nýtti síðustu ræðu næturinnar til að kalla eftir því að umræðunni yrði frestað til að fjármálaráðherra gæti tekið virkari þátt í umræðum um þetta mikilvæga mál. 

Á ensku er til orðasambandið „to call for“. Í orðabók er það skýrt svona:

to say publicly that something must happen
to make something necessary or suitable

Dæmi um notkun er þessi vinsæli frasi:

Desperate times call for desperate measures

„Að kalla eftir“ er greinilega bein og hugsunarlaus þýðing þess sem hefur líklega ekki góðan skilning á íslensku máli. Og svo föst er enskan í hausnum að sumir þýða bókstaflega og ekki nóg með það, ensk íslenska er notuð um fréttir sem gerast hér innanlands. Þetta er sorgleg þróun og er glöggt dæmi um hnignun íslenskunnar.

Miklu betur fer á því að óska eftir, biðja um, hvetja til.

Tillaga: Bjarni Benediktsson, sem mælir fyrir frumvarpinu, gat ekki verið viðstaddur maraþonumræðuna í kvöld og nótt vegna opinberra erindagjörða erlendis.


Enska orðið to step merkir sjaldnast að stíga

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

Lesendur geta sent tilvitnanir eða athugasemdir um málfar á netfangið: sigurdursig@me.com.

Kominn til að vera

Sé tekið dæmi af áhrifum enskunnar má nefna að í fyrirsögn aðsendrar greinar í Morgunblaðinu í þessari viku stóð: Frjálslyndi flokkurinn er kominn til að vera. Og nú er spurt. Vera hvað?

Sögnin að vera er áhrifslaus og ósjálfstæð sögn. Hún segir ekkert án aðstoðar annarra orða, hún þarf fyllingu, sem í setningafræðinni nefnist sagnfylling.

Sagnfylling er oftast lýsingarorð og lýsir það þá einhverjum eða einhverju sem við er átt. Til dæmis, hann er gamall, eða hún er fögur.

En hvernig er þá þessi ranga notkun komin inn í málið? Jú, svarið virðist einfalt. Það er enskan. He has come to stay. Á íslensku þýðir þetta: Hann hefur fest sig í sessi eða hann hefur náð fótfestu svo einhver dæmi séu tekin.

Þess vegna hefði fyrirsögnin átt að vera: Frjálslyndi flokkurinn hefur fest sig í sessi, án þess þó að umsjónarmaður hyggist leggja einhvern dóm á sannleiksgildi þeirrar fullyrðingar.

Morgunblaðið, Íslenskt mál, 1.6.2002.

1.

„Svona stíga alvöru leiðtogar upp.

Frétt á dv.is.           

Athugasemd: Enginn stígur upp nema ef til vill á stól til að skipta um peru. Alvöru leiðtogar taka af skarið, taka frumkvæðið. Eitthvað rangt er samt við það að tala um alvöru leiðtoga. Hver er andstæðan? Plat leiðtogi, grín leiðtogi …? Hér má bæta því við að í þessu tilviki er nafnorðið alvara til áhersluauka án þess að tilefni sé til að finna einhverja andstæðu við orðalagið. Svona er þó oftast notað í talmáli, fer illa í ritmáli.

Enskan er merkilegt tungumál og fallegt. Þó það sé af germönsku málstofni eins og íslenska eru þau gjörólík. Mestu munar um orðalag, skipan orða í setningu og fleira. Margt er hægt að þýða beint úr ensku og á íslensku en oft er það ekki hægt nema að útkoman verði einhvers konar ensk-íslenska sem með réttu nefnd hráþýðing og er ekki til fyrirmyndar.

Enska sagnorðið „to step“ merkir bókstaflega að stíga, einnig að skrefa, ganga, feta og margt fleira.

Nafnorðið „step“ getur þýtt skref, trappa í stiga, rim í lausum stiga, og margt, margt fleira. „Step by step“ er hægt að þýða beint: Skref fyrir skref.

Ekki fer alltaf saman að vera afburðagóður í ensku og íslensku. Sá sem þýðir verður að búa yfir næmum skilningi á íslensku, hafa talsverðan orðaforða, og bera skyn á blæbrigði málsins. Blaðamaður sem þýðir illa skemmir málið. Illa þýdd frétt er eins og skemmd matvæli í verslun, þau eru ekki hæf til sölu, raunar er bannað að selja þau.

Orðasambönd með enska sagnorðinu „to step“ vefjast ekkert fyrir sumum blaðamönnum, þeir fara einfaldlega illa með þau, menga íslenskt mál með ónýtum skemmdum þýðingum.

Hér er stuttleg samantekt um ensk orðasambönd með sögninni „to step“ og þýðingar á þeim:

  1. Step aside
    • Getur þýtt að hætta.
    • Hvað gerir formaður húsfélagsins sem „stígur til hliðar“? Er hann ekki bara hættur? Ekki stíga til hliðar.
    • Hann getur auðvitað hætt tímabundið, vikið til hliðar eða frá, dregið sig í hlé og svo framvegis 
  2. Step back
    • Getur þýtt að hætta við, snúa við, ekki stíga til baka.
  3. Step down
    • Þýðir yfirleitt að hætta, ekki að stíga niður nema það sé ljóst af samhenginu.
    • Formaður húsfélagsins er hættur, stígur ekki niður.
    • Formaður húsfélagsins stígur úr ræðustólnum eða fer úr honum.
    • Sá sem stendur uppi á kassa stígur af honum, frekar fyrr en síðar.
  4. Step something down
    • Minnka eitthvað, draga úr.
  5. Step forward
    • Getur þýtt að bjóðast til einhvers, láta vita af sér og svo framvegis. Ekki stíga áfram.
  6. Step in
    • Getur þýtt að taka þátt í einhverju, taka af skarið. Ekki stíga inn.
  7. Step out
    • Þýðir oftast að fara út. Formaður hússtjórnar vék af fundi. Ekki stíga út
  8. Step out on
    • Getur þýtt að halda framhjá maka sínum („stepping out on you/him/her“).
  9. Step something up
    • Getur þýtt að auka við, bæta við. Lögreglan jók viðbúnað sinn, ekki stíga viðbúnaðinn upp.

Niðurstaðan er þessi. Enska sagnorðið „to step“ er sjaldnast hægt þýða með sögninni að stíga nema það sé ljóst af samhenginu.

Tillaga: Svona gera leiðtogar.

2.

„Það að að seinka sól­ar­upp­rás og sólsetri get­ur leitt til þess að líkams­ferl­um get­ur seinkað. 

Frétt á mbl.is.            

Athugasemd: Þett er frekar máttlaus og ljót málsgrein, ef ég má orða það svo. Mér finnst að fólk sem byrjar setningar á persónufornafninu „það“ þurfi að hugsa sinn gang, skilja hvað um er að ræða. Ég hef stundum skrifað um þetta „vandamál“ og hér er kafli úr einum pistli: 

Orðið er mikið til óþurftar. Varla er hægt að segja annað vegna þess að oft hefur það einstaklega óskýra meiningu, er næstum því merkingarsnautt. Með því að setja það fyrst í setningu eða málsgrein tapar höfundur yfirsýn, gerir mál sitt lakara, verður næstum barnalegur og nær ekki neinu flugi í skrifum sínum. Um leið og höfundur reynir að skrifa framhjá orðinu batnar textinn og meiri tilfinning kemur fram.

Íslenskufræðingar hafa skrifað mikið um það sem í máli þeirra nefnist aukafrumlag. Mér sýnist að flestum sé ekkert sérstaklega vel við orðið þannig notað enda hefur það fengið uppnefnið leppur. 

Lítum á tilvitnunina. Hún er röng því enginn mannlegur máttur getur seinkað sólarupprás eða sólsetri. Auðvitað er verið að tala um klukkuna en það er bara leti að stytta sér svona leið.

Látum þetta vera og skoðum málsgreinina sem byrjar svo óhönduglega. Henni hefði mátt snúa við eins og gert er í tillögunni hér fyrir neðan. Sleppum „það að“ og gerum söguna fyllri og skiljanlegri.

Tillaga: Líkamsferlum getur seinkað fylgi klukkan ekki náttúrulegri sólarupprás og sólarlagi.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband