Jón Gunnarsson og orð hans um Björku Guðmundsdóttur

Nær ósjálfrátt láta menn vaða. Jafnvel „góða fólkið“ sem að eigin sögn má ekkert aumt sjá án þess að leggja til styrktarfé úr ríkissjóði á það til að kunna sig ekki. Illt skal með illu út reka er jafnan viðkvæðið.

„Þú ert helv... aumingi og vitleysingur,“ er oft viðkvæðið þegar til vamms er sagt. Afleiðingin er því miður að sá hreinskilni sér sitt óvænna og hreytir úr sér álíka formælingum og fyrr en varir er komið inn á kunnuglegar slóðir rifirildis og leiðinda. 

Til hvers leiða fúkyrði eða rifrildi? Satt að segja gagnast þau engum nema í því augnabliki sem þau eru sögð. Eitt andartak lætur reiðin manni líða vel eitt andartak, og maður finnur upphafninguna og vellíðanina. Þegar upp er staðið er þetta svona svipað eðlis og að pissa í kaldan skóinn sinn sér til hlýinda (ekki það að ég hafi reynt slíkt). 

Um daginn varð listamanninum Björku Guðmundsdóttur það á í viðtali að kalla forsætisráðherra og fjármálaráðherra „rednecks“, sem þýða má sem sveitalubba í neikvæðri merkingu þess orðs. Eflaust hefði Björk átt að gæta orða sinna og tala af meiri hófsemd en að sjálfsögðu má hún nýtt sér málfrelsi eins og hún vill.

Jón Gunnarsson, alþingismaður, kunni henni litlar þakkir fyrir og trúr hefðinni vó hann að Björku persónulega.

Hann veltir því fyrir sér hvort Björk telji fram til skatts á Íslandi og hún sé frekar dauf til augnanna ... Auðvitað er hann  að gera lítið úr skoðunum Bjarkar í náttúruverndarmálum vegna þess að þær eru honum ekki að skapi.

Af þessu tilefni tók Andri Snær Magnason, rithöfundur og náttúruverndarsinni, svo til orða á Facebook:

Jón Gunnarsson er dæmi um menn sem hafa málað sig svo gjörsamlega út í horn að sjálf náttúran og sköpunarkrafturinn er ,,óvinurinn" en sjálft ósjálfstæðið - að fórna landi sínu fyrir nokkur störf hjá alþjóðlegu stórfyrirtæki er æðsta dyggðin. Lágpunktur Jón Gunnarssonar, nota bene - valdamanns sem situr á alþingi - eru dylgjur um skattamál, sem er fasísk aðferð - á sama tíma og blinda auganu er snúið að þeim milljörðum sem Alcoa hefur skotið undan skatti. Ég skora á alla vini mína í Sjálfstæðisfloknum að lýsa yfir sjálfstæði, að þeir séu ósammála og ótengdir Jóni Gunnarssyni, ég skora á þá að skora á hann að biðjast afsökunar. 

Ég er sammála þessum orðum Andra Snæ enda er ég Sjálfstæðismaður og hvet samflokksmenn mína til að skora á Jón Gunnarsson að biðjast afsökunar á ummælum sínum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Af hverju á Jón Gunnarsson, frekar að biðjast afsökunar á orðum sínum en Björk Guðmundsdóttir????

Jóhann Elíasson, 15.12.2015 kl. 16:39

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sæll Jóhann. Af því við eigum að gera ríkari kröfur til forystumanna Sjálfstæðisflokksins en annarra. Þar að auki var athugasemd hans langt frá þeim málum sem Björk var að ræða. Loks ítreka ég það sem segir í pistlinum að viðbrögð eins og hjá Jóni eru gagnslaus, gera bara illt verra. Hafi forystumenn flokksins ekkert annað að gera en að atast við almenna borgara vegna skoðana þeirra þá eiga þeir að hætta, segja af sér. Nauðsynlegt er að gera kröfu að þingmenn iðki málefnalega umræðu jafnvel þó viðmælendur þeirra geri það ekki.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 15.12.2015 kl. 16:47

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

Ég get ómögulega gert að því að mér finnst fólk hafa sett Björk Guðmundsdóttur í flokk með "ósnertanlegu fólki" og ef einhverjum verður það á að gagnrýna hana eða eitthvað sem hún gerir verður allt vitlaust.  Björk er opinber persóna sem jafnframt verður að gæta að því sem hún gerir og segir, það er hlustað eftir því sem hún segir.

Jóhann Elíasson, 15.12.2015 kl. 21:44

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Má vera, Jóhann. Hins vegar hefði gagnrýnin átt að miðast við náttúruverndarmálin. Eða eins og sagt er, fara í boltann, ekki manninn. Málefnið skiptir öllu ekki hvort einhver er daufur til augnanna eða hvar hann borgar skatta.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 15.12.2015 kl. 22:02

5 Smámynd: Elle_

Jón á ekki að biðja hana afsökunar á orðunum.  Hann er mannlegur og viðbrögð hans voru alveg eðlileg við níði.

Elle_, 15.12.2015 kl. 22:41

6 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Hvernig væri að rúmlega þrjúhundruð þúsund ríkisborgarar, samkvæmt þjóðskrá og opinberum upplýsingum ráðandi embættisteljenda, bæði álíka marga ríkisborgara afsökunar?

Eða skaðar það utanaðkomandi sundrungina of mikið fyrir heimsfjölmiðlunar-"sannleikann ímyndaða?

Hvers vegna á að kynda undir sundrung, þegar samstaða og raunrétt upplýst umræða er leiðin til siðmenntaðrar staðreyndarupplýstrar samstöðu og velferðar rúmlega 300.000 skattpíndra ríkisborgara?

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 16.12.2015 kl. 01:49

7 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Eða er einhver núlifandi ríkisborgari á Íslandi með alveg hreina samvisku í raun? Hver dæmir sekt og sannleika, þegar allir núlifandi gallaðir og lögbrjótandi hafa ekki löglegt réttar og stjórnsýslukerfi?

Hvað segja brokkgengu, löglausu og tækifærissinnuðu dómstólarnir?

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 16.12.2015 kl. 01:56

8 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Jón Gunnarsson hefði átt að orða gagnrýni sína á Björk Guðmundsdóttur á heppilegri hátt. Björk er ekki yfir gagnrýni hafin, frekar en aðrir. Meðan Björk heldur skoðunum sínum ekki fyrir sig, getur hún ekki búist við að sitja ósnertanleg í sínum fílabeinsturni.

Svo er það þetta með "góða fólkið", sem aðeins er vikið að hér. Í umræðunni á blogginu og víðar er hugtakið notað í afar neikvæðri merkingu, í þeim tilgangi að draga upp sem svartasta mynd af fólki sem ekki hefur annað í huga en að láta gott af sér leiða.

Það er fokið í flest skjól, ef það orðið neikvætt að vilja öðrum gott.

Vonandi nær andi jólanna að hreyfa við sem flestum, ekki veitir af.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 16.12.2015 kl. 06:59

9 Smámynd: Elle_

Axel það er ekki neikvætt að vera góður.  En það er neikvætt að þykjast vera það.  Það er neikvætt að nota tækifærið og misnota fólk og níðast beint og óbeint á öðrum í leiðinni.  Þaðan kemur líklega kaldhæðnin.

Elle_, 16.12.2015 kl. 11:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband