Vindgangur veðurfræðinga er oft til baga

Talsmátinn er oft merkilega skrýtinn. Núorðið tíðkast æ oftar að tala um mikinn eða lítinn vind. Sumir tala meira að segja um vondan vind: „Versti vindur sem hefur komið hérna í 20 - 25 ár“, segir verkefnisstjóri hjá Landsbjörg í viðtali við visir.is. Ég velti því fyrir mér hvernig „besti“ vindurinn sé. Í þokkabót var maðurinn að lýsa veðri sem var ókomið með sömu vissu og það væri afstaðið.

Þegar fólki verður á að tala einhverja rassbögu við blaðamenn er það hlutverk þeirra að lagfæra orðalag. Því miður taka fáir það að sér oft vegna þess að fjölmiðlungar eru ekkert skárri í íslensku máli en viðmælendurnir. Ekki kann það góðri lukku að stýra.

Oft eru veðurfræðingar í fjölmiðlum lakari en þeir ættu að vera. Margir þeirra sem kynna veðurspár í Ríkisútvarpinu tala jafnan um mikinn eða lítinn vind. Þeim virðast ekki þekkja nein heiti yfir vindstyrk. Kunna ekki eða vilja ekki taka sér orð í munn eins og storm, hvassvirði, rok eða andvara. Logni er yfirleitt lýst sem engum vindi ...

Í sannleika sagt gerast ábyggilega fleiri en ég þreyttir á þessum vindgangi, og ég er ekki að reyna að vera fyndinn.

Svona hnignar nú málinu, margir þjást af orðfátækt en bjarga sér með „mikið“ og „lítið“, ekki aðeins þegar um vind er rætt heldur líka úrkomu af ýmsu tagi og hitastig. Nú líður ábyggilega að því að hitastig fyrir ofan frostmark verði kallað litlar eða miklar rauðar tölur og þegar er frost verður talað um bláar tölur.

Oftar en ekki bæta veðurfræðingar ákveðnum greini við sérnöfn. Þeim er tamt að tala um mikinn vind undir Eyjafjöllunum, Kjalarnesinu, Snæfellsnesinu, Hafnarfjallinu, Norðvesturlandinu og jafnvel Ísafirðinum. Er það nú ekki alltof langt gengið? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Ég tek undir þetta hjá þér og er ég nú ekki mikill orðamaður ef það er rétt sagt. Ég hafði það þú af að kvarta þegar útlenskur veðurfræðingur? var og er að lesa veðurfréttir í Útvarpinu en mér var svarað að þetta væri partur að námi þeirra. Þessi maður sem var þýskur talaði ekki slæma Íslensku en hún hljómaði nákvæmlega eins og Færeyska. Er stolt Íslendinga ekki meira en þetta eða erum við án vilja gerðir af fjölmenningaþjóðfélagi þar sem hver og einn talar sínu máli. 

Valdimar Samúelsson, 7.12.2015 kl. 10:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband