Kynvíxl, næstefstudeildarlið og met fyrir hraðasta róður

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

 

1.

„Þá sagðist hún væri hætt að reka nuddstofur og væri að flytja til Washington DC. Yang segist þar að auki ekki þekkja Trump persónulega. Hann hafi bara starfað sem sjálfboðaliði á kosningatengdum viðburðum og hafi sótt einhverja viðburði í klúbbum hans.“

Frétt á vísir.is.          

Athugasemd: Fljótfærni blaðamanna fer illa með fréttir á Vísi. Hér fyrir ofan eru þrjár málsgreinar. 

Í þeirri fyrstu er í óbeinni ræðu sagt frá því að kona nokkur Cindy Yang væri að flytja til höfuðborgar Bandaríkjanna. 

Í næstu málsgrein er sagt að frú Yang þekki ekki Donald Trump, forseta, persónulega.

Í þriðju málsgreininni er frú Yang orðin karlmaður nema því aðeins að það sé forsetinn sem hafi starfað sem sjálfboðaliði á „kosningatengdum“ viðburðum (hvað sem það nú þýðir). Má vera að þetta geti kallast kynvíxlun.

Þar sem ég skildi ekki fréttina og fletti ég upp í heimildinni sem er vefútgáfa Miami Herald. Þar segir:

Yang told the Miami Herald she doesn’t know the president personally, and that she doesn’t work for him, other than to volunteer for campaign events.

Hér með er ljóst að blaðamaðurinn klúðraði þýðingunni, las greinilega ekki yfir textann sinn áður en hann var birtur. Skipta gæði frétta blaðamanninum engu máli eða stjórnendum vefsins? Er markmiðið bara að freta út orðum án skiljanlegs samhengis.

Svona lagað kallast skemmdar fréttir.

Tillaga: Engin tillaga gerð

2.

Valsmenn lentu í kröppum dansi við næstefstudeildarlið Fjölnis en sluppu með skrekkinn í framlengingu.

Undirfyrirsögn á blaðsíðu 2 í íþróttablaði Morgunblaðsins 9.3.2019.          

Athugasemd: Af hverju geta íþróttablaðamenn ekki talað venjulegt mál? Og hafa þeir engan skilning á stíl?

Nýyrðið „næstefstudeildarlið“ er bráðskemmtilegt en tóm þvæla. Með þetta í huga mætti búa til fleiri álíka. Dælmi: „Þriðjuefstudeildarkvennavaralið“ eða „fjórðuefstudeildarkarlavaramannabekkjarþaulsetuunglingar“. Jú, bráðfyndið er enn meiri þvæla.

Aðalatriðið er að skrifa skiljanlegt mál, ekki bjóða lesendum upp á málalengingar eða dellu.

Tillaga: Valsmenn sluppu naumlega úr kröppum dansi við Fjölni úr 2. deild.

3.

Sló met fyr­ir hraðasta róður yfir Atlants­haf.

Fyrirsögn á mbl.is. 

Athugasemd: Þetta er biluð fyrirsögn. Fréttin fjallar um mann sem réri yfir hafið á 36 dögum. Enginn einn hefur róið hraðar.

Fréttin er frekar illa skrifuð. Skrýtið þetta orðalag að „slá met fyrir …“. Hef aldrei heyrt um spjótkastara sem „slær met fyrir spjótkasti“ eða hlaupara sem „slær met fyrir 5000 m hlaupi“. Þannig er ekki tekið til orða á íslensku.

Afreksmenn slá met í spjótkasti eða 5000 m hlaupi. Einfætt ræðarinn sló met í róðri yfir Atlantshafið.

Í fréttaskrifum er yfirleitt reynt að komast að kjarna málsins sem fyrst. Þetta á við alla miðla. Mjög slæmt þykir þegar blaðamaðurinn rekur frásögn í beinni tímaröð og endar síðasta af öllu á því sem öllu máli skiptir. Lesandi eða hlustandi nennir ekki bíða eftir kjarna málsins.

Meðróðurinn var aðalatriðið. Hitt sem máli skiptir er að ræðarinn var einfættur. Svo má vel vera að hann hafi verið með suð í eyrum eða kartnögl á vinstri hendi.

Stíllaus fréttaskrif eru orðin afar algeng. Margir blaðamenn fálma út í loftið, sjá ekki aðalatriðin, skrifa orð án nokkur samhengis, reyna ekki að skrifa samhangandi frásögn. Enginn virðist leiðbeina nýliðum í blaðamennsku og afleiðingin er agaleysi og skemmdar fréttir.

Tillaga: Sló hraðamet í róðri yfir Atlantshaf.

4.

Tug­ir góðra hjarta hætt­ir að slá.

Fyrirsögn á mbl.is. 

Athugasemd: Þetta er ekki rétt því tugur góðra hjartna hættu að slá.

Hjarta beygist eins í öllum föllum eintölu: Hjarta, hjarta, hjarta hjarta. 

Í fleirtölu er beyging þessi: Hjörtu, hjörtu, hjörtum, hjartna.

Þar sem hjörtun er sagnorð í fleirtölu hættu þau að slá.

Fyrirsögnin er algjörlega ómögulegt. Jafnvel þó hún sé leiðrétt verður hún áfram hallærisleg. 

Skáldlegt, rómantískt eða háfleygt orðalag verður einfaldlega ljótt ef höfundinum hlekkist á í málfræðinni. Þess vegna fer betur á því að blaðamenn skrifi einfalt og skiljanlegt mál. Málskrúð á sjaldnast við í fréttum.

Tillaga: Tugir fólks í mannúðarmálum létust í flugslysi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband