Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Brjóta jólahefð, Covid test og Víðir afkvíaði sig
26.11.2020 | 13:45
Orðlof
Bratti
Að eiga á brattann að sækja þýðir að mæta mótstöðu; eiga erfitt uppdráttar; lenda í þrengingum.
Þarna er trúlega, segja fróðir menn, nafnorðið bratti, og líkingin dregin af fjallgöngu, ekki lýsingarorðið brattur, og því eru n-in tvö. Þetta áréttast hér, því enn sækja sumir á brattan.
Málið, blaðsíða 19 í Morgunblaðinu 25.11.20.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Breytt nafn hugsanlegt.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Mikill munur er á því að breyta nafni og breyta um nafn. Fréttin er um hið síðarnefnda og því er fyrirsögnin röng.
Umræðuefnið er tungubrjóturinn Iceland air connect, flugfélag sem hét lengi því laglega nafni Flugfélag Íslands. Svo ákváðu gáfumenn að breyta um nafn og síðan þá hefur leiðin legið fjárhagslega niður á við því aðeins örfáir af alþýðukyni gátu borið það fram og enn færri munað það. Færa má rök fyrir því að nafnbreytingin hafi verið gerð til að þóknast fólki sem ekki talar íslensku sem segir allt um viðhorfið til heimamanna.
Eigandi flugfélagsins er flugfélagið sem einu sinni hét því ágæta nafni Flugleiðir. Síðar ákváðu afar klárir gáfumenn að breyta nafninu í Icelandair. Þar sem enginn hörgull er á gáfumönnum á Íslandi tóku þeir sig til og bættu við einhverju um group á ensku og þótti flott að tengja við ensk fyrirtækjanöfn. Og nú á Icelandair group flugfélagið Icelandair sem á Iceland air connect.
Samkvæmt fréttinni er ætlunin að setja innanlandsflugfélagið beint undir utanlandsflugfélagið. Ekki er að efa að hinir alþjóðlega þenkjandi stjórnendur Íslandsflugs hljóti að geta komið með enskt nafn fyrir innanlandsflugið, nafn sem verulegt bragð er af fyrir útlendinga og við alþýða manna getum hvorki borið fram eða fest okkur í minni. Iceland air domestic most lovely connection, Iceland air clean eða eitthvað svoleiðis. Kætast þá gáfumenn út um alla móa.
Tillaga: Breyta hugsanlega um nafn.
2.
Ríflega tuttugu ára jólahefð brotin
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Líklegra er að hefði hafi verið rofin sem er auðvitað allt annað en að hún hafi verið brotin.
Stundum finnst mér að blaðmenn mættu hafa meiri orðaforða. Í fréttum segir stundum að eitthvað sé verra en áður. Auðvitað veltur það á umfjöllunarefninu en oft fer betur á því að segja að eitthvað sé lakara. Námsárangur barna getur verið verri en áður, en ef til vill er hann lakari. Nema hann sé betri og þó kann að vera að hann sé skárri.
Blæbrigð íslenskunnar geta verið stórkostleg sé orðaforðinn fyrir hendi og skrifarar kunni að beita honum.
Tillaga: Ríflega tuttugu ára jólahefð rofin.
3.
Þeir þurfa síðan að panta tíma fyrir þig í Covid test.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Aragrúi frétta fjalla um heimsfaraldurinn en afar sjaldgæft er að þríeykið eða aðrir sletti. Ávallt er tala um sóttkví, smit, sýnatöku, smitrakningar og svo framvegis og er það afskaplega gott og til eftirbreytni. Engin hörgull er á góðum íslenskum orðum sem túlka það sem skýra þarf.
Við þurfum þess vegna ekki Covid test, getum farið í sýnatöku á næstu heilsugæslu.
Tillaga: Þeir þurfa síðan að panta tíma fyrir þig í Covid sýnatöku.
4.
Annir kalla á aukna innviði.
Fyrirsögn á blaðsíðu 2 í viðskiptablaði Morgunblaðsins 25.11.20.
Athugasemd: Innviðir eru samkvæmt orðabókinni máttarviðir í húsi eða skipi. Í yfirfærðri merkingu er í hagfræðinni sagt að þeir séu undirstöður efnahagslífs, nefna má fjarskipta- og samgöngumannvirki, skóla, sjúkrahús og álíka. Enskir tala hér um infrastructure.
Allur andskotinn er nú orðinn að innviðum og sífellt er tönglast á orðinu rétt eins og til að gefa skrifum gáfulegra yfirbragð. Samlíkingin er orðin að leiðigjarnri klisju. Þar að auki gengur hún ekki alltaf upp. Svo marga innviði má setja í eitt hús að ekki verði lengur komist inn í það.
Fréttin fjallar um málefni íslenska fyrirtækisins með furðunafnið Isavia og Keflavíkurflugvallar og þar er talað um innviðauppbyggingu. Lesandinn veltir óhjákvæmilega fyrir sér hvað séu innviðir Keflavíkurflugvallar. Líklega flugbraut, flugstöðin, flughlað og annað sem nauðsynlegt má teljast. Í lok fréttarinnar segir:
Öll okkar verkefni snúa að því að geta bætt við afkastagetu og hafa hana sem hagkvæmasta.
Er þetta ekki kjarni málsins? Í stað hinnar óljósu klisju innviðuppbygging gæti komið hagkvæmni eða afkastageta. Eða bara telja upp það sem teljast burðarásar í starfseminni. Allt annað eru afleidd verkefni og því hvorki burðarásar né innviðir.
Tillaga: Annir kalla á meiri uppbyggingu.
5.
Enginn annar í teyminu en Víðir þurfti að fara í sóttkví, því Víðir brást fljótt við og afkvíaði sig.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Beinast liggur við að skilja þetta svo að maðurinn hafi hætt í kvínni, sóttkvínni. Má vera að sagnorðið afkvía sé tilbúningur blaðamannsins, það finnst að minnsta kosti ekki í orðabókinni sem ég fletti upp í.
Af er þarna forskeyti og getur merkt breytingu sem dregur úr einhverju. Nefna má afboða, þegar hætt er við eitthvað sem boðið hefur verið í. Svipað er með orð eins og aflýsa, aftengja, afhýða, aflífa og fleiri. Allir vita hvað þau merkja og hvernig upp byggð. Í ljósi þessa hlýtur sá sem er afkvíaður að vera farinn úr kvínni, sóttkvínni. En varla getur sá afkvíað sig sem ekki hefur þegar farið í kví. Dauð kind verður ekki aflífuð og varla verður sama eplið aftur afhýtt.
Málsgreinin er illskiljanleg og ekki vel skrifuð.
Svona getur farið þegar blaðamenn láta ekki einhvern lesa yfir fyrir sig.
Tillaga: Í teyminu þurfti enginn nema Víðir að fara í sóttkví og var hann fljótur að því.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.11.2020 kl. 07:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Bygging stækkuð með framkvæmdum og úteygð lagarök
23.11.2020 | 12:47
Orðlof
Gamaldags
Ef íslenska verður ekki nothæf eða notuð á öllum sviðum samfélagsins gæti hún fengið á sig þann stimpil að vera gamaldags og hallærisleg. Það gæti dregið úr áhuga fólks á að tileinka sér hana vel og leitt til þess að fólk leggi meiri áherslu á ensku vegna þess að það telji hana gefa meiri möguleika. [ ]
Það þarf samt að gæta þess að barátta fyrir íslenskunni snúist ekki upp í baráttu gegn enskunni. Enska er ekki óvinurinn enska er alþjóðlegt samskiptamál sem mikilvægt er að hafa gott vald á. Óvinurinn er andvaraleysi málnotenda og metnaðarleysi fyrir hönd íslenskunnar. Gegn því þarf að vinna.
Eiríkur Rögnvaldsson, vefsíða.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Krónan opnað í Austurveri.
Fyrirsögn á frettabladid.is.
Athugasemd: Fyrirsögnin er kæruleysisleg og hún er kolvitlaus. Sumir myndu segja að þarna vantaði einn staf. Þá myndi standa þarna Krónan opnaði . Engu að síður opnaði Krónan ekki neitt. Hún var hins vegar opnuð.
Síðar í fréttinni segir:
Matvöruverslun Krónunnar opnaði í Austurveri í dag
Ekki er við öðru að búast. Enginn leiðbeinir blaðamanninum. Hann er hvattur til að setja fréttir inn á vefinn, enginn les yfir. Vera má að orðalagið hafi ná fótfestu í málinu en það er ekkert skárra fyrir því vegna þess að auðveldlega má gera betur.
Tillaga: Krónan opnuð í Austurveri.
2.
en flugstöðvarbyggingin var stækkuð verulega með framkvæmdum síðustu ár.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Líklega hefði það heyrt til tíðinda hefði flugstöðin verið stækkuð án framkvæmda.
Blaðamenn og raunar fleiri skrifarar nota stundum of mörg orð þegar færri duga.
Tillaga: en flugstöðvarbyggingin hefur verið stækkuð verulega síðustu árin.
3.
Þess í stað hefðu lögfræðingar framboðsins sett fram útteygð lagarök sem ekki stæðust skoðun og ásakanir byggðar á ágiskunum.
Frétt á blaðsíðu 13 í Morgunblaðinu 23.11.20.
Athugasemd: Þegar ég las þetta varð ég fyrst hissa en svo hló ég (vandræðalega úteygur). Í gamla daga var ég í lagadeild en hætti eftir tvö ár, sem ég átti ekki að gera. Hins vegar veit ég fyrir víst að úteygð rök eru ekki til í lögfræðinni. Veit svosem hvað orðið úteygur merkir en fletti því upp svona til vonar og vara:
Úteygur er sá sem er með útstæð augu.
Og hvað með það?
Líklega er þetta þýðing á einhverju amerísku orðasambandi sem ég þekki ekki enda fór ég ekki í ensku í Háskólanum. Hins vegar væri reglulega fróðlegt að vita á ensku hvað dómarinn sagði.
Tillaga: Engin tillaga.
4.
Þá er Biden sagður ætla að skipa Lindu Thomas-Greenfield í embætti sendiherra Bandaríkjanna gagnvart Sameinuðu þjóðunum.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Enginn er sendiherra gagnvart öðru ríki eða alþjóðlegum samtökum. Réttara er að segja að maður sé sendiherra hjá Sameinuðu þjóðunum. Ísland er með sendiherra í Bretlandi og hjá Sameinuðu þjóðunum.
Eftir að hafa skrifað þetta gúgglaði ég sendiherra gagnvart. Stjórnarráðið notar þetta orðalag, Morgunblaðið, forsetaembættið, Íslandsstofa og fleiri merkar stofnanir. Engu að síður gengur það gegn máltilfinningu minni. Veit ekki með aðra.
Óþarfi er að byrja málsgreinina á atviksorðinu þá. Það hjálpar ekkert en er samt oft gert í fjölmiðlum.
Ofnotaðir frasar eru leiðigjarnir. Í fréttinni segir:
Hann er þar að auki vinur Bidens til margra ára
Af hverju er sjaldan sagt?
Hann hefur verið vinur Bidens í mörg ár
Þetta orðalag getur varla verið mjög gamalt. Sé að það var gagnrýnt í Morgunblaðinu hér:
Þetta orðalag er mjög í tízku um þessar mundir og hefur heyrzt og einnig sézt á prenti, ekki veit ég þó hversu lengi. Einhver hefur fundið upp á þessu og aðrir svo tekið það upp og þótt eitthvað við það.
Sagt er sem svo: Maðurinn hefur gegnt embættinu til margra ára.
Heldur finnst mér þetta tilgerðarlegt og sízt til bóta frá því að tala einungis um, að maðurinn hafi gegnt embættinu í mörg ár, eins og margir segja líka.
Þar sem mér finnst þetta tízkuorðalag fara í vöxt, vil ég vekja athygli á, að engin þörf er fyrir það í íslenzku máli.
Þetta skrifar JAJ sem er líklega Jón Aðalsteinn Jónsson (1920-2006) íslenskufræðingur og skrifaði hann fjölda málfarspistla í Morgunblaðið og var með þætti um íslenskt mál í Ríkisútvarpinu.
Tuttugu ár eru nú síðan Jón Aðalsteinn gagnrýndi orðalagið til margra ára og í dag er það ekki lengur frumlegt en er enn jafn tilgerðarlegt og það var.
Tillaga: Biden er sagður ætla að skipa Lindu Thomas-Greenfield í embætti sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum.
Æ nei, ekki enn einn alheimsfaraldurinn
Skopmynd í Morgunblaðinu.
Skop er háalvarlegt mál og óbætanlegur skaði af því að viðvaningar sjái um það í fjölmiðlum.
Faraldur er á ensku pandemic og það skýrir brandarann á ensku en á íslensku er hann sem galtóm skyrtunna.
Hver er annars munurinn á alheimsfaraldri og heimsfaraldri?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Forseti Perús, minningar sem eiga sér stað og sitjandi dómarar
18.11.2020 | 15:19
Orðlof
Tímapunktur
Ef hringt hafði verið á einhverjum tímapunkti um kvöldið er líklegast að hringt hafi verið einhvern tíma um kvöldið. Hringingin hefur vissulega hafist á ákveðnu andartaki og hægt er að sjá þann tímapunkt nákvæmlega í símkerfinu. Að öðru leyti er hann óþarfur og jafnvel hálf-asnalegur.
Málið, blaðsíðu 23 í Morgunblaðinu 17.11.20.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
að hún hafi fengið hita, hausverk og verki á líkamanum eftir fyrsta skammtinn af bóluefninu.
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Eftir að hafa nefnt hita, hausverk og verki er ofaukið að heimfæra þetta upp á líkamann. Verkir eru ekki verkir nema þeir séu líkamlegir, það vita allir (látum hér vera sálræna verki).
Raunar talar enginn um verki á líkamanum.
Tillaga: að hún hafi fengið hita, hausverk og aðra verki eftir fyrsta skammtinn af bóluefninu.
2.
Forseti Perús, Manuel Merino, sagði af sér í dag
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Sum landaheiti eru eins í öllum föllum. Hjákátlegt er að hafa Perú með essi í eignarfalli. Enginn fer til Kuala Lumpurs eða Síles.
Tillaga: Forseti Perú Manuel Merino sagði af sér í dag
3.
Prinsinn hefur áður lýst því yfir að hans bestu minningar af stangveiði hafi átt sér stað í Hofsá.
Frétt á frettabladid.is.
Athugasemd: Allt virðist eiga sér stað. Ofnotkun á þessu orðalagi er mikil. Þetta kom út úr hraðgúggli:
- Samtal sem verður að eiga sér stað innan íþróttafélaganna.
- Góð þróun að eiga sér stað í samsetningu nýskráðra bíla
- Undarlegir atburðir að eiga sér stað í Tónlistarskóla Sandgerðis.
- Heimsk hönnunarmistök sem áttu ekki að eiga sér stað
- Loftslagsbreytingar eiga sér stað
- Ótrúleg endurbót er að eiga sér stað.
- fjöldauppsagnir munu ekki eiga sér stað aftur.
- Telja samsæri eiga sér stað í Þýskalandi.
- Kulnun þarf ekki að eiga sér stað.
- Viðskipti sem eiga sér stað augliti til auglitis.
Og svona heldur þetta áfram í tuga-, hundraða- ef ekki þúsundavís. Í öllum þessum tilvikum er hægt að nota sagnorð eins og að gerast, verða, vera og svo framvegis.
Að sjálfsögðu kann að vera þörf á því að nota orðalagið að eiga sér stað en öllu má nú ofgera.
Í talmáli segjum við bestu minningar hans, en blaðamenn skrifa margir hverjir hans bestu minningar. Þetta er ekki er rangt, né heldur að segja mínar bestu minningar eru af fjöllum, kemur á sama stað niður og segja að bestu minningar mínar eru af fjöllum. Þó er á þessu nokkur munur. Furðu vekur að sumir kjósi að breyta einföldu talmáli í stirt ritmál.
Tillaga: Prinsinn hefur áður sagt að hann eigi bestu minningar sínar frá stangveiði við Hofsá.
4.
Verkefnið, sem ber heitið ODEUROPA, felst í að kanna, lýsa og endurskapa hvern þann keim sem Evrópubúar fyrri alda kunna að hafa þefað uppi.
Frétt á blaðsíðu 11 í Morgunblaðinu 19.11.20.
Athugasemd: Orðalagið að þefa uppi merkir að finna einhvern eða eitthvað með því að ganga á lyktina. Merkingin er ekki sú sem frá segir í tilvitnuninni, heldur að fólk á fyrri öldum hafi með ákveðna lykt í umhverfi sínu sem ætlunin er að greina.
Á vef Odeurpa segir frá þessu verkefni. Í fljótu bragði er ekki hægt að sjá að það gangi út á að endurskapa lykt. Á vefnum segir:
Amongst the questions the Odeuropa project will focus on are: what are the key scents, fragrant spaces, and olfactory practices that have shaped our cultures? How can we extract sensory data from large-scale digital text and image collections? How can we represent smell in all its facets in a database? How should we safeguard our olfactory heritage? And why should we?
Þetta útleggst á þá leið að ætlunin er að segja frá þeim ilmi eða lykt sem var algeng, hvernig lykt var í hýbýlum fólks, lykt af því sem var skemmt og hvernig þetta hefur mótað menninguna. Ætlunin er að setja þessar upplýsingar í gagnabanka og þá er það vandamálið hvernig merkja eigi einstaka lykt. Og talað er um lyktararf. Þetta er allt mjög háfleygt en ábyggilega mjög gagnlegt.
Tillaga: Engin tillaga.
5.
Aukin tíðni heilabilunar hjá knattspyrnufólki er rakin til þess að boltinn er skallaður og þá eru höfuðhögg í leiknum sögð spila stórt hlutverk.
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Ekki bara fólk spilar hlutverk heldur líka dauðir hlutir. Blaðamaðurinn hefði hæglega getað orðað þetta á annan veg, til dæmi að höfuðhögg valdi skaða, þau geti haft slæmar afleiðingar og svo framvegis.
Með gúggli má finna ótrúlega margar máttlausar setningar með þessu orðalagi. Engu líkar en að blaðamenn og aðrir skrifarar kunni ekki annað:
- Gjaldeyrishöftin spila stórt hlutverk
- Ísland getur spilað stórt hlutverk
- Fallegir fylgihlutir spila stórt hlutverk
- Kína spilar stórt hlutverk
- Gen spila stórt hlutverk í ófrjósemi
- Frystikista spilar stórt hlutverk
- Ríkið spilar stórt hlutverk sem lánveitandi
- Sinfónísk tónlist spilar stórt hlutverk í teiknimynd
- Vegglistaverk spilar stór hlutverk í garði
- Galdrar spila stórt hlutverk í lífi fólks
Held að hér sé nóg komið, ekki bara hér heldur er þessi frasi orðinn heldur merkingarlaus og um leið ærið máttlaus. Og loks má spyrja í ljós þess sem segir í lið númer tvö: Jólin eiga sér stað í lok desember og spila stórt hlutverk í lífi fólks. Þvílík della.
Tillaga: Engin tillaga.
6.
Sitjandi dómarar við Hæstarétt hafa gríðarmikla dómarareynslu.
Leiðari Fréttablaðsins á blaðsíðu 14, 18.11.20.
Athugasemd: Hvað merkir sitjandi dómari í Hæstarétti? Getur verið að leiðarahöfundur telji að ekki dugi að vera dómari heldur þurfi að bæta því við að hann sé sitjandi?
Nei, þetta er mikill misskilningur. Annað hvort er maðurinn dómari eða ekki, skiptir engu hvort hann sitji, standi, gangi eða hlaupi. Eftir atvikum má orða það þannig að hann sé starfandi dómari þegar hann er ekki í fríi eða veikur.
Orðið sitjandi bætir engu við, er bara enskt bull sem á ekki heima í íslensku.
Vera má að sitjandi ritstjóri Fréttablaðsins haldi að sitjandi leiðaraskrifari sé eitthvað skárri en sitjandi blaðamaður útgáfunnar. Það er hins vegar mikill misskilningur rétt eins og að kalla maka einhvers sitjandi maka vegna þess að skilnaður er yfirvofandi.
Tillaga: Dómarar við Hæstarétt hafa gríðarmikla dómarareynslu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Eiga samtal, silfurskeið í heimanmund og kviss
15.11.2020 | 11:00
Orðlof
Appelsínugulur
Nú vita líklega allir hvaða lit er átt við þegar sagt er að eitthvað sé appelsínugult.
Þetta orð er þó ekki gamalt í málinu, og virðist ekki fara að breiðast út fyrr en eftir 1960 þegar appelsínur fóru að verða algengari sjón hér á landi.
Liturinn var þó vitaskuld þekktur áður, en var þá kallaður rauðgulur.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Herra forseti, ég hlakka til að eiga samtal við þig.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Stundum er málinu skrýtilega beitt. Þarna hefði til dæmis farið betur á því að nota sögnin að ræða frekar en nafnorðið samtal.
Í fréttinni er sagt frá verðandi forseta Bandaríkjanna sem vill ræða við núverandi forseta en sá síðarnefndi gefur ekki færi á því.
Orðalagið að eiga samtal ber er dálítið enskt, eiga fund, eiga samræður, eiga tal. Svo fletti ég upp í enskum fjölmiðlum. Á Sky er haft eftir Biden:
Mr President, I look forward to speaking with you.
Blaðamaðurinn þarf að vera smitaður af nafnorðasýki til að þýða þetta á annan veg en segir í tillögunni.
Í íslensku máli er megináhersla lögð að notkun sagnorða. Enskan er nafnorðamál. Fyrir alla muni ekki vera svo mikið á kafi í ensku að gæta ekki að einkennum íslenskunnar í þýðingum.
Tillaga: Herra forseti, ég hlakka til að ræða við þig.
2.
Vincent Tan er fæddur árið 1952 og hlaut ekki silfurskeið í munni í heimanmund.
Frétt á blaðsíðu 12 í Morgunblaðinu 13.11.20.
Athugasemd: Heimanmundur er samkvæmt orðabókinni:
meðgjöf sem brúður fær með sér að heiman þegar hún gengur í hjónaband
Óljóst er hvað átt er við með orðalaginu. Einna helst má ráða að fjölskylda hans hafi verið fátæk. Sé svo hefði verið gráupplagt að orða það þannig.
Svo er það þetta með silfurskeiðina. Yfirleitt er talað um að fæðast með silfurskeið í munni, ekki að henni sé troðið upp í börn síðar á lífsleiðinni.
Í bókinni Mergur málsins segir um orðalagið.
Hljóta gott atlæti (allt) frá fæðingu; eiga vel stæða foreldra. [ ] Líkingin dregin af því er börnum (vel stæðra foreldra) er gefin silfurskeið í fæðingargjöf.
Hér hefur greinilega eitthvað misskilist hjá blaðamanninum.
Tillaga: Vincent Tan er fæddur árið 1952, fjölskyld hans var fátæk.
3.
Hann kljáðist einnig við fjölda annarra heilsubresta.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Sögnin að kljást við merkir að berjast við. Þó orðið komi svolítið ankannalega fyrir sjónir í þessu samhengi er ekkert að því. Einfaldara er samt að segja að maðurinn hefði barist við, átt við að etja og svo framvegis.
Allt annað er með nafnorðið heilsubrestur sem er eintökuorð og því ekki til í fleirtölu. Hins vegar er nafnorðið brestur til bæði í eintölu og fleirtölu.
Tillaga: Hann átti einnig við margvíslegan annan heilsubrest að etja.
4.
Að auki ber Björn ábyrgð á tveimur gríðarvinsælum spilum sem landsmenn hafa slegist um en þetta eru að sjálfsögðu Pöbbkviss og Krakkakviss
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Ólíkt hafast menn að. Þeir eru til sem halda að allt sem á rót sína að rekja í enskt mál sé best í öllum heimi. Virðingin fyrir íslenskunni er engin og um að gera að eiga þátt í því að geta út af við hana.
Hugmyndaflugið takmarkast við kviss en ekki gátur, getraunir, spurningaleiki, ágiskun, þrautir og svo framvegis. Nei, kviss skal það vera. Aðþíbara.
Fyrir þá sem ekki vita getur forvitinn á ensku verið inquisitive. Af því er leitt orðið quiz sem meðal annars þýðir spurningakeppni og er mikið notað í enskumælandi löndum. Eftir að orðinu hefur verið nauðgað inn í íslensku er það skrifað kviss sem er álíka íslenskt eins og sjitt.
Svo eru það hinir sem nota tungumálið af list og næmleika sem er raunar einkenni þeirra sem víða hafa ratað en kjósa að tala íslensku við viðskiptavini sína.
Um þetta fólk segir í frettabladid.is:
Það hefur verið mikil umræða um slaka stöðu íslenskunnar og minnkandi lestrarfærni. Orðagull er einmitt ætlað til að efla bæði málþroska og læsi.
Já, ólík er nálgunin.
Tillaga: Engin tillaga.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Standa á herðum þeirra, alvarleiki áverka og sigra væntingar
11.11.2020 | 01:09
Orðlof
Ástaraldin
Núorðið má sjá í verslunum ýmsa torkennilega ávexti sem heita margvíslegum nöfnum. Einn þessara ávaxta ber heitið passion fruit á ensku og rómantískir verslunareigendur gáfu honum hið fallega nafn ástaraldin.
Þessi þýðing mun þó ekki vera kórrétt, því passion í enska heitinu vísar í píslarsöguna, um dauða og upprisu Jesú Krists (sbr. Passíusálmana).
Ástaraldinið ætti því með réttu að heita píslarpera eða eitthvað í þá áttina.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Ég stend á herðum þeirra, sagði hún.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Þetta er ómöguleg þýðing á orðum Kamila Harris sem er nýkjörinn varaforseti Bandaríkjanna. Hún er ekki að tala um fimleika heldur þá arfleifð sem hún byggir á í hinni nýju stöðu.
Á ensku er sagt: stand on their shoulders. Þetta þýðir enska orðabókin sem svo:
benefit from the previous experience of (a predecessor in your field).
Þetta útleggst þannig að njóta reynslu og þekkingar forvera sinna, þeirra sem rutt hafa brautina eða genginna kynslóða.
Blaðamenn verða að varast beinar þýðingar. Það er hreinlega ótrúlegt þegar þeir þýða eins og Google Translate. Beinni þýðingu fylgir svo hræðileg uppgjöf fyrir utan þann skaða þegar sum orð eða orðalag festast í málinu. Ótal dæmi eru um slíkt; kalla eftir er eitt þeirra.
Tillaga: Ég nýt reynslu þeirra sem ruddu brautina.
2.
Alvarleiki áverka fólksins liggur ekki fyrir að svo stöddu
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Þarna hefði verið betra að orða þetta eins og segir í tillögunni. Engin ástæða er að klæða frétt í einhvern kansellístíl. Einfalt orðalag er best.
Tillaga: Ekki er vitað hversu mikið fólkið er slasað
3.
50 milljónir smita á heimsvísu.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Er skýrara og betra að tala um heimsvísu eða heiminn? Blaðamenn ofnota orð og orðatiltæki. Einfaldleikinn er bestur. Berum saman fyrirsögnin og tillöguna hér fyrir neðan. Hvort er eðlilegra?
Tillaga: 50 milljónir smita í heiminum.
4.
Strax á kosninganótt varð ljóst að Trump hafði sigrað væntingar
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Blaðamenn tala oft um að einhver sigri keppi, sigri mót, sigri kosningar og það nýjasta er að sigra væntingar. Þetta er varla tilviljun. Hver getur ástæðan verið? Er fólk ekki betur að sér? Vonlaust er að sigra keppni. Hægt er að sigra í keppni, móti og kosningum.
Í fréttinni segir:
Það breytir þó engu um úrslitin, enda Biden að gjörsigra bæði ríkin.
Í hverju sigraði frambjóðandinn þessi ríki. Ekki í kosningum því þau voru ekki í framboði. Blaðamaðurinn gleymdi forsetningunni í eða taldi hann sig ekki þurfa á henni að halda, lesendur áttu bara að giska á hvað hann átti við. Maðurinn sigraði í kosningunum í báðum ríkjunum.
Í fréttinni segir:
Þá eru úrslit óljós í Georgíu, þó þar stefni vissulega í Biden sigur.
Hann á væntanlega við sigur Bidens sem er eðlilegra orðalag.
Ennfremur segir í fréttinni:
Líklegast þykir að Biden taki Georgíu og Arizona af þeim ríkjum hvers úrslit eru enn óljós.
Er ekki betra að segja en í þeim eru úrslitin ekki að full kunn?
Nástaðan er hryggileg í fréttinni:
Það er stærri sigur en Trump sigraði með árið 2016 og stærri en báðir sigrar George W. Bush. Reyndar má benda á að engin forseti sem sigraði með milli 300 og 309 kjörmönnum sat tvö full kjörtímabil.
Þarna er orðið sigur óþarflega oft endurtekinn. Annar staðar er sögnin að vinna álíka oft notuð að þarflausu. Ritstjórar lesa aldrei fréttir yfir fyrir birtingu en hefðu átt að gera það og biðja blaðamanninn um að endurskrifa hana, vanda sig betur.
Og loks segir blaðamaðurinn og heita má að hann höggvi enn í sama knérunn:
Kosið verður á ný um tvö sæti Georgíu í öldungadeildinni í janúar. Sigri Demókratar hana
Sigri kosninguna? Svona skrif eru alls ekki góð.
Tillaga: Strax á kosninganótt varð ljóst að Trump hafði staðið sig betur en búist var við
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Maður með annmörkum, hún stígur til hliðar og sigra kapphlaup
5.11.2020 | 11:42
Orðlof
Eftir einhverja daga
Óákveðna fornafnið einhver stendur oft með nafnorði og merkir þá ótiltekinn, t.d. þegar sagt er Það kom einhver maður og sótti böggulinn.
Nú eru sumir farnir að nota þetta orð á nýstárlegan hátt og segja t.d.
Ég kem eftir einhverja fimm daga
eða
Launin hækkuðu um einhver þrjú prósent.
Í dæmum af þessu tagi merkir einhver því um það bil, hér um bil.
Enn virðist þessi notkun einskorðast við talmál og fornafnið kemur undarlega fyrir sjónir í þessu samhengi. Mætti láta sér detta í hug að þarna gætti áhrifa frá ensku því þar getur fornafnið some einhver staðið í svipuðu umhverfi.
[Þess ber hér að geta að orðið er fyrir löngu komið inn í ritmál, sérstaklega í fjölmiðlum. SS.]
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
burður k. það að bera; byrði; fæðing; fóstur, afkvæmi; ætterni, ; sbr. fær. burður, nno. bur(d), sæ. börd, d. byrd, fe. gebyrd, fhþ. giburt, ne. birth, nhþ. geburt, gotn. gabaurþs fæðing, ætterni. Sbr. fi. *bhrÌ¥tí- það að bera, fír. breth, brith burður, fæðing. Sk. byrði (1) og so. bera; burður fæðing, afkvæmi, ætterni af bera fæða, ala afkvæmi < *ga-beran.
Íslensk orðsifjabók.
Athugasemd: Þetta er nú meiri grauturinn og varla fyrir aðra en innvígða að skilja. Við hin hrökklumst á brott. Má vera að þeir sem eru þráir og með einhvern bakgrunn gætu lagt í að lesa og jafnvel skilja.
Málfræðilegar skýringar hafa lengst af verið skrifaðar með fjölda skammstafana. Á tölvuöld eru þær jafnslæmar ef ekki verri en slettur sem margir bregða fyrir sig í ræðu og riti á íslensku sér til upphafningar.
Fyrir tölvuöld voru skammstafanir mikið notaðar í prentuðu máli; þær spöruðu pláss, auðveldara var að jafna línur til hægri. Nú á tímum þurfum við ekki að spara pláss, nóg er af því.
Vissulega eru skammstafanir ekki alltaf slæmar. Nefna má fjölmargar sem komin er hefð á. Til dæmis hf. (hlutafélag), ehf (einkahlutafélag), kl. (klukkan), kr. (króna) og álíka.
En öllu má nú ofgera. Eftirfarandi gátu geta lesendur reynt að leysa sér til gamans í faraldrinum.
Umr. í stj. vkf. Framsóknar var þssá. að p. í ritstj. tímarits rslm. njósnaði um vmf. í Rvk. og á Vl. Þetta voru nk. persónuofsóknir, möo. ólýðræðislegar aðgerðir sem hrl. staðfesti og sagðist kavs. eftir að keypt hljv. fh. annars. Var þetta fskj. sönnun. Vkf. samþ. að efoar. að kæra hrl. fyrir aths. í nmgr. á fksj. fyrn. hrl. sem hrópaði líkt og Hos. gsl. að þetta var ekki kgsúrsk. með ls. heldur
Hægt er að ráða í bullið með því að nýta sér skammstöfunarlykla hér. Athygli vekur þó að þetta er lítt læsilegra en textinn sem vitnað er í.
Samkvæmt orðabókinni merkir íðorð orð sem tilheyrir ákveðnu sérsviði, fræðiorð, fagorð. Mikið og vel hefur verið unnið að íðorðum og söfn þeirra eru orðin mikil að vöxtum. Skyldi vera kominn tími til að málfræðingar tækju sig til að byggðu sitt eigið íðorðasafn svo við hin getum skilið þá?
Ég bið lesendur afsökunar á því að hafa enga tillögu fram að færa sem sé skárri en tilvitnunin. Vissulega reyndi ég mig við þýðinguna en gafst upp.
Tillaga: Engin tillaga.
2.
Þar er Corbyn sakaður um alvarlega annmarka í leiðtogastóli og
Fréttaskýring á blaðsíðu 14 í Morgunblaðinu 30.10.20.
Athugasemd: Hvað er annmarki? Í orðabókinni er sagt að orðið merki fyrirstaða, galli. Í lögfræði er annmarki sagður galli á málatilbúnaði og getur hann verið þess eðlis að dómari vísi því frá eða að minnsta kosti þeim hluta rökfærslunnar.
Næst er sjálfsagt að spyrja hvort maður getur verið haldinn annmörkum. Dæmi eru um að fötlun sé sögð annmarki, einnig andleg veikindi og annað sem tengist heilsufari. Draga má þó stórlega í efa að það sé rétt notkun á orðinu.
Í Mogganum er talað um annmarka Corbyns. Ekki er ljóst hvaða orð höfundurinn er að reyna að segja, hugsanlega er hann að þýða ensku orðin flaw eða fault.
Betra hefði verið að tala um dómgreindarbrest eða annað sem bendir til að maðurinn hafi ekki staðið sig sem skyldi.
Tillaga: Engin tillaga.
3.
Elísabet Englandsdrottning mun stíga til hliðar innan sex mánaða og
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Blaðamaðurinn áttar sig ekki alveg á því hvað Englandsdrottning muni gera. Hann segir réttilega í megintexta að hún muni afsala sér krúnunni. Það fer ekki saman við það að stíga til hliðar. Hvað hún á að gera þarna til hliðar er ekki ljóst.
Á vef Express segir í fyrirsögn:
Queen abdication: Monarch to STEP DOWN next year
Enska orðið abdiction er þarna konungleg afsögn. Express segir að konan muni step down sem þýðir að hætta. Blaðamaður Moggans þýðir step down með stíga til hliðar. Þetta er eins og dans.
Börn í barnaskóla læra og syngja þessa vísu:
Tvö skref til hægri
og tvö skref til vinstri.
Beygja arma, rétta arma,
klappi, klappi, klapp.
Þarna stíga börnin tvö skref til beggja hliða og enda á sama stað. Vera má að konan í hásætinu stígi niður og svo aftur upp og klappi síðan höndum. Hver veit? Ekki ég. Og varla blaðamaðurinn.
Tæknilega er ekkert því til fyrirstöðu að sá sem stígi niður, til dæmis úr tröppu, stígi jafnframt til hliðar, það er við tröppuna.
En þetta skiptir engu máli. Blaðmaðurinn hefði bara getað sagt að drottningin muni hætta. Allir skila hvað þá átt er við.
Tillaga: Elísabet Englandsdrottning mun hætta innan sex mánaða og
4.
Að sama skapi á Biden 90 prósent séns á að verða forseti.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Gaman er að sletta ensku. Hef þá trú að allir haldi þá að ég sé afar vitur og klár, vel að mér í ensku. Guð hjálpi mér ef allir vissu hið sanna um gáfur mínar.
Séns er afskaplega góð og falleg sletta. Á ensku er orðið skrifa chance. Miklu betra en íslensku orðskrípin líkur, möguleiki, kostur, horfur og álíka.
Slettustefna Ríkisútvarpsins er ábyggilega með vitund og vilja málfarsráðgjafa þess. Aðrir fjölmiðlar njóta ekki samskonar ráðgjafar sem þó veitti ekki af enda er þar slett og sullað gjörsamlega stefnulaust. Slíkt er ógæfusamlegt og lítt til farsældar fallið.
Tillaga: Að sama skapi eru níutíu prósent horfur á að Biden verði forseti.
5.
Enn er óljóst hver sigrar kapphlaupið að Hvíta húsinu
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Enginn sigrar kapphlaup. Aftur á móti geta allir reynt að sigra í kapphlaupi. Á þessu er grundvallarmunur.
Hlauparinn Hlynur Andrésson hljóp í mars síðastliðnum tíu km á 29:49 mínútum og er það Íslandsmet. Margir vilja sigra Hlyn og jafnvel bæta Íslandsmetið. Engum er þó mögulegt að sigra 10 km hlaupið vegna þess að hlaupið tekur ekki þátt.
Mér finnast klisjur í fréttum ansi leiðinlegar og sjaldnast gera þær fréttirnar auðskiljanlegri. Blaðamaðurinn fer ekki einu sinni rétt með klisjuna. Ætti að vera kapphlaupið um Hvíta húsið vegna þess að þetta er sagt í óeiginlegri merkingu. Betra hefði verið að tala einfalt mál og segja:
Úrslitin í forsetakosningunum í Bandaríkjunum eru enn óljós
Allir skilja einfalt mál.
Tillaga: Enn er óljóst hver sigrar í kapphlaupinu um Hvíta húsinu
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kaupa heimili, segjast frelsissviptir, tveir foreldrar og extra snemma
28.10.2020 | 23:24
Orðlof
Elska
Sögnin elska er einhver dýrmætasta sögn í íslenskri tungu. Allir vita hvað hún merkir, að bera ástarhug til einhvers. Almennt hefur hún bara verið notuð um manneskjur eða í hæsta lagi dýr þótt vissulega hafi Hannes Hafstein (1861-1922) ort:
Blessuð sólin elskar allt,
allt með kossi vekur,
haginn grænn og hjarnið kalt
hennar ástum tekur.
Þetta er þó líkingamál en ekki dæmi um venjulega málnotkun.
Á síðari tímum hafa verið brögð að því að elska sé ekki einungis höfð um lifandi verur heldur líka dauða hluti og jafnvel ýmislegt annað. Um leið sljóvgast merkingin og verður nánast líkar (vel) við; hef ánægju af.
Því er ekki að neita að nokkuð dregur úr gildi yfirlýsingarinnar Ég elska þig þegar í ljós kemur að sá sem það segir elskar líka tölvuna sína og það að syngja í kór.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Sylvía keypti eitt fallegasta heimili Seltjarnarness.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Ekki er hægt að kaupa heimili. Þau ganga ekki kaupum og sölum. Hús og íbúðir eru tíðum til sölu og ósjaldan keypt.
Á málið.is segir um heimili:
bústaður (með tilheyrandi húsgögnum og áhöldum) til einkanota manns (fjölskyldu) að staðaldri
Heimili er það sem fólk býr sér, í einbýlishúsum, tvíbýlishúsum, parhúsum, blokkaríbúðum eða jafnvel tjaldi.
Bandaríska hljómsveitin The Temptations sögn meðal annars áhrifaríkt lag sem byrjar svona: It was the third of september og viðlagið er á þessa leið:
Papa was a rolling stone
Wherever he laid his hat was his home
And when he died, all he left us was alone
Papa was a rolling stone (my son, yeah)
Wherever he laid his hat was his home
And when he died, all he left us was alone
Betra að hlusta á lagið á YouTube, sjá til dæmis hér. Stórkostleg tónlist og einstakur flutningur.
Tillaga: Sylvía keypti eitt fallegasta hús á Seltjarnarnesi.
2.
Margir Repúblikanar hafa svo til gefist upp á voninni um að halda í Hvíta húsið.
Fyrirsögn á dv.is.
Athugasemd: Þetta er illa orðuð málsgrein. Raunar arfaslæm. Yfirleitt missir maður vonina, varla hægt að segja að við gefumst upp á henni.
Með orðunum svo til á blaðamaðurinn líklega við næstum því. Svo til skilst illa þarna. Blaðamaðurinn ætlar örugglega að segja að forsetakosningarnar séu næstum því tapaðar en þess í stað fer hann fjallabaksleið og segir að þeir séu vonlitlir að halda í Hvíta húsið.
Margir blaðamenn reyna í sífellu að skreyta skrif sín með klisjum og álíka.
Jónas Kristjánsson benti á þetta:
Skrifaðu eins og fólk, ekki eins og fræðimenn.
Reglur Jónasar um stíl eru þessar:
- Skrifaðu eins og fólk, ekki eins og fræðimenn.
- Settu sem víðast punkt og stóran staf.
- Strikaðu út óþörf orð, helmingaðu textann.
- Forðastu klisjur, þær voru sniðugar bara einu sinni.
- Keyrðu á sértæku sagnorði og notaðu sértækt frumlag.
- Notaðu stuttan, skýran og spennandi texta.
- Sparaðu lýsingarorð, atviksorð, þolmynd, andlag og viðtengingarhátt.
- Hafðu innganginn skýran og sértækan.
Blaðamaðurinn sem skrifaði þessa frétt hefði betur lesið reglur Jónasar. Hann fellur á nærri öllum reglunum.
Hann hefur sérstakt dálæti á því að byrja setningar á atviksorðinu þá, notar það fimm sinnum. Það er ekki rangt en öllu má nú ofgera og eiga margir blaðamenn bágt vegna misnotkunar á því orði. Ofnotkun orða getur bent til lítils orðaforða.
Vita annars yngri blaðamenn hvað inngangur er? Honum er afar sjaldan beitt. Þess í stað er byrjað á illa samsettri sögu og stundum er ekki komið að aðalatriðinu fyrr en í miðju fréttar eða aftast.
Tillaga: Margir Repúblikanar hafa næstum því misst vonina og telja forsetakosningarnar tapaðar.
3.
Hælisleitendur segjast frelsissviptir á Ásbrú.
Fyrirsögn á frettabladid.is.
Athugasemd: Ekki er reisn yfir orðinu frelsissviptur, hvorki er uppbygging þess góð né merkingin. Sviptur frelsi, njóti ekki frelsis er miklu betra.
Í upphafi fréttarinnar segir:
Hælisleitendur hafa kvartað yfir aðstæðum á Ásbrú og segja að öryggisverðir séu að halda þeim föngnum eftir að hertar takmarkanir tóku þar gildi.
Þetta er vont, kallast nafnháttarsýki. Miklu betra að tala eðlilega, segja að öryggisverðir hafi haldið þeim föngnum. Sá er sviptur frelsi sem haldið er föngnum. Þetta gat blaðamaðurin sagt réttilega
Fyrir tólf árum sagði Ómar Ragnarsson í bloggi sínu:
Ég giska á að veðurkonan hafi sagt oftar en tíu sinnum
"við erum að sjá að
",
ég er að gera ráð fyrir að
o. s.frv..
Í stað þess til dæmis að segja:
Það fer að hvessa" er sagt "við erum að sjá að það fer að hvessa" eða
ég er að gera ráð fyrir að það fari að rigna" í stað þess að segja einfaldlega það rignir" eða það fer að rigna."
Hann Ómar ætti að tala meira um málfar í pistlum sínum. Flestir taka mark á honum.
Tillaga: Hælisleitendur segjast vera sviptir frelsi sínu á Ásbrú.
4.
En talandi um foreldra, þá á ég tvo.
Bakþankar á baksíðu Fréttablaðsins 27.10.20.
Athugasemd: Maðurinn sem þetta skrifar á eina foreldra, það er tvö foreldri.
Í máfarsbankanum segir:
Nafnorðið foreldrar er fleirtöluorð í karlkyni. Einir, tvennir, þrennir, fernir foreldrar.
Einnig er til hvorugkynsorðið foreldri sem hægt er að hafa eftir þörfum í eintölu eða fleirtölu.
- Jón og Elín eru foreldrar hans.
- Jón og Elín eru tvö foreldri og einir foreldrar.
- Jóna og Elías eru foreldrar hennar.
- Jón og Elín og Jóna og Elías eru fjögur foreldri og tvennir foreldrar.
Höfundur Bakþanka segir:
Af öllu því merkilega sem foreldrar mínir hafa gert á lífsleið sinni þá þykir mér vænst um minn eigin getnað, sem hefur alla tíð komið sér vel fyrir mig.
Dálítið skondið orðalag en gæti valdið misskilningi ef höfundurinn tæki ekki af skarið í næstu málsgreinum og skýrði þetta út. Annars mætti halda að með orðalaginu eigin getnaður væri maðurinn að tala um þau börn sem hann hefði sjálfur getið. En nú er ég bara að snúa út úr.
Tillaga: En talandi um foreldra, þá á ég eina.
5.
Í kjölfar COVID-19 faraldursins hafa fjöldamörg fyrirtæki á heimsvísu opnað á fjarvinnu sem áður studdu ekki við það.
Frétt á stjr.is. og frettabladid.is.
Athugasemd: Hér áður fyrr var talað um alþjóðleg fyrirtæki en nú finnst undirmálsfólki betra að segja fyrirtæki á heimsvísu. Ástæðan er líklega sú að þeir sem hamra svona á tölvuborðið eru hvorki vanir skrifum eða búa yfir nægum orðaforða. Sumir stjórnmálamenn, ráðherrar og ekki síður aðstoðarmenn þeirra eru illa skrifandi og þetta er glöggt dæmi um slíkt.
Hægt er að orða ofangreinda málsgrein á marga vísu þó svo að heimsvísunni sé sleppt.
Í fréttinni segir á báðum miðlum:
Að frumkvæði nýsköpunarráðherra hefur undanfarna mánuði verið unnið að því, í samvinnu við dómsmálaráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið og Skattinn ofl., að útfæra heimild fyrir einstaklinga sem eru í föstu ráðningarsambandi við erlend fyrirtæki að dvelja og starfa hér á landi í sex mánuði.
Þetta er aldeilis fínt stofnanamál. Þarna er talið betra að kalla starfsmenn erlendra fyrirtækja einstaklinga sem eru í í föstu ráðningarsambandi við erlend fyrirtæki. Við, alþýða manna, tölum ekki svona, hugsum ekki svona og myndum aldrei láta eftir okkur að berja svona kansellístíl í tölvuna. Það myndi skemma hana.
Tillaga: Alþjóðleg fyrirtæki sem áður sinntu lítið fjarvinnu hafa nú tekið hana upp vegna Covid faraldursins.
6.
Í Hafnarfirði eru bæjarbúar hvattir til þess að skreyta extra snemma til þess að lífga upp á skammdegið
Frétt mbl.is.
Athugasemd: Aumt erða, maður. Þarna skreytir blaðamaður sig með útlensku en markmiðið er ekki það sem bæjarstjórinn í Hafnarfirði á við enda er þetta haft eftir honum í viðtalinu:
að leggja okkar af mörkum til að færa meiri birtu, yl og gleði í hjörtu fólks þá væri það núna.
Vel má vera að blaðamaðurinn sé sigldur og kunni útlensk mál en hann þyrfti að æfa sig í íslenskunni og sama á við yfirmenn hans. Við þá er að sakast að maður fyllist ekki birtu, yl eða gleði við lesturinn.
Tillaga: Í Hafnarfirði eru bæjarbúar hvattir til þess að skreyta mjög snemma til þess að lífga upp á skammdegið
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Minnsti rasistinn, barn nr. 2 og þéttriðin klíka
24.10.2020 | 12:04
Orðlof
Ástríða
Ástríða er í hugum margra tengd ástinni enda er þetta tvennt oft nefnt í sömu andránni.
Sjálf orðin, ást og ástríða, eru þó af ólíkum toga.
Ástríða er samsett úr forsetningunni á og sögninni stríða en nafnorðið ást kemur þar hvergi nærri.
Ástríða er sem sagt það sem stríðir á huga manns og hann kemst ekki undan það er svo önnur saga að þetta á gjarnan við um ástina.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Á tímabili varð greinileg sprengja þar sem virtist eins og allir og amma þeirra væru að keppast við að verða áhrifavaldar.
Frétt á blaðsíðu 12 í Morgunblaðinu 19.10.20.
Athugasemd: Hér er skemmtilega að orði komist og frekar óvænt. Ekki nóg með að allir vilji verða áhrifavaldar heldur bætist amman í hópinn sem getur eiginlega tvöfaldað hann. Þá eru þeir orðnir margir.
Þá víkur sögunni að orðinu áhrifavaldur. Nær eingöngu á það nú við um fólk sem hvetur annað til ákveðinna lífshátta, til dæmis með kaupum á tiltekinni vörur.
Í ensku orðabókinni Lexico segir:
Influencer: A person with the ability to influence potential buyers of a product or service by promoting or recommending the items on social media.
Ég hef það á tilfinningunni að enska orðið influencer sé ekki eins tilkomumikið og áhrifavaldur
Friðrik Agni segir í grein á visir.is:
En ég er farinn að fá smá nóg af þessu hugtaki áhrifavaldur og notkun þess hér heima og kannski almennt. Því yfirleitt ef það er frétt um einhvern áhrifavald þá er það einhver á Instagram sem allavega ég veit ekkert hver er eða hvar hún/hann er þekktur fyrir. [ ]
Oftast þegar ég skoða áhrifavaldinn nánar þá eru það partýmyndir, hálfnektarmyndir, lúxusferðalög o.fl. o.fl. Ég velti því fyrir mér hvaða áhrif þessi manneskja er að hafa raunverulega og hvern er hún að hafa áhrif á? Er hún að stuðla að aukinni neysluhyggju (og er það gott?) eða einhverskonar hugmynd um kynlíf/kynóra? Ég hreinlega veit það ekki.
Nokkuð góð skrif.
Tillaga: Engin tillaga.
2.
Smitsjúkdómalæknir setur spurningarmerki við að hundruð barna fari í sóttkví ef eitt barn greinist.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Orðalagið að setja spurningarmerki við eitthvað er orðið mjög útbreitt og er ekki átt við að setja táknið á eftir spurningu. Mér finnst þetta ósköp flatt í ritmáli vegna þess að hægt er að orða þetta á svo fjölbreytilegan máta ef þekkingu skortir ekki.
Hér eru nokkur dæmi um notkunina sem fundust við leit á Google. Þess skal getið að rita skal spurningarmerki, það er með r í enda fyrri hluta orðsins:
- Setja spurningamerki við ríkisábyrgðina til Icelandair
- Setja spurningamerki við játningar dæmds morðingja
- Setja spurningamerki við Boeng flugflotaann
- Ástæða til að setja spurningamerki við öra fjölgun hótelrýma
- Ekki setja spurningamerki við kyntjáningu barnssins
- Að setja setja spurningamerki um heiðarleika hans á þessu augnabliki
Þarna er betra og skýrara að segja vekja athygli á, draga í efa, benda á og svo framvegis.
Tillaga: Engin tillaga.
3.
Hátt í 140 jarðskjálftar yfir 2 að stærð hafa mælst á Reykjanesskaga frá því að jarðskjálfti upp á 5,6 varð þar rétt fyrir klukkan tvö í gær.
Fyrirsögn á ruv.is.
Athugasemd: Fjölmiðlafólk tiplar á tánum og forðast að segja að skjálfti hafi verið tveggja stiga, tvö stig og svo framvegis. Í staðinn kemur útjaskaða orðalagið 2 að stærð og upp á 5,6.
Jarðskjálftar mælast í kvörðum. Óhætt er að tala um stig. Jarðskjálftinn sem varð á Vesturhálsi á Reykjanesi 20. september 2020 var 5,6 stig. Ekki er rangt að segja að hann hafi verið 5,6 að stærð þó hitt sé óneitanlega betra.
Tillaga: Engin tillaga.
4.
Ég er minnsti rasistinn í þessu herbergi.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Fréttin fjallar um rökræður Trumps og Bieden vegna forsetakosninganna í Bandaríkjunum og er vitnað í orð hins fyrrnefnda. Bókstaflega er verið að leggja honum þau orð í munn að hann sé lágvaxnasti rasistinn þarna.
Lýsingarorðið lítill stigbeygist svona: Lítill, minni, minnstur. Sá sem er minnstur er lægstur í loftinu.
En hvað sagði forsetinn? Á vef Global News er getið um hvað forsetinn sagði á ensku:
Instead, claimed he was the least racist person in this room.
Greinilegt er að hann sagðist ekki vera minnstur, þá hefði hann sagst vera smallest racist person.
Hvað merkir enska orðið least. Orðið er líka lýsingarorð (adjective á ensku) og er eins á íslensku efsta stigið af lítill, little (little, less, least).
Engu að síður getum við ekki sagt að Trump sé minnsti rasistinn. Hann á við allt annað. Miklu frekar, eins og sagt er á ensku: not in the smallest degree eða not at all. Það er alls ekki.
Room á ensku getur á íslensku þýtt herbergi, til dæmis svefnherbergi eða aðrar vistarverur í íbúð, jafnvel salur. Ég horfði á rökræður forsetaframbjóðendanna og þeir voru ekki í herbergi heldur í stórum sal.
Tillaga: Ég er síst af öllu rasistinn í þessu sal.
5.
Rakel og Auðunn Blöndal eiga von á barni nr. 2.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Þetta er einfaldlega bjálfaleg setning. Enginn talar svona. Fólk kaupir sér annan kexpakka en ekki kexpakka nr. 2. Sum heimili eiga tvo bíla, ekki bíl númer 1 og 2.
Í hausnum á flestum eru tvö heilahvel. Sumir blaðamenn þurfa að virkja heilahvel nr. 2 sem er oft steinsofandi.
Tillaga: Rakel og Auðunn Blöndal eiga von á öðru barni.
6.
Verður þú á nýjum Honda e-bíl í desember?
Fyrirsögn á blaðsíðu 2 í Morgunblaðinu 24.10.20.
Athugasemd: Í skóla var mér kennt að ávarpa ekki lesandann í annarri persónu, þú. Kennarinn sagði réttilega að höfundurinn gæti ekki verið viss um að þú læsir textann. Þegar ég ávarpa einhvern í rituðu máli er útilokað að nota aðra persónu nema því aðeins að ég sé að tala við einhvern ákveðinn mann, einn eða fleiri.
Hvað er e-bíll? Held að e-ið standi fyrir enska orðið electric sem þýðir rafmagn.
Í Málfarsbankanum er þetta ágætlega skýrt:
Ekki er talið vandað málfar að nota orðið þú sem svokallað óákveðið fornafn þegar átt er við fólk almennt en ekki er verið að ávarpa einn tiltekinn viðmælanda. Það er t.a.m. ekki talið gott mál að segja: þegar þú kaupir í matinn áttu margra kosta völ.
Í ensku er hefð fyrir því að ávarpa lesendur og nota you enda hefur orðið víðtækari merkingu en þú í íslensku. Hér eru dæmi:
- This leaflet tells you what general line you should take.
- It's programmed so that you walk, talk and generally behave just as a human being would.
- The whole idea of the monarchy, and titles in general, is that you do not pick and choose.
Betra er að umorða en að nota þú í almennri merkingu eða þýða beint úr ensku.
Tillaga: Hver verður á nýjum Honda rafmagnsbíl í desember?
7.
Alríkislögreglan undir stjórn Comeys forstjóra og þéttriðinnar klíku hans innan FBI leiddi öryggisfulltrúa hins nýja forseta í gildru.
Reykjavíkurbréf á blaðsíðu 17 í Morgunblaðinu 24.10.20.
Athugasemd: Maður þorir varla að spyrja en læt það nú samt vaða: Hvað merkir þéttriðin klíka? Ég giska ekki, gæti velsæmis.
Í Reykjavíkurbréfinu segir:
Seinustu kappræðu vegna forsetakosninga í Bandaríkjunum lauk á fimmtudagskvöld.
Frekar finnst mér þetta kjánaleg setning. Ástæðan er einfaldlega sú að kappræðurnar hófust á sama degi og þeim lauk, held að þær hafi staðið í um þrjár klukkustundir. Þar að auki var þetta seinni kappræða frambjóðendanna.
Einnig segir:
Trump gefur þessi færi á sér, réttilega sannfærður um að hann þurfi að kveikja eldmóð í sínu liði.
Ég held að almennt sé talað um að vekja eldmóð frekar en að kveikja hann. Jafnvel þó eldur komi fyrir í orðinu. Hið fyrrnefnda fer óneitanlega betur.
Mikið saknar maður Davíðs Oddssonar þegar einhver annar tekur að sér að skrifa Reykjavíkurbréfið.
Í lokin er hér lítil spurning um myndina sem fylgir Reykjavíkurbréfinu. Hvað heitir fjallið sem sést í fjarska lengst til vinstri?
Tillaga: Engin tillaga.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Austurhluti Reykjanesskaga í brennidepli
22.10.2020 | 17:31
Jarðskjálfti sem mælist 5,6 stig er eðlilega allrar athygli verður. Þrennt vekur þó mesta athygli:
Þegar skjálftinn skall á flúði Helgi Hrafn Gunnlaugsson, alþingismaður Pírata úr ræðustól Alþingis og sá í iljar hans.
- Tveir stórir skjálftar mældust við Snæfellsjökul, annar 3,1 stig norðan við Jökulinn og hinn 2,6 stig suðaustan við hann. Þar að auki mældust skjálftar í Faxaflóa. Mér fannst þetta ótrúlegt en tveimur dögum eftir stóra skjálftann er skráningin enn inni á töflu Veðurstofunnar. Skjálftarnir urðu 23 og 37 mínútum eftir þann stóra. Má vera að þetta séu draugaskjálftar.
- Allir verða æstir og uppnumdir nema Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur. Hann hélt ró sinni og sagðist vel frá í Kastljósi Ríkissjónvarpsins að kvöldi 20.10.20.
Stærsti skjálftinn var 5,6 stig varð á Vesturhálsi sem er móbergshryggur og markar vesturhluta Móhálsadals. Hann ber nokkur nöfn, Núpshlíðarháls er syðstur og svo Selsvallaháls. Austan megin er Sveifluháls, það er við Kleifarvatn.
Segja má að jarðskjálftahrinan hafi byrjað um kl. 13:36 en þá verður um tveggja stig skjálfti skammt sunnan við Keli. Eftir það verður fjandinn laus og um 160 skjálftar mælast á tæplega þremur klukkustundum.
Fréttamat fjölmiðla er skrýtið. Aðalfréttirnar í flestum þeirra er hvernig fólki brá við skjálftanum sem er kannski alveg gott og blessað út af fyrir sig. Við skemmtum okkur við að horfa aftur og aftur á þingmanninn sem hljóp skelfdur úr ræðustól Alþingis eða matvöru steypast úr hillum í verslunum. Og ekki síður hvernig fólk lýsir viðbrögðum sínum.
Hitt umfjöllunarefnið hvort skjálftinn sé fyrirboði eldgoss vilja blaðamenn ræða í löngu máli. Löngu síðar var talað við jarðfræðinga.
Jarðskjálftar og eldgos
Sko, í yfirgnæfandi fjölda tilfella eru jarðskjálftar ekki undanfari eldgoss. Þetta hafa jarðfræðingar margoft sagt. Ég trúi því.
Hins vegar fylgja jarðhræringar eldgosum. Ástæðan er einföld. Kvika sem treðst upp í gegnum jarðskorpuna ryður frá sér bergi og við það mælast skjálftar. Þeir eru þó frekar litlir oftast í kringum eitt stig. Litlir skjálftar geta því samkvæmt þessu verið fréttaefni. En enginn gefur þeim neinn gaum. Ef ég frétti að í Heklu væru margir litlir skjálftar á til dæmis átta km dýpi myndi ég draga þá ályktun að eldgos væri í aðsigi. Jarðfræðingar myndu skoða þar að auki ýmislegt annað eins og óróa, lyftingu lands og margt fleira áður en þeir kvæðu upp úr um það.
Sá mæti maður Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur, er flestum mönnum fróðari um jarðfræði Reykjaness. Trúlega hafa allir skilið það sem hann sagði í Kastljósi Ríkisútvarpsins, sjá hér. Honum var nokkuð rætt um haftið sem brast eins og það var orðað. Hann átti við skort á jarðskjálftum á svæðinu frá Fagradalsfjalli að Móhálsadal. Þar vantaði skjálfta og svo kom sá stóri nákvæmlega þarna og hundruð annarra. Minna mátti nú gagn gera.
Hins vegar komu ekki neinar skýringar á því hvers vegna skjálftasvæðið er eingöngu vestan við Kleifarvatn en ekki austan við það. Um þetta hef ég skrifað, bendi á pistil frá því 29. júlí 2020, sjá hér.
Nú segja jarðfræðingar að austan Kleifarvatns, það er í svæðinu sem kennt er við Brennisteinsfjöll, að þar hafi ekki mælst stórir skjálftar. Þetta er eina eldgosabeltið á Reykjanesi sem ekki hefur skolfið eins hrikalega og önnur.
Munum að á Reykjanesi eru sex eldstöðvakerfi. Þau hafa öll stefnuna suðvestur-norðaustur.
Svo er það rúsínan í pylsuendanum ef svo má að orði komast. Brennasteinsfjallasvæðið er sagt hafa verið það virkast á Reykjanesi allt frá ísöld. Og í þokkabót hafa þaðan runnið miklu stærri hraun í eldgosum en á öðrum svæðum, bæði að flatarmáli og rúmmáli. Tvíbollahraun sem rann úr Grindaskörðum og í norðvestur að Helgafelli um 950 og á svipuðum tíma rann hraunið sem nú ber nefnið Húsfellsbruni og kom úr eldborgunum vestan við Bláfjöll.
Og gleymum því ekki að hörðustu skjálftarnir verða þarna.
Sunnan við Grindaskörð eru Brennisteinsfjöll. Þar rann Selvogshraun einhvern tímann á tímabilinu 900 og fram á 13. öld, féll fram af Stakkavíkurfjalli og endaði ofan í Hlíðarvatni rétt eins og mörg eldri hraun.
Sunnan Bláfjalla er Heiðin há sem er á um 7000 ára hraundyngju. Ef við færum okkur aðeins norðar sjáum við gríðarlegt hraun sem kallað er Leitarhraun. Gígurinn nefnist Leitin og er skammt sunnan við Ólafsskarð. Það rann til suðurs til sjávar fyrir um 7000 árum Þorlákshöfn er byggð á því hrauni. Ekki nóg með það. Hraunið rann líka til norðurs, beygði eftir halla lands, rann til vesturs allt ofan í Elliðaárvog. Rauðhólar urðu til þegar hraunið rann yfir votlendi.
Skammt frá Leitargígunum eru tvær miklu yngri eldborgir sem urðu til í gosi árið 1000. Ofan á Leitarhrauninu sem nefnist þarna Svínahraun er Svínahraunsbruni, hraunið sem sumir nefna Kristnitökuhraun því það kom upp þegar þingið á Þingvöllum ræddi um að taka upp nýjan sið og leggja heiðni.
Kristni sögu segir svo af þinginu, sjá hér:
Þá kom maðr hlaupandi ok sagði, at jarðeldr var upp kominn í Ölfusi ok mundi hann hlaupa á bæ Þórodds goða.
Þá tóku heiðnir menn til orðs: "Eigi er undr í, at goðin reiðist tölum slíkum."
Þá mælti Snorri goði: "Um hvat reiddust goðin, þá er hér brann hraunit, er nú stöndum vér á?"
Margt má segja um Snorra goða Þorgrímsson en hann áttaði sig greinilega á því að hraunin á Þingvöllum voru mynduð í eldgosum.
Myndir:
1. Efst er jarðskjálftakort Veðurstofunnar af Vesturlandi. Þar er merktir tveir jarðskjálftar við Snæfellsjökul og víðar.
2. Kort frá ÍSOR sem sýnir eldstöðvakerfin sex á Reykjanesi, sjá nánar á vefsíðu fyrirtækisins, sjá hér.
3. Mynd af Grindaskörðum. Tvíbolli er gígurinn lengst til vinstri. Hann gaus um 950. Tvísmellið á myndina til að stækka hana.
4. Mynd af Kristnitökuhrauninu sem raunar heitir Svínahraunsbruni. Þarna sjást gígarnir sem gusu árið 1000. Fjær, undir hlíðum Bláfjalla, er Leitin, eldstöðin sem sagt er frá í pistlinum. Tvísmellið á myndina til að stækka hana. Ég hef sett örnefni inn á myndina.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.10.2020 kl. 15:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ofsi Einars Kárasonar, hið besta í íslenskri sagnahefð
19.10.2020 | 15:36
Mikið væri nú gaman að vera sögumaður eins og Einar Kárason rithöfundur. Það væri fullkomin tilvera, stórkostlegt líf. Og þetta segi ég vegna þess að ég lauk fyrir stuttu við Ofsa, bókina sem Einar skrifaði og út var gefin árið 2008.
Stórkostlegbók í einu orði sagt. Já, stórkostleg bók. Ekki er það aðeins sagan sem slík, heldur stíllinn og ekki síst flutningurinn, upplestur höfundar. Já, Ofsi er til í hljóðbók sem hentar mér prýðilega í gönguferðum. Við Einar Kárason göngum saman.
Ofsi segir frá atburðum sem Sturlunga greinir frá, er Gissur Þorvaldsson tekur sig upp og flyst norður í Skagafjörð og sest að á Flugumýri sem hann kaupir af Eyjólfi Þorsteinssyni einum höfðingja Sturlunga.
Þegar Ofsi kom út hugsaði ég eitthvað á þessa leið: Æi, ég nenni ekki að fara að lesa einhvern gáfumannapistil um fornsögurnar. Gluggaði í hana í bókabúð og fannst hún ekkert spennandi. Gott ef ekki flögraði að mér að bók eftir gallharðan sósíalista og gamlan komma myndi ég nú ekki kaupa. Mikið skjátlaðist mér, þó ekki um pólitíkina heldur um skáldið. Hafði ég engu að síður lesið bækur efir Einar, til dæmis skáldsöguna Storm og Jónsbók, ævisögu Jóns Ólafssonar, viðskiptajöfurs.
Sumarið 2018 keypti ég Stormfugla eftir Einar. Gleypti hana í mig og upplifði aftur þessi tvö sumur á menntaskólaárunum sem ég var á togara. Ég var svo heillaður af bókinni að ég skrifaði um hana, sjá hér. Og hér ætla ég að gera það sem mér finnst svo ósköp kjánalegt, það er að vitna í sjálfan sig. Meiri gáfumenn en ég gera það tíðum og því get ég ekki stillt mig um að gera slíkt hið sama, en bara í þetta sinn. Ég skrifaði (með leyfi hæstvirts forseta):
Rithöfundurinn Einar Kárason er einstakur. Enginn annar getur skrifað eins og hann gerir í Stormfuglum. Stundum langar og flóknar málsgreinar, sem þó eru svo haganlega saman settar að lesandinn missir hvorki þráðinn né athyglina. Minnimáttar skrifarar kunna ekki þessa list og við lítum allir upp til Einars, ýmist með aðdáun eða öfund, jafnvel hvort tveggja.
Ég stend enn við þessi fátæklegu orð mín.
Ofsi er um fimmtán kílómetra bók. Sagan er því frekar stutt en á móti kemur að sagan geymist í höfðinu, eftirbragðið er mikið, langt og gott. Ég hafði hemil á mér, hlustaði bara í gönguferðum og vissi ekkert hversu langt hún myndi endast.
Gallinn er sá að ég man aldrei neitt. Mundi ekki að Einar hafði skrifað fjórar bækur um viðburði Sturlungaaldar. Fyrsta bókin er Óvinafagnaður (2001), Ofsi (2008), Skáld (2012) og Skálmöld (2014). Auðvitað átti ég að byrja á þeirri fyrstu, en ég er betur kunnugur Sturlungu Sturlu Þórðarsonar en skáldinu Einari Kárasyni, og er ég keypti Ofsa voru hinar bækurnar Einars mér gleymdar.
Einar segir í Ofsa frá nefi helstu söguhetja Sturlungu. Gissur er auðvitað glæsilegur maður, kann sig, gerist friðarhöfðingi. Fyrir okkur Dalamenn er hann einum of sléttur og felldur gæi. En þetta er skáldskapur, tek það ekki persónulega þó sumum af áum mínum sé lýst sem einhverjum skrattakollum. Hefna ber fyrir slík ummæli en ég geri það ekki.
Ein merkilegasta persóna bókarinnar er hann Eyjólfur Þorsteinsson sem hafði viðurnefnið ofsi. Margir kunna að halda að heiti bókarinnar sé dregið af viðurnefninu en svo þarf ekki að vera. Ofsi ríkti í landinu á Sturlungaöld og Guðmundur, frændi Gissurar var líka nefndur ofsi. Sturla Þórðarson segir í Íslendinga sögu:
Í þenna tíma var svo mikill ofsi Sturlu Sighvatssonar að nær öngvir menn hér á landi héldu sér réttum fyrir honum og svo hafa sumir menn hermt orð hans síðan að hann þóttist allt land hafa undir lagt ef hann gæti Gissur yfir komið.
Öldin sem kennd er við Sturlunga var tími ofsa og heiftar og lýsir Einar Kárason henni einkar vel og er sannfærandi. Í sögunni birtist bræðin gegn þeim sem drápu Snorra Sturluson afar skýrt. Árni beiskur, banamaður Snorra, leitar útgöngu úr Flugumýrarbrennu og var grimmilega drepinn og í sögu Einars beitti Kolbeinn grön sverðinu:
Aðferðirnar voru þannig að manni rann eiginlega kalt vatn á milli skinns og hörunds; tröllið Kolbeinn hjó fyrst af honum annað eyrað og svo hönd og fót og meðan maðurinn var enn organdi og spriklandi þá brá hann sverðinu þannig á frammjótt andlit mannsins að það flettist að mestu af; að lokum fauk búkurinn frá höfðinu og um leið og Kolbeinn kastaði því frá sér eins og sorpi þá æpti hann:
Man nú enginn lengur Snorra Sturluson?!
Þetta er hrottaleg lýsing en bræði Kolbeins var mikil því hann vissi að þarna vó hann þann sem oft hefur verið líkt við Júdas Ískaríot. Engu að síður var var Árni að reyna að bjarga Halli syni Gissurar, brúðgumanum sem aðeins var átján ára.
Fjölbreyttur stíll Einar er slíkur að hann getur lýst bardaga og áverkum án þess að neinum blöskri og um leið segir frá fólki eins og Gróu Álfsdóttur svo angurblítt og fagurlega að ekki er laust við að lesandinn vikni við lesturinn.
Sumir er höfðingjar sem fá rödd í sögunni og ekki eru þeir allir miklir fyrir sér að gáfum eða skýrleika. Hrafn Oddson, einn af foringjum Sturlunga, virðist skarpgáfaður og klár en brestur kjark þegar mest á reynir. Ásgrímur Þorsteinsson, bróðir Eyjólfs ofsa, segir honum frá aðförinni að Gissuri á Flugumýri, og biður hann um liðsinni. Hrafn sat brúðkaupsveisluna, varð vinur Gissurar, en gat ekki sagt honum frá yfirvofandi harmleik, og gat ekki heldur afstýrt honum. Það eina sem hann gerði var að flýja, gera eins og við nútímamenn, láta sem ekkert sé og vonast til að vandamálið hverfi.
Eyjólfur ofsi er þunglyndur maður, líklega haldinn geðhvörfum. Einar lýsir honum mjög sennilega, ofsanum, þunglyndinu, heiftinni og eftirsjánni. Hann er giftur Þuríði Sturludóttur Sighvatssonar sem gerir líf hans að hreinu helvíti, skilur hann ekki, hæðist að honum. Engu að síður á Eyjólfur þann draum mestan að þóknast Þuru sinni.
Fleiri en höfðingjar fá rödd í sögunni. Margir slíkir eru meiriháttar menn eins og Hallfríður garðafylja, fóstra sona Gissurar og Gróu. Henni er fagurlega lýst að innræti og hún bókstaflega bjargar lífi Gissurar.
Sumir eru alls ekki meiriháttar heldur skíthælar eins og Þorsteinn grenja sem situr brúðkaupið að Flugumýri en telur sér sýnd margháttuð óvirðing þar. Hann tautar við sjálfan sig og heitist við húsráðendur. Á leið yfir Öxnadalsheiði mætir hann liðinu sem ætlar að ráðast á Flugumýri. Hann slæst þar í hópinn og leggur til atlögu við gestgjafa sína og heimamenn.
Heinrekur Hólabiskup gegnir mikilvægu hlutverki í sögunni, greinir íslenska þjóð og dæmir í bréfum sínum til Hákons Noregskonungs. Í síðasta bréfinu segir hann við kónginn:
Ég vona að þér fyrirgefið mér framhleypnina, en sú hugsun hvarflar að mér að það sé varla þess virði að vilja gerast herra þeirra sem hér búa; kannski fer best á því að þeir sjálfir eigi sitt auma land og samfélag.
Í Íslendingabók Sturlu Þórðarsonar segir um þann atburð er Gissur stendur yfir líkum konu sinnar og sonar:
Þá mælti Gissur: Páll frændi, segir hann, hér máttu nú sjá Ísleif son minn og Gró konu mína.
Og þá fann Páll að hann leit frá og stökk úr andlitinu sem haglkorn væri.
Hallfríður garðafylja segir með orðum Einars Kárasonar frá sama atburði:
Hallfríður mín. Hér máttu líta Gróu konu mína og Ísleif son minn.
Án klökkva. En um leið og hann leit undan mátti sjá hagl stökkva úr auga hans, og ég vissi að það var úti um allan frið á Íslandi enn um langa hríð.
Á þennan veg skrifar enginn nema skáld sem býr að öllu því besta sem íslensk sagnahefð hefur þróað í þúsund ár. Og það er ekki lítið.
Nú förum við Einar saman í fleiri gönguferðir og hann flytur mér Óvinafagnað. Ég hlakka til. Er búinn að kaupa hljóðbókina af Forlaginu og setja hana í appið í símanum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)