Erfitt á að vera að breyta stjórnarkránni

Við þinglok rifjuðu full­trú­ar Sam­fylk­ing­ar, Pírata og Flokks fólks­ins upp breytingartil­lögu, sem lögð var fram við stjórn­ar­skrár­frum­varp Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur í vet­ur. Hún fel­ur í sér að til að breyta stjórn­ar­skrá nægi að ein­fald­ur meiri­hluti þings veiti samþykki sitt og í kjöl­farið fari fram þjóðar­at­kvæðagreiðsla þar sem hvorki verði gerð krafa um lág­marksþátt­töku né lág­marks­stuðning við breyt­ing­una.

Svo skrifar Birgir Ármannsson alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í fróðlegri grein í Morgunblaði dagsins. Í henni ræðir hann um stjórnarskrána okkar og vitnar til Kristrúnar Heimisdóttur og greinar hennar í Tímariti lögræðinga sem út kom fyrir skömmu.

Birgir bendir réttilega á að erfitt eigi að vera að breyta stjórnarskránni. Allir hugsandi menn vita að svo þarf að vera. Næg eru dæmin um vanhugsaðar lagasetningar og breytingar hér á landi og annars staðar. 

Að sögn Birgis eru mjög ströng skilyrði fyrir stjórnarskrárbreytingum á Norðurlöndunum. Þangað vilja margir sækja dæmi þegar það hentar en ekki þegar talað er um stjórnarskrána.

Hér er stutt upptalning úr grein Birgis.

Danmörk:

  • Samþykki tveggja þinga með kosningum á milli
  • Þjóðaratkvæðagreiðsla
  • Meirihluti þeirra sem atkvæði greiðir þarf að samþykkja
  • Þátttakan sé að minnsta kosti 40% þeirra sem eru á kjörskrá

Noregur:

  • Samþykki tveggja þinga með kosningum á milli
  • Við endanlega afgreiðslu þarf samþykki 60% þingmanna að styðja breytingarnar

Finnland:

  • Samþykki tveggja þinga með kosningum á milli
  • Við endanlega afgreiðslu þarf 60% þingmanna að styðja breytingarnar

Svíþjóð:

  • Samþykki tveggja þinga með kosningum á milli
  • Hægt að óska eftir þjóðatkvæðagreiðslu eftir fyrra samþykkið, en niðurstaða henn­ar er þó ekki end­an­leg eða bind­andi nema meiri­hluti legg­ist gegn breyt­ing­unni. Ef niðurstaðan er hins veg­ar já­kvæð kem­ur málið aft­ur til kasta þings­ins.

Ísland:

  • Samþykki tveggja þinga með kosningum á milli
  • Sé breyt­ing­in samþykkt óbreytt á nýju þingi öðlast hún gildi.

Af þessu má sjá að skilyrði fyrir stjórnarskrárbreytinum eru síst strangari hér á landi en á hinum Norðurlöndunum.

Vel má ímynda sér hvað gæti gerst ef auðvelt væri að breyta stjórnarskránni nú á þeim tímum þegar alls kyns „pópúlistahreyfingar“ vaða upp, falsfréttir í samfélagsmiðlum og víðar og ekki síst snöggsoðnar breytingar sem við fyrstu sýn virðast sanngjarnar. Afleiðingarnar gætu orðið hroðalegar fyrir lýðræðið.

Breytum ekki stjórnarskránni nema að vel grunduð ráði. Látum ekki Pírata, Flokk fólksins eða Samfylkinga ráða ferðinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Heyr, heyr.

Sigurður Kristján Hjaltested, 20.7.2021 kl. 11:44

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Við þetta má bæta að breytingarákvæði gildandi stjórnarskrár leyfir aðeins breytingar á henni eða viðauka við hana. Hins vegar er hvergi nein heimild til að afnema hana í heild og setja í staðinn eitthvað sem kalla mætti "nýja stjórnarskrá".

Svarið við spurningunni "hvar er nýja stjórnarskráin" er því einfaldlega: hvergi.

Guðmundur Ásgeirsson, 20.7.2021 kl. 16:50

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Mjög merkileg og þörf ábending. Þetta nefndi líka Kristrún Heimisdóttir í grein sinni í Tímariti lögfræðinga og endurtók mjög skýrlega í Dagmálum Morgunblaðsins. Þetta má kalla mjög mikilvæga vörn.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 20.7.2021 kl. 16:57

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þetta er annar af tveimur varnöglum fyrir slíkri umbyltingu sem eru innbyggðir í stjórnarskránna. Hinn er í 47. gr.:

"Sérhver nýr þingmaður skal vinna drengskaparheit að stjórnarskránni, þegar er kosning hans hefur verið tekin gild."

Þingmenn geta ekki afnumið stjórnarskránna í heild, því þá yrðu þeir brotlegir við þetta heit og slík aðgerð væri lögleysa.

Guðmundur Ásgeirsson, 20.7.2021 kl. 17:17

5 identicon

Ég er svo sammála því, sem þú segir hér, Sigurður. Það á ekki að vera hægt að breyta stjórnarskrá ríkisins, - af því bara. Það gengur ekki. Menn verða að hafa ríka ástæðu til þess að breyta stjórnarskránni. Hins vegar hefði ég haldið, að það ætti að vera hægt að bæta við einhverjum greinum, sem æskilegt væri, að stæðu þar, en eru þar ekki, ef út í það er farið, en það þurfa að vera rík rök fyrir því, hvers vegna á að bæta þeim við, og sérstakar ástæður. Annað gengur ekki.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 20.7.2021 kl. 18:27

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Guðbjörg.

Hvergi í stjórnarskránni kemur fram að "ríkar ástæður" þurfi til að breyta henni. Eina skilyrðið fyrir breytingum er meirihlutasamþykki tveggja þinga með kosningum á milli. Nema ef breyta á kirkjuskipan, þá þarf líka samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Guðmundur Ásgeirsson, 20.7.2021 kl. 23:27

7 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sammála þér Guðbjörg. Almennt þarf ríkar ástæður til að breyta stjórnarskránni jafnvel þó það standi ekki í henni eins og Guðmundur Ásgeirsson segir, enda byggist þannig orðalag á huglægu mati þeirra sem vilja eða vilja ekki breyta.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 21.7.2021 kl. 00:15

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ef það væri svona nauðsynlegt að banna heildarbreytingar á stjórnarskránni væri það auðvitað í núverandi stjórnarskrá. 

Og vegna þess að þrisvar hefur stjórnarksránni verði breytt varðandi kjördæmi og kosningar, og í öll skiptin eftir mikinn ágreining, yrði að vera ákvæði um það, hve stórum hluta hennar mætti breytta, ef það ætti að takmarka það á annað borð. 

En ekkert slíkt ákvæði er til, einfaldlega vegna þess að í landinu er þingræði, og auðvitað getur hvaða alþingi sem er lagt fram frumvarp um breytingar á stjórnarskránni og samþykkt þær eftir gildandi reglum, 

Annars væri hér ekki þingræði. 

Ómar Ragnarsson, 21.7.2021 kl. 16:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband