Fyndin tillaga og bráðnauðsynleg

Hann seg­ir að til­lög­unni hafi verið frestað, eins og oft sé gert þegar til­lög­ur koma beint inn, en að hún verði tek­in fyr­ir á næsta fundi. Pawel vildi ekki lýsa end­an­legri af­stöðu sinni til máls­ins fyrr en það hef­ur verið tekið fyr­ir.

BresnevSvo segir í frétt á mbl.is. Í gamla daga var í fjölmiðlum á Vesturlöndum oft vitnað í sovéska blaðið Pravda en nafnið þýðir sannleikur en var þó ekki réttnefni. Oft þurftu sérfræðingar í vestri að rýna í efni blaðsins til að átta sig á hver stefna Sovétríkjanna væri í einstökum málum.

Víkur nú sögunni til nútímans að Eyþór Arnalds, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, lagði til á fundi skipulagsráðs Reykjavíkur að heiti Garðastrætis verði breytt í Kænugarðsstræti. Við götuna var sendiráð Sovétríkjanna í áratugi. Svo var breytt um nafn á hinu illa heimsveldi og nú heitir það Rússland eins og landsvæðið hét um aldir.

Tillaga Eyþórs fékk ekki glæsilegar undirtektir hjá vinstri meirihlutanum í Reykjavík. Því til sanninda eru ofangreind orð Pavels Bartoszeks sem er formaður nefndarinnar og borgarfulltrúi Viðreisnar og situr í Vinstrimeirihlutanum í borgarstjórn.

PavelPavel getur ekki, frekar en þeir sem skrifuðu í Pravda forðum daga, tekið opinbera afstöðu til nafnbreytingarinnar. Fyrst þarf vinstri meirihlutinn að koma saman og finna út hvernig hægt sé að fella tillöguna, vísa henni frá eða fresta um ókomin ár. Raunar er það þannig að Pavel þarf að fara heim og spyrja Dag Eggertsson borgarstjóra hvernig hann eigi að snúa sér í málinu.

Rykfallnir Kremlarfræðingar hafa nú fengið það verðuga verkefni að kanna hver sé skoðun Pavels Bartoszeks á nafnbreytingunni. Hann gefur líklega ekkert uppi nema í dulmáli rétt eins og kommarnir sem skrifuðu í Pravda.

Við þurfum þó enga Kremlarfræðinga. Dettur einhverjum í hug að það þurfi að grandskoða nafnbreytinguna? Öllum Reykvíkingum þykir hún smellin, bráðfyndin og afar brýn. Öllum nema vinstrinu sem stekkur ekki bros á vör.

„Tillöguna þarf að taka fyrir“ áður en Pavel getur leyft sér að brosa eða hlægja. Líklega mun borgarstjóri hringræða þetta eins og jafnan er sagt er um þá sem tala mikið og lengi án þess að komast nokkru sinni að kjarna málsins.

Ágæti lesandi, ekki halda niðri í þér andanum. Borgarstjóri mun pottþétt ekki sjá neina skoplega hlið á málinu. Hann er einfaldlega á móti öllu því sem Sjálfstæðismenn leggja til. Tillögunni verður vísað frá. Punktur.

Efri myndin er að Leóníd Brésnefi, aðalritara Sovéska kommúnistaflokksins. Hann brosti aldrei nema þegar einhver .
Neðri myndin er af Pavel Bartoszek borgarfulltrúa Viðreisnar í vinstri meirihlutanum í Reykjavík. Hann brosir ekki nema með leyfi borgarstjóra.

 


Úkraína á ekki möguleika gegn Rússum

Svisslendingar bættust í gær í hóp þeirra ríkja sem bönnuðu allar flugvélar frá Rússlandi í lofthelgi sinni ...

Las þetta í Mogganum mínum í morgun. Finnst þetta stórmerkileg útspil Svisslendinga en frekar útlátalaust fyrir þá. Sviss er sem eyja, umkringd ESB ríkjum sem þegar hafa bannað flug Rússa í Evrópu og því er ansi erfitt fyrir þá að komast til Sviss, jafnvel þó þeim væri leyfilegt að fljúga þar. Þó ber þess að geta að í Sviss eru áreiðanlega margir Rússar og vissara að banna þeim að fara í útsýnisflug.

Ísland hefur bannað Rússum að fljúga í lofthelgi sinni. Ég legg til að borgarstjórinn í Reykjavík, sem er kunnur mannvinur, gangi enn lengra og banni Rússum að lenda á Reykjavíkurflugvelli. Blönduósingar, gætu gert hið sama. Einnig Hornfirðingar, Ísfirðingar og Hólmarar svo ekki sé nú talað um Akureyringa. Rússar munu þá ábyggilega sjá sig um hönd og hrökklast frá Úkraínu.

Góða fólkið er svo gott og það lætur ekkert tækifæri ónotað til að auglýsa sig. Afar sterkt er að formæla Pútín, kalla hann heimskan, vitfirrtan, geðveikan og svo framvegis.

Raunveruleikinn er hins vegar ekkert grín og stríð er enginn leikur. Jafnvel þó allur heimurinn sé á móti Rússum og allir fjölmiðlar tíundi stríðsreksturinn og greini frá hetjulegri vörn Úkraínumanna er ljóst að þeir eiga ekki nokkurn möguleika gegn árásarhernum. Ekkert getur orðið þeim til bjargar nema önnur ríki komið þeim til aðstoðar á vígvellinum eða bylting verði heima við. Hvorugt mun gerast.

Því miður er staðan þessi. Pútín og samstarfsmenn hans eru ekki heimskir. Þegar hér er komið sögu geta Rússar ekki snúið til baka, það væri ósigur. Það er því rétt sem segir í forystugrein Morgunblaðsins í dag:

Stríðsvélin er komin of langt. Hún er nú á sjálfstýringu og óstöðvandi. Pútín er nú næstur að völdum í Rússlandi á eftir sjálfstýringunni, sem sest er við enda langa borðsins sem sífellt lengist.

Eina von Úkraínumanna og raunar eina von Evrópu er að Rússar taki í taumanna og bylti Pútín og stjórn hans. Líklega gerist ekki fyrr en líkistur hermanna úr Úkraínu verði sendar til Rússlands. Þá verður það alltof seint fyrir Úkraínu.


Vanmáttur feitu og lötu Vesturlanda gegn Rússum

Hvernig eiga Vesturlönd að bregðast við innrás Rússa í Úkraínu? Þetta er stóra spurning dagsins og alla daga meðan Rússar eru þar. Leiðarahöfundur Morgunblaðsins tekur á kjarna málsins eins og svo oft áður. Hann segir í blaði dagsins:

Margir hafa spurt sig hversu haldgóð tæki efnahagslegar refsiaðgerðir hafi reynst í gegnum tíðina. Margfalt þungbærari refsiaðgerðir, eins og í dæmum Norður-Kóreu og Íran, hafa reynst hægfara aðgerðir, svo ekki sé meira sagt.

Átta ára refsiaðgerðir gagnvart Rússum vegna gripdeildar í Úkraínu hafa engu skilað og virðast aðeins í gildi fyrir „sum“ ríki eftir hentugleikum þeirra og Rússa, og það ríkir löngum mikil samstaða um túlkun þeirra hentugleika.

Staðreyndin er einfaldlega sú að Nató virðist ekkert geta gert eða vilja gera. Leiðtogar þess standa hjá eftir að hafa gengið bónleið til búðar Kremlarbóndans. Þetta eru slíkar gufur að aldrei hafa slíkar sést.

Margt bendir til að leyniþjónustur í Evrópu og Norður-Ameríku hafi vitað um fyrirætlanir Rússa með margra mánaða fyrirvara ef ekki ára. Þeir vissu líka að ekkert fengi stöðvað þá, ætlunin var að ráðast inn í Úkraínu. Þegar við, almenningur, lítum til baka, sjáum að Rússar hafa leynt og ljós búið sig undir þessa atburði og „refsiaðgerðir“ Vesturlanda. Þeir eru fáum háðir og sambandið við Kínverja er svo gott að við þá er mun betra að eiga viðskipti.

Ríki Vesturlanda bjuggu sig ekki undir stríðið. Heimavinnan var vanrækt, ekki var unnið að undirbúningi efnahagslegra refsiaðgerða fyrr en allra síðustu daga.

Nató setur Rússum engin skilyrði. Svo virðist sem hersveitir þeirra megi taka sér stöðu við landamæri Póllands, ekki er gerð krafa um að þeir haldi sig í ákveðinni fjarlægð frá þeim. Nató lyppast niður vegna þess að bandalagið er svo hrætt um stigmögnun átakanna.

Næst taka Rússar ábyggilega Eistland og halda þaðan út á Eystrasalt og hernema Gotland með öllum sömu rökunum og þeir notuðu fyrir hernaði gegn Úkraínu.

Vesturlönd kjósa að sitja hjá. Ekki má loka fyrir alþjóðlega Swift kerfið sem myndi lama utanríkisviðskipti Rússa. Ástæðan er sú að Þjóðverjar hafa svo mikla hagsmuni af viðskiptum við þá.

Þannig standa nú málin. Ekkert má gera gegn útþenslu Rússa því hagsmunir Vesturlandabúa byggjast á viðskiptum við þá. Skítt með Úkraínu. Líklega eru Vesturlandabúar of feitir og latir til að taka á málum.

Jú, við ætlum að láta þá aldeilis finna fyrir krafti Vesturlanda ... En leiðtogarnir tala og tala og tala. Minna fer fyrir verkunum.

Þetta minnir á manninn sem sagði við elskuna sína: Ég mun vaða eld og brennistein fyrir þig, ástin mín. Og ég kem í kvöld ef ekki rignir.

Meðfylgjandi mynd eru úr Fréttablaðinu í dag og sýnir tímalínu frá því í nóvember á síðasta ár, langur aðdragandi að innrásinni og raunar er hann enn lengri en þarna kemur fram.

Fréttabl 220225


Einfaldur og aðlaðandi ritstíll Jóns Steinars

Ég dáist að ritfærum og málsnjöllum mönnum, ekki endilega vegna málstaðarins heldur hvernig þeir segja frá og beita rökum sínum. Einn þeirra er Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður, og fyrrum dómari við Hæstarétt. Hann ritar grein í Morgunblað dagsins og svarar þar Jónasi Haraldssyni, lögmanni sem ritað hafði grein í sama blað um Jón Steinar.

Jón Steinar á auðvelt með skrif. Stíllinn er yfirleitt léttur og auðlesin, málsgreinar hóflega langar, röksemdafærslan einföld og aðlaðandi. Jafnvel svo að lesandinn hallast yfirleitt að málstað höfundarins sé hann á annað borð opin fyrir rökum annarra en ekki samansúrraður „beturvitrungur“ eða með fyrirframgefnar skoðanir sem ekkert bítur á. Erindi Jóns Steinars er oft að kynna önnur sjónarmið sem eru ekki síður mikilvæg en þau sem meirihlutinn virðist aðhyllast. Lífið er ekki einföld stærðfræði með óumbreytanlegum gildum né er allt annað hvort svart eða hvítt. Því er ágæt regla að hlusta á fleiri en þá háværu því þeir eru sjaldnast handhafar sannleikans.

Í niðurlagi greinar sinnar segir Jón Steinar:

Ég virði það alveg við Jónas Haraldsson að hafa ama af mér. Það hafa margir aðrir menn haft á undan honum. Sjálfum finnst mér það vera vegna þess að ég hef talað um hluti sem aðrir þegja um. Ef Jónas legði á sig að kynna sér efni gagnrýni minnar, held ég að hann myndi taka undir hana, þó að slíkt væri ekki til vinsælda fallið hjá aðlinum í dómskerfinu. Ég tel Jónas nefnilega heiðarlegan mann, þó að ég telji að hann mætti kannski leggja meira á sig í þágu sjálfs sín.

Svona skrif eru snjöll og mættu aðrir taka sér þau sér til fyrirmyndar. Jón Steinar lemur ekki á gagnrýnanda sínum með fruntaskap eða persónulegum ávirðingum. Enginn „fésbókarstíll“ er á svarinu. Hann ber virðingu fyrir gagnrýni Jónasar þó svo að hún sé frekar meiðandi.

Þegar öllu er á botninn hvolft er ákaflega léttvægt líki einhverjum ekki við annan mann. Þýðir það að allt sem hinn leiðinlegi eða vondi hefur til málanna að leggja sé algjör óhæfa eða bull? Auðvitað ekki. Rök má ekki að skoða sem framhald af persónu þess sem þau leggur fram. Á þau ber að líta algjörlega sjálfstætt og samþykkja og hafna eftir atvikum.

Afar fróðlegt er að lesa grein Jóns Steinars og læra af henni hvernig best er að rökræða. Það ætti aldrei að gerast með skítkasti eins og svo algengt er í ritdeilum hér á landi, því miður. Ein mesta forarvilpan er á „fésbókinni“ og sulla þar margir án annarra sýnilegra erinda en að niðurlægja aðra. Vera má að mannlegt eðli sé einfaldlega þannig.  


Nú á að fjarlægja Litla-Sandfell og á eftir raka yfir með hrífu

Við efnistökuna mun ásýnd fellsins óhjákvæmilega breytast og að lokum mun fjallið hverfa.

Fjallið er ekkert sérstaklega fallegt. Mörgum finnst það ljótt. Flatmagar á hraunsléttu rétt eins og kúadella, aðeins um eitt hundrað metra hátt yfir umhverfinu. Hverjum er ekki sama?

Okkur berIMGL0077 Aur skylda til lagfæra landslag. Bæta sköpunarverkið sem drottni allsherjar mistókst. Fjarlægja ljót og ónýt fjöll, drekkja óþarfa landi, og leggja víra sem víðast svo fólk komist nú leiðar sinnar og geti hlaðið bíla sína.

Gaman er að aka Þrengslin og enn meira fjör er að ganga úr þeim á almennileg fjöll eins og Meitlana, Stóra og Litla. Skoðum Lambafell sem áður var ansi gallað og lítil fyrir augað. Nú eru fjallasnyrtifyrirtæki í óða önn að laga það og gengur bara vel. Ljótu agnúarnir á fellinu eru horfnir og aðeins er eftir að fjarlægja Lambafellshnúk.

Nei, nei, það er rangt sem þessi umhverfisnáttúruverndarvitleysingar segja. Enginn er að eyðileggja fjöllin, bara snyrta þau, líkt og rakarar snyrta hár. Samt dálítið fyndið að líkja fjallasnyrtifyrirtækjum við rakara sem snyrta hár fólks en eiga það jafnvel til að taka af annað eða bæði eyrun í fegurðarskyni. 

0J2B8688 1Einu sinni var reynt að lagfæra lítinn og ljótan gíg vestan við Þrengsli. Hann hefur ekkert almennilegt nafn kallast bara Nyrðri-Eldborg. Gígurinn gaus árið 1000 en frá gosinu segir í Kristnisögu. Skafið var utan af honum en hætt í miðjum klíðum og nú er þar bara ljótt sár. Enginn sæi neitt ef fjallasnyrtifyrirækið hefði fengið að halda áfram.

Tvö fjöll eru í hrauninu sunnan Þrengsla, Geitafell og Litla-Sandfell. Bæði forljót og er brýn nauðsyn á að þau verði fjarlægð. Fyrirtækið með útlenska nafninu „Eden Mining ehf“ er öflugt fjallasnyrtifyrirtæki og hefur lengi snyrt Lambafell í Þrengslum. Það ætlar nú taka að sér það þjóðþrifaverk að fjarlægja fjallið með íslenska nafninu, Litla-Sandfell. Geitafell bíður betri tíma enda stærra.

Ásýnd Litla-Sandfells mun breytast, rétt eins og segir í upphafi og er fengið úr skýrslu Eflu. Sko, já, eiginlega mun það mun hverfa. Þetta er svona svipað eins og rakarinn sem ætlar að snyrta hár en verður það á, viljandi eða óviljandi, að fjarlægja höfuðið. Slíkt er nú ekkert stórmál því margir munu fríkka til muna væru þeir höfuðlausir.

Svo segir í skýrslu Eflu að framkvæmdin verið afar umhverfisvæn því úr Litla-Sandfelli verður unnin svokölluð flugaska sem notuð er í sementframleiðslu. Sem sagt jákvæð hnattræn áhrif. Húrra. Unnið er þó í fellinu með dísilvélum og dísilrafmótorum. Kosturinn er þó sá að þegar Litla-Sandfell er horfið verður strax slökkt á díselvélunum. Húrra.

Þegar fjarlægðir hafa verið 15.000 rúmmetra úr Sandfelli, það er fellið allt, verður rakað yfir með hrífu og sáð grasi, melgresi, lúpínu eða birki, jafnvel öllu þessu. Og allir sáttir. Er þaki?

Næst fjarlægjum við Helgafell í Mosfellsbæ. Það er líka ljótt og gagnslaust. Miklu betra að moka því í landfyllingar í Kollafirði. Svo fjarlægjum við Þorbjörn við Grindavík því alltaf eru jarðskjálftar í kringum hann og sláum þá tvær flugur í einu höggi. Losum okkur við ljótt fjall og alla þessa jarðskjálfta. Seljum síðan Kirkjufell í Grundarfirði fyrir offjár til útlanda. Útlendingar vilja ólmir kaupa myndir af fjallinu en rosalega myndu þeir gleðjast ef þeir fengju nú að kaupa það allt.

Sko, við getum allt. Tæknin er orðin svo fullkomin að hægt er að fegra landið með minniháttar snyrtingum. Og allir saman nú: Ekki láta staðar numið með Litla-Sandfell. Fleiri hrúgur bíða.

Myndirnar af Litla-Sandfelli skýra sig sjálfar.

Hér er linkur á skýrslu Eflu á vef Skipulagsstofnunar.

 


2.686 km

LandsganganÍ um síðustu áramót strengdi ég þrjú nýársheit. Þau voru:

  1. Klífa Everest
  2. Synda á norðurskautið
  3. Kaupa happdrættismiða
  4. Taka þorsk í fóstur. 

Þetta eru allt göfug markmið sem gera mann fagran að innan, eins og sagt er. Happdrættismiðann keypti ég í desember (enginn vinningur). Hitt verður að bíða næsta árs.

Annars stóð ekki til að gera neitt annað en það hefðbundna; en drekka bjór, koníak, verða fullur, fara á djammið þess á milli sem ég byggi mig undir að standa við heitin. Því miður fór lítið fyrir drykkjuskapnum af ástæðum sem nú skal greint frá.

Fyrir algjöra tilviljun vildi svo til þann fyrsta janúar árið 2021 að ég gekk út úr húsi mínu mér til heilsubótar. Sko, veitti ekki af eftir hressileg áramót. Segja má að ég hafi varla komið heim síðan.

Fyrir mér fór eins og honum Forrest Gump sem álpaðist út og hljóp og hljóp og hljóp þangað til hann lét af hlaupum. Ég gekk og gekk og gekk og gekk. Hef ekki enn hætt.

Hef nú lagt að baki 2.686 kílómetra. Er þá enginn hissa á því hvers vegna ég náði ekki markmiðunum tólf; klífa Úlfarsfell, synda í Laugardalslauginni, taka strætó og læra á flugvél.

Nei, ég gekk ekki þessa kílómetra í einum áfanga, þeir urðu 245.

Ég fann tvær leiðir, tíu og fimmtán km langar. Gekk oftast þá skemmri en hina um helgar og á tyllidögum. Þar að auki hef ég gengið á fjöll, druslast margoft um eldstöðvar á Reykjanesi og brölt á jökla. Allt er samviskusamlega fært til bókar; vegalendir, tími og annað gáfulegt.

Til að gera afrek mitt sem glæstast hef ég dregið göngurnar á kort, svona til að þykjast vera eitthvað.

Fyrst gekk ég hringveginn (1.321 km), hélt þaðan um Snæfellsnes, Dali og um Vestfirði, til Ísafjarðar og svo í Kaldalón, að Bæjum, yfir Dalsheiði og í Leirufjörð.
Þá orti ég:

Ljótur ertu Leirufjörður
líst mér illa á þig.
Að þú sért af guði gjörður
gengur yfir mig.

Bara ansi vel ort, þó ég segi sjálfur frá. Þó kann vel að vera að einhver annar hafi ort þessa ágætu vísu enda hefur mér aldrei þótt Leirufjörður ljótur. Þvert á móti.

Nú, ég gekk svo um Hornstrandir (ekki í fyrsta sinn) og allt suður að Staðarskála við botn Hrútafjarðar. Þaðan villtist ég upp á Arnarvatnsheiði og inn á Kjöl sem ég skokkaði í desember.

Og nú á gamlársdegi er ég sumsé staddur einhvers staðar á milli Gullfoss og Sandár. Endir. Kemst í þykjustunni ekki heim. Afþakka leit björgunarsveita. Veit að ættingjar, vinir og kunningjar myndu hugsanlega leita að mér í vor.

Göngurnar eru fjarri því að vera afrek nema fyrir sjálfan mig. Ég gerði aðeins það sem hverjum manni ber skylda til; halda sér í formi, láta líkamann erfiða. Eða með orðum Guðmundar fjallamanns Einarssonar frá Miðdal:

Fleiri og voðalegri slys hljótast af hreyfingarleysi en fjallgöngum.

Til að gera tilveruna bærilegri hóf ég að hlusta á sögur af öllu tagi, mest þó fornsögur. Hundleiðinlegar göngur urðu í skyndilega stórskemmtilegar. Ég hlakkaði til að fara út að ganga og hlusta á frásagnir af hetjum í Njálssögu, miskunnarlaus örlög í Laxdælu, yfirgang og pólitík í Eyrbyggju, ættarsöguna í Vatnsdælu, spakmælin í Grettissögu, vonlausa tilveru Gísla Súrssonar og svo framvegis. Einnig sígildar sögur nútímans og glæpasögur Nesbös hins norska. Best af öllu var að eiga vinskap við Einar Kárason sem þreyttist aldrei á að lesa fyrir mig úr bókum sínum. Aldrei kvartaði skáldið.

Ekki heldur nokkrir einstaklega skemmtilegir vinir sem slógust af og til í för með mér, léttu mér lífið og sporin, og þoldu masið í mér (sumir komu nú bara einu sinni, hvernig sem á því stendur).

Og hvað fæst út úr svona flandri, spyr lesandinn.

Sosum ekki neitt. Spikið á manni minnkar, sem er hugsanlega jákvætt. Annars er þetta bara fyrirhöfn. Maður svitnar og þarf að þvo fötin, skórnir hraðslitna og kaupa þarf nýja; oft kemur hælsæri af nýjum skóm. Stundum er manni kalt. Fyrir kemur að maður hrasar. Ekki er alltaf hægt að treysta á rafhlöðuna í símanum mínum (iPhone 6), hún á það til að tæmast á miðri leið og þá varð allt frekar dapurt og jafnvel samfylkingarskáldið þagnar.

Hvað ætlarðu svo að gera á nýju ári, spyr lesandinn með ólund, enda safnar hann spiki í sófa sínum.

Held áfram, auðvitað. Hvað annað?

Nú strengi tvö nýársheit:

  1. Annað hvort ek ég eða hleyp jafnmarga km á árinu 2022 og ég gerði á liðnu ári.
  2. Ætla að vera góður við hunda og ketti.
  3. Fer í kirkju á næstu jólum ef enginn faraldur bannar.
  4. Syndi frá Reykjavík og „upp“ á Akranes og hjóla til baka (eða syndi á Akranesi og ek heim).
  5. Ganga berfættur á volgu hrauni á Reykjanesi.

Má vera að ég hætti bara að ganga og fari að hlaupa eins og Forrest Gump. Sko, ég er ennþá ungur. Kann allt, get allt miklu betur en …

Hvernig sem veltist óska ég lesandanum spennandi árs og gleði og ánægju.


Jólakveðjur á Þorláki, svoooooo obbboslea j-ó-l-a-l-e-g-a-r

Í morgun gekk ég út á svalir, eins og ég geri jafnan árla á Þorláksmessu, dró nokkrum sinnum djúpt andann og hrópaði síðan af öllum kröftum:

Sendi ættingjum og vinum hugheilar óskir um gleðileg jól og heillaríkt nýtt ár. Þakka allt á árinu sem er að líða.

Svo beið ég í dálitla stund þangað til svörin bárust:

Já, sömuleiðis, gleðileg jól, kallaði einhver.

Haltu kjafti, helv... þitt. Fólk er að reyna að sofa hérna, öskraði rámur kall.

Ha ..., kaseiru? hrópaði skræk kona.

Hundur gelti, annar tók umsvifalaust undir og köttur mjálmaði. Nagladekk skröltu á íslausu malbiki.

Ég gekk inn í stofu, nennti ekki að hlusta á hundgá, jafnvel þótt fyrr eða síðar myndi hundur sonar míns, hann Fróði (sko hundurinn heitir Fróði ekki sonurinn) hugsanlega gelta, mér eða einhverjum öðrum til ánægju.

Engu að síður velti ég því samt fyrir mér hvort ekki væri skynsamlegra að senda jólakort eða tölvupóst. Hrópin á svölunum hef ég hins vegar stundað á Þorláksmessu frá því ég var barn og með því sparað mér ótrúlegar fjárhæðir í kaupum á jólakortum og frímerkjum. Og allir gleðjast yfir gleðilegjólaogfarsæltnýttárhrópum mínum (nema þessi rámi).

Jólakveðjur útvarpsins

Nú kann ábyggilega einhver að misskilja mig og halda að ég sé að gagnrýna rúmlega hálfra aldar gamlan sið að senda jólakveðjur á gufunni Ríkisútvarpsins. Skil ekki hvernig hægt er að finna það út.

Því er nú víðsfjarri. En úr því að verið er að brydda upp á þessu, man ég aldrei eftir að hafa heyrt jólakveðju til mín á gufunni eða einhvers sem ég þekki og aldrei hef ég kannast við nöfn þeirra sem senda kveðjur. Sendendur eru alltaf einhverjir sem enginn þekkir, til dæmis „Stína, Barði, börnin“ og fleiri sem ég man ekki hvað heita enda 3.466 kveðjur þetta árið. 

52-525070_free-png-download-vintage-radio-png-images-backgroundSko, ég held því síst af öllu fram að kveðjurnar séu ómarkviss vitleysa fyrir kaupendur (og hlustendur).

Á kaffistofunni í vinnunni minni er því haldið fram að kveðjurnar séu að mestu leyti skáldaðar af starfsmönnum  Ríkisútvarpsins. Óneitanlega er það grunsamlegt hversu kveðjurnar eru allar keimlíkar.

Í þeim koma fyrir fyrir orðin óskir, jól, gleðilegt, þakkaár, nýttlíða og svo kryddað með innihaldsríkum samtekningum og forsetningum af ýmsu tagi. Nokkuð til í þessu.

Nú má vel vera að enginn sendi mér jólakveðju í útvarpinu, sem í sjálfu sér er dálítið sorglegt. Hitt er þó jafn líklegt að útilokað sé að hlusta með einbeittri athygli á yfir þrjú þúsund fjögur hundruð sextíu og sex jólakveðjur lesnar í belg og biðu í tvo daga samfleytt og ná að grípa þá réttu.

Ríkisútvarpið græðir

Aðferðafræðin er doldið kjánaleg, svona markaðslega séð. Og enn vitlausari eru þeir sem punga út fullt af peningum til að senda kveðjur sem aldrei rata til móttakenda.

Margir nenna ekki lengur að hlusta á jólakveðjurnar sem er synd, illa farið með góða sorg sem óhjákvæmilega til verður þegar ekki næst að grípa kveðju sem maður vonar að hafi verið send. Þó eru margir með gufuna opna og hlusta á kveðjurnar sem í síbylju hverfa út í loftið meðan verið er að baka, pakka inn jólagjöfum, skamma krakkana eða eitthvað annað þrifalegt.

Hitt er ku vera dagsatt að Ríkisútvarpið græðir tæplega fjórtán milljónir króna á tiltækinu og kostar engu til nema þulunum sem þylja sig hása. Meira að segja útvarpsstjórinn tekur þátt í upplestrinum og er það í eina skiptið að hann vinnur handtak þarna innandyra.

En bíddu nú aldeilis við, kærir lesandi. Í anda samkeppni og þjóðþrifa mun ég frá og með deginum í dag og fram yfir áramót bjóða landsmönnum að hrópa hjartnæmar jóla-, annaníjóla-, þriðjaíjóla-, fjórðaíjóla ... (og svo framvegis) og nýjárskveðjur af svölunum heima.

Rafræna tómið 

Svo vel hefur tekist til á undanförnum árum að þetta er að verða siður. Spyrjið bara alla þá sem sendu og fengu kveðjur. Heimtur á kveðjum eru margfalt betri hjá mér en Ríkisútvarpinu. 

Verðið er miklu betra en hjá Ríkisútvarpinu, heilum 17,523% lægra. Og það sem meira er: Komist kveðja sannanlega ekki til skila fær kaupandinn 33,9% endurgreiðslu. Keppinauturinn getur sko ekki toppað þetta.

Fyrst nú er verið að misskilja viljandi tilganginn með þessum skrifum mínum vil ég nefna þá staðreynd í fullkominni vináttu, kurteisi og virðingu fyrir hefðum fólks að það er ábyggilega ódýrara og markvissara að hrópa kveðjur af svölunum en að borga Ríkisútvarpinu fyrir að lesa þær út í rafræna tómið sem er að auki umhverfislega stórhættulegt og um síðir getur valdið ólæknandi veirusjúkdómum.

Eða heldur þú, lesandi góður, að Kóvid veiran hafi bara orðið til úr engu, eða í Kína. Ó nei. Ekki aldeilis. „Á skal á endanum stafa“, eins og kellingin sagði við vaðið. Eða hvers vegna mun yfirborð sjávar hækka um fimm sentímetra á næstu þrem árum og veiran stökkbreytast? Ég bara sper.

Gasalega jólalegt

Já, það má vel vera að Ríkisútvarpið reyni að klekkja á mér, samkeppnisaðilanum (aðili er svooo fallegt orð), með því að láta útvarpsstjóra lesa jólakveðjur í tíu mínútur. Kemur nú krókur á móti þessu bragði og mun ég breyta um rödd í tíu mínútur og þykjast vera forsetinn (landsins, Lions eða einhver annar).

Þá hrekkur þetta eflaust upp úr lesandanum:

En það er svo gasalega jólalegt að hlusta á jólakveðjulesturinn á gufunni.

Já, því skal ég nú trúa. Það er líka obbbbb-ooooðs-leeeeeg-aaaa-a jólalegt að tala til þjóðarinnar úti á svölunum mínum á Þorláksmessu-, aðfangadags- og jóladagsmorgni. Þar að auki hef ég tvennar svalir, í austur og suður. Toppaðu það útvarpsstjóri.

(Vilji svo til að einhver glöggur lesandi telji sig hafa lesið ofangreindan pistil á Þorláksmessu á síðasta ári skal það fyrirfram dregið í efa vegna þess að fólk man ekkert stundinni lengur.)


Déskotinn

Ég var fyrsti maðurinn í Ríkið þennan föstudag þegar aðventan reyndi af veikum mætti að lýsa upp skammdegismorguninn. Auðvitað vildi ég gera mitt til að gera tilveruna bjartari. Gekk því út í rökkrið með nokkra bjóra í fanginu og rándýra koníaksflösku. Áður en ég bakkaði út úr stæðinu smellti ég einum bjór opnum með annarri hendi, með „einari“ eins og við strákarnir segjum stundum. Munaði ekkert um það. Snjall, hugsaði ég og glotti eins og Skarphéðinn forðum í brennunni. Hjá mér var önnur glóð sem ég hugsaði gott til. En ég bakkaði fyrst og ók síðan áfram en komst ekki út. Þar sem ég hafði ekið inn kom bíll á móti mér og að auki var þarna bannskilti. Útafakstur bannaður, hugsaði ég og glotti eins og Skarphéðinn í liðsbón á Þingvöllum. Umsvifalaust beygði ég til hægri og það ískraði næstum því í dekkjum. Flott. Við hitt hliðið biðu nokkrir bílar eftir að komast út. Ég teygði mig í bjórinn og var kominn með hann að vörunum þegar ég tók eftir löggumanni með hvítan hjálm sem stóð við fremsta bílinn.

Hvað í fjandanum er löggan að gera? hugsaði ég með mér. Ofurnæmur skilningu minn á aðstæðum var slíkur að svarið var lá mér í augum uppi. Varlega lagði ég bjórinn frá mér í flöskuhólfið á milli sætanna, setti húfuna mína ofan á og svo hann sæist nú ekki. Svo opnaði ég alla glugga til að lofta út gufunni úr bjórnum sem ég hafði opnað.

Löggan var með eitthvað tæki og otaði því að mér.

Hvað er þetta, spurði ég áhyggjufullur.

Það kemur í ljós, sagði löggan, og brosti feimnislega. Blástu.

„Má ég ekki bara koma síðar, spurði ég. Því þegar þarna var komið sögu sá ég dálítið eftir því að hafa burstað tennurnar í morgun upp úr vodka, en þá hafði mér fundist það alveg rosalega fyndið. Andremman sem fylgdi var hins vegar ekki góð. Ég át því piparkökur frá Bónusi í morgunmat til að eyða bragðinu.

Löggan hló og hélt ég væri að gera að gamni mínu.

Sko, ég verð örugglega betur upplagður á morgun, fullyrti ég.

Ha, ha, ha. Löggan hló innilega.

Ég blés og reyndi að velja skársta loftið úr lungunum. Mér misheppnaðist.

Heyrðu nú góði, sagði löggan, þegar tækið pípti. Röddin breytti um tón, hætti að vera föðurleg, og nú var hann eins og kennari sem komst að því að ég hafði ekki lært heima. Hann hló ekki lengur og brosti ekki heldur.

Viltu gjöra svo vel og stíga út úr bílnum? Svo mikill mannþekkjari er ég að ég áttaði mig nokkuð skjótt á því að þetta var eiginlega ekki spurning.

Ég horfði á lögguna. Fann að haka seig.

Löggan horfði á mig, gleðilaust.

Ég gaf í, rúllaði upp öllum gluggum og saug upp í nefið, gerði þetta allt þrennt án vandræða. Bíllinn hökti fyrst en náði samt að komast áfram og ég ók á fullri ferð út úr bílastæðinu, upp næstu götu til austurs, niður þar næstu og svo til vinstri og þá hafði ég farið í hring, kominn aftur að hliðinu þar sem ég hafði ekið út án þess að kveðja kátu lögguna. Sá á eftir lögguhjólinu á leið upp götuna sem ég hafði ekið. Auðvitað myndi hann ekki vita að ég væri kominn aftur á sama stað.

Déskoti hvað ég er klókur, hugsaði ég, kveikti á græjunum og hlustaði á Va, pensiero, Þrælakórinn úr Nabucco eftir Verdi, þenja raust sína. Ég hækkaði og ók aftur sömu leið og ók eins og hinir, var bara rólegur. Kórinn fyllti bílinn. En uppi á horni beygði ég í vestur og saup á bjórnum. Hann var kaldur og góður. Snillingur þessi Verdi. Del Giordano le rive saluta ... söng kórinn.

Nokkru síðar heyrði ég í sírenu löggubíls. Blá, blikkandi ljós langt fyrir aftan mig. Ég svínbeygði til hægri og fyrir stóran vörubíl sem flautaði á mig og ljótur bílstjórinn sendi mér illt auga. Mér var alveg sama, ég hægði ferðina mikið og sendi honum fingurkveðju. Ljótur bílstjórinn þeytti eimpípurnar og var alveg kominn upp að mér að aftan. Ég hafði búist við þessu. Nú skyggði vörubíllinn á mig svo löggan sá mig ekki enda ók hún á fullri ferð vestur. Bjánar. Áttu ekkert í mig. ... O mia Patria, si bella e perduta!  ... Þvílík fegurð og ég trallaði með.

Ég yfirgaf félagsskap vörubílsins, gaf í og ók sem byssubrendur á eftir löggunni. Þessu býst enginn lögga við, að fulli kallinn aki á eftir henni í eftirleitinni. Þarna var ég eins og hann Arnes útilegumaður sem leitað var að í Akrafjalli á 18. öld. Hann hafði slegist í hóp leitarmanna og hjálpaði þeim að leita að sjálfum sér og gekk það eðlilega frekar illa. Enginn áttaði sig á klókindum Arnesar né heldur áttaði löggan sig á mínum.

Ég gaf í og fylgdi löggunni á þeysireið hennar í vestur. Þá varð mér litið í baksýnisspegilinn. Déskotinn. Fyrir aftan mig glömpuðu blá ljós og nógu skarpur var ég til að átta mig á að það voru engin jólaljós. Ég skipti eldsnöggt um akrein og bláu ljósin fylgdu. Dé...

Þetta hlýtur að vera tilviljun, hugsaði ég. Opnaði annan bjór með „einari“, saup á honum og fann að mér óx ásmegin. Ég get allt. Er mestur og bestur. Gatnamót voru framundan. Með bjórinn í hægri hendi beygði ég til vinstri, bíllinn tók vel við, í dekkjunum ískraði þegar hann skrensaði á blautu malbikinu, svona alveg eins og í bíómyndum. Í baksýnisspeglinum sá ég að löggan elti mig ekki, hún fjarlægðist, og ég sem af öllum háska hlæ, gaf í. Bíllinn þeyttist áfram og beint í fangið á kyrrstæðum strætó sem á óskiljanlegan hátt beið á rauðu ljósi. Ég fór ekki lengra þennan daginn nema ef verið gæti að ég hafi farið til himna. Til baka kom ég, man ekki hvort ég hafi verið rekinn eða farið sjálfviljugur enda allt eins líklegt að þar hafi verið löng biðröð eins og eftir kóvid skimun. Skipti engu máli. 

Verst þótti mér að ég hafði misst bjórinn og hann sullaðist út um allan bíl. Ég man svo glöggt eftir suðinu sem kom úr sprungnum bjórdósum á á gólfinu.

... che ne infonda al patire virtù! Þrælakórinn lauk söng sínum.

Déskotinn ... man ég að mér varð á orði, þegar ég sá bjórinn freyða á gólfinu. Skyldi koníakið vera óbrotið?

Þá vaknaði ég. Sá að sængurverið var rifið, lampinn lá brotinn á útvarpinu sem suðaði. Gluggatjöldin voru komin upp í rúm og ég hafði migið á mig.

Déskotinn.


Óökuhæfur - tímapunktur - að sjá aukningu eftirspurnar

Orðlof

Lög eða skilningur

Það verður að beita öðrum rökum en lögfræðilegum við skilgreiningu á fullveldinu nú á tímum. Eins og áður verða þjóðir að sækja styrk í menningararf sinn og uppruna til að skapa sér það svigrúm sem þær vilja njóta. Lögin eru aðeins umgjörð. 

Það þýðir lítið að setja ákvæði um íslenska tungu í lög eða stjórnarskrá sé ekki lögð rækt við að efla skilning á gildi hennar.

Björn Bjarnason. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

13 hafa greinst í Portúgal …

Frétt á ruv.is.                                      

Athugasemd: Blaðamaður Ríkisútvarpsins er ósamkvæmur sjálfum sér. Ýmist byrjar hann málsgrein á tölustaf eða bókstöfum.

Af hverju heldur hann sig ekki bara við bókstafina. Það er svo auðvelt.

Tillaga: Þrettán hafa greinst í Portúgal …

2.

73 þingmenn Moderaterna …

Frétt á visir.is.                                     

Athugasemd: Blaðamaður á Vísi heldur, líkt og margir aðrir blaðamenn, að ekkert sé að því að byrja málsgrein á tölustaf. Enginn leiðréttir hann og stjórnendur fjölmiðilsins vita líklega ekki betur.

Tillaga: Sjötíu og þrír þingmenn Moderaterna …

3.

„Óökuhæfur sökum veikinda.

Fyrirsögn á mbl.is.                                      

Athugasemd: Varla er manninum ekið. Er ekki venjan sú að segja að bíll sé óökuhæfur? Er sagt að bilaður bíll sé „veikur“? 

Á málið.is segir um orðið óökuhæfur:

sem er ekki hægt að aka
ekki í ástandi til að aka bíl

Þar höfum við það. Hvort tveggja má nota, um bíl og ökumann. Dreg nú samt í efa að orðin ökuhæfur eða óökuhæfur séu mikið notuð um fólk. Þess vegnar er tillagan skárri

Tillaga: Gat ekki ekið bíl vegna veikinda

4.

„Flest þarf að hreinsa á einhverjum tímapunkti, jafnvel tjörnina norðan við Ráðhús Reykjavíkur eins og hér er gert.

Frétt á blaðsíðu 2 í Morgunblaðinu 3.12.21.                                     

Athugasemd: Orðið „tímapunktur“ er orðleysa sem hingað til hefur ekki þurft í íslensku. Líklega komið út ensku, „point of time“.

Prófið að sleppa orðinu og merking málsgreinarinnar mun ekkert breytast.

Ef þörf þykir má nota orðalagið ’einhvern tímann’ og það dugar vel.

Tillaga: Flest þarf að hreinsa jafnvel tjörnina norðan við Ráðhús Reykjavíkur eins og hér er gert.

5.

„Við sjáum mikla aukningu eftirspurnar hjá viðskiptavinum okkar, við sjáum met í því …

Frétt á blaðsíðu 4 í Morgunblaðinu 3.12.21.                                     

Athugasemd: Þetta er haft eftir fjölmiðlafulltrúa Landsvirkjunar. Svona orðavaðall er afar algengur en með dálítilli hugsun hefði verið hægt að sleppa kansellístílnum og orða þetta eins og alþýða manna talar.

Tillaga: Eftirspurn hefur aldrei verið meiri.


Hvenær mega þingmenn hætta í stjórnmálaflokki?

dont-like-fuck-off-problem-solved-tank-top-1Mér finnst alveg hrikalega ólýðræðislegt af þingmanni Miðflokksins að fara úr honum strax eftir kosningarnar og yfir í Sjálfstæðisflokkinn.

Nú, gerðu ekki tveir þingmenn VG það sama á síðasta kjörtímabili?

Jú, en það var sko allt öðru vísi.

Nú hvernig þá?

Þeir fóru ekki strax eftir kosningarnar.

Og hverju breytir það?

Sko, hérna ... Það breytir auðvitað öllu. Þetta er bara afskræming á lýðræðinu. Svik við Miðflokkinn. 

Þú svarar ekki spurningunni. Hver er munurinn á því að flýja flokk strax eftir kosningar eða síðar? Í hverju felst afskræmingin?

Auðvitað á hann að segja af sér. Þetta er svo óskaplega dapurt, ótrúleg óheilindi gagnvart kjósendum.

En svaraðu því, hver er munurinn á því að þingmaður skipti um flokk í upphafi kjörtímabils eða síðar?

Sko, ... ég meina ... hann ...

Sem sagt, enginn munur er á því. Áttu þingmenn VG ekki að segja af sér þingmennsku? Voru það ekki óheilindi eða dapurt af þeim að fara í annan flokk? Var það engin afskræming á lýðræðinu?

Jú, það er kannski rétt. En þingmanni sem yfirgefur flokk rétt eftir kosningar verður aldrei treyst?

Og hvað kemur það málinu við?

Ja, sko, hann hefði nú átt að athuga það í upphafi.

Í stjórnarskránni segir að þingmenn sé bundnir við sannfæringu sína og þurfa ekki að fara að vilja annarra, hvorki kjósenda né stjórnmálaflokka.

Já, það er stór galli á stjórnarskránni. Auðvitað eiga menn að vera trúir kjósendum sínum og stjórnmálaflokki.

Af hverju?

Tja, af því að kjósendur þingmannsins studdu hann og þann lista sem hann er á.

Þú ert sem sagt á móti því að þingmenn geti farið eftir sannfæringu sinni og farið í aðra flokka vilji þér gera svo.

Nei, ekki alveg. Bara ekki svona strax eftir kosningar.

Hvenær þá? Væri skynsamlegt að hafa þetta eins og í fótboltanum. Þar geta menn farið í önnur lið í byrjun júlí ár hvert.

Já, ætli það ekki það.

Og á meðan þingmaður er óhress í sínum flokki, gengið er fram hjá honum, hann baktalaður, er áreittur. Á hann þá á hann að bíða? Þreyja þorrann þangað til að vistaskiptadagur rennur upp?

Já, auðvitað.

Er hann þá ekki í reynd utan flokka og greiðir þar atkvæði eins og sá flokkur gerir sem hann ætlar í og kjafti um trúnaðarmál í nýja flokkinn? Á kannski að taka af honum atkvæðisréttinn á meðan hann bíður?

Nei, auðvitað ekki. Sko, ég meira, altso ...

Já, þú veist ekkert hvað þú ert að tala um. Aflar þér engra upplýsinga. Styður bara það sem sennilegast virðist.

Nei, nei, sko ég veit alveg fullt.

Pabbi, ég held að þú ættir að hugsa málið aðeins betur og afla þér upplýsinga.

Hættu þessu, ég veit alveg nóg. Þú ert bara barnalegt barn. Nú er tími til að fara á leikskólann, kláraðu ávaxtasafann þinn og leggjum af stað.

Já, pabbi.

 


Enginn samúð með tapara sem vælir og kennir öðrum um

Tapi einstaklingur í kosningum eða nái ekki þeim árangri sem hann sóttist eftir þarf það ekki að þýða að hann sé ver gefinn en aðrir eða minni háttar. Margt ræður því hver sigrar, bæði tilviljanir, vinna, þrautseigja og svo öll smáatriðin sem skipta máli þegar upp er staðið. 

Engum líkar við taparann sem barmar sér og kennir öðrum um ófarir sínar. 

Einn af þessum sáru töpurum er Vilhjálmur Bjarnason, fjárfestir, alþingismaður og varaþingmaður á síðasta kjörtímabili. Hann hafði ekki erindi sem erfiði í síðasta prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðuvesturkjördæmi. Nú skrifar hann grein í Mogga dagsins og rekur raunir sínar.

Hann fullyrðir að tap sitt sé eftirfarandi að kenna:

  1. Formaður uppstillinganefndar var á móti honum
  2. Þingkona úr Mosfellsbæ var á móti honum
  3. Formaður flokksins vorkenndi honum ekki
  4. Ritari flokksins vorkenndi honum ekki
  5. Fórnarlamb lyga, niðurlægingar og svika

Þar með er stjórnmálaþátttöku Vilhjálms Bjarnasonar lokið. Aldrei hefði hann átt að skrifað þessa bitru grein. Hún er honum ekki til framdráttar nema síður sé. Hann dæmir samherja sína hart. Líkir þingkonu við hundstík. Að sjálfsögðu taka lesendur afstöðu til greinarinnar. Samherjum líkar illa við hana því Vilhjálmur vegur að þeim sem staðið hafa þétt saman. Vel má vera að hægt hefði verið að standa öðru vísi að málum. Þingkonan sem Vilhjálmi er svo uppsigað við hefur staðið sig vel. Hefur kjörþokka sem Vilhjálm skortir.

Sannast hér að margir eru kallaðir en fáir útvaldir. Eflaust má draga í efa að að þeir útvöldu eigi skilda vegsemd sína en hinir ekki. Og víst er að fjölmargir skilja ekki mikið eftir sig þrátt fyrir að hafa verið valdir og setið lengi á þingi.

Þegar upp er staðið kann að vera að ekki séu allir ánægðir með vegferð sína og ábyggilega margir sem myndu breyta á annan hátt fengju þeir tækifæri til. En fyrir alla muni ekki væla opinberlega á þennan hátt. 

Vilhjálmur segist ganga uppréttur og stoltur frá borði þrátt fyrir svik annarra við sig og niðurlægingu. Greinin segir hins vegar allt annað. Karlinn er beinlínis hokinn, sár og fúll. Í stað þess að bera höfuðið hátt svo eftir sé tekið skrifar maðurinn samúðargrein um sjálfan sig. Hnýtir í „vonda“ fólkið. Aumingja ég gegn öllum hinum, ofureflinu.

Vilhjálmur sat á þingi og var síðar varaþingmaður. Ekki hafa allir náð svo glæsilegum árangri. Hann hefur efni á að gleðjast yfir því.

Ástæðan fyrir því að hann situr ekki lengur á þingi er einfaldlega sú að hann fékk ekki stuðning til þess í síðasta prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Fjölmargir tóku þátt lýðræðisveislunni sem prófkjör flokksins eru og allflestir eru kátir með varnarsigur flokksins í kosningunum síðasta laugardag.

Karlinn hefur allt á hornum sér þó hann ætti að vera stoltur.


Þjóðin löðrungar öfgavinstrið en vill sömu ríkisstjórn

Þjóðin hafnaði Sósíalistum. Þeir fengu aðeins 8.174 atkvæði. Meira að segja launþegarnir í Einingu höfnuðu þeim. Aðeins öfgafyllsta liðið úr Vinstri grænum og Pírötum kusu þá en það dugði ekki til. Árangurinn var snautlegur, enn eitt gjaldþrotið hjá formanninum sem í þetta sinn klæddist gallajakka eins og hann heldur að verkalýðsleiðtogar geri.

Þjóðin hafnaði Miðflokknum, klausturflokknum. Honum var hegnt fyrir ósæmilega framkomu sína. Náði með herkjum inn tveimur kjördæmakjörnum þingmönnum og einum uppbótar en verður minnsti þingflokkurinn. Gjörsamlega óviðunandi árangur fyrir flokk sem þóttist geta greitt almenningi hundruð þúsunda króna af almannafé ef ríkissjóður væri rekinn með halla. Kjósendur féllu ekki fyrir þessu bragði.

Viðreisn verður næstminnsti flokkurinn á Alþingi með aðeins fimm þingmenn, bætti þó við sig einum. Einn þeirra var eldsnöggur að finna blóraböggulinn og kvartar nú sáran undan því að Seðlabankastjóri hafi fullyrt að útilokað væri að tengja íslenska krónu við Evru. Varaformaður flokksins, sem enginn veit hvað heitir, náði eðlilega ekki kjöri. Ekki heldur Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður sem hafði þó verið ansi áberandi á síðasta þingi.

Þjóðin hafnaði Evrópusambandshugmyndum Viðreisnar og Evrutengingunum. Flokkurinn fékk færri atkvæði en bæði Píratar og Flokkur fólksins. Inga Sæland hefur greinilega mun meiri kjörþokka en Þorgerður K. Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.

Flokkur fólksins er sagður „senuþjófur“ kosninganna. Flokkurinn hafði rekið tvo þingmenn úr flokknum á síðasta kjörtímabili. Þeir fóru í klausturflokkinn en eru nú báðir horfnir úr stjórnmálum. Eftir voru aðeins tveir þingmenn. Í kosningunum gaf þjóðin flokknum fjóra til viðbótar og munu nú verða sex á næsta þingi. Geri aðrir betur. Inga Sæland formaður flokksins hefur það orð á sér að vera einlæg og trú skoðunum sínum og flokksins. Á næstu misserum mun koma í ljós hvort nýir þingmenn flokksins séu slíkir bógar geta aðstoðað við að koma fram breytingum á kerfinu meðal annars öldruðum til hagsbóta.

Píratar sigla lygnan sjó. Miðað við hamaganginn og lætin í þeim á síðasta þingi og í kosningabaráttunni gerist ekki neitt. Flokkurinn er vinstri flokkur, nær sósíalistum en öðrum, ef marka má rannsóknir á viðhorfum þeirra sem hann studdu í skoðanakönnunum. „Nýja stjórnarskráin“ var eitt af kosningamálum Pírata. Þjóðin var ekki sammála og telur hana ekki á dagskrá. Hún hafði ekki einu sinni áhuga á heitstrengingu flokksins að vinna ekki með Sjálfstæðisflokknum. Enda mun enginn vinna með villingunum í Pírötum.

Samfylkingin fór ansi flatt í kosningunum, er taparinn. Flokkurinn hreykti sér hátt, trúði á að úrslit kosninganna yrðu svipaðar og í skoðanakönnunum. Formaðurinn sór að hann myndi aldrei mynda stjórn með Sjálfstæðisflokknum og var hreykinn eins og barn sem segist loksins ætli að hætta að nota bleyju. Flokkurinn græddi ekkert á yfirlýsingunni en gerði bleyjulaust upp á bak. Hann mun einfaldlega ekki taka þátt í ríkisstjórn, hvorki með Sjálfstæðisflokknum né öðrum. Þjóðin gaf honum utanundir og skikkaði hann áfram í stjórnarandstöðu. Löðrungurinn svíður. Ólíklegt er að Logi Einarsson haldi áfram sem formaður.

Einn af þeim sem kom Samfylkingunni til hjálpar var Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri og aðstoðarmaður Steingríms J. Sigfússonar í ríkisstjórninni alræmdu 2009 til 2013. Flótti hans úr VG vakti enga athygli, dugði Samfylkingunni ekki neitt.

Staða Vinstri grænna er athyglisverð. Flokkurinn tapaði greinilega miklu fylgi. Öfgavinstrið hljóp frá borði og til Sósíalista. Því er nú vitað að 8.174 Íslendingar eru sósíalistar. Þeir koma úr VG, Samfylkingunni og Pírötum. Hefði flokkur Sósíalista ekki boðið fram hefðu þessir flokkar staðið skár og VG líklega betur en aðrir.

Sjálfstæðisflokkurinn getur vel við unað. Hann fær jafn marga þingmenn og árið 2017 þó svo að fylgi hans minnkaði um 0,8% á öllu landinu. Brynjar Níelsson náði ekki kjöri og er missir af honum. Hins vegar bætist við öflugt fólk í öllum kjördæmum.

Framsóknarflokkurinn er sigurvegari kosninganna. Það er óumdeilt. Formaðurinn mun eflaust gera kröfu til embættis forsætisráðherra en það verður erfitt verkefni. Formaður Sjálfstæðisflokksins mun einnig gera kröfu til þess. Formaður Vinstri grænna hefur þó tögl og hagldir í sínum höndum.

Ríkisstjórnin hélt vell og vel það. Þrátt fyrir tap Vinstri grænna jók hún þingmeirihluta sinn. Ríkisstjórnin mun halda áfram sé vilji til þess hjá Vinstri grænum. Annað stjórnarmynstur er ekki í sjónmáli.

Katrín Jakobsdóttir getur krafist þess að verða áfram forsætisráðherra og án VG yrði stjórnarkreppa í landinu. Vinstri flokkarnir hafa ekki nægan þingstyrk til að mynda ríkisstjórn nema með Viðreisn og Miðflokknum. Viðreisn mun ábyggilega selja sál sína til að komast í ríkisstjórn en Píratar hafa lýst því yfir að þeir muni ekki starfa með Miðflokknum.

Þá er aðeins einn kostur eftir og það er samstarf Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og annað hvort Flokks fólksins eða Viðreisnar. Þeir hafa samanlagt meirihluta 35 eða 34 þingmenn. Fyrrnefndu flokkunum mun ábyggilega þykja það ansi tæpur meirihluti miðað við að starfa með VG. Þar fyrir utan hafa þeir ekkert álit á Viðreisn.

Niðurstaðan er því sú að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn munu vilja starfa áfram með Vinstri grænum sem fengi forsætisráðherrann. Hins vegar mega fyrrnefndu flokkarnir vara sig á því að gefa VG ekki góð ráðuneyti annars er hætt við því að flokkurinn gangi hálfvolgur í ríkisstjórnina. Slíkt er stórhættulegt í stjórnmálum.


Litlu flokkarnir eru gagnslausir þrátt fyrir fallegar umbúðir

Stjórnmálin eru eins og Makkintosh dolla. Í henni er aragrúi af gómsætum molum. Eftir að hafa freistast til að kaupa svona nammi áttar maður sig á því að litirnir segja ekkert til um hversu gott nammið er. Og þannig er það með stjórnmálaflokkanna sem fyrir kosningar pakka loforðum sínum inn í fallegar umbúðir. 

Eftir kosningar gerist það sama og þegar við veljum fallega molann. Hann er í engu samræmi við útlitið. Bragðast illa. Óbragðið kemur fljótt fram.

Flokkur fólksins

Áferðafallegt nafn og kosningabarátta Flokks fólksins eru umbúðir. Hann mun ekki hafa nein áhrif frekar en hingað til. Hann er dæmdur til að vera smáflokkur komist hann á þing. Formaðurinn hefur hátt, það eitt hefur hann lært á síðustu fjórum árum. Rífur sig, fer rangt með og vera má að hann gráti dálítið til að fá samúð.

Hvað ætla kjósendur að gera ef þátttaka Flokks fólksins í ríkisstjórn kosti að Ísland gangi í Evrópusambandið eða að Ísland segi sig úr Atlantshafsbandalaginu? Skiptir þetta engu máli?

Ekki það? Flokkurinn ætlaði að bæta kjör aldraða, öryrkja og annarra og í leiðinni kann hann að gjörbreyta stefnu landsins í utanríkismálum eða leggja Landspítalanum til 50% meira fé án þess að gera neina kröfur til hans um meðferð fjárins. Staðreyndin er sú að kjósandinn veit ekkert hvernig flokkurinn mun haga sér komist hann í ríkisstjórn.

Píratar

Píratar eru samskonar flokkur sem kostað hefur ríkið mikið fé. Aðall hans er að leggja fram ótrúlegar fyrirspurnir á þingi um hitt og þetta sem litlu skiptir. Afleiðingin er sú að stjórnvöld hafa þurft að eyða miklum tíma í að svara, tíma sem annars hefði farið í mikilvægari mál eins og að vinna fyrir almenning. Og hvað gerðu Píratar við öll svörin? Ekkert. Þökkuðu ekki einu sinni fyrir ómakið.

Atkvæði greitt Pírötum kann að leiða til þess að Ísland gangi inn í Evrópusambandið, fyrirtæki landsins verði skattpínd. Er til dæmis skynsamlegt að taka upp stórhækkað auðlindagjald ofan á tekjuskatt fyrirtækja í sjávarútvegi? Dettur fólki hug að tveggja manna bátur til dæmis á Skagaströnd geti greitt auðlindagjald? Nei, en þá eiga að koma undantekningar frá aðalreglunni og undantekningar frá undantekningunum. Ekki traustvekjandi.

Viðreisn

Viðreisn er annar flokkur sem pakkað er inn í fagrar umbúðir en er í raun ekkert annað en umbúðirnar. Hann reynir allt hvað tekur að skilja sig frá Sjálfstæðisflokknum þó allir forystumenn flokksins komi þaðan og líka kjósendur hans. Viðreisn vill ekki einu sinni vinna með Sjálfstæðisflokknum. Þess vegna tók hann saman við Samfylkinguna, Vinstri græna og Pírata í borgarstjórn Reykjavíkur og kyngdi ælunni. Hann leggur í herferð gegn bílaumferð, flugvellinum og öðru sem fólk þarf nauðsynlega á að halda. Óbragðið er Evrópusambandsaðildin og Evran sem er í raun það eina sem flokkurinn byggir á. 

Dettur einhverjum í hug að einhliða binding krónunnar við Evru eða upptaka gjaldmiðilsins muni ekki hafa slæm efnahagsleg áhrif þjóðina. Í stað þess að geta leiðrétt gengi krónunnar er það fest og þar með mun atvinnuleysi stóraukast. Gjaldeyrisskapandi fyrirtæki munu eiga einskis annars úrkosta en að segja upp fólki. Og önnur fylgja á eftir.

Sósíalistar

Flokkurinn sem kennir sig við sósíalismann er með áferðafalleg kosningaloforð. Óbragðið er að hann ætlar að beita aðra ofbeldi. Dæmi hæstiréttur ekki eins og flokkurinn vill ætlar hann að ryðja dóminn, bókstaflega. Henda dómurunum í burtu og skipa aðra sem dæma eftir línu flokksins. Ofbeldi er aðall sósíalista í gegnum söguna. Já, og skrifstofur Sjálfstæðisflokksins eiga að verða almenningssalerni. Þannig er nú heiftin. Og aðalsprautan í flokknum er svokölluð „afturbatapíka“, náungi sem var aðalkapítalistinn í útrásinni, setti fjölda fyrirtækja á hausinn og hafði launin af fjölda fólks.

Allt eru þetta því sem næst eins máls flokkar. Komist þeir á Alþingi mun fólki koma á óvart hvert þeir stefna að öðru leiti en helstu kosningaloforðin benda til.

Fimm eða sex flokka ríkisstjórn

Í Reykjavík ræður meirihluti fjögurra flokka. Afleiðingin eru ótal hneykslismál sem kinnroðalaust má kalla spillingu.

Kjósendur þurfa að hugsa sig vel um. Ekki greiða smáflokkum atkvæði, flokkum sem aldrei munu geta breytt einu eða neinu nema í hrossakaupum við ríkisstjórnarmyndun.

Hvað sagði ekki aðalpersónan í Forest Gump bíómyndinni:

„My mama always said, life is like a box of chocolates. You never know what you're gonna get.“

Fallegir innpakkaðir molar í Makkintosh dollunni eru ekki allir góðir. Sumir eru einfaldlega betri. Ekki eru allir stjórnmálaflokkar góðir en það vitum við ekki fyrr en eftir kosningar.

Sjálfur kýs ég Sjálfstæðisflokkinn. Ég þekki hann og treysti forystumönnum hans.


Fát grípur lögguna sem lokar gossvæðinu með hún hugsar

Screenshot 2021-09-15 at 13.56.45Mikið fát greip lögregluna á Suðurnesjum rétt fyrir hádegi miðvikudaginn 15. september. Þá tók að flæða suður úr hrauntjörn í Geldingadal skammt frá stóra gígnum. Flestir sem fylgjast að staðaldri með þróun gossins gerðu ráð fyrir því að það myndi gerast enda er það eðli hrauns að fylgja þyngdarlögmálinu, renna niður í móti. 

Lögreglan hafði ekkert spáð í það hvað yrði um hraunið. Hélt líklega að hraun í Geldingadal rynni alls ekki heldur héldi til þarna efra, kólnaði og yrði til friðs.

Þegar hrauntjörnin brast datt löggunni ekkert í hug annað en að fyrirskipa allsherjarlokun, ekki aðeins á svæðinu í þar sem hraunið rann heldur á öllu gossvæðinu. Loka Nátthagadal, Geldingadal eystri, Meradal, Langahrygg og Stóra-Hrúti. Öllu skyldi lokað meðan löggan væri að hugsa. Gott ef ekki var bannað að ganga á Esju.

Fjallið var smalað, allir reknir í burtu. Og löggan hugsar og hugsar.

Auðvitað er grín að þessu gerandi. Geir og Grani úr Spaugstofunni eru komnir til starfa hjá Lögreglunni á Suðurnesjum og orðnir yfirmenn, skipa fyrir.

En grínlaust. Lögreglan á Suðurnesjum virðist ekki fylgjast með. Hún þekkir ekki landið, hefur enga reynslu í gönguferðum og kann varla að lesa landakort. Af og til þarf hún að hugsa. Það er svo sem gott.

Fát grípur lögguna þegar eitthvað gerist sem henni finnst óvænt. Engin yfirvegun, fólk er bara rekið í burtu. Jafnvel fólk sem er betur búið og með enn meiri reynslu en björgunarsveitarmenn, landverðir ... og jafnvel löggan. Jafnvel skynsamt fólk.

Björgunarsveitarforingi lætur hafa þetta eftir sér á Vísi:

„Ég skil fólk alveg, þetta er eins og flugur á skít. Það sogast að þessu en er ekki að átta sig á menguninni þegar þetta er svona heitt. Það er gríðarlegur hiti í þessu. Mínir menn eru búnir að bakka út úr hita,“ segir Bogi Adolfsson.

Göngufólki er líkt við „flugur á skít“. Hvað er eiginlega að manninum? Hann virðist halda að aðeins „mínir menn“ forðist hitann af glóandi hrauni en ekki sauðsvartur almúginn.

Yfirlögregluþjónn segir í viðtali við Ríkisútvarpið:

Gunnar segir um lokunina að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða, þar til hlutirnir skýrast nánar.

Forkólfurinn þarf að hugsa málið þó það liggi nokkurn veginn ljóst fyrir. 

Hraunflæðið er bundið við fjallið vestan við Nátthagadal, þar sem áður var vinsæl gönguleið. Með ákveðnum rökum má segja að þar gæti myndast hætta taki að flæða yfir varnargarða. Langt er í það. Engin hætta er hinum megin dalsins, á Langahrygg eða Stóra-Hrúti, ekki heldur austur í Meradal. Samt er öllu lokað. Harðlokað eins og dómgreind löggunnar.

Um tveimur tímum eftir að löggan lét loka svæðinu virðist hraunrennslið hafa dvínað og glóandi hraunið er orðið svart. Breytingin sést greinilega á beinu streymi Ríkisútvarpsins og á sjálfvirkri myndavél Veðurstofunnar.

Þeim sem standa svona illa að verki eigum við að treysta fyrir öryggi okkar á öðrum sviðum. Lái mér hver sem vill en ég treysti ekki handabaksvinnubrögðum þessa fólks.

Þeir sem streitast á móti löggunni, landvörðum og björgunarsveitum eru kærðir fyrir „brot gegn valdstjórninni“. Hversu heimskulega sem valdstjórnin hagar sér hótar hún að kæra þá sem á móti henni standa. Þannig er til dæmis gert í Hvíta-Rússlandi um þessar mundir.

Myndin er af hrauntjörn vestan við gíginn. Hún er tekin úr glæsilegri hreyfimynd, sjá hér. Veit ekki hver tók hana.


Á sunnudagsmorgni er mbl.is þunnur og án frétta

Screenshot 2021-08-29 at 10.14.00Vefútgáfa Moggans virðist vera orðin að einhvers konar kjaftaútgáfu, engar fréttir því alvörublaðamennirnir fá að sofa út og krakkarnir fá að leika. Aðalfréttin er úr helgarblaðinu. Og svona eru fyrirsagnirnar um klukkan tíu á sunnudagsmorgni:

  • Er hann þá eins og Einstein
  • Slökkviliðið vill að fólk njóti dagsins í dag
  • Níu ára fékk að lita á sér hárið
  • Tvífari Cardi B gerir allt vitlaust
  • Goðafoss falinn í strikamerki skyrs ...
  • Eldhústrixið sem þig hefði aldrei grunað að virkaði
  • Útsaumaður risasófi ...
  • Veður
  • Erfir fólk í sambúð hvort annað
  • Stórstjarna í París gegn vilja sínum
  • Löggufréttin
  • Að vera í búrleskhópi snýst ekki bara um að fara úr fötunum

Sem sagt ekkert í fréttum hjá Mogganum, allir sofandi.

Screenshot 2021-08-29 at 10.14.44Á Vísi virðist ýmislegt í frásögur færandi:

  • Þúsundir flýja fellibylinn Idu sem eflist hratt
  • Icelandair hættir flugi til Vestmannaeyja
  • Telja miklar líkur á annarri hryðjuverkaárás
  • Delta tvöfaldaði líkur á sjúkrahúsinnlögnum

Screenshot 2021-08-29 at 10.39.00Á vefsíðu Ríkisútvarpsins er einnig margt í fréttum:

  • Búist við versta fellibylnum frá miðri 19. öld
  • Vara við trúverðugri hótun í Kabúl
  • Hætta flugi til Vestmannaeyja um mánaðamót
  • Dæmd til að bæta syni fyrir að henda kláfsafni hans
  • Óafturkræft óleyfilegt jarðrask segir Umhverfisstofnun
  • Lilja ætlar að óska eftir skýringum frá KSÍ
  • Aðaláherslan var ekki á bringuna

Screenshot 2021-08-29 at 10.38.11Og jafnvel á vefsíðu Fréttablaðsins er sagt frá fjölmörgu athyglisverðu:

  • Tæknideild lögreglunnar rannsakar vettvang á Egilsstöðum
  • Bretar hætta að flytja fólk frá Kabúl
  • Leghálssýni flutt til Hvidovre vegna „alvarlegra gæðavandamála“ KÍ
  • Hraðpróf framkvæmd í nýrri skimunarmiðstöð í Kringlunni
  • Alls 66 innanlandssmit ...
  • Opna áfallamiðstöð eftir atburðinn á Egilsstöðum
  • Níu ára strákar grýttir og lamdir með járnröri
  • Danir segja Covid ekki lengur ógn við samfélagið
  • átta hafa sótt um bætur í kjölfar bólusetningar

Í DV er frétt sem hvergi hefur birst annars staðar og er fyrirsögnin: „Manndráp til rannsóknar.“ Stuttu síðar virðast allir blaðamenn á vakt hafa lesið frétt DV og birt sömu fréttina nærri því orðrétt.

Ýmislegt að frétta í dag þó Mogginn standi sig illa og segi okkur að ekkert sé að gerast í heiminum nema að níu ára krakki hafi fengið að lita á sér hárið, tvífari einhverrar útlendrar stelpu sé að gera allt vitlaust og nokkur heimilisráð og sófafrétt. Þetta er auðvitað engin blaðamennska.

Svona hversdags finnst manni Mogginn vera ábyrgur og góður fréttamiðill. Um helgar breytist hann hins vegar í „Alt for damene“. Ekki misskilja, þetta er ekki sagt konum til lasts.


Nú má kjósa með blýöntum

Kosningar til Alþings fara fram 25. september 2021 og getur kosning utan kjörfundar hafist föstudaginn 13. ágúst 2021.

pencilsÞannig tilkynnir Dómsmálaráðuneytið um merkisatburð í lífi þjóðar. Á einhverjum fjölmiðlinum var viðtal við sýslumann sem sagði hann að nú væru notaðir blýantar en ekki stimplar til að merkja við þann stjórnmálaflokk sem kjósandi vill greiða atkvæði.

Þvílík tækniþróun. Mann svimar. Hvað skyldi nú gerast næst?

Ég er nú enginn spámaður en gæti sem best trúað því að á næstu árum tækju yfirvöld í notkun sjálfblekunga eða jafnvel kúlupenna.

Sko, í Bandaríkjunum eru víða notaðar vélar sem gata kjörseðilinn í stað þess að maður þurfi að brúka blýant. Vel má vera að slíkar vélar verði einhvern tímann í framtíðinni fluttar hingað til lands. Það væri nú aldeilis munur að þurfa ekki að nota blýant. 

Vel má vera að einhvern tímann í fjarlægri framtíð myndu bókstafir verða felldir niður sem tákn stjórnmálaflokka. Hugsið ykkur tæknina þegar maður getur notað bírópenna á kjörseðil og exað við nafn flokksins, ekki bókstafinn, sem þó er ekki fyrsti stafurinn í nafni hans.

Já, tæknin þróast og breytist hraðar en snigillinn ferðast.

Svo er það hitt að ég er eiginlega hættur að fara í banka. Með sömu tölvunni og ég skrifa þennan pistil get ég greitt reikninga, millifært peninga til Jóns og Gunnu, keypt vörur frá útlöndum, tekið við greiðslum héðan og þaðan. Þó getur Skatturinn skoðað bankareikninga fólks gruni hann það um eitthvað misjafnt. En, og takið eftir, starfsmennirnir þurfa ekki einu sinni að standa upp úr hægindastólum sínum. Fólk er rannsakað, ákært, dæmt og fangelsað af fólki sem situr hreyfingarlaust á rassinum.

Sú hugmynd hefur komið upp að banna peningaseðla og myntir og láta fólk nota debet- eða kreditkort í staðinn. Þá væri nú veruleg þrengt að glæpahópum.

Á meðan tekur sýslumaðurinn í notkun blýanta við utankjörstaðakosningu og kemur stimplunum fyrir í geymslunni ofan í kjallaranum. Og hann hælir sér af tækniþróuninni.

Bankarnir sjá til þess að enginn steli af bankareikningum fólks.

En ætli ég að kjósa þarf ég að fara í eitthvert hús við tiltekna götu. Bíð í röð. Sýna persónuskilríki. Fá í staðinn áprentað pappírsblað og blýant. Fara í felur með hvort tveggja. Skrifa ex við staf sem táknar stjórnmálaflokk. Koma úr felum. Horfa í augun á fimm manns sem stara á mig grunsemdaraugum. Fá að stinga blaðinu í rauf á brúnum krossviðskassa. Hundskast út. Úff ...

Löggan flytur kassann á milli húsa. Þar er innsiglið rofið, hvolft úr honum og fullt af fólki tekur blöðin, atkvæðaseðlanna, og telur þá. Aðrir raða þeim eftir því hvar exin standa og þá eru þau aftur talin. Niðurstaðan er borin saman við fjölda þeirra sem kosið hafa og allt verður að stemma. Um miðja nótt eða snemma morguns er sagt frá því hvernig atkvæði féllu. „Nýjustu tölur frá Austurbæjarskóla ...“

Á meðan er mikið stuð í heimahúsum og á veitingastöðum. Einhverjir drekka munngát og skemmta sér. Aðrir leggjast til svefns í þeirri fullvissu að úrslitin verði kunn daginn eftir.

Væri hægt væri að greiða atkvæði í tölvu gætu úrslitin verið ljós klukkan 22 er kosningu lýkur. En það má ekki því það er svo gaman að bíða eftir úrslitum, halda partí og drekka. Þetta kallast félagsleg réttlæting á partíum og skemmtunum í kosningum. Og er sagður jafn lýðræðislegur réttur og að exa með blýanti.

Svo er sagt að ekki sé hægt að tryggja að tölvugreidda atkvæðið sé frá mér komið en ekki einhverjum öðrum. Og svo geta rússneskir glæpahópar eyðilagt kosninguna. Og hvað með endurtalningu? Hver eru frumritin? Ó, þetta er allt svo flókið.

Sem sagt. Peningar eru öruggir á bankareikningum en atkvæðagreiðsla til þings, sveitarstjórnar eða forseta getur endað í tómu rugli sé tölva notuð. Ja, hérna.


Ég get svo sem svarað í stað Bjarna Benediktssonar

Forystumenn í stjórnmálum bera enga ábyrgð á því sem flokksmenn þeirra segja og skiptir engu hvaða stöðu þeir kunna að gegna. Sumir eru nefndir „leiðandi menn“ innan stjórnmálaflokks“ en þannig nafngiftir eru afar villandi og jafnvel heimskulegar.

Langar aðsendar greinar eru til mikils ama fyrir lesendur Morgunblaðsins. Því miður nenna fáir að lesa þær ekki síst ef millifyrirsagnir vantar. Einn af þeim sem reyna þannig á þolinmæði okkar, lesenda Moggans, er maður sem heitir Ole Anton Bieltvedt, mikill ESB sinni sem á þá ósk heitasta að Ísland gangi þangað inn. Meirihluti þjóðarinnar er á móti því.

Ole skrifar mikið um ESB og hann skrifar grein í Moggann í dag sem er ekkert annað en endurunnin grein úr Fréttablaðinu frá 4. ágúst 2021. Í dag krefst hann þess að formaður Sjálfstæðisflokksins svari fyrir fullyrðingar sem aðrir flokksmenn hafa látið frá sér fara um um ESB. Ekki ber ég neina ábyrgð á formanni Sjálfstæðisflokksins en greinin er nógu barnaleg til að ég ráði við hana og get svo sem svarað í stað Bjarna.

Í grein sinni segir hann:

Leiðandi menn inn­an Sjálf­stæðis­flokks­ins hafa viðhaft þess­ar full­yrðing­ar um ESB og mögu­lega aðild að því hér í blaðinu:

    1. Að aðild Íslands að ESB „væri full­veld­is­framsal til yfirþjóðlegs emb­ætt­is­manna­valds og stofn­ana­veld­is í fjar­læg­um borg­um“
    2. að ESB sé „martraðar­kennt möppu­dýra­veldi“
    3. að ESB sé „ólýðræðis­leg valda­samþjöpp­un“
    4. að ESB sé „kjöt­katla­klúbb­ur afdankaðra 3. flokks stjórn­mála­manna“
    5. að ESB sé „vígi vernd­ar­stefnu og pils­faldakapítal­isma“
    6. að „stærstu rík­in, sem leggja fram mest fjár­magn, verða ráðandi í öll­um meg­in­at­riðum“.

Ja, hérna. Þetta er nú illa sagt um ESB. Maður hneykslast og finnur þörf hjá sér til að klaga.

Þeir „leiðandi menn“ sem Ole talar um eru bara tveir, ekki sex. Fyrsta atriðið er úr grein eftir Arnar Þór Jónsson, frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi sem birtist í Morgunblaðinu 10., júlí 2021. Í henni rökræðir hann við Þorstein Pálsson, fyrrum formann Sjálfstæðisflokksins og ESB sinna. Hann segir:

Það jákvæða við grein Þorsteins er að þar kristallast sú staðreynd að nú í haust gefst kjósendum í reynd færi á að tjá afstöðu sína til þessara álitaefna þar sem menn hafa þá skýran valkost milli þeirra sjónarmiða sem ég hef fært fram, annars vegar, og svo þeirrar tegundar valdasamruna, valdboðs, stjórnlyndis, einstefnu og undirlægjuháttar sem Þorsteinn Pálsson og fleiri boða undir merkjum annarra flokka.

Í því samhengi mun mér gefast tækifæri til að draga fram veikleika og misskilning, ef ekki afbökun, í málflutningi Þorsteins og annarra sem horfið hafa frá sjálfstæðisstefnunni og telja nú „augljóst“ að fríverslun útheimti fullveldisframsal til yfirþjóðlegs embættismannavalds og stofnanaveldis í fjarlægum borgum. Þennan draug hafa Bretar kveðið niður eftir útgöngu sína úr ESB með tvíhliða samningum við önnur ríki. 

Þetta er afar vel skrifað hjá Arnari Þór og að mínu mati ekkert við skoðun hans að athuga þó Ole vilji klaga í formann Sjálfstæðisflokksins eins og krakki sem fengið hefur sand í augun á róluvellinum.

Staðreyndin er þessi: Sjálfstæðisflokkurinn er á móti aðild að Evrópusambandinu. Í raun er ekkert meira um það að segja nema rökin. Þau eru á vefnum xd.is. og þar segir skýrt að Ísland standi utan við ESB. Mér finnst þetta góð stefna. Síðan er það smekkatriði hvernig hver og einn flokksmaður rökstyður andstöðu sína við ESB og eru allir frjálsir að því að velja þau orð sem þeir telja við hæfi.

Í forystugrein Morgunblaðsins þann 5. febrúar 2021 segir:

Bóluefnahneyksli ESB koma efasemdarmönnum um Evrópusamrunann ekki á óvart.
Þeir hafa um árabil varað við því að Evrópusambandið sé martraðarkennt möppudýraveldi, vígi verndarstefnu og pilsfaldakapítalisma, þar sem sóun og stöðnun haldist í hendur, kjötkatlaklúbbur afdankaðra 3. flokks stjórnmálamanna, án lýðræðislegrar tilsjónar almennings álfunnar sem fær að gjalda fyrir dýru verði. Það er ekki nýtt, en á síðustu vikum hafa afhjúpast sönnunargögn fyrir öllu þessu.

Fimm af ofangreindum umkvörtunarefnum Ole koma úr leiðaranum og vegna þeirra skælir Ole og klagar. Ekki get ég fullyrt hver skrifaði leiðarann og vera kann að það sé Davíð Oddsson sem ólíkt Ole Anton Bieltvedt er afar vel ritfær. Þar að auki hefur hann innsýn í ESB, nokkuð sem Ole hefur aldrei haft. Davíð þekkir pólitísku inniviði sambandsins af eigin reynslu sem forsætisráðherra, utanríkisráðherra og alþingismaður og var persónulega kunnugur mörgum þjóðarleiðtogum sem skylmdust innan ESB. Ekkert í ofangreindu er rangt þó virðist Ole bara uppsigað við stílinn, ekki efnið.

Betra hefði verið að Ole Anton Bieltvedt hefði lesið og gaumgæft allan leiðarann því hann er vel skrifaður. Í honum stendur meðal annars:

Það hefur nefnilega verið reglan undanfarin ár, að hin stóru kjölfesturíki ESB fara sínu fram gagnvart hinum minni á jaðrinum þegar það hentar. Þetta mátti sjá á Írlandi í fjármálakreppunni, enn frekar þó á Grikklandi þar sem lýðræðið mátti líka víkja fyrir Brusselvaldinu, rétt eins og á Ítalíu þar sem þessa dagana er einmitt verið að dubba upp enn einn landstjóra ESB sem forsætisráðherra og búið að fresta kosningum. Í Austur-Evrópu mega svo nýfrjálsu ríkin þar beygja sig undir hagsmuni Þjóðverja með lagningu Nord Stream-gasleiðslunnar og eins þurftu Danir, Pólverjar, Tékkar og fleiri evrulausar þjóðir að ábyrgjast stórfenglega lántöku til þess að bjarga evrunni enn eina ferðina.

Auðvitað hefur Ole Anton Bieltvedt enga hugmynd um annað en það sem á prenti stendur og því tengir hann vitlaust, dregur rangar ályktanir. Hann þekkir ekki innviðina, pólitíska leikinn, baráttuna, þvinganir og greiðasemi fyrir atkvæði innan ESB. Hann sér bara hina ljósrauðu og fögru mynd sem grunnhugmyndin að ESB var stofnuð um, en hún hefur, eins og leiðarahöfundur Morgunblaðsins segir svo réttilega snúist upp í andhverfu sína. Og fyrir andhverfuna vill hann selja Ísland. Eins gott að ég verði ekki klagaður fyrir að segja svona, en þess ber þó að geta að ég er fjarri því að vera „leiðandi“ maður.


Erfitt á að vera að breyta stjórnarkránni

Við þinglok rifjuðu full­trú­ar Sam­fylk­ing­ar, Pírata og Flokks fólks­ins upp breytingartil­lögu, sem lögð var fram við stjórn­ar­skrár­frum­varp Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur í vet­ur. Hún fel­ur í sér að til að breyta stjórn­ar­skrá nægi að ein­fald­ur meiri­hluti þings veiti samþykki sitt og í kjöl­farið fari fram þjóðar­at­kvæðagreiðsla þar sem hvorki verði gerð krafa um lág­marksþátt­töku né lág­marks­stuðning við breyt­ing­una.

Svo skrifar Birgir Ármannsson alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í fróðlegri grein í Morgunblaði dagsins. Í henni ræðir hann um stjórnarskrána okkar og vitnar til Kristrúnar Heimisdóttur og greinar hennar í Tímariti lögræðinga sem út kom fyrir skömmu.

Birgir bendir réttilega á að erfitt eigi að vera að breyta stjórnarskránni. Allir hugsandi menn vita að svo þarf að vera. Næg eru dæmin um vanhugsaðar lagasetningar og breytingar hér á landi og annars staðar. 

Að sögn Birgis eru mjög ströng skilyrði fyrir stjórnarskrárbreytingum á Norðurlöndunum. Þangað vilja margir sækja dæmi þegar það hentar en ekki þegar talað er um stjórnarskrána.

Hér er stutt upptalning úr grein Birgis.

Danmörk:

  • Samþykki tveggja þinga með kosningum á milli
  • Þjóðaratkvæðagreiðsla
  • Meirihluti þeirra sem atkvæði greiðir þarf að samþykkja
  • Þátttakan sé að minnsta kosti 40% þeirra sem eru á kjörskrá

Noregur:

  • Samþykki tveggja þinga með kosningum á milli
  • Við endanlega afgreiðslu þarf samþykki 60% þingmanna að styðja breytingarnar

Finnland:

  • Samþykki tveggja þinga með kosningum á milli
  • Við endanlega afgreiðslu þarf 60% þingmanna að styðja breytingarnar

Svíþjóð:

  • Samþykki tveggja þinga með kosningum á milli
  • Hægt að óska eftir þjóðatkvæðagreiðslu eftir fyrra samþykkið, en niðurstaða henn­ar er þó ekki end­an­leg eða bind­andi nema meiri­hluti legg­ist gegn breyt­ing­unni. Ef niðurstaðan er hins veg­ar já­kvæð kem­ur málið aft­ur til kasta þings­ins.

Ísland:

  • Samþykki tveggja þinga með kosningum á milli
  • Sé breyt­ing­in samþykkt óbreytt á nýju þingi öðlast hún gildi.

Af þessu má sjá að skilyrði fyrir stjórnarskrárbreytinum eru síst strangari hér á landi en á hinum Norðurlöndunum.

Vel má ímynda sér hvað gæti gerst ef auðvelt væri að breyta stjórnarskránni nú á þeim tímum þegar alls kyns „pópúlistahreyfingar“ vaða upp, falsfréttir í samfélagsmiðlum og víðar og ekki síst snöggsoðnar breytingar sem við fyrstu sýn virðast sanngjarnar. Afleiðingarnar gætu orðið hroðalegar fyrir lýðræðið.

Breytum ekki stjórnarskránni nema að vel grunduð ráði. Látum ekki Pírata, Flokk fólksins eða Samfylkinga ráða ferðinni.


Þessa kýs ég í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í SV kjördæmi

Ég er flóttamaður úr Reykjavík og bý í Kópavogi og kýs því í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi.

Fjölmargir hafa komið að máli við mig og vilja vita hverja ég mun velja. Því er ekki auðsvarað. Mikið og gott mannval er í kjöri. Engu að síður mun ég kjósa tvo menn sem að mínu mati bera af; Bjarna Benediktsson og Óla Björn Kárason. Vandi minn lýtur að því að velja í hin sætin.

Eftir vandlega íhugun, og skammir frá einni systurdóttur minni sem segir að ég gæti ekki nóg að jafnrétti kynja, þá er þetta minn listi, fjórar konur og fjórir karlar:

  1. Bjarni Benediktsson
  2. Óli Björn Kárason
  3. Bryndís Haraldsdóttir
  4. Karen Elísabet Halldórsdóttir
  5. Arnar Þór Jónsson
  6. Kristín Thoroddsen
  7. Sigþrúður Ármann
  8. Bergur Þorri Benjamínsson

Svona raðast þetta niður hjá mér. Þarna er margt nýtt, glæsilegt og öflugt fólk sem kemur úr öllum áttum með reynslu í mörgum mikilvægum málaflokkum.

Prófkjörið verður 10., 11. og 12. júní 2021. Utankjörstaðakosning er þegar hafin og mun ég nýta mér hana.


Þetta er mitt fólk í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík

althingishus_a01_webFjölmargir hafa spurt mig hvernig ég myndi kjósa í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Kosið er laugardaginn 4. og sunnudaginn 5. júní. Kjósa skal átta manns. 

Margir góðir menn hafa boðið sig fram í prófkjörinu og mikill vandi er að velja. Líklega má kalla þetta lúxusvanda og margir kunna að fyllast hreinum og klárum valkvíða þegar taka þarf afstöðu.

Ég hef velt málunum lengi fyrir mér og hér er sá listi sem ég mæli með. Ég þori að ábyrgjast alla, þeir eru gegnheilir og traustir Sjálfstæðismenn ekki síður en þeir sem ég valdi ekki á listann minn:

  1. Guðlaugur Þór Þórðarson
  2. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir
  3. Birgir Ármannsson
  4. Brynjar Níelsson
  5. Kjartan Magnússon
  6. Diljá Mist Einarsdóttir
  7. Sigríður Á. Andersen
  8. Hildur Sverrisdóttir

Sjálfstæðisflokkurinn er með fimm þingmenn í Reykjavíkurkjördæmunum. Markmiðið er að sjálfsögðu að ná inn átta þingmönnum í haust.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband