Þannig er Sighvatur Björgvinsson misskilinn

Forðum var sagt á niðurlægjandi hátt að einhver reiddi ekki vit sitt í þverpokum. Þá var hreinlega átt við að sá væri nú frekar illa gefinn. Þetta datt mér í hug þegar ég las grein eftir Sighvat Björgvinsson í Morgunblaði dagsins. Síst af öllu ætla ég að frýja honum vits enda hefur hann verið bæði þingmaður og ráðherra og það sem meira er formaður Alþýðuflokksins eftir að hann var lagður niður. Lakara er með mitt eigið vit og skilning því ég hreinlega átta mig ekki á grein Sighvats.

Greinin er skrifuð af miklum þrótti, eldmóði og á vönduðu máli um forseta lýðveldisins, Ólaf Ragnar Grímsson og afstöðu hans. Við, almenningur, erum svo óskaplega vanir því að gamlir vopnabræður forsetans ráðist á hann enda hafa þeir ekki gleymt þeirri því er hann gerði út af við Icesave stefnu fyrri ríkisstjórnar, henni til mikils álitshnekkis.

Og hvað veit maður um Sighvat þó hann segist sammála forsetanum um að ekki eigi að taka við fjármunum frá Saudi-Arabíu vegna trúmála? Hann gæti svo sannarlega verið að blöffa og í kaldhæðni þóst sammála verandi þó algjörlega á móti orðum forsetans. 

Ég þurfti að lesa greinina þrisvar til að reyna að skilja en gafst eiginlega upp. Sighvatur segir í greininni:

Oft hefi ég verið ósammála forseta vorum, stundum mjög ósammála, en þó svo hafi verið hefi ég aldrei krafist þess að hann þegði um sínar skoðanir. Ég hef krafist þess og mun krefjast þess áfram að hann hagi orðum sínum án ofstopa, án fúkyrða, án öfga og án stóryrða og illmælgi - með öðrum orðum án alls þess sem framar öllu öðru einkennir tjáskipti ósköp venjulegra Íslendinga á samfélagsmiðlum og í kommentakerfum.

Þegar þarna var komið sögu var ég algjörlega viss um að Sighvatur væri nú að „blammera“ forsetann fyrir eitthvað sem ég átta mig ekki á.

Það truflaði mig líka að ég aldrei vitað annað en að Ólafur Ragnar hafi hagað orðum sínum afar prúðmannlega, það er allt frá því að honum varð það á að segja Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, haldinn „skítlegu eðli“. Það voru augljós mistök auk þess að vera einfaldlega rangt. Ég er þó viss um að eftir Icesave hefur Davíð áreiðanlega fyrirgefið Ólafi þessi mistök.

Víkjum aftur að grein Sighvats. Hann segir líka eftirfarandi í greininni:

Ég er sammála forsetanum, að ekki eigi að taka við fjármunum frá Saudi-Arabíu til nokkurrar starfsemi hér á landi, sem varðar trúmál eða uppfræðslu um trúmál. Þeir, sem efast, ættu að kynna sér hvernig grundvallarskoðanir þær eru, sem Wahhabitar byggja alla trúarbragðafræðslu sína á en Saudi-Arabia er miðstöð þeirrar greinar sunni-islams sem wahhabitismi er.

Nákvæmlega þarna taldi ég pottþétt að Sighvatur væri úti að aka. Var hann ekki rétt á undan búinn að halda því fram að hann væri oft ósammála forsetanum?

Í þriðja yfirlestrinum áttaði ég mig þó á því að hugsanlega væri maðurinn á góður róli en mig skorti gáfur til skilnings. Til dæmis efaðist ég í fyrsta yfirlestri um að Sighvatur sé, þrátt fyrir orð hans, sammála forsetanum. Hins vegar get ég ómögulega farið að kynna mér Wahhabita í Saudi-Arabíu til að skilja hvernig hann sé sammála. Finnst þetta ærið langsótt krafa.

Þá benti góður maður mér á að efinn í þessu sambandi stæði ekki upp á að Sighvatur væri sammála forsetanum heldur ætti hann við ástæðuna fyrir því að hann væri á móti stjórnskipulaginu í Saudi-Arabíu og kennisetningavaldi trúarinnar sem þar ríkir.

Má vera að þetta sé rétt hjá útskýranda mínum. Sé svo er um að ræða sögulegar sættir Sighvats og Ólafs Ragnars að ræða, að minnsta kosti hjá þeim fyrrnefnda. Þó held ég að Hvati hafi ekki enn fyrirgefið forsetanum fyrir að hafa brugðið fæti fyrir Icesave stefnu Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og fyrr frjósi í Hel en það gerist.

Að lokum er vert að biðjast afskökunar ef lesandinn á erfitt með að skilja efni þessa pistils. Það er fráleitt honum að kenna. Málið er að ærið fátt er í þverpokum mínum. Þess vegna reynir maður að skrifa fullorðinslega um hluti sem maður hefur engan skilning á.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Mínir þverpokar eru líka innihaldsrýrir ef vitsmunirnir fara eftir skilningi á þessari færslu og þeirrar greinar sem hún vitnar í smile

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.11.2015 kl. 12:02

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þetta er nú bara prýðileg grein eftir hann Sighvat, Sigurður minn, og engin þörf að kvarta yfir henni, heldur þvert á móti ber að fagna henni og samsinni þeirra Ólafs Ragnars um þetta mál Saudanna og moskunnar hér. Þú átt ekki að æáta það koma þér á óvart, að Sighvatur, allreyndur úr 3. heiminum, geti haft þetta viðhorf.

Það eina, sem ég í fljótheitum tek eftir sem gersamlega óþörfu og orðum auknu í grein Sighvats, eru þessi orð hans, sem þú sjálfur vitnar í og gagnrýnir, um að hann hafi "krafizt þess og mun(i) krefjast þess áfram að hann hagi orðum sínum án ofstopa, án fúkyrða" o.s.frv.

Jón Valur Jensson, 30.11.2015 kl. 17:24

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Þverpokarnir eru margir og mismunandi, Ásthildur, og innihaldið oft mikið en gangslítið, til dæmis hjá mér.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 30.11.2015 kl. 17:27

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Hef ekki vit á greininni eftir Hvata. Hann er vissulega víða reyndur og ekki síst í pólitískum bellibrögðum. Vissara að hafa vaðið fyrir neðan sig þegar komið er að slíku jökulfljóti sem hann er. ... furðuleg myndlíking. Lengst af hef ég bara verið ágætlega sáttur við framgöngu forsetans. Þar skilur verulega á milli mín og fyrrum formanns Alþýðuflokksins.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 30.11.2015 kl. 17:34

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já ég er líka ánægð með framgöngu forsetans í mörgum málum.  Hann hefur staðið sig vel, þó hann hafi verið rakkaður endalaust niður af fólki sem þolir hann ekki vegna neitunarvaldsins sem hann virkjaði. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.12.2015 kl. 12:51

6 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sammála þér, Ásthildur.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 1.12.2015 kl. 12:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband