Nú má kjósa með blýöntum

Kosningar til Alþings fara fram 25. september 2021 og getur kosning utan kjörfundar hafist föstudaginn 13. ágúst 2021.

pencilsÞannig tilkynnir Dómsmálaráðuneytið um merkisatburð í lífi þjóðar. Á einhverjum fjölmiðlinum var viðtal við sýslumann sem sagði hann að nú væru notaðir blýantar en ekki stimplar til að merkja við þann stjórnmálaflokk sem kjósandi vill greiða atkvæði.

Þvílík tækniþróun. Mann svimar. Hvað skyldi nú gerast næst?

Ég er nú enginn spámaður en gæti sem best trúað því að á næstu árum tækju yfirvöld í notkun sjálfblekunga eða jafnvel kúlupenna.

Sko, í Bandaríkjunum eru víða notaðar vélar sem gata kjörseðilinn í stað þess að maður þurfi að brúka blýant. Vel má vera að slíkar vélar verði einhvern tímann í framtíðinni fluttar hingað til lands. Það væri nú aldeilis munur að þurfa ekki að nota blýant. 

Vel má vera að einhvern tímann í fjarlægri framtíð myndu bókstafir verða felldir niður sem tákn stjórnmálaflokka. Hugsið ykkur tæknina þegar maður getur notað bírópenna á kjörseðil og exað við nafn flokksins, ekki bókstafinn, sem þó er ekki fyrsti stafurinn í nafni hans.

Já, tæknin þróast og breytist hraðar en snigillinn ferðast.

Svo er það hitt að ég er eiginlega hættur að fara í banka. Með sömu tölvunni og ég skrifa þennan pistil get ég greitt reikninga, millifært peninga til Jóns og Gunnu, keypt vörur frá útlöndum, tekið við greiðslum héðan og þaðan. Þó getur Skatturinn skoðað bankareikninga fólks gruni hann það um eitthvað misjafnt. En, og takið eftir, starfsmennirnir þurfa ekki einu sinni að standa upp úr hægindastólum sínum. Fólk er rannsakað, ákært, dæmt og fangelsað af fólki sem situr hreyfingarlaust á rassinum.

Sú hugmynd hefur komið upp að banna peningaseðla og myntir og láta fólk nota debet- eða kreditkort í staðinn. Þá væri nú veruleg þrengt að glæpahópum.

Á meðan tekur sýslumaðurinn í notkun blýanta við utankjörstaðakosningu og kemur stimplunum fyrir í geymslunni ofan í kjallaranum. Og hann hælir sér af tækniþróuninni.

Bankarnir sjá til þess að enginn steli af bankareikningum fólks.

En ætli ég að kjósa þarf ég að fara í eitthvert hús við tiltekna götu. Bíð í röð. Sýna persónuskilríki. Fá í staðinn áprentað pappírsblað og blýant. Fara í felur með hvort tveggja. Skrifa ex við staf sem táknar stjórnmálaflokk. Koma úr felum. Horfa í augun á fimm manns sem stara á mig grunsemdaraugum. Fá að stinga blaðinu í rauf á brúnum krossviðskassa. Hundskast út. Úff ...

Löggan flytur kassann á milli húsa. Þar er innsiglið rofið, hvolft úr honum og fullt af fólki tekur blöðin, atkvæðaseðlanna, og telur þá. Aðrir raða þeim eftir því hvar exin standa og þá eru þau aftur talin. Niðurstaðan er borin saman við fjölda þeirra sem kosið hafa og allt verður að stemma. Um miðja nótt eða snemma morguns er sagt frá því hvernig atkvæði féllu. „Nýjustu tölur frá Austurbæjarskóla ...“

Á meðan er mikið stuð í heimahúsum og á veitingastöðum. Einhverjir drekka munngát og skemmta sér. Aðrir leggjast til svefns í þeirri fullvissu að úrslitin verði kunn daginn eftir.

Væri hægt væri að greiða atkvæði í tölvu gætu úrslitin verið ljós klukkan 22 er kosningu lýkur. En það má ekki því það er svo gaman að bíða eftir úrslitum, halda partí og drekka. Þetta kallast félagsleg réttlæting á partíum og skemmtunum í kosningum. Og er sagður jafn lýðræðislegur réttur og að exa með blýanti.

Svo er sagt að ekki sé hægt að tryggja að tölvugreidda atkvæðið sé frá mér komið en ekki einhverjum öðrum. Og svo geta rússneskir glæpahópar eyðilagt kosninguna. Og hvað með endurtalningu? Hver eru frumritin? Ó, þetta er allt svo flókið.

Sem sagt. Peningar eru öruggir á bankareikningum en atkvæðagreiðsla til þings, sveitarstjórnar eða forseta getur endað í tómu rugli sé tölva notuð. Ja, hérna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ástæða þess að hægt er að sýsla með fjárhagslegar einingar í tölvum á tiltölulega öruggan hátt er einföld: Rekjanleiki. Ef eitthvað misferst er alltaf hægt að rekja villuna og leiðrétta hana.

Kosningar þurfa aftur á móti að vera leynilegar, en það er ekki hægt ef kjörseðlar eru rekjanlegir. Það er ekki hægt samtímis að tryggja öryggi og leynd rafrænna atkvæða, að minnsta kosti hefur engum hingað til tekist að þróa lausn sem gerir bæði.

Gataspjöldin sem eru notuð vestanhafs hafa mikla galla í för með sér. Þann stærsta að tilgangur þeirra er að hægt sé að nota talningarvélar til að telja atkvæði á hraðvirkan hátt. Þær vélar eru í raun tölvur og margoft hefur verið sýnt fram á að öryggi þeirra er gríðarlega ábótavant. Svo telja þær ekki götin alltaf rétt (sem dæmi má gúgla: "hanging chads").

Langbesta lausnin út frá sjónarmiðum öryggis og kosningaleyndar er þegar öllu er á botnin hvolft að nota engar rafrænar aðferðir heldur ritblý til að merkja við og handtalningu atkvæða. Kjörskrá getur þó verið rafræn enda á hún beinlínis að vera rekjanleg en atkvæðin mega ekki vera það. Jafnframt er ekkert sem mælir gegn því að nota tölvu til að leggja saman niðurstöður talninga enda er hún þá aðeins notuð sem reiknivél en ekki til að geyma atkvæði.

Guðmundur Ásgeirsson, 13.8.2021 kl. 15:01

2 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Eina leiðin til að hafa ófalsaðar kosníngar er að afnema nafnleynd og kjósa með pennúm á pappír - þannig er bókhald unnið.

Ef við getum ekki kosið undir nafni, þá er ekkert lýðræði heldur lýgræði og auk þess hefur reynslan sýnt að bæði er hægt falsa blýanta og tölvu-kosníngar.

Guðjón E. Hreinberg, 15.8.2021 kl. 01:16

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Guðjón.

Kjörseðlarnir eru opnaðir undir eftirliti óháðra aðila og talning fer fram fyrir opnum tjöldum. Þess vegna væri ekki hægt að falsa verulegan fjölda blýantskrifaðra atkvæða án þess að neinn myndi taka eftir því. Auk þess eru engin strokleður í rýminu og jafnvel þó einhver gæti smyglað því inn þá myndu förin eftir blýtantana sjást og merki um útþurkkun svo sönnunarögn væru þá fyrir hendi. Þetta væri ekki fyrirhafnar og áhættu virði. Þess vegna er mjög langsótt að ætla að fremja kosningasvik með þeim hætti.

Ég get þó tekið undir með þér að það væri ekkert verra og jafnvel traustara að nota blekpenna, ef það væri heimilt.

Guðmundur Ásgeirsson, 15.8.2021 kl. 01:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband