Helgafell landsins eru átta

HelgafellNafnið Helgafell er fallegt, ber helgina næstum því með sér. Þau sem ég þekki eru eiginlega íhvolf, svona eins og skál á hvolfi, enginn tindur, heldur er hæsti hlutinn ... bara þar sem hæst ber. Þau eru tilgerðarlaus, frekar lítil og er því réttnefnd fell. 

Mér telst svo til að átta fjöll á landinu beri nafnið Helgafell. Má vera að þau séu fleiri, sé svo myndi vinsamlegur lesandi eflaust láta mig vita.. Þau eru ekkert sérstaklega há sé miðað við umhverfið.

  1. Helgafell ofan Hafnarfjarðar, 340 m á hæð
  2. Helgafell í Mosfellsbæ, 217 m 
  3. Helgafell skammt frá Stykkishólmi, 73 m
  4. Helgafell við Hvalsárdal í Hrútafirði, 301 m
  5. Helgafell við Dýrafjörð, skammt frá Þingeyri, 549 m
  6. Helgafell á Seljaheiði, suðvestan við Þistilfjörð, 460 m
  7. Helgafell á Vatnsdalsfjalli norðaustan við Hvolsvöll, 362 m
  8. Helgafell á Heimaey, 226 m

Ekki þekki ég þau öll, vantar þrjú upp á. Það vekur athygli mína að þú eru einkum á vesturhluta landsins, með einni undantekningu.

Frægasta Helgafellið er án efa það sem er í samnefndri sveit og skammt frá Stykkishólmi. Í Eyrbyggju segir frá Þórólfi Mostraskegg, landsnámsmanni:

Þórólfur kallaði Þórsnes milli Vigrafjarðar og Hofsvogs. Í því nesi stendur eitt fjall. Á því fjalli hafði Þórólfur svo mikinn átrúnað að þangað skyldi engi maður óþveginn líta og engu skyldi tortíma í fjallinu, hvorki fé né mönnum, nema sjálft gengi í brott. Það fjall kallaði hann Helgafell og trúði að hann mundi þangað fara þá er hann dæi og allir á nesinu hans frændur.

Síðar í sögunni segir:

Það var eitt kveld um haustið að sauðamaður Þorsteins fór að fé fyrir norðan Helgafell. Hann sá að fjallið laukst upp norðan. Hann sá inn í fjallið elda stóra og heyrði þangað mikinn glaum og hornaskvöl. Og er hann hlýddi ef hann næmi nokkur orðaskil heyrði hann að þar var heilsað Þorsteini þorskabít og förunautum hans og mælt að hann skal sitja í öndvegi gegnt föður sínum. Þennan fyrirburð sagði sauðamaður Þóru konu Þorsteins um kveldið.

Hún lét sér fátt um finnast og kallar vera mega að þetta væri fyrirboða stærri tíðinda.

Um morguninn eftir komu menn utan úr Höskuldsey og sögðu þau tíðindi að Þorsteinn þorskabítur hafði drukknað í fiskiróðri og þótti mönnum það mikill skaði.

Saga Helgafells á Þórsnesi tengist órjúfanlegum böndum sögu þjóðarinnar. Ekki aðeins er það áberandi í Eyrbyggju heldur alla tíð síðan. Þar var löngum kirkja og einnig klaustur og ábúendur á jörðinni Helgafelli voru margir merkilegir menn allt frá söguöld og lengi síðan.

Saga annarra Helgafella er ekki eins litrík. Engu að síður er Helgafell ofan Hafnarfjarðar afar þekkt í samtímanum. Þangað flykkist fólk á björtum dögum og gengur á fjallið enda er það auðvelt fyrir flesta þó sums staðar sé það bratt og geti verið hættulegt óvönum. Sama má segja með Helgafell í Mosfellsbæ og jafnvel Helgafell á Heimaey.

Látum þetta duga að sinni. Næst ætla ég að segja frá Búrfellum landsins. Þau eru æðimörg. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband