Úldin skata mengar í gegnum síma
23.12.2015 | 11:01
Rétt eftir hádegi á Þorláksmessu í fyrra hrindi í mig maður út af verkefni sem við vorum að vinna saman. Áttum við stutt spjall. Að því loknu þurfti ég í verslun og er ég greiddi fyrir kaupin spurði afgreiðslustúlkan hvort ég hefði verið í skötuveislu. Ég neitaði því, sagði sem satt var að úldin skata væri það versta sem ég hefði nokkru sinni bragðað. Hún sagði engu að síður að af mér væri eimur af þessari leiðu skötulykt.
Ég var dálítið hugsi eftir þetta og komst að þeirri niðurstöðu að viðmælandi minn í símanum hefði verið að koma úr skötuveislu þar sem boðið var upp á svo úldna og eitraða skötu að lyktin hefði bókstaflega mengað í gengum símann. Alveg satt, eins og börnin segja.
Þetta datt mér í hug er ég las pistil Árna Matthíassonar, blaðamanns, í Morgunblaði dagsins. Hann segir frá manni sem hafði hitt skötuneytanda á götu og sá hafi lagt hönd á öxl hans. Afleiðingin varð sú að sá fyrrnefndi lyktaði eins og úldin fiskur.
Þessaar tvær sögur eiga það sameiginlegt að af Þorláksmessuskötunni er fýla mikil sem vekur ógleði hjá flestu sómakæru fólki. Það sem er hins vegar jákvætt er að skoðanakannanir sýna að ungt fólk étur síður skötu en það eldra. Þetta er því ósiður sem um síðir mun deyja út.
Ég er ákveðinn í því að svara ekki í símann í dag fyrr en eftir klukkan fjögur.
Hálfkjörinn þingmaður situr í stjórn Ríkisútvarpsins
22.12.2015 | 13:22
Hvenær er maður kjörin á þing og hvenær ekki? Þetta er ein mikilvægasta spurningin sem hrokkið hefur upp úr þeim stjórnmálamanni sem telur sig hvorki kjörinn né ókjörinn. Líklegast er hann hálfkjörinn.
Málavextir eru þeir að varaþingmaður Samfylkingarinnar, Mörður Árnason, situr á vegum hennar í stjórn Ríkisútvarpsins. Svo segir í lögum íslenskum að sá megi ekki sitja í stjórninni sem er kjörinn á þing eða í sveitarstjórn.
Mörður segist varaþingmaður og þurfi því ekki að víkja nema þegar hann sitji þingfundi til vara fyrir þann sem er aðal. Hann sé því ekki kjörinn, bara hálfkjörinn.
Engu að síður bauð hann sig fram í kosningum, var í fjórða sæti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður. Það var sumsé staðföst ákvörðun frambjóðandans og flokksins hans að hann færi á framboðslista og með hálfum huga samþykktu kjósendur flokksins í þingkosningunum 2013 að Mörður væri hálfkjörinn en ekki alkjörinn.
Ekkert segir um hálfkjörna menn í lögum um stjórnarsetu hjá Ríkisútvarpinu. Mörður getur því skákað í því skjólinu að hann megi sitja í stjórn fyrirtækisins. Hér er alveg hægt að taka undir þessa frumlegu lögskýringu ... og þó.
Hvenær er annars Mörður kjörinn á þing og hvenær ekki? Sá má teljast óétinn sem sest við matarborðið en fyllir ekki maga sinn. Fór sá ekki í sund sem lét sér nægja að fara í heita pottinn? Gekk sá á Esjuna sem fór aðeins upp að steini? Er hægt að vera hálffullur eða alfullur? Er hægt að hálfbrjóta lögin ...?
Má vera að þetta sé tóm vitleysa og misskilningur, að minnsta kosti hálfvitleysa og hálfmisskilningur. Auðvitað er þetta hálfvitagangur hjá mér enda jólaundirbúningur að hálfdrepa mig.
Myndin er af þeim hluta Marðar sem var kjörinn á þing.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Á heimilið eða gatan að sjá um uppeldi barnanna?
21.12.2015 | 20:16
Ég hef ekki nennt að hafa mikla afstöðu til þess hvort fara eigi með börn í kirkju fyrir jólin. Er reyndar helst á því að börnin eigi að ráða þessu sjálf? Maður ætti að gera sem minnst af því að troða trú eða pólitík upp á börn. Það fer best á því að þau uppgötvi slíka hluti sjálf. Líklega er það þó fremur lítil trúarupplifun að fara í stórum hópi í kirkju, eins og börn eru oft fyrir jólin, uppnumin og spennt.
Þetta segir Egill Helgason í fróðlegum pistli sínum á vefsíðunni Eyjan. Um orð hans má ábyggilega deila. Ég hef hins vegar haft þá skoðun að farsælla sé að foreldrar sjái um uppeldið á börnunum sínum heldur en að þau uppgötvi hlutina sjálf.
Uppeldið gengur yfirleitt út á það að kenna börnum góða siði. Allir foreldrar telja sig geta miðlað af eigin þekkingu og reynslu. Þannig berst það sem gott þykir á milli kynslóða ... og hugsanlega einnig það sem miður þykir.
Varla kennir nokkurt foreldri barni sínu að reykja. Þau finna það út einhvers staðar annars staðar. Varla kenna foreldrar börnum sínum að stela, segja ósatt, meiða aðra, leggja aðra í einelti ... Allt þetta og meira til lærist annars staðar en á heimilinu. Hlutverk foreldra er að leiðrétta það sem miður hefur farið, í því er uppeldið fólgið.
Sé einhver þannig gerðurað hann vilji afsala sér hlutverki sínu sem uppalandi til einhverra óskilgreinds fólks úti í bæ þá verður bara svo að vera. Er hins vegar nokkur vissa fyrir því að þetta fólk boði annað en það sem slæmt er? Þegar öllu er á botninn hvolft er frekar líklegt að börnin læri fátt mikilvægt utan heimilisins ... og auðvitað skólans.
Svo kann það að gerast að einn góðan veðurdag uppgötvi foreldrarnir að börnin þeirra vilji ekkert með það sem þeir meta mikils. Hvort hefur þá brugðist, heimilið eða gatan sem uppeldið var útvistað til.
Væntanlega er þá skólinn sá varnagli sem bjargað getur barni frá því að hafa engan heima sem tekur þátt í uppeldinu. Um það eru mörg dæmi, líka um heimilin sem brugðust.
Staðreynd lífsins að minnihluti er minnihluti sagði Steingrímur
16.12.2015 | 10:09
Málþóf er óaðskiljanlegur hluti þingræðis. Á stundum hefur stjórnarandstaðan ekki önnur vopn til að verjast. Málþóf er vopn sem stjórnarandstaða á hverjum tíma verður að hafa tiltækt til að hafa áhrif á gang mála og koma í veg fyrir að ríkisstjórn og meirihluti þingsins valti yfir minnihlutann með óbilgirni.
Vopnið er vandmeðfarið og það er auðvelt að misnota það. Oft snýst það í höndunum á þeim sem því beita.
Þetta segir Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í stórmerkilegri grein í Morgunblaði dagsins. Hann ræðir um málþóf stjórnarandstöðunnar og tekur dæmi um ótrúleg sinnaskipti alþingismanna sem eitt sinn voru algjörlega á móti málþófi en eru nú önnum kafnir í skipulagningu og framkvæmd þess. Ég skora á lesendur þessara lína að verða sér út um Morgunblaðið og lesa greinina. Hún afhjúpar tvískinnung.
Svo sannarlega kann málþófið að snúast í höndunum á þeim sem beita því. Sá sem er í ríkisstjórn verður fyrr eða síðar í stjórnarandstöðu. Þá er spurningin hvernig fyrrum minnihluti eða meirihluti fer með vald sitt, munum að minnihlutinn hefur vald.
Óli Björn rekur ummæli núverandi stjórnarandstöðuþingmanna þegar þeir voru í ríkisstjórn og mislíkaði umræðan um Icesave. Ríkisstjórnin ætlaði að troða frumvarpinu í gegnum þingið, tókst það raunar, en fékk það í andlitið eftir að forsetinn neitaði að undirrita lögin og svo var hún flengd í þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.
Steingrímur 2. desember 2009:
Það er auðvitað geysilega vel boðið af minnihlutanum að taka völdin á þinginu og ráða dagskrá þingsins og ráða framvindu og fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að ráða áherslu mála, sagði Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra um fundarstjórn forseta Alþingis 2. desember 2009. Þá var Icesave-samningur á dagskrá þingsins. Stjórnarandstaðan var sökuð um málþóf. Af yfirlæti benti fjármálaráðherrann þingmönnum Sjálfstæðisflokksins á að þeir yrðu að horfast í augu við þá staðreynd« að þeir hafi verið kosnir »frá völdum af þjóðinni sl. vor.
Össur 27 nóvember 2009:
Málþóf er tvíeggjað sverð. Menn mega að sjálfsögðu tala eins og þeir vilja. Ég hef alltaf varið rétt stjórnarandstöðunnar til þess, en það er stundum hættulegt og nú er Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefur leitt Framsóknarflokkinn inn í málþóf í þessu máli, orðinn hræddur um sína stöðu vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn skynjar að hann hefur engan stuðning úti í samfélaginu fyrir því að halda öllum brýnustu fjárlagamálum ríkisstjórnarinnar í gíslingu til að tala sig hásan um Icesave án þess að það komi nokkru sinni neitt nýtt fram í þeim ræðum. Sjálfstæðisflokkurinn ætti bara að skammast sín til þess að hætta málþófi ef hann er hræddur við sína eigin þátttöku í því.
Ólína Kjerúlf 27. nóvember 2009:
»Ég mótmæli því að stjórnarandstaðan geti talað þannig að hún geti boðið meirihluta þingheims þetta eða hitt. Það er þingræði í þessu landi og það er meirihluti þingheims og vilji hans sem hlýtur að stjórna störfum þingsins.«
Steingrímur 2 desember 2009:
»Það er auðvitað geysilega vel boðið af minnihlutanum að taka völdin á þinginu og ráða dagskrá þingsins og ráða framvindu og fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að ráða áherslu mála. En það er einu sinni þannig að minnihluti er minnihluti og meirihluti er meirihluti. Það er ein af staðreyndum lífsins og þetta verða menn að horfast í augu við. Sjálfstæðisflokkurinn verður m.a. að horfast í augu við þá staðreynd að hann var kosinn frá völdum af þjóðinni sl. vor. Hann var kosinn frá völdum.«
Og nú er Steingrímur J. Sigfússon ásamt þeim félögum hans sem hér eru nefndir til sögunnar, kominn í stjórnarandstöðu eftir að hafa verið kosinn frá völdum af þjóðinni. Hann býðst núna til að taka völdin á þinginu og ráða dagskrá þingsins og ráða framvindu og fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að ráða áherslu mála. Ábygglega kunna margir honum þakkir fyrir fórnfýsina.
Svona snúast nú vopnin í höndum fólks. Steingrímur og Össur í stjórnarandstöðu hafa greinilega ekki sömu áherslur og Steingrímur og Össur sem ráðherrar. Hvers vegna gilda ekki sömu rök á Alingi árið 2015 og fullyrt var að giltu árið 2009?
Að lokum þetta: Veit einhver hvers vegna minnihlutinn æfir málþóf í sölum Alþingis?
Jón Gunnarsson og orð hans um Björku Guðmundsdóttur
15.12.2015 | 11:03
Nær ósjálfrátt láta menn vaða. Jafnvel góða fólkið sem að eigin sögn má ekkert aumt sjá án þess að leggja til styrktarfé úr ríkissjóði á það til að kunna sig ekki. Illt skal með illu út reka er jafnan viðkvæðið.
Þú ert helv... aumingi og vitleysingur, er oft viðkvæðið þegar til vamms er sagt. Afleiðingin er því miður að sá hreinskilni sér sitt óvænna og hreytir úr sér álíka formælingum og fyrr en varir er komið inn á kunnuglegar slóðir rifirildis og leiðinda.
Til hvers leiða fúkyrði eða rifrildi? Satt að segja gagnast þau engum nema í því augnabliki sem þau eru sögð. Eitt andartak lætur reiðin manni líða vel eitt andartak, og maður finnur upphafninguna og vellíðanina. Þegar upp er staðið er þetta svona svipað eðlis og að pissa í kaldan skóinn sinn sér til hlýinda (ekki það að ég hafi reynt slíkt).
Um daginn varð listamanninum Björku Guðmundsdóttur það á í viðtali að kalla forsætisráðherra og fjármálaráðherra rednecks, sem þýða má sem sveitalubba í neikvæðri merkingu þess orðs. Eflaust hefði Björk átt að gæta orða sinna og tala af meiri hófsemd en að sjálfsögðu má hún nýtt sér málfrelsi eins og hún vill.
Jón Gunnarsson, alþingismaður, kunni henni litlar þakkir fyrir og trúr hefðinni vó hann að Björku persónulega.
Hann veltir því fyrir sér hvort Björk telji fram til skatts á Íslandi og hún sé frekar dauf til augnanna ... Auðvitað er hann að gera lítið úr skoðunum Bjarkar í náttúruverndarmálum vegna þess að þær eru honum ekki að skapi.
Af þessu tilefni tók Andri Snær Magnason, rithöfundur og náttúruverndarsinni, svo til orða á Facebook:
Jón Gunnarsson er dæmi um menn sem hafa málað sig svo gjörsamlega út í horn að sjálf náttúran og sköpunarkrafturinn er ,,óvinurinn" en sjálft ósjálfstæðið - að fórna landi sínu fyrir nokkur störf hjá alþjóðlegu stórfyrirtæki er æðsta dyggðin. Lágpunktur Jón Gunnarssonar, nota bene - valdamanns sem situr á alþingi - eru dylgjur um skattamál, sem er fasísk aðferð - á sama tíma og blinda auganu er snúið að þeim milljörðum sem Alcoa hefur skotið undan skatti. Ég skora á alla vini mína í Sjálfstæðisfloknum að lýsa yfir sjálfstæði, að þeir séu ósammála og ótengdir Jóni Gunnarssyni, ég skora á þá að skora á hann að biðjast afsökunar.
Ég er sammála þessum orðum Andra Snæ enda er ég Sjálfstæðismaður og hvet samflokksmenn mína til að skora á Jón Gunnarsson að biðjast afsökunar á ummælum sínum.
Svo rífa þeir gamla KFUM húsið eins og önnur gömul hús
14.12.2015 | 10:34
Frá átta ára aldri og líklega þar til ég varð ellefu ára var ég í KFUM. Fór í sparifötunum með strætó úr Hlíðunum og niður á Torg á hverjum sunnudegi yfir vetrartímann til að sækja samkomur sem haldnar voru í húsnæði samtakanna að Amtmannsstíg.
Ekki man ég hvernig það kom til að ég byrjaðií KFUM, minnir að Gaui, Guðjón Eiríksson, æskuvinur minn hafi dregið mig í þann hóp. Okkur þótti afar gaman á fundunum í Amtmannsstíg. Þar var mikið fjör, sagðar sögur, sungið og jafnvel farið í leiki, allt á trúarlegum forsendum. Auðvitað var þetta trúarleg innræting og til þess var leikurinn gerður, skaðaði ekki nokkurn dreng. Þó minnist ég stympinga á ganginum fyrir framan salinn meðan beðið var eftir að hleypt væri inn. Þær voru ekki allar friðsamlegar. Þegar opnað var ruddist strákaskarinn inn til að ná sem bestum sætum og þurfti stundum að beita hörðu til að ná sæti á fremsta bekk.
Svo voru sungnir sálmar og jafnvel ættjarðarljóð og ég stóð í þeirri meiningu að rödd mín væri undurfögur eins og englanna sem foringjarnir sögðu frá. Það leiðrétti söngkennarinn í Hlíðaskóla allsnarlega er hún bað mig tíu ára strákinn að syngja ekki með hinum börnunum því ég truflaði þau. Það er nú eiginlega ástæðan fyrir því að ég varð aldrei stórsöngvari eða kannski tónandi prestur. Fannst mér viðhorf söngkennarans skrýtið því enginn í KFUM gerði athugasemdir við söng minn enda tíðkaðist þar að syngja af miklum krafti svo þakið bifaðist bókstaflega þarna á Amtmannsstígnum.
Mörgum árum síðar hóf ég nám í Menntaskólanum í Reykjavík, þeirri virðulegu stofnun. Hús Kristilegt félags ungra manna var og er norðaustan við gamla skólahúsið. Félagið byggði síðar upp nýja aðstöðu við Langholtsskóla og MR fékk húsnæðið á Amtmannsstíg til afnota og nefndist það upp á latnesku Casa Christi (hús Krists), en þá var ég fyrir löngu horfinn á braut með stúdentspróf uppi á vasann.
Og þess vegna rifja ég þetta upp núna að MR ætlar að rífa gamla KFUM húsið og byggja skólastofur fyrir nokkra milljarða þarna fyrir ofan gamla skólahúsið, á milli Fjóssins og Casa Nova.
Svona er allt breytingum undirorpið. Gamli miðbærinn tekur hefur tekið gríðarlegum breytingum á undanförnum áratugum. Allt er metið í nýtingu per fermetra, gömul hús fjúka og gömul gildi sem varðveisla húsa á Bernhöfstorfureitnum byggðust á eru löngu gleymd.
Aðeins tvennt mun minna á fundi Kristilegs félags ungra manna á sunnudögum klukkan hálf tvö á Amtmannsstíg 2B í gamla daga. Hið fyrra er styttan af séra Friðriki Friðrikssyni á grasbalanum við Lækjargötu, fyrir neðan turnhúsið, og ... minningar þeirra sem þessa fundi sóttu. Þeim fer þó eðlilega fækkandi eftir því sem tímar líða. Svo má búast við því að styttan af séra Friðriki og litla stráknum verði flutt út í úthverfi enda líklegt að trúarlegar vísbendingar verði bannaðar í Reykjavík framtíðarinnar.
Hvað sem þessu líður er hugsanlega von til að MR haldi áfram að þrífast án Casa Christi og innan skamms verði til annað Casa sé hægt að skrapa saman aurum til byggingarinnar.
![]() |
Afar ánægjulegur áfangi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stefán J. Hafstein kallar þjóðina aula fyrir stuðning við Ólaf Ragnar
13.12.2015 | 14:15
Líkur benda til að forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, sé nú búinn að glata öllum fyrrum vopnabræðrum sínum í pólitík liðinna ára, samherjum úr Alþýðubandalaginu gamla, Vinstri grænum og Samfylkingunni og öðrum álíka.
Eflaust þykir forsetanum þetta slæmt, að hafa misst sína gömlu félaga sem flest allir hafa snúist hatramlega gegn honum. Þó er huggun harmi gegn að hafa stuðning yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar. Þegar þetta er vegið og metið skiptir þjóðin meira máli.
Einn þeirra sem doldið mikið langar til að verða forseti, Stefán Jón Hafstein, skrifar um margt í óvenju stuttri. Að hætti margra vinstri manna finnur hann upp skrýtinn frasa, sjálfstraust kjósenda. Hann segir í upphafi greinarinnar (feitletranir eru mínar):
Traust á valdastofnunum og áhrifafólki er í lágmarki sem er hættulegt í lýðræðisríki, því slíkt grefur undan annars konar trausti sem þarf að vera til staðar: Sjálfstrausti kjósenda. Þetta þýðir ekkert viðkvæðið heyrist æ oftar, vonleysi um nauðsynlegar breytingar tekur við og fólk kýs að grafa sig í fönn og reyna að gleyma með því að skipuleggja kósíkvöld til að lifa af.
Mér þótti þetta athyglisvert og hélt nú að maðurinn myndi halda áfram með vangaveltuna um sjálfstraust kjósenda en hann fimbulfambar bara áfram og gleymir allsnögglega frasanum um leið og hann hefur skrifað hann og heldur svo út á víðáttur algleymisins.
Að vísu viðurkennir Stefán Jón því fram að Ólafur Ragnar hafi fullt leyfi bjóða sig fram í fimmta sinn sem forseti lýðveldisins en sendir honum kalda sneið:
Ég ver því rétt frambjóðandans til að komast að niðurstöðu með sjálfum sér, því enginn áhrifamaður í þjóðfélaginu er jafn berskjaldaður gagnvart þjóðarvilja og forseti. Nú er gott tækifæri til að þakka forseta það sem vel hann hefur gert og kveðja fortíðina. Ef forseti þekkir ekki vitjunartíma sinn gerir þjóðin það.
Hér er sumsé hvatning um að Ólafur Ragnar bjóði sig ekki fram aftur. Svo tekur hann til við að nota orðið þaulseta sem jafnan hefur verið haft um þann sem lengi situr í óþökk húsráðanda eða heimilisfólks. Þá er Stefán Jón kominn í hring og búinn að gleyma skoðun sinni um að kjósendur beri ábyrgð á þeim sem þeir velja sem forseta hverju sinni.
Varla þarf að skýra það út fyrir lesendum að þó Ólafur Ragnar Grímsson hafi setið á forsetastóli í fjögur kjörtímabil flokkast það ekki sem þaulseta. Hann var kjörinn í almennum kosningum og var því boðinn velkominn og situr í embætti sínu með fulltingi og velvild þjóðarinnar. Skiptir engu hvað Stefán Jón Hafstein eða aðrir andskotar forsetans segja og hugsa. Og eftirfarandi orð Stefáns Jóns í niðurlagi greinarinnar eru því óskiljanleg:
Ef núverandi forseti og þaulseta hans er vandamál, er það ekki hans vandamál. Forseti er á ábyrgð þjóðarinnar og ef hún aulast ekki til að skilja út á hvað lýðræði og samfélagsleg ábyrgð ganga fær hún bara það sem hún á skilið. Aftur, aftur, aftur, aftur og aftur. Fimm sinnum að lágmarki.
Ef við, þjóðin, kjósum Ólaf Ragnar enn og aftur sem forseta þá er það bara gott og bendir síst af öllu til þess að við, þjóðin, skiljum ekki hvað lýðræði og samfélagsleg ábyrgð er.
Það verður bara að hafa það að gáfumenni eins og Stefán Jón Hafstein sé ofboðið og kalli þjóðina aula fyrir vikið.
Í beinu framhaldi af þessu lýsi ég því hér með yfir að ég mun styðja Ólaf Ragnar gefi hann aftur kost á sér í embætti forseta Íslands næstu fjögur árin. Ég veit að þjóðin mín mun gera það líka.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Tóm rökleysa hjá Björgu Evu Erlendsdóttur
12.12.2015 | 13:16
Formaður fjárlaganefndar ber nú á borð fyrir alþjóð ýmsar frumlegar og næstum hugvitssamlegar rangfærslur um fjármál Ríkisútvarpsins. Og virðist markmiðið vera að þokuleggja alla umræðu um hvert stefnir með almannaútvarpið, nú þegar menntamálaráðherra hefur ekki náð í gegn bráðnauðsynlegu frumvarpi um óbreytt útvarpsgjald í ríkisstjórn.
Þetta skrifar Björg Eva Erlendsdóttir, fyrrum fréttamaður á Ríkisútvarpinu, núverandi starfsmaður vinstri flokka í Norðurlandaráði, og hún situr í stjórn Ríkisútvarpsins og var áður stjórnarformaður þess. Þetta er nú langur listi og raunar hið eina sem telst fróðlegt úr greininni í Morgunblaði dagsins.
Björg Eva leiðréttir engar rangfærslur um fjármál Ríkisútvarpsins. Þess í stað gerir hún eins og þrautþjálfaðir stjórnmálamenn, kastar fram frösum. Árviss aðför ..., óvildarmenn, launsátur, almannaútvarp og álíka sem henni virðist tamara að nota en rök. Þar að auki tekur hún til við að spá fram í tímann og ályktar sem svo að það sé sannleikur rétt eins og þegar horft er til fortíðar. Til viðbótar vitnar hún í orð formanns Samfylkingarinnar í röksemdafærslu sinni en því miður er ekki mikil hjálp í þeim.
Ég er bara engu nær um rangfærslur um Ríkisútvarpið eftir lesturinn. Greinin er einfaldlega illa skrifuð.
Hitt veit ég að Ríkisútvarpið er í miklum fjármálalegum erfiðleikum og Björg Eva ber ábyrgð á þeim rétt eins og aðrir. Ég veit einnig að þetta fyrirtæki er í samkeppni við önnur fjölmiðlafyrirtæki sem engan styrk fá frá hinu opinbera.
Krafa mín er því einfaldlega sú að stjórn fyrirtæksins reki það skikkanlega og verði aldrei baggi á hinu ríkissjóði. Annað er tóm vitleysa og rugl.
Ruddaskapurinn í umferðinni
11.12.2015 | 20:53
Myndin hér til hliðar er tók ég í bílastæðahúsinu við Hverfisgötu þegar ég var að fara núna í lok vinnudags. Bíllinn minn er lengst til vinstri. Fólkið sem var á rauða bílnum hitti ég eftir að hafa tekið myndina.
Sá á þeim hvíta var hvergi sjáanlegur enda ábyggilega að flýta sér. Þess vegna lagði hann illa í stæðið, lokaði aðkomunu fyrir bílstjóra rauða bílsins og sýndi þar með af sér ókurteisi og leiðindi.
Þetta er alltof algengt í umferðinni í Reykjavík. Sumum er andsk... saman þó þeir trufli eða tefji aðra. Aðalatriðið er að komast sjálfur leiðar sinnar. Fólk á ekki að sætta sig við svona framkomu, láta viðkomandi vita eða birta myndir af ódæðisfólkinu.
Þegar ég ók heim á leið og þá lenti ég í því að ökumaður bíls á vinstri akrein ók löturhægt svo ekki var hægt að komast fram úr honum enda óslitin bílaröð hægra megin. Loks kom að því að hann beygði til vinstri og staðnæmdist við umferðaljós. Um leið og ég ók framhjá honum sá ég að blessaður maðurinn var upptekin við að senda SMS skilaboð í símanum sínum.
Mikið er nú gott að sumir getið gert hvort tveggja, ekið (þó hægt fari) og sent SMS. Ég gæti ábyggilega náð góðri færni í hvort tveggja ef ég legði mig fram, en held mig við aksturinn, enda farsælla og öruggara fyrir mig og umhverfið.
Af hverju á að loka hvítflibbaglæpona inni?
11.12.2015 | 12:34
Við rekum refsistefnu. Ég vil að við vinnum í átt að betrun. Ef við lokum fólk inni á það að vera af því að það er hættulegt samfélaginu og við viljum ekki mæta því á götu því við erum ekki örugg. Ég tel að það séu fangar sem eiga ekki heima í fangelsi sem sitja þar núna. Ég nefni sem dæmi fanga sem mikið hefur verið rætt um, hvítflibbaglæpamenn sem sitja á Kvíabryggju. Ég veit ekki alveg af hverju við erum að loka þannig fólk inni. Verðum við hrædd við að ganga fram hjá þannig manneskju á Laugavegi? Er öryggi okkar ógnað? Við hljótum að þurfa að spyrja okkur að því hvort við séum að gera rétt. Það er heilmikið mál að loka fólk inni. Slík vist þarf að vera til betrunar en ekki bara til þess að refsa og niðurlægja.
Þetta segir Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, í viðtali við Fréttablaðið í dag, 11. desember 2015. Henni mælist vel. Hefndarhugurinn er mikill meðal þjóðarinnar, og fer vaxandi. Gömlu bankarnir eiga stóran þátt í hruninu, raunar langmestan og ábyrgðin er þeirra sem áttu þá og stjórnuðu þeim. Þeir hafa verið sakfelldir og fjölmargir dæmdir í fangelsi. Fjölmargir fagna vegna þess að hefndin er svo rík.
Björt Ólafsdóttir leyfir sér þann munað að hugsa málið á annan hátt og hún er nægilega greind og skýr til að þora að segja frá vangaveltum sínum:
Ef fólk er hættulegt samferðamönnum sínum getur verið að það séu engin úrræði önnur en að loka það inni. Þá er líka eins gott að verið sé að vinna að því að skila betri manneskju út í samfélagið aftur. Annars er þetta tilgangslaust; geymsla og mannvonska í raun. Með aðra sem ættu ekki að vera hættulegir manneskjum úti á götu spyr ég, af hverju að loka þá inni, eins og með þessa bankamenn? Af hverju ekki himinháar sektir? Af hverju bönnum við þeim ekki að taka þátt í fjármálakerfinu? Skikkum þá í tíu ára samfélagsþjónustu? Ég er bara að nefna eitthvað. Hvað vinnst með því að loka þessa menn inni? Ég er bara að henda þessu út. Mig langar að fá svar við því. Ef svarið er, þetta er bara svo vont fólk að það verður að loka það inni það er búið að stela öllum peningunum mínum, þá veit ég ekki hvort við séum nokkuð betri.
Mikið er nú ánægjulegt að vita af þingmanni með sjálfstæðar skoðanir sem hún þorir að viðra í útbreiddum fjölmiðli. Ég er fyllilega sammála henni og hrósa henni fyrir upphaf að því sem vonandi verður málefnaleg umræða.
Ástæða er til að hvetja fólk til að lesa viðtalið við Björt.
Ólíðandi karp á Alþingi Íslendinga.
9.12.2015 | 19:01
Í sannleika sagt er hræðilegt að hlusta á karpið á Alþingi. Ekki nokkur maður reynir að breyta umræðum þar í þá átt að gera þær betri.
Þingmaður hrópar: Rautt.
Annar þingmaður hrópar: Blátt.
Og svo endurtaka þeir sig þangað til þeir standa á öndinni eða hníga niður af súrefnisskorti. Þetta leiðir aldrei til annars en gagnslausra endurtekninga.
Í stað þess á að krefjast þess af þingmönnum að þeir sýni sér sjálfum og öðrum háttvísi og kurteisi.
Má ætla að allir þingmenn vilji gera gott? Sé svo er einfalt mál að breyta umræðum þingsins og í sannleika sagt gera það sem gera þarf. Hætta þessu karpi. Allt sem þarf er sameiginlegur vilji þingmanna sem þá leggja af gorgeir og ávirðingar.
Er viljinn fyrir hendi.
![]() |
Hræðilega aumkunarvert að hlusta á |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Gamaldags leiðindapólitík Bjarkeyjar og Brynhildar
8.12.2015 | 19:47
Ég er búin að redda þremur milljónum kallinn minn," segir hún [Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður] lágri röddu áður en hún skiptir aftur í sína eigin, án þess að draga úr þunganum. Þetta er þessi pólitík.
Sú gamaldags leiðindapólitík er enn iðkuð hjá ýmsum stjórnarandstöðuflokkum á Alþingi að halda einhverju ávirðingum fram án röksemda til að gera lítið úr andstæðingnum. Afleiðing er tvenns konar. Annars vegar að almenningur skilur lítið sem ekkert í umræðunum og hins vegar að hvorki gengur né rekur á Alþingi. Sleggjudómar verða því áfram algildur umræðumáti sem hingað til.
Þetta endurspeglast svo skýrt í ummælum á mbl.is sem höfð eru eftir Brynhildi Pétursdóttur þingmanni Bjartrar framtíðar, og Bjarkey Gunnarsdóttur þingmanni Vinstri grænna í fjárlaganefnd sem leggja ásamt öðrum stjórnarandstöðuflokkum fram breytingar á fjárlagafrumvarpinu. Þingmennirnir nálgast ekki kjarna málsins með yfirvegun og rökum heldur ráðast með miklum ávirðingum og skömmum að ríkisstjórninni og stuðningsmönnum þeirra.
Fyrir nokkrum árum var mikið rætt um að breyta þyrfti umræðuhefð í íslenskum stjórnmálum, taka málefnalega á hlutum, hætta persónulegum árásum og illdeilum. Vel má vera að þær stöllur séu ekki meðal þeirra sem vilja breyta umræðuhefðinni. Það breytir hins vegar litlu. Þessi pólitík gengur ekki.
Allir vita að útilokað er að komast að sameiginlegri niðurstöðu án yfirvegaðra rökræðna þar sem kurteisi og virðing er í hávegum höfð.
Mikið óskaplega er pólitík Brynhildar og Bjarkeyjar leiðinleg sem er miður því tillögurnar þeirra og annarra um breytingu á fjárlögunum eru þess virði að velta þeim fyrir sér.
![]() |
Vinahygli í fjárlaganefnd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vegna æsku muna elstu menn ekki verra veður
8.12.2015 | 13:04
Skellur á af þunga í borginni, sagði fyrirsögn á mbl.is í gærkvöldi. Mér var litið út um stofugluggann og sýndist að veðrið væri hið sama í Kópavogi og hér í Reykjavík. Líklega átti blaðamaðurinn við höfuðborgarsvæðið enda var stormurinn álíka mikill um alla þá byggð, þó hugsanlega mestur á Kjalarnesi.
Í morgun hef ég spjallað við fólk víða um höfuðborgarsvæðið og flestir voru á þeirri skoðun að óveðrið hefði verið minna en búist var við. Vissulega er það gott enda tóku allir mikið mark á viðvörunum yfirvalda.
Þó skín í gegn vonbrigði fjölmiðlunga. Þeir bjuggust við miklu meiri látum og skaða. Ég var þó ekki var við að sjónvarpsmenn færu út í veðrið til að tala til áhorfenda eins og svo oft tíðkaðist til að sýna hetjudáð og stormstyrk.
Verra var þó að talsvert tjón var víða um land, rafmangslínur slitnuðu og fjarskipti féllu niður hér og þar. Þannig er nú bara staðan á Íslandi og hefur svo verið frá landnámi. Þó man ég ekki svo langt aftur.
Vart er þó að treysta á minni elstu manna. Sumir þeirra eru svo ungir að þeir hafa ekkert merkilegt upplifað, segja má að vegna æsku hfi þeir ekkert markvert upplifað í veðri. Aðrir eru svo gamlir að þeir hafa gleymt öllu því sem máli skiptir.
Hérna fylgja tvær nærri tuttugu og fimm ára gamlar myndir. Báðar voru teknar á Fimmvörðuhálsi eftir óveðrið mikla veturinn 1991. Fimmvörðuskáli er klakabrynjaður, svo kyrfilega að útilokað var að opna dyr. Tókum við félagar þá til þess ráðs að höggva ísinn í kringum lítinn gaflglugga og þar komumst við inn eins og síðari myndin sýnir. Fyrir neðan gaflgluggan eru tveir stórir gluggar en ekkert sést í þá frekar en annað á skálanum.
Klakabrynjan er einstaklega falleg, hefur líklega byrjað sem slydda og hún hlaðist á þakskegg og síðan frosið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fjölmiðlungar ráða sér ekki fyrir veðurkæti
7.12.2015 | 13:03
Brátt skellur óveðrið á hér á höfuðborgarsvæðinu. Þeir munu ekki ráða sér fyrir kæti, fréttamenn sjónvarpsmiðla. Við megum búast við nokkrum hetjum sem fara í svokallað stand-up þar sem hvassast verður - einhvers staðar úti á víðavangi. Þeir munu áreiðanlega reyna að herma eftir Ómari Ragnarssyni sem oftast tókst vel upp við slíkar aðstæður, aldrei fauk hann. Munurinn verður samt orðalagið því þeir munu tala um mikinn vind, ofsalega vind ... Ómar talaði oftast um rok, hvassviðri, storm eða ofsaveður enda vel máli farinn.
Hið versta sem fyrir fjölmiðlunga getur komið er ef veðrið verður ekki eins mikið eins og búist er við. Það væri hrikalegur óleikur og líklega allt veðurfræðingunum að kenna sem kunna ekki að búa til almennilegt verður, eins og allir vita.
Við skiptum nú yfir til Gunnu sem er í Árbænum en þar er gríðarlegur vind og varla stætt ...
Vindgangur veðurfræðinga er oft til baga
7.12.2015 | 01:20
Talsmátinn er oft merkilega skrýtinn. Núorðið tíðkast æ oftar að tala um mikinn eða lítinn vind. Sumir tala meira að segja um vondan vind: Versti vindur sem hefur komið hérna í 20 - 25 ár, segir verkefnisstjóri hjá Landsbjörg í viðtali við visir.is. Ég velti því fyrir mér hvernig besti vindurinn sé. Í þokkabót var maðurinn að lýsa veðri sem var ókomið með sömu vissu og það væri afstaðið.
Þegar fólki verður á að tala einhverja rassbögu við blaðamenn er það hlutverk þeirra að lagfæra orðalag. Því miður taka fáir það að sér oft vegna þess að fjölmiðlungar eru ekkert skárri í íslensku máli en viðmælendurnir. Ekki kann það góðri lukku að stýra.
Oft eru veðurfræðingar í fjölmiðlum lakari en þeir ættu að vera. Margir þeirra sem kynna veðurspár í Ríkisútvarpinu tala jafnan um mikinn eða lítinn vind. Þeim virðast ekki þekkja nein heiti yfir vindstyrk. Kunna ekki eða vilja ekki taka sér orð í munn eins og storm, hvassvirði, rok eða andvara. Logni er yfirleitt lýst sem engum vindi ...
Í sannleika sagt gerast ábyggilega fleiri en ég þreyttir á þessum vindgangi, og ég er ekki að reyna að vera fyndinn.
Svona hnignar nú málinu, margir þjást af orðfátækt en bjarga sér með mikið og lítið, ekki aðeins þegar um vind er rætt heldur líka úrkomu af ýmsu tagi og hitastig. Nú líður ábyggilega að því að hitastig fyrir ofan frostmark verði kallað litlar eða miklar rauðar tölur og þegar er frost verður talað um bláar tölur.
Oftar en ekki bæta veðurfræðingar ákveðnum greini við sérnöfn. Þeim er tamt að tala um mikinn vind undir Eyjafjöllunum, Kjalarnesinu, Snæfellsnesinu, Hafnarfjallinu, Norðvesturlandinu og jafnvel Ísafirðinum. Er það nú ekki alltof langt gengið?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Veður slakur smiður betri mæli hann í tommum?
4.12.2015 | 10:55
Raunveruleikinn er sá að hagstjórnin lagast ekki við það að skipta um gjaldmiðil. Ekki frekar en að aksturshæfileikar ökumanns batni við það eitt að skipta um bifreið. Það er fyrst og fremst hagstjórnin sem er málið og sé hún í lagi skiptir í raun engu máli hvað gjaldmiðillinn heitir sem notaður er. hjortur@mbl.is
Hann komst ansi vel að orði í greinarpistli sínum í Morgunblaði dagsins, hann Hjörtur J. Guðmundsson blaðamaður. Í greininni fjallar hann um íslensku krónuna sem sem svo margir nota fyrir blóraböggul. Halda að allt breytist ef þjóðin hendi henni og taki upp annan gjaldmiðil, til dæmis Evru.
Hjörtur skýrir út í stuttu máli og vísar til orða dr. Ólafs Margeirssonar hagfræðings, að rangar fullyrðingar um að krónan sá ástæða fyrir öllu því sem aflaga hafi farið í efnahagsmálum síðustu áratugina.
Hann segir að veðurfarið á landinu breytist ekki þó við færum að mæla hitann á Fahrenheit hitamæla í stað Celsíus. Allir skilja líkinguna.
Því hefur verið haldið fram að oft á tíðum háir vextir hér á landi séu afleiðing smæðar hagkerfisins og þar með lítillar spurnar eftir krónunni. Ólafur hefur bent á að ef þessi staðhæfing stæðist ætti það sama að gilda um önnur lítil hagkerfi. Þar á milli sé hins vegar í bezta falli afskaplega veik fylgni. Það sem hafi þar miklu fremur áhrif sé til að mynda uppbygging lífeyrissjóðakerfisins þar sem ávöxtunarviðmiðið sé 3,5% sem aftur hafi vafalítið umtalsverð áhrif á langtimavexti.
Eins hefur verið fullyrt að mikil verðbólga sé fylgifiskur íslenzku krónunnar. Þannig hafi krónan misst mest allt verðgildi sitt frá því að henni var komið á laggirnar. Ólafur hefur bent á í því sambandi að frá árinu 1886 hafi peningamagn í umferð hér á landi aukizt rúmlega 211.000.000-falt. Þó hagkerfið hafi vissulega stækkað töluvert síðan hafi sú stækkun alls ekki verið svo mikil. Virðisrýrnun krónunnar sé einkum afleiðing þess að of mikið hafi verið búið til af henni í gegnum tíðina. Í seinni tíða aðallega af bönkunum. Krónan ráði hins vegar litlu um það hversu mikið sé búið til af henni.
Þetta er nokkuð merkileg niðurstaða, að minnsta kosti fyrir þá sem krefjast þess að við tökum upp nýja mynt. Ljóst má þó vera að mælieiningin ræður litlu um útkomuna. Léleg efnahagsstjórn með krónu er hin sama með Evru. Slakur smiður verður ekki betri þó hann mæli efnivið sinn í tommum.
Þannig er Sighvatur Björgvinsson misskilinn
30.11.2015 | 11:10
Forðum var sagt á niðurlægjandi hátt að einhver reiddi ekki vit sitt í þverpokum. Þá var hreinlega átt við að sá væri nú frekar illa gefinn. Þetta datt mér í hug þegar ég las grein eftir Sighvat Björgvinsson í Morgunblaði dagsins. Síst af öllu ætla ég að frýja honum vits enda hefur hann verið bæði þingmaður og ráðherra og það sem meira er formaður Alþýðuflokksins eftir að hann var lagður niður. Lakara er með mitt eigið vit og skilning því ég hreinlega átta mig ekki á grein Sighvats.
Greinin er skrifuð af miklum þrótti, eldmóði og á vönduðu máli um forseta lýðveldisins, Ólaf Ragnar Grímsson og afstöðu hans. Við, almenningur, erum svo óskaplega vanir því að gamlir vopnabræður forsetans ráðist á hann enda hafa þeir ekki gleymt þeirri því er hann gerði út af við Icesave stefnu fyrri ríkisstjórnar, henni til mikils álitshnekkis.
Og hvað veit maður um Sighvat þó hann segist sammála forsetanum um að ekki eigi að taka við fjármunum frá Saudi-Arabíu vegna trúmála? Hann gæti svo sannarlega verið að blöffa og í kaldhæðni þóst sammála verandi þó algjörlega á móti orðum forsetans.
Ég þurfti að lesa greinina þrisvar til að reyna að skilja en gafst eiginlega upp. Sighvatur segir í greininni:
Oft hefi ég verið ósammála forseta vorum, stundum mjög ósammála, en þó svo hafi verið hefi ég aldrei krafist þess að hann þegði um sínar skoðanir. Ég hef krafist þess og mun krefjast þess áfram að hann hagi orðum sínum án ofstopa, án fúkyrða, án öfga og án stóryrða og illmælgi - með öðrum orðum án alls þess sem framar öllu öðru einkennir tjáskipti ósköp venjulegra Íslendinga á samfélagsmiðlum og í kommentakerfum.
Þegar þarna var komið sögu var ég algjörlega viss um að Sighvatur væri nú að blammera forsetann fyrir eitthvað sem ég átta mig ekki á.
Það truflaði mig líka að ég aldrei vitað annað en að Ólafur Ragnar hafi hagað orðum sínum afar prúðmannlega, það er allt frá því að honum varð það á að segja Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, haldinn skítlegu eðli. Það voru augljós mistök auk þess að vera einfaldlega rangt. Ég er þó viss um að eftir Icesave hefur Davíð áreiðanlega fyrirgefið Ólafi þessi mistök.
Víkjum aftur að grein Sighvats. Hann segir líka eftirfarandi í greininni:
Ég er sammála forsetanum, að ekki eigi að taka við fjármunum frá Saudi-Arabíu til nokkurrar starfsemi hér á landi, sem varðar trúmál eða uppfræðslu um trúmál. Þeir, sem efast, ættu að kynna sér hvernig grundvallarskoðanir þær eru, sem Wahhabitar byggja alla trúarbragðafræðslu sína á en Saudi-Arabia er miðstöð þeirrar greinar sunni-islams sem wahhabitismi er.
Nákvæmlega þarna taldi ég pottþétt að Sighvatur væri úti að aka. Var hann ekki rétt á undan búinn að halda því fram að hann væri oft ósammála forsetanum?
Í þriðja yfirlestrinum áttaði ég mig þó á því að hugsanlega væri maðurinn á góður róli en mig skorti gáfur til skilnings. Til dæmis efaðist ég í fyrsta yfirlestri um að Sighvatur sé, þrátt fyrir orð hans, sammála forsetanum. Hins vegar get ég ómögulega farið að kynna mér Wahhabita í Saudi-Arabíu til að skilja hvernig hann sé sammála. Finnst þetta ærið langsótt krafa.
Þá benti góður maður mér á að efinn í þessu sambandi stæði ekki upp á að Sighvatur væri sammála forsetanum heldur ætti hann við ástæðuna fyrir því að hann væri á móti stjórnskipulaginu í Saudi-Arabíu og kennisetningavaldi trúarinnar sem þar ríkir.
Má vera að þetta sé rétt hjá útskýranda mínum. Sé svo er um að ræða sögulegar sættir Sighvats og Ólafs Ragnars að ræða, að minnsta kosti hjá þeim fyrrnefnda. Þó held ég að Hvati hafi ekki enn fyrirgefið forsetanum fyrir að hafa brugðið fæti fyrir Icesave stefnu Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og fyrr frjósi í Hel en það gerist.
Að lokum er vert að biðjast afskökunar ef lesandinn á erfitt með að skilja efni þessa pistils. Það er fráleitt honum að kenna. Málið er að ærið fátt er í þverpokum mínum. Þess vegna reynir maður að skrifa fullorðinslega um hluti sem maður hefur engan skilning á.
Ruglið í Þóru Tómasdóttur um forsetann
29.11.2015 | 23:37
Hann ætlar enn og aftur að taka sér það hlutverk að vera hlífisskjöldur yfir viðkvæmri þjóð. Hann ætlar að leiða okkur í gegnum þetta því við erum svo taugaóstyrk. Við þurfum bara lýðræði, segir Þóra en ekki karl á áttræðisaldri til að leiða íslensku þjóðina í gegnum þessa tíma.
Þetta eru orð Þóru Tómasdóttur í endursögn visir.is en konan var í umræðuþættinum Eyjunni á samnefndum vefmiðli. Ekki þekki ég nein deili á henni en man hana úr Kastljósi Ríkissjónvarpsins. Hún er að tala um forseta Íslands, Ólaf Ragnar Grímsson, og hugsanlegt framboð hans í forsetakosningunum næsta vor.
Eiginlega finnst mér þetta svo heimskuleg ummæli að ég hreinlega trúi því ekki að nokkur maður hafi látið þau út úr sér. Hver er tilgangurinn með að draga aldur Ólafs Ragnars inn í umræðuna ef ekki til að reyna að niðurlægja hann og gera lítið úr honum.
Og hversu gáfulegt er að segja í sömu andrá að við þurfum lýðræði en ekki karl á áttræðisaldri ... Aldur einstaklinga og stjórnskipulag á ekkert sameiginlegt. Lýðræðið verður ekkert meira eða tryggara ef fólk á áttræðisaldri verði bannað að bjóða sig fram í forsetakosningum.
Raunar held ég að það sé þjóðin þarfnist nauðsynlega ráð og stjórnvisku öldunga en bráðræði og fljótfærni óreyndra sem eðli máls vegna eru yfirleitt frekar ungir að árum.
Annars skil ég ekkert í hávaða og upphlaupi vegna Ólafs Ragnars Grímssonar. Hann hefur staðið sig frábærlega vel í embætti, það viðurkenni ég, þó ég hafi ekki kosið hann í upphafi.
Mér sýnist að liðið sem vildi að þjóðin samþykkti Icesave sé núna komið í hart gegn sínum gamla vopnabróður og samherja. Ætla að launa honum lambið grá. Við hin sem vildum í upphafi ekki Ólaf Ragnar erum sátt við hann.
Svartur föstudagur fyrir íslenska tungu
29.11.2015 | 17:54
Nokkuð hefur verið rætt um Black Friday tilfellið sem óð yfir landsmenn á föstudaginn var. Hér er enn á ný um að ræða landnám amerískra verslunarhátta hér á landi. Áður höfðu numið hér land Valentínusardagurinn, Halloween, Tax Free og ábygglega margt fleira sem ég man ekki eftir í augnablikinu.
Máttur auglýsinganna er mikill. Um það fer enginn í grafagötur. Fæstum agnúast þó út í það sem þeir hugsanlega geta hagnast á. Þar renna saman hagsmunir kaupmanna og neytenda. Fyrst svo er mætti halda að báðir þessir hagsmunaaðilar gætu sameinast í því að tala íslensku og viðhalda henni.
Staðreyndin er sú að íslenskunni fer hnignandi. Ekki endilega vegna þess að verið er að sletta ofangreindum orðum í söluræðum heldur miklu frekar vegna þess að yngra fólk er farið að nota ensku eins og hún sé móðurmálið.
Þetta sést mætavel á Facbook. Fæstir hafa við að þýða snjallar tilvitnanir á ensku heldur birta þær orðréttar. Slettur úr öðrum tungum eru mun sjaldgæfari.
Ég held að íslensk kennarastétt standi sig ekki sem skyldi. Ef hún gerði það væri ungt fólk almennt vel máli farið og legði alúð í mál sitt, væri vel lesið og vel skrifandi. Svo er því miður ekki og má greinilega sjá þetta meðal ungra blaða- og fréttamanna. Verst er þó að enginn leiðbeinir.
Höfuðborgarbúar ættu að ganga niður Laugaveginn í Reykjavík. Ábyggilega 90% nafna á verslunum, veitingastöðum og hótelum eru á ensku. Hvers vegna skyldi það vera? Jú, líklega til að auðvelda útlendingum valið. Þetta er engu að síður mikill misskilningur. Ég hef farið nokkuð víða utan Íslands og finnst lítið tiltökumál þó ég langflest nöfn á veitingastöðum, hótelum og verslunum í Aþenu séu á grísku, á Spáni er spænskan ráðandi og á Ítalíu er það ítalskan. Myndi nokkur Frakki með réttu ráði nota enskt nafn á verslun sína eða veitingastað?
Hvers vegna erum við Íslendingar svona enskuskotnir? Er íslenskan ekki nógu góð?
Thanksgiving Day hefur á íslensku fengið nafnið Þakkargjörðarhátíð. Var þessi þýðing erfið eða flókin? Nei, en um það snýst ekki málið. Hvorki að þýðing úr ensku og yfir á íslensku sé einhverjum vandamálum bundin né heldur að við þurfum að taka útlenda siði og festa þá í gildi hér á landi. Í fljótu bragði sýnist þetta ástfóstur á erlendum siðum byggjast á skorti á þjóðlegri sjálfsvitund. Þegar málið er nánar skoðað horfum við bara of mikið á amrískar bíómyndir og undirmeðvitundin heldur að við séum ekki lengur íslensk.
Af hverju er lögreglan hvergi sjáanleg?
29.11.2015 | 16:27
Eitthvað mikið virðist að í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu og það bætir ekki úr skák að lögreglan virðist víðsfjarri. Eða ágæti lesandi, hvenær sástu síðast lögreglubíl á ferli? Sá sem þetta ritar hefur ekki séð lögreglubíl langa lengi og allra síst við eftirlit.
Hér eru nokkur atriði sem ég hef verið dálítið hugsi út af og hef áður nefnt í þessum pistlum:
- Aðfararnótt fimmtudags og laugardags átti ég erindi um bæinn og aldrei sá ég lögreglubíl. Líklega er óhætt að spara sér leigubíl og aka bara fullur á aðventunni.
- Æ oftar taka ökumenn áhættuna og aka yfir á rauðu ljósi eftir að hafa rétt misst af því græna eða gula.
- Svo virðist sem annar hver ökumaður sé í símanum og megi ekkert vera að því að fylgjast með því sem er að gerast í kringum þá. Oftar en ekki eru þetta atvinnubílstjórar og svo ungar stelpur. Oft hefur mér dottið í hug að taka myndir af þessum bílstjórum í símanum, en þá er maður líklega kominn í sama hóp.
- Akstur á vinstri akrein er leiðinda ósiður. Svo virðist sem allir telji sér heimilt að aka þar í hægðum sínum. Líklega myndi umferðin ganga fimm sinnum hraðar ef ökumenn ækju á hægri akrein nema rétt til að fara framúr eða þegar komið er að því að beygja til vinstri.
- Stefnuljós eru líkast til í ólagi á flestum bílum, sjaldnast sjást þau í notkun.
- Viðbragðsflýtir margra ökumanna er hrikalega lítill. Hver hefur ekki lent í því að vera annar í röðinni á beygjuljósi og ekki komast yfir vegna þess að sá á undan tók ekki eftir ljósunum fyrr en grænt breyttist í rautt.
Gott væri nú að löggan myndi vakna af dvala sínum og fara út í eftirlit. Á námsárunum starfaði ég á sumrin sem lögreglumaður. Þá var hluti af vinnunni að ganga niður Laugveginn, láta almenning sjá sig. Af sömu ástæðu voru menn á lögreglubílum settir í eftirlit í ákveðnum hverfum. Svo voru lögreglumenn settir til að fylgjast með hættulegum gatnamótum, í hraðamælingar eða hreinlega til að fylgjast með umferðinni í akstri.
Sú stefna er góð að lögreglan sé sýnileg öllum stundum sólarhringsins. Það eykur traust almennings og fælir um leið misindismenn frá starfa sínum.
Nú virðist löggan hvergi vera sýnileg. Má vera að hún eigi ekki fyrir bensíni á löggubíla eða þeim háir slæmska í fótum.
Til að fyrirbyggja misskilning skal tekið fram að myndina hér fyrir ofan tók höfundur úr farþegasæti bifreiðar. Myndin sýnir ekkert misjafnt, er bara til skrauts.