Ríkisútvarpið segir að haustið sé komið - sem er rangt

Haustið í RÚVRíkisútvarpið er beinlínis árstíðavillt stofnun. Fullum fetum heldur hún því fram að nú sé komið haust.

Þetta er kórvilla. Þegar þetta er ritað er tíu gráðu hiti í Reykjavík, fimm í Bolungarvík, sjö á Akureyri, sjö á Egilsstöðum og þrettán á Kirkjubæjarklaustri. Undir lok vikunnar er því spáð að hitinn á þessum stöðum verði rétt um níu gráður. Varla eru það hitatölur haustsins hér á landi?

Enn eru laufin ekki farin að sölna, ekkert frost á nóttunni og raunar vel útiverandi fyrir kalla og kellingar á öllum aldri.

Ríkisútvarpið skrökvar því að haustið sé komið af því að það hentar í auglýsinguna um dagskrá hausts og vetrar. Hundrað þúsund merki benda til þess að enn lifi sumar á Íslandi.

Raunar hefur sumt fréttafólk og dagskrárgerðarfólk tuðað frá því um mitt sumar að haustið sé komið, fyrsta haustlægðin skollið á og allt sé á hröðu undanhaldi. Veit þetta fólk þó ekkert um haustlægðir, eðli þeirra eða gang. Hvassviðri (sem tíðum er nefnt mikill vindur) og úrkoma, það er slagviðri, er ekkert einkenni á hausti, aðeins reykvískt veður ef svo má kalla.

Gleðjum nú okkur við sólarylinn, að minnsta kosti þar sem glæta er, njótum útiveru og gönguferða og gefum um leið lítið fyrir bölmóðsyfirlýsingar Ríkisútvarpsins. 

Ég hef það þó eftir mjög áreiðanlegum heimildum draumspaks manns sem ekki vill láta nafns síns getið að haustið sé í nánd. Hann telur að á næstu sjö mánuðum kunni að hitastigið muni ýmist vera yfir frostmarki eða undir því. Alvarlegustu tíðindin eru þó þau að á þessum tíma kann að snjóa og rigna, þó ekki á sama tíma. Á milli snjóbylja og skúra mun ábyggilega stytta upp (fyrir þá sem ekki þekkja orðalagið er átt við að snjókoman eða rigningin hætti). 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Ofankoma, þæfingur og lágarenningur er sennilega einnig utan málkunnáttu þessara nýmóðins "fréttamanna", ásamt að því er virðist svo ótal mörgu öðru. Það stingur beinlínis í augu að lesa fréttir nú til dags og sargar í eyrum að hlusta.

Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 16.9.2015 kl. 10:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband