Áfram eða enn, allt í rúst og settur í klefa

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.


1.

„Sjáðu gróft brot Kompany á Salah: Hvernig fékk hann ekki rautt? 

Frétt á dv.is.     

Athugasemd: Blaðamenn á DV eru dálítið einkennilegir, virðast ekki vel að sér. Spurnarfornafnið hvernig í tilvitnuninni er ekki viðeigandi, réttara er að segja hvers vegna

Tillaga: Mynd af grófu broti Kompany: Hvers vegna fékk hann ekki rautt spjald?

2.

Áfram meiðist Bale.“ 

Fyrirsögn á mbl.is.      

Athugasemd: Welski sóknarmaðurinn í fótboltaliðinu Real Madrid, Gareth Bale, hefur meitt sig oft upp á skíðkastið og um það fjallar frétt á vefútgáfu Moggans. Þetta er því miður ekki nógu góð fyrirsögn. Er hann meiddur frá því síðast er það gerðist eða meiddist hann aftur?

Áfram er atviksorð og þau standa flest með sagnorðum, þó ekki öll, en það er annað mál. Ótækt er að nota hér atviksorðið áfram, því það segir ekki alla söguna. Þeir sem búa við drjúgan orðaforða hafa öðlast góða málkennd, og hún segir okkur hvaða orð eigi að nota. 

Á visir.is er þessa fyrirsögn að finna:

Magnús áfram útvarpsstjóri

Hver er nú munurinn á þessum tveimur fyrirsögnum? Jú, sú fyrri á við eitthvað sem gerist aftur. Hin síðari er um það sem gerist án hlés og hún er rétt. 

Enginn myndi segja eða skrifa: Magnús enn útvarpsstjóri. Þannig talar enginn, flesti finna þetta á sér, málkenndin vaknar.

Berum saman fyrirsögnina og tillöguna hér fyrir neðan. Rétt upp „hend“ sem vilja nota tillöguna.

Tillaga: Enn meiðist Bale.

3.

Haldið upp á þrettándann víða í dag.“ 

Fyrirsögn á visir.is.      

Athugasemd: Röð orða í setningu skiptir máli. Er hún spurning, fullyrðing eða athugasemd? Má vera að ég hafi rangt fyrir mér og orðaröðin skipti ekki nokkru máli. Hver er þá eðlileg orðaröð í eftirfarandi dæmum og við einblínum á atviksorðið víða (sko ég á ekki við vítt atviksorð held að það sé ekki til)?:

  1. Víða haldið upp á þrettándann í dag.
  2. Haldið víða upp á þrettándann í dag.
  3. Haldið upp á víða þrettándann í dag.
  4. Haldið upp á þrettándann víða í dag.
  5. Haldið upp á þrettándann í dag víða.

Fálkaorðan er veitt fyrir þá útgáfu sem flestir aðhyllast. Hinir verða fordæmir, gerðir útlægir og þurrkaðir út úr þjóðskrá, jafnvel þó þeir hafi rétt fyrir sér. Er það ekki annars lýðræðislegt?

Tillaga: Gettu!

4.

Farangur Selju Dísar allur í rúst eftir skoðun:“ 

Yfirfyrirsögn á dv.is.      

Athugasemd: Nafnorðið rúst hefur fleiri en eina merkingu. Flestir þekkja rúst sem leifar af byggingu. Í Íslenskri orðsifjabók segir: 

hrunin bygging, leifar hrunins húss eða mannvirkis

Önnur merking er til. Á Wikipedia segir:  

Rústir eru bungur í landslagi freðmýrar, sem myndast þannig að jarðvegsyfirborð hækkar þegar íslinsa myndast í fínkornóttum jarðvegsefnum undir einangrunarlagi, t.d. mólagi.

Líkur benda til þess að hvorug ofangreindra lýsinga á rúst eigi við farangur Selju Dísar. Hann hafi verið í óreiðu eða skemmdur nema hvort tveggja sé.

Tillaga: Farangur Selju Dísar í óreiðu eftir skoðun tollvarða.

5.

Aðilinn var svo fjarlægður af lögreglunni og settur í klefa stuttu síðar.“ 

Frétt á dv.is.      

Athugasemd: Maður nokkur braust inn í bíl og reyndi að stela úr honum en var gripinn. Á DV er hann í tvígang kallaður „aðili“. Enginn veit hvers vegna, ekki einu sinni blaðamaðurinn, sem þó er varla nýgræðingur í fréttaskrifum. Af hverju var skömmin ekki kallaður maður sem hann þó var og er.

Síðan kemur fram að þessi ógæfumaður hafi verið „settur í klefa“. Líklega var hann ekki settur í símaklefa enda eru þeir orðnir frekar fágætir. Gera má ráð fyrir að lögreglan hafi sett hann í fangaklefa. 

Þakka ber að blaðamaðurinn hafi ekki orða það þannig að manngreyið hafi verið „vistaður í fangageymslu“. Vonandi er það útjaskaða orðalag á hverfandi hveli eftir margra ára misnotkun.

Tillaga: Lögreglan handtók manninn og fangelsaði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Svo var það fréttin á mbl.is, þar sem varað var við beittum stálbitum.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2019/01/05/varad_vid_beittum_stalbitum_i_oskjuhlid/

Þarna virðist um einhverjar járnflísar eða kannski brotin rakvélablöð að ræða. Að nota orðið stálbiti er greinilega rangt en lýsandi fyrir fátæklegan orðaforða.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 6.1.2019 kl. 22:34

2 Smámynd: S i g u r ð u r  S i g u r ð a r s o n

Sæll, Jóhannes. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki þessa frétt sem þú vísar til. Þar segir:

"Í ljós kom að um var að ræða ein­hvers kon­ar fitu sem soðin hef­ur verið utan um beitt­an stál­bita sem lík­ist rakvél­ar­blaði."

Ég er litlu nær.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 6.1.2019 kl. 23:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband