2.686 km

LandsganganÍ um síðustu áramót strengdi ég þrjú nýársheit. Þau voru:

  1. Klífa Everest
  2. Synda á norðurskautið
  3. Kaupa happdrættismiða
  4. Taka þorsk í fóstur. 

Þetta eru allt göfug markmið sem gera mann fagran að innan, eins og sagt er. Happdrættismiðann keypti ég í desember (enginn vinningur). Hitt verður að bíða næsta árs.

Annars stóð ekki til að gera neitt annað en það hefðbundna; en drekka bjór, koníak, verða fullur, fara á djammið þess á milli sem ég byggi mig undir að standa við heitin. Því miður fór lítið fyrir drykkjuskapnum af ástæðum sem nú skal greint frá.

Fyrir algjöra tilviljun vildi svo til þann fyrsta janúar árið 2021 að ég gekk út úr húsi mínu mér til heilsubótar. Sko, veitti ekki af eftir hressileg áramót. Segja má að ég hafi varla komið heim síðan.

Fyrir mér fór eins og honum Forrest Gump sem álpaðist út og hljóp og hljóp og hljóp þangað til hann lét af hlaupum. Ég gekk og gekk og gekk og gekk. Hef ekki enn hætt.

Hef nú lagt að baki 2.686 kílómetra. Er þá enginn hissa á því hvers vegna ég náði ekki markmiðunum tólf; klífa Úlfarsfell, synda í Laugardalslauginni, taka strætó og læra á flugvél.

Nei, ég gekk ekki þessa kílómetra í einum áfanga, þeir urðu 245.

Ég fann tvær leiðir, tíu og fimmtán km langar. Gekk oftast þá skemmri en hina um helgar og á tyllidögum. Þar að auki hef ég gengið á fjöll, druslast margoft um eldstöðvar á Reykjanesi og brölt á jökla. Allt er samviskusamlega fært til bókar; vegalendir, tími og annað gáfulegt.

Til að gera afrek mitt sem glæstast hef ég dregið göngurnar á kort, svona til að þykjast vera eitthvað.

Fyrst gekk ég hringveginn (1.321 km), hélt þaðan um Snæfellsnes, Dali og um Vestfirði, til Ísafjarðar og svo í Kaldalón, að Bæjum, yfir Dalsheiði og í Leirufjörð.
Þá orti ég:

Ljótur ertu Leirufjörður
líst mér illa á þig.
Að þú sért af guði gjörður
gengur yfir mig.

Bara ansi vel ort, þó ég segi sjálfur frá. Þó kann vel að vera að einhver annar hafi ort þessa ágætu vísu enda hefur mér aldrei þótt Leirufjörður ljótur. Þvert á móti.

Nú, ég gekk svo um Hornstrandir (ekki í fyrsta sinn) og allt suður að Staðarskála við botn Hrútafjarðar. Þaðan villtist ég upp á Arnarvatnsheiði og inn á Kjöl sem ég skokkaði í desember.

Og nú á gamlársdegi er ég sumsé staddur einhvers staðar á milli Gullfoss og Sandár. Endir. Kemst í þykjustunni ekki heim. Afþakka leit björgunarsveita. Veit að ættingjar, vinir og kunningjar myndu hugsanlega leita að mér í vor.

Göngurnar eru fjarri því að vera afrek nema fyrir sjálfan mig. Ég gerði aðeins það sem hverjum manni ber skylda til; halda sér í formi, láta líkamann erfiða. Eða með orðum Guðmundar fjallamanns Einarssonar frá Miðdal:

Fleiri og voðalegri slys hljótast af hreyfingarleysi en fjallgöngum.

Til að gera tilveruna bærilegri hóf ég að hlusta á sögur af öllu tagi, mest þó fornsögur. Hundleiðinlegar göngur urðu í skyndilega stórskemmtilegar. Ég hlakkaði til að fara út að ganga og hlusta á frásagnir af hetjum í Njálssögu, miskunnarlaus örlög í Laxdælu, yfirgang og pólitík í Eyrbyggju, ættarsöguna í Vatnsdælu, spakmælin í Grettissögu, vonlausa tilveru Gísla Súrssonar og svo framvegis. Einnig sígildar sögur nútímans og glæpasögur Nesbös hins norska. Best af öllu var að eiga vinskap við Einar Kárason sem þreyttist aldrei á að lesa fyrir mig úr bókum sínum. Aldrei kvartaði skáldið.

Ekki heldur nokkrir einstaklega skemmtilegir vinir sem slógust af og til í för með mér, léttu mér lífið og sporin, og þoldu masið í mér (sumir komu nú bara einu sinni, hvernig sem á því stendur).

Og hvað fæst út úr svona flandri, spyr lesandinn.

Sosum ekki neitt. Spikið á manni minnkar, sem er hugsanlega jákvætt. Annars er þetta bara fyrirhöfn. Maður svitnar og þarf að þvo fötin, skórnir hraðslitna og kaupa þarf nýja; oft kemur hælsæri af nýjum skóm. Stundum er manni kalt. Fyrir kemur að maður hrasar. Ekki er alltaf hægt að treysta á rafhlöðuna í símanum mínum (iPhone 6), hún á það til að tæmast á miðri leið og þá varð allt frekar dapurt og jafnvel samfylkingarskáldið þagnar.

Hvað ætlarðu svo að gera á nýju ári, spyr lesandinn með ólund, enda safnar hann spiki í sófa sínum.

Held áfram, auðvitað. Hvað annað?

Nú strengi tvö nýársheit:

  1. Annað hvort ek ég eða hleyp jafnmarga km á árinu 2022 og ég gerði á liðnu ári.
  2. Ætla að vera góður við hunda og ketti.
  3. Fer í kirkju á næstu jólum ef enginn faraldur bannar.
  4. Syndi frá Reykjavík og „upp“ á Akranes og hjóla til baka (eða syndi á Akranesi og ek heim).
  5. Ganga berfættur á volgu hrauni á Reykjanesi.

Má vera að ég hætti bara að ganga og fari að hlaupa eins og Forrest Gump. Sko, ég er ennþá ungur. Kann allt, get allt miklu betur en …

Hvernig sem veltist óska ég lesandanum spennandi árs og gleði og ánægju.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rafn Haraldur Sigurðsson

Mitt takmark á síðasta ári var að hjóla 7500km, gerði gott betur, hjólaði 8605km samkvæmt Strava. Bætti mig um rúma 170km frá árinu áður. En ég skráði ekki gönguferðirnar. Vonandi bæti ég mig á þessu ári. 

Gleðilegt ár Sigurður.

Rafn Haraldur Sigurðsson, 1.1.2022 kl. 10:54

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Glæislegur árangur, Rafn. Hjólreiðar taka verulega á. Skráðu allt. Það er svo gaman að líta yfir farinn veg. Eykur áhugann.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 1.1.2022 kl. 11:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband