Úkraína á ekki möguleika gegn Rússum

Svisslendingar bættust í gær í hóp þeirra ríkja sem bönnuðu allar flugvélar frá Rússlandi í lofthelgi sinni ...

Las þetta í Mogganum mínum í morgun. Finnst þetta stórmerkileg útspil Svisslendinga en frekar útlátalaust fyrir þá. Sviss er sem eyja, umkringd ESB ríkjum sem þegar hafa bannað flug Rússa í Evrópu og því er ansi erfitt fyrir þá að komast til Sviss, jafnvel þó þeim væri leyfilegt að fljúga þar. Þó ber þess að geta að í Sviss eru áreiðanlega margir Rússar og vissara að banna þeim að fara í útsýnisflug.

Ísland hefur bannað Rússum að fljúga í lofthelgi sinni. Ég legg til að borgarstjórinn í Reykjavík, sem er kunnur mannvinur, gangi enn lengra og banni Rússum að lenda á Reykjavíkurflugvelli. Blönduósingar, gætu gert hið sama. Einnig Hornfirðingar, Ísfirðingar og Hólmarar svo ekki sé nú talað um Akureyringa. Rússar munu þá ábyggilega sjá sig um hönd og hrökklast frá Úkraínu.

Góða fólkið er svo gott og það lætur ekkert tækifæri ónotað til að auglýsa sig. Afar sterkt er að formæla Pútín, kalla hann heimskan, vitfirrtan, geðveikan og svo framvegis.

Raunveruleikinn er hins vegar ekkert grín og stríð er enginn leikur. Jafnvel þó allur heimurinn sé á móti Rússum og allir fjölmiðlar tíundi stríðsreksturinn og greini frá hetjulegri vörn Úkraínumanna er ljóst að þeir eiga ekki nokkurn möguleika gegn árásarhernum. Ekkert getur orðið þeim til bjargar nema önnur ríki komið þeim til aðstoðar á vígvellinum eða bylting verði heima við. Hvorugt mun gerast.

Því miður er staðan þessi. Pútín og samstarfsmenn hans eru ekki heimskir. Þegar hér er komið sögu geta Rússar ekki snúið til baka, það væri ósigur. Það er því rétt sem segir í forystugrein Morgunblaðsins í dag:

Stríðsvélin er komin of langt. Hún er nú á sjálfstýringu og óstöðvandi. Pútín er nú næstur að völdum í Rússlandi á eftir sjálfstýringunni, sem sest er við enda langa borðsins sem sífellt lengist.

Eina von Úkraínumanna og raunar eina von Evrópu er að Rússar taki í taumanna og bylti Pútín og stjórn hans. Líklega gerist ekki fyrr en líkistur hermanna úr Úkraínu verði sendar til Rússlands. Þá verður það alltof seint fyrir Úkraínu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband