Staðreynd lífsins að minnihluti er minnihluti sagði Steingrímur

Málþóf er óaðskiljanlegur hluti þingræðis. Á stundum hefur stjórnarandstaðan ekki önnur vopn til að verjast. Málþóf er vopn sem stjórnarandstaða á hverjum tíma verður að hafa tiltækt til að hafa áhrif á gang mála og koma í veg fyrir að ríkisstjórn og meirihluti þingsins „valti yfir“ minnihlutann með óbilgirni.

Vopnið er vandmeðfarið og það er auðvelt að misnota það. Oft snýst það í höndunum á þeim sem því beita.

Þetta segir Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í stórmerkilegri grein í Morgunblaði dagsins. Hann ræðir um málþóf stjórnarandstöðunnar og tekur dæmi um ótrúleg sinnaskipti alþingismanna sem eitt sinn voru algjörlega á móti málþófi en eru nú önnum kafnir í skipulagningu og framkvæmd þess. Ég skora á lesendur þessara lína að verða sér út um Morgunblaðið og lesa greinina. Hún afhjúpar tvískinnung.

Svo sannarlega kann málþófið að snúast í höndunum á þeim sem beita því. Sá sem er í ríkisstjórn verður fyrr eða síðar í stjórnarandstöðu. Þá er spurningin hvernig fyrrum minnihluti eða meirihluti fer með vald sitt, munum að minnihlutinn hefur vald. 

Óli Björn rekur ummæli núverandi stjórnarandstöðuþingmanna þegar þeir voru í ríkisstjórn og mislíkaði umræðan um Icesave. Ríkisstjórnin ætlaði að troða frumvarpinu í gegnum þingið, tókst það raunar, en fékk það í andlitið eftir að forsetinn neitaði að undirrita lögin og svo var hún flengd í þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

Steingrímur 2. desember 2009:

„Það er auðvitað geysilega vel boðið af minnihlutanum að taka völdin á þinginu og ráða dagskrá þingsins og ráða framvindu og fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að ráða áherslu mála,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra um fundarstjórn forseta Alþingis 2. desember 2009. Þá var Icesave-samningur á dagskrá þingsins. Stjórnarandstaðan var sökuð um málþóf. Af yfirlæti benti fjármálaráðherrann þingmönnum Sjálfstæðisflokksins á að þeir yrðu að „horfast í augu við þá staðreynd« að þeir hafi verið kosnir »frá völdum af þjóðinni sl. vor“.

Össur 27 nóvember 2009:

Málþóf er tvíeggjað sverð. Menn mega að sjálfsögðu tala eins og þeir vilja. Ég hef alltaf varið rétt stjórnarandstöðunnar til þess, en það er stundum hættulegt og nú er Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefur leitt Framsóknarflokkinn inn í málþóf í þessu máli, orðinn hræddur um sína stöðu vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn skynjar að hann hefur engan stuðning úti í samfélaginu fyrir því að halda öllum brýnustu fjárlagamálum ríkisstjórnarinnar í gíslingu til að tala sig hásan um Icesave án þess að það komi nokkru sinni neitt nýtt fram í þeim ræðum. Sjálfstæðisflokkurinn ætti bara að skammast sín til þess að hætta málþófi ef hann er hræddur við sína eigin þátttöku í því.“

Ólína Kjerúlf 27. nóvember 2009:

»Ég mótmæli því að stjórnarandstaðan geti talað þannig að hún geti boðið meirihluta þingheims þetta eða hitt. Það er þingræði í þessu landi og það er meirihluti þingheims og vilji hans sem hlýtur að stjórna störfum þingsins.«

Steingrímur 2 desember 2009:

»Það er auðvitað geysilega vel boðið af minnihlutanum að taka völdin á þinginu og ráða dagskrá þingsins og ráða framvindu og fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að ráða áherslu mála. En það er einu sinni þannig að minnihluti er minnihluti og meirihluti er meirihluti. Það er ein af staðreyndum lífsins og þetta verða menn að horfast í augu við. Sjálfstæðisflokkurinn verður m.a. að horfast í augu við þá staðreynd að hann var kosinn frá völdum af þjóðinni sl. vor. Hann var kosinn frá völdum.«

Og nú er Steingrímur J. Sigfússon ásamt þeim félögum hans sem hér eru nefndir til sögunnar, kominn í stjórnarandstöðu eftir að hafa verið „kosinn frá völdum af þjóðinni“. Hann býðst núna til „að taka völdin á þinginu og ráða dagskrá þingsins og ráða framvindu og fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að ráða áherslu mála“. Ábygglega kunna margir honum þakkir fyrir fórnfýsina.

Svona snúast nú vopnin í höndum fólks. Steingrímur og Össur í stjórnarandstöðu hafa greinilega ekki sömu áherslur og Steingrímur og Össur sem ráðherrar. Hvers vegna gilda ekki sömu rök á Alingi árið 2015 og fullyrt var að giltu árið 2009?

Að lokum þetta: Veit einhver hvers vegna minnihlutinn æfir málþóf í sölum Alþingis?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Hér vantar (til samanburðar) samanburð á ummælum þingmanna núverandi meirihluta á Alþingi um málþóf nú og á síðasta kjörtímabili þegar þeir hinir sömu voru í minnihluta.

Mig grunar að 180° snúningurinn sé "víðar en hjá fleirum". eins og konan sagði.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 16.12.2015 kl. 10:26

2 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Lífeyris/bankaræningjakerfi Íslands kann að taka löggjafa-alþingi Íslands í gíslingu, hverju sinni.

Alþingiskosningar í lýðræðisríkinu Íslandi eru þær ólöglegustu sem finnast í nokkru ríki, og fjölmiðlar spila með. Og það á að keyra fólk áfram undir sprautuvopnuðum yfirmönnum, eins og hefur lengi viðgengist á Íslandi.

Það virðist vera eilíf dómstólalögverjanda ólögleg gíslataka til framtíðar á alþingi Íslands. Áratuga/alda blekkingarleikur og svikamafía, sem heldur fólki á alþingi gegn sínum sannfæringum!

Ísland er eins langt frá því að vera réttaríki, eins og mögulegt er. Og ég er ekki að halda einhverju fram hér, sem ekki stenst!

Og hver ætlar að verja sprautuvopnaða og kúgandi áratuga dómstólalögleysuna? Lögfræðingastóðið klækjaútgerða, og lögbrjótandi hæstaréttarlögmennirnir?

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 16.12.2015 kl. 20:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband