Bréfin þrjú frá Stalín og formaður Samfylkingarinnar

Þegar Stalín dó er sagt að hann hafi skilið eftir þrjú númeruð bréf sem stíluð voru á eftirmann hans og skyldi sá opna þau í röð lenti hann í erfiðleikum í stjórnartíð sinni. 

Nikita Sergeyevich Khrushev tók við völdum í Sovétríkjunum árið 1953.

Nær því samstundis að hann varð aðalritari sovéska kommúnistaflokksins lenti hann í alvarlegum pólitískum vandræðum og þá opnaði hann fyrsta bréfið. Í því stóð einfaldlega:

„Kenndu kapítalistunum um allan vanda. Kveðja, Stalín“ 

Khrushchev gerði það og fékk nú ágætis andrými - í bili.

Í byrjun árs 1956 steðja stórkostlegir pólitískir erfiðleikar að og við liggur að allir nánustu stuðningsmenn hans snúi við honum baki. Þá grípur hann til bréfsins sem var merkt með tölustafnum 2. Í því stóð:

„Kenndu mér um allt sem úrskeiðis hefur farið. Kveðja, Stalín“

Þá glaðnaði verulega yfir Khrushchev og í frægri ræðu kenndi hann Stalín um allan vanda Sovétríkjanna og barg um leið pólitísku lífi sínu og undu nú allir sovéskir glaðir við hlutskipti sitt um sinn.

Leið nú og beið fram á haustið 1964 og var þá svo illa farið að þrengja að Khrushchev að hann átti fárra kosta völ. Mundi hann þá eftir þriðja bréfinu en það geymdi hann innst inni í stóra og trausta peningaskápnum á skrifstofunni.

Sveittur og titrandi af spenningi og opnaði Khrushchev bréfi. Í því stóð eftirfarandi:

„Skrifaðu þrjú bréf. Með kveðju Stalín.“

Þannig fór nú um sjóferð þá. Söguna um bréfin hans Stalíns datt mér í hug þegar ég las annað og ekki síður stórmerkilegt bréf, yfirlýsingu frá formanni Samfylkingarinnar. Í því kennir hann forvera sínum óbeint um öll vandræði vinstri stjórnarinnar síðustu.

Áður hafði formaðurinn formælt og kennt ljótu kapítalistunum um allt sem hugsanlega hefur miður farið hér á landi. 

Líklega á formaðurinn nú ekki lengur margra kosta völ. Hann gæti þó skrifað þrjú bréf og stílað á eftirmanninn sinn.


Sighvatur vill frjálsan innflutning á menguðum matvælum og sýklum

Nú er ástandið þannig að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, Evrópusambandið og Smitvarnarmiðstöð Bandaríkjanna hafa lýst því yfir að sýklalyfjaónæmi sé ein mesta ógnin við lýðheilsu í heiminum í dag. Þrátt fyrir það eru sýklalyf notuð sem vaxtarhvati í landbúnaði víða um heim. Læknar og vísindamenn eru að glíma við ofurbakteríur sem geta borist í menn og eru ónæmar fyrir öllum sýklalyfjum sem eru á markaði í dag.

Þetta segir Guðni Ágústsson fyrrum þingmaður og ráðherra í góðri grein í Morgunblaði dagsins. Hann hrekur það sem annar þingmaður og ráðherra, Sighvatur Björgvinsson, skrifaði um daginn í sama blað. Í henni ber sá síðarnefndi saman innflutningi á ferskum kjöti og ferðamönnum. Sighvatur reynir að vera fyndinn og finnst ótækt að ferðamennirnir séu ekki frystir í þrjátíu daga við komuna til landsins rétt eins og til dæmis er gert við nautakjöt.

Guðni er eðlilega ekki á sama máli og segja má að með grein sinni slátri hann rökum Sighvats.

Af hverju heldurðu að hér ríki bann á innflutningi lifandi dýra og hrás kjöts og matvæli skuli vottuð og heilbrigðisskoðuð sérstaklega? Það er gert til að tryggja dýravernd og forðast pestirnar og verja fólkið í landinu í leiðinni. Þú ert að reyna að rugla almenningsálitið með skrifum þínum.

Það sem Guðni nefnir hér að ofan er í raun kjarni málsins. Sighvatur heldur því fram að innflutningur sé í raun hættulaus og hann sé þar að auki neytendum í hag, þeir fái þar með ódýrari og jafnvel betri landbúnaðarafurðir. Guðni hefur aftur á móti rök við þessu og segir:

Veistu, að bæði í Evrópu og Bandaríkjunum er notað meira af sýklalyfjum í landbúnaði en fyrir mannfólk? Hér segja læknavísindin okkur að »ónæmar bakteríur geti hæglega borist til landsins með innfluttum matvælum og líkurnar séu meiri sé um hrátt kjöt frá verksmiðjubúum að ræða þar sem notuð eru sýklalyf til að örva vaxtarhraðann eða grænmeti sem vökvað eða skolað er með bakteríusmituðu vatni.

Þetta finnst Sighvati Björgvinssyni greinilega ekkert tiltökumál svo fremi sem innfluttar landbúnaðarafurðir séu á lægra verði - eða þá að hann veit ekki betur.

Margir telja að innflutningur landbúnaðarafurða geti verið stórkostlega hættulegur út frá þeim rökum sem Guðni nefnir. Til viðbótar kemur sú staðreynd að í öllum löndum eru landsbúnaðarafurðir niðurgreiddar og þar með innflutningur hingað. Vart er að treysta því að svo verði til frambúðar og hversu mikið hækka þau í verði þegar dregur úr niðurgreiðslum eða þær hætta.

Hér á landi hefur sú skoðun verið ríkjandi að þjóðin þyrfti að vera sjálfri sér næg um framleiðslu landbúnaðarafurða, talað er um fæðuöryggi. Þó svo að deilur séu um verð og fjárhæð innlendrar niðurgreiðslu hefur í raun verið þverpólitísk stefna að hér á landi sé rekinn landbúnað í friði fyrir niðurgreiddri erlendri samkeppni. O

g svo má spyrja hversu mikið eigum við að leggja í sölurnar til að viðhalda heilbrigðri framleiðslu og koma í veg fyrir sýklalyfjaónæmi. Guðni segir þetta:

Veistu, Sighvatur, af hverju læknar sprautuðu þig áður en þú fórst til Afríku? Það var gert til að verja líf þitt gegn menguðum matvælum og sýklum. [...]

Veistu, Sighvatur, að Karl G. Kristinsson, prófessor í sýklafræði við læknadeild Háskóla Íslands og yfirlæknir sýkladeildar Landspítalans, segir að þrátt fyrir að í starfi sínu fáist hann mest við sýkla í mönnum sé ekki hægt að skilja menn frá dýrum. 


Reynisfjara, svona getur aldan verið hættuleg

DSC_0151Innanríkisráðherra og ráðherra ferðamála hafa ákveðið að lögreglugæsla skuli framvegis vera við Reynisfjöru. Þessi ákvörðun kemur í kjölfarið á hörmulegu slysi sem leiddi til dauða ferðamanns fyrr í dag Þetta er hárrétt ákvörðun og henni ber að fagna. Þetta er hættulegur staður og verkefni lögreglunnar eru að gæta að reglu þar sem þannig háttar til.

Eins og svo margir hef ég oft komið í Reynisfjöru, skoðað hellinn sem Jón Steingrímsson átti að hafa búið í og farið í Hálsanefshelli og skoðað stuðlabergið sem bókstaflega er ægifagurt.

Hér áður fyrr var enginn hræddur við brimið enda fáir ferðamenn og samlandar þekktu hættuna. Nú er öldin önnur og miðað við fjölda útlendra ferðamanna fara fáir Íslendinga í Reynisfjöru.

Já, Reynisfjara er stórkostlega falleg og alveg þess virði að fara þangað og skoða umhverfið. Hérna eru nokkrar myndir sem skýra dálítið hversu mikið afl sjórinn getur verið. Í fallegu veðri virðist ekkert trufla, hafflöturinn gárast varla, sólin skín í heiði en ...

Í þetta sinn komst ég ekki í hellinn, aðfallið var byrjað og af og til barði aldan stuðlabergið. Ég klifraði upp í örugga hæð og tók nokkrar myndir.

Á myndinni hér fyrir ofan, hægra megin, sést til stuðlabergsins og eins af Reynisdröngum. Ferðamaður gengur í sandinum þar sem aldan náði mest og smám saman náði hún lengra. Allir vita hversu gaman það er að „stríða“ öldunni,hlaupa undan henni upp fjöruna án þess að vökna.

DSC_0196 - Version 2DSC_0215 - Version 2Í gamla daga vorum við hetjur og leyfðum okkur að vökna, kannski upp að hnjám í þeirri von að öðlast aðdáun stelpnanna. Þær sögðu hins vegar að við værum bara fífl að gera þetta. Varð þá lítið út manni.

Á myndinni vinstra megin er ég kominn upp í stuðlabergið og tek mynd af útfalli öldunnar. Sjórinn fellur stutta stund út.

Hægra megin er önnur mynd sem tekin er tæpri hálfri mínútu síðar á sama stað og þá hefur aldan smám saman náð að fylla upp í fjöruna.

DSC_0217 - Version 2Sumir kunna að halda að þetta sé nú ekki mikið en ég fullyrði að ég hefði ekki náð að standa af mér ölduna. Hún er kraftmikil og það sem meira er að í útfallinu rennur sandurinn með út og maður missir fótanna afar hratt. Oft er illt að þurfa að verjast samtímis kraftinum í öldunni, útfallinu og sandskriðinu undir fótum manns. Takið svo eftir dimmri öldunni sem er í þann mund að ráðast á klettanna.

Svo er hérna til hægri myndin af því þegar dimma aldan, sem getið er um hér fyrir ofan, skall á klettunum. Af fréttum að dæma dreg ég þá ályktun að maðurinn sem dó hafi hugsanlega staðið þar sem aldan brotnar.

DSC_0161Á myndinni vinstra megin, sést hversu djúp aldan er miðað við konuna sem situr uppi í klettunum, þar sem ég hafði áður staðið og tekið myndirnar tvær fyrir ofan.

Smellið á myndirnar og sjáið þær stærri.

 

 

 

 

 


mbl.is Lögregluvakt við Reynisfjöru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leyfa formanninum að sitja en reka þingmenn Samfylkingarinnar

Samfylkingin á í tilvistarvanda. Margir láta sem svo að það sé formanninum að kenna, ekki hinum þingmönnunum.

Hugsum aðeins um það hvort vandi Samfylkingarinnar væri eitthvað minni ef Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður flokksins, hefði ekki rekið rýting í bak formannsins á síðasta landsfundi? Hefði allt lagast ef Sigríður Ingibjörg hefði unnið í formannskjörinu? Hmm ...

Vangaveltur um stöðu Samfylkingarinnar minna stundum á fótboltann. Þar er þjálfurunum kennt um slakt gengi og þeir oftast reknir í svipuðum aðstæðum. Raunar er sjaldgæft að fótboltafélög bjargi sér frá falli úr deild með því að skipta um þjálfara. Þetta er svona örþrifaráð, eignlega meira til að sýnast en hitt. 

Fótboltamennirnir eru hins vegar áfram í liðinu og það eru þeir sem eiga að skora mörkin og verjast en ekki þjálfarinn. Líklega ætti að skipta frekar um leikmenn en þjálfara, að minnsta kosti eru þá líkur á að nýir menn fari betur eftir því sem fyrir er lagt.

Aumingjans Árni Páll stjórnar ekki einstökum þingmönnum Samfylkingarinnar. Það er ljóst eftir atburði síðustu vikna.

Ef formaðurinn fiskar ekki, þá er fátt við því að gera. Jú, hérna eru ráð sem kratar geta nýtt sér ef eitthvað vit er í þeim.

Samfylkingin ætti að hætta öllum vangaveltum um að sparka formanninum. Betra væri að skipta um lið eins og í fótboltanum. Væri ekki gott ráð að hvetja nokkra þingmenn til að segja af sér núna á miðju kjörtímabili og fá einhverja nýja inn í staðinn, ferska og hressa með óspjallaðan kjörþokka í skoðanakannanir?

Hvetja ber til dæmi Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur til að segja af sér, einnig Ólínu Þorvarðardóttur sem og Katrínu Júlíusdóttur. Varamenn komi inn í stað þeirra og sitji á þingi út kjörtímabilið. Ganga síðan á röðina og segja öðrum þingmönnum, þeim sem ekki fiska, að hætta á þingi og rýma til fyrir nýju blóði. Fyrr en varir verður kominn nýlegur þingflokkur í bland við þá sem fyrir eru og allt í lukkunnar velstandi. 

Nú ef þetta gengur ekki seinni hluta kjörtímabilsins þá er alveg einboðið að auglýsa stöðu formannsins lausa til umsóknar og þá getur Sigríður Ingibjörg, Ólína og Katrín boðið sig fram til þings að nýju og haldið áfram leik sínum þar.

Og hvers vegna er ég, Sjálfstæðismaðurinn, að skipta mér hér af innanflokksmálum Samfylkingarinnar? Jú, ég er einu sinni þannig gerður að ég vorkenni alltaf þeim sem minna mega sín í samfélaginu. Á ofangreindar tillögur ber því að líta sem ígildi mannúðarstarfs.

Svo má auðvitað nefna það í þessu sambandi að það myndi ekki saka ef þingmenn Samfylkingarinnar tileinkuðu sér vandaðan undirbúning fyrir þingfundi, vendu sig á málefnalegar rökræður og .... síðast en ekki síst: Leggja „Skítadreifaranum“ og hætta persónulegum árásum á pólitíska andstæðinga. 

Hver veit nema flokkurinn nái að endurheimta eitthvað af töpuðum atkvæðum með því að fara eftir þessum ráðum.


mbl.is Margþættur vandi Samfylkingarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilur Birgitta að aðlögunarviðræður eru ekki samningaviðræður?

Hversu oft þarf að endurtaka þá staðreynd svo skiljist að síðasta ríkisstjórn var ekki í samningaviðræðum við Evrópusambandið heldur aðlögunarviðræðum.

Afar mikilvægt er að stjórnmálamenn sem og aðrir átti sig á muninum á orðalaginu.

Á ensku nefnast þær Accession negotiations. Þær eru fyrir ríki sem ætla sér að ganga inn í ESB. Þetta eru ekki samningaviðræður og ESB varar beinlínis við þeirri túlkun enda býður sambandið ekki upp á samninga um aðild. Í þessu er sá „ómöguleiki“ falinn sem ráðherrar í núverandi ríkisstjórn hafa talað um.

Sem sagt, það er ekki hægt að fara í aðrar viðræður en þær sem enda með aðild að ESB. Samningaviðræður um aðild að ESB eru ekki til samkvæmt reglum sambandsins.

Grundvallaratriðin ESB eru sett fram í 35 köflum og Ísland þarf að sýna og sanna í umræðum um hvern þeirra að það hafi tekið upp lög og reglur ESB. Þetta þarf samninganefnd ESB að samþykkja og löggjafarþing allra 27 ríkja sambandsins. Ekkert annað er í boði en það sem stendur í Lissabon-sáttmálanum sem er nokkurs konar stjórnarskrá sambandsins. Í því eru aðlögunarviðræðurnar faldar.

Þær undanþágur sem einstök ríki hafa frá lögum og reglum ESB eru afar léttvægar og skipta sáralitlu máli í samanburðinum við stóru málin eins og sjávarútvegsmál okkar. 

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður, getur vissulega krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að Evrópusambandinu. Hún verður samt að gera sér grein fyrir því að ekki er hægt að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um einhvern samning sem aldrei var gerður og verður aldrei gerður.


mbl.is „Þráðurinn er rofinn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Utanríkisráðherra ræður fluglæsa níu ára stúlku sem aðstoðarmann

EvaEftirfarandi tilkynning var í kvöld send frá utanríkisráðuneytinu til fjölmiðla:

Eva Adamsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarmaður Gunnars Braga Sveinssonar, utanríkisráðherra. Um er að ræða hálft starf. Eva er 9 ára og stundar nám við grunnskólann á Sauðárkróki.

Hún var í fjögur ári í Leikskólanum Brúsabæ í Hjaltadal og lauk þaðan námi sínu með lofsamlegum ummælum leikskólastjóra og þriggja fóstra. Hún hefur að auki passað litla bróður sinn frá því hann fæddist í samvinnu við móður sína.

Eva hefur farið nokkrum sinnum alein út í búð og keypt mjólk. Því til viðbótar fer reglulega út með ruslið. Hún hefur ofsalega oft farið með pabba sínum og mömmu til útlanda og til dæmis hefur hún tvisvar komið í Tívolí í Kaupmannahöfn.

Nám sitt mun Eva stunda meðfram starfinu hjá utanríkisráðherra. Þó mun hún ekki vegna anna getað farið út með ruslið fyrir foreldra sína.

Utanríkisráðherra segist hlakka til að vinna með Evu og telur hana hafa margt fram að færa í starfi sínu sem aðstoðarmaður ráðherra. Hún sé til dæmis alveeeeg fluglæs og skrifandi.

Af einföldum ástæðum er ofangreind frétttilkynning birt á þessum vettvangi. Ritstjóri muni ekki tjá sig um ráðninguna að sinni. Þó er óhætt að fagna því að utanríkisráðherra velji ungt fólk fram yfir eldra fólk í störf í ráðuneytinu enda ljóst að aldur, reynsla og þekking eru algjörlega ofmetnir þættir í stjórnsýslu og pólitík.

Myndin af Evu var tekin í dag í utanríkisráðuneytinu en hún hefur þegar hafið þar störf.


Quest - Hair, Beer & Whisky Saloon og álíka á Laugaveginum

„Fræga fólkið lét sig ekki vanta,“ segir í alræmdum dálki á mbl.is. Verið var að opna í fyrsta sinn veitingastað í Reykjavík undir nafninu „Lob­ster & Stuff“. Humar er vissulega góður sé hann rétt matreiddur en þetta „stuff“ er algjört óæti. Hef oft bragðað á „stöffi“ og alltaf orðið fyrir vonbrigðum. Auðvitað er ég ekki einn af fræga fólkinu, en með boðsmiða í höndunum hefði ég ábyggilega mætt enda finnst mér afar gott að drekka og borða á kostnað annarra.

Hins vegar verð ég að lýsa yfir vonbrigðum mínum með eigendur veitingastaðarins kunni viti ekki hvað „Lobster“ er á íslensku. Af hverju í ósköpunum eru þeir svo leiðinlegir að nota útlent heiti á veitingastaðinn? Dettur einhverjum í hug að ensk nafn huggnist íslenskum neytendum? Dettur einhverjum í hug að útlendum ferðamönnum þyki enskt nafn svo menningarlega merkilegt að þeir flykkist staðinn frekar en að fara á „Humarhúsið“. Hvað er annars átt við með „Stuff“?

Sem betur fer er hugsunarháttur flestra eigenda veitingastaða þannig að þeir telja það stað sínum til framdráttar að hann beri íslenskt nafn. Nefna má glæsilega veitingastaði eins og Lækjarbrekku, Kopar, Salt, Sægreifann, Sjávargrillið, Pottinn, Torfuna, Ísafold og Perluna. Man ekki eftir fleirum í augnablikinu.

Ég er með skrifstofu við Laugaveg í Reykjavík (vissara að taka bæjarfélagið fram). Á göngu minni um þessa fornfrægu götu virðast alltof margir eigendur fyrirtækja við hana kjósa ensk nöfn. Þarna má til dæmis finna þessi.

  • „Quest -Hair, Beer & Whisky Saloon“
  • „Igdlo Travel“
  • „Public House - Gastropub“
  • „Le bistro“
  • „Black Pepper Fashion“
  • „Room With a View apartment hotel“
  • „Trip“
  • „Freebird“
  • „Nostalgia“
  • „Kíkí queer bar“
  • og fleiri og fleiri 

Gleymdi hér fyrir ofan einu sem hlýtur að teljast botninn í enskri nafngift á íslensku fyrirtæki í Reykjavík: „Chuck Norris Grill“. Ferðamennirnir flykkjast ábyggilega á stað með svona flottu nafni.

Þakka má fyrir að enn sé verslunin Brynja við Laugaveg, Verslun Guðsteins Eyjólfssonar, Bókabúð Máls og menningar, Ullarkistan, Frú Fiðrildi, Tösku og hanskabúðin, Arkitektastofan Kím (sem þó er fyrir ofan Hlemm), Penninn Eymundsson og fleiri og fleiri fyrirtæki með frábær, lýsandi og jafnvel rómantísk nöfn.

Gleymdi hér að nefna uppáhaldsstaðinn minn sem er kaffihúsið Tíu dropar. Frábær staður sem ég legg stundum leið mína á. Hann er í kjallaranum á Laugavegi 27. Þar fær maður alltaf góða þjónustu og gott að borða. Því miður veit ég ekkert um kaffi hvorki þarna né annars staðar því ég hef aldrei drukkið slíkt. Mamma kenndi mér marga góða siði en gleymdi kaffinu í uppeldinu.

Þó ég sé nú frekar mikið á móti því að kalla íslensk fyrirtæki útlendum nöfnum þá er ég nú ekki svo öfgafullur að ég fljúgi ekki með Wow eða Icelandair, drekki ekki bjór á staðnum sem með langa nafninu, „Quest, Hair, Beer ...“ og það allt saman.

Mér hrýs samt hugur við því er götur í Reykjavík verða einhvern tímann nefndar enskum nöfnum til að hjálpa útlendum ferðamönnum á ráfi sínu um borgina. Ljósi punkturinn er þó sá að þá mun enginn villast til Siglufjarðar sem ætlar á hótel á „Hot Spring Street no.22a“.

Hins vegar verð ég að taka það fram hér í lokin, að á ferðum mínum í útlöndunum hef ég aldrei hrökklast frá veitingastöðum, verslunum eða öðrum fyrirtækjum þó nöfn þeirra hafi verið rituð á þýsku, frönsku, spænsku, grísku, armensku, kínversku, tyrknesku svo einhver tungumál séu nefnd. Margir hreinlega búast við því að enska hafi tekið yfir hvern einast menningarkima í heiminum. Þannig er það sem betur fer ekki og það er huggun harmi gegn.


Enginn á að fara á fjöll að vetrarlagi nema kunna til verka

í línuTvær mikilvægar reglur eru í fjallaferðum að vetrarlagi.

  1. Að nota ísexi og ísbrodda.
  2. Að kunna að nota þessi tæki og hafa æft sig í því undir leiðsögn.

Því miður verða stundum óhöpp í fjallaferðum að vetrarlagi, jafnvel alvarleg slys. Snjór, ís, bratti og veður geta valdið hinum vanasta fjallamanni vandræðum. Til að komast áfram nota vanir fjallamenn ýmsar græjur.

Í bratta er nauðsynlegt að hafa meðferðis ísöxi og ísbrodda. Ótrúlegt hversu maður kemst langt með þessum tækjum og svo ekki sé talað um að ferðast í línu en þá þarf belti og fleira.

fjallabunadur_mediumÞetta virðist allt mjög einfalt en reyndin er sú að hjálpartæki geta verið stórkostlega hættuleg í meðferð þeirra sem ekki kunna á þau.

Fólk hefur snúið sig á ökkla með ísbrodda á fótum og jafnvel fótbrotnað. Dæmi er um að fólk hafi runnið niður í móti og skaðað þá sem eru fyrir neðan með broddum eða ísöxi.

Í bratta er notað ákveðið öryggisgrip á ísöxi en það byggist á því að geta beitt öxinni því sem næst umsvifalaust. Mikilvægast að koma sér á magann og þrýsta efri hluta axarinnar niður og draga þannig úr hraða og helst að geta stöðvað sig algjörlega.

Til þess að þetta takist þarf þetta að vera vel æft, rétt eins og sundtökin sem flestir grípa til við fall í vatn. Vandinn er sá að þegar maður dettur í snjó í miklum bratta er hvert sekúndubrot dýrmætt. Að öðrum kosti er hætta á að maður endasendist stjórnlaust niður brekkuna á sívaxandi hraða með hræðilegum afleiðingum.

Svo er það þetta með ísbroddanna. Þeir bjarga engu þegar maður dettur í bratta. Sé reynt að spyrna við fótum er hætta á að þeir nái skyndilega festu og fóturinn hreinlega brotni.

Um daginn var ég í Vífilsfelli og hitti Íslendinga og útlendinga sem voru á hákubroddum, svona smábroddum sem margir ganga á þegar hált er á sléttlendi. Þannig græjur eru gangslausar í fjöllum.

Fyrir nokkrum árum gekk ég á Hvannadalshnúk í glampandi sól og blíðu. Í fjallinu voru hundruð annarra sem nutu útiverunnar og reyndu sig við þennan hæsta tind landsins. Myndin hér fyrir ofan var tekin í ferðinni. Á myndinni eru þrír hópar, tveir á leiðinni upp síðasta áfangann og einn á niðurleið.

Tveir hóparnir fara algjörlega rangt að, eðeins hópurinn sem er lengst til vinstri gerir rétt.

Ég man ekki hvort það hafi verið þessir hópar eða einhverjir aðrir en ég man eftir stórum hópi á niðurleið. Ofarlega í hópnum hrasaði maður og féll á þann næsta fyrir neðan hann. Sá datt á þann þriðja og svo koll af kolli. Verra var að nokkrir í hópnum rákust á göngufólk á uppleið og þar með voru örlög þeirra ráðin. Um tuttugu og fimm manns enduðu fyrir neðan brekkuna í einni bendu. Líklega kunni enginn í þessum hópum að tryggja ... Hvað skyldi það nú annars þýða?

Hópurinn til vinstri á myndinni gerir rétt. Fólkið gengur í krókaleiðum upp. Ef einhver dettur geta flestir séð til þess sem hrasar og tryggt, það er stungið ísöxinni eldsnöggt niður og tekið sér viðbragðsstöðu áður en strekkist á línunni.

Sé hópurinn hins vegar í beinni línu geta fæstir brugðist við áföllum. Sá sem dettur fellur venulegast á þann næsta og svo koll af kolli.

Neðri myndina fann ég á vefnum náttura.is. Þar er stutt en góð grein um eftir Árna Tryggvason og nefnist hún „Hugleiðing vegna óhappa á fjöllum“.

Í greininni varar Árni við að fólk fari á fjöll án útbúnaðar og þekkingar. Eftirfarandi er úr greininni og ég er fyllilega sammála:

Að mínu mati hafa margir þessara hópa farið offari í sínum ferðum. Duglegt fólk sem telur sér allt fært en kunnáttan lítil og oft er hópstjórinn upphafinn sem alvitur leiðtogi.

Aðili sem fer oft of geyst og hleypir með [í ferðina] fólki sem á ekkert erindi á fjöll. Sorgleg staðreynd sem hefur orðið of mörgum að falli og það jafnvel í fylgd mjög vanra fjallamanna. Í ferðum sem þessum er hópurinn aldrei sterkari en sá sem sístur er varðandi kunnáttu og búnað. Þetta er staðreynd sem allir verða að temja sér sem ætla í ferðir sem þessar. Kröfur þarf því að auka til þátttakenda í slíkum ferðum og ekki síst þarf að auka kröfur til skipuleggjenda slíkra ferða.

Ábyrgð fararstjóra eða hópstjóra er mikilvæg. Oft stjórnar sá ferð sem er mestur garpurinn, gengur hraðast eða hefur þekkingu á því svæði sem um er farið. Það er bara oft ekki nóg. Kröfur sem hópur á að gera jafnt til sín sem og til fararstjórans er að allir kunni til verka. Hafi fararstjórinn til dæmis ekki þekkingu á notkun brodda og ísexi og sé vanur að ferðast með slíkar græjur á hann ekki að stjórna hópi. Og það sem meira er, enginn í hópnum á erindi í fjöll að vetrarlagi nema hann sé vanur. Allt annað býður hættunni heim. Best er að æfa sig, byrja hægt og rólega undir leiðsögn þeirra sem kunna til verka.

Og svo er það aðalreglan í fjallaferðum og hún er sú að hafa þekking og kjark til að snúa við áður en það er of seint. Betra er að ofnota þessa reglu frekar en að láta björgunarsveit sækja sig eða þyrlu Landhelgisgæslunnar.


Máttlaus og aum Evrópuríki

Í Evrópuríkjunum búa samtals rúmlega 525 milljónir manna á fjögurra milljón ferkílómetra lands og er þá Rússland ekki með í þessari talningu. Þjóðirnar í álfunni njóta einhverra mestu velmegunar í heimi. Verg landsframleiðsla á mann er um fjórar milljónir króna á ári. Meðan allt lék í lyndi á Sýrlandi var hún um 655 þúsund krónur á ári.

Þjóðir Evrópu búa við lýðræði, háþróaða löggjöf, öfluga löggæslu, menntun, heilbrigðisþjónustu, menningu og ... gott mannlíf, svona yfirleitt. Í hamingju sinni talar fólk fjálglega um menningu sína og margir telja hana byggjast á kristnum gildum, náungakærleika og annað sem er fólki finnst fallegt að nefna á tyllidögum.

Sagt er að friður hafi ríkt í álfunni frá lokum seinni heimstyrjaldar. Undatekningarnar eru meðal annars tvær: Hryðjuverkastríð kaþólskra og mótmælenda á Norður-Írlandi og borgarastyrjöld milli þjóða fyrrum Júgóslavíu og kannski eitthvað annað „smálegt“.

Fátt bendir þó til að kristileg siðfræði sé hefndarþorstanum og drápsfýsninni yfirsterkari. Ekki er furða þótt maður velti því fyrir sér hvort hin kristnu gildi séu meira til viðmiðunar en að farið sé bókstaflega eftir þeim.

Svo gerist það ótrúlega að rúmlega ein milljón manna flosnar skyndilega upp frá heimahögum sínum vegna ófriðar og annarrar óáran. Íslamistar rísa upp og drepa fólk af sömu trú, svipað eins og hjaðningavíg kaþólskra og mótmælenda á Norður-Írlandi en bara af miklu stærri skala. Ástæðan er sú að þeir telja sig mega það samkvæmt trú sinni. Aðrir segja það rangt.

Harmleikurinn gerist í Sýrlandi, Líbýu, Túnis og víðar. Hvert leitar svo fjöldinn sem kemst á vergang vegna atburða í Sýrlandi og í fleiri arabaríkjum? Jú, í friðinn í Evrópu.

Og hvað gerist þar?

Evrópa fer nærri því á hliðina. Samtök ríkja í Evrópu geta ekki saman tekið við óvæntum gestum sem þó eru ekki nema um 0,2% af eigin mannfjölda. Allt virðist ætla að fara á hliðina, líklega vegna þess að efnahagslega stendur Evrópa á brauðfótum.

  • Landamæraeftirlitið liðast í sundur
  • Ekki er pláss fyrir flóttafólk í gistingu
  • Það er látið ganga hundruð kílómetra án matar og vatns
  • Flóttafólk fær ekki pláss í almenningsfarartækjum
  • Fólkið sveltur
  • Þúsundir manna drukkna á leið til Evrópu
  • Þúsundir barna týnast á vegum Evrópu
  • Glæpahópar ræna börnum og fullorðnum
  • Fólki er beitt ofbeldi
  • Sum ríki loka landamærum með gaddavírum og vopnuðum eftirlitsmönnum dag og nótt
  • Milljónir Evrópubúa halda að flóttamenn komi með ófriði

Er nokkur furða þó maður leyfi sér að álykta sem svo að Evrópuríkin séu einfaldlega máttlaus og aum fyrst þau geta ekki tekið skammlaust á móti einn milljón flóttamanna.

Hvers vegna er ekki umsvifalaust gengið í fyrirbyggjandi aðgerðir í löndum þar sem stríð og ófriður ríkja? Miðjarðahafið og Eyjahaf eru ekki stór og því furðulegt að fólk geti farið þar yfir á smáskekktum og gúmmítuðrum án þess að nokkrir verði þeirra var með berum augum, í sjónaukum, á radarskjám eða með háloftamyndum?

Er ef til vill öllum sama?

Hvað svo með glæpahópa sem leggja til ónýt fley undir flóttamenn sem þurfa að kosta öllu sínu til að fá pláss í þeim? Af hverju er ekki gengið í að koma í veg fyrir þennan ósóma? Samt eru þúsundir herskipa í löndum Vestur-Evrópu, Nató. Til hvers liggja þessi skip í höfn? Er ekkert brúk fyrir skip og áhafnir annað en að bíða eftir Rússum eða hryðjuverkamönnum?

Svo veltir maður fyrir sér hinum kristilegum gildum Evrópulanda, líka Íslands. Velmegunin er víst svo mikil í Evrópu að hin kristnu gildi mega sín einskis. Gestrisni sem öllum er kennd verður að engu vegna hræðslunnar við flóttafólkið. Sem sagt, ein milljón manna sem ekki eru ferðamenn heldur eru á flótta. Þá gerast þau undur og stórmerki að ...:

  • Dönsk stjórnvöld hirða öll verðmæti af flóttafólki
  • Norsk stjórnvöld vísa fólki til Rússlands þar sem frostið er gríðarlegt, bæði í andrúmslofti sem stjórnmálum.
  • Þeir Svíar eru til sem kveikja í húsum flóttamanna og hóta að drepa börn
  • Finnsk stjórnvöld ætla loka landamærum sínum.
  • Þýskur stjórnmálaflokkur vill láta skjóta flóttamenn við landamærin
  • Er hér ónefnd viðbrögð íbúa annarra Evrópulanda.

Auðvitað er allt þetta ósköp skiljanlegt enda er flóttafólk almennt stórhættulegt:

  • Það er ekki kristið sem auðvitað þýðir að það gæti beitt ofbeldi
  • Það er bláfátækt sem auðvitað þýðir að það þarf að betla
  • Það er atvinnulaust og tekur án efa vinnuna frá kristnu láglaunafólki
  • Það er veikt, að minnsta kosti sumir, sem þýðir byrði á heilbrigðiskerfinu
  • Það er húsnæðislaust sem þýðir að það verður byrði á félagslega kerfinu

Þegar öllu er á botninn hvolft virðist sem að allir hafa mjög sterka löngun til lífs og þörf á að afla sér viðurværis, matar og húsaskjól, ekki aðeins fyrir sjálfan sig heldur fjölskyldu sína og aðra nákomna. Þannig er þetta út um allan heim. Og hver eru nú hin kristnu gildi ef ekki að taka á móti fólki í neyð?

 


Undirskriftasöfnun Kára Stefánssonar er mikilvæg

Það [heilbrigðiskerfið] hefur ekki fylgt framþróun í læknisfræði, hvorki hvað snertir notkun á tækjabúnaði né bestu lyfjum og helstu stofnanir þess eru hýstar á þann veg að það kemur í veg fyrir að hægt sé að veita nægilega mikla og góða þjónustu. Hnignun heilbrigðiskerfisins hefur að mestu leyti verið óháð því hvaða stjórnmálaflokkar hafa verið við völd vegna þess að hún hefur verið stöðug og samfelld.

Þetta segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sem nú safnar undirskriftum og hvetur til að meira fé verði lagt í íslensk heilbrigðismál.

Tæplega sextíu þúsund manns hafa skrifað undir hjá Kára og ljóst að stór hluti Sjálfstæðismanna er sammála honum. Viðbrögð forystumanna Sjálfstæðisflokksins og margra annarra eru undarleg. Í stað þess að fagna því að almenn samstaða náist um aukið fjármagn á heilbrigðiskerfið virðist sem að margir noti tækifærið og ráðist á Kára, geri athugasemdir um orðalag, prósentuhlutfall og annað smálegt sem skiptir í heildina litlu máli.

Heilbrigðiskerfið er dýrt en sé almenn samstaða meðal fólks um að leggja því til meira fé er sjálfsagt að ganga í það mál og um leið að draga úr öðrum útgjöldum til mótvægis. 

Hafi heilbrigðiskerfinu hnignað þarf að taka á því en auðvitað er það ekki aðeins gert með auknu fjármagni. Hins vegar er það pólitískt rangt að berjast með oddi og egg gegn undirskriftasöfnun Kára Stefánssonar.

Staðreyndin er einfaldlega sú að enginn vill slasast eða veikjast, en lífið kemur á óvart. Allir vilja að öryggisnetið sé til staðar, læknar, hjúkrunarfólk, lækningatæki, húsnæði og annað sem þarf. Þetta viljum við öll að sé fyrsta flokks, fyrir okkur, ættingja, vini og alla aðra. Við sættum okkur ekki við annað.

Þetta er ástæðan fyrir því að tæplega sextíu þúsund manns skrifa undir hjá Kára. Enginn og allra síst forysta Sjálfstæðisflokksins, á að leggjast gegn undirskriftasöfnuninni eða gera hana tortryggilega.

Sjálfstæðismenn skrifa í þúsundum undir hjá Kára enda ekkert í henni sem er í andstöðu við stefnu flokksins. 

Svo er það allt annað mál hvort það sé vel rekið eða hvort það eigi allt að vera í höndum ríkisins.  


Bullið í Trump og pólitík Sanders

Með vaxandi áhuga hef ég fylgst með aðdraganda forkosninganna stóru flokkanna í Bandaríkjunum vegna forsetakosninganna, Republikana og Demókrata. Raunar hefur mér oft þótt lítill munur á þeim miðað við íslenskan eða jafnvel evrópskan raunveruleika. Nú bregður hins vegar svo við að tveir frambjóðendur gera leikinn mun skemmtilegri en ella, það er ef skemmtun má kalla. Sá sem þetta ritar hefur gaman af stjórnmálum en telur þau hins vegar mikið alvörumál þó hægt sé að hafa ýmislegt í flimmtingum.

Donald Trump kemur mér fyrir sjónir sem skrýtinn maður, hann er ábyggilega greindur en er margt sem hann hefur látið hafa eftir sér ekki svo ýkja gáfulegt. Í Bandaríkjunum er fylgst með hverju orði sem frambjóðendur láta frá sér fara.

Hér er um nokkur ummæli sem höfð eru eftir Donald Trump:Donald-Trump-Making-Smug-Face

“Ariana Huffington is unattractive, both inside and out. I fully understand why her former husband left her for a man – he made a good decision.”

“I will build a great wall – and nobody builds walls better than me, believe me – and I’ll build them very inexpensively. I will build a great, great wall on our southern border, and I will make Mexico pay for that wall. Mark my words.”

“The beauty of me is that I’m very rich.”

“It’s freezing and snowing in New York – we need global warming!”

“I think the only difference between me and the other candidates is that I’m more honest and my women are more beautiful.” 

Þetta er nú bara örlítið brot af því sem maðurinn segir. Verð að segja eins og er að svona frambjóðandi vekur ekki áhuga.

Þegar litið er á „heimskuleg“ ummæli Bernie Sanders er allt annað uppi á tengingnum. Síst af öllu er hann vændur um greindarskort. Það sem honum er hins vegar lagt til lasts byggist á stjórnmálaskoðunum hans og auðvitað eru margir með andstæðar skoðanir. Dæmi um ummæli sem fjölmargir gagnrýna er eftirfarandi:Bernie

“A nation will not survive morally or economically when so few have so much while so many have so little. We need a tax system which asks the billionaire class to pay its fair share of taxes and which reduces the obscene degree of wealth inequality in America”

“Education should be a right, not a privilege. We need a revolution in the way that the United States funds higher education.”

“Social Security is a promise that we cannot and must not break.”

“Meanwhile, as the rich become much richer, the level of income and wealth inequality has reached obscene and unimaginable levels. In the United States, we have the most unequal level of wealth and income distribution of any major country on Earth, and it’s worse now then at any other time since the 1920s.”

“We must transform our energy system away from fossil fuels and into energy efficiency and sustainable energies.”

Bernie Sanders er hrukkóttur karl, lotinn í herðum og hefur fjarri því sama sjónvarpsþokka og aðrir fjöldaframleiddir forsetaframbjóðendur. Engu að síður leggur maður við eyrun þegar hann talar og ... það sem meira er, maður er bara nokkuð sammála.

Sanders segist vera „democratic socialist“ aðrir segja hann vera „social democrat“. Á þessu tvennu er talsverður munur. Hann er kapítalisti og styður ekki ríkiseign fyrirtækja og hefur síst af öllu lagst gegn einkaframtakinu. Munurinn á þessu er án efa að stjórnmálin í Bandaríkjunum sem um flest eru ólík þeim hér á landi og annars staðar í Evrópu.

Stundum er það beinlínis fyndið þegar jafnaðarmenn hér á landi telja sig eiga eitthvað sameiginlegt með bandaríska Demókrataflokknum og jafna Sjálfstæðisflokknum við Republikana. Hvort tveggja er fjarri öllum raunveruleika. 

Bernie Sanders styður heilbrigðiskerfi eins og það er byggt upp hér á landi, menntakerfi og fleira. Rétt eins og ég og aðrir Sjálfstæðismenn og höfuð hingað til ekki verið kallaðir sósíalistar.


Gjörbreyting í bæjarstjórn Kópavogs, þar vinna menn saman

Hvað gerðist í Kópavogi? Á síðustu kjörtímabilum bárust menn á banaspjótum í bæjarstjórninni. Þar réðust menn á Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóra, uppnefndu hann, reyndu að niðurlægja og gerðu honum upp skoðanir. Margt hefur breytst í bæjarstjórn Kópavogs. Í hana valdist gott fólk í síðustu kosningum og svo virðist sem að meirihluti og minnihluti hafi lært að vinna saman. Árangurinn lætur svo ekki á sér standa.

Bæjarstjórinn er ekki maður margra orða. Hann lætur hins vegar verkin tala. Dálítið ólíkur borgarstjóranum í Reykjavík sem talar mikið en segir þó fátt. Sá síðarnefndi hefur tekið upp nýtt orðalag. Svart er hvítt, hvítt er svart. Auknar álögur eru lægri álögur. Minni þjónusta er meiri þjónusta.

Dagur hefði ábyggilega gott af því að læra af bæjarstjórninni í Kópavogi en það mun hann aldrei gera því hann hefur djúpstæða óbeit á Sjálfstæðismönnum og talar ekki við þá nema úr ræðustól borgarstjórnar.

Sú hugmynd hefur lengi þótt heillandi að byggja göngubrú milli Kársness og Nauthólsvíkur. Hana sér göngufólk, hlauparar og reiðhjólafólk í hillingum og ekki að ástæðulausum. Ekki aðeins að með brú myndi verður til skemmtileg hringleið heldur myndi leiðin milli vesturhluta Kópavogs og miðbæjar Reykjavíkur styttast að mun með öllum þeim kostum sem því fylgja.

Hins vegar er maður nú ekkert sérstaklega bjartsýnn á að þessi brú verði reist. Borgarsjóður er gjörsamlega tómur í langt sukk vinstriflokkanna og í þokkabót myndi Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, og hið heiðríka lið í meirihlutanum aldrei nokkurn tímann vinna með meirihluta sjálfstæðismanna og Bjartrar framtíðar í Kópavogi. Fyrr mun frysta í neðra áður en Dagur mun vinna að þjóðþrifamáli, með eða án Sjálfstæðismönnum.


mbl.is Brú yfir Fossvog í forgangi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Já, yrði Össur ekki bara góður forseti þrátt fyrir allt ...?

Einhverjir gera að því skóna að Össur Skarphéðinsson, alþingismaður og fyrrum utanríkisráðherra, ætli að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Ég held að hann væri nú bara skástur þeirra sem ég hef heyrt að hafi áhuga á djobbinu.

Ekki þekki ég Össur persónulega. Man bara eftir honum sem róttækum vinstri manni í Háskólapólitíkinni um það leyti er ég hóf þar nám. Sat nokkrum sinnum í stjórn stúdentaráðs og horfði með undrun á Össur, þennan skarpa kómmónista sem ekki hataðist við forystu Vökumanna heldur tókst á við þá með leiftrandi húmor.

Hann var kjaftfor, veifaði hreinu sakavottorði sem líklega var frekar óalgengt meðal róttæklinga og reif kjaft á áheyrendapöllum Alþingis. Össur var á þessum árum svona almennt velheppnaður Marxisti, Trotskyisti, Leninisti, Stalinisti eða hvað það hét nú sem þessir krakkar áttu við að etja í sál sinni á þessum tíma.

Svo læknaðist Össur og hóf vegferð sína til hægri.

Hann dvaldi um stund í Alþýðubandalaginu, var þar vinamargur enda góður sögumaður og með auga fyrir hinu skoplega í tilverunni. Ekki man ég eftir því að hann hafi komið við í Alþýðuflokknum en þegar vinstri menn ákváðu að sameina vinstrið í íslenskum stjórnmálum stökk hann til og varð fyrsti formaður Samfylkingarinnar.

Þar vermdi hann að eigin sögn sætið fyrir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem var vinstrisins útvaldi formaður. Þar með var sagan skrifuð og síðan hefur leið Samfylkingarinnar legið niður á við. Jafnaðarmenn hafa alla tíð haft einkennilegt lag á að niðurlægja og rægja formenn sína. Bæði lentu í þeim óþrifum, Össur og Ingibjörg. Össur er sá eini sem lifði það af í pólitíkinni.

Össur varð svo utanríkisráðherra í einu vinstri stjórninni sem enst hefur út kjörtímabilið, að minnsta kosti svona formlega séð. Örlög hennar voru að vísu eins og Brésnefs, aðalritara sovéska kommúnistaflokksins, sem dó löngu áður en honum og samstarfsmönnum hans varð það ljóst. Vinstri stjórnin dó þegar þjóðin hafnaði Icesave en stjórnin vissi bara ekkert af því fyrr en löngu síðar heldur hélt áfram að gera óskunda í þjóðlífinu eins og uppvakningurinn Móri sem hljóp erinda þeirra sem vöktu hann upp.

Hæst bar stjórnmálaferil Össurar Skarphéðinssonar er hann þann 16 júlí 2009 bar upp þingsályktunartillögum um aðild Íslands að Evrópusambandinu og fékk hana samþykkta. Þr var hann sem sigurvegari og veifaði þingsályktuninni rétt eins og hann hafði mörgum árum áður veifað sakavottorðinu sínu.

Aftur á móti verður að segjast að Össur hefur vissulega skrapað botninn á stjórnmálaferli sínum. Þessi fimm mál marka þann botn:

  1. Þingsályktunartillagan um aðildina að ESB og að hafa neitað að bera málið fyrst upp í þjóðaratkvæðagreiðslu.
  2. Fullyrðingin um að aðlögunarviðræðurnar væru aðildarviðræður og ESB og Ísland gætu samið jafnvel þvert á Lissabonsáttmálann.
  3. Fullyrðingin um að fiskveiðiauðlindir Íslands gætu verið undanþegnar í aðlögunarviðræðunum við ESB
  4. Stuðningurinn við Icesave samninganna.
  5. Þrátt fyrir digurbarkalega kosningabaráttu féll vinstri stjórnin eins móbergshnullungur úr tindi Vífilsfells og endar í frumeindum fyrir neðan.

Þrátt fyrir allt þetta og miklu meira virðist Össur haldið geðprýði sinni og skopskyni. Manninn markar hvernig hann tekst á við áföllin. Þau hafa ekki mótað hann heldur styrkt. Hann stendur teinréttur þrátt fyrir ESB málið, Icesave og síðustu kosningar, lætur eins og ekkert hafi í skorist, bara gleymir öllu eða mótmælir öllu.

Já, ég væri alveg tilbúinn til að kjósa Össur í forsetakosningunum. Ég hef þá trú að hann, líkt og Ólafur Ragnar Grímsson, standi með þjóðinni og gefi lítið fyrir hagsmuni gamalla baráttufélaga sem trúa innst inni á rússnesk gáfumenni í kommúnistaflokki eða sameinaða og sundraða vinstrimenn í móbergsrykinu undir Vífilsfelli eða annars staðar.


Sóley Tómasdóttir í vörn vegna miðbæjarskipulagsins

Hvað skipulagsmál í miðborginni varðar, þá held ég að langflestir séu sammála um það að það mætti vera minna byggingarmagn á þeim reit sem að um ræðir. Það er aftur á móti ekki það sem ég hef mestar áhyggjur af.

Það sem mér finnst undarlegt og mér finnst vera eitthvað sem þarf að fara að ræða, er áhugasvið forsætisráðherra og það hvernig hann ítrekað virðist vera að skipta sér af viðfangsefnum sveitarstjórnarstigsins. Ég velti því fyrir mér hvort forsætisráðherra ætli að fara að skipta sér af opnunartíma sundstaða eða öðrum viðfangsefnum sveitarstjórnarstigsins. Hvort honum sé eitthvað óviðkomandi yfir höfuð.

Þetta segir Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, í visir.is í dag. Hún fordæmir skoðanir forsætisráðherra á skipulagi miðbæjar Reykjavíkur. Engu að síður virðast borgarbúar vera sammála ráðherranum og skilja lítið í skipulaginu.

Stefnuleysi meirihlutans í borgarstjórn er æpandi. Þar er engin virðing fyrir fortíðinni, allt miðast við að byggja sem mest á hverjum stað.

Afskipti forsætisráðherra eru fullkomlega eðlilegar. Reykjavík er höfuðborg landsins og allir hafa leyfi til að benda á það sem þar fer miður. Ástæðan er einfaldlega sú að skipulag er þess eðlis að þegar hafist er handa við vinnu samkvæmt því er ekki aftur snúið. 

Skiptir engu þó Sóley Tómasdóttir skæli í fjölmiðlum og hreyti einhverjum ónotum í forsætisráðherra, hún má gera það sem henni þykir mestur sómi að. Hitt sjá allir að hún reynir að beina athygli frá gagnrýni ráðherrans og að einhverju allt öðru. Staðreyndin er nefnilega sú að skipulag norðurhluta miðbæjarins gengur ekki upp, það er í engu samhengi við syðri hlutann.

Svo má benda forsætisráðherra á að einstakir miðar á sundstaði borgarinnar eru seldir við okurverði. Sóley Tómasdóttir vill ekki taka á því.


Árni Páll krefst rannsóknar eftir pólitískum hentugleikum

Í aðalatriðum held ég að það fyrirkomulag sem sett var upp hafi gengið vel. Það verður ekki bæði sleppt og haldið, eins og mér finnst hv. þingmaður og reyndar margir fleiri stundum óska sér. Það varð niðurstaða Alþingis að skilja með mjög skýrum og afdráttarlausum hætti á milli stjórnmálanna og þess hvernig farið væri með eignarhaldið í fjármálastofnunum sem ríkið ætti aðild að. Það er einfaldlega þannig að Bankasýslan er algerlega sjálfstæð í störfum sínum og ráðherra er samkvæmt lögum bannað að hafa afskipti af þeim nema með tilteknum hætti sem er þá í formi skriflegra tilmæla sem Bankasýslan bregst við og þau samskipti eru síðan gerð opinber.

Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon á Alþingi 21. október 2010, en þá var á þinginu rætt um kaup Framtakssjóðs lífeyrissjóðanna á eignarhaldsfélaginu Vestía. Landsbankinn seldi félagið í án nokkurs útboðs eða í söluferli af neinu tagi.

Í gær virðist dálítill annar skilningur uppi á möguleikum fjármála- og efnahagsráðherra ríkisstjórnar Íslands en var þegar Steingrímur Sigfússon gegndi stöðunni.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar sagði þetta á Alþingi í gær:

Við vissum það eftir umfjöllun á opinberum vettvangi á síðasta ári, um sölu Landsbankans á Borgun, að það fyrirtæki hafði verið selt til útvalinna kaupenda sem voru sérvaldir af Landsbankanum og fengu einir að bjóða í Borgunarhlutinn. Salan fór fram í leyni og án nokkurrar samkeppni um verð og verðið var hlálegt miðað við virði fyrirtækisins og arðgreiðslur úr því.

Hvernig hyggst hæstv. ráðherra bregðast við og endurreisa traust á Landsbankanum eftir þessa hörmungarsögu alla saman [sölu Landsbankans á hlut sínum í Borgun]? Styður hann hugmyndir okkar um rannsókn á sölunni, fyrirkomulagi hennar og tildrögum? Mun hann standa með okkur að því að knýja fram slíka rannsókn til að allt fáist upp á borð varðandi þessi viðskipti og þá sé hægt að draga af því lærdóm þegar við höldum áfram með fyrirsjáanlega sölu ríkiseigna á næstu missirum?

Formaður Samfylkingarinnar óskaði ekki eftir rannsókn á sölu Landsbankann á eignarhaldsfélaginu Vestíu á árinu 2010, var hann þó með fullri meðvitund og glaðvakandi. Nú vill hann upphefja gríðarlegar rannsóknir á sölunni á Borgun og heldur að fjármála- og efnahagsmálaráðherra hafi einhver tök á því að seilast til innan Landsbankans og tukta þar menn. 

Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra, og Bjarni Benediktsson, sem gegnir stöðunni nú, eru sammála um þessi mál. Bankasýslan fer með málefni Landsbankans en ekki stjórnmálamenn. Punktur.

Skýringin á upphlaupi Árna Páls er einfaldlega þessi: Pólitísk markmið Samfylkingarinnar eru að berja á núverandi ríkisstjórn, skiptir engu að síðasta ríkisstjórn gerði nákvæmlega það sama. Þá var það ekki „glæpsamlegt“ en er það nú.

Er nokkur furða þótt margir dragi í efa að Samfylkingin eigi framtíð fyrir sér.


Nei takk, ekki Baldur Þórhallsson

Spurt er í dag í könnun á vegum Gallups á Íslandi hvort stuðningur sé fyrir því að Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðingur, verði næsti forseti Íslands.

Ég hef engan áhuga á Baldri. Held að nóg sé af vinstri gáfumönnum í hugsanlegu framboði svo ekki bætist við einn enn.

Greinilegt er að margir eru að hugsa sér til hreyfings nú þegar þokkalega launað starf á Bessastöðum er í boði. Helst er snoppufrítt fólk sem lítið sem lítt hefur skarað framúr samborgurum sínum sjái djobbið í ljósrauðum bjarma, jafnvel eldrauðum. Má vera að þjóðin þurfi á lítilsigldum náunga að halda, manni sem hefur helst ekki neinar skoðanir aðrar en þær sem falla hinum vinstrimönnum vel í geð.

Vinir eru þó vinum verstir. Vinstri gáfumaður þarf þó ekki alltaf að vera trúr og dyggur vinur vinstri intelligensíunnar þegar á reynir. Dæmi eru um að vinstri gáfumaður í embætti forseta Íslands hafi valið að standa frekar með þjóðinni. Slíkt er kallað að standa í lappirnar.


Prinsíppið maður, prinsíppið ...

AxlaböndHér er auðvitað um mikla skerðingu á persónufrelsi að ræða, þegar verið er með lagaboði að reyna að hafa vit fyrir fólki á þennan hátt, og raunar mjög skiptar skoðanir um málið úti í þjóðfélaginu.

Þetta sagði Jóhanna Sigurðardóttir, alþingimaður og síðar ráðherra, á Alþingi árið 1981 við umræður um lögleiðingu öryggsbelta í bifreiðum. Ummælin hennar og annarra eru rifjuð upp í stórskemmilegri grein í Morgublaði dagsins en hún byggist öðrum þræði á viðtali við Ómar Ragnarsson um þessi mál.

Svo vitlausar voru skoðanir þingmanna fyrir 35 árum og gengu þau þvert á flokka, fjölmargir voru töluðu tóma steypu miðað við það sem við vitum í dag. Aðrir voru skýrir og skynsamir eins og Vilmundur Gylfason. 

Sá sem þetta ritar var nú ekki neitt miklu merkilegri en aðrir, hvort sem þeir voru á þingi eða annars staðar í þjóðfélaginu. Við og nokkrir félagar í Vöku í Háskóla Íslands tuðuðum eins og Jóhanna Sigurðardóttir um skerðingu á persónufrelsi og réttinn til að aka um hættulega fjallvegi og eiga þess kost á að henda sér út úr bílnum. 

Henda sér hvert?

Löngu síðar, eftir að ég hafði farið að nota öryggisbelti, valt bíll sem ég var farþegi í af sléttum vegi og út í móa. Á meðan bíllinn rúllaði flögraði ekki að mér að kasta mér út úr honum né heldur velti ég því fyrir mér hvernig ég ætti að sleppa óslasaður frá þessum hörmungum. Ég reyndi bara að halda mér. Svo endaði bíllinn á réttum kili og enginn slasaðist. 

Af þessu óhappi lærði ég þá einföldu staðreynd að slys gerast svo hratt að enginn tími er til annars en að bíða þess sem verða vill. Á meðan er lífsnauðsynlegt að geta treyst á öryggisbelti og loftpúða.

Auðvitað þráaðist ég við að setja á mig öryggisbelti í einhvern tíma eftir lögleiðingu þeirra. Þetta snérist allt um prinsíppið maður, prinsíppið ... Láta ekki einhvern úti í bæ stjórna lífi manns.

Svo gerist það einhvern tímann er ég einu sinni sem oftar spennti ársgamlan son minn í öryggisstólinn í aftursæti bílsins. Svo ek ég síðan af stað með einhvern rugludall í farþegasætinu við hliðina á mér. Man ekkert hver það var. Og hvað heldurðu? Sá segist undrandi á því að ég gæti öryggis barnsins en ekki míns, spenni ekki öryggisbeltið mitt.

„Hvers á barnið þitt að gjalda ef eitthvað kemur fyrir,“ spurði þessi náungi.

Það kemur ekkert fyrir mig vegna þess að ég er svo góður bílstjóri, fullyrti með sama hroka og elsti bróðir minn átti stundum til enda vissum við allt, kunnum allt miklu betur en allir aðrir.

„Eru aðrir bílstjórar jafngóðir og þú,“ spurði þessi maður í farþegasætinu og horfði á mig.

Mér vafðist tunga um höfuð, því þrátt fyrir að vera hrokafullur „besservisser“ var ég ekki það vitlaus að ég skildi ekki hvað maðurinn átti við.

Ekki man ég hvort ég spennti beltið í þessari ökuferð. Hafi svo verið gerði ég það ábyggilega gert með einhverri ólund.

En upp frá þessum degi hef ég alltaf ekið með beltin spennt og allir í mínum bíl. Raunar tók það nokkurn tíma fyrir mig að átta mig á því að farþegar í aftursæti þurfa líka að spenna belti. 

Ég endilega koma því aftur að á þessum vettvangi að ég notaði nákvæmlega þessi rök gegn elsta bróður mínum sem þráaðist lengur en ég við að spenna öryggisbelti í bíl. Hann var greindari maður en ég og horfði á mig um stund og sagði svo: Já, þú meinar það. Uppfrá því ók hann alltaf með spennt belti.

Svo verð ég að segja að mikið andskoti vorum við vitlaus þarna forðum daga í Vöku. Og líka Jóhanna Sigurðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon og hin gáfumennin í þjóðfélaginu sem skildu ekki þjóðfélagslega þýðingu þess að hafa öryggisbeltin spennt - alltaf.

Myndin er af axlaböndunum mínum, fann ekki mynd af öryggibeltinu.


Getur Gylfi Magnússon rætt hlutlaust um einkavæðinu bankanna?

Það fór eiginlega allt úrskeiðis sem hægt var í fyrri einkavæðingunni. Ferlið var ekki gagnsætt. Leikreglurnar voru ekki ljósar í upphafi og voru kannski ekki einu sinni eðlilegar,

Gylfi Magnússon fyrrum ráðherra lætur hafa ofangreint eftir sér í viðtali á visir.is í dag í tilefni þess að hann ætlar að halda fyrirlestur um „aðferðafræði við einkavæðingu og hvað hægt er að læra af einkavæðingarferlinu 2002-2003“.

Gylfi er dósent í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Hann var ráðherra í ríkisstjórn Íslands þegar Icesave málið varð að gríðarlegu vandamáli í samskiptum Hollands, Bretlands og Íslands. Einkabankinn, Landsbanki Íslands, hafði orðið gjaldþrota og Gylfi og samráðherrar hans í vinstri stjórn lýðveldisins og stuðningsmenn á Alþingi vildu að ríkissjóður ábyrgðist skuldir bankans við innistæðueigendur í þessum löndum. Þekktastur er hann fyrir að hóta þjóðinni með því að halda því fram að Ísland yrði sem „Kúba norðursins“ druslaðist hún ekki til að samþykkja ríkisvæðingu skulda gjaldþrota einkabanka.

Þjóðin hafnaði margsinnis skoðunum Gyfla og félaga hans, síðast var ríkisstjórninni sem hann sagt í kastað á öskuhauga sögunnar.

Í Fréttablaðinu þann 14. febrúar reyndi Gylfi að draga ummæli sín til baka, en hann gerði það með greinilegri ólund og leiðindum á þennan hátt:

Samlíkingin við Kúbu var vanhugsuð og kjánaleg og ekki nema sjálfsagt að biðjast velvirðingar á henni.

Enn kemur Gylfi og telur sig hafa nýjar og haldbærar upplýsingar um einkavæðingu bankanna sem ekki hafa enn komið fram? Varla.

Má búast við hlutlausum dómi Gylfa yfir einkavæðingunni? Nei, hann er þegar búinn að segja það sem segja þarf. Hann mun ábyggilega verða jafn pólitískur og hlutdrægur eins og þegar hann hótaði þjóðinni með „Kúbu norðursins“.

Á þessum vettvangi hefur oft verið skrifað um einkavæðingu bankanna. Enn er úr vegi að rifja aðeins upp hvernig var með hana.

Ríkisendurskoðun

Ein mikilvægasta stofnun Alþingis er Ríkisendurskoðun. Munum að hún lýtur ekki framkvæmdavaldinu heldur löggjafarvaldinu. Enginn getur haldið því fram með neinum rökum að stofnunin sé vasanum á stjórnvöldum á hverjum tíma og framleiði fyrirfram ákveðnar niðurstöður. Hún nýtur einfaldlega óskoraðs sjálfstæðis og fer vel með það. 

Í Desember 2003 gaf Ríkisendurskoðun út skýrsluna „Einkavæðing helstu ríkisfyrirtækja árin 1998-2003. Þetta er afar merkileg skýrsla og raunar sú eina sem gerð hefur verið á einkavæðingu bankanna. 

Enginn hefur gagnrýnt úttektina. Það sem merkilegra telst er að þeir sem hafa hnýtt í einkavæðingu bankanna gera það ekki með rökum úr skýrslunni. Ekki einu sinni Gylfi Magnússon, dósent við Háskóla Íslands hefur gagnrýnt hana.

Söluaðferðin

Jú, bankarnir féllu, en var það vegna þess að þeir höfðu verið einkavæddir? Margir halda því fram.

Það gleymist þó að Glitnir var ekki ríkisbanki og hafði aldrei verið, ekki heldur forverar hans. Hann var stofnaður sem Íslandsbanki árið 1990 en ári áður höfðu einkabankarnir Iðnaðarbankinn, Alþýðubankinn og Verslunarbankinn keypt hlut ríkisins í Útvegsbanka Íslands

Var þá hrunið vegna einkavæðingar tveggja ríkisbanka? Í áðurnefndri úttekt Ríkisendurskoðunar voru engar athugasemdir gerðar vegna þessa þó hún segi að um sölu á ráðandi hlut í Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands:

 „... verði að teljast óheppilega. Í fyrsta lagi var ekki komin reynsla á þá söluaðferð sem valin var og í öðru lagi gaf hún minni möguleika á að viðhalda samkeppni milli áhugasamra kaupenda.

Þetta er eiginlega það bitastæðasta sem Ríkisendurskoðun hafði um einkavæðinguna að segja. Engin spilling fannst, ekkert tortryggilegt annað en þetta með dreifða eignaraðild. Engu að síður voru um 32% Landsbanka Íslands í eigu annarra en tíu stærstu

Spilling

Einkavæðing bankanna var eðlilegur þáttur í framþróun þjóðfélagsins. Fyrirkomulagið sem gilti áður var gjörsamlega gagnslaust. Ekki nokkur maður með viti vill fara aftur til þeirra ára er þingmenn sátu í bankaráðum og bankastjórar voru skipaðir pólitískt.

Um leið ættu allir að vita að bankar eru í einkaeigu víðast um öll lönd, engin krafa hefur verið gerð um breytingar á því fyrirkomulagi. Vandinn í bankarekstri, eins og í öðrum rekstri, er að misjafn sauður er í mörgu fé. Einkavæðing bankanna mistókst ekki, en þeir sem eignuðust þá og ráðandi hluti í þeim fóru með þá á hausinn. Svo einfalt er málið.

Það tíðkasta að tala um spillingu jafnvel gjörspillingu, sérstaklega í stjórnkerfinu ef ekki líka á Alþingi. Þannig tala aðeins rökþrota fólk sem reynir með öllum ráðum að upphefja sjálft sig. „Nei, ég er sko ekki spilltur það eru allir hinir sem eru vondir og spilltir.“

Einkavæðing ríkisbankanna tveggja var ekki ástæðan fyrir hruninu. Ekki frekar en það sé bílaframleiðandanum Toyota að kenna að ökumaðurinn í Yaris bílnum var fullur og olli stórslysi. Sé svo er öllu snúið á hvolf, rangt verður rétt og rétt verður rangt. 

Fróðlegt verður að heyra skoðun Gylfa Magnússonar, fyrrum ráðherra, sé á einkavæðingunni. Hins vegar er óhætt að fullyrða að engar nýjar upplýsingar munu koma fram hjá honum, aðeins útúrsnúningur og tætingur úr skýrslu Ríkisendurskoðunar. Hálfsannleikur á borð við „Kúbu norðursins“.

 


Hvenær má maður fá uppreist æru og gerast nýtur borgari?

Á fyrstu öldum byggðar á Íslandi voru manndráp einkamál. Hugmyndin um ríkistryggða mannhelgi kom með konungsvaldi. Í stað hefndardrápa milli fjölskyldna, og eftir atvikum sátta þeirra á milli, tryggði ríkisvaldið samfélagsfriðinn með því að gera manndráp að opinberu refsimáli.

Þessi ágætu orð ritar Páll Vilhjálmsson í pistli á bloggsíðu sinni „Tilfallandi athugasemdir“. 

Hefnd er alltaf vond og í eðli sínu ljót vegna þess að þó hún hafi greinilegt upphaf er enginn glöggur endi á henni. Fornsögur okkar segja frá hefndardrápum og líka sáttum. Mörgum er minnistætt niðurlag Harðar sögu og Hólmverja en þar segir (greinaskil og feitletrun en mín):

Þá hafði Hörður nítján vetur og tuttugu er hann var veginn og höfðu honum flestir tímar til heiðurs og metnaðar gengið utan þeir þrír vetur er hann var í útlegð.

Segir og svo Styrmir prestur hinn fróði að honum þykir hann hafa verið í meira lagi af sekum mönnum sakir visku og vopnfimi og allrar atgjörvi, hins og annars að hann var svo mikils virður útlendis að jarlinn í Gautlandi gifti honum dóttur sína, þess hins þriðja að eftir engan einn mann á Íslandi hafa jafnmargir menn verið í hefnd drepnir og urðu þeir allir ógildir.

Hér er átt við að allir voru „löglega“ drepnir vegna vígs Harðar Grímkelssonar og lesandi sögunnar fagnar eflaust í huga sér enda var hann hetja mikil. Hörður var þó útlagi í Hvalfirði síðustu þrjú ár ævi sinnar og var búandfólki þar til mikils ama og tjóns. Tóku bændur því sig til og drápu Hörð og héldu að þar með væri vandinn úr sögunni. Þeir reiknuðu þó ekki með hefndinni.

Löngu síðar gerist það í „siðaðra“ manna þjóðfélagi að rétturinn til hefndar flyst til ríkisvaldsins og heitir eftir það refsing. Hún er gerð að lögum og þeir sem brjóta af sér fá allir svipaða refsingu.

Þrátt fyrir ríkisvæðingu hefndarréttarins hefur hefndarþorstinn ekki aldeilis vikið úr huga fólks. Að sumu leyti er það ósköp skiljanlegt enda æ sjaldgæfara að fólk leyfi sér að fá útrás fyrir þörfina á að hefna.

Stundum er sagt að þjóðfélag Íslendinga byggist á kristilegum gildum. Sjaldnast eru þau gildi útskýrð nánar. Þegar betur er að gáð má segja að þau birtast í nokkrum lífsreglum sem eiga rót sína að rekja til boðorðanna tíu og boðskaps í ritum Nýja Testamentisins. Bregðist mér ekki minnið byggjast þau öðru fremur á kærleika, virðingu fyrir lífi og öðru fólki, réttindum annarra og ekki síst að rækta eigin anda. Þetta og fleira til er flestum mikilvægt hvort sem fólk telur sig kristið eða ekki. Með jákvæðni hugarfarsins byggja menn samfélag og styrkja samstarf milli fólks og þjóða.

Hefndin skilar hins vegar aldrei neinu, hún býr til ástand upplausnar og erfiðleika. Eitrar samfélagið og samskipti fólks.

Á hverju nærist nú allur þessi hefndarþorsti sem lesa má um í fjölmiðlum svo ekki sé talað um athugasemdadálka? Er fólki sjálfrátt að þessu leyti? 

Fjöldinn allur af bíómyndum og sjónvarpsþáttum eru í boði hér á landi og um allan hinn vestræna heim og víðar. Einhvern veginn er það svo að áhugaverðustu myndirnar fjalla um morð, eltingaleik við morðingjann, réttarhöld yfir honum og síðast en ekki síst hefnd makans, barna eða annarra. Jú, þetta er svo óskaplega skemmtilegt, ég viðurkenni það. Smám saman síast þó inn að dauðarefsingin sé réttlætanleg og ef um allt þrýtur megi sá sem á um sárt að binda refsa sjálfur, drepa helv... morðingjann.

Fyrr en varir fer ég að trúa því að hefndin sé mín skoðun og sannfæring og því réttlætanleg. Þá velti ég því fyrir mér hversu oft réttlætinu hafi ekki verið fullnægt af sjálfskipuðum dómara og böðli sem fór einfaldlega mannavillt? Hvar varð um réttlætinguna þegar mistökin uppgötvuðust? 

Ennfremur má spyrja hversu oft brotamönnum verið neitað um tækifæri til betrunar? Sá sem ekki fær betrun leiðist óhjákvæmilega aftur og aftur inn á glæpabraut vegna þess að honum hefur ekki boðist neitt annað.

Þannig snýr samfélagið baki við þeim sem þurfa á því að halda og líf fjölda fólks verður verra.

Margir eru eflaust búnir að gleyma gömlu konunni sem fyrir um sextán árum var myrt heima hjá sér í fjölbýlishúsi í Reykjavík. Morðinginn fékk auðvitað makleg málagjöld og var dæmdur í sextán ára fangelsi. Nokkrum árum síðar gerast þau undur að sonur konunnar heimsótti morðingja móður sinnar í fangelsið, ræddi við hann og fyrirgaf honum ódæðið ... Það hafði hins vegar engin áhrif og ódæðismaðurinn hélt áfram á glæpabrautinni eftir að hann losnaði úr fangelsi.

Niðurstaðan er því sú að hin kristilegu gildi eru ekki algild í þjófélaginu. Sumir trúa á fyrirgefninguna en aðrir styðja sig við hefndina.

Ekki veit ég hvað einsatklingur þarf að sitja lengi í fangelsi til að öðlast rétt til lífs á ný. Ef til vill leggst dómstóll götunnar alfarið gegn því að nokkur maður fái uppreist æru sinnar, geti snúið aftur, tekið þátt í þjóðfélaginu og gerst nýtur maður þrátt fyrir glæp sinn. Eflaust kunna sumir að benda á ódæðismanninn sem myrti gömlu konuna í fjölbýlishúsinu og segja að mönnum sé ekki viðbjargandi.

Vera má að enginn geti breyst til hins betra. Þá er vissara að fjölga fangelsum og auka refsingar því einhvern tímann sagði kunnur maður að sá einn sem syndlaus væri ætti að kasta fyrsta steininum. Ábyggilega er leitun að slíkum manni, hann finnst þó einna síst í athugasemdakerfum fjölmiðla eða meðal þeirra sem hæst hrópa.


Er Kári Stefánsson hættur að leggja samstarfsfólk sitt í einelti?

Ég sagði að ég hafi rek­ist á þing­mann Sjálf­stæðis­flokks­ins í Kringl­unni í gær og að hann hafi komið með þá kenn­ingu að frum­varpið hafi verið samið af Hög­um.

Þetta segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í viðtali við mbl.is. Með öðrum orðum sagt er Kári að dreifa sögusögnum. Það verður honum aldrei til framdráttar, en hversu mikinn frama þarf hann frekar.

Ég hitti lögreglumann í gær sem sagði að hann væri ekki viss um að Kári Stefánsson sé hættur að leggja samstarfsfólk sitt í einelti.

Er ekki alveg hrikalegt hversu vondur maður Kári er?“

„Jú, hann er skeppna.“

„Hann er skíthæll enda leggur hann samstarfsfólk sitt í einelti?“

Með því að dreifa sögusögnum er verið að gera lítið úr viðkomandi. Hér er ég að skrökva til um Kára og læt þess getið hvernig fólk hugsanlega gæti tekið á svona upplögnum fréttum. Er það ekki tilgangurinn með sögusögnum?

Sá sem ekki getur vitnað til heimildarmanns er einfaldlega að fara með staðlausa stafi. Slíkt er afar ómerkilegt.

Ég hef enga trú á því að þingmaður einhvers flokks vilji vera heimildarmaður Kára sé um að ræða eitthvað sem gæti komið samflokksmanni hans illa. Raunar er ég þess fullviss að enginn þingamaður ljúga upp á samþingmann sinn, sama í hvaða flokki hann er.

Ég er ekki jafnviss um heilindi Kára Stefánssonar eigi ég að taka mig af sögu hans um að þingmaður Sjálfstæðisflokksins hafi fengið Haga til að semja áfengisfrumvarpið. Og að Kári skuli leggja samstarfsfólk sitt í einelti. Hræðilegt ...


mbl.is Segir yfirlýsinguna illa hugsaða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband