Ísraelinn sem hefur endaskipti á staðreyndum
21.9.2015 | 14:08
Ýmis sagnfræðileg atriði eru þess eðlis, að aðalatriðin eru ljós og skýr og ofast afar langsótt að fara að leita að öðrum atriðum til að gera þau að aðalatriðum.
Með engu móti er hægt að halda því fram að Íslendingar hafi veitt Bobby Fisher hæli vegna velþóknar á Gyðingahatri hans.
Aðalatriðið var að hann var bannfærður á næsta langsóttan hátt fyrir það að hafa brotið gegn viðskiptabanni sem Bandaríkjamenn settu á vegna stríðs í fyrrum Júgóslavíu og hundeltur fyrir það. [...]
Jafn langsótt er það að bannfæra eigi flutning og lestur Passíusálma Hallgríms Péturssonar á Íslandi vegna þess að þeir séu einhver sérstök ádeila á Gyðinga sem þjóð.
Alveg eins mætti segja að í trúnni á Jesúm Krist felist sérstök tilbeiðsla á þeirri þjóð sem fæddi af sér þennan merkasta Gyðing allra tíma og færði honum og kristnum mönnum í hendur hið Gyðingalega trúarrit Biblíuna, það er Gamla testamentið,
Að ekki sé nú talað um trú kristinna manna á hina heilögu postula og fólkið í kringum Krist, sem allt var Gyðingar.
Þetta skrifar Ómar Ragnarsson á bloggsíðu sinni undir fyrirsögnin Aukaatriði gerð að aðalatriðinu og honum mælist vel eins og svo oft áður. Tilefnið er grein í Israel national News, sem dr. Manfred Gerstenfeld ritar og frá er sagt í frétt á mbl.is, Íslendingar ekkert lært af helförinni.
Í greininni setur Gerstenfeld út á Passíusálma Hallgríms Péturssonar sem séu uppfull af hatri og háðsglósum í garð gyðinga og að Bobby Ficher, skákmeistari, hafi fengið íslenskan ríkisborgararétt þrátt fyrir að hann hafi verið gyðingahatari.
Ómar svara manninum ágætlega og einnig Jón Valur Jensson sem segir í athugasemdum við pistil Ómars:
Ekkert Gyðingahatur er heldur til í sálmum Hallgríms Péturssonar, sem var ómengaður af Gyðingahatri Lúthers. Og það lýsir ekki Gyðingahatri að tala um Gyðinga sem "Júða", það merkir einfaldlega Gyðinga á öld Hallgríms, og við lesum ekki eitthvert nazistískt hatur eftir á inn í orðfæri Hallgríms -- þ.e.a.s. nema við séum sjálfir ruglaðir. Hallgrímur er maður kærleikans, ekki haturs, ólíkt Gyðingahöturum síðari tíma (múslimskum og heiðnum).
Að æðstu prestar Gyðinga, Farísear og fræðimenn hafi borið ábyrgð eins og rómverskir ráðamenn á krossfestingu Krists og ofsókn kristinna manna á 1. öld, felur engan veginn í sér, að afkomendur Gyðinga eigi hlutdeild í þeirri sekt.
Foreldrar mínur voru kristnir og ólu börn sín upp í þeirri trú. Þrátt fyrir að hafa lesið og lært Passíusálmana í æsku get ég fullvissað alla um að ég er ekki haldinn neinum rasisma né heldur hatast ég við gyðinga eða Ísraela og raunar engra ríkja, þjóða eða hópa sem ég þekki til.
Þó veit ég það sem Jón Valur segir, að æðstu prestar Gyðinga, farísear og rómverskir ráðmenn báru ábyrgð á krossfesingu Krists (læt hér vera rökræður um hvort sögur af krossfestingunni kunni að vera rangar). Megi ekki nefna þessa staðreynd þá er illt í ári fyrir frjálsri hugsun.
Núlifandi Tyrkir bera ekki ábyrgð á þjóðarmorði á Kúrdum á síðustu öld, né heldur er hægt að draga Bandaríkjamenn til ábyrgðar fyrir þrælahald á þarsíðustu öld eða þá sem nú búa þar sem er Alsír fyrir svokallað Tyrkjarán á Íslandi og víðar. Ekki heldur er með nokkru móti hægt að berja á Dönum fyrir maðkað mjöl eða draga Þjóðverja til ábyrgðar vegna tveggja heimsstyrjalda.
Staðreyndir eru einfaldlega staðreyndir, framhjá þeim skautar dr. Manfred Gerstenfeld. Misskilningur hans byggist á því að orðin gyðingur og júði tengd trúarlegum atburðum kristinna manna séu merki um and-semitisma. Þetta er auðvitað heimskuleg nálgun og ekkert annað en ofstæki og skortur á skilningi og umburðarlyndi gagnvart kristinni trú og menningu. Auðvitað er svona ekkert annað en til skammar fyrir mann sem telur sig menntaðann.
Í raun og veru hefur Ómar Ragnarsson hárrétt fyrir sér í ofangreindri tilvitnun:
Ýmis sagnfræðileg atriði eru þess eðlis, að aðalatriðin eru ljós og skýr og ofast afar langsótt að fara að leita að öðrum atriðum til að gera þau að aðalatriðum.
Styttri vinnutími og frímínútur eru alltaf til góða
20.9.2015 | 23:43
Svíar hafa gert tilraunir með styttri vinnudag áður en oftar en ekki hafa þær tilraunir verið gerðar í einkageiranum, en ekki þeim opinbera. Sex klukkustunda vinnudagur var tekinn upp hjá Toyota í Gautaborg fyrir þrettán árum og þótti það gefa svo góða raun að forsvarsmenn fyrirtækisins hafa ekki einu sinni íhugað að lengja vinnudaginn aftur.
Ofangreind tilvitnun er í dv.is. Vinnudagurinn er skrýtinn fyrir marga. Sumir hafa ótrúlega mikið að gera allar átta klukkustundir dagsins en aðrir minna. Ábyrgð fólks er enda mismikil og fer eftir verkefnunum.
Stundum hefur flögrað að mér að vinnutíminn minn ætti að vera þrjár klukkustundir. Ég sit fyrir framan tölvu daginn út og inn og á tíðum klárar maður verkefni dagsins á örskömmum tíma. Á eftir tekur við bölvað hangs og kjaftæði. Betra væri að fara hreinlega heim heldur en að sitja við það sem ekkert er.
Margir rithöfundar eru á þessari skoðun. Þegar þeir eru komnir á skrið er sagt að daglegt hámark sé að skrifa að meðaltali fjórar blaðsíður á dag, hugsanlega á þremur klukkustundum. Eftir það þarf heilinn hvíld frá skrifum og annað tekur við.
Átta klukkustunda vinnudagur er krefjandi og jafnvel slítandi. Þess vegna hafa til dæmsi mörg tölvufyrirtæki byggt upp afþreyingu fyrir starfsmenn sína. Nefna má Apple og Google og þar eru jafnvel hvíldarherbergi út um allt. Stjórnendur gera sér grein fyrir því að hugurinn þarf hvíld, frímínútur, eins og sagt er í skólanum. Eftir tiltölulega stutta hvíld verður hugurinn ótrúlega fljótt skarpur á ný.
Ég man að faðir minn kom oft heim í hádeginu, fékk að borða og lagðist á dívaninn, og dottaði yfir fréttunum. Eftir það var hann ferskur og hress og ábyggilega miklu skárri í vinnunni en ella. Þetta var lenska hér á árum áður ekki síst á úti á landi. Klukkutíma matarhlé var víðast í frystihúsum í litlum bæjarfélögum úti á landi og flestir gengu heim, borðuðu og fengu sér lúr.
Í stjórnun er til hugtakið að brenna út. Þá er átt við þann vegg sem margir lenda á eftir langa og hvíldarlitla vinnu mánuðum eða jafnvel árum saman. Skyndilega er sem ofurþreyta leggst á fólk, það verður kærulaust og hugmyndasnautt. Margir hafa kynnst þessu.
Oft tekur langan tíma að ná sér eftir þannig ástand og því er leitast við að komast hjá því. Það er einungis hægt með því að gefa huganum stutta og langa hvíld frá verkefnum dagsins. Að öðrum kosti byggist upp þreyta, stress og því fylgja ýmsir líkamlegir kvillar eins og vöðvabólga.
Sex stunda vinnudagur er ábygglega mjög góður. Þegar ég var við nám í Ósló á níunda áratug síðustu aldara var mikið rætt í fjölmiðlum um styttri vinnudag. Þá var áhyggjuefnið að þar sem það hafði verið reynt breyttustu skyndilega aðstæður. Óvænt tengslu fundust á milli heimilisofbeldis og skemmri vinnutíma. Ekki er lengra síðan en að fólk á miðjum aldri, sérstaklega karlmenn, höfðu engin áhugamál, brauðstritið var þeim allt. Þegar heim var komið um miðjan dag kunnu hjón ekki að tala saman eða eyða tímanum saman og sambandið endaði í tómri vitleysu.
Sem betur fer eru nú komnar nýjar kynslóðir sem hafa ógrynni áhugamála og góðar aðstæður til að nýta sér þau. Þar af leiðandi er nú lítil hætta á að karlar hafi ekkert þarfara að gera eftir vinnu en að berja konurnar sínar og jafnvel börn, eins og það var einu sinni svo ónærfærnislega orðað.
Borgarstjórn tekur yfir utanríkismál landsins
20.9.2015 | 18:51
Nú eru skuldir borgarinnar orðnar áhyggjuefni og það þótt allir gjaldstofnar hafi verið keyrðir upp í topp. Nýlega kom í ljós að ringulreið ríkir í daglegri fjármálastjórn borgarinnar. Í stað þess að snúa sér að því forgangsverkefni þykjast borgaryfirvöld þurfa að taka yfir utanríkismál landsins og hafa þau til að nesta einn af pólitískum samherjum sínum sem flyst á nýjar slóðir.
Úr Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins þessa helgina. Mörgum finnst þarna komist réttilega að orði.
Fjárhagsleg staða Reykjavíkurborgar var áhyggjuefni. Nú hafa enn fleiri áhyggjur af því að völdin hafi vaxið núverandi meirihluta til höfuðs eða hann hafi einfaldlega misst sjónar á forgangsatriðum í rekstri sveitarfélags.
Ljóst má þó vera að dómgreindarleysi meirihlutans er mikið ef hann ætlar sér að taka yfir utanríkismál landsins, þó ekki nema til þess að fráfarandi borgarfulltrúi fái fararheill til útlands. Þetta angar af spillingu.
Stórkostleg pólitísk mistök meirihlutans í borgarstjórn
19.9.2015 | 15:24
Orð standa, því miður er það svo. Hversu mikið sem maður sér eftir orðum sínum þá eru þau þegar sögð og verða aldrei tekin aftur. Hins vegar er hægt að bera í bætiflákann, afsaka orð sín ...
Hvers vegna vill borgarstjóri nú draga til baka tillögu sem meirihluti borgarstjórnar samþykkti fyrir skömmu um sniðgöngu á vörum frá Ísrael?
Gæti það verið vegna einhverra eftirfarandi atriða:
- Tillagan var vanhugsuð?
- Tillagan var rangt orðuð?
- Tillagan var fljótfærnislega unnin?
- Tillagan hafði allt aðrar og verri afleiðingarnar en búist var við?
- Tillagan veldur öðrum sveitarfélögum skaða?
- Tillagan er brot á íslenskum lögum?
- Tillaga stefnir íslenskum viðskiptum í mikla hættu?
- Tillagan hefur valdið tjóni á íslenskum útflutningi og ferðaþjónustu?
- Tillagan sannaði dómgreindarleysi borgarstjóra og annarra borgarfulltrúa meirihlutans?
- Tillagan var heimskuleg?
Hvert eitt af ofangreindum atriðum ætti að vera nóg sem stór ávirðing á borgarstjórnarmeirihlutann. Nú er hins vegar ljóst að öll tíu atriðin skipta máli og þess vegna hefur borgarstjórinn játað á sig og félaga sína stórkostleg pólitísk mistök.
Væri borgarstjóri í öðrum flokki hefði verið kallað á afsögn hans og raunar meirihlutans alls.
Borgarstjóra til afsökunar er sú einfalda staðreynd að öll nemendafélög geta gert mistök sem fullþroska fólk gerir ekki.
Níu umhugsunarefni Styrmis Gunnarssonar
19.9.2015 | 12:56
Styrmir Gunnarsson leggur línurnar fyrir landsfund Sjálfstæðisflokksins í október næstkomandi. Í dálki sínum í blaði dagsins nefnir hann níu atriði sem flokkurinn þurfi að taka á.
- Aðildarumsóknin að ESB verði afturkölluð með óyggjandi hætti fyrir lok þessa kjörtímabils.
- Þjóðaratkvæðagreiðslur verði ráðandi við meginákvarðanir í þróun samfélagsins sem og í sveitarfélögum.
- Í stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindum; nytjastofna á Íslandsmiðum, vatnsafl, auðlindir á eða undir hafsbotni, fjarskipti og umhverfisgæði.
- Útfærsla á stefnu flokksins varðandi norðurslóðir í sambandi við ríki sem hagsmuni eiga þar að gæta.
- Umhverfis- og náttúruvernd; Friða á hálendi Íslands og aðrar perlur óbyggðanna.
- Aðgengi alla að menningararfinum og átak til málhreinsunar, sérstaklega vegna mengunar úr ensku.
- Sjálfstæðisflokkurinn var ekki stofnaður til að verja hagsmuni einkarekinna einokunarfyrirtækja, breyta þarf lögum gegn einokun. Eigendur lífeyrissjóða kjósi sjálfir stjórn sjóðanna í beinni kosningu.
- Í velferðarmálum verði ráðist að rót vandans, það er á æskuárum einstaklingsins.
- Réttlát skipting auðs.
Margt má segja um þessar hugmyndir Styrmis. Í heild má segja að þær séu skynsamlegar og rík ástæða til að ræða þær allar.
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er stærsti fundur stjórnmálaflokks á Íslandi og þar er mikil lýðræðisleg gerjun þvert á það sem andstæðingar flokksins og illa upplýst fólk heldur.
Stundum virðist þó sem þessi stóri flokkur hafi ekki fylgst nægilega vel með þjóðfélagsbreytingum en þær hafa orðið miklar á undanförnum áratugum. Til dæmis hefur mikil aukning orðið í útiveru og ferðalögum hér innanlands. Yngra fólk lítur allt öðrum augum á auðlindir landsins, náttúru þess og umhverfi en fólk gerði fyrir á síðustu öld og mikil hugarfarsbreyting hefur einnig orðið hjá eldra fólki. Þess vegna er níunda atriði Styrmis algjörlega réttlætanlegt í umræðunni.
Auðvitað vilja Sjálfstæðismenn gæta að frelsi einstaklingins, en það er ekki einskorðað við fyrirtækjarekstur. Frelsið er enn meira og stærra. Við eigum að leggjast gegn einokunartilburðum fyrirtækja. Við þurfum að gæta að því að fjármálastofnanir vaði ekki yfir viðskiptavini sína og sem og aðra landsmenn. Margir halda því fram að aðgangur sjávarútvegsfyrirtækja sé miklu minni en réttlætanlegt sé. Þessi atriði eru felast í hugmyndum Styrmis.
Grundvöllur þjóðfélagsins er einfaldlega sá að allir hafi atvinnu, afli fjár til að eiga fyrir mat, húsnæði og öðrum þeim þörfum sem þeir telja sig hafa. Allt annað kemur í kjölfarið og verði brestur á þessu gengur þjóðfélagsgerðin ekki upp, allir tapa.
Nægilegs fés hefur verið safnað, segir Mogginn
19.9.2015 | 11:19
Nægilegs fés hefur verið safnað til að kaupa Concorde-þotu með það að markmiði að koma henni aftur í loftið fyrir árið 2019, segir hópur breskra áhugamanna um vélina
Svona er hroðvirknin stundum í fréttaskrifum á mbl.is. Í ofanálag er ekki einu sinni settur punktur aftan við málsgreinina.
Hér er annað gullkorn:
Hópurinn ráðgerir einnig að hafa aðra Concorde-þotu til sýningar í miðborg Lundúna.
Og svo eitt enn:
Hann segir þau sína að fólki sé annt um Concorde og vilji sjá þær í háloftunum á ný.
Líklega er óþarfi að láta þess getið að fréttin er að auki illa skrifuð, þýðingin hrá og augsýnilega gerð í fljótfærni.
Svona fréttamennska og skrif er auðvitað til skammar fyrir hið virðulega Morgunblað.
![]() |
Concorde í loftið 2019? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.9.2015 kl. 01:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Íslenskt skattfé var ekki notað til að greiða vanskil óreiðumanna
18.9.2015 | 17:44
Fyrirsagnahausar og annað fólk sem er frekar ill að sér veður nú upp á dekk og segir: Já, vissi ég ekki. Nú er verið að borga Icesave skuldina sem við áttum að vera laus við.
Staðreyndin er hins vegar þessi:
- Þjóðin hafnaði kröfu vinstri stjórnar Jóhönnu og Steingríms þess efnis að skattfé almennings væri notað til að greiða skuldir einkaaðila. Munum að Davíð Oddsson, fyrrum Seðlabankastjóri sagði að þjóðin ætti ekki að ábyrgjst vanskilaskuldir óreiðumanna. Og hún gerði það ekki. Þjóðin rassskellti svo vinstri stjórnina í næstu þingkosningum á eftir.
- Icesave skuldin var greitt með eignum gamla Landsbankans og Tryggingasjóði innistæðueigenda, peningar sem komu ekki af skattfé þjóðarinnar.
- Fyrir forgöngu forseta Íslands hafnaði þjóðin því að taka að sér vaxtaskuldir vegna Icesave samninganna, mörg hundruð milljarða, líklega hafa vextirnir einir verið nálægt 400 milljörðum króna að núvirði.
Kratar og vinstri aðrir menn skildu ekki eðli skulda gömlu bankanna og hótuðu þjóðinni þar af leiðandi öllu illu. Muna ekki einhverjir eftir Kúbu norðursins, orðalag sem Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra í vinstri stjórninni lét hafa eftir sér í hræðsluáróðri vinstri manna með Icesave samningunum. Gylfi þess er nú prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands og líst án efa vel á stöðu efnahagsmála á Íslandi um þessar mundir.
Þeim er vorkunn vinstri mönnum. Í fyrsta sinn er hrein vinstri stjórn tókst að tóra í fjögur ár er arfleifðin Icesave samningar sem þjóðin kaus gegn.
![]() |
Samið um lokauppgjör Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Hver var þessi Johann Sebastia Bach?
17.9.2015 | 10:34
Í matarboði í fyrrakvöld var talsvert rætt um menntun og minni. Þá rifjaði ég upp þegar bandarískur yfirmaður eiginkonu minnar fyrir nær aldarfjórðungi gat flaggað meistaragráðu í viðskiptafræði, en þegar talið barst að tónskáldi að nafni J.S. Bach hafði hann ekki hugmynd um hver það var. Fyrir mér er slíkur maður ómenntaður.
Þetta skrifar Einar Falur Ingólfsson, blaðamaður og ljósmyndari, í Ljósvaka Morgunblaðs dagsins.
Þegar öllu er á botninn hvolft er spurningin þessi: Hvað er menntun?
Flestir minnast kennslustunda í skóla sem þeim þótti algjör tímaeyðsla. Hversu oft var ekki sagt: Sko, ég á aldrei eftir að hafa neitt gagn af þessu. Án efa var átt efa við dönsku, sagnfræði,, líffræði, stærðfræði og líklega öll fög sem kennd voru.
Ungt fólk veit fátt en þegar aldurinn færist yfir uppgötva flestir hversu þekking þeirra er í raun og veru lítil.
Í gær átti ég spjall við konu sem er læknir og hefur að auki lokið nokkrum prófum í öðrum greinum, sumsé hámenntuð kona. Hún sagðist eiga þá ósk heitasta að komast aftur á skólabekk, læra til dæmis frönsku og fleira og fleira. Það er svo gaman að sitja í skóla og teyga að sér þekkingu, sagði hún.
Ekki hafa allir slíka minningar um skólagöngu sína að þeir vilji endurtaka leikinn.
Grundvallaratriði menntunar er lestur, ekki endilega prófgráður heldur sönn þrá eftir þekkingu, vitneskju, hvort sem hún gagnast fólki í daglegu lífi eða ekki.
Foreldrar og skóli eiga að hvetja börn til lestrar. Takist það ekki stefnir menntakerfið í mikinn voða. Allir munu hafa gagn af því að læra dönsku, sagnfræði, stærðfræði eða önnur fög. Krakkar og unglingar vita fátt um heiminn og lífið framundan. Þess vegna ungt fólk að læra það sem fyrir það er lagt. Punktur.
Ef ekki er víst að að fleiri og fleiri segist ekki vita hver Johann Sebastian Bach er og hvað hann lagði til heimsmenningarinnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hvar fannst hrossið og ætlaði bóndinn að aka utan vega?
17.9.2015 | 00:08
Einkar sérkennilegt er þegar blaðamenn skauta framhjá mikilvægum atriðum í fréttaflutningi. Það finnst mér hafa verið gert í annars vel skrifaðri og skemmtilegri frétt á mbl.is um týndan hest sem eigandi leitaði að í þyrlu.
Ekki finnst stafkrókur um hvar Staðarbakki er í Fljótshlíðinni, en þaðan fór hesturinn. Bærinn er hins vegar um þrjá til fjóra km austan við Hvolsvöll.
Og hver fór svo blessuð skepnan? Ekkert segir um það í fréttinni. Fór hann norður yfir Fljótshlíðina eða upp í áttina að Tindfjallajökli? Eða bara fór hann eitthvað og eru þær upplýsingar nógar?
Ekki kannast ég við fjöllin sem eru á myndinni en það hefði verið tilvalið að setja nöfn þeirra í myndatexta.
Í lok fréttarinnar segir frá því að bóndinn á Staðarbakka hafi ætlað að leita að hestum á fjórhjóli. Hmmmm ...
Fleiri en ég velta því ábyggilega fyrir sér hvort hann ætlaði að aka utanvega á fjórhjóli en það er auðvitað öllum bannað. Eða ætlaði hann bara að aka eftir vegum og vegarslóðum og skyggnast þar um vegleysur? Spyr sá sem ekki veit.
![]() |
Leituðu að hesti í heystakki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tignarlegt útsýni á degi íslenskrar náttúru
16.9.2015 | 18:31
Í tilefni af degi íslenskrar náttúru ók ég með öðrum að Höskuldarvöllum sem eru skammt suðvestan við Keili. Þar er mikilfenglegt landslag, stórkostleg hraun, Trölladyngja (sem er í raun ekki dyngja í jarðfræðilegum skilningi), Grænadyngja (sem ekki er heldur dyngja)
Þar er Lambafell og hin víðfræga Lambafellsgjá. Meðfylgjandi mynd er tekin úr gjánni og má sjá þar til Esju og höfuðborgarinnar ef grannt er skoðað.
Veðrið var eins og best verður á kostið. Glampandi sól, hiti og norðan andvari til að kæla göngufólk. Verð þó að viðurkenna að hlémegin við Lambafell var mun hlýrra en uppi eða áveðurs.
Neðri myndin er tekin af Lambafelli og horft í suður. Þar er Grænadyngja, Trölladyngja (með tindinum) Höskuldarvellir og lengst til hægri Keilir ásamt börnum sínum.
Tignarlegt útsýni á degi íslenskrar náttúru og afmælisdegi Ómars Ragnarssonar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ríkisútvarpið segir að haustið sé komið - sem er rangt
15.9.2015 | 16:01
Ríkisútvarpið er beinlínis árstíðavillt stofnun. Fullum fetum heldur hún því fram að nú sé komið haust.
Þetta er kórvilla. Þegar þetta er ritað er tíu gráðu hiti í Reykjavík, fimm í Bolungarvík, sjö á Akureyri, sjö á Egilsstöðum og þrettán á Kirkjubæjarklaustri. Undir lok vikunnar er því spáð að hitinn á þessum stöðum verði rétt um níu gráður. Varla eru það hitatölur haustsins hér á landi?
Enn eru laufin ekki farin að sölna, ekkert frost á nóttunni og raunar vel útiverandi fyrir kalla og kellingar á öllum aldri.
Ríkisútvarpið skrökvar því að haustið sé komið af því að það hentar í auglýsinguna um dagskrá hausts og vetrar. Hundrað þúsund merki benda til þess að enn lifi sumar á Íslandi.
Raunar hefur sumt fréttafólk og dagskrárgerðarfólk tuðað frá því um mitt sumar að haustið sé komið, fyrsta haustlægðin skollið á og allt sé á hröðu undanhaldi. Veit þetta fólk þó ekkert um haustlægðir, eðli þeirra eða gang. Hvassviðri (sem tíðum er nefnt mikill vindur) og úrkoma, það er slagviðri, er ekkert einkenni á hausti, aðeins reykvískt veður ef svo má kalla.
Gleðjum nú okkur við sólarylinn, að minnsta kosti þar sem glæta er, njótum útiveru og gönguferða og gefum um leið lítið fyrir bölmóðsyfirlýsingar Ríkisútvarpsins.
Ég hef það þó eftir mjög áreiðanlegum heimildum draumspaks manns sem ekki vill láta nafns síns getið að haustið sé í nánd. Hann telur að á næstu sjö mánuðum kunni að hitastigið muni ýmist vera yfir frostmarki eða undir því. Alvarlegustu tíðindin eru þó þau að á þessum tíma kann að snjóa og rigna, þó ekki á sama tíma. Á milli snjóbylja og skúra mun ábyggilega stytta upp (fyrir þá sem ekki þekkja orðalagið er átt við að snjókoman eða rigningin hætti).
Frábær Kastljósþáttur um flóttamannavandann
14.9.2015 | 21:10
Kastljós kvöldsins 14. september 2015 var verulega gott. Skynsamleg og skipulögð dagskrá um flóttamannavandann sem núna tröllríður Evrópu. Þátturinn var á mannlegu nótunum, byggðist framar öllu á reynslu flóttafólks sem er hrikaleg. Grafíkin um fjölda flóttafólks var til dæmis einstaklega góð, vel útfærð og öllum skiljanleg. Viðtölin voru flest góð, sumum var ofaukið eins og gengur.
Hann var eftirminnilegur sýrlenski læknirinn sem ásakaði forseta Sýrlands fyrir að hafa eyðilagt þjóðfélagið, ríki íslams fyrir það sama. Hann sakaði líka þjóðir heims sem ekki geta tekið á móti fólki sem flýr stríð og alla þá áþján sem fylgir. What good is a sorry for me and my people? sagði hann.
Flestir fyllast undrun yfir flóði flóttamanna til Evrópu, sem þó er aðeins örlítill hluti flóttamanna heimsins. Engu að síður fer Evrópa nærri því á hliðina og greinilegir brestir eru í Evrópusambandinu. Sum ríki bjóða flóttamenn velkomna, önnur þráast við og svo eru þau sem læsa landamærum sínum og byggja upp hatursáróður gegn fólki. Ef að líkum lætur mun Þýskaland standa með flóttamönunum, bjóða þá velkomna, og ... láta þau ríki sem ekki gera það finna fyrir því efnahagslega. Gott hjá Merkel.
Þegar öllu er á botninn hvolft er Evrópusambandið afar laust í reipunum þrátt fyrir að kommissarar þar og fleiri haldi öðru fram. Þetta er sorgleg staðreynd.
Orð Þóris Guðmundssonar hjá Rauðakrossinum eru einnig eftirminnileg enda skynsamlega mælt. Aðspurður sagði hann að eflaust gætu Íslendingar tekið á móti þúsund flóttamönnum yfir einhvern tíma. Það krefðist þó mikillar skipulagningar. Vonandi láta stjórnmálaflokkar nú af yfirboðum í umræðum um fjölda þeirra flóttamanna sem Ísland getur tekið á móti. Skynsamlegast er að við tökum á móti þeim sem hægt er að sinna með sérþjálfuðu fólki, veita húsnæði, atvinnu og menntun.
Viðtal var við fjölskyldu sem hefur verið hér í tvo mánuði. Þetta fólk vill ekki vera byrði á þjóðfélaginu. Fjölskyldufaðirinn sagðist framar öllu vilja fá starf við hæfi og ala þannig önn fyrir sínu fólki. Þetta er til mikillar eftirbreytni og ástæða fyrir alla Íslendinga að íhuga, ekki síst þá sem eru á móti því að taka á móti flóttamönnum.
Bestu þakkir fyrir frábæran Kastljósþátt.
![]() |
Á Íslandi er framtíðin björt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Langlokustíll Guðmundar Andra og meginreglur
14.9.2015 | 14:30
Hér á landi eru jafnaðarmenn ekki í rónni fyrr en þeir eru búnir að stofna nýjan flokk gegn fjórflokknum, með þeim árangri að hægri menn hafa stjórnað Íslandi meira og minna alla okkar fullveldistíð; þegar vinstri flokkarnir komust loks til valda þurftu þeir að vísu að endurreisa efnahagskerfið eftir mestu efnahagsófarir Íslandssögunnar, heimatilbúnar að mestu, en sökum þess að vinstri flokkunum tókst ekki, á fjórum árum að færa til betri vegar allt sem aflaga hafði farið á Íslandi öll fullveldisárin með markvisst málþóf minnihlutans í gangi frá morgni til kvölds og um nætur þá ákváðu kjósendur að leiða á ný til valda hægri flokkana og refsa vinstri flokkunum.
Þessi 108 orða málsgrein er annað hvort tær snilld eða tóm vitleysa. Hallast einkum að því fyrrnefnda. Man ekki til þess að hafa lesið jafnlanga málsgrein en hana skrifar Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur í Fréttablaðið í dag. Svo er það allt annað mál hvort maður sé sammála því sem þarna kemur fram.
Ég líti mjög upp til Jónasar Kristjánssonar, fyrrverandi ritstjóra, sem hefur skrifað mikið um stíl, rithátt og fleira gagnlegt. Hann segir í kenningum sínum um stíl í greinaskrifum:
1. Skrifaðu eins og fólk, ekki eins og fræðimenn.
2. Settu sem víðast punkt og stóran staf.
3. Strikaðu út óþörf orð, helmingaðu textann. ...
Þessa skoðun sína rökstyður Jónas á afar skilmerkilegan og skýran hátt:
Í kennslubókum blaðamanna er beðið um, að þeir skrifi ekki lengri málsgreinar en 23 orð. Í bókum fyrir sjónvarpsmenn og vefmiðlara er hámarkið sett við 17 orð. Nútímafólk vill ekki lesa eða heyra lengri málsgreinar. AP biður um 16 orða meðaltal.
Farsímar eru að verða tölvur almennings. Þar er skjárinn lítill. Það eykur kröfur til aukins hraða á textanum. Í forritinu Twitter, sem notað er í fjölpósti í farsíma, er hámarksfjöldi stafa 140. Það jafngildir einni 17-23 orða málsgrein. Einni skjámynd í farsíma.
Fólk skrifar oftast vegna þess, að það vill ná til annarra. Það er erfiðara en áður, því að fólk les minna og lætur meira truflast af öðrum tímaþjófum. Verkefni höfundar er að ná athygli fólks og halda henni til enda. Stuttar málsgreinar eru mikilvægt tæki.
Þeir, sem kunna stíl, geta brotið þessa reglu eins og aðrar reglur stílfræðinnar. En þú mátt ekki brjóta hana fyrr en þú veist, hvað þú ert að gera. Þess vegna, 23 orð í málsgrein, takk. Eða færri. Ekki fleiri. Kúnnarnir þínir lesa ekki, heldur skanna þeir.
Ég er þess fullviss að Jónas hefur rétt fyrir sér og Guðmundur Andri gerir mistök með þessum hluta greinar sinnar, jafnvel þó hann viti sitthvað um stíl. Lesandinn skannar yfir textann en nær ekki samhenginu á hraðferð sinni. Engu að síður er þetta vel skrifað hjá höfundinum þó ég sé alls ekki sammála innihaldinu (hafi ég skilið langlokuna rétt).
Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur skrifar vikulega rammpólitískar vinstri sinnað greinar í Fréttablaðið. Þann 16. mars á þessu ári fjallaði hann um umdeilt bréf utanríkisráðherra til ESB. Í því ítrekar ráðherrann að landið sé ekki lengur umsóknarríki um aðild. Þá sagði Guðmundur Andri með pólitískum þjósti:
Nú sniðganga þeir sjálft þjóðþingið í meðferð mikilvægasta utanríkismáls lýðveldissögunnar; senda án samráðs við utanríkismálanefnd loðmullulegt bréf sem enginn skilur, órætt og klúðurslegt uppsagnarbréf. Meira að segja málsmetandi þingmenn stjórnarmeirihlutans túlka bréfið sem svo að hér sé ekkert nýtt, bara árétting á því að ekkert sé að gerast. Aðrir túlka það öðruvísi.
Flestir munu nú telja að stíll Guðmundara Andra sé almennt mun betri og skiljanlegri en utanríkisráðnsherrans sem þó er ekki þekktur af rithæfileikum. Utanríkisráðuneytið er líklega ekkert betra í stíl, nema ef vera kynni kanselístíl, það er stjórnskipulegum nafnorðastíl.
Þegar á allt er litið er hugsanlega ekki á forræði Guðmundar Andra að ráðleggja öðrum í stíl.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Svikapóstur um Símann sendur út frá íslensku netfangi
11.9.2015 | 17:43
Glæpastarfsemin færist enn í aukanna. Fyrr í dag fékk ég póst á ensku þar sem einhver sem þóttist vera Síminn sagðist vera að uppfæra gagnabanka sinn og ég beðinn um að svara póstinum og senda inn nafn, netfang, aðgangsorð og leyniorð og fleira. Ef ekki yrði lokað á mig.
Svona gerast nú glæpirnir á eyrinni nú til dags en þetta er ekki fyrsti pósturinn frá einhverjum glæpasamtökum sem eru að reyna að hafa eitthvað upp úr krafsinu. Og hugsið ykkur ef sendir eru tíu þúsund svona póstar og 1% viðtakenda svara. Það telst nú bara ágætur afrakstur.
Hitt er þó verra að sendandi póstsins er með netfangið info@siminn.is. Sumsé íslenskt netfang og það hjá Símanum.
Einhver hlýtur þá að hafa kostað einhverju til og skráð sig. Þær upplýsingar hljóta að vera til hjá Símanum.
Hins vegar kastar viðkomandi til höndunum því hann gat ekki einu sinni druslast til að láta þýða textann á íslensku. Hann hefði til dæmis getað notað Google-translate. Það hefði ábygglega hækkað svarhlutfallið að miklum mun.
Auðvitað framsendi ég póstinn á Símann og bíð nú spenntur eftir því að fá að vita hvort glæponinn fái að halda áfram uppteknum hætti eða lokað verði á hann.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ikea selur ónýta diska og neitar að bæta
11.9.2015 | 14:44
Hér er hér örsaga af diskunum sem ég keypti í Ikea fyrir tæpum tveimur árum. Gerði raunar meir, endurnýjaði diskasett og hnífaparasett í einni verslunarferð. Valdi IKEA fyrir gæðin eða svo hélt ég.
Svo gerist það nokkru síðar að ég tek eftir rispum á diskunum en þar sem ég er almennt ekkert vandlátur eða smámunasamur velti ég þessu ekkert fyrir mér og hætti að taka eftir þeim.
Svo var það fyrir stuttu að gestir höfðu orð á því hvort diskarnir mínir voru mjög fornir, svo rispaðir sem þeir eru, svo var hlegið. Ég kvað nei við og horfði undrandi á rispurnar, skoðaði svo alla diskana og komst að því að þeir voru eiginlega ónýtir. Var alveg hættur að taka eftir rispunum.
Daginn eftir hafði ég samband við Ikea og fékk þau svör að ég þyrftir að vera með kvittun til að geta skilað þeim. Í langan tíma hef ég gert sjálfan mig að aðhlátursefni með því að taka reikning eða kassakvittanir fyrir öllum viðskiptum sem ég hef átt í. Ekki nóg með það að allt þetta á ég í möppum frá því ég var var unglingur.
Það dugði mér ekki í þetta skipti því ekki fann ég kvittunina frá IKEA og ekki heldur gat ég rakið greiðsluna í debet- eða kreditkortareikningum. Hef líklega greitt með seðlum, sem ég er næstum því hættur að nota.
Því miður, sagði konan í símanum. Kittun er ábyrgðaskírteinið og án þess engar bætur.
En góða kona, sagði ég. Enginn annar selur þessa diska og hnífapör nema Ikea. Diskarnir eru af gerðinni Thomson pottery og að auki stendur eftirfarandi á botni þeirra: China, microwave and Diswasher Sale. Dugar það ekki.
Ég held að hún hafi svarað á ensku: The computers says NO. Að minnsta kosti var svarið ískalt nei.
Þetta þykir mér furðulegt og eiginlega sérhannað svar til þess að komast hjá því að taka ábyrgð á lélegri eða ónýtri vöru.
Hér er annar diskur úr eigu minni. Hann áttu foreldrar mínir og er ábyggilega um sextíu ára gamall. Ekkert sést á honum, ekki ein rispa.
Hvað gera neytendur í svona tilviki?
Skyld'ann Ingvar Kamprad vita af'essum ónýtu diskum?
Er ekki grunsamlegt þegar húsbíll ekur út úr Norrænu í september?
10.9.2015 | 14:53
Það er ekki hægt að segja það en grunnurinn að þessu er vönduð áhættugreining hjá tollinum á Íslandi í samvinnu við tollyfirvöld í Færeyjum og lögreglu hér á landi.
Ofangreint er úr frétt Ríkisútvarpsins af tilraun fólks til að smygla fíkniefnum í húsbíl. Fólkið kom með Norrænu síðasta þriðjudag, þann 8. september 2015.
Ekki veit ég hvað margir húsbílar koma nálægt miðjum september með Norrænu til Seyðisfjarðar. Varla þurfa lögregluyfirvöld einhverja flókna áhættugreiningu til að fyllast tortryggni þegar húsbíll ekur út úr skipinu á móti þeim hundruðum sem eru að yfirgefa landið.
Annað hvort eru einhverjir kjánar á ferð eða fólk með eitthvað óhreint í pokahorninu - nema hvort tveggja sé.
Einn sæmilega vel gefinn tollvörður myndi ábyggilega reka upp stór augu, leggja frá sér kaffibollann, hnippa í kollega sinn og segja: Ég þori að veðja að það er eitthvað gruggugt með þennan húsbíl. Skoðum hann.
Í viðtali við fjölmiðla á eftir má hann svo sem segja drýgindalega, svona eins og Geir og Grani í Spaugstofnni: Tja, ég get ekki sagt mikið um málið en áhættugreiningin hjá okkur Grana skilaði einfaldlega þessum árangri.
![]() |
Földu efnin ekki vandlega |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.9.2015 kl. 00:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Daninn á brúnni
8.9.2015 | 14:33
Mannkynið skiptist í gott fólk og vont fólk.
Ef til vill má segja að þetta sé barnsleg og ónákvæm yfirlýsing. Hana má þó rökstyðja á ýmsan máta að minnsta kosti velta lengi vöngum yfir henni.
Maðurinn á myndinni sem hrækir flóttafólk í Danmörku og lætur svívirðingar dynja á því telur sig eflaust góðan. Hann fer ábyggilega í kirkju á hverjum sunnudegi og lofar guð sinn fyrir að vera ekki eins og þessir þarna sem ganga undir brúna. Eitthvað er þetta nú kunnugleg líking, finnst án efa í gamalli bók.
Hann er fullur ótta og hræðslu, veit ekki hvað muni gerast, hvort landið hans fyllist af útlendingum og í þokkabót fólki með ranga trú. Ef til vill er hann bara heimskur, tekur athugasemdadálkanna í dönsku blöðunum trúanlega rétt eins og íslenskir fyrirsagnahausar.
Daninn á brúnni er hræddur eins og þeir sem undir hann ganga og hræðast ástandið í heimalandi sínu. Þeir velja lífið frekar en dauðann. Hvaða örlög myndi Daninn velja fyrir þá?
Allt þetta minnir á styrjaldarárin í gömlu Júgóslavíu, óöldina á Norður-Írlandi, Baskaland á Spáni, Bader-Meinhof samtökin, heimsstyrjöldina og fjölda margt annað. Menn hafa löngu verið drepnir fyrir margt annað en trú eða hörundslit.
Ef til vill er það rangt að flestir séu góðir. Má vera að allir séu vondir að upplagi og það kosti vinnu og aga að haga sér skikkanlega.
Daninn á brúnni hefur aldrei verið flóttamaður en líklegt er að honum eins og öðrum lærist það á augabragði og geti þá átt fótum sínum fjör að launa rétt eins og undirbrúarfólkið.
![]() |
Hrækti á flóttafólkið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fór myndavélin til Mars eða eitthvurt mun skemur?
7.9.2015 | 21:19
Ísland hefur verið vinsæll áfangastaður fyrir þá sem rannsaka rauðu reikistjörnuna Mars enda þykja töluverð líkindi með þeim jarðmyndunum sem hér er að finna og þeirra sem menn reyna að ráða í á nágrannareikistjörnunni.
Svo segir í frétt á mbl.is um hóp vísindamanna sem starfar við HiRise-myndavél MRO geimfars NASA en er á braut umhverfis reikistjörnuna Mars.
Um daginn sendi ég myndavélina mína til Mars og fékk meðal annars þessar þrjár myndir til baka. Síðan hef ég verið að rannsaka þær bæði jarðfræðilega og landfræðilega og lenti auðvitað í bölvuðum vandræðum eins og lesandi minn áttar sig á ef hann klikkar á myndirnar og stækkar þær.
Sko, á efstu myndinni sé ég vegastikur, að vísu ógreinilega en það fer ekki á milli mála. Gæti verið að jeppinn á Mars komist ekki milli staða nema eftir stikum? Spyr sá sem ekki veit.
Á myndinni í miðið sjást greinilega dekkjaför. Eðlileg skýring er að þau séu þau eftir jeppa Bandaríkjamanna. Förin virðast þó vera stærri en á þeim jeppa nema hann hafi ekið þarna fram og til baka í einhverri villu.
Á neðstu myndinni sést enn ein vegastikan, snjór í fjöllum og í fjarska sýnist mér vera fjalla sem líkist íslenskum móbergsstapa.
Nú velti ég fyrir mér hvort að myndavélin hafi farið mun skemur en til Mars.
Kvur veit?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eru hin kristnu gildi ekki algild?
7.9.2015 | 11:55
Á Íslandi er trúfrelsi. Maður spyr ekki um trú þeirra sem hingað leita, ekkert frekar en maður spyr ekki um trú neins áður en honum eða henni er bjargað. (Fyrir kristna: Samverjinn spurði ekki um trú þess sem lá særður við veginn heldur gengur strax í það að hlúa að honum). Eina sem farið er fram á er að viðkomandi hlíti íslenskum lögum þar með þeim Mannréttindasáttmálum sem í gildi eru. Síðar er með ýmsum hætti farið fram á að sá aðkomni aðlagist íslensku samfélagi, og lifi í sátt við þá sem fyrir eru. Þeir sem fyrir eru gera samskonar kröfur til sjálfs sín.
Þannig ritar Baldur Kristjánsson, prestur, á bloggsíðu sína þann 5. september 2015. Mér þykir þetta vel ritað og er sammála.
Nú berast ótrúlegar frétt af vanda sem flóttamenn frá Sýrlandi og fleiri löndum hafa skapað í Evrópu. Auðvitað er það hræðilegt að fólk skuli þurfa að flýja frá heimilum sínum og til annarra landa af því að lífi þeirra er ógnað. Sögur af mannvonsku þeirra sem hafa verið kenndir við Isis eða ríki íslam eru átakanlegar, óhugnaðurinn er engu líkur. Þessi lýður eirir engu, hvorki fólki, byggingum né landi. Allt skal lagt í rúst, öllu umturnað. Mannvonskan er yfirgengileg og allt í trúarlegum tilgangi.
Hundruðir þúsunda hafa flúið til Evrópu, milljónir til næstu ríkja, Íraks, Líbanon, Jórdaníu, Tyrklands og víðar.
Séra Baldur bendir á nokkuð athyglisvert atriði í pistli sínum. Hann segir:
Við, hver sem við erum, eigum ekkert með það að tengja saman trú og réttindi. Enginn á að gjalda trúar sinnar eða græða á henni hvort sem um er að ræða landvistarleyfi eða önnur réttindi, að ekki sé talað um björgun.
Í sannleika sagt er það þetta sem kristin gildi ganga út á. Þau hafa orðið að menningu sem við höfum tekið á móti, skiptir engu við erum kristinnar trúar eða ekki. Okkur ber skylda til að aðstoða aðra í neyð þeirra rétt eins og sagan um miskunsama Samverjann kennir. Eða eru undantekningar frá hinum kristnu gildumsem gleymst hefur að segja frá?
Staðreyndin er þessi: Fólk er almennt gott og leitast eftir því að vernda sig og fjölskylduna og sinna frumþörfunum. Vont fólk er í miklum minnihluta en með ofbeldi ræður það alltof miklu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sterkt landslið, góðir þjálfarar
6.9.2015 | 21:02
Geir Þosteinssyni, formanni og öðrum stjórnarmönnum KSÍ verður í framtíðinni minnst fyrir tvennt. Annars vegar að hafa ráðið Lars Lagerbäck sem þjálfara íslenska karlalandsliðsins í fótbolta og hins vegar fyrir að gefa honum aðstöðu, frið og tíma til að sinna starfi sínu og að hafa valið Heimi Hallgrímsson sem aðstoðarmann.
Nú, þegar sú staðreynd blasir við að landsliðið fer á Evrópumótið í fótbolta í Frakklandi á næsta ári ber okkur að þakka þessum mönnum ekki síður en landsliðsmönnunum.
Næst þegar ég sé Geir mun ég taka ofan svo framarlega sem ég verð með eitthvurt pottlok á höfðinu.
![]() |
Draumurinn rættist |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |