Endemi, eindæmi og einsdæmi, inni í nóttina og bankaráð Hvíta hússins

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

Lesendur geta sent tilvitnanir eða athugasemdir um málfar á netfangið: sigurdursig@me.com

 

Sóttbitinn

Þetta orð er gleymskunni gefið í Íslenskri orðabók, en það merkir sóttdauður og er einungis blæbrigðamunur á orðunum; sóttbitinn er ögn mildara orð og á fullan þegnrétt í máli manna núna þótt það sé aldrei á tungu. Orðið birtist í Orkneyinga sögu […]: 

„Hákon jarl Pálsson varð sóttbitinn þar í eyjunum. Þótti mönnum það skaði mikill, því að um hans daga ofanverða var góður friður.“

Geymdur og gleymdur orðaforði eftir Sölva Sveinsson, blaðsíða 346. 

 

1.

„Gróðursælt með endemum … 

Ferðstiklur í Ríkissjónvarpinu 7.2.2019          

Athugasemd: Handritshöfundurinn ruglaðist illilega á orðum. Á malid.is segir:

endemi, endimi h. ‘e-ð dæmalaust eða fáránlegt; for, saurindi’…

Höfundurinn ætlaði ekki að segja að landið væri ljótt og gróðurlítið, þvert á móti. Má vera að í höfði hans hafi blundað orðið eindæmi, sem er stundum áhersluorð þegar verið er að lýsa því sem gott er. 

Á malid.is segir um þessi tvö orð:

Athuga að rugla ekki saman orðunum endemi og eindæmi. Rétt er að segja hún er með eindæmum fögur en ekki: „hún er með endemum fögur“. Hins vegar: niðurstöður kosninganna eru með hreinum endemum.

Orðin eindæmi og einsdæmi merkja ekki það sama. Í malid.is segir:

Varast ber að rugla saman orðunum eindæmi og einsdæmi.

1) Orðið eindæmi merkir: sjálfdæmi, ábyrgð. Gera eitthvað upp á sitt eindæmi. Einnig notað til áherslu: veður var með eindæmum gott.

2) Orðið einsdæmi merkir: einstæður atburður. Einróma óánægja starfsmannanna var algjört einsdæmi í tíu ára sögu fyrirtækisins. Þetta veður er algjört einsdæmi.

Betra er að hafa þetta í huga annars er hætta á að hlustendur eða lesendur skilji ekkert. Ljótt er að umsnúa merkingu orða. Krafan er ekki aðeins að blaða- og fréttamenn vandi mál sitt heldur allir sem á annað borð skrifa eða flytja erindi á íslensku máli í sjónvarpi og útvarpi.

Í þættinum heyrðist þulurinn oft tala um Maradal. Þetta er rangt. Dalurinn heitir Marardalur  og er vestan undir Hengli.

Bringur hét bær um var fjallað í þættinum. Ekki heyrðist betur en að íbúarnir væru kallaðir Brignafólkið. Sé svo er það rangt því nafnið er fleirtöluorð og beygist svona: nf. Bringur, þf. Bringur, þgf. Bringum, ef. Bringna/Bringa. Hefði því átt að vera Bringnafólkið.

Tillaga: Gróðursælt með eindæmum …

2.

„Halda leit áfram inn í nóttina. 

Fyrirsögn á mbl.is.          

Athugasemd: Þetta orðalag er tiltölulega nýtt í íslensku. Áhrifin eru greinilega úr öðrum málum. Á ensku er þekkt bíómynd frá árinu 1985 sem heitir Into the night, leikstjóri John Landis og aðalhlutverkin er 

Velska ljóðskáldið Dylan Thomas (1314-1953) segir í ljóði: Do not go gentle into that good night. Svíar orða það svo: Gå inte stilla in i natten. Íslendingurinn myndi segja: Gakktu ei hægt um blíða nótt.

Þó „gengið sé inn í nóttina“ á mörgum tungumálum hljómar orðalagið ekki eins vel á íslensku. Ekki heldur að að segja „inn í sumarið“ eða aðrar árstíðir. Þannig er bara gangurinn að við göngum ekki inn í tímann, hann sveipast um okkur.

Við vökum fram á nótt, ekki inn í nóttina. Við fögnum sumrinu, tökum á móti því en göngum ekki inn í það. 

Finnst mér.

Tillaga: Halda leitinni áfram fram á nótt.

3.

„Maxine Waters er áttræð og fyrsta konan til að fara fyrir bankaráði Hvíta hússins. 

Frétt á blaðsíðu 20 í Fréttablaðinu 9.2.2019.         

Athugasemd: Fyrirsögn fréttarinnar er „Valdamiklar konur á efri árum“. Þar segir frá nokkrum konum sem náð hafa langt í bandarískum stjórnmálum. Meðal þeirra er demókratinn Maxine Waters, 81 árs skeleggur stjórnmálamaður í fulltrúadeildinni.

Þegar fjölmiðlar bjóða upp á fréttir eða fréttaskýringar er mikilvægt að blaðamenn hafi þekkingu og getur til að sinna þeim. Sé svo ekki standa fréttirnar ekki undir nafni enda skemmdar. Þannig er það með ofangreinda tilvitnun. Ég hef aldrei heyrt getið um „bankaráð Hvíta hússins“ og fletti því upp í Wikipedia sem oft reynst mér ágæt heimild. Þar stendur um frú Waters:

The conflict with King stemmed from the previous day, when they had both been present at a House Banking Committee hearing on the Whitewater controversy. 

Þarna segir frá ágreining hennar við Peter King fulltrúadeildarþingmann árið 1994 en hann er aukaatriði. Hitt er ljóst að þarna var vettvangurinn bankanefnd  fulltrúadeildarinnar, „House Banking Committee“. Hið rétta nafn nefndarinnar er „United States House Committee on Financial Services“, og er Maxine Waters núna formaður nefndarinnar. Kemur Hvíta húsinu ekkert við.

Má vera að villan í fréttinni sé mistök en við yfirlestur hefði blaðamaður með nokkra þekkingu á bandarískum stjórnmálum áttað sig á henni. Höfundarnir eru tveir blaðamenn og það hefði átt að tryggja góð vinnubrögð.

Orðasambandið að fara fyrir merkir að vera fremstur, leiða eða stýra. Vel fer á því að segja að konan fari fyrir bankanefndinni.

Tillaga: Maxine Waters er áttræð og fyrsta konan til að fara fyrir bankanefnd fulltrúadeildarinnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband