Með sentimetrana með sér, stíga til hliðar og erindagjarðir

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

Kominn til að vera

Að bera einhverju við er að nota e-ð sem mótbáru eða afsökun: „Sakborningur bar því við að hann hefði verið annars hugar þegar hann braust inn.“ 

Að bera eitthvað við þýðir hins vegar að gera tilraun til að gera e-ð eða reyna við e-ð: „Ég er ekki lagviss en ber samt stundum við að syngja.“

Málið á blaðsíðu 28 í Morgunblaðinu 26.2.2019.

1.

„Van Dijk er núna 193 sentímetrar á hæð og algjör klettur í vörn Liverpool en hann var ekki alltaf með sentímetrana með sér. 

Frétt á visir.is.            

Athugasemd: Til hvers þarf fótboltamaður að hafa sentímetra með sér? Sá sem skrifar ofangreinda tilvitnun á Vísi þarf að vanda sig betur. Í fréttinni segir frá fótboltamanni sem stækkaði mikið á sautjánda ári, var ekki áður eins hár og hann er  nú. 

Blaðamaðurinn býr til misheppnað orðtak; „að vera ekki alltaf með sentímetrana með sér“. Hann fær seint verðlaun fyrir framtakið.

Talmál á ekki alltaf erindi á prent. Þá verður það frekar berangurslegt, gallar í orðalagi blasa frekar við og stinga í augu. Ein mikilvægast reglan í blaðamennsku er að forðast orðalag sem blaðamaðurinn ræður ekki við. Verst ef blaðamaðurinn hefur ekki góðan skilning á íslensku og þaðan af síður á málfari sínu.

Flestir stækka, varla þarf að taka það fram. Stærð manns gerir hann ekki sjálfkrafa að góðum varnarmanni í fótbolta. Gott er að nota frekar punkt en að skrifa langa málsgrein með ólíkum sögum. 

Tillaga: Van Dijk er 193 sentímetrar á hæð. Hann er kletturinn í vörn Liverpool.

2.

„Sindri Sig­ur­geirs­son, formaður Bænda­sam­taka Íslands, hef­ur óskað eft­ir því að fá að stíga til hliðar sem formaður sam­tak­anna, en … 

Frétt á mbl.is.            

Athugasemd: Hvað skyldi Sindri ætla gera þarna til hliðar? Ef ekki væri fyrir fyrirsögnina væri þessi málsgrein óskiljanleg. Í henni stendur:

Sindri hætt­ir sem formaður.

Þetta er hið eina rétta. Sá sem stígur til hliðar er að víkja, til dæmis úr vegi. Fyrirsögnin segir allt sem segja þarf en hvers vegna þarf blaðamaðurinn að bæta því við að maðurinn vilji „stíga til hliðar“? Heldur hann að við skiljum ekki hvað átt er við þegar formaðurinn vill hætta?

Hins vegar þurfa nú sumir blaðamenn bókstaflega að stíga til hliðar, standa upp og hleypa þeim sem kunna til verka að tölvunni og leyfa þeim að lesa yfir og leiðrétta skrifin. 

Vinsælt er nú að misnota og misþyrma sögninni að stíga. Fjöldinn allur þykist kunna ensku alveg óaðfinnanlega en getur samt ekki tjáð sig fullnægjandi á íslensku. 

Á ensku má segja: „The chairman wants to step down/aside“. Þetta þýðir ekki að formaðurinn vilji stíga niður eða til hliðar nema því aðeins að hann sé að stíga niður úr ræðustól eða stíga til hliðar víkur fyrir öðrum. Sjá nánar hér um ensku sögnina „to step“.

Tillaga: Sindri Sig­ur­geirs­son, formaður Bænda­sam­taka Íslands, hef­ur óskað eft­ir því að hætta sem formaður sam­tak­anna, en …

3.

Íslendingarnir munu flestir vera á vegum Úrval Útsýn og Vita en vinsælt hefur verið að fara til Madonna di Campiglo til að stunda skíðamennsku.“ 

Frétt á vísir.is.            

Athugasemd: Enginn stundar skíðamennsku, margir fara hins vegar á skíði, jafnvel til Madona di Campiglo. Þar er skíðamennska vinsæl íþrótt.

Margir hafa áhuga á hestamennsku og fara því í útreiðar. Enginn stundar hestamennsku, það væri skrýtin mennska. Ég hef nær alla mína æfi verið í fjallamennsku, hana stunda ég ekki en geng á fjöll.

Nú er ég viss um að ekki eru allir sammála mér.

Tillaga: Íslendingarnir munu flestir vera á vegum Úrval Útsýn og Vita en vinsælt hefur verið að fara á skíði í Madonna di Campiglo.

4.

Bjarni Benediktsson, sem mælir fyrir frumvarpinu, gat ekki verið viðstaddur maraþon-umræðuna í kvöld og nótt vegna opinberra erindagjarða erlendis.“ 

Frétt á vísir.is.            

Athugasemd: Þetta er rangt orð hjá blaðamanninum, „erindagerð“ er ekki til. Bjarni var í erindagjörðum erlendis. Nafnorðið erindagjörð beygist eins í öllum föllum eintölu nema í eignarfalli, þar er það erindagjörðar. Í fleirtölu beygist orðið svona:

nf. erindagjörðir
þf. erindagjörðir
þgf erindagjörðum
ef. erindagjörða 

Þetta er gamalt og stirt orð, nokkuð vandmeðfarið, þó er það gegnsætt en frekar lítið notað í nútímamáli. 

Sögnin að gjöra og nafnorðið gjörð eru kunnugleg í gömlum sögum og biblíumáli, en í nútímamáli notum við yfirleitt sögnina að gera í staðinn. 

Í Nýja Testamentinu segir Jesús:

„Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. 

Í íslenskri þjóðvísu segir:

Góða veislu gjöra skal, …

Nafnorðið gjörð getur merkt málmhringurinn undir dekki reiðhjóls. Það getur líka merkt járnband utan um tunnu, til dæmi síldartunnu. Einnig getur það merkt ól á reiðtygjum sem spennt er undir hest til að festa hnakk. Þórður Magnússon á Strjúgi í Langadal í Austur-Húnavatnssýslu orti á 16. öld:

Þótt slípist hestur og slitni gjörð
slettunum ekki kvíddu.
Hugsaðu hvorki um himin né jörð
en haltu þér fast og ríddu.

Nafnorðið gjörð getur merkt athöfn eða verknað, til dæmis sáttargjörð (sáttagerð) í skilnaðarmálum. Til er Gjörð fjárfestingarfélag, stofnað 2015.

Síðar í fréttinni segir:

Hann nýtti síðustu ræðu næturinnar til að kalla eftir því að umræðunni yrði frestað til að fjármálaráðherra gæti tekið virkari þátt í umræðum um þetta mikilvæga mál. 

Á ensku er til orðasambandið „to call for“. Í orðabók er það skýrt svona:

to say publicly that something must happen
to make something necessary or suitable

Dæmi um notkun er þessi vinsæli frasi:

Desperate times call for desperate measures

„Að kalla eftir“ er greinilega bein og hugsunarlaus þýðing þess sem hefur líklega ekki góðan skilning á íslensku máli. Og svo föst er enskan í hausnum að sumir þýða bókstaflega og ekki nóg með það, ensk íslenska er notuð um fréttir sem gerast hér innanlands. Þetta er sorgleg þróun og er glöggt dæmi um hnignun íslenskunnar.

Miklu betur fer á því að óska eftir, biðja um, hvetja til.

Tillaga: Bjarni Benediktsson, sem mælir fyrir frumvarpinu, gat ekki verið viðstaddur maraþonumræðuna í kvöld og nótt vegna opinberra erindagjörða erlendis.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Sæll Sigurður. Það væri að æra óstöðugan, að lúslesa netmiðlana eins og þú gerir. En þessi setning á visir.is er dæmi um ranga málnotkun.

 "XX segist aldrei hafa verið viðloðinn..."

http://www.visir.is/g/2019190228771/thvertekur-fyrir-tengsl-vid-fikniefnaheiminn-og-segist-ekki-thekkja-svedda-tonn

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 28.2.2019 kl. 14:00

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sæll, Jóhannes,

Ég lúsles ekki netmiðlana. Hins vegar er ég áhugamaður um fréttir og les mikið þar að auki. Ég finn aðeins örlítið brot af villum í fjölmiðlum, sumt nenni ég ekki að gera athugasemdir við og á talsvert mörgu hef ég ekki næga þekkingu þó villur séu mér auðsæjar.

Þakka ábendinguna. Skoða þetta og birti vonandi.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 28.2.2019 kl. 15:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband