Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hnífurinn keyrður í bak Ágústar krata

Ég hef ekki alltaf verið sammála Ágústi Ólafi Ágústssyni, þingmanni Samfylkingarinnar. En ég ber virðingu fyrir honum í pólitíkinni. Hann er dugandi þingmaður, harður í horn að taka og á stundum rökfastur. Dálítið „pópúlískur“ en ekki til mikils skaða. Sé engan hans líka í þingliði flokksins.

Nú er bara tími Ágústar liðinn. Hann hlaut ekki náð fyrir augum uppstillingarnefndar sem er handhafi lýðræðisins í Samfylkingunni.

Ég er alveg sammála nefndinni. Burtu með Ágúst. Og við andstæðingar flokksins fögnum víginu.

Nei, ég held að handhöfum lýðræðisins í Samfylkingunni sé ekki sjálfrátt þegar þeir vísa Ágústi út í ystu myrkur.

Líkast til heldur flokkseigendafélagið að nýkjörinn þingmaður öðlist daginn eftir kosningar allan heimsins vísdóm og þekkingu. Reynsla og þekking skiptir varla neinu í þeirra augum.

Aðferðafræðin minnir á verklagið í ríkisstjórninni sem Samfylkingin og Vinstri grænir kölluðu „skjaldborg heimilanna“. Að henni kom sautján manns. Sumir voru kallaðir ráðherrar en voru bara í starfsþjálfun, fengu að máta ráðherrastólinn í skamman tíma.

Svo ör var skiptingin að enginn náði að setja sig inn í verkefnin enda ekki til þess ætlast. Prófa og fara svo. Nú er fullt af fólki í þessum flokkum sem kallar sig „fyrrverandi ráðherra“.

Ráðuneyti stjórna þeim sem eru í starfsþjálfun sem ráðherra, ekki öfugt. Það vantaði hins vegar ekki að daginn sem nýgræðingur tók við ráðherrastöðu byrjaði hann að tala eins og valdsmaður, vissi allt, gat allt og kunni allt. 

Sama virðist eiga við núna hjá Samfylkingunni. Hún byggir á því að skipta út fólki. Sækja lið í starfsþjálfun, láta það að máta rassförin í þingstólnum í þeirri von að þeir endist þangað til þeir verða reknir.

Sagan segir kratar séu fljótir að draga upp hníf sjái þeir óvarið bak samherja. Þetta er ástæðan fyrir því að þeir ganga með veggjum.

Lýðræðið Samfylkingarinnar byggist á því að velja þingmenn á lista í „reykfylltum bakherbergjum“ því almenningi er ekki treystandi fyrir því.

 


Komst í skiptimynt, Biden vígður og Harris brýtur blað um allan heim

Sjá nánar á bloggsvæðinu Málfar.


Svavar Gestsson

0J2B3075 (3)Hann er dáinn hann Svavar Gestsson. Þingmaður, ráðherra og flokksformaður. Ótrúlegt. Einn harðasti byltingarsinninn í Alþýðubandalaginu og Vinstri grænum.

Ég var lítilsháttar málkunnugur honum. Er það enn í fersku minni er ég tók viðtal við hann í síma er ég var nýbyrjaður sem blaðamaður á Vísi og gerði hann mér mjög erfitt fyrir. Hann var þaulvanur blaðamaður og pólitíkus í þokkabót og kannaðist við mig. Átti ekki neitt í þaulæfðan þrætubókarmann sem þarna tugtaði mig til, líklega verðskuldað.

Ég kunni þó vel að meta hann, jafnvel þó hann væri pólitískur andstæðingur. Fór á kappræðufundi þar sem hann tvinnaði saman skammir um íhaldið, auðvaldið, kapítalistana og allt „vonda fólkið“ en fékk svo drjúga yfirhalningu sjálfur fyrir málflutning sinn, sósíalistinn, kommúnistinn og byltingarmaðurinn.

780118 Þjóðv KappræðufundurKappræðan

Ég man sérstaklega eftir miklum kappræðufundinum sem, haldinn var í Sigtúni 17. janúar 1978. Húsið var troðfullt af Allaböllum og Heimdellingum. Við hinir síðarnefndu röðuðum okkur á fremstu bekki og létum óspart í okkur heyra. Svo pirraðir voru kommarnir á þátttöku okkar og frammíköllum að í Þjóðviljanum vorum við kallaðir öskurkór Heimdallar. Við höfðum ekkert á móti því.

Ræðumenn að okkar hálfu voru Davíð Oddsson, Friðrik Sophusson og Brynjólfur Bjarnason. Á móti voru Svavar Gestsson, Sigurður Magnússon og Sigurður G. Tómasson.

Þess má geta að Þjóðviljinn sagði í fyrirsögn daginn eftir fundinn:

Málstaður sósíalismans er í sókn.

Og í Mogganum var fyrirsögnin:

Sósíalisminn er orðinn eins og gamalt nátttröll.

Hrunadans byltingarmanna

Fylgi Alþýðubandalagsins frá árinu 1974 var nokkuð mikið meðan fáir flokkar buðu fram en fór samt dvínandi eftir því sem leið á.

Í kosningunum 1999 var skipt um nafn og númer og flokkurinn kallaðist eftir það Vinstrihreyfingin grænt framboð. Þá var fylgið aðeins tæp 10% og hafði aldrei í sögu hinna byltingarsinnuðu baráttumanna verið lægra. Eftir það náðu þeir vopnum sínum og komust í 21,7% fylgi árið 2009 og nutu þess að vera gagnrýnendur hrunsins og handhafar allra lausna.

Fylgi AB og VGFjórum árum síðar var allt hrunið, kjósendur refsuðu Vg sem fékk þá aðeins rétt tæp 11% fylgi. Lausnirnar gengu ekki upp, reyndust vera tálsýn. Vinstri sinnuðu hugsjónamennirnir misstu alla tiltrú kjósenda sem höfnuðu bæði Vg og Samfylkingunni.

Sósíaldemókratían

Með nýjum og hófsömum formanni rétti Vg úr kútnum og fékk aftur traust kjósenda og þá var mynduð ríkisstjórn með höfuðóvininum, Sjálfstæðisflokknum. „Sögulegar sættir“ mætti það kallast með tilvísun í pólitík fyrri ára. Þróunin var sem sagt frá byltingu til sósíaldemókratíunnar. Öll helstu baráttumálin hurfu og urðu að einhvers konar jafnaðarmennsku. Ísland er enn í Nató og tekur virkan þátt í starfinu, herinn var ekki rekinn úr landi. Rauða fánanum er flaggað á hátíðisdögum og Nallinn aðeins sunginn til skemmtunar.

Þannig tengist Svavar Gestsson þróun stjórnmálanna frá því hann steig þar á svið sem ritstjóri Þjóðviljans og varð svo þingmaður og ráðherra. Hrunadansinn endaði með því að hinir hófsömu tóku við af byltingarliðinu. Róttæku sósíalistarnir hurfu úr pólitíkinni og sósíaldemókratarnir tóku við. Þetta hefði aldrei getað gerst meðan naglar eins og Brynjólfur Bjarnason, Einar Olgeirsson, Lúðvík Jósefsson og ... Svavar Gestsson voru við stýrið. Greinilegt er að innan Vg er „sósíalisminn er orðinn eins og gamalt nátttröll“ svo vitnað sé aftur í fyrirsögn Morgunblaðsins frá því 1978.

Ég minnist Svavars Gestssonar sem mikils vinstrimanns, baráttumanns og byltingarmanns. Þegar ég komst til vits og ára var hann orðinn ritstjóri Þjóðviljans, síðar þingmaður og svo ráðherra í nokkur ár. Hann var einn af þeim sem okkur Heimdellingum þótti vænst um að gera at í. Og víst var að fáir voru jafningjar hans í rökræðum.

Ró og friður

Svavar Gestsson var í föðurætt Dalmaður. Þangað á ég líka ættir að rekja en við vorum ekki mikið skyldir, í sjöunda lið samkvæmt Íslendingabók. Raunar báðir af svokallaðri Ormsætt (Ormur Sigurðsson 1748-1834).

Faðir Svavars, Gestur Zophanías Sveinsson (1920-1981) var fæddur í Stóra-Galtardal á Fellsströnd. Hann var skírður nafni ömmubróður míns sem hét Gestur Zophanías, sonur Magnúsar Friðrikssonar og Soffíu Gestsdóttur á Staðarfelli. Þann 2. október 1920 drukknaði Gestur Zophanías Magnússon ásamt þremur öðrum við Hjalleyjar á Fellsströnd. Daginn eftir fæddist faðir Svavars.

Móðir hans hét Guðrún Valdimarsdóttir og var frá Guðnabakka í Stafholtstungum í Borgarfirði og þar fæddist Svavar.

Stundum hittumst við á förnum vegi. „Nei, við erum ekki mikið skyldir,“ sagði hann, og sagði sögur úr Dölum.

Á efri árum flutti Svavar í Dalina, bjó á Króksfjarðarnesi. Þaðan sér vítt. Útsýnið er fagurt, yfir Króksfjörð til Háuborgar, yfir Berufjörð til Reykhóla og Reykjanesfjalls. Og út um allar hinar fjölmörgu eyjar þar fyrir utan og Dalina og ef til vill sést til Snæfellsjökuls í góðu skyggni. Hann skrifaði mikið, var ritstjóri Breiðfirðings og vildi veg Dalanna sem mestan. Ég sé dálítið eftir að hafa ekki kynnst fræðimanninum Svavari Gestsyni. Held að við hefðum átt ágætt skap saman.

Myndina sem hér fylgir tók ég í um miðjan október 2017 skammt norðan Króksfjarðarness. Þá var orðið kvöldsett, skýjafarið drungalegt en geislar sólarinnar náðu í gegn af og til. Þetta var fögur sjón.


Hún varð hvelft við og gefa sig fram til lögreglu

Sjá nánar á bloggsvæðinu Málfar.

 


Er horfinn og missa vinnur

Sjá nánar á bloggsvæðinu Málfar.


Athugasemdir um málfar fluttar um set

Pistlarnir sem nefnast athugasemdir um málfar í fjöllmiðlum verða framvegis á https://malfar.blog.is/blog/malfar/. Fyrsti pistillinn hefur þegar birst þar

Ástæðan er einfaldlega sú að ég vil gera greinarmun á umfjöllun um íslenskt mál og pistla um önnur efni, til dæmis pólitík og ýmis konar dægurmál. 


Brenna fer fram, sólin fer niður og hverfi 220

Orðlof

Fús

Eðlunarfús kýr er yxna, læða er breima, gylta gengur, er að ganga eða er ræða, tík er lóða, kindur og geitur eru blæsma og hryssur ála, álægja eða í látum.

Málfarsbankinn.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Fór niður um vök í Hornafirði.

Fyrirsögn á mbl.is.                                      

Athugasemd: Fréttin er ófullnægjandi. Í orðabókinni minni segir að vök sé gat á íshellu á vatni. Ekki kemur fram hvort bílnum hafi verið ekið í vök eða ísinn hreinlega brotnað undan þunga hans. Hvort heldur sem var þurfti að draga bílinn upp úr vök.

Tillaga: Engin tillaga.

2.

Árlegt ára­móta­brenna í Snæ­fells­bæ fór fram í dag venju sam­kvæmt …

Frétt á mbl.is.                                      

Athugasemd: Með hvaða rökum er hægt að segja „að brenna fari fram“? Þetta er bara vitleysa. Brennur „fara ekki fram“, þær fara ekkert.

Fyrirsögn fréttarinnar er svona:

Kveiktu brennu á Snæ­fellsnesi.

Frekar flatt, svona svipað og segja að flugeldi hafi verið skotið upp á Suðurlandi. Menn hlaða brennu og kveikja í brennu. Og Snæfellsnes er stórt og mikið, hálent og skorið. Skárra er svona:

Kveiktu í brennu í Snæfellsbæ.

Í fréttinni segir:

… og fengu gest­ir þau til­mæli um að vera í bíl­um sín­um á meðan brennu stóð til þess að gæta að sótt­vörn­um.

Skilur einhver þetta hnoð. Auðvitað gat blaðamaðurinn ekki geta skrifað svona:

… vegna sóttvarna fengu gest­ir þau til­mæli að horfa á brennuna úr bílum sínum.

Varla er heil brú í fréttinni allri.

Tillaga: Samkvæmt hefð var kveikt í áramótabrennu í Sæfellsbæ.

3.

„Ég hef séð stjörnuhrap, sólina koma upp, sólina fara niður.“

Frétt á visir.is.                                       

Athugasemd: Hvað gerist þegar dagur er að kvöldi kominn. Jú, sólin sest.

Tillaga: Ég hef séð stjörnuhrap, sólina koma upp og setjast.

4.

„… árás­armaður hafði veist að brotaþola með hníf og valdið stungusári. Brotaþoli hafði flúið vett­vangi …“

Frétt á mbl.is.                                       

Athugasemd:  Í afspyrnu illa skrifaðri frétt er löggumálið, stofnanamálið, í hámarki gleði sinnar. Sá sem ráðist er á er kallaður „brotaþoli“. Enginn talar svona nema löggan þegar hún reynir af erfiðismunum að hefja sig upp yfir almenning. Og lögfræðingar orða þetta þannig í formlegri ákæru.

Ofangreint er tvær málsgreinar. Sú fyrri er svona:

Til­kynnt var um stór­fellda lík­ams­árás í gær­kvöldi þar sem árásarmaður hafði veist að brotaþola með hníf og valdið stungusári. 

Þetta er tómt bull, skrifarinn hefði fengið falleinkunn í öllum skólum. Eftirfarandi hefði verið skárra:

Maður stunginn með hnífi.

Hvað er „stórfelld líkamsárás“? Má vera að löggan hafi skrifað þennan texta og blaðamaðurinn birt hann óbreyttan („kópí-peist“ eins og það er kallað í slangrinu). Slæm vinnubrögð. Þar fyrir utan á blaðamanninum að vera fullkunnugt um að löggan er ekki skrifandi og því ber að lagfæra allt sem frá henni kemur.

Seinni málsgreinin er svona:

Brotaþoli hafði flúið vett­vangi þegar lög­regla kom á vett­vang, en árás­armaður var hand­tek­inn.  

Þarna er nástaða sem ætíð er slæm. Skondið að árásarmaðurinn hafi dvalið á vettvangi eftir sá slasaði „flúði“. Hvort flúði hann eða fór? Yfirleitt er þetta öfugt. Og hversu stórfelld var líkamsárásinn þegar hann gat hlaupið í burtu. Flúði hann „ vettvangi“ en ekki af vettvangi? Hver kærði, „brotabrotaþolinn“ eða „gerandismaðurinn“?

Málsgreinin hefði verið skárri á þessa leið:

Sá særði var farinn þegar lögreglan kom en árásarmaðurinn var handtekinn.

Fleira bull er í fréttinni. Blaðamaðurinn leyfir sér að byrja setningu á tölustöfum. Það er óvíða gert nema á Mogganum. 

Í fréttinni eru næstum allir lögbrjótar kallaðir „aðilar“. Hverjir eru „aðilar“?

Í fréttinni segir:

Þá varð bif­reið á veg­um toll­gæsl­unn­ar að kalla eft­ir aðstoð lög­reglu, en þeir veittu bif­reið eft­ir­för sem sinnti ekki stöðvun­ar­merkj­um toll­gæsl­unn­ar inni á svæði toll­gæsl­unn­ar í hverfi 220.

Ýmislegt er við þessa málsgrein að athuga. Varla telst það alvarleg villa að segja að bifreiðin „kallaði“ á lögguna er „þeir“ eltu bíl. Ekkert samhengi í þessu. Hverjir eru „þeir“.

Hvernig eru „stöðvunarmerki tollgæslunnar“ Spyr fyrir vin sem vill ekki lenda upp á kannt við embættið. Líklegast veifa tollararnir flöggum í fánalitunum þegar „þeir“ vilja að bíll stoppi. Eða senda „þeir“ fax? Og þvílíkt og annað eins að stoppa ekki „inni á svæði tollgæslunnar“. Stoppa ekki allir þar?

Svo væri fróðlegt að vita hvar hverfi 220 er og hvar „svæði tollgæslunnar“ er. Líklega er hvort tveggja nýtt.

Nei. Þetta eru óboðleg skrif. Löggunni, blaðamanninum og Mogganum til skammar. Við lesendur eigum ekki skilið að þurfa að lesa svona bjálfaleg skrif. Þau standa ekki undir nafni sem fréttir.

Tillaga: Maður stakk annan með hnífi. Sá særði var farinn þegar lögreglan kom en árásarmaðurinn var handtekinn.


Stikla á stóru um málfar í fjölmiðlum árið 2020

Eitt af því leiðinlegasta sem boðið er upp á í fjölmiðlum um áramót er upprifjun á fréttum ársins. Ekki telst það heldur neinn skemmtilestur að rifja upp ambögur, villur og rugl sem birtar voru hér undir fyrirsögninni „Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum“. Má vera að einhverjir kunni að hafa gagn af þó um gamanið megi deila.

Eins og venjan er í þessum pistlum er getið um heimildir með því að gefinn er hlekkur á fréttir sem fjallað er um. Í þetta sinn fylgdi hann ekki með og biðst ég afsökunar á því. Hins vegar er hægur vandinn að sækja samhengið. Aðeins þarf að afrita málsgreinar sem birtar eru og líma í Google og ætti þá fréttin að birtist.

Númerin eru aðeins til hægðarauka, ekki mat á hvort eitthvað sé verra en annað.

Alræmdast á árinu 2020

1. Prófarkalesarar óskast til starfa á Fréttablaðinu.“ frettabladid.is.

2. „Þegar Trump hefur fengið góðar fréttir, hefur honum tekist að stíga á þær.“ visir.is.

3. „Mörg ný andlit fengu að spreyta sig í gærkvöldi.“ Ríkisútvarpið.

4. „Góðhjartaðir borgarar björguðu 15 manna andafjölskyldu.“ dv.is.

5. Kjall­ari húss­ins er á floti …“ mbl.is.

Hrærigrauturinn

1. „Tveir eru tald­ir hafa orðið fyr­ir meiðslum en von­ast er ekki til þess að þau séu ekki al­var­leg“. mbl.is. 

2. „Við hitt­umst oft á kránni. Hann var mjög op­inn og með skemmtn­ari mönn­um.“ mbl.is.

3. „Við erum ekki að horfa framan í Persaflóastríðið.“ visir.is.

4. „Tryggvi: Mjög gott að komast að­eins heim og fylla á af­urðina að heiman.“ visir.is.

5. „Sonurinn nefndur í höfuð lækna sem björguðu lífið Boris.“ visir.is.

6. „En ég finn einnig fyr­ir mik­ill þörf fyr­ir að koma landinu aft­ur á lappirn­ar, halda áfram eins og við erum fær um og ég er sann­færður um að við kom­umst þangað.“ mbl.is

7. „Hjólreiðakona fékk heilahristing eftir að bílhurð var opnuð fyrir framan hana.“ visir.is.

8. „Andaðu inn í sársaukann, mælti Hafþór, og teldu upp á þrjátíu.“ frettabladid.

9. „Gylfi: Yrðir tek­inn af lífi í klef­an­um.“ mbl.is.

10.„Þegar Trump hefur fengið góðar fréttir, hefur honum tekist að stíga á þær.“ visir.is.

Þoka

1. „Í síðustu viku slasaðist einn vegfarandi í einu umferðarslysi á höfuðborgarsvæðinu.“ logreglan.is.

2. „Kjall­ari húss­ins er á floti …“ mbl.is.

3. „Gular við­varanir á norð­vestur­hluta landsins og varað við akstri á Breiða­firði.“ frettabladid.is.

4. „Sóttu slasaðan skipverja á Landspítalann.“ visir.is.

5. „Donald Trump Bandaríkjaforseti býst við miklum dauða vegna kórónuveirufaraldursins í Bandaríkjunum á næstum dögum.“ ruv.is. 

6. „… um að fá aftur eina af dúfum sínum, sem þessa dagana er í varðhaldi á Indlandi eftir að hafa verið ákærð fyrir njósnir.“ ruv.is. 

7. „Fyllt var á birgðir áður en Baldur var togaður í Stykkishólm …“ ruv.is.

8. „„Ég stend á herðum þeirra,“ sagði hún.“ mbl.is.

9. „Þetta kemur fram í lokaskýrslu réttarmeinafræðings sem krauf lík hans.“ ruv.is.

10.„Dranginn er afskaplega þekkt kennileyti á leiðinni til Akureyrar …“ visir.is.

Mismæli

1. „Í­búar Pun­jab héraðs geta borðið Himala­ya-fjöllin augum í fyrsta sinn í ára­tugi þar sem mengun skyggir ekki lengur á sýn þeirra.“ frettabladid.is

2. „Þá má ekki gleyma því að minnihlutahópar sæktu ofsóknum allt fram á síðasta dag.“ ruv.is.

3. „Hann kljáðist einnig við fjölda annarra heilsu­bresta.“ mbl.is.

4. „Aus fúkyrðum yfir þjálfarann til að komast burt …“ dv.is.

5. „Þetta eru alveg fordómalausar aðstæður …“ Viðmælandi í Ríkisútvarpinu.

6. „Ég vildi ekki þaga lengur, eða loka augunum og eyrunum.“ frettabladid.is

7. „… og að útlit sé fyrir að margir séu byrjaðir að deyja á heimilum sínum.“ visir.is.

8. „Góðhjartaðir borgarar björguðu 15 manna andafjölskyldu.“ dv.is.

9. „Einnig þakka ég barnsmóður minni … fyrir að standa að baki mér …“ mbl.is.

10.„Huggum okkur heima“. Ríkisútvarpið auglýsing.

Afrek

1. „Yfirvöld í Sádí-Arabíu hafa afnumið dauðarefsingu fyrir börn.“ visir.is.

2. „Sádi-Arabía af­nemur hýðingar sem refsunar­form.“ visir.is. 

3. „Land snýr í hásuður.“ Morgunblaðið.

4. „Hakkaþon.“ mbl.is.

5. „Dvalarheimilinu var því lokað fyrir öllum líkamlegum samskiptum við umheiminn.“ dv.is.

6. „Hafa sett á ís mörg verkefni.“ visir.is.

7. „Tvö morð fram­in í Árós­um.“ mbl.is.

8. „Aukn­ar lík­ur á eng­um smit­um.“ mbl.is.

9. „… og segir að sagan um að Joe og Jill hafi kynnst á blindu stefnumóti …“ dv.is.

Útlenskan

1. „Fólk er mis-„paranojað“ mbl.is

2. „Húseining getur nú boðið fjölbreytta modular framleiðslu …“ Auglýsing í Morgunblaðinu.

3. „Svona flipp­ar þú eggi létti­lega á pönnu.“ mbl.is.

4. „Eins og áður minnum við á Travel Conditions kortið okkar.“ Ferðamálastofa, upplýsingapóstur.

5. „Punkturinn yfir i-ið er svo eitt lélegasta „plot-twist“ sem ég hef orðið vitni að.“ Morgunblaðið.

6. „Save travel dagurinn er í dag.“ Ríkisútvarpið.

7. „Þarf ég aft­ur að minna þig á að ekk­ert býr til meira klúður en að filtera kjarn­ann í sjálfri þér …“ mbl.is.

8. „Gamli vs. nýi.“ frettabladid.is.

9. „Daginn eftir varð Sinfóníuhljómsveit San Francisco fyrsta hljómsveitin í Bandaríkjunum öllum til að aflýsa lifandi tónleikum …“ Morgunblaðið.

10.„Til þess að koma til móts við samfélagið á þessum COVID tímum erum við hjá Regus að bjóða upp á BACK TO WORK tilboð.“ Fjöltölvupóstur frá regus.is.

11.„Honestly með allri minni samvisku …“ dv.is.

12.„Myndlistarsýningin On Common Ground opnar í dag á Hlöðulofti Korpúlfsstaða …“ frettabladid.is.

13.„Í Hafnarfirði eru bæjarbúar hvattir til þess að skreyta extra snemma til þess að lífga upp á skammdegið …“ mbl.is.

14.„Hópur fólks beið í langri röð til kaupa ferskt og framandi grænmeti og ávexti á pop-up markaði Austurlands food coop á Skúlagötu í gær.“ Fréttablaðið.

15.„Fréttakviss vikunnar.“ visir.is.

16.„Jólakvizz.“ Tölvupóstur frá Olís/Ób.

17.„Þeir þurfa síðan að panta tíma fyr­ir þig í Covid test.“ mbl.is

18.„Að auki ber Björn ábyrgð á tveim­ur gríðar­vin­sæl­um spil­um sem lands­menn hafa sleg­ist um en þetta eru að sjálf­sögðu Pöbbk­viss og Krakka­k­viss“ mbl.is.

19.„Go crazy, fimmtudags-mánudags.“Morgunblaðið auglýsing.

20.„Leave no one behind.“, Auglýsing Öryrkjabandalagsins.

Langlokan

1. „Skot­svæðin og pallarnir verða af­markaðir með keilum og borðum, en ásamt þeim mun sér­stakt gæslu­fólk sjá um að halda skot­glöðum ein­stak­lingum réttu megin við línuna þegar þeir skjóta upp og með því reyna að koma í veg fyrir að fólk fagni áramótunum á Bráða­mót­tökunni.“ Fréttablaðið.

2. Akstur undir áhrifum áfengis eða fíkninefna var fyrirferðamikill hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu síðastliðinn sólarhring, margsinnis var ökumaður ekki með ökuskirsteini eða gild ökuskirteini. frettabladid.is

3. „Rétt­inda­laus bæklun­ar­sk­urðlækn­ir frá Kasakst­an, sem starfaði í ell­efu ár við Sørlandet-sjúkra­húsið í Flekkefjord og síðar Kristiansand í Noregi, og sæt­ir rann­sókn vegna tuga alvar­legra mistaka, sem sum hver leiddu til and­láts alls þriggja sjúklinga hans, hef­ur sagt starfi sínu lausu, en hon­um var gert að sæta leyfi eft­ir að handvömm hans komst í há­mæli snemma á ár­inu, en þar var meðal ann­ars um að ræða aðgerð sem lækn­ir­inn hefði aldrei átt að fá að fram­kvæma einn síns liðs á úlnlið Mar­grét­ar Annie Guðbergs­dótt­ur sem sagði mbl.is frá máli sínu í febrúar.“ mbl.is.

4. „Þegar rætt er um efnahagsaðgerðir vegna veirunnar verður þó hér eftir að horfa til þess að það ástand sem nú ríkir verður að líkindum viðvarandi um nokkra hríð, eflaust fram á næsta ár og mögulega lengur.“ Morgunblaðið.

5. „Raunsæi verður að ráða för og ljóst er að á liðnum árum hefur, þrátt fyrir Dyflinnarreglugerð og vegna þeirra lausataka sem „fjölmiðlanálgunin“ hefur haft í för með sér, gríðarlegur fjöldi fólks komið hingað til lands á þeirri forsendu að það sé á flótta undan slæmum aðstæðum af einhverju tagi.“ Morgunblaðið.

6. „Ef ykk­ur þótti Ev­erest-fjall ekki nægi­lega hátt fyr­ir þá hafa stjórn­völd í Kína og Nepal loks­ins kom­ist að sam­komu­lagi um ná­kvæma hæð fjallins, eft­ir ára­lang­ar deil­ur, enda ligg­ur fjallið á landa­mær­um ríkj­anna.“ mbl.is.

Stórfréttir

1. „Ekkert fréttnæmt gerðist á lögreglustöð 2, sem sinnir Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi og má því búast við að þar hafi allt verið með kyrrum kjörum í nótt.“ dv.is.

2. „Akkúrat á þessum stað er sökkhola sem myndast greinilega þegar það rignir.“ visir.is.

3. „Af­skipti höfð af konu sem var að stela úr verslun í mið­bænum, málið leyst með vettvangs­formi“. frettabladid.is.

4. „Þrjú ný innanlandssmit og sex við landamærin.“ frettabladid.is.

5. „Slösuð stúlka hjá Þingvallarvatni.“ visir.is.

6. „Látnir blása í áfengismæli á fjöllum.“ visir.is.

7. „Loksins í bílstjórasætinu í eigin líkama.“ visir.is.

8. „Þar voru afskipti höfð af manni á reiðhjóli með stórt hátalarabox.“ visir.is.

9. „Stunga í kvið með hnífi er ávallt lífsógnandi.“ Fréttablaðið.

10.„Ruth hafði þjónað sem dómari við réttinn í 27 ár …“ Fréttablaðið.

11.„Mörg ný andlit fengu að spreyta sig í gærkvöldi.“ Ríkisútvarpið.

12. „Lög­regl­an á höfuðborg­ar­svæðinu sinnti bæði eigna­spjöll­um og þjófnuðum á nokkr­um stöðum á höfuðborg­ar­svæðinu snemma í gær­kvöldi.“ mbl.is.

13.„Ég er minnsti ras­ist­inn í þessu herbergi.“ mbl.is.

14.„Rakel og Auðunn Blön­dal eiga von á barni nr. 2.“ mbl.is.

15.„Sig­ur­veig hef­ur ekki setið auðum hönd­um þegar að barneign­um kem­ur.“ Fréttablaðið.

Sigurvegarar

1. „Kylfingurinn Bryson DeChambeau sigraði Opna bandaríska meistaramótið í golfi í gærkvöld.“ ruv.is. 

2. „Leikmenn Liverpool lyftu enska meistaratitlinum eftir 30 ára bið í gærkvöld …“ ruv.is.

3. „Liðið hefur þrisvar lyft meistaratitlinum.“ Ríkisútvarpið.

4. „Strax á kosninganótt varð ljóst að Trump hafði sigrað væntingar …“ dv.is.

5. „Enn er óljóst hver sigrar kapphlaupið að Hvíta húsinu …“ visir.is.

6. „Hollywood-stjarnan Will Ferrell sá um að tilkynna hvaða lag sigraði kosninguna.“ ruv.is

7. Þegar fjallagarp­ur­inn Ed­mund Hillary sigraði topp­inn með sjerp­an­um Tenz­ing Norgay í maí ári 1953 … mbl.is.

8. „Hvenær sigra Bandaríkjamenn innrásina í Írak og Afganistan?“ frettabladid.is.

Vefst tunga um höfuð

1. „Kostaði augun úr í sumar en má nú fara.“ dv.is. 

2. „Prófarkalesarar óskast til starfa á Fréttablaðinu.“ frettabladid.is

3. „Stólarnir með montréttinn fyrir norðan.“ Morgunblaðið.

5. „Flakkar heimshorna á milli til þess að elta drauminn.“ frettabladid.is.

6. „Svalalokun er á svölum.“ visir.is. 

7. „Að því er kemur fram í tilkynningunni varð til­kynnandi fyrst var við stífluna í fyrra­dag en dregið hafi úr al­var­leika ástandsins í árinni í gær.“ frettabladid.is. 

8. „Rútan valt og endaði á þakinu.“ ruv.is.

9.„Við slíkan atburð áskiljum við okkur rétt til að stöðva alla blæðingu svo sem að setja stopp (hold) á afskráningu áskrifta þar til ástandið er liðið hjá.“ visir.is.

10.„Halldór Armand Ásgeirsson, rithöfundur og útvarpsmaður, kom nýverið heim frá hááhættusvæði og þurfti því að fara í sóttkví.“ dv.is.

11.„Íslensk­um mál­efn­um á Spotify stýr­ir starfsmaður í Svíþjóð, sem kvað vera óíslenskumæl­andi.“ mbl.is.

12.„… býr og starfar í Ósló og keyrir farsælan feril.“ Morgunblaðið.

13.„Í öll skiptin var hjúkrunarheimilið talið mæta stöðlum.“ ruv.is.

15.„Þá segir í tilkynningu frá lögreglunni að hætta geti verið til staðar á merktum gönguleiðum, vegum sem og við aðra staði í fjalllendi.“ visir.is.

16.Það lagðist maður við mann hérna í Bolungar­vík og einn vél­virki hérna á áttræðisaldri, kunn­áttu­maður með mikla reynslu, hjálpaði við að koma bátnum í stand. frettabladid.is.

17.„Þessi lög­sókn snýst um að standa upp fyr­ir sjálfa mig og skil­greina virði mitt.“ mbl.is.

18.„Sylvía keypti eitt fal­leg­asta heimili Seltjarn­ar­ness.“mbl.is.

19.„Starfsfólk borðað og drukkið fyrir hundruð þúsunda á Kjarval.“ Fréttablaðið.

20.„Enginn annar í teyminu en Víðir þurfti að fara í sóttkví, því Víðir brást fljótt við og afkvíaði sig.“ ruv.is.

21.„Þess í stað hefðu lögfræðingar framboðsins sett fram „útteygð lagarök sem ekki stæðust skoðun og ásakanir byggðar á ágiskunum“.“ Morgunblaðið.

22.„Verkefnið, sem ber heitið ODEUROPA, felst í að kanna, lýsa og endurskapa hvern þann keim sem Evrópubúar fyrri alda kunna að hafa þefað uppi.“ Morgunblaðið.

23.„Vincent Tan er fæddur árið 1952 og hlaut ekki silfurskeið í munni í heimanmund.“ Morgunblaðið.

24.„Langvarandi Covid-19 mögulega ónæmiskerfið að ráðast á líkamann.“ visir.is.

25.„Það hefur sem betur fer ekki orðið banaslys enn þá hér á landi eins og erlendis af þeirri ástæðu að skinnari hefur fengið spilvírinn sem troðarinn hangir í sig og banað viðkomandi.“ skidasvaedi.is.

26.„Eriksen getur farið með höfuðið hátt.“ dv.is.

Sitjandinn

1. „Þar kemur fram að sitjandi borð­hald verði á árs­há­tíðinni …“ frettabladid.is.

2. „… Guðni Th. Jóhannes­son, sitjandi for­seti …“ frettabladid.is.

3. „Sitj­andi ávallt náð end­ur­kjöri.“ mbl.is.

4. „Hefur sitjandi forseti aldrei staðið jafn illa á sambærilegum tímapunkti en tölur um slíkt eru til frá 1968.“ dv.is.

5. „Það er einsdæmi í sögu Bandaríkjanna að sitjandi forseti í kosningabaráttu veikist svo skömmu fyrir kosningar.“ Morgunblaðið.

6. „Sitjandi dómarar við Hæstarétt hafa gríðarmikla dómarareynslu.“ Fréttablaðið.

7. „Þetta er léttvæg gagnrýni frá sitjandi forseta …“ dv.is.

 

 

 

 


Bólusetja við veiru, manneskja ársins og vélarvana skip

Orðlof

Salíbuna

Orðið buna merkir oftast ‘samfelldur straumur af vatni eða vökva (t.d. úr stút á katli eða kaffikönnu)’. 

En það er líka talað um að „renna sér í einni bunu“ á sleða, skíðum eða hjóli þegar farið er niður brekku án þess að stoppa. Þá er líka hægt að „fá sér salíbunu“ á sleða niður brekkuna eða jafnvel í strætó niður í bæ. 

Fyrri liðurinn í orðinu salíbuna á rót sína að rekja til danska lýsingarorðsins salig ‘sæll’ sem er líka notað til áherslu. Það merkir því bókstaflega ‘sæluferð, áhyggjulaus ferð’ enda hefur salíbunan yfirleitt ekki annan tilgang en skemmtunina.

Orðaborgarar.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Bólusetning hefst við veiru á morgun.

Frétt á blaðsíðu 4 í Morgunblaðinu 28.12.20.                                     

Athugasemd: Er ekki venjan að orða það svo að bólusett sé gegn sjúkdómum? Vera má að hvort tveggja sé jafngilt. Í þessu tilviki hefði veiran mátt vera með ákveðnum greini því hér er verið að reyna að vinna á einni tiltekinni. Til eru milljónir veira, sumar skaðlegar en aðrar gagnlegar. Ég vísa hér til ritsins „Lifað með veirum“ sem er mjög fróðlegt.

Nokkur breyting hefur orðið á málinu. Hér áður fyrr var farið til að láta bólusetja sig eða láta sprauta sig. Nú er farið í sprautu eða sprauta tekin. Þetta skilja allir og er viðurkennt sem „rétt“ mál.

Ekki þarf alltaf að nota sama orðalagið, „að fara í sprautu“, óhætt er að breyta til. Þetta er á ýmsa vegu í fréttinni. Fólk hefur fengið boð í bólusetningu og verður bólusett.

Í fréttinni segir og er haft eftir viðmælanda:

Að taka fyrri sprautuna á íbúa á hjúkrunarheimilunum, sem taldir hafa verið einn allra viðkvæmasti hópurinn, tekur okkur ekki nema einn til tvo daga. 

Þetta er talmál, frekar óskipulegt. Blaðamennirnir sem skrifuðu fréttina hefðu átt að umorða þessa málsgrein, til dæmis á þennan veg:

Ekki tekur nema einn til tvo daga að gefa íbúum á hjúkrunarheimilum sprautuna. Þeir er einn af viðkvæmustu hópunum.

Ýmislegt má betur fara í orðalagi fréttarinnar.

Tillaga: Bólusetning gegn veirunni hefst á morgun 

2.

„Hlustendur Rásar 2 og lesendur RÚV.is velja nú manneskju ársins í 32. skiptið.“

Frétt á ruv.is.                                      

Athugasemd: Hér áður fyrr var valinn maður ársins. Hvað breyttist? 

Tegundarheitið maður á við konur og karla. Það er beinlínis hallærislegt að velja „manneskju“ ársins og fjarri hefðum. Í mörg ár völdu fjölmiðlar mann ársins og þannig var það orðað þangað fólk byrjaði að ritskoða sjálft sig án mikillar þekkingar.

Fyrir nokkrum dögum var hér birt tilvitnun í Laxdælu. Þar segir frá Höskuldi Dala-Kollssyni sem heyrði á tala manna og reyndust þeir vera Melkorka og Ólafur sonur þeirra. Þarf frekar vitnanna við?

Tillaga: Hlustendur Rásar 2 og lesendur RÚV.is velja nú mann ársins í 32. skiptið.

3.

„Þór sækir vélarvana Lagarfoss.“

Frétt á ruv.is.                                      

Athugasemd: Þegar vél í skipi bilar úti á rúmsjó er það sagt vélarvana. Í öllum fjölmiðlum er Lagarfoss sagður vélarvana, hvergi er það orðað svo að vél skipsins sé biluð. 

Í Málfarsbankanum segir:

Orðið vél(ar)vana merkir afllaus, með bilaða vél og er nær einvörðungu notað um báta með vélarbilun á hafi úti. 

Amast hefur verið við þessu orði á þeirri forsendu að orðið vélarvana geti eingöngu merkt vélarlaus, sbr. önnur orð sem mynduð eru eins: svefnvana, skilningsvana, févana sem merkja: svefnlaus, skilningslaus og félaus. 

Þar sem orðið vélarvana er aldrei notað í merkingunni vélarlaus er merking orðsins að jafnaði ljós í samhenginu.

Lýsingarorðið vélarvana er ágætt en rýr orðaforði fréttaskrifara er til mikils skaða fyrir íslenskt mál. Þetta síðasta er á þó ekki við fréttamanninn sem skrifaði fréttina.

Í fréttum í dag eða í gær heyrði ég orðið aflvana sem er miklu betra og lýsir ástandi Lagarfoss. Véli skipsins er biluð og hann því aflvana enda vantar ekki vélina.

Tillaga: Þór sækir Lagarfoss sem aflvana.

4.

„… til að geta afhent athafnakonunni Lilju Pálmadóttur timburkirkju frá árinu 1871 sem er staðsett á jörð Lilju, Hofi á Höfðaströnd.“

Frétt á ruv.is.                                      

Athugasemd: Einu orði er ofaukið í fréttinni. Án þess verður málsgreinin miklu betri. Í Málfarsbankanum segir og hér hefur áður verið vitnað til þessa:

Orðið staðsettur er oft óþarft. Bíllinn var staðsettur við pósthúsið merkir: bíllinn var við pósthúsið.

Ekki margir fréttaskrifarar átta sig á þessu.

Tillaga: til að geta afhent athafnakonunni Lilju Pálmadóttur timburkirkju frá árinu 1871 sem er á jörð Lilju, Hofi á Höfðaströnd.

5.

„Og Nigel Farage, sem ekki kallar alltaf Boris Johnson ömmu sína, sem hann hefur aldrei verið, var sammála þessari jákvæðu niðurstöðu Cash.“

Leiðari Morgunblaðsins 30.12.20.                                     

Athugasemd: Nokkuð skemmtileg stílþrif í leiðaranum. Alltaf gaman að lesa þegar þannig er. 

Í leiðaranum segir:

Sturgeon heimastjórnarráðherra Skota samþykkir ekki viðskiptasamninginn. Þingflokksformaður hennar segir að samningurinn tryggi ekki að Bretar verði áfram í ESB! Getur það verið? 

Og þarna hneggjaði ég áramótahlátri.

Tillaga: Engin tillaga.


Enginn krefst afsagnar fyrsta ráðherra Skotlands

Fyrsti ráðherra Skotalands, Nicola Sturgeon,sætir nú lítilsháttar ámæli fyrir að hafa verið án grímu á minningarvöku á krá í síðustu viku. Birt var mynd af henni í fjölmiðlum grímulausri. Hún hefur beðist afsökunar á „ódæðinu“ og ber fyrir sig að aðeins tuttugu manns hafi verið á barnum þar sem vakan var haldin.

Í öllum fréttatímum í Ríkisútvarpinu og fleiri fjölmiðlum frá því á aðfangadag hefur verið um að fjármála- og efnahagsráðherrann, Bjarni Benediktsson og kona hans, hafi verið grímulaus í fimmtíu manna „samkvæmi“ í Ásmundarsal. Reyndar var þetta myndlistarsýning og voru listaverkin til sölu.

Enginn er hissa á því að pólitískir andstæðingar Bjarna vilji að hann segi af sér og þurfti ekki brot á sóttvarnarlögum til þess.

Pólitískir andstæðingar Nicola Sturgeon, fyrsta ráðaherra Skotlands, gera ekki kröfu til þess að hún segi af sér.

Hvergi í íslenskum fjölmiðlum hefur verið sagt frá ráðherranum í Skotlandi. 

Á fréttamiðlinum Sky segir skoski ráðherrann í lauslegri þýðingu:

Mér þykir leitt að hafa brotið reglur sem ég hef hvatt alla til að fara eftir. Ég tók af mér andlitsgrímuna eitt andartak á minningarvöku í síðustu viku. Ég vil leggja áherslu á að þrátt fyrir aðstæður braut ég reglurnar. Ég á mér enga afsökun.

Ég á að fara eftir reglunum rétt eins og allir aðrir enda skipta þær öllu máli. Ég álasa sjálfri mér meir en nokkur annar. En það sem meira er um vert ég mun halda vöku minni framvegis.

Og málið er dautt eins og sagt er. Skotar eru kurteist fólk og skilja ráðherrann.

Bjarni Benediktsson sagði á aðfangadag í yfirlýsingu á Facebook eftir atvikið í Ásmundarsal:

Á heimleið úr miðborginni í gærkvöldi fengum við Þóra símtal frá vinahjónum, sem voru stödd á listasafninu í Ásmundarsal og vildu gjarnan að við litum inn til þeirra og köstuðum á þau jólakveðju. Þegar við komum inn og upp í salinn í gærkvöldi hefði mér átt að verða ljóst að þar voru fleiri en reglur gera ráð fyrir.

Eins og lesa má í fréttum kom lögreglan og leysti samkomuna upp. Og réttilega. Þarna hafði of margt fólk safnast saman.

Ég hafði verið í húsinu í um fimmtán mínútur og á þeim tíma fjölgaði gestunum. Rétt viðbrögð hefðu verið að yfirgefa listasafnið strax þegar ég áttaði mig á að fjöldinn rúmaðist ekki innan takmarkana. Það gerði ég ekki og ég biðst innilega afsökunar á þeim mistökum.

Og pólitískir andstæðingar ráðherrans misstu stjórn á sér og fúkyrðin streymdu á Facebook síður Bjarna. Nú síðast birtir píratinn Björn Leví Gunnarsson, þingmaður, grein í Morgunblaðinu og reynir á hrokafullan máta að gera lítið úr Bjarna. 

Ólíkt hafast menn að. Umburðarlyndið er ekkert á Íslandi jafnvel þó komin séu jól. Yfir hátíðarnar kom flóðbylgja formælinga frá andstæðingum Bjarna. Ekkert slíkt gerðist í Skotlandi.

Píratinn Mári McCarthy er sagður hafa brotið sóttvarnalög er hann fór í Sundlaug Reykjavíkur. Hann settist í heitan pott þar sem voru fimmtán manns fyrir en vegna takmarkana máttu aðeins tólf vera í honum. Aðeins dv.is segir frá þessum atburði.

Enginn stjórnmálamaður hefur krafist þess að Smári segi af sér þingmennsku vegna brotsins.

Svona er nú pólitíkin á Íslandi. Fáir reyna að skila aðstæður en eru þvert á móti fljótir að fordæma og formæla. Svona rétt eins og meintur „morðingi“ hundsins Lúkasar var tekinn af lífi í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum. Og hvað gerði sama fólk þegar hundurinn fannst lifandi? Ekkert. Baðst ekki einu sinni afsökunar. Og hefur líklega ekki heldur skammast sín fyrir að hafa ráðist á saklausan mann.

Auðvitað má fólk hafa skoðun á einstaklingum sem það vill. Þó má gera þessa kröfu til allra gagnrýnenda: Ekki vera skíthæll í umræðunni.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband