Mjöður og munngát, fara út af Siglufirði og lendingarstaður

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

Lesendur geta sent tilvitnanir eða athugasemdir um málfar á netfangið: sigurdursig@me.com

Mjöður og mungát

Mjöður er áfengur drykkur úr soðinni og gerjaðri blöndu hunangs og vatns, segir í Íslenskri orðabók, en líklega er orðið að mestu gleymt í málinu þótt það lifi í gömlum bókum.

Mjöður þótti betri drykkur en mungát. Þetta kemur fram í Sverris sögu Noregskonungs:

Magnús Erlingsson konungur „lét búa til jólavistar sér í Björgvin. Hann veiti hirðmönnum sínum í hirðstofu hinni miklu, en gestum [eins konar handrukkurum] í Sunnefustofu. Gestum líkaði illa er hirðmenn drukku mjöð, en þeir mungát.

Í Heimskringlu er vísubrot haft eftir Haraldi hárfagra sem hann orti í veislu um menn sína, gamla og gráhærða, sem væru of „mjöðgjarnir“. Er mjöðgarn maður ekki vínhneigður?

Mungát var eiunskonar bjór, bruggaður heima, orðið dregið af muni í merkingunni hugur og sögninni að geta í merkingunni fá [...]

Mungát þýðir þá nokkurn veginn það sem hugurinn vill og hann fær. [...]

Mörg eru mungáts orð, segir máltækið, og vísar til þess að menn segja margt undir áhrifum áfengis sem ella lægi þeim ekki á tungu.

Geymdur og gleymdur orðaforði eftir Sölva Sveinsson, Iðunn 2017.

1.

„Meðal aðgerða sem Demókratar hugðust beita væri að leggja fram frumvarp. 

Frétt á visir.is.              

Athugasemd: Vanskrifaðar eða hálfskrifaðar fréttir eru algengar á Vísi. Tilvitnuð málsgrein stendur ein án nokkurrar tengingar við aðrar í fréttinni. Hvergi kemur fram hvaða frumvarp það er sem Demókratar hugðust „beita“.

Heimildin er fréttastofan AP. Á vef hennar stendur:

Democrats are planning to introduce a resolution disapproving of the declaration once Congress returns to session and it is likely to pass Congress. Several Republican senators are already indicating they would vote against Trump — though there do not yet appear to be enough votes to override a veto by the president.

Gagnslítið er að birta innihaldslausa „frétt“. Það bendir til viðvaningslegra vinnubragða vefmiðilsins. 

Enska orðið „resolution“ er ekki frumvarp heldur ályktun, hér þingsályktun. Þetta á blaðamaður að vita.

Tillaga: Engin tillaga gerð.

2.

Mar­grét, sem var á leið ak­andi til Reykja­vík­ur er mbl.is talaði við hana lenti í því að festa bíl­inn í skafli áður en hún komst út af Sigluf­irði.“ 

Frétt á mbl.is.            

Athugasemd: Skrýtið, konan var að reyna að komast „út af“ Siglufirði. Líklegast hefur hún verið að reyna að komast út úr firðinum.

Bílar aka stundum út af, þá er átt við út af veginum. Varla er hægt að segja út úr veginum nema átt sé við göng sem, tvenn göngu eru við Siglufjörð. Stundum kemur einhver út úr skápnum og vita allir hvað um er að gerast. Sá sem er hér út af skápnum er hugsanlega í þeim erindum að sækja hann.

Hægt er að orða málsgreinina betur.

Tillaga: Mar­grét var á leið til Reykja­vík­ur er mbl.is talaði við hana en hún lenti í því að festa bíl­ sinn í skafli áður en hún komst út úr Sigluf­irði.

3.

Lend­ing­arstaður­inn sem varð fyr­ir val­inu á Írlandi er Killala þar sem …“ 

Frétt á mbl.is.            

Athugasemd: Í fréttinni er fjallað um sæstreng milli Íslands og Írlands og er sá staður á Írlandi sem hann er tekinn á landi nefndur lendingarstaður.

Ég velti þessu stuttlega fyrir mér, fannst við fyrstu sýn að orðið væri ekki vel valið. Sá sem lendir er líklega á flugvél og lendingarstaður hennar heitir flugvöllur. Þetta segir þó ekki allt. 

Yngra fólk veit hugsanlega ekki að lendingar eru víða um land, það er staðir í fjöry þar sem bátar tóku land, lentu. Undir Jökli eru til dæmis víða lendingar, við Lóndranga, Malarrif, í Djúpalóni, Rifi Hellissand og víðar. Þaðan var gert út um aldir á vertíðum og má enn sjá ummerki um lendingar, byrgi og fleira.

Sæstrengur liggur milli Vestmannaeyja og lands og er þrettán km langur. Í fréttum á árinu 2013 var talað um erfiðar aðstæður við landtöku bæði á Landeyjarsandi og í Eyjum. 

Landtaka hefur verið notað um aðgerðina, að leggja strenginn úr sjó og upp á landi. Landtökustaðirnir eru hins vegar Landeyjarsandur og Brimnes sem er til móts við Klettsnef í Ystakletti í Vestmannaeyjum. Líklega fer betur á því að nota orðið lengingarstaður, það er styttra og þýðara.

Tillaga: Enginn tillaga gerð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Sæll Sigurður. Persónulega finnst mér réttara að nota forsetningarnar til og frá, í stað inn í eða út úr. Til og frá eru líka nefndar staðarforsetningar ef mig misminnir ekki.  Fyrirsögnin byrjar þannig réttilega á að segja, að Margrét hafi verið á leið til Reykjavíkur og ef hún hefði ekki lent í skaflinum þá hefði hún komist klakklaust frá Siglufirði, og engin frétt verið skrifuð.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 18.2.2019 kl. 19:02

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sæll, 

Bestu þakkir fyrir innlitið, Jóhannes.

Út af firðinum kemur ekki til greina. Enginn tekur þannig til orða.

Hægt er að sigla út úr firðinum, aka úr honum eða frá honum. Hvort tveggja er ágætt mál. Sá sem heldur á penna velur og það veltur á samhenginu og stíl hvort hann notar þetta tvennt eða annað álíka.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 18.2.2019 kl. 22:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband