Hvenær má maður fá uppreist æru og gerast nýtur borgari?

Á fyrstu öldum byggðar á Íslandi voru manndráp einkamál. Hugmyndin um ríkistryggða mannhelgi kom með konungsvaldi. Í stað hefndardrápa milli fjölskyldna, og eftir atvikum sátta þeirra á milli, tryggði ríkisvaldið samfélagsfriðinn með því að gera manndráp að opinberu refsimáli.

Þessi ágætu orð ritar Páll Vilhjálmsson í pistli á bloggsíðu sinni „Tilfallandi athugasemdir“. 

Hefnd er alltaf vond og í eðli sínu ljót vegna þess að þó hún hafi greinilegt upphaf er enginn glöggur endi á henni. Fornsögur okkar segja frá hefndardrápum og líka sáttum. Mörgum er minnistætt niðurlag Harðar sögu og Hólmverja en þar segir (greinaskil og feitletrun en mín):

Þá hafði Hörður nítján vetur og tuttugu er hann var veginn og höfðu honum flestir tímar til heiðurs og metnaðar gengið utan þeir þrír vetur er hann var í útlegð.

Segir og svo Styrmir prestur hinn fróði að honum þykir hann hafa verið í meira lagi af sekum mönnum sakir visku og vopnfimi og allrar atgjörvi, hins og annars að hann var svo mikils virður útlendis að jarlinn í Gautlandi gifti honum dóttur sína, þess hins þriðja að eftir engan einn mann á Íslandi hafa jafnmargir menn verið í hefnd drepnir og urðu þeir allir ógildir.

Hér er átt við að allir voru „löglega“ drepnir vegna vígs Harðar Grímkelssonar og lesandi sögunnar fagnar eflaust í huga sér enda var hann hetja mikil. Hörður var þó útlagi í Hvalfirði síðustu þrjú ár ævi sinnar og var búandfólki þar til mikils ama og tjóns. Tóku bændur því sig til og drápu Hörð og héldu að þar með væri vandinn úr sögunni. Þeir reiknuðu þó ekki með hefndinni.

Löngu síðar gerist það í „siðaðra“ manna þjóðfélagi að rétturinn til hefndar flyst til ríkisvaldsins og heitir eftir það refsing. Hún er gerð að lögum og þeir sem brjóta af sér fá allir svipaða refsingu.

Þrátt fyrir ríkisvæðingu hefndarréttarins hefur hefndarþorstinn ekki aldeilis vikið úr huga fólks. Að sumu leyti er það ósköp skiljanlegt enda æ sjaldgæfara að fólk leyfi sér að fá útrás fyrir þörfina á að hefna.

Stundum er sagt að þjóðfélag Íslendinga byggist á kristilegum gildum. Sjaldnast eru þau gildi útskýrð nánar. Þegar betur er að gáð má segja að þau birtast í nokkrum lífsreglum sem eiga rót sína að rekja til boðorðanna tíu og boðskaps í ritum Nýja Testamentisins. Bregðist mér ekki minnið byggjast þau öðru fremur á kærleika, virðingu fyrir lífi og öðru fólki, réttindum annarra og ekki síst að rækta eigin anda. Þetta og fleira til er flestum mikilvægt hvort sem fólk telur sig kristið eða ekki. Með jákvæðni hugarfarsins byggja menn samfélag og styrkja samstarf milli fólks og þjóða.

Hefndin skilar hins vegar aldrei neinu, hún býr til ástand upplausnar og erfiðleika. Eitrar samfélagið og samskipti fólks.

Á hverju nærist nú allur þessi hefndarþorsti sem lesa má um í fjölmiðlum svo ekki sé talað um athugasemdadálka? Er fólki sjálfrátt að þessu leyti? 

Fjöldinn allur af bíómyndum og sjónvarpsþáttum eru í boði hér á landi og um allan hinn vestræna heim og víðar. Einhvern veginn er það svo að áhugaverðustu myndirnar fjalla um morð, eltingaleik við morðingjann, réttarhöld yfir honum og síðast en ekki síst hefnd makans, barna eða annarra. Jú, þetta er svo óskaplega skemmtilegt, ég viðurkenni það. Smám saman síast þó inn að dauðarefsingin sé réttlætanleg og ef um allt þrýtur megi sá sem á um sárt að binda refsa sjálfur, drepa helv... morðingjann.

Fyrr en varir fer ég að trúa því að hefndin sé mín skoðun og sannfæring og því réttlætanleg. Þá velti ég því fyrir mér hversu oft réttlætinu hafi ekki verið fullnægt af sjálfskipuðum dómara og böðli sem fór einfaldlega mannavillt? Hvar varð um réttlætinguna þegar mistökin uppgötvuðust? 

Ennfremur má spyrja hversu oft brotamönnum verið neitað um tækifæri til betrunar? Sá sem ekki fær betrun leiðist óhjákvæmilega aftur og aftur inn á glæpabraut vegna þess að honum hefur ekki boðist neitt annað.

Þannig snýr samfélagið baki við þeim sem þurfa á því að halda og líf fjölda fólks verður verra.

Margir eru eflaust búnir að gleyma gömlu konunni sem fyrir um sextán árum var myrt heima hjá sér í fjölbýlishúsi í Reykjavík. Morðinginn fékk auðvitað makleg málagjöld og var dæmdur í sextán ára fangelsi. Nokkrum árum síðar gerast þau undur að sonur konunnar heimsótti morðingja móður sinnar í fangelsið, ræddi við hann og fyrirgaf honum ódæðið ... Það hafði hins vegar engin áhrif og ódæðismaðurinn hélt áfram á glæpabrautinni eftir að hann losnaði úr fangelsi.

Niðurstaðan er því sú að hin kristilegu gildi eru ekki algild í þjófélaginu. Sumir trúa á fyrirgefninguna en aðrir styðja sig við hefndina.

Ekki veit ég hvað einsatklingur þarf að sitja lengi í fangelsi til að öðlast rétt til lífs á ný. Ef til vill leggst dómstóll götunnar alfarið gegn því að nokkur maður fái uppreist æru sinnar, geti snúið aftur, tekið þátt í þjóðfélaginu og gerst nýtur maður þrátt fyrir glæp sinn. Eflaust kunna sumir að benda á ódæðismanninn sem myrti gömlu konuna í fjölbýlishúsinu og segja að mönnum sé ekki viðbjargandi.

Vera má að enginn geti breyst til hins betra. Þá er vissara að fjölga fangelsum og auka refsingar því einhvern tímann sagði kunnur maður að sá einn sem syndlaus væri ætti að kasta fyrsta steininum. Ábyggilega er leitun að slíkum manni, hann finnst þó einna síst í athugasemdakerfum fjölmiðla eða meðal þeirra sem hæst hrópa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Mér er fyrirmunað að koma skikki á hugsun mína í þessu umrædda máli. En vil endilega koma því að vegna fjölskyldutengsla okkar Einars heitins,að Atli kom svo svívirðilega fram meðan á leitinni að honum stóð. Hann sagði við okkur að hann hefði aldrei lent í öðru eins og kona hans spurði hvenær við ætluðum að hætta þessu (leitinni). Líklega trúað að við gleyptum fullyrðingu hans hráa,að Einar væri þunglyndur. Nokkuð sem allir sem þekktu hann vissu að var ekki fótur fyrir.. Þá fór mig að gruna hann,án þess að segja nokkrum frá. Sjá hann svo flaðra upp um móður Einars,í einhverskonar samúð. Hann/þau gátu svo flissað eftir að hafa unnið stefnu foreldra Einars vegna uppgjörs á fyrirtæki þeirra. Allt þetta er erfiðaðra að fyrirgefa,minnt á að Einar heitinn var enn með lífsmarki í skottinu hjá honum meðan hann faldi jarðneskar leifar hans í hrauni.--- ólíkir persónuleikar rekast hér á,syrgjandi móðir Einars féllst á að veita dóttur Atla viðtöku að beiðni móður hennar og vegna barnsins.-..Hélt að maður fengi endanlegan frið til að reka burt óhuggulegar hugsanir í þessum harmleik. Hann hafði ansi rúmar heimildir til bæjarferðameðan á afplánun stóð (er mér sagt),það var því fullkomið ranglæti að hleypa honum út áður en hann fullkomnaði refsivistina.    

Helga Kristjánsdóttir, 19.1.2016 kl. 15:31

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Helga, þakka þér fyrir skrifin. Um þetta mál veit ég lítið og skrif mín tengist því aðeins óbeint. Aðstandendur eiga alla samúð mína vegna þessa hörmulega máls.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 19.1.2016 kl. 15:36

3 Smámynd: Jónas Ómar Snorrason

Sæll Sigurður, ég get ýmindað mér að það hafi tekið á þig að skrifa þennan pistil. En eins og ég skil þig, þá er ég sammála þér, það er rétt að fólk fái annað tækifæri í lífinu. 

Jónas Ómar Snorrason, 19.1.2016 kl. 17:15

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Þú ert glöggur, Jónas Ómar. Þetta voru afar erfið skrif og tókum langan tíma. Hefði jafnvel þurt að vanda mig meir.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 19.1.2016 kl. 17:27

5 identicon

Þessi maður er búinn að fá annan séns, hann er laus úr fangelsi. 

Sigurður Helgi Magnússon (IP-tala skráð) 20.1.2016 kl. 00:26

6 Smámynd: Jónas Ómar Snorrason

Alls ekki Sigurður, þá hefði pistillinn orðið of klisjukenndur, þú skrifaðir á mannamáli, sem allir eiga að skilja. Rétt, hann fær annan séns, vonandi nýtir hann sér þann séns til góðs Sigurður Helgi.

Jónas Ómar Snorrason, 20.1.2016 kl. 08:36

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það á ekki að vera háð duttlungum nokkurra manna hver fær uppreist æru og hver ekki.  Eins og kom fram í máli stúlkunnar sem fjallaði um þetta mál í sjónvarpinu.  Það á að fara eftir þáttum eins og iðrun og góðri framkomu í fangelsinu.  Og stundum er nóg að fá frelsið og hreinsað mannorð, þó maður fái ekki allt á silfurfati.  Fyrir gefðu Sigurður en ég átti son sem hafði að vísu unnið það sjálfur að öðlaslt hreint sakarvottorð áður en hann dó, vegna þess að hann breytti lífi sínu og hætti að nota fíkniefni.  En það eru alltof margir sem aldrei fá uppreist æru þó þeir fari til betri vegar, og eru með dóma sína á bakinu alla tíð.  Þó þeir hafi ekki gerst sekir um svo alvarlegan glæp.

Ég er að vísu á því að það eigi að reyna að endurhæfa fanga, en ekki refsa þeim.  Við munum ná betri árangri í þeirri baráttu með því að nota kærleiksríka umönnun og faglega þekkingu sáfræðinga og félagsfræðnga, þá væri hægt að stór fækka mönnum sem dúsa í fangelsi og koma út og inn aftur og aftur.  

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 20.1.2016 kl. 11:02

8 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Falleg athugasemd og vel skrifuð eins og þér er von og vísa. Ég er alveg sammála þér.  

Eftir því sem ég best veit eru farið eftir ákveðnum reglum þegar kemur að umsókn um uppreist æru. Auðvitað á það ekki að vera háð duttlungum eða geðþóttaákvörðunum.

Ástæðan fyrir því að ég skrifaði þennan pistil er fyrst og fremst hversu fólk er gjarnt á að dæma aðra harkalega og oft án þess að þekkja mikið til málavaxta. Umburðarlyndi er mikilvægt og, eins og þú segir, kærleiksrík umönnun. 

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 20.1.2016 kl. 11:18

9 Smámynd: Jónas Ómar Snorrason

Ég er nákvæmlega sammála þér Ásthildur. Uppreist æru á ekki að vera háð duttlingum misviturs fólks. Mín skoðun er þessi, alls ekki endanleg. Fólk á að fá uppreist æru innan viss tíma, skv. lögum og REGLUM, ekki háð duttlungum einhverja pólitíkusa. Er á móti tilfinningum aðstandenda, sem eigji að fá að hafa um hvert mál að segja. Ríkið ákærir, dæmir og sér um fullustnu dóma. Verður því einnig að sjá um uppreisn æru, en skv. reglum, þar sem hver er engum æðri.

Jónas Ómar Snorrason, 20.1.2016 kl. 11:24

10 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk báðir tveir, já hér skal í heiðri haft; aðgát skal höfð í nærveru sálar.  Og auðvitað á að skoða hvert mál fyrir sig, hvort sem um háa eða lága er að ræða, þeir eiga alltaf sinn rétt.  Fyrirgefning er það sem mesta þýðingu hefur fyrir okkur öll, og ætti að vera leiðarljósið sem við fylgjum.  

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 20.1.2016 kl. 17:46

11 Smámynd: Jónas Ómar Snorrason

Persónulega vil ég fá að þakka þér Sigurður fyrir málefnalega umræðu, og beina ljósi á þarft umræðuefni. það er alls ekkert sjálfgefið að hefja svona umræður. þær eru viðkvæmar, en mest um vert er að teyma þær í akkúrat þann farveg, sem þér tókst svo snildarvel. Verð eiginlega að fá að þakka Ásthildi fyrir gjöful innlegg:)

Jónas Ómar Snorrason, 20.1.2016 kl. 18:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband