Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Jólakveðjur á Þorláki, svoo jólalegt

297-2979164_hand-of-man-holding-shouting-by-megaphone-hdÍ morgun gekk ég út á svalir, eins og ég geri jafnan árla á Þorláksmessu, dró nokkrum sinnum djúpt andann og hrópaði síðan af öllum kröftum:

Sendi ættingjum og vinum bestu óskir um gleðileg jól og heillaríkt nýtt ár. Þakka allt á árinu sem er að líða.

Svo beið ég í dálitla stund þangað til svörin bárust:

Já, sömuleiðis, gleðileg jól, kallaði einhver.

Haltu kjafti, helv... þitt. Fólk er að reyna að sofa hérna, öskraði rámur kall.

Ha ..., kaseiru? hrópaði skræk kona.

Hundur gelti, annar tók umsvifalaust undir og köttur mjálmaði. Nagladekk skröltu á íslausu malbiki.

Ég gekk inn í stofu, nennti ekki að hlusta á hundgá, jafnvel þótt fyrr eða síðar myndi hundur sonar míns, hann Fróði (sko hundurinn heitir Fróði ekki sonurinn) hugsanlega gelta, mér eða einhverjum öðrum til ánægju.

Engu að síður velti ég því samt fyrir mér hvort ekki væri skynsamlegra að senda jólakort eða tölvupóst. Hrópin hef ég hins vegar stundað á Þorláksmessu frá því ég var barn og með því sparað mér ótrúlegar fjárhæðir í kaupum á jólakortum og frímerkjum. Og allir gleðjast yfir gleðilegjólaogfarsæltnýttárhrópum mínum (nema þessi rámi).

Nú kann ábyggilega einhver að misskilja mig og halda að ég sé að gagnrýna rúmlega hálfra aldar gamlan sið að senda jólakveðjur á gufunni Ríkisútvarpsins. 

Nei, nei, nei ... Því er nú víðsfjarri. En úr því að verið er að brydda upp á þessu, man ég aldrei eftir að hafa heyrt jólakveðju til mín á gufunni eða einhvers sem ég þekki og aldrei hef ég kannast við nöfn þeirra sem senda kveðjur. Sendendur eru alltaf einhverjir sem enginn þekkir, til dæmis „Stína, Barði, börnin“ og fleiri sem ég man ekki hvað heita enda 3.466 kveðjur þetta árið. 

52-525070_free-png-download-vintage-radio-png-images-backgroundSko, ég held því síst af öllu fram að kveðjurnar séu ómarkviss vitleysa fyrir kaupendur (og hlustendur). Á samfélagsmiðlum er því haldið fram að kveðjurnar séu að mestu leyti uppdiktaðar innan Ríkisútvarpsins, því mörgum finnst grunsamlegt hversu þær eru allar líkar. Í öllum koma fyrir fyrir orðin óskir, jól, gleðilegt, þakkaár, nýttlíða og svo kryddað með innihaldsríkum samtekningum og forsetningum af ýmsu tagi. Nokkuð til í þessu.

Nú má vel vera að enginn sendi mér jólakveðju í útvarpinu, sem í sjálfu sér er dálítið sorglegt. Hitt er þó jafn líklegt að útilokað sé að hlusta með einbeittri athygli á yfir þrjú þúsund fjögur hundruð sextíu og sex jólakveðjur lesnar í belg og biðu í tvo daga samfleytt og ná að grípa þá réttu. Aðferðafræðin er doldið kjánaleg, svona markaðslega séð. Og enn vitlausari eru þeir sem punga út fullt af peningum til að senda kveðjur sem aldrei rata til móttakenda.

Margir nenna ekki lengur að hlusta á jólakveðjurnar sem er synd, illa farið með góða sorg sem óhjákvæmilega til verður þegar ekki næst að grípa kveðju sem maður vonar að hafi verið send. Þó eru margir með gufuna opna og hlusta á kveðjurnar sem í síbylju hverfa út í loftið meðan verið er að baka, pakka inn jólagjöfum, skamma krakkana eða eitthvað annað þarflegt.

Hitt er ku vera dagsatt að Ríkisútvarpið græðir tæplega fjórtán milljónir króna á tiltækinu og kostar engu til nema þulnum sem þylur sig hásan.

Í anda samkeppni og þjóðþrifa mun ég frá og með deginum í dag og fram yfir áramót bjóða landsmönnum að hrópa hjartnæmar jóla-, annaníjóla-, þriðjaíjóla- (og svo framvegis) og nýjárskveðjur af svölunum heima. 

Svo vel hefur tekist til á undanförnum árum að þetta er að verða siður. Spyrjið bara alla þá sem sendu og fengu kveðjur. Heimtur á kveðjum eru margfalt betri hjá mér en Ríkisútvarpinu. 

Verðið er miklu betra en hjá Ríkisútvarpinu, heilum 17,5% lægra. Og það sem meira er, komist kveðja sannanlega ekki til skila fær kaupandinn 33,9% endurgreiðslu. Samkeppnisaðilinn getur sko ekki toppað þetta.

Fyrst verið er að misskilja viljandi tilganginn með þessum skrifum mínum vil ég nefna þá staðreynd í fullkominni vináttu, kurteisi og virðingu fyrir hefðum fólks að það er ábyggilega ódýrara og markvissara að hrópa kveðjur af svölunum en að borga Ríkisútvarpinu fyrir að lesa þær út í rafræna tómið sem er umhverfislega stórhættulegt og um síðir getur valdið ólæknandi veirusjúkdómum. Eða að yfirborð sjávar hækki um fimm sentímetra á næstu þrem árum.

Þá hrekkur þetta eflaust upp úr lesandanum:

En það er svo gasalega jólalegt að hlusta á jólakveðjulesturinn á gufunni.

Já, því skal ég nú trúa. Það er líka obbbbb-ooooðs-leeeeeg-aaaa-a jólalegt að tala til þjóðarinnar úti á svölum á Þorláksmessumorgni. 

(Vilji svo til að einhver glöggur lesandi telji sig hafa lesið ofangreindan pistil á Þorláksmessu á síðasta ári skal það fyrirfram dregið í efa vegna þess að fólk man ekkert stundinni lengur.)

 


Einkennasýnataka, Seyðfirðingar hlutaðir og Seyðis- og Eskifirði

Orðlof

Spjallar Guð?

„Guðspjallið skrifaði guðspjallamaðurinn Mattheus“ (eða Markús, Lúkas eða Jóhannes). Þennan texta þekkja allir og vita líka hvað guðspjall er, þótt þeir viti ekki endilega hvernig orðið er til komið. Það mætti láta sér detta í hug að merkingin sé að í guðspjöllunum sé guð að spjalla við mennina, en uppruninn er allt annar. 

Guðspjall er gamalt tökuorð úr fornensku sem er orðið til úr orðasambandinu ’gód spell’. Bókstafleg merking þess er ’góðar fréttir’ og það þýðir því í rauninni það sama og fagnaðarboðskapur og er, eins og það, bein þýðing á latneska orðinu ’evangelium’. 

Fornenska orðið vísar því hvorki til guðs né hefur það nokkuð með spjall að gera, hvað þá spjöll. Menn hafa þó litið svo á að hin góðu tíðindi sem guðspjöllin flytja séu komin frá guði og það er kannski ástæðan fyrir því að fyrri liður orðsins hefur fengið myndina ’guð-’.

Orðaborgarar.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Þórólfur segir augljóst að fólk sé mikið á ferðinni út um allt og það auki líkur á útsetningu á smiti.“

Frétt á ruv.is.                                      

Athugasemd: Allir vita hvað smit er og nú er hætta á að fólk smitist. Er þá „útsetning“ á smiti eitthvað verra en að smitast?

Orðabókin mín er hjálpar ekkert. Hefur aldrei heyrt um „útsetningu á smiti“ en kannast mætavel við útsetningu á lögum eða tónverkum.

Leyfi mér  að giska á að „útsetning“ merki að verða fyrir. En auðvitað er það ekki eins fínt og „útsetning á smiti“ og passar sko alls ekki inn í stofnanamállýsku kerfisins.

Líkur benda til að „útsetning“ sé óþarft í fréttin því það bætir engu við skilning lesandans.

Þegar gáfumenn tala falla blaðamenn í stafi. Þetta fólk er þó eins og við hin, reka í vörðurnar og ruglast. Hins vegar er svo margt sem þeir segja svo áferðarfallegt. Til dæmis „einkennasýnataka“ sem er gullfallegt orð en enginn skilur það nema kerfiskallarnir.

Svo finnst mér þetta orðalag svo gáfulegt að ég ræð mér varla:

Þórólfur segir hins vegar að flestir sem hafi greinst utan sóttkvíar hafi tengsl við aðra smitaða en ekki náðst á sínum tíma.

Aldrei hefði mér dottið í hug að fólk smitist aðeins af þeim sem hafa veiruna. Það er vísindalegt afrek að hafa ráðið í tengslin.

Tillaga: Þórólfur segir augljóst að fólk sé mikið á ferðinni og það auki líkur á að það  smitist. …

2.

„… og hvort að hægt sé að hleypa einhverjum hluta Seyðfirðinga heim til sín, þeim sem búa á öruggum svæðum.“

Frétt á frettabladid.is.                                      

Athugasemd: Varla er fólk sent heim til sín í hlutum. Flestir njóta sín betur í heilu lagi.

Tillaga: … og hvort að hægt sé að hleypa þeim Seyðfirðingum heim til sín sem búa á öruggum svæðum.

3.

„Þyrla Land­helgis­gæslunnar lenti á Seyðis­firði rétt eftir klukkan 11 og mun þar verða þar ofanflóðasérfræðingum Veður­stofunnar innan handa.“

Frétt á frettabladid.is.                                      

Athugasemd: Merking orðalagsins að hafa eitthvað innan handar er samkvæmt bókinni Merg málsins eftir Jón G. Friðjónsson:

Líkingin er dregin af einhverju sem  er tiltækt, einhverju sem menn geta gripið til.

Varla fer vel á því að skip eða flugvél sé fólki innan handar. Veldur því stærðin. Betur fer hér á því að segja að þyrlan verði sérfræðingunum til afnota.

Í fréttinni segir:

Varð­skipið Týr kom til Seyðis­fjarðar í gær og byrjaði á því að bjarga þremur og tveimur köttum sem höfðu orðið inn­lyksa. Þau voru flutt á Seyðis­fjörð. Skipið var svo statt þar í nótt og varpaði ljósi á hlíðina en að sögn Ás­geirs eru nokkuð öflugir kastarar um borð.

Sá sem þetta skrifaði hefur ekki haft fyrir því að lesa fréttina yfir fyrir birtingu. Verkstjórnin á Fréttablaðinu virðist ekki upp á marga fiska fyrst að svona er ekki lagað.

Í fréttinni segir líka:

Al­manna­varnir, lög­regla og við­bragðs­aðilar funduðu um stöðuna á Seyðis- og Eski­firði

Gott að ekki var líka rætt um Mjóa-, Reyðar-, Fáskrúðs-, Beru- og Hamarsfjörð. Þvílík leti í blaðamanninum að nenna ekki að skrifa heiti þéttbýlisstaðanna eða fjarðanna fullu nafni.

Þori að fullyrða að svona hefur aldrei verið gert. Hvorki í Reykja-, Húsa- eða Ólafsvík. Né í Tryggva-, Skúla- eða Aragötu. Og ekki eru þau eins Morgun-, Dag- og Fréttablaðið. Hvað þá blöð í öðrum löndum svo sem í Finn-, Bret-, Frakk-, Pól- eða Swasílandi. Sjá nú allir hversu þetta er enda-, botn- og vitlaust jafnvel þó verið sé að aug-, upp-, þing- eða friðlýsa.

Tillaga: Þyrla Land­helgis­gæslunnar lenti á Seyðis­firði rétt eftir klukkan 11 og mun þar verða þar ofan­flóða­sér­fræðingum Veðurstofunnar til afnota.

4.

Daginn tekur að lengja frá deginum í dag.“

Frétt á ruv.is.                                       

Athugasemd: Þessi setning er stórmerkileg. Í átta orða fyrirsögn kemur dagur fyrir þrisvar sinnum. Þetta kallast nástaða en flestir sem stunda skrif reyna að forðast hana. 

Væri fyrirsögnin hluti af vísu myndi svona kannski vera kallað ofstuðlun. Þetta er gott að hafa í huga enda hafa allar góðar sögur hryjanda, takt. Og hvað er frétt annað en saga? Þetta mættu fréttaskrifarar hafa í huga og njóta þeir þakklætis lesenda fyrir vikið. 

Tillaga: Dag tekur nú að lengja.


Ákall, go crazy og hrópa framíköll

Orðlof

Gustuk

Stundum er sagt að ekki sé gustuk að gera þetta eða hitt ef það þykir ekki nema sjálfsagt og líka er talað um gustukaverk í svipaðri merkingu. Orðið gustuk er orðið til við samruna úr orðasambandinu „guðs þökk“ og upphaflega var þetta haft um miskunnarverk eða góðverk við náungann.

Orðborgarar

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Það er al­veg ljóst að það er tjón.“

Fyrirsögn á mbl.is.                                      

Athugasemd: Fer ekki betur á því að segja að það hafi orðið tjón? „Nútíðarvæðing“ ummæla er dálítið andkringisleg (vissara fyrir lesendur að fletta þessu orði upp í orðabók).

TillagaLjóst að það varð tjón.

2.

„Veitur sendu frá sér ákall til notenda heitavatns í upphafi mánaðar og fóru þess á leit að þeir færu sparlega með vatnið vegna þess að yfirvofandi væri kuldakast.“

Leiðari Morgunblaðsins 17. desember 2020.                                     

Athugasemd: Ákall þýðir bæn eða ávarp. Í sjálfu sér getur hið seinna passað í þessu tilviki. Þó er hér ein draugur sem þarf að glíma við og það er orðlagið „að kalla eftir“ einhverju sem er bein þýðing úr ensku; „to call for“.

Óvönduðum blaðamönnum fannst enska orðalagið svo ákaflega líkt því íslenska að þeir tóku það umhugsunarlaust upp. Og nú hefur það breiðst út í alla fjölmiðla og enginn segir neitt.

Sagt er að menn „kalli eftir“ einhverju og síðan sé það nefnt „ákall“.

Jæja. Hvað merkir svo orðalagið „að kalla eftir“. Í sannleika sagt er þetta afar máttlaust og óskýrt orðalag. 

Í sögunni um Bakkabræður segir:

„Gísli-Eiríkur-Helgi, faðir vor kallar kútinn …“ 

Vera má að blaðamenn telji að pabbinn hafi „kallað eftir“ kútnum sem er rétt. En ekki að það hafi verið „ákall“. 

Alsendis óljóst er hvað Veitur hafi átt við með „ákalli“. Miklu nær er að segja að fyrirtækið hafi óskað eftir því að notendur færu sparlega með heita vatnið eða krefðist þess.

Hvað merkir til dæmis eftirfarandi (fundið með gúggli):

  • Kalla eftir ábyrgð stjórnvalda [krefjast?]
  • Kalla eftir upplýsingum [óska eftir, heimta, biðja um?]
  • Kalla eftir samræmi í stuðningi við fjölskyldur [krefjast, óska eftir?]
  • Kalla eftir afsögn ráðherra [krefjast, óska eftir?]
  • Kalla eftir íbúafundi [óska eftir, biðja um, heimta?].
  • Kalla eftir umsóknum um styrki [hvetja til að sækja um styrk?].
  • Kalla eftir greinum í tímarit [óska eftir, biðja um?]
  • Kalla eftir meiri samvinnu sveitarfélaga og ríkis [óska eftir, heimta, krefjast?]

Allt er þetta afar óljóst. Drottinn minn dýri, ekkert af þessu er ákall (skildist þetta?). Svo má ef til vill velta því fyrir sér hvort baráttan gegn „kalla eftir“ og „ákall“ sé ekki löngu töpuð.

TillagaEngin tillaga.

3.

„Go crazy, fimmtudags-mánudags.“

Auglýsing verslunarinnar Ilva á baksíðu Morgunblaðsins 17.12.20.                                

Athugasemd: Held að stjórnendur verslunarinnar hafi misst vitið (á ensku „gone crazy“). Hvers vegna er aðalfyrirsögnin á ensku en að öðru leiti á íslensku? Geta forráðamenn verslunarinnar ekki haldið sig við annað hvort tungumálið?

Tillaga: Engin tillaga

4.

„Þá hrópaði Rósa og reyndi ít­rekuð framíköll meðan Áslaug gerði til­raun til að svara fyr­ir­spurn henn­ar.“

Frétt á mbl.is.                                      

Athugasemd: Fréttin virðist fljótfærnislega skrifuð. Í niðurlagi fréttarinnar er ofangreind málsgrein endurtekin að hluta, sama orðaval. Blaðamaðurinn hefði átt að lesa fréttina yfir fyrir birtingu.

Hvað á blaðamaðurinn við með þessu orðalagi að hrópa og reyna frammíköll? Þegar Rósa hrópaði var hún ekki kalla fram í fyrir ræðumanni? 

Eitt af uppáhaldsorðum blaðamanna er „ítrekað“, kemur oft, margoft, margsinnis, tíðum fyrir í fréttum fjölmiðla og er ekki til eftirbreytni,

Tillaga: Þá hrópaði Rósa og kallaði margoft fram í fyrir Áslaugu meðan hún reyndi að svara fyr­ir­spurninni. 

5.

„„Reynslu­mikl­ir“ og „þol­in­móðir“ á Hafn­ar­torgi“

Fyrirsögn á mbl.is.                                      

Athugasemd: Sá sem er „reynslumikill“ er reyndur. Það dugar ágætlega og óþarfi að bæta við það „mikill“. Hins vegar eru margir þannig að þeir búa að mikilli reynslu. Þeir eru engu að síður reyndir.

Í fréttinni er fjallað um húsnæði við Hafnartorg sem viðmælendur í Morgunblaðinu þann 17.12.20 gagnrýndu vegna lélegrar hönnunar og vegna þess að það magnar svo upp vind að fólki finnst slæmt að vera á torginu.  

Í fyrirsögninni eru tvö orð í gæsalöppum sem táknar að þau sé höfð eftir öðrum, það er eigendum húsnæðisins sem svara gagnrýninni að hluta.

Blaðamaður mbl.is. leggur þeim orð í munn. Hvergi í yfirlýsingunni kemur fyrir orðið „reynslumikill“. Að vísu stendur þessi illa samda setning í henni:

Við erum þol­in­móður aðili með mikla reynslu af fast­eign­arþróun í miðbæn­um …

Hvernig er hægt að búa til svona setningu með bæði eintölu og fleirtölu í senn. „Við erum …“ og svo kemur „þolinmóður aðili“ … Þetta minnir á hátignir í útlandinu. Einhver kóngurinn í Frakklandi gæti hafa sagt þetta:

Nous sommes la France …

Og þá væri réttari að segja:

Vér Regin erum Hafnartorg.

Reyndar er Regin goðaheiti og þessi tilbúnu ummæli eru bara nokkuð lík. Málið er hins vegar þetta: Ekki leggja viðmælendum orð í munn nema til að lagfæra og leiðrétta. 

Og svo er það orðið „aðili“. Tek það fram og undirstrika að ég er ekki aðili.

Tillaga: Reyndir og þolinmóðir á Hafnartorgi.

6.

„Síðasta bingó K100 og mbl.is fyrir jól fór fram í gærkvöldi.“

Frétt á blaðsíðu 11 í Morgunblaðinun 18.12.20.                                    

Athugasemd: Fer ekki betur á því að segja að bingóið hafi verið í gærkvöldi?

Tillaga: Síðasta bingó K100 og mbl.is fyrir jól var í gærkvöldi.


Hugga sig heima, búbbla og frelsissviptur

Orðlof

Að vera

Samkvæmt „Íslenskri orðtíðnibók“ (1991) er sögnin vera algengasta sagnorð í íslensku og jafnframt eitt af þremur algengustu orðum málsins ásamt samtengingunum og og að. 

Í textasafni með rúmlega hálfri milljón lesmálsorða kom vera rúmlega 21.000 sinnum fyrir í einhverri mynd. 

Öll algengustu orð málsins eru svokölluð kerfisorð, þar á meðal hjálparsagnir eins og vera, verða og hafa. 

Af öðrum sögnum er koma algengust en hún er í 22. sæti yfir algengustu íslensk orð og kemur miklu sjaldnar fyrir en vera. 

Tiltölulega margar sagnir eru meðal hundrað algengustu orða málsins og auk þeirra sem þegar eru nefndar eru algengustu sagnirnar þessar: segja, fara, geta, taka, eiga, gera, sjá, halda, finna, fá, vita, standa, ganga, láta, vilja, leggja, mega og reyna.

Orðaborgarar. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Huggum okkur heima“

Auglýsing í Ríkisútvarpinu 13.12.20, klukkan 12:40.                                     

Athugasemd: Held að það hafi verið nærbrókarsali sem orðaði þetta svo í auglýsingu sinni í Ríkisútvarpinu. Hugsanlega hefur hann fengið orðið úr norsku eða dönsku. Í báðum málunum er talað um að „hygge sig“. Þegar ég nam í Noregi var stundum sagt:

Vi skal hygge oss í kveld.

Þá var ætlunin að hafa það náðugt með rauðvínslögg, góðri bók og eldi í arni.

Á íslensku er vissulega til sögnin að hugga en hún merkir að hughreysta, sefa og álíka. 

Í stað þess að „hugga okkur“ getum við haft það náðugt, njóta einhvers, slaka á, slappa af og svo framvegis.

Ég mæli ekkert með lýsingarorðinu „kósí“, finnst að afar aumt. Fjöldi íslenskra orða eru betri.

Tillaga: Höfum það náðugt heima.

2.

„Búbbla.“

Notað í tengslum við fjöldatakamarkanir í faraldrinum.                                  

Athugasemd: Búbbla er ómögulegt orð. Það er einfaldlega enska orðið „bubble“ og snarað yfir í íslenskan framburð. Þannig skemmri skírn gengur varla.

Í faraldrinum er „búbbla“ ætlað að vera einhvers konar takmörkun á fjölda þeirra sem mega koma saman í einum hóp. Sumir tala um kúlu í sömu merkingu.

Um leið og þeir sem nota „búbbla“ og „kúla“ hafa sleppt orðinu er næst á vörum orðið hópur, hópamyndun, hópatakmarkanir og svo framvegis. Af hverju er ekki haldið áfram með þetta og talað um „búbblumyndun“ og „búbblutakmarkanir“ eða „kúlumyndun“, „kúlutakmarkanir“?

Staðreyndin er einfaldlega sú að ekkert annað orð kemur í stað nafnorðsins hópur. Tíu manna hópur er miklu betra orðalag en „tíu manna búbbla“ eða „tíu manna kúla“.

Satt að segja er alveg furðulegt að fjölmiðlar hafi grafið upp „búbbla“ eða „kúla“ í tengslum við faraldurinn. Líklega er þetta komið úr ensku en sú tunga er ágæt ein og sér, íslenskan dugar okkur hérna.

Ég hef enga trú á að „búbbla“ nái fótfestu í íslensku en tel samt vissara að grafa orðið og kasta á það rekunum.

Tillaga: Hópur.

3.

Aus fúkyrðum yfir þjálfarann til að komast burt …“

Fyrirsögn á dv.is.                                  

Athugasemd: Sögnin að ausa er í eintölu nútíðar:

ég eys, þú eyst, hann eys.

Í þátíð: 

ég jós, þú jóst, hann jós

Orðið er því ansi óreglulegt og vissara að leggja beyginguna á minnið.

Tillaga: Jós fúkyrðum yfir þjálfarann til að komast burt …

4.

Plastefni brotnuðu niður í leiðslum í ofn­in­um þegar of heitt vatn rann um þær. Plastefn­in runnu síðan óhindruð með vatn­inu inn í kjarna­ofn­inn með þeim af­leiðing­um að plastefn­in urðu geisla­virk.“

Frétt á mbl.is.                                   

Athugasemd: Nástaða kallast það þegar sama orðið kemur óþarflega oft fyrir í texta. Vanur skrifari hefði aðeins notað orðið plastefni einu sinni.

Fréttin byrjar á þessum orðum:

Sjálf­virk slökkvun átti sér stað í kjarna­ofni 2 í Olkiluoto kjarnorku­ver­inu á vest­ur­strönd Finn­lands, þann 10. des­em­ber síðastliðinn.

Nafnorðið „slökkvun“ er nokkuð oft notað í fréttum. Það finn ég ekki í orðabókunum mínum. 

Margir skrifarar, ekki bara blaðamenn, vilja endilega notað nafnorð eins og gert er í ensku og telja að skrifin verði skýrari fyrir vikið. Sjaldnast er það svo. Í fréttinni hefði verið hægt að umorða málsgreinina og sleppa nafnorðinu. Til dæmis svona:

Öryggiskerfi slökktu sjálfkrafa á kjarnaofni tvö Olkiluoto kjarnorku­ver­inu á vest­ur­strönd Finn­lands, þann 10. des­em­ber síðastliðinn.

Vandinn er að lesandinn veit ekki hvað var slökkt í kjarnorkuverinu. Var eldur slökktur eða var slökkt á framleiðslunni? 

Í fréttinni segir:

Þetta þykir minni­hátt­ar­at­vik

Held að íslenskukennarinn minn í MR hefði af miskunnsemi sinni gefið aðeins eina villu fyrir þetta í stað tveggja eða þriggja. Samkvæmt reglunum á að skrifa þetta svona: Minni háttar atvik.

Svo er það þetta með nafnorðið atvik sem tröllríður öllum fréttum í fjölmiðlum. Þegar óhapp, slys eða handvömm verður á Landspítalanum heitir það atvik. Í kjarnorkuveri kallast óhappið atvik. Líklega var það atvik þegar kjarnaofninn í Tsjernóbýl sprakk í loft upp árið 1982 og geislavirknin barst til norðurhluta Evrópu. Hins vegar geta atvik verði spaugileg. Þegar ég datt á rassinn á ísnum á Elliðavatni fannst öllum atvikið hlægilegt og skelltu upp úr.

Í fréttinni er þetta haft eftir viðmælanda:

Full­trú­inn sem hafði stýrt sam­skipt­um Finna á meðan æf­ing­unni stóð gleymdi að breyta und­ir­skrift sinni á til­kynn­ing­ar frá þeim eft­ir æf­ing­una, þannig að þegar hann svo til­kynnti um al­vöru at­vikið þá þurfti hann að árétta efti­rá að hann hafi vissu­lega gleymt að breyta und­ir­skrift sinni sem stjóri æf­ing­ar­inn­ar, því það var jú eng­in æf­ing leng­ur í gangi.

Ég skil ekki þessa löngu málsgrein.

Nauðsynlegur eiginleiki blaðamanns er að geta sagt sögu. Frétt er ekkert annað en saga sem sett er upp á ákveðinn hátt. Orð sem kastað er fram í belg og biðu hjálpa ekki lesendum. 

Tillaga: Plastefni brotnuðu niður í leiðslum í ofn­in­um þegar of heitt vatn rann um þær. Þau runnu síðan með vatn­inu inn í kjarnaofn­inn og urðu þar geisla­virk.

5.

„Langvarandi Covid-19 mögulega ónæmiskerfið að ráðast á líkamann.“

Fyrirsögn á visir.is.                                  

Athugasemd: Hvað merkir þessi setning? Með því að lesa fréttina má hugsanlega skilja hana á þann veg að ónæmiskerfi líkamans geti brenglast eftir að hafa sýkst af Covid-19. Það trufli síðan eðlilega starfsemi hans lengi eftir að sjúklingurinn hafi náð sér.

Orðunum virðist raðað upp af handahófi en samt getur lesandinn áttað sig á því sem þarna segir.

Tökum dæmi. Skilur einhver þetta: „Hstamnmót“. Eflaust átta flestir sig á því að orðið hestamannamót er þarna rangt skrifað. Hér er annað frumsamið dæmi:

Bíl í Flatey að aka hestamannamóti á þrjá hesta.

Lesandinn getur ráðið í það sem þarna er skrifað. Engu að síður er setningin langt frá því að vera rétt.

Líklegast er að blaðamaðurinn á Vísi hafi ekki lesið fréttina yfir og ekki heldur samstarfsmenn hans og síst af öllu fréttastjórinn því hún stendur óbreytt þegar þetta er skrifað. Sannast nú hér sem áður hefur verið sagt að fréttirnar skipta minna mál, auglýsingarnar eru aðalatriði.

Lesendur fréttarinnar gera athugasemdir við ofangreinda frétt á Vísi og þeirra á meðal er Kristinn Sigurjónsson sem skrifar:

Það er nokkuð sérstakt í upphafi greinarinna að segja „talið hrjá um 10% einstaklinga á aldrinum 18 til 49 ára og einn af fimm 70 ára og eldri.“ 

Á einfaldri íslensku er þetta 10% einstaklinga á aldrinu 18 til 49 ára og 20% sem eru 70 ára og eldri.

Samhengið í fréttinni er að þessu leyti alls ekki gott. Varla við öðru að búast þegar fólk er látið skrifa um það sem það þekkir ekki.

Gera má athugasemdir við fjölmargt annað í fréttinni.

Tillaga: Enginn tillaga.

6.

Frelsis­sviptur, laminn og rændur.“

Fyrirsögn á frettabladid.is.                                   

Athugasemd: Fyrst á annað borð er verið að nota orðskrípið „frelsissviptur er ekkert samræmi í fyrirsögninni. Hún ætti að vera svona:

Frelsissviptur, lemsturgefinn og verðmætasviptur

Löggumálið er hrikalega skrýtið. Ístöðulitlir blaðamenn sem eru að feta sín fyrstu spor í skrifum bera óttablanda virðingu fyrir bullinu úr löggunni. Halda að hún tali „gullaldarmál. Og löggan finnur svo mikið til sín að hún keppist við að fullkomna stofnanamál sitt en af miklum vanefnum.

Hér eru dæmi um orðalag löggunnar: 

    • Frelsissviptur. Sviptur frelsi sínu.
    • Framkvæma húsleit. Leita í húsi. 
    • Haldleggja. Tak eða leggja hald á.
    • Tryggja ástandið. Hafa stjórn á aðstæðum
    • Með mann í tökum. Maður er handtekinn, í járnum.
    • Árásaraðili. Sá sem beitir ofbeldi, ofbeldismaður.
    • Árásarþoli. Fórnarlambið, sá sem er ráðist á.
    • Vista í fangageymslu fyrir rannsókn máls. Settur í fangelsi meðan verið er að rannsaka málið.
    • Fangageymsla. Fangelsi. 
    • Í annarlegu ástandi. Undir áhrifum áfengis, lyfja eða fíkniefna.
    • Nytjastuldur. Rán. 
    • Afstunga. Sá sem veldur árekstri eða slysi flýr af staðnum.
    • Klessa bíl. Bíll skemmist vegna áreksturs

Sumt af þessu er í lagi, annað tóm vitleysa. Öll orðin eiga það sameiginlegt að vera ofnotuð af löggunni og „löggufréttablaðamönnum“. 

Tillaga: Engin tillaga.


Handtökuskipun gagnvart, snjóflóð ferðast og atlaga að stofnun

Orðlof

Lögum stjórnað

„Ráðherra fer með yfirstjórn laga þessara.”

Hvað merkir þetta eiginlega? Alþingi setur lög sem forseti staðfestir. Lögregla sér um að farið sé að eða eftir lögum og dómarar skera úr ágreiningi sem upp kann að koma. 

Aldrei hef ég heyrt talað um yfirstjórn laga enda finnst mér orðasambandið nánast merkingarlaus klisja. Lögum er ekki stjórnað, þau eru sett og þeim er fylgt eða eftir þeim farið.

Svipuðu máli gegnir reyndar einnig um orðasambandið annast framkvæmd laga (4. gr.). 

[Lög um útlendinga, nr. 80 16. júní 2016]

Málfarsbankinn. Jón G. Friðjónsson.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Búið er að gefa út handtökuskipun gagnvart tveimur starfsmönnum Samherja í Namibíu …“

Frétt á visir.is.                                      

Athugasemd: Draga má í efa að forsetningin gagnvart sé hér rétt notuð. Þegar nafnorðið handtökuskipun er notað klúðrast eitthvað og setningin aflagast. Þetta má orða á annan hátt, til dæmis:

Gefin hefur verið út skipun um að handtaka tvo starfsmenn Samherja í Namibíu …

Hér skilst málsgreinin ákaflega vel og enginn hnýtur um ’gagnvart’. Aftur á móti er orðið handtökuskipun lögfræðilegt hugtak og verður varla leyst upp eins og ég hef gert. Hvað er þá til ráða? Jú, einfaldlega að skipta um forsetningu.

Jón G. Friðjónsson segir í fróðlegum pistli í Málfarsbankanum:

Forsetningin gagnvert er upphaflega hk.-mynd af lo. gagnverður. Hún er algeng í fornu máli, t.d.:

    • sátu þeir [Egill og Yngvar] gagnvert þeim Skalla-Grími og Þórólfi (Egils saga 31.k);
    • bað hann sitja gagnvert sér í öndvegi (Egils saga, 44.k.);
    • En er Glúmur kom gagnvert búð þeirri er Einar átti (Víga-Glúms saga 27.k.);
    • en Björn sat gagnvert Sæmundi á annan bekk í öndvegi (Sturl I, 280).

Pistill Jón er lengri og hér er hægt að lesa hann allan.

Tillaga: Búið er að gefa út handtökuskipun á tvo starfsmenn Samherja í Namibíu …

2.

„Ef ykk­ur þótti Ev­erest-fjall ekki nægi­lega hátt fyr­ir þá hafa stjórn­völd í Kína og Nepal loks­ins kom­ist að sam­komu­lagi um ná­kvæma hæð fjallins, eft­ir ára­lang­ar deil­ur, enda ligg­ur fjallið á landa­mær­um ríkj­anna.“

Frétt á mbl.is.                                       

Athugasemd: Hvern er blaðamaðurinn að ávarpa? Hvað á hann við með „nægilega hátt“? Þetta er furðuleg byrjun á frétt. Samhengið í málsgreininni er afar óskýrt. Fjall kemur þrisvar fyrir í málsgreininni. Einu sinn er það rangt ritað.

Hver í ósköpunum gæti haft skoðun á því að Everest sé of hátt eða of lágt?

Margt er bullað: „Liggur fjallið“ á landamærum Kína og Nepal eða er það á landamærunum?

Í fréttinni segir:

Jú, fjallið er nú heil­um 86 cm hærra en það hef­ur verið mælt op­in­ber­lega hingað til í Nepal, og rúm­um fjór­um metr­um en Kín­verj­ar hafa hingað til viljað viður­kenna.

Skilur einhver þessa málsgrein? Líklega vantar eitthvað í hana og því stendur „rúmum fjórum metrum“ skýringarlaust. 

Í fréttinni segir:

Þegar fjallagarp­ur­inn Ed­mund Hillary sigraði topp­inn með sjerp­an­um Tenz­ing Norgay í maí ári 1953 …

Í hverju kepptu Hillary og toppurinn? Keppnin hefur alveg farið framhjá okkur fjallamönnum.

Hér eru fleiri dæmi:

  • … þá var hæðinni breytt í 8.848 metra sam­kvæmt ind­versk­um mæl­ing­um. Sú tala hef­ur haldið sig þar til nú. 
  • Síðan þá hafa Kín­verj­ar fram­kvæmt nokkr­ar mæl­ing­ar
  • … og árið 2005 héldu þeir fram að rétt hæð væri 8.844,43 metr­ar.
  • Það leiddi til deilna við Nepala sem leyst­ist ekki …

Líklega er ekki við blaðamanninn að sakast heldur yfirmenn hans og jafnvel ritstjórnina alla. Fær nær óskrifandi nýliði enga tilsögn á Mogganum? 

Þess ber að geta að á blaðsíðu 11 í Morgunblaðinu 9.12.20 er stutt frétt um örplast á Everest og mælingar á hæð fjallsins. Hún er nær gallalaus.   

Tillaga: Engin tillaga.

3.

„Ferðafélagið skipuleggur margvísleg fjallaverkefni.“

Myndatexti á blaðsíðu 6 í Morgunblaðinu 9.12.20.                                     

Athugasemd: Hvað eru „fjallaverkefni“? Orðið er ekki þekkt nema hjá Ferðafélagi Íslands.

Hvað er betra við orðið „fjallaverkefni“ en til dæmis fjallaferðir? Ekkert. Helst má hugsa sér að orðið sé búið til að fólki sem ekki hefur stundað fjallaferðir að neinu ráði.

Tillaga: Engin tillaga.

4.

„Fremsti hluti snjóflóðsins, eðlisléttur iðukastafaldurinn, ferðaðist á 45-60 m/s (162-216 km/klst.) hraða.“

Frétt á blaðsíðu 10 í Morgunblaðinu 9.12.20.                                      

Athugasemd: Í fréttinni er fjallað um snjóflóð sem féll á Flateyri 14. janúar 2020 og skýrslu Veðurstofunnar um það. Í fréttinni er sagt að flóðið hafi „ferðast“ á miklum hraða.

Sögnin að ferðast er oftast notuð um ferðir fólks, ekki dauða hluti eins og hér er gert. 

Ég varð mér út um skýrslu Veðurstofunnar. Í henni segir margoft að snjóflóð „ferðist“ og talað um „ferðatíma“ þess. Í staðinn hefði verið hægt að tala um hraða snjóflóðsins, leið þess eða umorða á annan hátt.

Til gamans má geta þess að í skýrslunni segir að skýrsluhöfundar hafi farið í vettvangsferðir, þeir hafi farið „margar ferðir til Flateyrar“ og loks segir í skýrslunni að skemmdir hafi orðið á eignum ferðaskrifstofufyrirtækis á Flateyri. Fleiri ferðast en snjóflóð. Verður næst sagt að snjóflóð „leggi land undir fót“?

Hér áður fyrr var sagt að snjóflóð falli. Er málið eitthvað bættara ef snjóflóð „ferðast“? 

Tillaga: Fremsti hluti snjóflóðsins, eðlisléttur iðukastafaldurinn, var á 45-60 m/s (162-216 km/klst.) hraða.

5.

atlaga að stofnun Blæs.

Fyrirsögn á blaðsíðu 34 í Morgunblaðinu 10.12.20.                                     

Athugasemd: Samkvæmt orðabókinni merkir atlagaráðast á einhvern, gera árás, leggja til atlögu og svo framvegis. Orðið er til ófriðar en alls ekki gælur.

Þegar fréttin er lesin kemur í ljós að tilgangurinn er þveröfugur við það sem fyrirsögnin segir. Síst af öllu er ætlunin að gera út af við Blæ eða skaða fyrirtækið.

Samkvæmt fréttinni á að afla fjár til að stofna Blæ og reka, það er byggja íbúðir og leigja. Þetta kalla blaðmaðurinn „atlögu“.

Tillaga: Ný tilraun gerði til að stofna Blæ.

6.

„Það hefur sem betur fer ekki orðið banaslys enn þá hér á landi eins og erlendis af þeirri ástæðu að skinnari hefur fengið spilvírinn sem troðarinn hangir í sig og banað viðkomandi.“

Tilkynning frá starfsfólki skíðsvæða.                                    

Athugasemd: Hvað er „skinnari“? Ég hef aldrei heyrt þetta orð áður. Varla vita margir svarið, en þar sem ég hef lengi notað ýmis konar skíði giska ég á að „skinnari“ sé sá sem lætur skinn undir gönguskíði eða fjallaskíði til að auðvelda göngu á fjöll.

Þetta er slæmt orð en látum það nú vera. Tilvitnunin hér að ofan er óskiljanleg. 

Sama er með allt annað í tilkynningunni. Svo virðist hún sé frá starfsfólk enda stendur undir „Starfsfólk Skíðasvæðanna“. Samt er hún skrifuð í 1. persónu eintölu: „Ég verð að biðja ykkur …“ og svo framvegis.

Í tilkynningunni segir:

Göngubrautir verða líka opnar, en öll hús lokuð og verður einstefna í brautinni. 

Þetta er hrærigrautur. Hvað koma hús göngubrautum við?

Fleiri villur og vitleysur mætti nefna í tiltölulega stuttri tilkynningu. Þessu til viðbótar er öll vefsíða skíðasvæðanna illa skrifuð og veitt ekki af því að prófarkalesa hana og laga.

Tillaga: engin tillaga.

7.

„Þurfum að vera undirbúin fyrir að bíða eftir bóluefninu.“

Fyrirsögn á ruv.is.                                    

Athugasemd: Þetta er klúðursleg fyrirsögn, illa orðuð. Í Málfarsbankanum segir:

Rétt er að segja að undirbúa sig undir eitthvað. Hann undirbjó sig undir prófið. 

Líka er hægt að tala einfaldlega um að búa sig undir eitthvað.

Skrifarar verða að hafa tilfinningu fyrir málinu. Hún kemur ekki nema með miklum lestri bóka, helst frá barnæsku.  

Tillaga: Verðum að vera undir það búin að þurfa að bíða eftir bóluefninu.


Sátt við aðgerðir, gríma sem er vatnshellt og framkvæma aðgerð

Orðlof

Ákvæðisorð

Á undanförnum árum hef ég iðulega rekist á setningar eins og „Gætu verið ár í að klöppin hrynji“, „Æðislegt rjómapasta á mínútum“ og ýmsar fleiri í svipuðum dúr. 

Þarna eru orð sem vísa til tíma, ár og mínútur, notuð án nokkurs ákvæðisorðs. Það er ekki í samræmi við mína málkennd – ég get bara notað orðin svona í eintölu, ekki fleirtölu. 

Þegar um er að ræða orð í fleirtölu sem tákna tíma þarf yfirleitt að fylgja þeim eitthvert ákvæðisorð – töluorð, lýsingarorð eða óákveðið fornafn – í setningum af þessu tagi. Þetta er hins vegar eðlileg setningagerð í ensku.

Eiríkur Rögnvaldsson, sjá ítarlegar á vefsíðu hans.

Ákvæðisorð: Orð sem stendur með öðru orði og kveður nánar á um einkenni þess sem það á við eða segir nánar til um við hvað er átt. Málfarsbankinn.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Doktor Helga Kristjánsdóttir hefur hlotið framgang til prófessorsstöðu …

Frétt á blaðsíðu 16 í Morgunblaðinu 5.12.20.                                    

Athugasemd: Hlaut konan prófessorsstöðuna eða ekki? Þetta með framgang skilst illa. Líklega eru þeir sem annast ráðninguna enn að bræða það með sér hvort hún fái starfið.

Í orðabókinni minni segir um orðið framgangur:

Framkvæmd, það að koma e-u fram; framganga.

Tilvitnunin í fréttina verður ekki skýrari með þessu, þvert á móti. Þá verður það fyrir manni að gúggla orðasambandið og þá kemur í ljós að það er nokkuð algengt í þessari merkingu. Af þessu leiðir að leikmaðurinn getur varla fullyrt að það sé rangt notað.

Í skrá um orðasambönd eru gefin tíu dæmi:

    1. (ekki framgang
    2. <málinu> framgang
    3. framgangur jöklanna 
    4. hafa framgang (með <bókina>)
    5. <málið, breytingartillagan, gjaforðið> fær (ekki) framgang
    6. <málið> hefur (<engan>) framgang
    7. <málið> hefur/hafði hindrunarlausan framgang
    8. vera fljótstígur í framgangi
    9. vera luralegur í framgangi
    10. vera þóttalegur í framgangi

Ekkert af þessum hjálpar fáfróðum lesanda að í fréttina. 

Loks má geta þess að framgangur er nafnorð. Miklu betur fer á því að nota einfaldara orðalag með sagnorði, það er að segja hafi konan verið skipuð sem prófessor.

Tillaga: Doktor Helga Kristjánsdóttir hefur verið skipuð í prófessorsstöðu …

2.

„Það sést á könnunum Gallup að það hefur verið mikil sátt við þessar aðgerðir

Frétt ruv.is.                                     

Athugasemd: Fer ekki betur að segja að sátt sé um aðgerðirnar?

Tillaga: Það sést á könnunum Gallup að mikil sátt var um þessar aðgerðirnar

3.

„… [öndunargríma] sem hleypir vel út hita en er samt sem áður vatnshellt.“

Auglýsing á blaðsíðu 9 í Morgunblaðinu 7.12.20.                                     

Athugasemd: Öndunargríma er nafnorð í kvenkyni og því er hún vatnsheld. Orðið vatnsheldur er myndað með nafnorðinu vatn og sögninni að halda, það sem heldur vatni.

Í auglýsingunni er textinn svona óstyttur:

Airpop Active er fjölnota öndunargríma, ytri skelin er úr mjúku örtrefjaefni (micro- fiber) sem hleypir vel út hita en er samt sem áður vatnshellt.

Oft er það svo að starfsmenn fyrirtækis hanna auglýsingu og senda á fjölmiðil sem setur hana upp eins og kallað er. Umbrotsmenn á fjölmiðlum eru yfirleitt mjög vandvirkir og þessi auglýsing er ágætt dæmi um það. Þó hefur gleymst lesa textann yfir. Gera má athugasemdir við ýmislegt annað.

Í auglýsingunni er til dæmis sagt að gríman „sitji vel á andlitinu“. Ekki gott orðalag og sé það gúgglað kemur í ljós að það er allt annars eðlis.

Tillaga: … [öndunargríma] sem hleypir vel út hita en er samt sem áður vatnsheld.

4.

„Þetta er í fyrsta sinn sem Kínverjar ná að framkvæma slíka aðgerð …“

Frétt á blaðsíðu 13 í Morgunblaðinu 7.12.20.                                     

Athugasemd: Orðalagið „framkvæma aðgerð“ er nafnorðahnoð og merkir einfaldlega að gera. Ótrúlegt að reyndur blaðamaður skuli skrifa svona.

Í fréttinni segir:

Þeir stefna þó enn lengra, og má segja að leiðangurinn nú hafi einungis verið áfangastaður í kapphlaupi stórveldanna og fleiri um að senda fyrsta manninn á yfirborð Mars.

Enn er þetta hnoð. „Senda fyrsta manninn“. Átt er við að senda mann eða menn til Mars.

Óhjákvæmilega munu Marsfarar lenda á yfirborðinu, annars staðar verður aldrei lent. Er blaðamaðurinn að þýða enska orðalagið „landing on the surface of March“? Sé svo nægir einfaldlega að orða það þannig að lent verði á Mars.

Í fréttinni segir:

Gangi allt að óskum munu Kínverjar komast í útvalinna hóp þjóða, sem hafa náð að sækja grjót frá tunglinu …

Sá sem er útvalinn hefur verið sérstaklega valinn til ákveðins verks.

Ríki sem hafa sótt grjót til tunglsins eru ekki „útvalinna“ ekki frekar en þeir sem hengja upp mynd heima hjá sér eða aka bíl sínum í vinnuna.

Tillaga: Þetta er í fyrsta sinn sem Kínverjar ná að gera þetta


Sitjandi forseti, samanstendur af og bólusetning gerist hratt

Orðlof

Menn

Það var til tíðinda einn morgun er Höskuldur var genginn út að sjá um bæ sinn. Veður var gott. Skein sól og var lítt á loft komin. 

Hann heyrði mannamál. Hann gekk þangað til sem lækur féll fyrir túnbrekkunni. Sá hann þar tvo menn og kenndi. Var þar Ólafur son hans og móðir hans.

Laxdæla, 13. kafli.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Hún sagði hann hafa dáið í mótorhjóla­slysi en Mannakee dó einmitt í einu slíku árið 1987.“

Frétt á mbl.is.                                    

Athugasemd: Hvað er hægt að segja um svona stílleysi? „Einmitt í einu slíku.“ Varla er hægt að gera grín að þessu.

Mikilvægur hæfileiki blaðamanns er að kunna að skrifa og segja frá. Þetta tvennt fylgist ekki alltaf að.

Tillaga: Engin tillaga.

2.

Fráfarandi forseti hefur gert allt sitt …“

Leiðari Fréttablaðsins 28.11.20.                                    

Athugasemd: Mikið var ánægjulegt að leiðarahöfundurinn skyldi ekki kalla forseta Banaríkjanna „sitjandi forseta“, miklu betra að hann sé fráfarandi eða bara forseti.

Þetta hugsaði ég og hélt áfram að lesa leiðarann. En, úbbs … Í næstu línu féll höfundurinn í pyttinn:

Þetta er léttvæg gagnrýni frá sitjandi forseta …

Aðeins einn getur verið forseti Bandaríkjanna. Sá sem hefur verið kjörinn er verðandi forseti og er svo þangað til hann tekur formlega við völdum. Hinn er „bara“ forseti eða þá fráfarandi forseti. Þegar sá síðarnefndi hættir er hann fyrrverandi forseti.

Enska orðalagi „sitting president“ á ekki erindi í íslensku.

Tillaga: Engin tillaga.

3.

„Í nýjustu fréttum í Argentínu kemur fram að Maradona hafi skollið harkalega á haus sinn viku eftir aðgerðina …“

Frétt á dv.is.                                    

Athugasemd: Ja, hérna. Allt getur nú gerst. Án þess að saka blaðamanninn um rugl er nánast útilokað að nokkur maður geti „skollið á haus sinn“. Enginn, hversu klaufskur sem maður er, getur skollið á höfuð sitt.

Þó getur verið að blaðamaðurinn hafi ætlað að segja að Maradonna hafi dottið á höfuðið. En auðvitað er það of flókið orðalag og illskiljanlegt til að hægt sé að nota í virðulegum fjölmiðli. Á ensku getur verið að orðalagið sé á annan veg en það kemur okkur hérna á Íslandi ekki við. 

TillagaÍ nýjustu fréttum í Argentínu kemur fram að Maradona hafi skollið harkalega á hausinn viku eftir aðgerðina …

4.

„Hópurinn sem Biden hefur kynnt til leiks fram að þessu samanstendur af reyndu fólki sem …“

Fréttaskýring á blaðsíðu 10 í viðskiptablaði Morgunblaðsins 2.12.20.                                   

Athugasemd: Oftast er óþarfi að nota sögnina að samanstanda og þá ekki síst hér. Eiginlega man ég ekki eftir neinu dæmi um að sagnorðið henti í frásögn.

Oftast nægir að nota að vera eins og gert er í tillögunni.

Kynna til leiks er ágætt orðalag en því miður ofnotað. Þar að auki eru svona klisjur óþarfar.

Tillaga: Í hópnum sem Biden hefur kynnt er reynt fólk sem …

5.

„Bólu­setn­ing gæti gerst mjög hratt.“

Fyrirsögn á mbl.is.                                  

Athugasemd: Gerist bólusetning eða er hún gerð? Ég velti þessu orðalagi fyrir mér og veit eiginlega ekki hvað skal halda. 

Hitt veit ég að viðgerðin á bílnum „gerist“ hvorki hratt eða hægt. Vera kann að bifvélavirkinn geri hratt við bílinn. Meira að segja vont veður „gerist“  ekki hratt, það getur hins vegar versnað hratt.

Hér færi eflaust betur á því að segja að fljótlegt væri að bólusetja eða hægt sé að bólusetja hratt.

Þegar ég er í vafa um orðalag reyni ég að umorða. Þó skal áréttað að stundum skrifar maður hugsunarlaust bölvaða vitleysu sem aðrir eru vísir með að leiðrétta.

Tillaga: Fljótlegt gæti verið að bólusetja þjóðina.


Kirkjan tapað jólunum og til urðu glysjól

Setjum sem svo að hvergi í auglýsingum í fjölmiðlum væri minnst á jól, jólagjafir eða jólasveina og álíka. Allt verði eins og fyrri hluta ársins. Hvernig yrðu þá jólin?

Ég hef að undanförnu verið að velta þessu fyrir mér og þá sérstaklega hversu „mikilvægar“ auglýsingar verslana eru í upplifun fólks vegna jólanna.

Samkvæmt skoðanakönnunum segjast 60% landsmanna játa kristna trú en aðeins 40% telja sig vera trúaða (sjá frettabladid.is). Í þessu felst nokkur þversögn en látum það vera. Líklega heldur um 90% þjóðarinnar upp á jólin. Hvers vegna? 

Af skoðanakönnunum og miklu fleiru má draga þá ályktun að jólin séu stórum hluta orðin trúarlaus hátíð. Allir, trúað fólk og trúlaust, lætur berast með straumnum. Þoka jólaauglýsinga umlykur allt samfélagið og fæstir hafa neinar áhyggir því allir leika með og engum leiðist. Þetta er allt svo skemmtilegt og fallegt. Tilhlökkunin er hins vegar endalaus, allt frá því að jólabörnin setja upp jólaljósin á hús sín og tré í september og þangað til jólin byrja.

Hvað yrði nú um jólin ef jólaauglýsingarnar myndu leggjast af? Yrðu þær eins og hver annar frídagur? Mér finnst það líklegt enda eru fjölmörg dæmi sem líta má til samanburðar.

Margt snýst upp í andstæður sínar vegna þess að óskyldir aðilar hafa gert yfirtökuboð í hátíðarhöldin og eignast stóran hluta í þeim. Án þeirra sem auglýsa af krafti verður ekkert úr hátíðarhöldum. Samfélagið byggist á því að fjölmiðlar með auglýsingum mati okkur.

Enginn vill eignast fullveldisdaginn og hann er því flestum gleymdur. Ekkert fjör, ekkert glys, ekkert gaman. Bara þrír krakkar úr Háskóla Íslands sem leggja krans á leiði einhvers kalls sem er löngu dáinn.

Allt annað er með sumardaginn fyrsta, sautjánda júní og verslunarmannahelgina. Í svoleiðis frídögum borgar sig að fjárfesta. Þeir eru sexí. Samt vita nú fæstir neitt um sumardaginn fyrsta hvernig stendur á að þessi dagur var og er merkisdagur. „Það er ekki einu sinni komið sumar í lok apríl,“ dæsa margir og aðrir hlægja.

Sautjándi júní er aðeins skemmtilegur falli hann öðru hvoru megin við helgi. Annars er hann til óþæginda. Verslunarmannahelgin er almennileg enda er frí á mánudegi. Öll helgin er í eigu fjárfesta, kaupahéðna, en verslunarmenn eru löngu gleymdir og þræla þegjandi á eigin frídegi. Ónefndir eru svo tilbúnu „hátíðarnar“, mesta ferðahelgin í júlí, bæjarhátíðarnar og allt hitt.

Svona gerast nú kaupin á eyrinni. Allir eru undir áhrifavaldi auglýsinga og fjölmiðlarnir eru erindrekar þeirra. Kirkjan missti jólin og raunar líka páskana. Hún glutraði úr höndum sér öðrum dögum sem forðum voru kenndir við atburði eða dýrlinga vegna þess að þessir dagar eru ekkert sexí eða fjölmiðlavænir. Þrátt fyrir nafnið er Þorláksmessa fjarri því að vera trúarlegs eðlis og kirkjan á ekkert í henni.

Ekki veit ég hvað langt er síðan trúin í lífi mínu tók að dofna og er nú minningin ein eftir. Ég bý þó að því að hafa lært ýmislegt gagnlegt í KFUM í gamla daga og man enn eftir Jesús í musterinu en frá því segir í Biblíunni:

Nú fóru páskar Gyðinga í hönd og Jesús hélt upp til Jerúsalem. Þar sá hann í helgidóminum þá er seldu naut, sauði og dúfur og víxlarana sem sátu þar.

Þá gerði hann sér svipu úr köðlum og rak alla út úr helgidóminum, líka sauðina og nautin. Hann steypti niður peningum víxlaranna og hratt um borðum þeirra og við dúfnasalana sagði hann:

„Burt með þetta héðan. Gerið ekki hús föður míns að sölubúð.“

Já, kaupahéðnarnir voru hraktir út úr musterinu en þeir voru ekki af baki dottnir og hefndu sín grimmilega. Krókur kom á móti bragði og trúin var gerð að sölubúð. Verslanir eru að vísu ekki í kirkjum enda þarf þess ekki. Trúartáknin eru orðin verslunarvara, það er ytri umbúnaðurinn. Innihaldinu var kastað. Og það er ekki einu sinni víst að Jesús eða aðrir í hans ranni viti af þessu. Að minnsta kosti veit kirkjan ekkert af þessu, heldur að allt sé í besta lagi.

Væru ekki jólin lítið skemmtileg án auglýsinga? Yrði kristin trú ekki eins og vindlaus blaðra ef „sölubúðin“ væri skilin frá henni?

Ó, hvað við erum nú heppin að vera vitni að því að jólalögin, sálmarnir og allt það sem stendur í biblíunni sé poppað upp og gert svo skemmtilegt til að við getum haldið upp á glysjól. 

Jólin eru hátíð ljóss og friðar ... Nei, hvaða vitleysa. Þau eru vertíð fyrir sölubúðina og þeir sem hana reka geta treyst því að ég borgi. Og sjálft Jesúbarnið er orðið munaðarlaust.

 


Óséðar myndir, jólakvizz og labba framhjá kistu Maradona

Orðlof

Jæja

Jæja er til margra hluta nytsamlegt ef svo má að orði komast. Í rauninni er erfitt að festa hendur á merkingu orðsins því hún felst ekki síst í því hvernig það er sagt – í áherslum og tónfalli. Þetta gildir gjarnan um upphrópanir þótt fáar þeirra séu líklega jafn fjölhæfar og jæja. Það getur lýst óþolinmæði, undrun, hvatningu til athafna, efasemdum og fleiru. 

Gaman er að leika sér að því að setja „jæja“ í mismunandi merkingarsamhengi og heyra hvernig hljómblærinn breytist.

Það er t.d. mikill munur á jæja eftir því hvort sagt er

„Jæja, við skulum drífa okkur“ (hvatning)

eða

„Jæja, er það virkilega“ (efi). 

Málsgreinar, Orðaborgarar.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Áður óséðar ferðamynd­ir af Díönu á Ítal­íu.“

Fyrirsögn á mbl.is.                                   

Athugasemd: Hvað er „óséð“ ljósmynd? Líklega á blaðamaðurinn við ljósmynd sem ekki hefur áður verið birt.

Heimildin er hugsanlega vefur Daily Mail og þar segir:

Giancarlo Giammetti shared two never-before-seen photographs of Diana on Instagram

Að gamni leyfði ég fyrirbærinu Google-Translate að þýða þessa setningu. Niðurstaðan var þessi:

Giancarlo Giammetti deildi tveimur ljósmyndum af Díönu sem aldrei hefur áður sést á Instagram

Og viti menn, þýðingin er margfalt betri en fyrirsögnin sem vitnað er til (sögnin að hafa ætti þó að vera þarna í fleirtölu).

„Unseen photographs“ er þýtt sem ljósmyndir sem aldrei hafa áður sést. Tölvuforritið sem margir hæðast að fyrir snautlegar þýðingar á íslensku, stendur sig betur en blaðamaðurinn, þýðir næstum því óaðfinnanlega.

Tillaga: Áður óbirtar ferðamyndir af Díönu á Ítalíu.

2.

Jólakvizz.“

Fyrirsögn á tölvupósti frá Olís/Ób.                                  

Athugasemd: Finnst fólki í lagi að skrifa „jólakvizz“ í stað þess að nota íslensku? Nóg er til af íslenskum orðum um spurningaleiki og því óskiljanlegt hvers vegna verið er að troða „kvizzi“ upp á landsmenn. 

Pósturinn er Olís/ób ekki til sóma. 

Tillaga: Engin tillaga.

3.

11 greindust innanlands í gær …“

Frétt á visir.is.                                  

Athugasemd: Jafnvel þeir sem eiga að teljast reyndir blaðamenn byrja setningar á tölustöfum. Slíkt er hvergi gert og alls staðar mælt gegn þessu. Sá sem skrifaði ofangreint er enginn byrjandi og á sér varla afsökun. 

Í upphafi fréttarinnar segir:

Tuttugu greindust með kórónuveiruna í gær. 18 hjá Íslenskri erfðagreiningu og 2 hjá Sýkla- og veirufræðideild Háskóla Íslands. 

Þetta er illa skrifað. Punktur er settur í miðja málsgrein sem slítur fyrri hlutann úr samhengi við þann seinni. Þarna hefði átt að vera komma. Tölurnar hefðu átt að vera ritaðar með bókstöfum.

Í fréttinni segir:

15. ágúst síðastliðinn slapp stofn, sem hefur fengið ljósbláan litakóða í raðgreiningarferlinum …

Hér hefur margoft (ekki ítrekað) verið vakin athygli á tölustafaáráttu blaðamanna.

Enginn góður skrifari byrjar setningu á tölustöfum vegna þess að eðli bókstafa og tölustafa er ólíkt. 

Eftir punkt eða í byrjun skrifa á að nota stóran bókstaf, kallaður upphafsstafur. Hvernig er annars upphafsstafur tölustafs? Hann er ekki til. Því er talan annað hvort skrifuð í bókstöfum eða skrifarinn umorðar setninguna.

Þessu til viðbótar má nefna að venjulega eru lægri tölur ritaðar með bókstöfum. Það er að segja vilji skrifarinn gæta að stíl. Hrikalega kjánalegt væri að segja (skrifa) að 1 hafi greinst með veiruna eða byrja setningu á tölustafnum einum

Tillaga: Ellefu greindust innanlands í gær …

4.

20 greindust með kórónuveiruna í gær.“

Frétt á ruv.is.                                    

Athugasemd: Jafnvel Ríkisútvarpið sem þó er með málfarsráðgjafa, klikkar illilega. Þar byrjar fréttamaðurinn fréttina á tölustaf í stað þess að byrja á bókastöfum. Er ekkert mark tekið á málfarsráðgjafanum?

Verstu andskotinn er samt sá að fréttamaðurinn skrifar ágætlega læsilega frétt og því varla hægt að saka hann um byrjendamistök eða viðvaningsskap. Þó má ýmislegt finna að textanum sem er ekki tíundað hér.

Tillaga: Tuttugu greindust með kórónuveiruna í gær.

5.

„Þúsundir fá að labba framhjá kistu Maradona og kveðja hann í dag.“

Frétt á dv.is.                                   

Athugasemd: Aumlega er þetta orðað, að heiðra þann sem er látinn með því að labba framhjá kistu hans.

Í fréttinni segir:

… og er löng biðröð til að kveðja Maradona.

Í myndatexta segir:

Fólk streymir inn og kastar síðustu kveðjunni á Maradona.

Engin reisn yfir þessum skrifum, enginn stíll. Halda mætti að Maradona væri á flugvellinum á leið úr landi. 

Allir þekkja orðalagði að ganga til prestsins. Vissulega er hægt að labba til hans en það er annað mál og óskylt fermingarfræðslunni. Í fornum sögum segir að menn gangi fyrir konung. Á DV myndu blaðamenn orðað það að menn „labbi fyrir“ konung. Ekki mikil reisn yfir því.

Í Egilssögu segir:

Ölvir talaði langt og snjallt, því að hann var orðfær maður. Margir aðrir vinir Ölvis gengu fyrir konung og fluttu þetta mál.

Konungur litaðist um; hann sá, að maður stóð að baki Ölvi og var höfði hærri en aðrir menn og sköllóttur.

"Er þetta hann Skalla-Grímur," sagði konungur, "hinn mikli maður?"

Andstæður þessara tveggja manna eru greinilegar. Annar var sköllóttur og konungurinn hét Haraldur og hafði viðurnefnið hinn hárfagri.

Tillaga: Engin tillaga.

6.

„Einkum hefur það orðið áberandi í aðdraganda kosninganna og hækkandi radda sem bentu á aldur hans.“

Frá degi til dag á blaðsíðu 22 í Fréttablaðinu 27.11.20.                                   

Athugasemd: Þetta skilst illa. Sá sem hækkar röddina talar hærra en áður. Hvernig er hægt að skilja tilvitnunina á annan veg en þann að þeir sem benda á aldur mannsins hafi aukið raddstyrk sinn?

Þarna er verið að ræða um aldur verðandi forseta Bandaríkjanna. Vera kann að höfundurinn eigi við að þeim hafi fjölgað sem benda á aldur forsetans verðandi. Sé svo skilst orðalagið. Ef ekki er það óskiljanlegt. Illt er að þurfa að giska á það sem blaðamaðurinn skrifar.

Tillaga: Engin tillaga.


Brjóta jólahefð, Covid test og Víðir afkvíaði sig

Orðlof

Bratti

eiga á brattann að sækja þýðir að mæta mótstöðu; eiga erfitt uppdráttar; lenda í þrengingum. 

Þarna er trúlega, segja fróðir menn, nafnorðið bratti, og líkingin dregin af fjallgöngu, ekki lýsingarorðið brattur, og því eru n-in tvö. Þetta áréttast hér, því enn sækja sumir á „brattan“. 

Málið, blaðsíða 19 í Morgunblaðinu 25.11.20.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Breytt nafn hugs­an­legt.“

Fyrirsögn á mbl.is.                                   

Athugasemd: Mikill munur er á því að breyta nafni og breyta um nafn. Fréttin er um hið síðarnefnda og því er fyrirsögnin röng.

Umræðuefnið er tungubrjóturinn „Iceland air connect“, flugfélag sem hét lengi því laglega nafni Flugfélag Íslands. Svo ákváðu gáfumenn að breyta um nafn og síðan þá hefur leiðin legið fjárhagslega niður á við því aðeins örfáir af alþýðukyni gátu borið það fram og enn færri munað það. Færa má rök fyrir því að nafnbreytingin hafi verið gerð til að þóknast fólki sem ekki talar íslensku sem segir allt um viðhorfið til heimamanna.

Eigandi flugfélagsins er flugfélagið sem einu sinni hét því ágæta nafni Flugleiðir. Síðar ákváðu afar klárir gáfumenn að breyta nafninu í „Icelandair“. Þar sem enginn hörgull er á gáfumönnum á Íslandi tóku þeir sig til og bættu við einhverju um „group“ á ensku og þótti flott að tengja við ensk fyrirtækjanöfn. Og nú á Icelandair group flugfélagið Icelandair sem á Iceland air connect.

Samkvæmt fréttinni er ætlunin að setja innanlandsflugfélagið beint undir utanlandsflugfélagið. Ekki er að efa að hinir alþjóðlega þenkjandi stjórnendur „Íslandsflugs“ hljóti að geta komið með enskt nafn fyrir innanlandsflugið, nafn sem verulegt bragð er af fyrir útlendinga og við alþýða manna getum hvorki borið fram eða fest okkur í minni. „Iceland air domestic most lovely connection“, „Iceland air clean“  eða eitthvað svoleiðis. Kætast þá gáfumenn út um alla móa.

Tillaga: Breyta hugsanlega um nafn.

2.

„Ríf­lega tutt­ugu ára jóla­hefð brot­in“

Fyrirsögn á mbl.is.                                    

Athugasemd: Líklegra er að hefði hafi verið rofin sem er auðvitað allt annað en að hún hafi verið brotin.

Stundum finnst mér að blaðmenn mættu hafa meiri orðaforða. Í fréttum segir stundum að eitthvað sé verra en áður. Auðvitað veltur það á umfjöllunarefninu en oft fer betur á því að segja að eitthvað sé lakara. Námsárangur barna getur verið verri en áður, en ef til vill er hann lakari. Nema hann sé betri og þó kann að vera að hann sé skárri.

Blæbrigð íslenskunnar geta verið stórkostleg sé orðaforðinn fyrir hendi og skrifarar kunni að beita honum.

Tillaga: Ríflega tuttugu ára jólahefð rofin.

3.

„Þeir þurfa síðan að panta tíma fyr­ir þig í Covid test.“

Fyrirsögn á mbl.is.                                    

Athugasemd: Aragrúi frétta fjalla um heimsfaraldurinn en afar sjaldgæft er að þríeykið eða aðrir sletti. Ávallt er tala um sóttkví, smit, sýnatöku, smitrakningar og svo framvegis og er það afskaplega gott og til eftirbreytni. Engin hörgull er á góðum íslenskum orðum sem túlka það sem skýra þarf.

Við þurfum þess vegna ekki „Covid test“, getum farið í sýnatöku á næstu heilsugæslu.

Tillaga: Þeir þurfa síðan að panta tíma fyr­ir þig í Covid sýnatöku.

4.

„Annir kalla á aukna innviði.“

Fyrirsögn á blaðsíðu 2 í viðskiptablaði Morgunblaðsins 25.11.20.                                   

Athugasemd: Innviðir eru samkvæmt orðabókinni máttarviðir í húsi eða skipi. Í yfirfærðri merkingu er í hagfræðinni sagt að þeir séu undirstöður efnahagslífs, nefna má fjarskipta- og samgöngumannvirki, skóla, sjúkrahús og álíka. Enskir tala hér um „infrastructure“.

Allur andskotinn er nú orðinn að „innviðum“ og sífellt er tönglast á orðinu rétt eins og til að gefa skrifum gáfulegra yfirbragð. Samlíkingin er orðin að leiðigjarnri klisju. Þar að auki gengur hún ekki alltaf upp. Svo marga innviði má setja í eitt hús að ekki verði lengur komist inn í það.

Fréttin fjallar um málefni íslenska fyrirtækisins með furðunafnið Isavia og Keflavíkurflugvallar og þar er talað um „innviðauppbyggingu“. Lesandinn veltir óhjákvæmilega fyrir sér hvað séu „innviðir“ Keflavíkurflugvallar. Líklega flugbraut, flugstöðin, flughlað og annað sem nauðsynlegt má teljast. Í lok fréttarinnar segir:

Öll okkar verkefni snúa að því að geta bætt við afkastagetu og hafa hana sem hagkvæmasta. 

Er þetta ekki kjarni málsins? Í stað hinnar óljósu klisju „innviðuppbygging“ gæti komið hagkvæmni eða afkastageta. Eða bara telja upp það sem teljast burðarásar í starfseminni. Allt annað eru afleidd verkefni og því hvorki burðarásar né innviðir.

Tillaga: Annir kalla á meiri uppbyggingu.

5.

„Enginn annar í teyminu en Víðir þurfti að fara í sóttkví, því Víðir brást fljótt við og afkvíaði sig.“

Frétt á ruv.is.                                   

Athugasemd: Beinast liggur við að skilja þetta svo að maðurinn hafi hætt í kvínni, sóttkvínni. Má vera að sagnorðið „afkvía“ sé tilbúningur blaðamannsins, það finnst að minnsta kosti ekki í orðabókinni sem ég fletti upp í. 

Af er þarna forskeyti og getur merkt breytingu sem dregur úr einhverju. Nefna má afboða, þegar hætt er við eitthvað sem boðið hefur verið í. Svipað er með orð eins og aflýsa, aftengja, afhýða, aflífa og fleiri. Allir vita hvað þau merkja og hvernig upp byggð. Í ljósi þessa hlýtur sá sem er afkvíaður að vera farinn úr kvínni, sóttkvínni. En varla getur sá afkvíað sig sem ekki hefur þegar farið í kví. Dauð kind verður ekki aflífuð og varla verður sama eplið aftur afhýtt.

Málsgreinin er illskiljanleg og ekki vel skrifuð.

Svona getur farið þegar blaðamenn láta ekki einhvern lesa yfir fyrir sig.

Tillaga: Í teyminu þurfti enginn nema Víðir að fara í sóttkví og var hann fljótur að því.

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband