Vanmáttur feitu og lötu Vesturlanda gegn Rússum

Hvernig eiga Vesturlönd að bregðast við innrás Rússa í Úkraínu? Þetta er stóra spurning dagsins og alla daga meðan Rússar eru þar. Leiðarahöfundur Morgunblaðsins tekur á kjarna málsins eins og svo oft áður. Hann segir í blaði dagsins:

Margir hafa spurt sig hversu haldgóð tæki efnahagslegar refsiaðgerðir hafi reynst í gegnum tíðina. Margfalt þungbærari refsiaðgerðir, eins og í dæmum Norður-Kóreu og Íran, hafa reynst hægfara aðgerðir, svo ekki sé meira sagt.

Átta ára refsiaðgerðir gagnvart Rússum vegna gripdeildar í Úkraínu hafa engu skilað og virðast aðeins í gildi fyrir „sum“ ríki eftir hentugleikum þeirra og Rússa, og það ríkir löngum mikil samstaða um túlkun þeirra hentugleika.

Staðreyndin er einfaldlega sú að Nató virðist ekkert geta gert eða vilja gera. Leiðtogar þess standa hjá eftir að hafa gengið bónleið til búðar Kremlarbóndans. Þetta eru slíkar gufur að aldrei hafa slíkar sést.

Margt bendir til að leyniþjónustur í Evrópu og Norður-Ameríku hafi vitað um fyrirætlanir Rússa með margra mánaða fyrirvara ef ekki ára. Þeir vissu líka að ekkert fengi stöðvað þá, ætlunin var að ráðast inn í Úkraínu. Þegar við, almenningur, lítum til baka, sjáum að Rússar hafa leynt og ljós búið sig undir þessa atburði og „refsiaðgerðir“ Vesturlanda. Þeir eru fáum háðir og sambandið við Kínverja er svo gott að við þá er mun betra að eiga viðskipti.

Ríki Vesturlanda bjuggu sig ekki undir stríðið. Heimavinnan var vanrækt, ekki var unnið að undirbúningi efnahagslegra refsiaðgerða fyrr en allra síðustu daga.

Nató setur Rússum engin skilyrði. Svo virðist sem hersveitir þeirra megi taka sér stöðu við landamæri Póllands, ekki er gerð krafa um að þeir haldi sig í ákveðinni fjarlægð frá þeim. Nató lyppast niður vegna þess að bandalagið er svo hrætt um stigmögnun átakanna.

Næst taka Rússar ábyggilega Eistland og halda þaðan út á Eystrasalt og hernema Gotland með öllum sömu rökunum og þeir notuðu fyrir hernaði gegn Úkraínu.

Vesturlönd kjósa að sitja hjá. Ekki má loka fyrir alþjóðlega Swift kerfið sem myndi lama utanríkisviðskipti Rússa. Ástæðan er sú að Þjóðverjar hafa svo mikla hagsmuni af viðskiptum við þá.

Þannig standa nú málin. Ekkert má gera gegn útþenslu Rússa því hagsmunir Vesturlandabúa byggjast á viðskiptum við þá. Skítt með Úkraínu. Líklega eru Vesturlandabúar of feitir og latir til að taka á málum.

Jú, við ætlum að láta þá aldeilis finna fyrir krafti Vesturlanda ... En leiðtogarnir tala og tala og tala. Minna fer fyrir verkunum.

Þetta minnir á manninn sem sagði við elskuna sína: Ég mun vaða eld og brennistein fyrir þig, ástin mín. Og ég kem í kvöld ef ekki rignir.

Meðfylgjandi mynd eru úr Fréttablaðinu í dag og sýnir tímalínu frá því í nóvember á síðasta ár, langur aðdragandi að innrásinni og raunar er hann enn lengri en þarna kemur fram.

Fréttabl 220225


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband