Eftirsótt gönguleið, suðað samþykki og róa ástandið

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

 

Strendur og strandir

Strönd er til í tveimur útgáfum í fleirtölu: strendur og strandir. 

Sú seinni er miklu sjaldséðari. Hún blasir þó við í örnefni sem oft bregður fyrir nú á ferðamanna- og útivistaröld: Hornstrandir. Það er hreinlega ekki til í hinni útgáfunni. 

Þolfallið er líka strandir, en síðan frá ströndum, til stranda.

Málið á blaðsíðu 24 í Morgunblaðinu 4.3.2019.

Hér má ýmsu bæta við. Skagaströnd við Húnaflóa þekkja allir, einnig Árskógsströnd við Eyjafjörð. Höfðaströnd er til á tveimur stöðum; við sunnanverða Jökulfirði og sama nafni hefur sveitin við austanverðan Skagafjörð.

Til er eyja sem heitir Strönd og er hún í Svefneyjum. Í þeim eyjaklasa er Strandahólmi en nafnið líklega dregið af strandi frekar en strönd. 

Strönd þarf ekki að vera við sjó, hún getur verið við vatn eða á. Stundum geng ég við strönd Elliðavatns. Strönd nefnist graslendi við Laxá í Lóni, æði langt frá sjó og ekkert stöðuvatn í nánd. Í Íslenskri orðsifjabók segir meðal annars um strönd: 

landsvæði við sjó eða vatn; árbakki; brún eða jaðar á e-u

Stundum hef ég heyrt talað um norðurströnd Íslands. Það er auðvitað rangt. Á Norðurlandi og raunar um allt Ísland eru ótal strandir enda kemur berlega fram í nafni Strandasýslu að þær eru þar margar.

Margt getur skilið strandir að ... byrjaði ég að skrifa. Þetta var ósjálfrátt, hefði getað skrifað strendur. Hið fyrrnefndara er mér líklega tamara eftir ótal ferðir á Hornstrandir. Jú, margt getur skilið standir að ... og svo gleymdi ég því sem ég ætlaði að segja.

Hér má spyrja lesandann; hvort segir hann strendur Íslands eða strandir Íslands. Alltaf forvitnilegt að rýna í orðaforða sinn.

 

1.

„Ein eftirsóttasta gönguleið í Bandaríkjunum.“

Frétt á mbl.is.          

Athugasemd: Fyrirsögnin fer dálítið í bága við málkenndina eða hugsanlega eðli máls. Blaðamaðurinn hlýtur að hafa haft í huga að gönguleiðin sé ein sú vinsælasta.

Á malid.is segir um eftirspurn:

það magn af vöru og þjónustu sem einstaklingar og fyrirtæki vilja kaupa.

Hvað er það sem er eftirsótt? Svarið hlýtur að vera það sem hægt er að fá upp í hendurnar.

Til dæmis eru bækur eftir Arnald Indriðason afar vinsælar því eftirsóttar fyrir jólin. Sama er með miða á undanúrslitaleiki íslenska landsliðsins fyrir HM síðasta sumar, þeir voru eftirsóttir, færri fengu en vildu. Miðarnir voru hins vegar ekki vinsælir. Er rétt að segja að leikirnir, sem miðarnir voru ávísun á, hafi verið vinsæli? Í spurningunni er gildra. Eru atburðir vinsælir jafnvel þó þeir eigi að vera næsta sunnudag, í næsta mánuði eða næsta ári?

Gönguleiðin á Þverfellshorn í Esju er vinsæl en ekki er hægt að fullyrða um eftirspurnina vegna þess að enginn takmörk eru á því hversu margir mega ganga þarna á fjallið.

Hins vegar er mikil eftirspurn í Laugavegshlaupið, sem er árlega milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Aðeins fá um 500 manns að taka þátt. Allir geta gengið (eða hlaupið)  milli Landmannalauga og Þórsmerkur á öðrum tíma en á keppnisdeginum, og leiðin er vinsæl enda engin kvóti á fjölda göngumanna … ennþá.

Sama er með gönguleiðina í Bandaríkjunum, enginn kvóti er á fjölda þeirra sem hana ganga. Hún er meðal þeirra vinsælustu en varla hægt að segja að hún sé eftirsótt frekar að hún sé vinsæl.

Tillaga: Ein vinsælasta gönguleiðin í Bandaríkjunum.

2.

„… en það er nauðsynlegt að fólk geri sér grein fyrir því að suðað samþykki er ekki samþykki.

Frétt á visir.is.         

Athugasemd: Þetta frekar asnalegt orðalag, svona við fyrstu sýn. Hér er fjallað um fræðslu fyrir ungmenni og koma í veg fyrir kynferðisofbeldi undir slagorðinu „Ég virði mín mörk og þín“.

Í framhaldi af tilvitnaðri málsgrein segir í fréttinni:

Ef ég hef sagt nei tíu sinnum, þýðir ekki að mig langi til þess ef ég gefst upp á þér í ellefta skipti.

Uppgjöfin er þarna kölluð suðað samþykki sem hugsanlega getur talist rétt mál. Í það minnsta er oft talað um upplýst samþykki, þó í öðru samhengi. Í íslenskri orðsifjabók segir:

suð … daufur niður, lágt hvíslhljóð; kvabb, þrábeiðni

Í ljósi þessa má túlka ofangreinda tilvitnun sem svo, að samþykki sem fæst fyrir þrábeiðni sé ekki samþykki. Hér ekki ekki lagt mat á fullyrðinguna, hvort hún sé rétt eða röng, en tekið fram að orðunum er beint að unglingum og þeir hvattir til að hugsa sinn gang. Ekki láta undan þrábeiðni, suði eða stöðugu kvabbi, heldur standa fast á sínu. Tillöguna hér fyrir neðan ber að skoða í þessu ljósi.

Tillaga: … en nauðsynlegt er að fólk geri sér grein fyrir því að sé látið er undan þrábeiðni eða suði telst það ekki samþykki.

3.

„Að lok­um þurfti Ole að koma til að róa ástandið,“ sagði heim­ildamaður­inn.“

Frétt á mbl.is.          

Athugasemd: Vonandi hefur ástandið sætt sig við orðinn hlut og hætt að rífast. 

Nei, ástand er ekki persóna og því er ekki hægt að róa það. Hins vegar getur mannvirki verið í góðu eða slæmu ástandi. Hægt er að bæta ástandið en með aðgerðaleysi getur það versnað.

Tilvitnunin er úr frétt um fótboltaliðið Manchester United og tvo leikmenn sem voru ekki á eitt sáttir, þeir deildu eða rifust. Þjálfarinn, Ole Gunnar Solskjær, þurfti að róa þá, ganga á milli eða sætta. 

Heimildin er úr vefútgáfu enska blaðsins The Sun en þar segir:

It needed Ole to calm the situation down.

Þarna fellur blaðamaðurinn í gryfju beinnar þýðingar úr ensku með orðalagi sem gengur ekki upp á íslensku. Óli þjálfari róaði leikmenn sem deildu og líklega hefur ástandið skánað eftir það. 

Á vefmiðlinum fobolti.is segir:

Ole Gunnar Solskjær, bráðabirgðastjóri United, þurfti að stíga á milli þeirra eftir leikinn til að róa ástandið en báðir hafa verið frábærir frá því Solskjær tók við. 

Þetta er algjörlega óboðleg málsgrein. Blaðamaðurinn þekkir ekki orðalagið að ganga á milli og býr til annað; að stíga á milli. Notar það bókstaflega rétt eins og þjálfarinn hafi tekið sér stöðu á milli leikamannanna vegna þess að þeir voru að slást. Um það segir ekkert í fréttinni né í heimildinni.

Skrifarinn á fótboltavefnum er við sama heygarðshornið og blaðamaðurinn á Moggavefnum. Þeir hafa ekki góða tilfinningu fyrir íslensku máli þó þeir telji sig skilja ensku.

Tillaga: Að lokum þurfti Ole að róa leikmennina, sagði heimildamaðurinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband