Þingheimur er ekki lengur neitt úrval þjóðfélagsins
15.10.2015 | 18:39
Því miður hefur sú þróun orðið ansi hröð undanfarna tvo áratugi - kannski lengur - að það fólk sem velst til setu á þingi, er alls ekki neitt úrval þjóðfélagsins, síður en svo, hvorki að vitsmunum né yfirsýn.
Þessi ágætu orð skrifar Þorkell Guðbrandsson í athugasemdadálk í bloggi hjá Ómari Ragnarssyni. Sá síðarnefndi skrifar um ökuskírteini en fólk yfir sjötugu þarf að endurnýja það á tveggja ára fresti. Ómar er flugmaður og þarf að fara í læknisskoðun tvisvar á ári til að halda skírteininu. Þorkell er með réttindi til að stýra skipi og til þess þarf ítarlegra vottorð en til að aka bíl.
Þetta er nú bara aukaatriði. Mér fannst Þorkeli mælast afar vel þegar hann talar um þingmenn. Ég er honum fyllilega sammála og finnst hörmulegt að til þingmennsku veljist alltof sjaldan hinir mætustu menn af viti og/eða yfirsýn. Ef til vill hefur það aldrei verið þannig.
Vitsmunir eru líklega meðfæddir en sniðugir menn geta hugsanlega falið gáfnaskortinn með hávaða, kjaftagangi og yfirklóri, sem er hugsanlega bara gáfumerki. Yfirsýnin er þó afar nauðsynleg og það þarf ekki nema meðalmann í gáfum til að rísa upp af láglendinu, tileinka sér víðan sjóndeildarhring og halda um leið stillingu sinni og hafa hemil á masinu. Gáfan byggist þó á því að sá sem í hlut á vilji geri sér grein fyrir þessu og hafi vilja til að bera.
Oft finnst mér að þeir sem setjast á þing tileinki sér nýtt fas og talsmáta, telji sig hafa höndlað alheimsviskuna, viti allt, geti allt og standi okkur almenningi um allt framar. Ég dreg þessa ályktun af því að hafa lengi fylgst með stjórnmálum. Oft sest ég niður fyrir framan sjónvarpið og fylgst með umræðum á þinginu. Og drottinn minn dýri, þvílíkt kjaftæði og bull sem oft má sjá þar en til að vera sanngjarn og fara með rétt mál hefur maður oft orðið vitni af afar góðum umræðum.
Áhorfendur taka eftir að fjöldi þingmanna kemur í ræðustól og talar blaðalaust. Fæstir kunna hins vegar að segja frá, enn færri eru góðir sögumenn og þaðan af síður góðir ræðumenn. Þeir eru til sem bókstaflega gapa í stólnum, vita ekkert hvað þeir eru að gera, fletta í heimildum, tafsa, masa og mala án þess að koma nokkurn tímann að aðalatriði máls og jafnvel er það til að ræðumaður hætti ítrekað að tala í miðri setningu. Þeir sem koma með undirbúna ræðu eða góða punkta til að styðjast við eru margfalt betri.
Svo er það röksemdafærslan, málefnalega umræðan. Hún er varla til. Moldrykinu er þyrlað, hangið í bjánalegum og órökréttum slagorðum sem engu geta skilað enda til þess ekki stofnað.
Reglu þingsins leyfa alls kyns umræður undir ýmis konar formerkjum svo sem athugasemdum sem margir nýta til málþófs eða annarra leiðinda.
Svo er það keppni þingmanna um að koma sér að í fjölmiðlum, vitna í eigin orð; ... eins og ég benti á í ræðu minni á þingi fyrir síðustu jól ... eða ... ég bendi bara á það sem ég sagði í blaðagrein/ræðu/bók ....
Eina reglu tel ég mig hafa fundið eftir allan þennan tíma. Hún er svona:
Því meir sem þingmaður hækkar röddina því minni vitsmunir búa að baki og að auki tilfinnanlegur skortur á þekkingu og yfirsýn.
Skynugir lesendur með meðalgreind en þokkalega yfirsýn átta sig án efa á því að reglan er eiginlega algild, á ekki aðeins við um þingmenn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Með haustak á Tyrkjum eða hauspoka eftir leik
13.10.2015 | 10:24
Íslendingar hafa haft gott tak á Tyrkjum en þjóðirnar eigast við í 9. sinn í Konya í kvöld. Íslendingar hafa unnið fimm af leikjunum átta, Tyrkir einn og tvívegis hefur jafntefli orðið niðurstaðan. Stærsti sigur Íslands leit dagsins ljós árið 1991. 5:1 urðu lokatölurnar á Laugardalsvellinum þar sem Arnór Guðjohnsen skoraði fjögur mörk.
Þetta segir Mogginn í dag um leik Tyrklands og Íslands í kvöld undir fyrirsögninni: Með gott tak á Tyrkjum.
Er ég einn um þá skoðun að úrslit gamalla landsleikja, meðal annars frá þeim tíma er landsliðsmenn beggja liða voru smástrákar, hafi engin áhrif á leikinn í kvöld? Raunar finnst mér það tóm vitleysa að halda slíku fram nema að um haustak sé að ræða en þá má velta því fyrir sér hver haldi hverjum og hvar.
Þetta er eins og fréttaflutningurinn af Eurovision söngakeppninni. Árlega er gerður afar góður rómur af blaðamannafundi íslensku flytjendanna og fá þeir svo osssssalega mikið klapp frá blaðamönnum ... Fyrir vikið eru allir rosalega bjartsýnir og jafnvel er farið að pæla í stað í Reykjavík til að halda keppnina á næsta ári. Svo er niðurstaðan yfirleitt sextánda sætið eða eitthvað lakara. Hafi enginn áttað sig á staðreynd mála þá ráðast útslitin í söngvakeppninni ráðast nebbbbnilega ekki á blaðamannafundi fyrir keppni.
Sama er með fótboltaleiki. Þeir ráðast ekki af einhverri hefð ... úrslitin í leik Hollands og Íslands í síðasta mánuði er glöggt dæmi um slíkt. Fótboltaleikur byggir á einu einföldu atriði, að koma boltanum oftar í mark andstæðinganna en þeim tekst.
Þrátt fyrir ágæti íslenska landsliðsins verður við ramman reip að draga úti í Tyrklandi, jafnvel skiptir litlu þó þjálfarar okkar og fyrirliði liðsins hafi staðið sig vel á blaðamannafundi.
Vonandi gengur landsliðinu vel í leiknum, þurfi ekki að hverfa af velli með hauspoka af því að góða takið á Tyrkjum hélt ekki, eða þannig.
Teikningin er af vef Sander Bultman.
Samúðarkveðjur frá félögum lögbrjóta
9.10.2015 | 10:46
Borist hefur svofelld ályktun frá Félagi glæpamanna og óknyttapilta (ekki stúlkna):
Löggurna á höfuborgasvæinu hafa fengið flenzu. Okkur finsta áhygguebni. Við horfum alltaf á frammtíðinna og þess vegna eru staðreindir einfaldar ef við myndum vinna eins og við gerum daglea og auga afköstinn væri það löggunni bara til haggsbóta löggan fengi bara hærri laun og kæmi fýlebld til baka og endurnærð. Það væri nú ekki gott.
Þess vegna höfum við ákveðið að taka okkur frý fram á mánudagsmorgun. Almeningi er því óhætt að hafa hús sín ólæst þessa helgi, skilja verðmæti eftir, helst á stofuborðinu. Plís, raða skipulega. Svo væri vel þegið að sjónvörp, hljómflutninngsgræur og tölfur séu ekki í sambandi þegar engin er heima. Svo óskum við lögguni góðs bata.
Gulli glæpur, fyrir hönd Félagi glæpamanna og óknyttapilta (ekki stúlkna).
Einnig hefur borist sameiginleg ályktun frá Samtökum hraðakstursmanna, Landsamtökum umferðalagabrjóta og Félagi Ökumanna undir áhrifum áfengis, eiturlyfja og sveppa (HÖUÁÁES). Hún hljóðar svo:
Við lýsum yfir hryggð okkar vegna veikinda lögreglumanna enda eru þeir sko flestir manneksjur eins og sumir menn, eiga fjölskyldu, bíl og hund.
Veikindi löggunnar eru okkur mikið áhyggjuefni og við höfum pottþétt ekki hugsað okkur að nýta tækifærið.
Í dag er friðardagur, við ætlum að halda árshátíð okkar í kvöld í Laugardalshöllinni og hvetjum alla félaga okkar til að mæta. Nóg er af bílastæðum á grasinu við aðkomuna að Laugardalshöll, á umferðaeyjum og annars staðar. Húsið verður opnað klukkan 16 og ballinu lýkur stundvíslega klukkan 02. Þá byrjar fjörið.
Donni lúxus, Pési nítró, Gunna snögga og Stína nös.
Fleiri ályktanir hafa borist vegna veikinda lögreglumann, meðal annars frá Réttindalausum ökumönnum, Félagi stórinnflytjenda á ótolluðum vörum, Samtökum mansala og Kynlífsiðnaðarsamtökum Íslands. Þessum ályktunum verður gerð skil síðar.
![]() |
Mikil veikindi meðal lögreglumanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Áfram Kleppur hraðferð ...
6.10.2015 | 14:06
Hlíðarhverfið var í æsku minni á áhrifasvæði Vals og svo ku vera enn. Þeir sem þar alast upp og ganga í Hlíðaskóla verða óhjákvæmilega Valsarar. Undan þessu komst ég ekki, varð Valsari, rauður.
Ég bjó í Barmahlíð og þar voru margir stráka sem spiluðu fótbolta allt sumarið. Gulli Níelsar var frábær í fótbolta, líklega bestur okkar, einnig Gulli Jóns, Bonni, Jón Guðmunds, Friðgeir, Guðni, Gaui og fleiri og fleiri. Aðeins eldri voru Gústi Níelsar og Ævar Jóns sem skiptu sér lítið af okkur nema til að hrekkja. Svo voru yngri krakkar sem við skiptum okkur lítið af nema til að hrekkja.
Þarna var kjörlendi fyrir fótbolta. Hægt að skipta í lið upp á eitt mark á mölinni fyrir framan bílskúra. Oft fórum við upp í Stakkahlíð þar sem var stórt opið svæði, hallaði að vísu en í öðrum hvorum hálfleik fékk maður að sækja niður hallann ... meðaltal hálfleikjanna var því sléttlendi og allir sáttir.
Hlíðaskóli
Í Hlíðaskóla voru nokkrir fótboltavellir. Einn var bestur og galdurinn var sá að komast út nægilega tímanlega í löngufrímínúturnar til að ná mörkunum. Þá hljóp einn eða tveir mínútu áður en bjallan hringdi út á völlinn og greip þéttingsfast í annað markið. Það þýddi einfaldlega að völlurinn var frátekinn. Við erum með'ann kölluðu þeir ef einhverjir óviðkomandi hættu sér of nálægt.
Bekkjarbræður mínir voru nokkrir einstaklega góðir fótboltamenn, svo sem Logi Úlfarsson, Helgi Ásmundsson Loftur Pétursson, sem raunar var og er enn Frammari enda kom hann úr Bólstaðarhlíð sem er norðan Miklubrautar, nær áhrifasvæði Fram en Vals. Sorglegt.
Á þessum árum var Hermann Gunnarsson aðalgæinn í íslenskum fótbolta og Árni Njálsson besti þjálfari í heimi. Og við hrópuðum Áfram Valur, Áfram Valur ... Sóttum leikfimistíma í íþróttahús Vals að Hlíðarenda.
Í KR
Svo breyttist allt. Í MR kynntist ég í fyrsta skipti kynstofni sem heitir KR-ingar og þvílíkir ofur KR-ingar sem það voru. Ég er enn hálfhræddur við þá. Til að sæta ekki einelti held ég að ég hafi ekki upplýst um að ég væri Valsari fyrr en löngu eftir stúdentspróf.
Meðal óvinarins
Börn eru bara til vandræða, það hef ég alltaf sagt. Þegar eldri strákurinn minn var sex ára bjuggum við á Kaplaskjólsvegi, í miðju áhrifasvæði KR. Aðeins tíu metrar voru yfir á völlinn. Það voru því þung skref sem Valsarinn tók er hann fór í fyrsta sinn með strákinn á æfingu hjá KR. Eftir það var ekki aftur snúið. Smám saman tókst manni að hrópa áfram KR, áfram KR ...
Einu eða tveimur árum síðar hitti ég svo gamlan bekkjabróður úr MR á fótboltamóti fyrir sjö eða átta ára drengi. Þar léku KR og Stjarnan. Við tókum auðvitað tal saman og ég sagði honum að nú væri ég með strák í KR og hrópaði áfram KR. Hversu erfitt það nú er fyrir gamlan Valsara. Þá sagði þessi gamli vinur minn, uppalinn og þrautseigur KR-ingur: Heyrðu Siggi, sko hér er ég með strák sem leikur með Stjörnunni á móti KR og ég hrópa auðvitað áfram Stjarnan ... Hvað annað?
Auðvitað var þetta rétt hjá honum Gumma Jó og svo fór ég að litast um meðal áhorfenda á fótboltaleikjum yngri flokka og sá að áhrifasvæði fótboltafélaga stjórnuðu því með hvaða liði strákarnir léku, yfirleitt ekkert annað. Foreldrar hvöttu börnin sín óháð því hvort þeir voru Valsarar, KR-ingar, Frammarar eða eitthvað annað.
Hins vegar eru allir eins og einn frændi minn sem á gallharðan Frammara fyrir föður, býr í Valshverfi en æfir og spilar með KR.
Úr KR
Jæja, þessar voru nú pælingarnar hjá mér á sunnudaginn þegar sonur minn hringdi sagðist vera hættur í KR. Nærveru hans væri ekki lengur óskað eftir átta ára þátttöku í meistaraflokki, nokkra Íslands- og bikarmeistaratitla auk annarra afreka meðal annars í yngri flokkum. Þetta kom svo sem ekkert á óvart. Allir vita að fótboltafélögin í heiminum hafa breyst.
Oft hef ég velt því fyrir mér hvers vegna fótboltafélög nota ekki meira þá leikmenn sem þau hafa alið upp frá blautu barnsbeini. Nei, einhvern veginn eru þeir ekki nógu góðir ... Hver ber ábyrgðina á því?
Félögin sanka hins vegar að sér leikmönnum úr öðrum félögum og það heitir að styrkja liðið. Oft eru aðeins þrír eða fjórir uppaldir í liðinu, alltaf minnihluti leikmanna. Félögin eru orðin lógó og leikmennirnir eru málaliðar, aðkeyptir til að falla inn í flókið púsluspil sem velviljaðir menn reyna að sýsla við með misjöfnum árangri.
Áfram Kleppur hraðferð ...
Fyrir vikið eru nú skilin á milli félaga orðin ansi óglögg. Leikmenn flandra úr einu félagi í annað, jafnvel árlega. Þjálfararnir eru reknir og ráðnir rétt eins og þeir séu grasið á leikvellinum sem þarf að slá reglulega ... svo hægt sé að spila þokkalegan leik.
Fótboltafélög eru orðin eins og strætó á leið niður í miðbæ. Vagninn er alltaf hinn sami en fólkið kemur og fer. Áfram strætóbíll, áfram OK14B11, Kleppur hraðferð ... eða þannig.
Fótboltafélag í meistararflokki er skrýtin samsuða alveg eins og strætó.
Sýnishorn, málaliðar
Núorðið hvetjum við eiginlega lógóið til sigurs og þá meira af gömlum vana. Hjartans einlægni fylgir ekki lengur með eins og þegar Hermann Gunnarsson rótaði upp rykinu á Valsvellinum, Ásgeir Elíason stóð fastur fyrir andstæðingum sínum, Ellert Schram raðaði inn mörkunum svo nokkrir hjartans menn séu nefndir úr Val, Fram og KR, erkifjendunum. Þá var nú gaman að lifa enda línurnar skýrar. Stuðningsmenn þessara liða töluðust helst ekki við.
Þegar horft er á fótboltaleik, hér á landi og erlendis er það eins og að vera staddur á minjasafni, þjóðminjasafni, listasafni. Í liðunum er eitt eintak af spilurum úr öllum hinum liðunum, sýnishorn af því besta. Sumir segja að þetta sé miklu skemmtilegra fyrirkomulag.
Myndirnar:
Tvær efstu myndirnar eru af fótboltavöllunum við Hlíðaskóla í gamla daga. Þær fann ég á Facebook, veit ekki hver tók eða hver á birtingaréttinn en vona bara að mér fyrirgefist birting.
Þriðju myndina fann ég líka á Facebook, þekki ekki ljósmyndarann. Myndin er tekin í Öskjuhlíð og horft yfir Hlíðarnar.
Fjórða myndin er af KR liði á Tommamóti í Vestmannaeyjum 1992, tíu ára strákar.
Fimmta myndin er af bikarmeisturum KR 2008.df
Á sjöttu myndinni ganga KR-ingar inn á völlinn sinn.
Stækka má myndirnar og með því að smella á þær.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Leiðsögumaðurinn tók bestu myndirnar af hlaupinu
4.10.2015 | 12:28
Frammistaða fjölmiðla í frásögnum af hlaupinu í Skaftá og Eldvatni er yfirleitt góð. Hins vegar er gagnslítið að birta hreyfimyndir þar sem myndatökumaðurinn beinir linsunni ofan í strauminn og súmmar inn. Þetta verða afar ljótar og lítt upplýsandi myndir. Ekki síður þegar ljósmyndarar iðka sama leik, nota aðdráttinn til að magna upp hamfarirnar (sem oftar en ekki eru kallaðar því ofnotaða orði sjónarspil). Þannig er hægt að búa til magnaða mynd af því sem oft er ekkert annað en gutl í ánni.
Um helgina var sagt frá því að hætta væri á því brúin yfir Eldvatn gæti fallið. Birtar voru myndir í fjölmiðlunum af brúnni.
Margir fjölmiðlar voru með fréttamenn og ljósmyndara á staðnum en misjafn var árangurinn.
Efstu myndina tók Sigurður Bogi Sævarsson, reyndur og afar góður blaðamaður Morgunblaðsins. Því miður er hún alls ekki nógu góð. Á henni sést eiginlega ekkert athugunarvert nema rýnt sé í hana og vitað eftir hverju er verið að leita. Fyrirsögn fréttarinnar með myndinni virkaði því út í hött. Brúarendinn stendur út í loftið, sem raunar var kolrangt, brúarendinn var landfastur en grafist hafði undan hluta af stöplinum.
Næsta mynd birtist á visir.is og er greinilega klippa úr annarri. Myndin er hins vegar nokkuð góð og sjá má að það loftar undir stöpulinn og í því er hættan fólgin.
Þessa mynd gat visir.is tók ekki blaðamaður eða ljósmyndari heldur bjargaði leiðsögumaðurinn, Ingibjörg Eiríksdóttir, fjölmiðlinum.
Síðasta myndin er á ruv.is og er eiginlega besta myndin, mjög lýsandi og sér yfir umhverfið auk þess að sýna stöpulinn. Raunar er þetta sama myndin og birtist á visir.is og ljósmyndarinn landvörðurinn sem fyrr var nefndur.
Merkilegt er hversu oft almenningur útvegar fjölmiðlum myndir, þetta tilvik er fjarri því einsdæmi.
Svo er það framsetningin á fréttum af svona viðburðum í náttúrunni. Mjög mikilvægt er að birta kort. Stórt yfirlitskort er nauðsynlegt heldur líka smærri. Þau þurfa að vera lýsandi, auðskilin, með örnefnum, vegum og bæjarnöfnum. Margir tóku eftir því hversu lengi kort voru að birtast í fjölmiðlum. Fólk sem ekki er með landafræðina á hreinu veit hreinlega ekki hvað þetta Eldvatn er, stöðuvatn eða fljót, eða í hvora áttina það rennur. Þessar upplýsingar vantaði víðast í fjölmiðlum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.10.2015 kl. 17:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Lífið í Elliðaárdal
2.10.2015 | 22:38
Frekar fáir taka mark á mér en þeir eru þó til. Í dag var ég spurður um haustið. Ég svaraði því til að nú væri það að öllum líkindum komið, meira en tveimur mánuðum eftir að fjölmiðlafólk fór einhverra hluta vegna að tala um fyrstu haustlægðina.
Með réttur er hægt að tala um haust þegar grasið og lauf fara að sölna. Nákvæmlega það hefur verið að gerast undanfarna daga.
Stundum geng ég um Elliðaárdalinn. Hann hefur mikið breyst á undanförnum árum. Þar er nú mikill trjágróður og einstaklega gaman að njóta þar útiverunnar. Ég geng um sjö km hring á klukkutíma, hlusta á meðan á vandaða tónlist, yfirleitt klassíska eða þá að ég hlusta á vindin í trjánum og þungan nið umferðarinnar.
Fjöldi fólks leggur leið sína um Elliðaárdal, gangandi, hlaupandi, hjólandi og jafnvel á rafhjólum. Í dag var ég vitni að einstakri íþróttagrein. Mætti hressu og skemmtilegu ungu fólki sem hljóp í skringilegum fötum með bjórkassa og bjórglas í hendi. Ég spurði ekki nánar um tilganginn enda enginn tími til. Hrópaði bara skál og fékk glaðleg skálarköll á móti.
Svona er nú lífið skemmtilegt.
Um daginn dró ég uppi mann sem stikaði þó stórum og við tókum tal saman. Kom þá í ljós að maðurinn er eins og svo margir aðrir geysilega hrifinn af dalnum og kemur þar reglulega í gönguferðir.
Já, fólk nýtur lífsins með margvíslegum hætti.
Fréttablaðið skrökvar upp á Árna Sigfússon
1.10.2015 | 16:30
Formaður styrkti bróður sinn
Þannig hljóðar fyrirsögn Fréttablaðsins í dag, 1. október 2015. Hún er röng eins og raunar kemur fram í fréttinni. Um er að ræða styrk sem Orkusjóður veitti Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Það er svo algjört aukaatriði að stjórnarformaður Orkusjóðs, Árni Sigfússon, og forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar, Þorsteinn Sigfússon, eru bræður.
Fréttin er um skoðun forstjóra Valorku sem ekki fékk styrk frá Orkusjóði. Sem sagt, fréttina má kalla hefndarfrétt. Sár forstjóri þyrlar upp ryki til að koma óorði á aðra. Honum tekst ætlunarverk sitt vegna þess að Fréttablaðið og blaðamaðurinn sem skrifar fréttina sér ekki í gegnum málið. Raunar ætti að skrifa aðra frétt og fyrirsögnin væri þessi:
Fréttablaðið er misnotað
Í stuttu máli fjallar fréttin um að eitt fyrirtæki fékk styrk Orkusjóði en annað ekki. Fréttin fjallar ekki um að Árni Sigfússon hafi styrkt Þorstein bróður sinn.
Árni Sigfússon segir eftirfarandi á Facebook:
Ég kann allar reglur um þetta. Ef vinur eða venslamaður sækir um styrk skal nefndarmaður að sjálfsögðu víkja. En það var ekki í þessu tilviki. Þetta er sambærilegt við að rektor Háskóla Íslands væri þannig beintengdur við allar umsóknir deilda háskólans og þeir sem venslaðir væru honum, mættu ekki fjalla um neinar slíkar umsóknir á vegum HÍ, þótt hann kæmi hvergi persónulega að þeim.
En þá er brugðið á það ráð að segja að bróðir forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar hafi veitt honum styrk. Ég hafi átt að víkja af fundi þegar ráðgjafanefndin fór yfir umsóknirnar. Þetta er því algjörlega út í hött og leitt að koma slíkri fyrirsögn af stað - vitandi að 100% lesenda, lesa fyrirsögn en u.þ.b. 30% lesa textann. Vildi bara að þið vissuð þetta fésbókarvinir mínir, því Frettablaðið hafði ekki fyrir því að spyrja mig um málið. Þannig er nú Ísland í dag.
Líklega hefur blaðamaðurinn verið svo spenntur fyrir því að hafa nú aldeilis fundið einhverja ávirðingu á Árna Sigfússon að hann hafi ekki haft fyrir því að bera málið undir hann. Sem sagt, blaðamaður og Fréttablaðið brjóta mikilvægustu reglu í blaðamennsku, að leita upplýsinga og heimilda og fara með rétt mál. Eða er þetta sem sagt er glöggt dæmi um barn sem haldi á penna hjá Fréttablaðinu.
Forstjóri Valorku stendur svo uppi sem bad looser og þessi frétt er honum síst af öllu til sóma.
Fréttablaðið hefur ekki heldur neinn sóma af þessari frétt. Það hefur verið staðið að ósannsögli. Verður nú fróðlegt að sjá hvernig það reynir að koma sér út úr klípunni.
Þegar þjálfarinn er skilinn eftir heima ...
30.9.2015 | 10:38
Hægt en örugglega er verið að koma í veg fyrir eignamyndun íslenskrar millistéttar. Búið er að gera fólki með lágar tekjur ókleift að eignast eigið húsnæði. Ungt fólk sér takmarkaða möguleika til að eignast eigin íbúð.
Frá árinu 2000 hefur ríkissjóður sett um 242 þúsund milljónir króna í húsnæðismál, fyrst og fremst í formi vaxtabóta og til að koma í veg fyrir gjaldþrot Íbúðalánasjóðs. Við þetta bætast nær 80 þúsund milljónir króna sem varið verður í skuldaleiðréttingu á næstu árum.
Sjálfstæðisflokkurinn er fjöldahreyfing. Skiptir engu máli hvað andstæðingar flokksins segja, þátttakendur í starfi hans eru fleiri en í öðrum stjórnmálaflokkum samanlagt. Þúsundir koma að málum fyrir landsfund, á landsfundi og eftir landsfund. Þetta er óumdeilanlegt. Lýðræðið virkar í þessum flokki en auðvitað sýnist sitt hverjum um einstök mál.
Nú auglýsir flokkurinn í með heilsíðu í Morgunblaði dagsins undirbúningsfundi, Hitum upp fyrir landsfund. Margir eru afar áhugaverðir og sumir jafnvel með ágætum frummælendum. Hins vegar eru margir raftar á sjó dregnir og aðrir skárri.
Ekki á einum einasta fundi er einn snjallasti hugmyndafræðingur og málsvari sjálfstæðisstefnunnar. Þetta er Óli Björn Kárason, varaþingmaður. Hann er einn skýrasti talsmaður stefnu flokksins, afar ritfær og um leið rökfastur. Þetta er eins og að fara í fótboltaleik og skilja þjálfarann eftir heima.
Frá síðustu áramótum hefur Óli Björn ritað tæplega fjörtíu greinar um stjórnmál í Morgunblaðið. Vissulega er skiptir magnið ekki meginmáli heldur hvað sagt er og hvernig. Þegar magn og gæði eru hins vegar virt saman er ótrúlegt hvernig hægt er að kynna sjálfstæðisstefnuna án þess að líta til svo skýrt framsettra viðhorfa.
Pistillinn byrjaði á tilvitnun úr grein Óla Björns Kárasonar sem birtist í Mogganum 1. apríl 2015 undir fyrirsögninni Hvað getum við gert fyrir 242 þúsund milljónir? Í greininni segir hann ennfremur:
Séreignastefnan á undir högg að sækja. Sósíalistar og aðrir vinstrimenn hafa alla tíð haft horn í síðu séreignastefnunnar enda er hún einn af hornsteinum borgaralegs samfélags.
Í sósíaldemókratísku samfélagi eiga sem flestir að búa í félagslegu leiguhúsnæði. Í stað þess að almennir launamenn verði eignamenn í eigin húsnæði á að gera þá að leiguliðum í nafni félagslegs réttlætis.
Sömu rök lágu að baki gríðarlegum skattahækkunum í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri-grænna. Jafnaðarmennska hins félagslega réttlætis fólst í að jafna tekjur niður á við.
Að auka tækifæri þeirra sem hafa lökust kjörin til að afla sér meiri tekna og bæta sinn hag kom ekki til greina. Aukin tækifæri eru hluti af borgaralegu samfélagi sem byggist á frjálsum viðskiptum frjálsra einstaklinga.
Í lok greinarinnar segir Óli Björn:
Það hefði því verið skynsamlegra að ríkissjóður hefði nýtt fjármunina í að hjálpa þeim sem eru að kaupa íbúð í fyrsta sinn, með því að leggja fram eigið fé. Miðað við 30 milljón króna eign hefði ríkissjóður haft bolmagn til að leggja fram 20% eigið fé (sex milljónir króna) til yfir 40 þúsund íbúðakaupenda.
Með öðrum orðum: Ríkið hefði getað afhent 40 þúsund fjölskyldum sem keyptu sína fyrstu íbúð ígildi 20% eiginfjár. Eignamyndun þessara fjölskyldna hefði orðið hröð og fjárhagsleg staða þeirra allt önnur og sterkari.
Með þessu hefði almenningur orðið að eignafólki en ekki bótaþegum sem bíða eftir vaxtabótum á hverju ári en neyðast síðan til að gerast leiguliðar í nafni félagslegs réttlætis.
Heildarmyndin
29.9.2015 | 16:18
Í frétt mbl.is segir að fyrir þrjátíu árum (ekki síðan) hafi 79% barna á leikskólaaldri verið laus í bílnum, ekki stól festum með belti. Þetta kannast ég ekki við. Á þessum aldri gætti maður þess að festa börnin tryggilega og raunar æ síðan. Þetta gerðu líka ættingjar, vinir og kunningjar eftir því sem maður best fékk séð.
Það var síðan upp og ofan hvort fólk festi sig sjálft eftir að hafa gengið tryggilega frá börnum sínum. Ég var dálítill trassi með þetta, sá greinilega ekki heildarmyndina. Svo var það að einhver benti mér á þá staðreynd, sem þó blasti við, að verkið var ekki nema hálfnað þegar börnin höfðu verið fest. Hvað var ég að gera þeim með því að festa mig ekki ...? Síðan hef ég alltaf spennt á mig öryggisbeltin í akstri.
Man þó eftir því að systir mín sem bjó í Svíþjóð sagðist alltaf spenna beltið áður en hún setti bílinn í gang. Þetta þótti mér góður siður og þykir enn.
Svo er hér ein örsaga. Þegar reglur voru settar um öryggisbelti voru nú ekki allir á því að fara eftir þeim. Fannst vegið að sjálfstæði sínu og frelsi. Þessi misskilningur rjátlaðist þó fljótt af okkur flestum þegar heildarmyndin skýrðist.
Elsti bróðir minn spennti yfirleitt ekki öryggisbelti í bíl. Aðspurður sagðist hann vera svo góður ökumaður að hann þyrfti þess ekki og svo glotti hann, eflaust rogginn með tilsvarið. Ég þurfti yfirleitt að beita mér að fullu ef ég ætlaði eiga eitthvað í rökræður við eldri systkini mín sem flest öllum fannst litli bróðir svo skelfing ungur og óreyndur.
Í þetta sinn birti þó í hausnum á mér og ég spurði á móti hvort hann liti svo á að aðrir ökumenn væru álíka góðir. Hann leit þá á mig eitt andartak og sagði: Þú segir nokkuð. Og svo spennti hann á sig beltið.
Vissulega sjá menn oft ekki heildarmyndina eða átta sig ekki á því hvað geti gerst. Dæmi um það er hann faðir minn heitinn sem jafnan geymdi varalykilinn að bílnum í hanskahólfinu.
![]() |
Þegar 79% barna voru laus í bílnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Er kominn tími til að hlusta á Pútín?
28.9.2015 | 22:28
Stöðutaka Rússa í Sýrlandi síðustu vikur er öðrum þræði svar við tilraunir Nató-ríkja að ná forræði yfir Úkraínu. Pútín færði víglínuna frá bakgarði Rússa til mið-austurlanda þar sem vesturveldin eru í viðkvæmri stöðu.
Stefna Bandaríkjanna í mið-austurlöndum er rúin trausti enda litið á innrásina í Írak 2003 sem klúður er skóp samtökum á borð við Ríki íslams tækifæri til að láta að sér kveða. Bandaríkin eru klunnar, reyna að þjálfa svokallaða hófsama múslíma sem byrja á því að gefast upp og afhenda hryðjuverkamönnum vopn og búnað.
Þannig ritar Páll Vilhjálmsson á bloggið sitt í dag, Tilfallandi athugasemdir. Held að þetta sé rétt hjá honum.
Maður er lengi búinn að fylgjast með alþjóðastjórnmálum og sannast sagna er engu líkar en afskipti Bandaríkjamanna hafi gjörbreytt stöðu mála til hins verra. Lítum á innrásir í Írak, afskipti af svokölluðu arabísku vori í Líbýu, Túnis, Sýrlandi og víðar. Ekki er úr vegi að skoða málin enn lengra aftur í tímann. Allt ber þó að sama brunni. Frá því að Bandaríkjamenn töpuðu stríðinu í Víetnam hefur allt farið í handaskolum hjá þeim og raunar í heiminum öllum.
Stjórnmálaþróunin í austanverðri Evrópu, Austurlöndum nær og í Norður Afríku hefur verið hræðileg, fyrst og fremst fyrir íbúa þessara landsvæða en ekki síður fyrir Evrópu.
Í dag fluttu forsetar Bandaríkjanna og Rússlands ræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Þeir voru greinilega ekki sammála. Hins vegar skaðar ekki að leggja hlustir við það sem Pútín segir í stað þess að trúa blint hinum sléttmælta Obama sem segir margt en sjaldnast fylgja neinar efndir.
Auðvitað er Pútín ruddi í alþjóðasamskiptum eins og Páll Vilhjálmsson bendir á. Þegar grannt er skoðað virðist hann þó beita sömu ráðum og Bandaríkjamenn og Nató-ríkin, deila, drottna og hóta. Rússar gera það fyrir opnum tjöldum en vani Bandaríkjamanna og Vestur-Evrópuríkja er að gera það í reykfylltum bakherbergjum, svo gripið sé nú til gamaldags frasa.
Bandaríkjamenn eru klunnar og það eru Rússar líka. Þess vegna eru mál komin í slík óefni sem þau eru í Sýrlandi.
Þegar umhverfisráðherra hundskammaði ökumanninn
28.9.2015 | 14:45
Fyrir um tuttugu árum var ekið á bíl utan vegar á Fimmvörðuhálsi. Ökumaður var greinilega að stytta sér leið. Hann náðist ekki en við vorum nokkur að koma úr viðhaldsferð í skála Útivistar og tókum að okkur að raka í hjólförin og reyna að bæta skaðann eins og hægt var. Þrátt fyrir talsverða vinnu var í nokkur ár hægt að sjá móta fyrir hjólförunum í sandinum.
Þetta minnir á annað atvik. Þegar Fimmvörðuskáli var vígður, í ágúst 1991, var Eiður Guðnason umhverfisráðherra. Honum var boðið í vígsluna og þáði hann það með þökkum. Ég sótti ráðherrann að Skógum og ók með hann upp á Hálsinn.
Á leiðinni upp komum við auga á bíl með útlenskum númerum sem hafði verið ekið út af veginum og smáspöl á gróðurlendi, sem á þessum slóðum er sorglega lítið. Eiður spurði hvort ekki væri nauðsynlegt að benda ökumanninum á yfirsjón sína. Mér þótti það tilvalið.
Við gengum að bílnum og hafði Eiður orð fyrir okkur en varla er hægt að nefna ræðuna tiltal. Miklu frekar má segja að ráðherran hafi hundskammað aumingja ökumanninn sem nærri því beygði af. Ég vorkenndi manninum mikið og fannst það vart á bætandi að segja honum að sá sem sagt hefði honum til syndanna væri enginn annar en umhverfisráðherrann í ríkisstjórn Íslands og sleppti því þess vegna.
![]() |
Ólíklegt að þau hafi ekki vitað betur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Vífilsfellsöxl og Tvíhnúkur ...
27.9.2015 | 13:45
Landslag er á mannlegan mælikvarða alltaf eins. Þetta er þó ekki alls kostar rétt því veðrið breytir upplifun okkar á margvíslegan hátt.
Hér eru nokkrar myndir hugsanlega styðja við þessa hugsun.
Efsta myndin er tekin gönguleiðinni upp norðausturhorn Vífilsfells og er horft til vesturs, til Reykjavíkur, lengst til hægri er Úlfarsfell (hægt er að tvísmella á myndirnar og stækka þær).
Myndin er tekin rétt eftir hádegi fimmtudaginn 24. september 2015, næstum því heiður himinn.
Skuggi liggur á litla hnúknum sem ber eiginlega ekkert nafn en tilheyrir Vífilsfellsöxl. Engu að síður er Öxlin og hnúkurinn ákaflega falleg, gersemar eins og sést á hinum myndunum.
Þegar komið var aðeins ofar birti á Vífilsfellsöxl en ég var í skugganum.
Þarna er rétt er eins og byggðin á höfuðborgarsvæðinu gangi inn í kjaftinn á klettunum.
Hnúkurinn virðist brotgjarn, móberg er undir en hraun efst. Það segir dálítið til um myndunarsögu hans. Eldgos hefur orðið undir jökli og ekkert hraun runnið heldur splundrast kvikan í bræðsluvatninu. Þegar á líður nær gosið upp úr vatninu og þá nær hraun að renna.
Vífilsfell er stapi sem hefur orðið þannig til, en efsti hluti þess er hins vegar móberg, um merki um yngra eldgos, einnig undir jökli.
Þriðja myndin er tekin milli Sléttu Vífilsfells og Axlarinnar. Þar eru miklar andstæður. Nær fjallinu er talsverður mosi en nær hnúknum eyðilegur melur. Mosinn hefur náð að klæða hnúkinn nokkuð vel og setur mikinn svip á hann.
Neðsta myndin styður nokkuð við það sem fyrr var sagt um að veðrið breyti upplifun á landslagi.
Hún er tekin á öðrum tíma en hinar þrjár, nánar tiltekið 3. ágúst 2015.
Þarna virðist hnúkurinn ekki vera grænn heldur grár og frekar gugginn undir regnþrungnum skýjum.
Hugsanlega mætti hnúkurinn nefnast Tvíhnúkur því tindarnir eru tveir.
Við framseljum ekki Íslendinga
26.9.2015 | 16:31
Ég heyrði sögu, sem að ég held að sé sönn, um það að sendiherra Bandaríkjanna hefði gengið á fund Davíðs Oddsonar þegar Bobby var kominn til landsins. Þar var lögð fram krafa stórveldisins um að Fischer yrði framseldur. Davíð svaraði því á þessa leið: Við framseljum ekki Íslendinga!, segir Guðmundur og hlær.
Þetta segir í ágætu viðtali við Guðmund G. Þórarinsson í dv.is í dag í grein um kvikmynd um Bobby Fisher.
Guðmundur segir ennfremur í viðtalinu.
Ég hafði gaman af henni, en atburðarásin í myndinni er öðruvísi en ég upplifði og skynjaði. Það er of mikil áhersla lögð á andleg veikindi Fischers. Það má greinilega heyra að Guðmundur er ekki sammála þeirri söguskoðun sem myndin sýnir. Ég tel mig hafa þekkt hann dálítið, bæði frá atburðunum 1972 en einnig heimsóttum við hvor annan þegar hann fluttist til Íslands. Hann var mjög sérvitur og hafði sérstakar skoðanir. Snilligáfa hans gerði að verkum að hann var undir smásjá fjölmiðla frá unga aldri sem var merkilegt í ljósi þess að hann forðaðist að vera í fjölmenni sem og samskiptum við fjölmiðla. En Bobby var ekki geðveikur að mínu mati. Skoðanir hans á Bandaríkjamönnum og gyðingum voru að verulegu leyti djúp sár vegna vonbrigða sem hlutust af samskiptum við þessa aðila.
Flestir muna eftiraðdragandum að því að Bobby Fisher flutti til Íslands. Guðmundur segir um það mál:
Árið 2004 var Bobby Fischer handtekinn í Japan og sat þar í fangelsi í átta mánuði en ráðgert var að framselja hann til Bandaríkjanna. Af stað fór ótrúleg atburðarás þar sem Alþingi Íslendinga, að frumkvæði Davíðs Oddssonar, veitti Fischer ríkisborgararétt og með nýprentað vegabréf honum til handa var flogið út, skákmeistarinn leystur úr haldi og flogið með hann til eyjunnar í norðri, fullkomlega í óþökk stórveldisins í vestri. Guðmundur átti þar stóran hlut að máli.
Tengt viðtalinu er spjall við Einar Kárason, rithöfund, sem hefur aðeins fram að færa kjaftasögu eftir ónefndan Bandaríkjamann:
Athygli vakti þegar Einar Kárason skrifaði pistil í DV í byrjun árs þar sem hann hafði eftir ónefndum heimildarmanni að ákvörðun Íslendinga um að veita Bobby Fischer ríkisborgararétt árið 2005 hafi haft ófyrirséðar afleiðingar. Meðal annars hafi það spilað inn í þá ákvörðun Bandaríkjanna að loka herstöðinni á Suðurnesjum árið 2006, gert Íslendingum erfitt fyrir innan Alþjóðahvalveiðiráðsins og síðast en ekki síst gert að verkum að Bandaríkjamenn höfnuðu því alfarið að veita Íslendingum lánalínur í aðdraganda efnahagshrunsins árið 2008.
Svona geta menn spunnið upp með skáldaleyfi enda benda sögulegar staðreyndir á allt annað en að Bandaríkjamenn hafi reynt að hefna sín á Íslendingum fyrir þátt þeirra í að koma Fischer til aðstoðar. Raunar vissu Kanar að meðferð þeirra á Fischer var tómt rugl og átta mánaða dvöl hans í japönsku fangelsi bendir ekki til annars en að þeir hafi haft ýmislegt þarfara að gera en að berja á sérvitrum skáksnillingi.
Það þurfti svo mann með bein í nefinu að koma Fischer til aðstoðar og það var auðvitað Davíð Oddsson sem eins og svo oft áður tók af skarið. Og hann spyrnti við fótum þegar sendiherrann vildi fá Fischer framseldan vegna glæps sem sem Guðmundur G. segir að hafi verið þessi:
Hann var óskabarn bandarísku þjóðarinnar og hylltur sem hetja þegar hann sneri aftur frá Íslandi sem heimsmeistari en var fljótlega rifinn niður af þeim stalli og að lokum hundeltur um allan heim fyrir engar raunverulegar sakir, nema þær að hreyfa trémenn á hvítum og svörtum reitum ...
Sá sem klúðrar er stjórnvitringur biðjist hann afsökunar
26.9.2015 | 11:15
Sú góða dama, Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, gengur svo langt að segja að Dagur hafi hvorki meira né minna en brotið blað í íslenskri pólitík með því að viðurkenna að honum og meirihlutanum hafi orðið á mistök... og segir: Þetta er það sem við höfum verið að kalla eftir.
Já. Akkúrat. Svona viljum við hafa stjórnmálamennina. Þeir eiga að klúðra hlutunum big time, reyna svo að klóra sig útúr vandanum, hlaupa úr einu lygahorninu í annað og neyðast svo til að viðurkenna þjóðhættulega glópsku sína og stjarnfræðilegt dómgreindarleysi og muldra svo afsökunarbeiðni oní hálsmálið og málið dautt. Svona eiga menn að vera. Þetta er það sem við höfum verið að kalla eftir. Lútum höfði í auðmýkt og færum Degi gull, reykelsi og myrru.
Sverrir Stormsker, myndlista- og tómlistamaður skrifar þetta í grein sinni í laugardagsblað Morgunblaðsins. Hann skrifar um sniðgöngutillögu meirihlutans í borgarstjórn og er ekki bar hrifinn. Óhætt er að mæla með greininni þó hún sér groddalega skrifuð er hún bráðfyndin og beitt gagnrýni í henni þegar nánar er skoðað.
Kröfurnar sem vinstrimenn gera til borgarstjóra síns, hvort sem hann heitir Jón Gnarr, Dagur Bé, Hómer Simpson eða whatever, eru mjög, mjög miklar, hvort sem fólk trúir því eða ekki. Næstum því ofurmannlegar. Þær ganga útá það að hann kunni að viðurkenna allt sitt klúður, glópsku, dómgreindarleysi, fíflsku, fúsk og fáfræði, og kunni jafnvel líka að biðjast afsökunar á afglöpum sínum í starfi. Ef hann kann þetta tvennt, og jafnvel ekkert annað, þá er hann virkilega góður og mikilhæfur borgarstjóri í þeirra augum. Mikill leiðtogi og stjórnvitringur. Jafnvel hetja.
Eflaust kunna vinstri menn ekki að meta þessa grein, kalla hana eflaust róg og rugl. Staðreyndin er nefnilega sú að það eru vinstri menn sem hafa hingað til haft einkarétt á greinum á borð við þessa.
Hlustið til dæmis á þáttinn Víðsjá á Rás eitt síðasta fimmtdag þar sem stjórnandi þáttarins er gefið skotleyfi á allt og alla undir menningarlegu yfirskini. Hann heldur því að allir séu ljótu hálfvitarnir en svo virðist sem Sjálfstæðisflokkurinn sé sá alversti sem til er.
Og fyrir svona bull í dagskrárgerð þarf ég og fleiri að borga með skylduáskrift, innheimt með öðrum sköttum. Enginn þarf hins vegar að lesa greinina hans Sverris Stormskers nema hann vilji.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Forréttindakrónan og ræfilskrónan
25.9.2015 | 10:16
Hér á landi ríkir tvíhyggja um lán og endurgreiðslu þeirra. Flestum finnst rétt að ef lánið er endurgreitt í sömu krónutölu, jafnvel áratugum síðar, séu það full skil ef króna kemur fyrir krónu. Því er haldið fram að ef raunvirði kemur sem gagngjald, þá sé um okur að ræða.
Þannig byrjar Vilhjálmur Bjarnason, alþingismaður, grein um vaxtamál í Morgunblaði dagsins. Hann hefði allt eins getað sleppt því að skrifa þessa grein svo einhliða sem hún er.
Hann nefnir ekki þá staðreynd einu orði að laun eru ekki verðtryggð, veit ábyggilega af því en tekur á sig stóran krók svo greinaskrifin lendi ekki í ógöngum.
Fróðir menn hafa haldið því fram að verðtryggða krónan sé ígildi sérstakrar myntar og hún haldi verðgildi sínu hvað sem á gengur, raunar eins og Vilhjálmur Bjarnason vill halda fram. Hún er því algjör forréttindakróna, ætluð fyrir banka, sparisjóði, lífeyrissjóði og kalla eins og Vilhjálms, lið sem er svo fjarri okkur hinum að allt það sem fram gengur frá því á að vera hinn endalegi stórisannleikur.
Ræfilskróna sem við, almenningur, fáum greitt með, er einnig ígildi sérstakrar myntar, og hún hefur ekki haldið sér vel, ekki frekar en gamli sorrý Gráni í texta og lagi Megasar:
Gamli sorrí Gráni
er gagnslaus og smáður
gisinn og snjáður
meðferð illri af.
Hann er feyskinn og fúinn
og farinn og lúinn
og brotinn og búinn að vera
hann er þreyttur og þvældur og
þunglyndur spældur
og beiskur og bældur í huga.
Ákaflega vel til fundið að vitna í Megas og heimfæra almenningskrónuna yfir á Grána enda er Vilhjálmur ljóðelskur maður og vitnar tíðum í ljóð, rétt eins og hann gerir í grein sinni í Mogganum.
Staðreyndin er einfaldlega sú að verðtryggingin er bitnar hrikalega á almenningi, fólki sem vill til dæmis eignast eigin íbúð rétt eins og hefur í áratugi verið stefna Sjálfstæðisflokksins, flokks okkar Vilhjálms. Verðtryggða krónan er forréttindakróna sem hefur allt það sem krónan sem við almenningur höndlum með dags daglega hefur ekki.
Verðtryggingin er séríslenskt fyrirbæri og veldur því að milljarðar færast árlega frá almenningi til fjármagnsstofnana engum til gagns en kemur í veg fyrir að fólk geti notið sjálfsaflafjár. Afleiðingin er styrkjakerfi eins og vaxtabætur sem raunar allflestir fá en er engu að síður ekkert annað en óþarfi í eðlilegum aðstæðum.
Árið 2011 lagði ég eftirfarandi tillögu fram á landsfundi Sjálfstæðisflokksins:
Sjálfstæðisflokkurinn vill afnema verðtryggingu á húsnæðislánum heimilanna. Það skal gert í áföngum með því að setja þak á árlegar verðbætur sem miðast við 4% fyrir 2012 og 2013, 2% fyrir 2014 og 2015, en verðtrygging verði að fullu afnuminn frá og með 1. janúar 2016.
Samhliða þessu verði sett hámark á vexti, þannig að samtala verðtryggingar og vaxta á lánum ætluðum til húsnæðiskaupa geti ekki verið hærri en 6%.
Auðvitað var ekkert mark tekið á tillögunni og hún og fjöldi annarra teknar saman í eina moðsuðu sem engu skilaði, ekki einum einasta. Vilhjálmur Bjarnason, alþingismaður, má svo halda áfram að berjast fyrir hagsmunum fjármagnseigenda og gegn almenningi í landinu. Það vekur þó spurningar um tilganginn með þessu öllu saman.
Hugsaðu þér, ágæti lesandi. Hefði Sjálfstæðisflokkurinn barist fyrir þessu sjálfsagða máli og fengið því framgengt væru í dag rúmir þrír mánuðir í endalok forréttindakrónunnar.
Er það bara leikur sem stundaður er að gera almenningi erfiðara fyrir rétt eins og tilveran að öðru leyti sé ekki full af nægum vandamálum?
Og hvernig stendur á því að þúsundir Íslendinga hafa hafa frá hruni flutt til útlanda og eignast þar miklu betra umhverfi til að þrífast? Ég veit þetta frá fyrstu hendi, dóttir mín og fjölskylda hennar býr í Noregi.
Hér heima gilda svo tvær krónur. Er nokkur furða þótt fjöldi fólks sér einu glætuna að taka upp annan gjaldmiðil. Enda krónan eins og Gráni, gagnslaus og smáð.
Steinn Steinar orti oft vel. Sárt er að skoða þetta erindi sem Vilhjálmur vitnar í og má skilja sem vonlausa baráttu gegn forréttindakrónunni hans:
Og sjá, þú fellur fyrir draumi þínum
í fullkominni uppgjöf sigraðs manns.
Hann lykur um þig löngum armi sínum,
og loksins ert þú sjálfur draumur hans.
Everest, stórkostleg kvikmynd
24.9.2015 | 23:16
Everest er einfaldlega heillandi og áreiðanlega raunsönn kvikmynd. Mér er sagt að hún sé jafnvel enn betri í þrívídd. Imax heimildarmyndin um Everest er fáanleg á Netflix og sýnir að hluta til það sama og er umfjöllunarefni í mynd Baltasars Kormáks. Mæli með því að sjá heimildarmyndina áður en farið er á kvikmyndina, jæja eða þá á eftir.
Í kvikmyndinni má sjá hvílík þrekraun gangan á Everest er. Farið er upp í síðasta áfangann rétt eftir miðnætti og lagt af stað niður klukkan tvö stundvíslega. Í raun er óskiljanlegt hvers vegna aðalgæinn í myndinni, fararstjórinn, leyfði sér að fara upp með þann sem hafði dregist aftur úr. Fyrir vikið komst hvorugur niður.
Eflaust er rangt að gagnrýna kvikmyndina og harkalega. Hún er sviðsetning á raunverulegum atburðum og lýtur því öðrum lögmálum en heimildarmynd.
Ég hef aldrei gengið á hærra fjall en Piz Buin Pitschen í Ölpunum, 3.255 m og ætti því ekki að gagnrýna þá sem hærra hafa farið og síst af öllu kvikmynd sem er svo vönduð og heimilda gætt í hvívetna eins og Everest.
Almennt segja kvikmyndir ekki mikið um líkamlegar þarfir fólks, svo sem þvaglát eða álíka. Í þessari mynd verður engum mál sem er þó dálítið áhugavert að segja frá hvernig slíkt fer fram.
Hitt er öllu athyglisverðara að enginn virðist borða. Í svona ferðum undir hrikalegum aðstæðum skiptir öllu að hafa nóga orku til að knýja líkamann áfram. Einsýnt er að auk kulda hefur orkuleysi hrjáð suma af fjallgöngumönnunum.
Margir hafa lent í því að vera á ferð um íslensk fjöll og borða ekki nóg. Þá sprettur fram kaldur sviti, maður kemst varla úr sporunum, hjartsláttur eykst og suma svimar. Fæstir gera sér grein fyrir vandanum, kenna þreytu og úthaldsleysi um. Þá skiptir öllu að hafa góða ferðafélaga sem gefa manni gaum og skilja vandann en hann felst í því að borða og drekka reglulega. Annars er voðinn vís.
Svo er það eitt í lokin. Þegar veður versnar í fjallaferðum að vetrarlagi um leið og það skefur eða snjóar hylja menn vit sín. Setja upp lambhúshettur, skíðagleraugu og reima hettuna á úlpunni vel á sig. Nauðsynlegt er að vera í einangrandi hlífðarfatnaði frá hvirfli til ilja. Svo gerist það að göngumaðurinn andar í gegnum lambhúshettuna og þar myndast á skömmum tíma klaki, rakur andardrátturinn bleytir hettuna og hún frýs. Þetta gerðist ekki í myndinni. En eins og áður sagði er þetta kvikmynd sem byggir að hluta á skáldaleyfi.
Eins og áður sagði þykir mér myndin Everest stórkostleg. Einhver sagði að ekki spillti fyrir að Ingvar Sigurðsson leikur í henni Rússa sem kemur mönnum til hjálpar þegar neyðin er stærst.
Þessu get ég alveg trúað upp á hann Ingvar, sagði einhver fyrir framan mig í röðinni á leiðinni út úr Háskólabíói. Ég brosti og er alveg sammála.
Myndin er af höfundi á Vatnajökli í leiðindaveðri. Lambhúshettan var ekki merkilegri en svo að þegar hún ísaði teygðist á henni og hún hætti að gegna hlutverki sínu sómasamlega. Eða kannski var hún ekki gerð fyrir svona aðstæður.
![]() |
Það voru partý þarna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 25.9.2015 kl. 11:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Flugvél kastar út kassa í fallhlíf á Sandskeiði
24.9.2015 | 18:52
Aldrei er hægt að gera neitt í laumi. Alltaf er einhver vitleysingur með myndavél og smellir myndum í gríð og erg. Í þetta sinn átti ég hlut að máli, vaðandi með myndavélina á lofti austan við Sandskeið á leið í hrakfallaferð á Vífilsfell.
Og hvað haldiði að ég hafi séð? Jú, stóra flugvél sem lækkaði flugið rétt eins og hún væri að hrapa. Að minnsta kosti stefndi hún nokkurn veginn á mig og það ræð ég af því að ljósin á henni skinu skært í mína átt þrátt fyrir septembersólina sem var vel útilátin í dag.
Og svo datt eitthvað úr flugvélinni, ég þreif upp myndavélina og smellti af, yfirvegaður, vel pælandi í myndrammanum. Auðvitað hélt ég áfram að mynda þegar flugvélin hækkaði flugið að nýju og hvarf loks upp í himinnblámann í norðri.
Fyrst hélt ég að maður hefði stokkið út úr flugvélinn. Datt eina örskotsstund að einhver hafi þurft að komast upp á Sandskeið, ekki haft bíl en fengið að fljóta í Flugfélagsvél.
Ég hélt svo ferð minni áfram, sótti stikur, lamdi þær niður, datt og tognaði í læri. Þóttist vera hetja og datt nokkru síðar og sleggja þunga endaði flug sitt á handarbaki hægri handar. Kláraði engu að síður ferðina, vorkenndi sjálfum mér heil ósköp og skakklappaðist að bílnum og ók heim með aðra hönd á stýri.
Þegar heim var komið sá ég á myndunum að þetta hafði verið flugvél Landhelgisgæslunnar sem gerði stykki sitt yfir Sandskeiði, sendi niður kassa ekki mann.
Meira veit ég ekki og er sagan búin. Hef þó reynt að krydda hana eftir bestu getu. Sannast sagna hef ég frekar lítinn áhuga á því sem þarna gerðist. Líklega var þetta æfing hjá Gæslunni.
Á meðfylgjandi myndum sést atburðurinn mætavel, flugvélin og fallhlífin
Jú, þakka fyrir. Heilsan er eftir atvikum. Leik þó hvorki á hörpu né fiðlu þessa vikuna.
Í sjónum í Nauthólsvík
23.9.2015 | 11:30
Efsta myndin birtist í Fréttablaðinu í gær og er af tveimur sonardætrum mínum sem eru greinilega miklu hraustari en afi gamli. Þarna vaða þær í kaldri Nauthólsvíkinni í Fossvogi ásamt tveimur vinkonum sínum. Þeim leiðist greinilega ekki.
Rakel er í svörtum bol og Unnur er með kúta. Vinkonurnar heita Hanna Katrín og Steinunn.
Fyrir örfáum árum ... þegar ég var á svipuðum aldri og þessar fallegu stúlkur var Nauthólsvíkin fjölsótt. Þá lá fólk í sólbaði og krakkar busluðu í sjónum enda var sól og heitt alla daga sumarsins, aldrei rigning, alltaf gott veður (minnir mig). Og enginn heitur pottur.
Strákarnir úr Barmahlíðinni gengu alla leiðina yfir Öskjuhlíð og niður í Nauthólsvík með sundskýlu vafða inn í handklæði.
Af og til hef ég pælt í að leggja stund á sjósund, sérstaklega þegar sólin skín í heiði og heitt er í veðri. Þessar hugsanir hafa fljótlega rjátlast af mér þegar ský dregur fyrir sölu og hitastigið lækkar.
Ég minnist margvíslegra svaðilfara í sjó. Síðast valt ég á kajak í Hvalfirði og ferðafélagar mínir hlógu hjartanlega. Eitt sinn brotlentum við þrír félagar á gúmmíbát í brimi við strönd Surtseyjar. Það var mikið ævintýri. Svo er það vaðstandið í köldum ám og ósum víða um land. Minnistætt er að hafa um miðnætti vaðið Hafnarósinn í Hornvík og ósinn í Atlavík á aðfalli.
Kaldast og verst er þó að vaða blátærar ár, jökulár eru barnaleikur í samanburðinum. Sumir geta vaðið án nokkurra vandræða. Ég á hins vegar í miklum vanda. Kuldinn leiðir upp í haus og gerir um leið út af við ófáar heilafrumur og drepur rætur höfuðhára. Svo rammt kvað að þessu á tímabili að það flögraði að mér að hætta þessu til að vernda þær örfáu sem eftir eru en svo gleymdi ég því og hélt áfram. Þess vegna er ég eins og ég er ...
Hermann vinur minn Valsson hefur hvatt mig til að koma með sér í sjósund. Segir það sé allra meina bót. Ég trúi því eins og nýju neti enda mikið fyrir reddingar og snöggsoðnar lausnir. Ég væri fyrir löngu byrjaður og búinn að fara fram og til baka yfir Ermasund ef sjórinn væri ekki svona djö... kaldur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hægri menn segja af sér, vinstri menn sitja áfram ...
23.9.2015 | 09:41
Í viðtali á sjónvarpsstöðinni Hringbraut, síðastliðinn sunnudag, neitaði Björk Vilhelmsdóttir að samþykkt tillögunnar hefði verið kveðjugjöf til hennar. Undirbúningur hefði staðið í eitt ár og verið til skoðunar hjá lögfræðingum borgarinnar og innkaupaskrifstofu. Samþykkt tillögunar hefði verið pólitísk stefnumörkun en útfærsla hefði verið eftir. Flokkssystkinin, Dagur B. og Björk, eru sammála um að útfærslan hafi verið eftir en ósammála um að samþykkt borgarstjórnar hafi verið kveðjugjöf, sem er ein helsta afsökunin fyrir klúðrinu.
Björk Vilhelmsdóttir upplýsti í viðtalinu að hún hefði ekki haft frumkvæði að tillögunni um að Reykjavíkurborg sniðgengi vörur frá Ísrael. [...]
Sem sagt: Í eitt ár var tillagan í undirbúningi en ekki vannst tími til að útfæra framkvæmd hennar. Enginn - ekki lögfræðingar borgarinnar, starfsmenn innkaupaskrifstofu, fulltrúar í innkauparáði, borgarfulltrúar meirihlutans eða aðrir sem unnu að málinu í að minnsta kosti tólf mánuði - sá neitt athugavert við að setja »viðskiptabann« á Ísrael.
Engar lagalegar flækjur eða lögfræðileg álitsefni og engar viðvörunarbjöllur hringdu. Og samkvæmt upplýsingum Bjarkar hafði 27 orða tillaga legið fyrir í nokkra mánuði áður en hún var samþykkt.
Þetta segir Óli Björn Kárason, varaþingmaður, í vel skrifaðri grein í Morgunblaði dagsins. Í henni tekur hann saman aðalatriðin í dæmalausu klúðurmáli borgarstjórnarmeirihlutans og flótta hans frá staðreyndum málsins.
Engu er við þetta að bæta öðru en niðurlagsorðum greinarinnar, í þeim felst hinn nöturlegi sannleikur sem hefur tilvísun í stjórnmál undanfarinna missera (feitletrun er höfundar þessa pistils):
Það er skiljanlegt að krafa um afsögn borgarstjóra hljómi. Dagur B. Eggertsson verður að eiga þá ákvörðun við sig sjálfan og stuðningsmenn í borgarstjórn.
En líkurnar á að fallist verði á kröfu um afsögn eru hverfandi enda verður farið eftir óskráðri reglu:
Hægrimenn skulu segja af sér og víkja en vinstrimenn sitja áfram og læra af mistökum.
Svona er nú unnið í einkavinapólitíkinni.
Þrjár léttvægar skjálftahrinur á þremur stöðum
22.9.2015 | 09:45
Frekar litlar líkur eru á því að örfáir skjálftar í Kötluöskjunni í Mýrdalsjökli séu undanfari einhverra alvarlegri tíðinda. Óróamælar Veðurstofunnar sýna afar lítil viðbrögð við skjálftunum.
Hitt er merkilegra, að minnsta kosti fyrir leikmann, að á þremur stöðum hafa orðið jarðskjálftar yfir þrjú stig.
- Rétt eftir miðnætti í gær, mánudag, urðu nokkrir skjálftar í norðanverðri Bárðarbunguöskjunni. Einn þeirra var 3,2 að stærð.
- Skammt frá Eldey urðu nokkrir skjálftar milli kl. 15 og sextán í gær. Einn var 3,5 að stærð.
- Í Kötluöskjunni urðu í nótt nokkrir skjálftar milli klukkan 2 og 3. Einn þeirra var 3,3 að stærð.
Svona gerist þetta nú stundum þó ég muni ekki eftir því að hafa séð marga skjálfta yhfir þrjú stig í einu á landinu á svipuðum tíma. Það er þó ábyggilega ekkert einsdæmi.
Sérfræðingar segja okkur leikumönnum að þegar gos sé í vændum munu skjálftar vera tíðari og stærri auk þess megi búast við að aðdragandinn sé skýr, til dæmis á óróamælum. Á þessum þremum áðurnefndu stöðum er þetta ekki að gerast.
Aftur á móti er vissara að taka það fram að ég hef ekki hundsvit á jarðfræði eða jarðskjálftum, sem engu að síður eru afar áhugaverð.
Í lokin er ekki úr vegi að segja hér frá draumspökum manni sem tíðum tjáir sig um náttúruhamfarir á Íslandi og ég vitna stundum í. Hann hafði samband við mig að fyrra bragði og sagði fátt muni gerast til áramóta nema ef vera skyldi að einhvers staðar færi nú að gjósa, stóriskjálfti kæmi eða það snjóaði.
![]() |
Skjálftahrina við Kötlu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)