Af hverju er lögreglan hvergi sjáanleg?

DSC_1961Eitthvað mikið virðist að í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu og það bætir ekki úr skák að lögreglan virðist víðsfjarri. Eða ágæti lesandi, hvenær sástu síðast lögreglubíl á ferli? Sá sem þetta ritar hefur ekki séð lögreglubíl langa lengi og allra síst við eftirlit.

Hér eru nokkur atriði sem ég hef verið dálítið hugsi út af og hef áður nefnt í þessum pistlum:

  1. Aðfararnótt fimmtudags og laugardags átti ég erindi um bæinn og aldrei sá ég lögreglubíl. Líklega er óhætt að spara sér leigubíl og aka bara fullur á aðventunni.
  2. Æ oftar taka ökumenn áhættuna og aka yfir á rauðu ljósi eftir að hafa „rétt misst“ af því græna eða gula.
  3. Svo virðist sem annar hver ökumaður sé í símanum og megi ekkert vera að því að fylgjast með því sem er að gerast í kringum þá. Oftar en ekki eru þetta atvinnubílstjórar og svo ungar stelpur. Oft hefur mér dottið í hug að taka myndir af þessum bílstjórum í símanum, en þá er maður líklega kominn í sama hóp.
  4. Akstur á vinstri akrein er leiðinda ósiður. Svo virðist sem allir telji sér heimilt að aka þar í hægðum sínum. Líklega myndi umferðin ganga fimm sinnum hraðar ef ökumenn ækju á hægri akrein nema rétt til að fara framúr eða þegar komið er að því að beygja til vinstri.
  5. Stefnuljós eru líkast til í ólagi á flestum bílum, sjaldnast sjást þau í notkun.
  6. Viðbragðsflýtir margra ökumanna er hrikalega lítill. Hver hefur ekki lent í því að vera annar í röðinni á beygjuljósi og ekki komast yfir vegna þess að sá á undan tók ekki eftir ljósunum fyrr en grænt breyttist í rautt.

Gott væri nú að löggan myndi vakna af dvala sínum og fara út í eftirlit. Á námsárunum starfaði ég á sumrin sem lögreglumaður. Þá var hluti af vinnunni að ganga niður Laugveginn, láta almenning sjá sig. Af sömu ástæðu voru menn á lögreglubílum settir í eftirlit í ákveðnum hverfum. Svo voru lögreglumenn settir til að fylgjast með hættulegum gatnamótum, í hraðamælingar eða hreinlega til að fylgjast með umferðinni í akstri.

Sú stefna er góð að lögreglan sé sýnileg öllum stundum sólarhringsins. Það eykur traust almennings og fælir um leið misindismenn frá starfa sínum.

Nú virðist löggan hvergi vera sýnileg. Má vera að hún eigi ekki fyrir bensíni á löggubíla eða þeim háir slæmska í fótum.

Til að fyrirbyggja misskilning skal tekið fram að myndina hér fyrir ofan tók höfundur úr farþegasæti bifreiðar. Myndin sýnir ekkert misjafnt, er bara til skrauts.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Fyrir utan að vera sammála þér varðandi umferðarmenninguna þá verð ég að leggja sérstaklega áherslu á það hvað ég er sammála þér varðandi sýnileika lögreglu.

Þegar ég var krakki og unglingur þá var lögreglan ekki boðberi alls ills og mannvonsku. Það var alltaf skemmtilegt að hitta lögguna í skólanum eða út á götu þar sem hún fræddi mann um hætturnar á hinu og þessu, jafnvel sparkaði bolta til manns ef hann fór út á götu.

Lögreglan hefur ekkert breyst í lið frá myrkrahöfðingjanum sjálfum - heldur er hún einfaldlega of fámenn og fjársvelt. Sumt fólk er farið að halda að ef það sjái lögreglubíl að þá sé eitthvað slæmt í gangi. Það er alveg eins og það þurfi að minna fólk stöðugt á að lögreglan er að mestum hluta að hjálpa eða leiðbeina fólki og síðast ekki síst að bjarga lífum. Ekki að níðast á samborgunum sínum með valdi.

Þetta er á ábyrgð alþingismanna hvernig fyrir þessu er komið og að mínu mati þarf að hlúa meira að þessum málaflokki. Sú kynslóð sem er að vaxa upp núna á að geta alist upp við traust til lögreglunnar og hún sé til staðar, a.m.k. eins og mín kynslóð fékk að gera. Áreitið og umræðan um lögregluna í fjölmiðlum hefur nefnilega ekki verið jákvæð undanfarin ár. Það skynja börn og unglingar líka - nema þau þekkja kannski ekki neitt annað eins og þau eldri oftast gera. Þetta á eftir að draga dilk á eftir sér, eftir til dæmis 10-20 ár.

Sumarliði Einar Daðason, 29.11.2015 kl. 18:00

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Þakka þér fyrir, Sumarliði. Gaman að lesa um viðhorf þín, er fyllilega sammála.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 29.11.2015 kl. 18:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband