Getur Gylfi Magnússon rætt hlutlaust um einkavæðinu bankanna?

Það fór eiginlega allt úrskeiðis sem hægt var í fyrri einkavæðingunni. Ferlið var ekki gagnsætt. Leikreglurnar voru ekki ljósar í upphafi og voru kannski ekki einu sinni eðlilegar,

Gylfi Magnússon fyrrum ráðherra lætur hafa ofangreint eftir sér í viðtali á visir.is í dag í tilefni þess að hann ætlar að halda fyrirlestur um „aðferðafræði við einkavæðingu og hvað hægt er að læra af einkavæðingarferlinu 2002-2003“.

Gylfi er dósent í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Hann var ráðherra í ríkisstjórn Íslands þegar Icesave málið varð að gríðarlegu vandamáli í samskiptum Hollands, Bretlands og Íslands. Einkabankinn, Landsbanki Íslands, hafði orðið gjaldþrota og Gylfi og samráðherrar hans í vinstri stjórn lýðveldisins og stuðningsmenn á Alþingi vildu að ríkissjóður ábyrgðist skuldir bankans við innistæðueigendur í þessum löndum. Þekktastur er hann fyrir að hóta þjóðinni með því að halda því fram að Ísland yrði sem „Kúba norðursins“ druslaðist hún ekki til að samþykkja ríkisvæðingu skulda gjaldþrota einkabanka.

Þjóðin hafnaði margsinnis skoðunum Gyfla og félaga hans, síðast var ríkisstjórninni sem hann sagt í kastað á öskuhauga sögunnar.

Í Fréttablaðinu þann 14. febrúar reyndi Gylfi að draga ummæli sín til baka, en hann gerði það með greinilegri ólund og leiðindum á þennan hátt:

Samlíkingin við Kúbu var vanhugsuð og kjánaleg og ekki nema sjálfsagt að biðjast velvirðingar á henni.

Enn kemur Gylfi og telur sig hafa nýjar og haldbærar upplýsingar um einkavæðingu bankanna sem ekki hafa enn komið fram? Varla.

Má búast við hlutlausum dómi Gylfa yfir einkavæðingunni? Nei, hann er þegar búinn að segja það sem segja þarf. Hann mun ábyggilega verða jafn pólitískur og hlutdrægur eins og þegar hann hótaði þjóðinni með „Kúbu norðursins“.

Á þessum vettvangi hefur oft verið skrifað um einkavæðingu bankanna. Enn er úr vegi að rifja aðeins upp hvernig var með hana.

Ríkisendurskoðun

Ein mikilvægasta stofnun Alþingis er Ríkisendurskoðun. Munum að hún lýtur ekki framkvæmdavaldinu heldur löggjafarvaldinu. Enginn getur haldið því fram með neinum rökum að stofnunin sé vasanum á stjórnvöldum á hverjum tíma og framleiði fyrirfram ákveðnar niðurstöður. Hún nýtur einfaldlega óskoraðs sjálfstæðis og fer vel með það. 

Í Desember 2003 gaf Ríkisendurskoðun út skýrsluna „Einkavæðing helstu ríkisfyrirtækja árin 1998-2003. Þetta er afar merkileg skýrsla og raunar sú eina sem gerð hefur verið á einkavæðingu bankanna. 

Enginn hefur gagnrýnt úttektina. Það sem merkilegra telst er að þeir sem hafa hnýtt í einkavæðingu bankanna gera það ekki með rökum úr skýrslunni. Ekki einu sinni Gylfi Magnússon, dósent við Háskóla Íslands hefur gagnrýnt hana.

Söluaðferðin

Jú, bankarnir féllu, en var það vegna þess að þeir höfðu verið einkavæddir? Margir halda því fram.

Það gleymist þó að Glitnir var ekki ríkisbanki og hafði aldrei verið, ekki heldur forverar hans. Hann var stofnaður sem Íslandsbanki árið 1990 en ári áður höfðu einkabankarnir Iðnaðarbankinn, Alþýðubankinn og Verslunarbankinn keypt hlut ríkisins í Útvegsbanka Íslands

Var þá hrunið vegna einkavæðingar tveggja ríkisbanka? Í áðurnefndri úttekt Ríkisendurskoðunar voru engar athugasemdir gerðar vegna þessa þó hún segi að um sölu á ráðandi hlut í Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands:

 „... verði að teljast óheppilega. Í fyrsta lagi var ekki komin reynsla á þá söluaðferð sem valin var og í öðru lagi gaf hún minni möguleika á að viðhalda samkeppni milli áhugasamra kaupenda.

Þetta er eiginlega það bitastæðasta sem Ríkisendurskoðun hafði um einkavæðinguna að segja. Engin spilling fannst, ekkert tortryggilegt annað en þetta með dreifða eignaraðild. Engu að síður voru um 32% Landsbanka Íslands í eigu annarra en tíu stærstu

Spilling

Einkavæðing bankanna var eðlilegur þáttur í framþróun þjóðfélagsins. Fyrirkomulagið sem gilti áður var gjörsamlega gagnslaust. Ekki nokkur maður með viti vill fara aftur til þeirra ára er þingmenn sátu í bankaráðum og bankastjórar voru skipaðir pólitískt.

Um leið ættu allir að vita að bankar eru í einkaeigu víðast um öll lönd, engin krafa hefur verið gerð um breytingar á því fyrirkomulagi. Vandinn í bankarekstri, eins og í öðrum rekstri, er að misjafn sauður er í mörgu fé. Einkavæðing bankanna mistókst ekki, en þeir sem eignuðust þá og ráðandi hluti í þeim fóru með þá á hausinn. Svo einfalt er málið.

Það tíðkasta að tala um spillingu jafnvel gjörspillingu, sérstaklega í stjórnkerfinu ef ekki líka á Alþingi. Þannig tala aðeins rökþrota fólk sem reynir með öllum ráðum að upphefja sjálft sig. „Nei, ég er sko ekki spilltur það eru allir hinir sem eru vondir og spilltir.“

Einkavæðing ríkisbankanna tveggja var ekki ástæðan fyrir hruninu. Ekki frekar en það sé bílaframleiðandanum Toyota að kenna að ökumaðurinn í Yaris bílnum var fullur og olli stórslysi. Sé svo er öllu snúið á hvolf, rangt verður rétt og rétt verður rangt. 

Fróðlegt verður að heyra skoðun Gylfa Magnússonar, fyrrum ráðherra, sé á einkavæðingunni. Hins vegar er óhætt að fullyrða að engar nýjar upplýsingar munu koma fram hjá honum, aðeins útúrsnúningur og tætingur úr skýrslu Ríkisendurskoðunar. Hálfsannleikur á borð við „Kúbu norðursins“.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Erum við ekki sífellt að glíma við þetta; Einu sinni spilltur,alltaf spilltur! 

Helga Kristjánsdóttir, 20.1.2016 kl. 23:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband